Hoppa yfir valmynd
27. ágúst 2001 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fréttabréf fyrir stjórnendur ríkisstofnana, 27. ágúst 2001. 2. tbl. 3. árg.

2. tölublað 3. árg. 27. ágúst 2001.

Efnisyfirlit

Staðan í samningamálum
Starfaflokkun samkvæmt ÍSTARF 95
Nýir samningar um vörslu og ávöxtun orlofslauna
Ýmislegt fréttnæmt
- Námskeiðshald I
- Námskeiðshald II
- Kynningarfundir vegna nýgerðra kjarasamninga
Athyglisverðir dómar
- Vinnueftirlit ríkisins
- Iðnskólakennarar
Frá Félagi forstöðumanna ríkisstofnana
2 tbl. 3. árg.
Útgefið 27. ágúst 2001
Útgefandi: Fjármálaráðuneytið
Ábyrgðarmaður: Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri
Vefur: www.fjarmalaraduneyti.is


Staðan í samningamálum í ágúst 2001

Vonir standa nú til að þessari lengstu samningalotu í sögu samninganefndar ríkisins fari senn að ljúka. Sú lota skiptist í tvær atrennur og hófst sú fyrri með gerð viðræðuáætlana um miðjan desember 1999. Fyrstu kjarasamningarnir runnu út um miðjan febrúar 2000 og hófust samningafundir mánuðinn á undan. Alls þurfti að endurnýja 10 kjarasamninga við 39 stéttarfélög fyrri hluta árs 2000. Samningar voru undirritaðir á tímabilinu frá maí til september og hafði þá verið samið þrívegis við eitt stéttarfélagið sem felldi samning sinn tvisvar.

Síðari atrennan hófst með gerð viðræðuáætlana um miðjan ágúst 2000. Langflestir kjarasamningar í síðari atrennu runnu út 31. október. Endurnýja þurfti 67 kjarasamninga við 95 stéttarfélög. Þar af hófust viðræður við framhaldsskólakennara vorið 2000 og viðræður vegna réttindamála, þ.e. veikinda, fæðingarorlofs o.fl., voru teknar upp að nýju um mánaðamótin september-október en þau höfðu verið rædd ítarlega vorið 2000. Samningafundir við önnur stéttarfélög en kennara hófust í byrjun nóvember 2000 og standa enn þegar þetta er ritað.

Frá því að síðasti pistill um stöðu samningamála var ritaður í maí 2001, hefur verið gengið frá 26 kjarasamningum við jafnmörg félög og þeir samþykktir en sá 27. var felldur nýverið í atkvæðagreiðslu. Af þessum 27 félögum boðuðu 4 verkfall, ýmist tímabundið eða ótímabundið. Verkföll Félags fréttamanna og Starfsmannafélags Suðurnesja komu ekki til framkvæmda en Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga gerði tveggja daga verkfall og verkfall Þroskaþjálfafélags Íslands stóð í 10 daga. Ráðuneytið taldi verkfallsboðun tveggja síðarnefndu félaganna ólögmæta og höfðaði mál fyrir Félagsdómi. Félagsdómur staðfesti ólögmæti verkfallsboðunar þroskaþjálfa en ekki hjúkrunarfræðinga. Þroskaþjálfar boðuðu síðan verkfall að nýju.

Nú er ólokið samningum við Sjúkraliðafélag Íslands, Ljósmæðrafélag Íslands, Félag íslenskra leikskólakennara og Stéttarfélag sálfræðinga á Íslandi. Fundir verða með félögunum í þessari viku (34. viku). Þá bíður samningur við Félag íslenskra leikara vegna búninga- og leikmyndahönnuða og hafa aðilar enn ekki fundað. Loks er ólokið frágangi á ræstingarvinnu við Verkalýðsfélagið á Akranesi.

_______________
Starfaflokkun samkvæmt ÍSTARF 95

Í janúar 1996 var gerður samningur milli Kjararannsóknarnefndar og Hagstofu Íslands um að samnýta þekkingu, starfsfólk og aðstöðu samningsaðila til að framkvæma reglubundnar launakannanir.

