Óskað umsagna um net- og upplýsingaöryggi
Samgönguráðuneytið óskar eftir umsögnum um hvernig best verði staðið að því að tryggja fullnægjandi net- og upplýsingaöryggi á íslenskum fjarskipta- og tölvunetum. Þess er óskað að umsagnir berist ráðuneytinu eigi síðar en 15. janúar næstkomandi.
Fjarskiptaáætlun áranna 2005 til 2010 gerir ráð fyrir að stofnaður verið CERT-hópur (Computer Emergency Response Team) auk þess sem þátttaka Íslendinga verði aukin í erlendu samráði um öryggismál og varnir efldar til að net- og upplýsingakerfi virki óhindrað.
Þar sem öryggi í fjarskipta- og upplýsinganetum snertir flest fyrirtæki og stofnanir á Íslandi auk alls almennings telur samgönguráðuneytið mikilvægt að fá sjónarmið sem flestra um með hvaða hætti öryggið verði best tryggt. Í skjali þessu eru sett fram atriði til umræðu í tengslum við kynningarskýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar um CSIRT/CERT teymi á Íslandi. Samgönguráðuneytið óskar eftir athugasemdum og ábendingum til þess að fá fram sem flest sjónarmið um hvernig best verði staðið að því að tryggja fullnægjandi net- og upplýsingaöryggi á íslenskum tölvunetum.
Miðvikudaginn 17. desember 2008 klukkan 13 verður haldinn kynningarfundur um CSIRT/CERT málefni í fundarsal Þjóðminjasafns Íslands. Meðal fyrirlesara er verður fulltrúi frá European Network and Information Security Agency (ENISA).
Senda skal umsagnir í tölvupósti á netfangið [email protected]. Samgönguráðuneytið áskilur sér rétt til að birta efni innsendra umsagna en mun ekki birta nöfn sendenda.