Markmið launakönnunar er að veita upplýsingar um laun og launabreytingar á íslenskum vinnumarkaði. Launavísitala Hagstofunnar skal byggjast á þessum gögnum. Meðal þeirra nota sem fá má úr þessum gögnum eru upplýsingar um launauppbyggingu og breytingar á launakostnaði, laun og félagslega þætti, s.s. aldur, kyn, menntun og starfsaldur.

Meðal mikilvægustu nýjunga launakönnunarinnar er notkun starfaflokkunarkerfisins ÍSTARF 95. Það er að mestu sniðið eftir alþjóðlegri starfaflokkun, ISCO-88, sem Alþjóðavinnumálastofnunin gaf út árið 1990. Samræmd starfaflokkun hjá fyrirtækjum og stofnunum er því ein forsenda þess að launakannanir og hagskýrslur gefi glögga mynd af innlendum vinnumarkaði og samanburður á störfum milli atvinnugreina og milli landa sé mögulegur. Kjararannsóknarnefnd hefur frá árinu 1998 birt niðurstöður launakannana sinna eftir starfsstéttum og einstökum starfsgreinum, byggt á ÍSTARF 95 en dráttur hefur orðið á því að hægt hafi verið að birta samsvarandi upplýsingar fyrir opinbera markaðinn. Því er ítrekað mikilvægi þess að þær stofnanir ríkisins sem ekki hafa þegar starfaflokkað, ljúki því hið allra fyrsta. Einnig er nauðsynlegt að farið sé yfir starfaflokkun þeirra starfsmanna sem þegar hafa verið flokkaðir til að gæta samræmis og lagfæra villur.

Hér verður ekki farið í nákvæmar lýsingar á flokkunarkerfinu sjálfu, upplýsingar þar að lútandi má finna á heimasíðu Hagstofunnar.

Nokkur atriði sem vert er að hafa í huga við starfaflokkun

  • Uppbygging stofnunar (skipurit ef til).
  • Ekki horfa um of á launaheiti/ starfsheiti.
  • Það er starfsinnihald sem skiptir máli.

Störf með líkar skyldur og verkefni eru flokkuð saman. Verið er að flokka starfið en ekki þann sem gegnir því. Tvö meginhugtök liggja til grundvallar þessari starfaflokkun: starf og kunnátta. Með kunnáttu er átt við þá færni eða menntun sem þarf til að sinna viðkomandi starfi. Kunnáttu til að vinna ákveðin störf er hægt að ávinna sér með formlegu skólanámi, þjálfun eða reynslu og er skólaganga ekki eini mælikvarðinn á kunnáttu.

Ekki er tekið tillit til þess hvort starfsmaður er t.d. yfirmaður, undirmaður, lærlingur, launamaður eða eigandi í ÍSTARF 95. Til að gera þarna greinarmun á hefur fimmta tölustafnum verið bætt við flokkunarkerfið. Stöðutalan flokkar stöðu viðkomandi starfsmanns innan stofnunar.

Dæmi: Landfræðingur vinnur hjá ríkisstofnun sem sérfræðingur á sviði tölfræði. Hann veitir forstöðu deild og skipuleggur og stýrir verkefnum deildarinnar. Auk þess sinnir hann kennslu á háskólastigi í hlutastarfi.

Starfaflokkur: 2470 Sérfræðingar í opinberri stjórnsýslu. Hér skal ekki flokka einstaklinginn og menntun hans, þ.e. landfræðinginn í 2442, heldur starfið sem hann gegnir en það er sérfræðingsstarf í opinberri þjónustu. Sem yfirmaður deildar fær þessi einstaklingur stöðutöluna 1. Háskólinn þar sem þessi einstaklingur kennir flokkar hann í starfaflokkinn 2310 Háskólakennarar.

Eins og áður sagði eru nánari upplýsingar að finna á heimasíðu Hagstofunnar í ritinu Íslensk starfaflokkun ÍSTARF 95 og upplýsingar eru auk þess veittar í síma 560 9835.

_______________
Nýir samningar um vörslu og ávöxtun orlofslauna

Í janúar sl. var samningi ráðuneytisins við Póstgíróstofu um vörslu og ávöxtun orlofslauna frá launaafgreiðslu Ríkisbókhalds sagt upp. Þá var og tilkynnt til hlutaðeigandi stéttarfélaga að frá og með 1. maí 2001 yrðu orlofslaun starfsmanna ríkisins sem fengið hafa laun sín greidd hjá Ríkisbókhaldi greidd á sérstaka orlofsreikninga hjá banka eða sparisjóði eftir nánara samkomulagi í samræmi orlofslög nr. 30/1987.

Samkvæmt orlofslögum er stéttarfélögum heimilt að semja við lánastofnum um þá framkvæmd að orlofslaun séu greidd á sérstaka orlofsreikninga launþega hjá bönkum eða sparisjóðum. Er þá gerður þríhliða samningur á milli lánastofnunar, stéttarfélags og fjármálaráðuneytis. Langstærstur hluti stéttarfélaga ríkisstarfsmanna hafa gert slíka samninga við SPRON en einnig hafa verið gerðir nokkrir samningar við aðrar lánastofnanir.

Allir samningar um vörslu og ávöxtun orlofslauna, sem undirritaðir hafa verið, eru að meginefni eins. Þar kemur m.a. fram að launagreiðandi skuli greiða gjaldfallin orlofslaun, skv. 7. gr. orlofslaga, fyrir liðinn mánuð til lánastofnunar í síðasta lagi fyrir 10. næsta mánaðar á eftir. Einnig að lánastofnun skuli senda félagsmönnum stéttarfélags (starfsmönnum ríkisins) yfirlit yfir orlofsinneign, sundurliðað eftir launatímabilum tvisvar til þrisvar sinnum á ári (mismunandi eftir samningum). Orlofslaunin eru ávöxtuð fyrir hvern og einn starfsmann/félagsmann undir sérstöku reikningsnúmeri og þau skal inna af hendi, ásamt verðbótum og vöxtum, á tímabilinu 2. maí til 30. september ár hvert, þ.e. eftir lok hvers orlofsárs.

Lánastofnun samkvæmt samningi aðila kemur að öllu leyti í stað Póstgíróstofu áður. Starfsmenn eiga því nú að snúa sér til þeirrar lánastofnunar sem stéttarfélag þeirra hefur samið við varðandi töku og útborgun orlofslauna vegna starfsloka. Starfsmenn þurfa eftir sem áður að framvísa starfslokavottorði. Það fer síðan eftir hverri lánastofnun fyrir sig hvað slík afgreiðsla tekur langan tíma. Að gefnu tilefni er rétt að árétta að það er stéttarfélag sem velur lánastofnun en orlofslaun eru við útborgun millifærð inn á reikning í lánastofnun starfsmanns eftir nánari ákvörðun hans.

_______________
Ýmislegt fréttnæmt

Námskeiðshald I

Starfsmannaskrifstofa fjármálaráðuneytis stóð fyrir námskeiði hjá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands í vor sem leið sem stóð í hálfan dag. Fjallað var almennt um nýjar reglur um fæðingar- og foreldraorlof eins og þær snúa að starfsmannahaldi ráðuneyta og ríkisstofnana. Þá var farið ítarlega yfir nýjar reglur um rétt starfsmanna vegna veikinda og slysa samkvæmt samkomulagi við BHM, BSRB og KÍ frá 24. október 2000 um tiltekin atriði er varða réttindi starfsmanna í nefndum samtökum.

Halda þurfti námskeiðið þrisvar vegna mikillar aðsóknar. Auk þess var haldið sams konar námskeið á Landspítala - háskólasjúkrahúsi fyrir launafulltrúa stofnunarinnar. Samtals sóttu um 130 manns námskeiðin. Til gamans má geta þess að konur voru í miklum meirihluta meðal þátttakenda. Konur virðast því vera fjölmennari í starfsmannahaldi og launaafgreiðslu hjá ríkinu.

_______________
Námskeiðshald II

Nú eru í undirbúningi áætlanir um kynningar og/eða námskeið vetrarins um starfsmannamál og mun fljótlega verða gerða grein fyrir þeim.

_______________
Kynningarfundir vegna nýgerðra kjarasamninga

Nýlega hafa verið haldnir þrír kynningarfundir með yfirmönnum þeirra stofnana þar sem breytt launakerfi kemur til framkvæmda vegna nýgerðra kjarasamninga.

Samkvæmt kjarasamningum framhaldsskólakennara frá 7. janúar tók stofnanaþáttur samninganna gildi 1. ágúst sl. og að ósk skólameistara var farið yfir mögulega útfærslu á honum á fundi með þeim á Sauðárkróki um miðjan maí. Samningurinn var í upphafi kynntur á sameiginlegri ráðstefnu Kennarasambands Íslands og fjármálaráðu-neytisins á Hótel Íslandi 16. febrúar þar sem m.a. gestafyrirlesarar voru fengnir til að ræða nýjustu stefnur og strauma í starfsmannamálum.

Þá var haldinn fundur 8. júní sl. með yfirmönnum þeirra stofnana þar sem tollverðir starfa en samkomulag fjármálaráðherra og Tollvarðafélags Íslands um breytt launakerfi var undirritaður 31. maí sl. Loks var haldinn fundur 10. ágúst sl. með yfirmönnum lögreglumanna vegna samkomulags fjármálaráðherra við Landssamband lögreglumanna sem undirritað var 13. júlí sl. Á þessum fundum voru samningarnir kynntir og farið yfir helstu atriði þeirra. Fundirnir voru ágætlega sóttir.

_______________
Athyglisverðir dómar

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. mars 2001 í máli nr. E-5828/2000:
P gegn Vinnueftirliti ríkisins. Uppsagnarfrestur á reynslutíma. Ákvæði ráðningarsamnings, 41. gr. stml.

Með ráðningarsamningi, dags. 10. janúar 2000, sem jafnframt var upphafsdagur ráðningar, var P ráðinn ótímabundið til starfa hjá V. Í ráðningarsamningnum sagði að uppsagnarfrestur ótímabundins samnings væri þrír mánuðir en þó skyldi gagnkvæmur uppsagnarfrestur vera einn mánuður á fyrstu þremur mánuðum í starfi. Skyldi "uppsögn miðast við mánaðamót." Hinn 7. apríl 2000 var P sagt upp störfum með eins mánaða fyrirvara. P hélt því fram að uppsagnarfrestur hafi fyrst byrjað að telja 1. maí 2000 sem væru næstu mánaðamót eftir að hann fékk uppsagnarbréf í hendur. Þá hafi hann þegar verið lengur í starfi en þrjá mánuði en því tímamarki hefði verið náð 10. apríl 2000. Hélt P því fram að hann ætti rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti.

Í dómi héraðsdóm er vísað til þess að í samræmi við 41. gr. stml. hafi verið svo um samið að uppsagnarfrestur skyldi vera þrír mánuðir að loknum reynslutíma. Í greininni væri ekki kveðið á um lengd reynslutíma og uppsagnarfrest á honum. Í ráðningarsamningi segði á hinn bóginn að gagnkvæmur uppsagnarfrestur væri einn mánuður á fyrstu þremur mánuðum í starfi. V var heimilt með tilvísun til 43. gr. stml. að segja P upp störfum þar sem uppsögnin átti sér stað á fyrstu þremur mánuðum í starfi. Merking orðasambandsins "í starfi" væri ótvíræð og því réttur sá skilningur að uppsögn skyldi miðast við mánaðamót. Var því við það miðað að eins mánaðar uppsagnarfrestur P skyldi byrja að líða 1. maí 2000 en því hafnað að honum bæri þriggja mánaða uppsagnarfrestur.

P mun hafa áfrýjað máli þessu til Hæstaréttar.

_______________
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. apríl 2001 í málinu nr. E-4565/2000:
T gegn íslenska ríkinu. Kennarar. Ákvarðanir um
fjölda kennslustunda, stjórnvaldsákvörðun.

T hafði verið kennari við Iðnskólann í Reykjavík frá hausti 1998. Á haustönn 1999 kenndi T tvo áfanga og var annar þeirra metinn til fjögurra eininga en hinn tveggja og kenndi T. samtals 9 stundir á viku við áfangana. Í námskrá fyrir framhaldsskóla 1990 sagði að námsefni í framhaldsskólum skyldi mælt í einingum og samsvari hver eining að jafnaði tveimur vikulegum kennslustundum í eina önn. Samkvæmt þessu hefðu kennslustundir í þeim áföngum sem T kenndi, átt að vera annars vegar átta og hins vegar fjórar stundir á viku eða samtals 12 kennslustundir. Sambærilegt ákvæði var ekki í þeirri námsskrá sem gefin var út 1999. T byggði á því að skerðing á fjölda kennslustunda í námsgreinum sínum hefði leitt til þess að hann hefði ekki fengið greidd þau laun sem hann ella hefði fengið. Hélt T því fram að ákveðið samhengi væri á milli fjölda kennslustunda og kjarasamnings kennara. Hafi hann verið ráðinn til þess að kenna umræddar námsgreinar eins og þeim væri lýst í námskrá. Stjórnendur skólans hafi síðan ákveðið einhliða að fækka kennslustundum án samráðs við sig, þá deild sem hann starfaði við, aðra kennara eða stéttarfélög þeirra. Í þessu hafi falist höfnun á vinnuframlagi sem sér hafi verið skylt að láta í té við skólann. T byggði annars á því að með breytingunni hafi atvinnutekjur sínar verið rýrðar með ólögmætum hætti þar sem ekki hafi verið gætt ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum 13. gr. Kennsluskerðingin hefði því orðið til þess að lækka yfirvinnutekjur, sem T hefði ella haft í starfi sínu. Við flutning málsins krafðist T þess að ríkið sætti aðfinnslum fyrir framlagningu ríkislögmanns á umsögn fjármálaráðuneytisins um málatilbúnað T.

Ekki var fallist á að í umsögn fjármálaráðuneytisins eða öðrum gögnum fælist skriflegur málflutningur eða greinargerð í skilningi 2. mgr. 99. gr. laga um meðferð einkamála. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar væri ríkinu heimilt að leggja fram skriflega aðilaskýrslu um málsatvik. Í niðurstöðu héraðsdóms er rakið að ástæður fyrir fækkun kennslustunda hafi byggst á því að ekki hafi tekist að fá nægilega marga kennara við skólann og að nemendum hafi fækkað. Í dóminum er rakið hvernig undirbúningi og skipulagi kennslu fyrir haustönn 1999 var háttað og með hvaða hætti hún hafi verið kynnt kennurum. Af kjarasamningum verði ekki ráðið að réttur kennara til launagreiðslu væri tengdur námsefni eða námseiningum og að T hafi ekki sýnt fram á að sú viðmiðun væri forsenda samningsins. Nægði í því sambandi ekki að vísa til afstöðu menntamálráðuneytisins um slíkt. Ekki var heldur fallist á að samráð hefði ekki verið haft við T. Vísað var til þess að ákvarðanir um kennslufyrirkomulag væri í höndum skólanefndar og skólaráðs, sbr. IV. kafla laga nr. 80/1996, um framhaldsskóla. Síðan segir í dóminum:


"Í máli þessu er deilt um réttmæti krafna stefnanda sem byggðar eru á vinnuréttarsambandi málsaðila. Ekki hefur verið sýnt fram á að ákvarðanir um skipulag námsins, þar með taldar ákvarðanir um fjölda kennslustunda á viku í einstökum námsgreinum, skipti máli í þeim lögskiptum. Teljast þær í því samhengi sem hér um ræðir því ekki stjórnvaldsákvarðanir í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með vísan til þess er því hafnað að um brot á þeim lögum geti verið að ræða."

Loks var því hafnað að ákvarðanir um kennslustundafjölda hefðu verið ólögmætar þannig að leiddi til bótaskyldu enda hvorki verið sýnt fram á að lög eða aðrar reglur hefðu verið brotnar í því sambandi né að þessar ákvarðanir hefðu verið ólögmætar.

Ofangreint mál var eitt af níu málum sem fjölluðu um sama ágreiningsefnið. Ákveðið var að flytja fjögur þessara mála og leggja niðurstöður þeirra til grundvallar. Sama niðurstaðan varð í hinum þremur málunum og í máli T.

Stefnendur þessara fjögurra mála munu hafa leitað eftir áfrýjun þeirra til Hæstaréttar.

_______________
Frá Félagi forstöðumanna ríkisstofnana

Í fyrravetur kom út skýrsla fjármálaráðuneytisins sem bar heitið: Ábyrgð, valdsvið og stjórnunarumboð forstöðumanna ríkisstofnana. Var um að ræða álit nefndar sem starfaði undir stjórn Hauks Ingibergssonar þáverandi skrifstofustjóra í fjármála-ráðuneytinu. Hér er á ferðinni yfirgripsmikil og greinargóð úttekt á skipulagi og stjórnun stjórnsýslukerfisins, einkennum þess, þróun, hlutverki, styrkleika og veikleikum. Þá er fjallað um breytilega stjórnsýslustöðu ríkisstofnana svo og valdsvið, ábyrgð og umboð forstöðumanna þeirra. Í þessu nefndaráliti er bent á að oft sé um að ræða misræmi milli almennra laga er varða opinberan rekstur og sérlaga um stofnanir svo og óljóst hlutverk stjórna ýmissa stofnana ekki síst gagnvart forstöðumönnum og jafnvel ráðherra. Margt fleira er tekið fyrir í þessu nefndaráliti sem ekki er hægt að nefna hér en helstu tillögur nefndarinnar voru þessar:

  • Skipulag stjórnsýslukerfisins verði endurmetið til þess að staða og ábyrgð stofnana samræmist sem best sjónarmiðum ráðherrastjórnsýslu annars vegar og nýjum áherslum um sjálfstæði, árangur og ábyrgð hins vegar.
  • Skilið verði skýrar milli stofnana ráðherrastjórnsýslu og annarra stofnana en nú er gert og skilgreint hvað felist í stjórnarfarslegu sjálfstæði stofnana.
  • Sjálfstæði og ábyrgð stofnana og stjórnenda þeirra verði hvort tveggja skilgreint með skýrum hætti og tryggt verði eðlilegt jafnvægi þessara þátta og þeirra leiða sem ráðherra og þing hefur til að kalla stofnanir til ábyrgðar.
  • Þrígreining ríkisvaldsins verði styrkt og dregið úr beinni þátttöku löggjafans í stjórnun stofnana. Á móti verði eftirlitshlutverk Alþingis eflt.

Auk þessara megintillagna er að finna fjölda annarra tillagna og ábendinga er varða opinberan rekstur og ábyrgð forstöðumanna stofnana í mjög svo breyttu rekstrar- og lagaumhverfi þeirra og nýjum viðhorfum til stjórnsýslunnar.

Í ljósi þess að hér er um afar mikilvægan málaflokk að ræða, sætir það nokkurri furðu hversu litla umfjöllun og athygli þetta nefndarálit hefur fengið. Nauðsynlegt er að koma á skýrari línum í stjórnsýslunni, ekki síst með vísan til þeirrar umræðu um stöðu, hlutverk og ábyrgð ýmissa ríkisstofnana og forstöðumanna þeirra sem fram hefur farið að undanförnu. Það eykur ekki á almennan trúverðugleika stjórnsýslunnar, að Alþingi fyrir frumkvæði ríkisstjórnar skuli setja lög um ný verkefni og vandasamt hlutverk ýmissa stofnana en einstakir þingmenn haldi síðan uppi aðfinnslum og lítt rökstuddri og jafnvel persónulegri gagnrýni á störf stofnana þegar faglegar niðurstöður þeirra eru mönnum ekki að skapi. Félag forstöðumanna ríkisstofnana telur nauðsynlegt að opnar umræður fari fram um öll þessi mál og mun á hausti komanda beita sér fyrir því að svo verði.

Magnús Jónsson
formaður FFR

_______________

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta