Önnur skýrsla Íslands um framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.
Ríkisstjórn Íslands
Janúar 2000
Önnur skýrsla Íslands um framkvæmd
samnings á vegum Sameinuðu þjóðanna
frá 20. nóvember 1989 um réttindi barnsins.
Inngangur
1. Fyrsta skýrsla Íslands um framkvæmd samningsins á vegum Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins var gerð árið 1994. Nefnd um réttindi barnsins, skv. 43. gr. samningsins, fjallaði um frumskýrsluna á fundum þann 16. og 17. janúar 1996 og samþykkti lokaathugasemdir á fundi sínum þann 26. janúar 1996.
2. Þessi skýrsla er unnin í samræmi við 44. gr. samningsins þar sem aðildarríki skuldbinda sig til þess að láta nefndinni um réttindi barnsins í té skýrslur um framkvæmd samningsins á fimm ára fresti. Skýrslan er unnin á vegum dómsmálaráðuneytisins en haft var samráð við fjölmarga aðila sem vinna að réttindum barna, svo sem ráðuneyti, opinberar stofnanir og frjáls félagasamtök. Í skýrslunni er fyrst og fremst gerð grein fyrir þeim breytingum sem átt hafa sér stað frá því að fyrsta skýrslan var gerð og er fylgt uppsetningu fyrstu skýrslunnar. Þegar um er að ræða breytingar eða efni í beinum tengslum við tölusettar málsgreinar fyrstu skýrslunnar er viðeigandi málsgreinanúmers getið í sviga í lok málsgreinar. Miðað er við málsgreinanúmer fyrstu skýrslunnar eins og hún var lögð fram á fundi nefndarinnar um réttindi barnsins (CRC/C/11/Add.6)
3. Í þessari skýrslu eru efnislega teknar inn viðbótarathugasemdir Íslands (CRC/C.11/WP.8) sem lagðar voru fyrir nefndina áður en til endanlegrar afgreiðslu fyrstu skýrslunnar kom. Þá er einnig sérstakur kafli um lokaathugasemdir nefndarinnar um réttindi barnsins við fyrstu skýrslu Íslands.
I. Almennar athugasemdir
(a) Stjórnskipan og stjórnarhættir
4. Með ályktun Alþingis 17. júní 1994 í tilefni 50 ára lýðveldis á Íslandi var samþykkt að ljúka endurskoðun á mannréttindakafla íslensku stjórnarskrárinnar. Markmiðin voru að efla, samhæfa og samræma mannréttindaákvæðin þannig að þau gegndu betur því hlutverki að vera vörn almennings í samskiptum við ríkisvaldið, að færa ákvæðin til nútímalegra horfs og til samræmis við alþjóðlegar skuldbindingar til verndar mannréttindum. Þess má geta að efnisréttindi voru þegar talin vera fyrir hendi en öruggara þótti að tryggja þau í stjórnarskrá landsins. Með lögum nr. 97 frá 28. júní 1995 voru gerðar breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Hefur stjórnarskráin því nú að geyma mun ítarlegri og skýrari ákvæði til verndar mannréttindum en áður. Sérstaklega er rétt að nefna að samkvæmt 3. mgr. 76. gr. skal börnum tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Ákvæðið felur í sér stefnuyfirlýsingu og sækir meðal annars fyrirmynd í 3. gr. samningsins um réttindi barnsins. Með þessu ákvæði er einkum gert ráð fyrir að skylda löggjafann til að setja lög sem veita börnum fyrrnefnda tryggingu en einnig er unnt að sækja stoð til ákvæðisins fyrir heimild til undantekninga frá öðrum mannréttindaákvæðum ef slíkar undantekningar eru nauðsynlegar til verndar börnum. (4)
5. Eftirfarandi er yfirlit yfir önnur þau réttindi sem breytingum á stjórnarskrá (stjskr) er ætlað að tryggja frekar:
· trúfrelsi (63. og 64. gr. stjskr)
· almenn regla um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og sérstaklega jafnrétti karla og kvenna (65. gr. stjskr)
· frjáls för manna og réttur til að velja dvalarstað (66. gr. stjskr)
· takmörk frelsissviptinga (67. gr. stjskr)
· bann við pyndingum og annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu og bann við nauðungarvinnu (68. gr. stjskr)
· bann við afturvirkum refsingum og dauðarefsingum (69. gr. stjskr)
· lágmarkskröfur til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómstólum (70. gr. stjskr)
· friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu (71. gr. stjskr)
· friðhelgi eignaréttarins (72. gr. stjskr)
· tjáningarfrelsi (73. gr. stjskr)
· félaga- og fundafrelsi (74. gr. stjskr)
· atvinnufrelsi (75. gr. stjskr)
· réttur samkvæmt lögum til að njóta aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika og réttur samkvæmt lögum til menntunar og fræðslu (76. gr. stjskr)
· bann við framsali skattlagningarvalds og afturvirkni skattlagningar (77. gr. stjskr)
· sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga (78. gr. stjskr)
6. Sveitarfélögum landsins hefur fækkað umtalsvert og eru þau nú 124. Gert er ráð fyrir að þeim fækki frekar en tilgangurinn með sameiningu sveitarfélaga er aukin hagræðing, að styrkja þau sem stjórnsýslueiningar og gera sveitarfélögin hæfari til að takast á við fleiri verkefni. Sett hafa verið ný sveitarstjórnarlög nr. 45/1998. (8)
7. Embætti umboðsmanns barna var stofnað árið 1994 en umboðsmanni barna er ætlað að standa vörð um hagsmuni og réttindi barna á Íslandi.
(b) Meðferð mála sem varða börn
Verkefni félagsmálaráðuneytis og barnaverndaryfirvalda
8. Heiti laga nr. 58/1992 um vernd barna og ungmenna var breytt með lögum nr. 160/1998 og heita þau nú barnaverndarlög. Með lögum nr. 22/1995 voru gerðar talsverðar breytingar á verkefnum barnaverndaryfirvalda. Félagsmálaráðuneytið fer áfram með yfirstjórn barnaverndarmála og annast stefnumótun í málaflokknum. Sérstök undirstofnun ráðuneytisins, Barnaverndarstofa, annast daglega stjórn barnaverndarmála og skal vinna að samhæfingu og eflingu barnaverndarstarfs. Markmiðið með þessum breytingum var að efla þjónustu ríkisins í barnaverndarmálum og tengsl og aðstoð af hálfu ríkisins við barnaverndarnefndir. Verkefni Barnaverndarstofu eru nánar útfærð í reglugerð nr. 264/1995. Meginhlutverk Barnaverndarstofu eru: (14)
· að veita barnaverndarnefndum leiðbeiningar og ráðgjöf varðandi fjölskylduvernd og úrlausn barnaverndarmála,
· að hafa eftirlit með störfum barnaverndarnefnda, þar á meðal heimta frá þeim ársskýrslur,
· að hafa yfirumsjón og eftirlit með stofnunum og heimilum sem ríkið rekur og styrkir, fyrir börn sem vistuð eru á grundvelli barnaverndarlaga,
· að hafa umsjón með vistun barna á stofnunum og heimilum sem ríkið rekur eða styrkir á grundvelli barnaverndarlaga,
· að hlutast til um að settar verði á fót stofnanir og heimili samkvæmt tilgreindum ákvæðum barnaverndarlaga,
· að veita barnaverndarnefndum fulltingi við öflun hæfra fósturforeldra,
· að hlutast til um að fram fari þróunar- og rannsóknarstarf á sviði barnaverndar,
· að annast fræðslu um barnavernd, einkum fyrir barnaverndarnefndir og starfsmenn þeirra.
9. Á árunum 1996-97 hélt Barnaverndarstofa tveggja daga námskeið fyrir allar barnaverndarnefndir, starfsmenn þeirra og samstarfsaðila, alls 18 námskeið fyrir um 340 manns. Var þar farið í öll grunnatriði í vinnslu barnaverndarmála og kynntur samningurinn um réttindi barnsins. Í kjölfar sveitarstjórnarkosninga árið 1998 voru aftur haldin eins dags námskeið fyrir sömu aðila árin 1998-99, alls 19 fyrir um 400 manns, þar sem farið var yfir svipuð atriði. Einnig eru reglulega haldin sérstök námskeið fyrir fósturforeldra og fyrir starfsmenn meðferðarheimila. Þá gaf Barnaverndarstofa út handbók fyrir allar barnaverndarnefndir árið 1998 þar sem er að finna ítarlegar leiðbeiningar um hlutverk barnaverndarnefnda og vinnslu mála. Á árinu 1998 veitti Barnaverndarstofa barnaverndarnefndum ráðgjöf í um 300 málum af ýmsum toga.
10. Barnaverndarnefndum er skylt að ráða tilteknum málum til lykta með úrskurði og þeim úrskurðum er unnt að skjóta til Barnaverndarráðs Íslands. Ákvörðunum barnaverndarnefndar, sem er ekki unnt að skjóta til Barnaverndarráðs Íslands, geta aðilar skotið til úrskurðar Barnaverndarstofu. Ákvörðunum og úrskurðum Barnaverndarstofu má skjóta til úrskurðar félagsmálaráðuneytisins. Kvartanir og kærur til Barnaverndarstofu vegna ákvarðana barnaverndarnefnda voru 45 árið 1998.
11. Eitt af hlutverkum Barnaverndarstofu er að vinna skipulega að því markmiði efla barnaverndarstarf, til dæmis þannig að barnaverndarnefndum fækki, að umdæmi þeirra stækki og að sérhæft starfslið sé ráðið í þjónustu barnaverndarnefnda. Barnaverndarnefndum hefur fækkað jafnt og þétt á undanförnum árum og frá og með 1. janúar 2000 verða þær 55 talsins. Þá er barnaverndarnefndum skylt að senda Barnaverndarstofu árlega skýrslur um starfsemi sína og skal Barnaverndarstofa birta upplýsingar um störf barnaverndarnefnda eigi sjaldnar en annað hvert ár. Barnaverndarstofa hefur unnið skipulega að því að safna upplýsingum frá barnaverndarnefndum, meðal annars með útgáfu sérstakra eyðublaða til að auðvelda skráningu mála, og er að vænta ítarlegrar skýrslu Barnaverndarstofu í árslok 1999. Er hér byggt á tölulegum upplýsingum frá Barnaverndarstofu, en árið 1998 er fyrsta árið sem allar barnaverndarnefndir skiluðu ársskýrslu til stofunnar. (17)
12. Barnaverndarnefndir eru nú talsvert færri en sveitarfélögin enda hafa fjölmörg smærri sveitarfélög sameinast um kosningu barnaverndarnefnda. Þá hafa umdæmi barnaverndarnefndanna stækkað, það er íbúafjöldi á bak við hverja nefnd hefur aukist. Ríflega helmingur sveitarfélaga hefur valið þá leið að fela félagsmálaráði eða félagsmálanefnd störf barnaverndarnefndar. (18)
13. Unnið hefur verið markvisst að því að fjölga sérhæfðum starfsmönnum barnaverndarnefnda og eru nú alls 34 nefndir með fasta sérhæfða starfsmenn. Gert er ráð fyrir að enn frekari fækkun nefnda og stækkun umdæma muni tryggja ráðningu starfsmanna í ríkara mæli. (19)
14. Afmarkað hefur verið frekar hvaða málum barnaverndarnefndir þurfa að ráða til lykta með úrskurði en í þeim málum gilda strangari reglur um málsmeðferð en ella, auk sérstakra málskotsheimilda. Til viðbótar við það sem talið var í fyrri skýrslu hefur verið litið svo á að barnaverndarnefnd sé skylt að úrskurða um: (20)
· umgengni barns í fóstri við nákomna aðra en kynforeldri
· ágreining um umgengni við barn sem vistað hefur verið á meðferðarheimili
· staðfestingu neyðarráðstöfunar, en skv. 47. gr. barnaverndarlaga er unnt að grípa strax til nauðsynlegra ráðstafana ef börn eru í hættu og tilteknar ráðstafanir skal staðfesta með fullnaðarúrskurði innan tveggja mánaða
· endanlega afgreiðslu máls um endurupptöku forsjársviptingar ef barnaverndarnefndir hafna því að barn fari að nýju til kynforeldra sinna.
15. Flestir úrskurðir Barnaverndarráðs Íslands snúa að endurskoðun á úrskurðum barnaverndarnefnda um forsjársviptingu og umgengni barna í fóstri við nákomna. Eftirfarandi er yfirlit yfir fjölda úrskurða Barnaverndarráðs Íslands 1996-1998: (22)
Barnaverndarráð Íslands | 1996 | 1997 | 1998 |
Fjöldi úrskurða | 11 | 25 | 19 |
Fjöldi barna | 32 | 37 | 24 |
16. Í lok árs 1997 skipaði félagsmálaráðherra nefnd til að endurskoða barnaverndarlögin í heild sinni, meðal annars fyrirkomulag kæruleiða og úrskurðarvalds. Nefndin er að störfum en gera má ráð fyrir að frumvarp verði lagt fram á Alþingi árið 2000.
Verkefni menntamálaráðuneytis og skólayfirvalda
17. Frá árinu 1994 hafa tekið gildi ný lög um öll fjögur skólastig skólakerfisins, leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla. Menntamálaráðuneytið fer með yfirstjórn allra menntamála, mótar stefnu um innra starf skóla, gefur út aðalnámskrár og gegnir leiðbeiningar- og eftirlitshlutverki. (23)
18. Viðamiklar breytingar voru gerðar á rekstri grunnskólans með nýjum grunnskólalögum nr. 66/1995. Var rekstur grunnskóla færður frá ríki til sveitarfélaga og bera nú sveitastjórnir ábyrgð á öllum rekstri leikskóla og grunnskóla, þar með talið byggingu, rekstri og viðhaldi mannvirkja. Skólahverfi er sú eining sem stendur að einum grunnskóla eða fleiri. Sveitarfélög geta sameinast um rekstur grunnskóla og mynda þá eitt skólahverfi. Í hverju skólahverfi skal vera skólanefnd sem fer með málefni grunnskóla og er hún kosin af hlutaðeigandi sveitastjórn í upphafi hvers kjörtímabils. Skólanefnd skal sjá um að öll skólaskyld börn í skólahverfinu njóti lögboðinnar fræðslu, fylgjast með og stuðla að því að skólum sé tryggður aðgangur að sérfræðiþjónustu og hafa eftirlit með að uppfylltar séu kröfur grunnskólalaga og reglugerða samkvæmt þeim.
19. Sveitarfélög reka ýmist ein eða hafa sameinast um rekstur sérstakra þjónustustofnana sem almennt nefnast skólaskrifstofur. Um 20 skólaskrifstofur eru reknar á landinu sem meðal annars veita þjónustu og ráðgjöf, þar með talið sérkennslu- og sálfræðiráðgjöf og stuðla að þróun í skólastarfi.
20. Embætti umboðsmanns foreldra og skóla í Reykjavík var sett á laggirnar í kjölfar flutnings grunnskóla til sveitarfélagsins 1996, en Reykjavík er langstærsta fræðsluumdæmi landsins með ríflega þriðjung allra grunnskólanemenda. Hlutverk umboðsmanns foreldra og skóla er að veita margskonar ráðgjöf og vera tengiliður nemenda, foreldra, foreldraráða og foreldrafélaga við kennara og skólastjórnendur, svo og annað fagfólk sem kemur að málefnum barna. Eru umboðsmanni meðal annars falin þau mál sem koma til kasta Fræðsluráðs Reykjavíkur sem gegnir hlutverki skólanefndar í Reykjavík. Umboðsmaður foreldra og skóla hefur samninginn um réttindi barnsins að leiðarljósi í starfi sínu, auk annarra alþjóðasamninga. Á árunum 1996-1998 voru 311 mál til meðferðar hjá umboðsmanni foreldra og skóla í Reykjavík.
21. Menntamálaráðuneytinu hafa borist fjölmargar kærur, fyrirspurnir og beiðnir um úrskurði í vafamálum sem snerta skólahald og framkvæmd grunnskólalaga. Í ágúst 1998 gaf ráðuneytið út rit með safni úrskurða í álitamálum sem snerta grunnskóla frá því að nýju grunnskólalögin komu að fullu til framkvæmda. Markmiðið með útgáfunni var að kynna niðurstöður og afstöðu ráðuneytisins í álitamálum fyrir sveitarstjórnum, skólanefndum, skólaskrifstofum, foreldrum, kennurum, nemendum og öðrum sem skólahald varðar.
22. Sérhver grunnskóli og framhaldsskóli skal innleiða aðferðir til að meta skólastarfið, þar á meðal kennslu- og stjórnunarhætti, samskipti innan skólans og tengsl við aðila utan hans. Á fimm ára fresti skal að frumkvæði menntamálaráðuneytis gerð úttekt á sjálfsmatsaðferðum skóla. Eftir flutning grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga var sett upp sérstök mats- og eftirlitsdeild á vegum menntamálaráðuneytisins.
23. Samkvæmt reglugerð nr. 384/1996 um upplýsingaskyldu sveitarfélaga um skólahald er sveitarfélögum skylt að gera menntamálaráðuneytinu árlega grein fyrir framkvæmd skólahalds í grunnskólum. Samræmdum upplýsingum er ætlað að skapa traustan grundvöll fyrir mat á skólastarfi á skyldunámsstigi og auðvelda eftirlit með framkvæmd skólahalds.
24. Samkvæmt grunnskólalögum skal menntamálaráðherra gera Alþingi grein fyrir framkvæmd skólastarfs í grunnskólum á þriggja ára fresti. Ráðherra lagði fram skýrslu í mars 1999 sem nær yfir skólaárin 1995—96, 1996—97 og 1997—98 en þar er að finna ýmsar upplýsingar um skólahald.
(c) Ý-msar tölfræðilegar upplýsingar varðandi börn o.fl.
Íbúafjöldi
25. Íbúafjöldi á Íslandi 1. desember 1998 var 275.264. Þar af voru konur 137.390 og karlar 137.874. Börn undir 18 ára aldri voru alls 77.628 eða um 28% þjóðarinnar. Á einu ári, eða frá 1. desember 1997, fjölgaði Íslendingum um 3.195 eða 1,18%. Aðfluttir umfram brottflutta voru 880 á árinu. Tala fæddra á árinu 1998 var 2.357 hærri en tala látinna. (26)
Fjöldi fæddra og fjölskyldustaða barna
26. Fæðingartölur á Íslandi og fjölskyldustaða nýfæddra barna var eftirfarandi: (28)
Fjölskyldustaða barna | 1997 | 1998 |
Lifandi fædd börn alls | 4.151 | 4.178 |
Fædd í hjónabandi | 1.444 | 1.503 |
Fædd utan hjónabands | 2.707 | 2.675 |
27. Fjölskyldustaða barna sem fædd eru utan hjónabands var eftirfarandi: (29)
Fjölskyldustaða utan hjónabands | 1997 | 1998 |
Börn alls fædd utan hjónabands | 2.707 | 2.675 |
Foreldar í sambúð | 2.106 | 2.158 |
Foreldrar ekki í sambúð | 601 | 517 |
28. Árið 1998 var meðalaldur móður við fæðingu frumburðar 25,1 ár en tíðasti aldur 23 ár. (31)
Barnadauði
29. Árið 1998 voru af hverjum 1000 fæddum börnum andvana fædd börn 2,1 og dáin á 1. aldursári 2,6. (32)
Lífslíkur
30. Lífslíkur á Íslandi hafa aukist jafnt og þétt og árið 1997-98 voru lífslíkur 77,0 ár fyrir karla og 81,5 fyrir konur. (33)
Kjarnafjölskyldan
31. Kjarnafjölskyldur á Íslandi 1. desember 1998 voru alls taldar vera 67.393. Meðalstærð kjarnafjölskyldu var 2,89. Til kjarnafjölskyldu teljast hjón og fólk í óvígðri sambúð eða staðfestri samvist, börn hjá þeim 15 ára og yngri, einhleypir karlar og konur sem búa með börnum 15 ára og yngri. Börn 16 ára og eldri sem búa með foreldrum sínum teljast ekki til kjarnafjölskyldu. Stofnun staðfestrar samvistar var heimiluð samkvæmt lögum nr. 87/1996 sem tóku gildi 27. júní 1996. Samkvæmt lögunum geta tveir einstaklingar af sama kyni stofnað til staðfestrar samvistar sem hefur sömu réttaráhrif og stofnun hjúskapar, þó með þeim undantekningum að ákvæði ættleiðingarlaga um hjón og ákvæði laga um tæknifrjóvgun gilda ekki um staðfesta samvist. Nánari sundurliðun með tilliti til samsetningar á kjarnafjölskyldum var eftirfarandi: (34)
Kjarnafjölskyldur |
1997
|
1998
|
Hjónaband án barna |
24.125
|
24.614
|
Hjónaband með börnum |
21.693
|
21.652
|
Staðfest samvist án barna |
29
|
36
|
Staðfest samvist með börnum |
1
|
1
|
Óvígð sambúð án barna |
3.226
|
3.221
|
Óvígð sambúð með börnum |
8.793
|
8.737
|
Karl með börn |
587
|
589
|
Kona með börn |
8.196
|
8.543
|
Hlutfall í þéttbýli og strjálbýli
32. Árið 1998 bjuggu 92,2% landsmanna í þéttbýli en 7,8% í strjálbýli. (35)
Atvinnumál
33. Lengd vinnuviku í árslok 1998 var að meðaltali 49,9 klukkustundir á viku hjá körlum en 34,8 klukkustundir á viku hjá konum. Talsvert hefur dregið úr atvinnuleysi en það mældist 2,7% í lok árs 1998 en 3,9% í lok árs 1997. Atvinnuleysi meðal kvenna var 4,1% en 1,8% meðal karla. Atvinnuleysi meðal fólks á aldrinum 16-24 ára var 5,9% í árslok 1998 samanborið við 7,7% í árslok 1997 og 8,4% í árslok 1996. Áætlaður heildarfjöldi atvinnulausra í lok árs 1998 var 4.200 samanborið við 5.700 í árslok 1997. (36)
Dagvistunarmál
34. Fjöldi barna sem dvaldist daglega á leikskólum árið 1998 var eftirfarandi: (37)
Börn á
leikskólum |
4-6 klst.
|
6-8 klst.
|
8-9 klst. eða lengur
|
0-2 ára
|
197
|
85
|
217
|
2-4 ára
|
2.783
|
1.121
|
2.630
|
4-6 ára
|
3.511
|
1.316
|
3.245
|
Menntamál
35. Í nýjum grunnskólalögum er ákvæði um að hver grunnskóli skuli vera einsetinn, en með einsetningu er átt við að allir nemendur skóla hefji nám að morgni og séu samtímis í skólanum. Gert er ráð fyrir að markmiði þessu verði náð árið 2004. Skólaárið 1998-99 voru 154 af 196 grunnskólum landsins einsetnir og 13 að auki einsetnir að hluta, sem þýðir að 3/4 hluti bekkjardeilda skólans geti byrjað skóladaginn á sama tíma. (38)
36. Í samræmi við stefnumörkun um einsetningu hefur vikulegur kennslustundafjöldi nemenda aukist og stefnt er að samfelldum vinnudegi allra grunnskólabarna. Miðað er við að árið 2001 verði vinnuvika allra nemenda, tíu ára og eldri, orðin 35-37 stundir að lágmarki. Með því hefur heildartími til kennslu í grunnskóla verið aukinn um 15% frá skólaárinu 1994-95.
37. Í grunnskólalögunum er jafnframt að finna heimildarákvæði um að sveitastjórn geti boðið grunnskólanemendum lengda viðveru utan daglegs kennslutíma í húsnæði skólans eða nágrenni hans. Skólaárið 1998-99 buðu um 40% grunnskóla upp á svokallaðan heilsdagsskóla eða sambærilega þjónustu (38)
38. Skólaárið 1998-99 voru nemendur í grunnskólum landsins rúmlega 42.400, þar af tæplega 15.000 í grunnskólum Reykjavíkur. Skólaárið 1998-99 voru um 20.400 nemendur við nám á framhaldsskólastigi á landinu. Sama skólaár voru 5.830 nemendur skráðir við nám í Háskóla Íslands, alls 3.350 konur og 2.480 karlar. (40)
Verkefni á sviði barnaverndarmála
39. Barnaverndarnefndir veita Barnaverndarstofu upplýsingar um fjölda mála sem fjallað er um á hverju ári. Árið 1998 var fyrsta árið sem allar barnaverndarnefndir skiluðu umbeðnum skýrslum. Þá verður að gera ráð fyrir að enn sé talsvert óunnið í að samræma skráningu og skilgreiningar á málum og því eru upplýsingar ekki fyllilega áreiðanlegar. Eftirfarandi er yfirlit yfir fjölda mála samkvæmt innsendum skýrslum fyrir árið 1998:
Barnaverndarmál |
1996
|
1997
|
1998
|
Fjöldi fjölskyldna |
1.249
|
1.590
|
1.973
|
Fjöldi barna |
1.889
|
2.396
|
2.598
|
Fjöldi barna - ný mál |
634
|
886
|
1.202
|
Útgjöld ríkisins til heilbrigðismála, menntamála og félagsmála
40. Eftirfarandi er yfirlit yfir útgjöld Íslands til þessara málaflokka sem prósentuhlutfall af landsframleiðslu og í milljónum ISK: (41)
Útgjöld % |
1996
|
1997
|
1998
|
Heilbrigðismál |
6.81
|
6.60
|
6.91
|
Fræðslumál |
5.32
|
5.35
|
5.70
|
Almannatryggingar og velferðarmál |
8.63
|
8.17
|
7.99
|
Útgjöld - milljón ISK |
1996
|
1997
|
1998
|
Heilbrigðismál |
33.139
|
34.972
|
40.511
|
Fræðslumál |
25.887
|
28.365
|
33.427
|
Almannatryggingar og velferðarmál |
41.968
|
43.310
|
46.853
|
II. Ráðstafanir í samræmi við ákvæði samningsins
41. Lögum nr. 62/1994 um Mannréttindasáttmála Evrópu var breytt með lögum nr. 25/1998 til að lögfesta samningsviðauka nr. 11 frá 11. maí 1994 er varðar endurskipulagningu á eftirlitskerfi samningsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis.
(a) Ráðstafanir til þess að aðlaga íslenska löggjöf að ákvæðum samningsins
42. Íslensk löggjöf sem varðar málefni barna hefur áfram verið í örri þróun og fjölmörg ný lög verið sett eða mikilvægar breytingar gerðar. Helstu nýmæli eru eftirfarandi: (46)
Börn og barnavernd
· Lög nr. 23/1995 um breytingar á barnalögum nr. 20/1992
· Lög um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl. nr. 160/1995
· Lög nr. 22/1995 og 160/1998 um breytingar á barnaverndarlögum nr. 58/1992
· Reglugerð um barnaverndarstofu nr. 264/1995
· Reglugerð nr. 271/1995, sbr. reglugerð nr. 474/1998 um meðferðarstöð ríkisins fyrir unglinga
· Reglugerð um ráðstöfun barna í fóstur nr. 532/1996
· Reglur um heimili og stofnanir fyrir börn skv. 1.-3. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga, nr. 401/1998
Menntamál og menning
· Reglugerð um starfsemi leikskóla nr. 225/1995
· Lög um grunnskóla nr. 66/1995
· Reglugerð um framkvæmd laga um grunnskóla nr. 349/1995
· Reglugerð um upplýsingaskyldu sveitarfélaga um skólahald nr. 384/1996
· Reglugerð um skólareglur og aga í grunnskólum nr. 385/1996
· Reglugerð um sérfræðiþjónustu í grunnskólum nr. 386/1996
· Reglugerð um nemendaverndarráð í grunnskólum nr. 388/1996
· Reglugerð um sérkennslu nr. 389/1996
· Reglugerð um íslenskukennslu nemenda með annað móðurmál en íslensku nr. 391/1996
· Reglugerð um lágmarksaðstöðu grunnskóla nr. 519/1996
· Reglugerð um námsmat nemenda sem víkja svo frá almennum þroska að þeim henta ekki samræmd próf nr. 709/1996
· Reglugerð um rétt nemenda og foreldra/forráðamanna til að skoða metnar prófúrlausnir nemenda nr. 710/1996
· Lög um framhaldsskóla nr. 80/1996
· Reglugerð um eftirlit með starfi framhaldsskóla og námsefni og um ráðgjöf vegna kennslu og þróunarstarfa nr. 139/1997
· Reglugerð um sérstaka íslenskukennslu í framhaldsskólum nr. 329/1997
· Reglugerð um kennslu fatlaðra nemenda í framhaldsskólum nr. 372/1998
· Lög um Kvikmyndaskoðun nr. 47/1995
Heilbrigðismál
· Lög um réttindi sjúklinga nr. 74/1997
· Lög um áfengis- og vímuvarnarráð nr. 76/1998
· Reglugerð um þjónustu við fötluð börn og fjölskyldur fatlaðra nr. 155/1995
· Reglugerð um fjárhagslega aðstoð vegna fatlaðra og langveikra barna nr. 504/1997
-Ýmislegt
· Lög um mannanöfn nr. 45/1996
· Lögræðislög nr. 71/1997
· Lög nr. 36/1999 um breytingar á lögum um meðferð opinberra mála nr. 19/1991
· Reglugerð um tilhögun skýrslutöku fyrir dómi ef brotaþoli er yngri en 18 ára nr. 321/1999
43. -msar aðrar breytingar hafa verið gerðar á gildandi lögum sem snerta börn með beinum hætti. Má hér nefna breytingar á reglum um vinnu barna í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980, sbr. lög nr. 52/1997. Voru þessar breytingar gerðar með hliðsjón af tilskipun Evrópusambandsins um vinnuvernd barna og ungmenna, 94/33/EB, og með sérstakri vísan til 2. mgr. 32. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Í lok árs 1999 fullgilti Ísland samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 138 um lágmarksaldur við vinnu. Hafinn er undirbúningur að fullgildingu samþykktar nr. 182 um afnám barnavinnu í sinni verstu mynd.
44. Breytingar voru gerðar á almennum hegningarlögum nr. 19/1940, á ákvæðum um fyrningu sakar vegna kynferðisbrota gegn börnum með lögum nr. 63/1998 og ákvæðum um barnaklám með lögum nr. 126/1996 þar sem vörslur barnakláms voru gerðar sjálfstætt refsivert brot.
45. Þá hefur bæst við löggjöf á ýmsum sviðum sem tryggir almennt réttaröryggi. Má þar nefna upplýsingalög nr. 50/1996, sem tryggja skráningu og aðgang að upplýsingum um opinbera stjórnsýslu, lög nr. 69/1995 um ábyrgð ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota og ný lög um Umboðsmann Alþingis nr. 85/1997, sem tryggja að umboðsmaður geti fjallað í ríkara mæli en áður um stjórnsýslu sveitarfélaga. Einnig má nefna breytingar á lögum um íslenskan ríkisborgararétt og ný lög um vegabréf, breytingar á lögum um fæðingarorlof, um félagsþjónustu sveitarfélaga og um félagslega aðstoð, ný áfengislög og breytingar á lögum um tóbaksvarnir. Nánar verður gerð grein fyrir þessum breytingum síðar í skýrslunni.
46. Með nýjum lögræðislögum nr. 71/1997 var sjálfræðisaldur barna hækkaður úr 16 árum í 18 ár. Var þessi breyting rökstudd með vísan til þess að rétt væri að fylgja skilgreiningu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins þar sem allir einstaklingar undir 18 ára aldri eru skilgreindir sem börn, auk þess sem hið íslenska fyrirkomulag væri ekki í samræmi við löggjöf í nágrannalöndum okkar. Á fundi sem fulltrúar íslenskra stjórnvalda áttu með nefnd um réttindi barnsins í ársbyrjun 1996 kom nefndin á framfæri tilmælum um að sjálfræðisaldur yrði hækkaður við endurskoðun lögræðislaga. Hækkun sjálfræðisaldurs á Íslandi var einnig rökstudd með vísan til breyttra þjóðfélagsaðstæðna og þörf fyrir menntun ungmenna. Þá var bent á óeðlilegt misræmi milli forsjárskyldu foreldris og framfærsluskyldu. Á grundvelli barnaverndarsjónarmiða var einnig lögð áhersla á að hækka sjálfræðisaldur þar sem barnaverndarnefndir gátu ekki haft afskipti af málefni ungmenna sem náð höfðu 16 ára aldri nema með samþykki þeirra. Þannig náðist sjaldan samfella í stuðningi og meðferð ungmenna. Lögin tóku gildi 1. janúar 1998 þó þannig að þeir sem náð höfðu 16 ára aldri fyrir gildistöku laganna héldu sjálfræði sínu.
47. Samkvæmt lögræðislögum verða menn lögráða 18 ára. Foreldrar barns, sem er ólögráða fyrir æsku sakir, og þeir sem koma barni í foreldra stað ráða persónulegum högum þess. Nefnast þau lögráð forsjá og fer um hana samkvæmt ákvæðum barnalaga og barnaverndarlaga.
48. Í júní 1997 skipaði dómsmálaráðherra nefnd til að kanna og gera tillögur um hvaða lögum þyrfti að breyta vegna hækkunar sjálfræðisaldurs. Í nefndina voru skipaðir fulltrúar sex ráðuneyta. Nefndin skilaði skýrslu og tillögum til dómsmálaráðherra í nóvember 1997. Í kjölfarið hafa verið gerðar breytingar á aldursmörkum ýmissa laga, svo sem hjúskaparlaga, laga um mannanöfn og laga um lögheimili.
49. Heiti laga um vernd barna og ungmenna nr. 58/1992 var breytt í barnaverndarlög, með lögum nr. 160/1998. Með lögum þessum voru gerðar nauðsynlegustu breytingar vegna hækkaðs sjálfræðisaldurs. Skilgreining á ungmenni, það er einstaklingi 16-18 ára, var felld niður og orðið ungmenni fellt niður alls staðar þar sem það kom fyrir í lögunum. Barnaverndarlög gilda þannig með sama hætti um öll börn innan 18 ára aldurs. Þá var bætt inn ákvæði um að börn skuli njóta réttinda í samræmi við aldur og þroska. Ákvæði um vistun barns, sem stefnir eigin heilsu og þroska í hættu með hegðun sinni, til meðferðar og rannsóknar var gert skýrara, rýmkaður réttur barns til að tjá sig og jafnframt lagðar ríkari skyldur á herðar barnaverndarnefnda að skipa barni talsmann ef þörf krefur. Frekari breytingar bíða heildarendurskoðunar á lögunum.
50. Nokkur gagnrýni hefur komið fram eftir hækkun sjálfræðisaldurs um að hið opinbera, sérstaklega barnaverndaryfirvöld, hafi ekki tiltæk næg úrræði til að mæta þörfum þessa nýja aldurshóps. Markvisst er unnið að því að tryggja nægilegt framboð úrræða fyrir börn, bæði á vegum sveitarfélaga og ríkis. Meðferðarrýmum hefur fjölgað og frekari fjölgun er fyrirhuguð eins og nánar verður gerð grein fyrir síðar í skýrslunni.
51. Lög um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl. nr. 160/1995 voru sett til að gera Íslandi kleift að fullgilda Evrópusamning frá 20. maí 1980 um viðurkenningu og fullnustu ákvarðana varðandi forsjá barna og endurheimt forsjár barna, sem gerður var á vegum Evrópuráðsins, og Haag-samning frá 25. október 1980 um einkaréttarleg áhrif af brottnámi barna til flutnings milli landa. Við setningu laganna var einnig vísað til 11. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.
52. Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til nýrra ættleiðingarlaga. Mikilvægur þáttur frumvarpsins varðar ákvæði sem þörf er á svo Ísland geti fullgilt Haag-samninginn frá 29. maí 1993 um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingar milli landa. Voru samningurinn um réttindi barnsins og aðrir mannréttindasáttmálar einnig sérstaklega athugaðir með tilliti til þess að samræma íslensk lög um ættleiðingu við þessa samninga.
53. Við endurskoðun barnaverndarlaga eru fyrirhugaðar breytingar á úrskurðarvaldi í barnaverndarmálum með það fyrir augum að bæta réttaröryggi barna og foreldra, tryggja frekar aðilastöðu barna, efla barnavernd með því að stefna að enn frekari fækkun barnaverndarnefnda, samræma reglur um stjórnsýslu og auka kröfur til málsmeðferðar og skilvirkni. Þá verða endurskoðaðar reglur um ráðstöfun barna í fóstur og vistun barna á meðferðarheimilum og stofnunum.
54. Nýverið hefur sifjalaganefnd, fastanefnd dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, hafið heildarendurskoðun á barnalögum.
(b) Heildarsamræming á stefnumótun um málefni barna og eftirlit með því að ákvæðum samningsins sé fylgt.
Kynning á samningnum
55. Fyrsta skýrsla Íslands um framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins var gefin út á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins árið 1995, þar sem einnig var getið um helstu lagabreytingar frá gerð skýrslunnar fram að útgáfu. Skýrslan var send öllum helstu aðilum sem fjalla um málefni barna.
56. Til að kynna samninginn um réttindi barnsins voru haustið 1994 gefnir út á vegum Námsgagnastofnunar ríksins þrír bæklingar sem kallast Réttindi mín. Lögð er áherslu á ólíka aldurshópa, 6-9 ára, 9-12 ára og 12-15 ára, og er í bæklingunum gerð grein fyrir efnisatriðum samningsins með mismunandi hætti. Í öllum bæklingunum eru símanúmer nokkurra þeirra aðila sem gæta hagsmuna barna, svo sem Umboðsmanns barna og samtakanna Barnaheilla. Bæklingarnir voru fyrst prentaðir í 50 þúsund eintökum og dreift til allra grunnskóla landsins. Bæklingar þessir voru endurútgefnir haustið 1995, dreift að nýju til allra grunnskóla og útgáfan kynnt í fjölmiðlum. Voru foreldrar sérstaklega hvattir til að ræða efni samningsins við börn sín. Hefur Námsgagnastofnun verið falið að dreifa bæklingum reglulega til allra grunnskóla en auk þessa eru gefnar út kennsluleiðbeiningar fyrir kennara.
57. Samningurinn um réttindi barnsins hefur verið birtur í Lagasafni Íslands frá árinu 1996, ásamt öðrum alþjóðasamningum sem þó hafa ekki lagagildi á Íslandi. Dómsmálaráðuneytið hefur staðið fyrir námskeiðum fyrir sýslumenn og löglærða fulltrúa þeirra þar sem samningnum um réttindi barnsins hefur verið dreift og hann kynntur. Þá hefur sérstakur bæklingur um samninginn verið sendur til allra löglærðra starfsmanna dómstóla, lögregluembætta, saksóknara og fangelsisyfirvalda.
58. Heilbrigðisráðuneytið sendi sama bækling til allra sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva landsins með bréfi þar sem sérstök áhersla var lögð á ákvæði samningsins um réttindi barnsins sem snúa að heilbrigðisþjónustu. Bæklingur um samninginn um réttindi barnsins liggur jafnframt frammi á heilbrigðisstofnunum til kynningar fyrir almenning.
59. Menntamálaráðuneytið hefur kynnt samninginn fyrir öllum helstu starfsmönnum í skólakerfinu, starfsmönnum ráðuneytisins og Kennaraháskóla Íslands. Í tengslum við alþjóðlega ráðstefnu um konur og lýðræði, sem haldin var á Íslandi árið 1999, hvatti menntamálaráðuneytið til almennrar umfjöllunar um lýðræði og virka þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi í skólum landsins. Lét ráðuneytið gera veggspjald tileinkað ráðstefnunni og hugtakinu Kjördagur þar sem einnig var minnt á samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og þann grunn sem hann skapar að umræðu um lýðræði og jafnrétti í grunn- og framhaldsskólum. Veggspjaldið var sent öllum grunn- og framhaldsskólum og ýmsum öðrum aðilum í skólakerfinu.
60. Barnaverndarstofa dreifði samningnum um réttindi barnsins og fjallaði sérstaklega um efni hans á námskeiðum fyrir barnaverndarnefndir, starfsmenn þeirra og samstarfsaðila 1996-1997.
61. Á Rás 1, annari útvarpsstöð ríkisútvarpsins, er útvarpað á hverjum degi sérstökum þætti fyrir börn sem nefnist Vitinn. Vitinn hefur jafnframt heimasíðu á Netinu þar sem samningurinn um réttindi barnsins er birtur í styttri útgáfu í tilefni af 10 ára afmæli hans í nóvember 1999, og var heil vika í dagskrá tileinkuð afmælinu. Leitað var til Umboðsmanns barna sem svaraði spurningum þá viku.
62. Ríkissjónvarpið kynnti samninginn í tilefni afmælisins í tengslum við alþjóðlegan fjölmiðladag 12. desember 1999.
Samræming, stefnumótun og eftirlit
63. Rétt þykir að gera stuttlega grein fyrir helstu störfum Umboðsmanns barna en umboðsmaður gegnir mikilvægu hlutverki er varðar eftirlit með því að ákvæðum samningsins um réttindi barnsins sé framfylgt. Umboðsmaður kynnir einnig efni samningsins í öllu starfi sínu. (68)
64. Umboðmaður barna hélt á árunum 1995-98 fundi með um 11.500 börnum í um 75 grunnskólum landsins þar sem umboðsmaður kynnti embætti sitt og ræddi réttindamál barna. Árið 1997 birti umboðsmaður opið bréf til barna í Morgunblaðinu, víðlesnasta dagblaði Íslands, þar sem embættið var kynnt. Þá hefur umboðsmaður haldið nokkur málþing um hagsmuna- og réttindamál barna og unglinga víða um land þar sem lögð hefur verið höfuðáhersla á virka þátttöku barna. Hafa börnin haldið fyrirlestra, ráðið umræðuefnum og séð um skemmtidagskrá. Þá hafa ráðamenn á hverjum stað setið í pallborði þar sem börnunum einum hefur gefist kostur á að bera upp spurningar. Umboðsmaður hefur einnig haldið fundi með nemendaráðum í grunnskólum, í félagsmiðstöðvum og rætt við börn á öðrum vettvangi.
65. Árið 1995 gaf umboðsmaður barna út tvo bæklinga til að kynna embættið, annan fyrir börn 10-14 ára og hinn ætlaðan eldri börnum og fullorðnum. Bæklingarnir voru endurhannaðir og gefnir út að nýju árið 1997. Þá var opnuð heimasíða embættis umboðsmanns barna árið 1998 og bárust 40 fyrirspurnir frá börnum í gegnum síðuna á árinu.
66. Í tengslum við 10 ára afmæli samningsins um réttindi barnsins er fyrirhugað að senda öllum 10 ára börnum á Íslandi möppu þar sem samningurinn verður kynntur, svo og embætti umboðsmanns barns. Í möppunni verður meðal annars endurútgefinn bæklingur Barnaheilla með samningnum í styttri mynd og bæklingur Námsgagnastofnunar, Réttindi mín.
67. Árið 2000 mun umboðsmaður barna ýta úr vör verkefninu Þingvöllur, sem er gagnvirkur vefur á Netinu. Markmiðið er að gefa íslenskum börnum kost á að koma skoðunum sínum á framfæri í samræmi við 12. gr. samningsins um réttindi barnsins. Þingfulltrúar verða alls 63, eða 32 piltar og 31 stúlka á aldrinum 13-15 ára. Við val þingfulltrúa var höfð samvinna við 25 grunnskóla víðsvegar af landinu en skipting fulltrúa er sú sama og í drögum að nýrri kjördæmaskipan á Íslandi.
68. Umboðsmaður barna gaf árið 1998 út bókina Mannabörn eru merkileg, þar sem leitast er við að draga upp heildstæða mynd af uppvaxtarskilyrðum, aðbúnaði og aðstæðum barna og er samningurinn um réttindi barnsins í hnotskurn birtur í bókinni. Unnið er að útgáfu lögbókar barna, um réttindi og skyldur barna eins og þau birtast í íslenskum lögum.
69. Umboðmaður hefur gefið út eftirfarandi skýrslur:
· "Að mega lýsa og koma á framfæri skoðunum sínum við fullorðna" árið 1996. Niðurstöður könnunar á starfsháttum nemendaráða í grunnskólum skólaárið 1995-96.
· "Meira sólskin - fleiri pizzur" árið 1996. Skoðanakönnun um viðhorf unglinga í vinnuskólum.
· "Ofbeldi í sjónvarpi" árið 1996. Úttekt á framboði ofbeldisefnis í íslensku sjónvarpi.
· "Heggur sá er hlífa skyldi" árið 1997. Skýrsla um kynferðisbrot gegn börnum.
· "Hvað er til ráða?" árið 1998. Bæklingur um áhrif ofbeldisefnis í sjónvarpi á börn.
· "Ungir hafa orðið" árið 1998. Ræður á málþingum um réttinda- og hagsmunamál barna og unglinga.
· "Einelti kemur öllum við" árið 1999. Skýrsla um ráðstefnu umboðsmanns barna um einelti sem haldin var 1998.
70. Umfangsmikill þáttur í starfsemi Umboðsmanns barna er ráðgjöf og leiðbeiningar. Eftirfarandi er yfirlit yfir erindi sem bárust á árunum 1995-1998. Fjölgun skriflegra erinda frá börnum er fyrst og fremst rakin til heimasíðunnar á Netinu sem börn nýta sér í þessu skyni:
Erindi |
1995
|
1996
|
1997
|
1998
|
Símaerindi |
307
|
514
|
750
|
1.043
|
- þar af frá börnum |
13
|
31
|
43
|
33
|
Skrifleg erindi |
49
|
47
|
26
|
81
|
- þar af frá börnum |
7
|
4
|
4
|
40
|
71. Umboðmaður barna hefur átt samskipti við ótal opinbera aðila vegna ýmissa mála á undanförnum árum. Eftirfarandi er yfirlit yfir þau mál sem umboðsmaður barna telur að hafi komist til framkvæmda gagngert fyrir tilstuðlan embættisins:
· að gera umfjöllun um málefni barna á Íslandi meira áberandi á opinberum vettvangi,
· ný lögræðislög og breytingar á lögum vegna hækkaðs sjálfræðisaldurs,
· öryggisreglur um sundstaði,
· bætt meðferð mála um kynferðisbrot gegn börnum með breyttum reglum um fyrningu sakar, skýrslutökur fyrir dómi og réttargæslumann fyrir brotaþola,
· bætt réttarstaða barna sem verða fyrir kynferðisbroti til bótagreiðslna úr ríkissjóði,
· þingsályktunartillaga um mótun opinberrar heildarstefnu í málefnum barna,
· rannsókn á umfangi og eðli eineltis á Íslandi og opnari umræða um vandann,
· átaksverkefni um slysavarnir og slysaskráningu,
· aðgerðir gegn ofbeldi í fjölmiðlum,
· vistun ungra fanga á meðferðarheimilum,
· fyrirhuguð endurskoðun barnaverndarlaga.
72. Meðal þeirra fjölda mála sem umboðsmaður barna vinnur að í dag er að auka virka þátttöku barna í málefnum sveitarfélaga, skólaakstur, vinna barna, að táknmál verði viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra samkvæmt lögum og móðurmálskennsla fyrir nýbúabörn.
73. Þann 13. maí 1997 var samþykkt á Alþingi þingsályktun um mótun opinberrar fjölskyldustefnu og aðgerðir til að styrkja stöðu fjölskyldunnar. Er ríkisstjórn falið að móta opinbera fjölskyldustefnu á grundvelli þeirra meginforsendna og markmiða sem lýst er í ályktuninni og jafnframt falið að framkvæma þær aðgerðir sem kveðið er á um í henni. Í ályktuninni er því lýst yfir að fjölskyldan sé hornsteinn íslensks samfélags og uppspretta lífsgilda. Beri ríkisstjórn og sveitarstjórnum á hverjum tíma að marka sér opinbera stefnu í málefnum fjölskyldunnar í því skyni að styrkja hana og vernda án tillits til gerðar hennar og búsetu. Markmið opinberrar fjölskyldustefnu er að efla fjölskylduna í nútímaþjóðfélagi og skal fjölskyldustefna einkum taka mið af eftirfarandi meginforsendum:
· að velferð fjölskyldunnar byggist á jafnrétti karla og kvenna og sameiginlegri ábyrgð á verkaskiptingu innan hennar,
· að fjölskyldan er vettvangur tilfinningatengsla
· að fjölskyldulífið veitir einstaklingum, einkum börnum, öryggi og tækifæri til að þroska eiginleika sína til hins ýtrasta.
74. Almenn markmið stjórnvalda við framkvæmd fjölskyldustefnu skulu vera:
· að skapa skilyrði til þess að ná jafnvægi milli fjölskyldulífs og atvinnu. Að leggja áherslu á jafna ábyrgð beggja foreldra í heimilishaldi og við umönnun og uppeldi barna sinna,
· að stofnanir samfélagsins, ekki síst skólar og leikskólar, starfi í samvinnu við fjölskylduna og taki mið af ábyrgð foreldra á börnum sínum. Fræðsla um stofnun heimilis verði aukin og unnið verði gegn upplausn fjölskyldna, meðal annars með fjölskylduráðgjöf,
· að grundvallaröryggi fjölskyldunnar efnahagslega sé tryggt ásamt rétti hennar til öryggis í húsnæðismálum,
· að gildi hjónabandsins sem eins traustasta hornsteins fjölskyldunnar verði varðveitt og þess verði meðal annars gætt við setningu skattareglna að þeir sem ganga í hjónaband standi ekki verr að vígi en aðrir í skattalegu tilliti,
· að réttindi og skyldur sambúðarfólks verði kynnt og skilgreind í lögum,
· að heilbrigðisþjónustan taki mið af þörfum fjölskyldunnar sem heildar og tryggt sé að fjölskyldur geti notið stuðnings til að annast aldraða og sjúka. Öldruðum verði gert kleift að taka þátt í samfélaginu svo lengi sem auðið er,
· að tekið verði mið af þörfum fjölskyldunnar við skipulag umhverfis, þjónustu, útivistar og umferðaröryggis,
· að fjölskyldur fatlaðra, sjúkra og annarra hópa njóti nauðsynlegs stuðnings í ljósi aðstæðna hverju sinni. Grundvallarréttur þeirra til fjölskyldustofnunar, heimilis og virkrar þátttöku í samfélaginu verði virtur,
· að fjölskyldur nýbúa fái nauðsynlegan stuðning til að festa rætur í íslensku samfélagi,
· að unnið sé gegn misrétti í garð þeirra sem skera sig úr vegna kynþáttar, trúarbragða eða menningar og í garð fjölskyldna samkynhneigðra,
· að vernd gagnvart ofbeldi verði efld, jafnt innan fjölskyldu sem utan. Fjölskyldur njóti verndar og stuðnings gagnvart ofneyslu áfengis og annarra vímugjafa. Forvarnir vegna áfengis- og vímuefnaneyslu verði auknar,
· að efla skilning á eðli fjölskyldunnar, hlutverki, myndun og upplausn. Þetta verði m.a. gert með auknum stuðningi við fjölskyldurannsóknir og fræðslu um fjölskylduáætlanir.
75. Ályktun Alþingis mælir fyrir um eftirfarandi aðgerðir í þágu fjölskyldunnar:
· Barnafjölskyldur. Staða og afkoma barnafjölskyldna í nútímasamfélagi verði könnuð sérstaklega og úrbætur gerðar þar sem nauðsynlegt er talið.
· Réttur beggja foreldra til fæðingarorlofs. Að feðrum verði tryggður aukinn réttur til fæðingarorlofs og þeir sérstaklega hvattir til að nýta hann.
· Tillaga um fullgildingu samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 156, um starfsfólk með fjölskylduábyrgð. Sköpuð verði skilyrði til þess að Ísland geti fullgilt samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) nr. 156 um jafna möguleika og jafnrétti til handa körlum og konum í atvinnu: Starfsfólk með fjölskylduábyrgð, frá 1981.
76. Í lok árs 1999 var lagt fram á Alþingi frumvarp um bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna, ásamt tillögu um fullgildingu samþykktar ILO nr. 156.
77. Lögum nr. 57/1987 um fæðingarorlof var breytt með lögum nr. 147/1997 sem fjalla um sjálfstæðan rétt föður til tveggja vikna fæðingarorlofs. Þá var í nóvember 1999 skipuð nefnd á vegum félagsmálaráðuneytisins til að huga að samþættingu fæðingarorlofs og foreldraorlofs í skilningi tilskipunar Evrópusambandsins um foreldraorlof 96/34/EB.
78. Samkvæmt þingsályktuninni um mótun opinberrar fjölskyldustefnu var stofnað opinbert fjölskylduráð í byrjun árs 1998 til að stuðla að eflingu og vernd fjölskyldunnar. Fjölskylduráð er skipað fimm mönnum, formaður er skipaður af félagsmálaráðherra án tilnefningar, tveir eru kosnir hlutfallskosningu af Alþingi, einn tilnefndur af Háskóla Íslands og einn tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
79. Hlutverk Fjölskylduráðs er meðal annars eftirfarandi:
· að veita stjórnvöldum ráðgjöf í fjölskyldumálum, t.d. vegna áforma um stjórnvaldsaðgerðir, jafnframt því að koma á framfæri ábendingum um úrbætur í fjölskyldumálum,
· að annast tillögugerð um framkvæmdaáætlanir í málefnum fjölskyldunnar, með hliðsjón af heildarsýn yfir viðfangsefni einstakra ráðuneyta og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga,
· að eiga frumkvæði að opinberri umræðu um málefni fjölskyldunnar og veita leiðbeinandi upplýsingar til fjölskyldna um viðbrögð við nýjum og breyttum aðstæðum,
· að hvetja til aðgerða á sviði fjölskyldumála í samfélaginu,
· að stuðla að rannsóknum á högum og aðstæðum íslenskra fjölskyldna.
80. Fjölskylduráð hélt samráðsfund með ýmsum opinberum aðilum í febrúar 1999 til að ræða fjölskyldustefnu og leiðir til úrbóta. Í kjölfarið hélt Fjölskylduráð ráðstefnu í apríl 1999 þar sem fjölmörg erindi voru haldin um fjölskyldumál og fulltrúar stjórnmálaflokka gerðu grein fyrir stefnu sinni í fjölskyldumálum. Samráðsfundurinn og ráðstefnan voru liður í undirbúningi að mótun fjölskyldustefnu fyrir ríkisstjórn Íslands.
81. Fjölskylduráð sendi út spurningakönnun til sveitarfélaga í ágúst 1999 og var tekið fram að spurningarnar miðuðust einkum við barnafjölskyldur. Vinna úr innsendum svörum stendur nú yfir. Var meðal annars spurt um eftirfarandi:
· hvort sveitarstjórn hafi mótað fjölskyldustefnu fyrir sveitarfélagið eða hvenær undirbúningur muni hefjast,
· sérreglur um fæðingarorlof mæðra og feðra sem starfa hjá sveitarfélaginu,
· möguleika starfsmanna sveitarfélagsins á sveigjanlegum vinnutíma,
· möguleika á sveigjanlegum vistunartíma fyrir börn á leikskóla,
· upplýsingar um fræðslu á vegum sveitarfélags um málefni fjölskyldunnar í formi funda, námskeiða, útgáfu bæklinga eða annars,
· upplýsingar um ráðgjafarþjónustu á vegum sveitarfélags í málefnum fjölskyldunnar,
· upplýsingar um fjölda sérfræðinga að störfum fyrir sveitarfélag, svo sem félagsráðgjafa, námsráðgjafa og sálfræðinga,
· upplýsingar um samstarf sveitarfélags við aðila sem tengjast málefnum fjölskyldunnar eða fjölskylduráðgjöf, svo sem önnur sveitarfélög, heilsugæslu, sjúkrahús, Rauða Kross Íslands, Slysavarnarfélag Íslands, þjóðkirkjuna, ungmennafélög eða íþróttafélög.
82. Samkvæmt stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 28. maí 1999 eru markmið hennar á kjörtímabilinu meðal annars:
· Að styrkja fjölskylduna sem hornstein þjóðfélagsins og treysta samheldni hennar og velferð. Jöfn tækifæri karla og kvenna verði tryggð í hvívetna svo sem með lengingu fæðingarorlofs og jöfnun réttar mæðra og feðra til töku þess. Stuðningur við íþrótta- og æskulýðsstarf verði aukinn og hlúð að öðrum skilyrðum heilbrigðs fjölskyldulífs.
· Að gera áætlun um sérstakt átak í baráttunni gegn fíkniefnavandanum í samstarfi við foreldra og skóla, frjáls félagasamtök á sviði forvarna og meðferðarúrræða auk sveitarfélaga, íþrótta- og ungmennafélaga. Þeir meginþættir, sem unnið verði að, eru auknar forvarnaaðgerðir, samræming starfsemi lögreglu og tollgæslu og fjölgun meðferðarúrræða fyrir unga fíkniefnaneytendur.
83. Haustið 1999 var lögð fram á Alþingi tillaga til þingsályktunar um heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga. Samkvæmt tillögunni skulu markmið stefnumótunar vera að tryggja hag og velferð barna og unglinga á öllum sviðum þjóðlífsins og byggja þeim sem best og jöfnust skilyrði til uppvaxtar og þroska. Í því skyni skuli skipuð nefnd með aðild sex ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Á grundvelli stefnumótunar skuli gerð fimm ára framkvæmdaráætlun í samráði við opinberar stofnanir og félagasamtök, þar með talið félagasamtök unglinga. Er hér fylgt ítrekuðum tillögum Umboðsmanns barna sem lagt hefur áherslu á þetta frá stofnun embættisins.
84. Gefnar hafa verið út nýjar aðalnámskrár fyrir öll skólastigin. Aðalnámskrár eru ígildi reglugerða og er þeim ætlað að marka meginstefnu í kennslu og kennsluskipan. Aðalnámskrárnar voru unnar á grundvelli nýrrar skólastefnu sem meðal annars er ætlað að mæta þeim kröfum sem samningurinn um réttindi barnsins gerir. Helstu áherslur skólastefnunnar eru:
· sjálfstæði nemenda með auknu vali en jafnframt áherslu á skipuleg vinnubrögð og úrlausn verkefna í samræmi við aldur barna og þroska,
· ný námsgrein, lífsleikni, sem skyldunámsgrein bæði í grunnskóla og framhaldsskóla. Tilgangurinn er að stuðla að alhliða þroska nemenda og auka færni þeirra til að takast á við síbreytilegt og flókið samfélag. Áhersla er lögð á mannréttindakennslu,
· að meta sérþarfir nemenda með öflugri greiningu,
· meira nám á skemmri tíma með því að fjölga kennslustundum í grunnskóla jafnt og þétt, hraða yfirferð og gefa nemendum kost á mismunandi námstíma,
· upplýsingatækni sem verkfæri í öllum námsgreinum með því að gera upplýsingalæsi að skyldunámsgrein í grunnskóla, það er hæfni til að safna, greina og setja fram upplýsingar,
· að treysta góða undirstöðukunnáttu í íslensku og stærðfræði,
· að auka áherslu á tungumálakennslu.
85. Skýrsla um rannsóknarverkefnið Alþjóðleg könnun á réttindum barna á heimili og í skóla var gerð árið 1999, en verkefnið var unnið á vegum Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur í samvinnu við Alþjóða sálfræðingafélagið til að öðlast þekkingu á sambandi milli viðhorfa til réttinda barna og félagsmótunar í hverju landi. Var rannsóknin hönnuð með tilliti til réttinda eins og þau eru sett fram í samningnum um réttindi barnsins og var rannsóknin gerð í um 20 löndum. Haldinn var kynningarfundur um verkefnið á vegum Sálfræðingafélags Íslands árið 1995. Niðurstöður benda til þess að íslensk börn telji réttindi sín mikilvægari en önnur börn í öllum hinum þátttökulöndunum. Íslensk börn telji ennfremur að réttindi heima fyrir séu fyrir hendi í meira mæli heldur en önnur börn. Þegar kemur að mati á tilvist réttinda í skóla er íslenska meðaltalið í fjórða sæti þátttökulandanna. Almennt töldu íslensk börn að mikilvægi réttinda væri að jafnaði meira en tilvist, sem bendir til að þau telji réttindum sínum að einhverju leyti ábótavant.
86. Verið er að leggja lokahönd á mótun nýrrar íslenskrar heilbrigðisstefnu til ársins 2005.
87. Unnið hefur verið að stefnumótun á fjölmörgum öðrum sviðum, meðal annars um málefni flóttamanna, um barnavernd og um vímuvarnir, sem nánar verður gerð grein fyrir í umfjöllun um einstakar greinar.
Þátttaka sjálfstæðra félaga í barnavernd og kynningu á samningnum.
88. Samtökin Barnaheill stóðu fyrir fundi um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og stöðu barna á Íslandi í október 1995 og voru niðurstöður og ályktanir fundarins gefnar út á vegum samtakanna. Haustið 1995 voru haldnir fundir á rúmlega 400 vinnustöðum til að dreifa bæklingi og kynna samninginn um réttindi barnsins. Frá árinu 1996 hafa samtökin Barnaheill ásamt Mannréttindaskrifstofu Íslands haldið árlega námskeið í samvinnu við Endurmenntunardeild Kennaraháskóla Íslands um mannréttindakennslu og samninginn um réttindi barnsins. Bæklingur Barnaheilla um samninginn í hnotskurn var endurskoðaður og gefinn út að nýju árið 1999. Honum hefur þegar verið dreift til allra heilsugæslustöðva, sveitarstjórna og leikskóla, og frekari dreifing er fyrirhuguð. Þá hafa Barnaheill staðið fyrir nokkrum ráðstefnum og málþingum, meðal annars var haldin ráðstefna um stöðu erlendra barna á Íslandi í október 1999 í tilefni af 10 ára afmæli samtakanna og samningsins um réttindi barnsins.
89. Árið 1996 gaf Mannréttindaskrifstofan út í sérprentun erindi um mannréttindastarf Sameinuðu þjóðanna. Í lok árs 1999 kemur út hefti sem fjallar um þátttöku Íslands í alþjóðlegu mannréttindastarfi á árunum 1945-1995 þar sem meðal annars verður fjallað um samninginn um réttindi barnsins. Mannréttindaskrifstofan fékk styrk frá dómsmálaráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu til að standa fyrir kynningu á mannréttindum í tengslum við 50 ára afmæli mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna árið 1998. Tóku alls 17 félagasamtök höndum saman og héldu sérstaka barnadagskrá af þessu tilefni.
90. Lögræðingafélag Íslands hélt kynningarfund um samninginn árið 1995. Lögmannafélag Íslands stóð sama ár fyrir námskeiði um mannréttindi, þar sem meðal annars var fjallað um samninginn um réttindi barnsins.
91. Fjölmörg frjáls félagasamtök á Íslandi vinna að hagsmunamálum barna. Þau nota samninginn um réttindi barnsins í baráttu sinni fyrir bættum réttindum og kynna því efni samningsins í starfi sínu.
III. Hugtakið barn
92. Með lögum nr. 160/1998 var barnaverndarlögum nr. 58/1992 breytt í kjölfarið á hækkun sjálfræðisaldurs og eru börn nú skilgreind sem allir einstaklingar undir 18 ára aldri.
Ákvæði sem veita börnum réttindi eða leggja á þau skyldur
93. Í kjölfar hækkunar á sjálfræðisaldri eiga börn rétt á forsjá foreldra sinna til 18 ára aldurs. (77)
Ákvæði sem veita börnum sérstaka vernd
94. Í barnaverndarlögum eru ákvæði um útivistartíma barna. Börn, 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20 nema í fylgd með fullorðnum. Börn, sem eru á aldrinum 13 til 16 ára skulu að sama skapi ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartími barna um tvær klukkustundir. Sveitarstjórnir geta breytt þessum aldursmörkum og tímasetningum með sérstakri samþykkt.
95. Árið 1998 var gerð sú breyting á almennum hegningarlögum nr. 19/1940 að fyrningarfrestur vegna kynferðisbrota telst ekki fyrr en frá þeim degi sem brotaþoli nær 14 ára aldri.
96. Ef brot er framið annaðhvort af börnum undir 18 ára eða gegn þeim er skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd. (80)
97. Árið 1999 var lögum nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála breytt þannig að settar voru sérreglur um skýrslutöku af öllum börnum sem verða fyrir kynferðisbroti. Dómari skal taka skýrslu af barni á rannsóknarstigi með það að markmiði að barn þurfi að jafnaði ekki að endurtaka skýrslugjöf. (81)
98. Samkvæmt lögum um hollustuhætti og aðbúnað á vinnustöðum nr. 46/1980, sbr. lög nr. 52/1997, gilda ýmsar sérreglur um vinnu barna. Samkvæmt þessum lögum er barn sérhver einstaklingur sem er undir 15 ára aldri eða sem er í skyldunámi. Unglingur er einstaklingur sem er minnst 15 ára en hefur ekki náð 18 ára aldri og er ekki lengur í skyldunámi. Ungmenni merkir í lögunum einstakling undir 18 ára aldri. Börn má almennt ekki ráða í vinnu nema í tilteknum undantekningartilvikum, meðal annars er heimilt að ráða börn sem náð hafa 14 ára aldri til starfa af léttara tagi. Óheimilt er að ráða ungmenni til erfiðisvinnu eða vinnu sem er hættuleg. Lögin hafa einnig að geyma ákvæði um virkan vinnutíma barna og unglinga og ákvæði um lágmarkshvíld. (82)
Ákvæði sem tilskilja lágmarksaldur til að öðlast tiltekin réttindi
99. Með nýjum lögræðislögum nr. 71/1997 var sjálfræðisaldur barna hækkaður úr 16 árum í 18 ár. (83)
100. Samkvæmt lögum nr. 25/1975 um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf, barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir skal kona sækja sjálf um fóstureyðingu. Ef kona er yngri en 16 ára skal forsjárforeldri taka þátt í umsókn með henni nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Ekki er gert ráð fyrir breytingum á þessum ákvæðum.
101. Samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 hafa þeir rétt til bóta sem eru orðnir 16 ára að aldri og uppfylla að auki önnur skilyrði.
102. Samkvæmt lögum um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 skulu upplýsingar um heilsufar og meðferð sjúklings yngri en 16 ára veittar foreldrum. Þá skulu foreldrar sem fara með forsjá barns veita samþykki fyrir nauðsynlegri meðferð barns yngra en 16 ára. Ekki er nauðsynlega gert ráð fyrir breytingum á þessum ákvæðum.
103. Lagt var fram á Alþingi haustið 1999 frumvarp til nýrra laga um trúfélög. Þar er gert ráð fyrir að hækka aldursmörk þeirra sem geta tekið ákvörðun um aðild að trúfélagi, úr 16 árum í 18 ár, í samræmi við hækkun sjálfræðisaldurs. (87)
104. Lögum um tóbaksvarnir nr. 74/1984 var breytt með lögum nr. 101/1996, meðal annars vegna neikvæðrar þróunar varðandi reykingar unglinga. Voru aldursmörk til tóbakskaupa hækkuð úr 16 árum í 18 ár.
105. Lögum um lögheimili nr. 21/1990 var breytt með lögum nr. 145/1998. Eiga börn 17 ára eða yngri nú sama lögheimili og foreldri sem fer með forsjá þess, í stað 15 ára og yngri áður.
106. Lögum um mannanöfn nr. 45/1996 var breytt með lögum nr. 150/1998. Til samræmis við hækkun sjálfræðisaldurs voru aldursmörk til að óska eftir nafnbreytingu hækkuð úr 16 árum í 18 ár. Nafnbreyting barns undir 18 ára aldri er háð samþykki þess hafi það náð 12 ára aldri.
107. Samkvæmt nýjum vopnalögum nr.16/1998 er það enn skilyrði fyrir veitingu skotvopnaleyfis að umsækjandi hafi náð 20 ára aldri, auk frekari skilyrða samkvæmt lögunum. (86)
108. Ný áfengislög nr. 75/1998 tóku gildi þann 1. júlí 1998. Samkvæmt lögunum var skipuð nefnd með það verkefni að kanna hvort æskilegt sé að breyta áfengiskaupaaldri á Íslandi úr 20 árum í 18 ár. Nefndin skal einnig meta hvort rétt sé að skoða samhliða slíkri breytingu að færa aldurinn til ökuleyfis úr 17 árum í 18 ár og að lækka leyfilegt áfengismagn í blóði 17—20 ára við akstur í 0_. (91)
109. Með hækkun sjálfræðisaldurs og breytingu á skilgreiningu barns í barnaverndarlögum má segja að íslensk löggjöf skilgreini börn með sama hætti og 1. gr. samningsins um réttindi barnsins. Mismunandi aldursmörk til að njóta réttinda og verndar verða að teljast eiga rétt á sér í sumum tilvikum til að tryggja börnum stigvaxandi réttindi miðað við aldur og þroska. (93)
110. Í athugasemdum umboðsmanns barna við frumvarp til nýrra lögræðislaga var bent á að þó hækkun sjálfræðisaldurs tryggi réttarstöðu barna gagnvart foreldrum þá verði ekki litið framhjá því að jafnframt skerði þetta rétt barna til að ráða sér almennt sjálf. Að mati umboðsmanns er þýðingarmikið að börnum á aldrinum 16-18 ára verði tryggt sjálfræði á vissum sviðum og hefur verið lögð áhersla á að börn verði ekki svipt sjálfsákvörðunarrétti í tilteknum tilvikum nema brýnir hagsmunir barna krefjist þess.
IV. Almennar meginreglur
(a) Jafnræðisregla (2. grein)
111. Samkvæmt 65. gr. íslensku stjórnarskrárinnar nr. 33/1994, sbr. lög nr. 97/1995, skulu allir vera jafnir fyrir lögunum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna. (94)
112. Í mikilvægum dómi Hæstaréttar Íslands frá 20. febrúar 1997 reyndi á ákvæði 65. gr. í máli 13 ára stúlku sem krafði íslenska ríkið um bætur vegna slyss. Af hálfu ríkisins var þess krafist að við útreikning framtíðartjóns stúlkunnar væri einungis miðað við 75% af tilteknum meðaltekjum sem voru almennt lagðar til grundvallar óskertar ef um unga pilta var að ræða. Var þetta byggt á útreikningum um að meðaltekjur kvenna væru yfirleitt lægri en karla. Niðurstaða Hæstaréttar var sú að mismunun um áætlun framtíðartekna yrði ekki réttlætt með skírskotun til meðaltalsreikninga. Í ljósi 65. gr. stjórnarskrárinnar voru óskertar meðaltekjur lagðar til grundvallar við mat á framtíðartekjutapi stúlkunnar.
113. Þann 28. maí 1998 var samþykkt á Alþingi framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna. Leiðarljós áætlunarinnar er að sjónarmið jafnréttis verði fléttað inn í alla þætti stefnumótunar, ákvarðana og aðgerða á vegum ríkisins og er tekið fram að formlegt eða lagalegt jafnrétti nægi ekki ef það skili sér ekki til raunverulegs jafnréttis í lífi og starfi beggja kynja. Lögð er áhersla á að jafnréttismál varði bæði konur og karla og að samvinna beggja kynja sé nauðsynleg forsenda árangurs. Í áætluninni eru talin upp fjölmörg verkefni einstakra ráðuneyta, meðal annars er lögð áhersla á að skólar vinni ötullega að því að tryggja jafnan rétt drengja og stúlkna, fræði nemendur um stöðu kynjanna og vinni gegn því að nemendur festist í farvegi hefðbundinnar verkaskiptingar kynjanna. Stefnt er að því að auka jafnréttisfræðslu í skólum og leggja sérstaka áherslu á styrkleika beggja kynja, skyldur beggja og réttindi.
114. Í lok árs 1999 var lagt fram á Alþingi frumvarp til jafnréttislaga. Markmiðið er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Meginástæður fyrir endurskoðun gildandi laga eru taldar annars vegar þær breytingar sem orðið hafa á undanförnum árum í jafnréttismálum, hvorttveggja á verkefnum og aðferðarfræði og hins vegar sú staðreynd að ekki hefur nægilega miðað í jafnréttisátt á ýmsum mikilvægum sviðum samfélagsins. Við samningu frumvarpsins var sérstaklega hugað að skyldum sem íslensk stjórnvöld hafa undirgengist á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES).
115. Í lögum nr. 66/1995 um grunnskóla er tekið fram að markmið náms og kennslu og starfshættir grunnskólans skuli vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun vegna uppruna, kyns, búsetu, stéttar, trúarbragða eða fötlunar. Einnig er ákvæði um að í öllu skólastarfi skuli tekið mið af mismunandi persónugerð, þroska, hæfileikum, getu og áhugasviðum nemenda. (97)
116. Virðing fyrir jafnrétti er áréttuð í aðalnámskrám leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.
117. Með lögum nr. 135/1996 voru gerðar breytingar á almennum hegningarlögum nr. 19/1940. Samkvæmt 180. gr. skal hver sá sem í atvinnurekstri eða þjónustustarfsemi neitar manni um vöru eða þjónustu til jafns við aðra, á grundvelli þjóðernis hans, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar, sæta sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum. Sömu refsingu varðar að neita manni um aðgang til jafns við aðra að opinberum samkomustað eða öðrum stöðum sem opnir eru almenningi. Breytingar voru gerðar á 233. gr. a. þannig að nú varðar það sektum eða fangelsi allt að 2 árum að ráðast opinberlega með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt á mann eða hóp manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar. Með þessum breytingum var bætt réttarstaða einstaklinga innan þessara tilgreindu hópa og bætt réttarstaða samkynhneigðra. (96)
(b) Hagsmunir barnsins í fyrirrúmi (3. grein)
118. Markmiðsgrein barnaverndarlaga nr. 58/1992 var lítillega breytt með lögum nr. 160/1998 og hljóðar hún nú svo: "Markmið barnaverndar er að tryggja börnum viðunandi uppeldisskilyrði. Skal það gert með því að styrkja uppeldishlutverk fjölskyldunnar og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við. Í barnaverndarstarfi skal jafnan það ráð upp taka sem ætla má að barni sé fyrir bestu. Skal barnaverndarstarfi hagað þannig að það stuðli að stöðugleika í uppvexti barna. Börn skulu njóta réttinda í samræmi við aldur og þroska." (98)
119. Minnt er á að barnaverndarlög gilda nú með sama hætti um öll börn undir 18 ára aldri. Heildarfjöldi tilkynninga til barnaverndarnefnda á Íslandi var 2.359 á árinu 1998. Eftirfarandi er sundurliðun á tilkynningum eftir því frá hverjum þær bárust: (100-102)
Tilkynningar til barnaverndarnefnda |
1998
|
Lögregla |
762
|
Skóli/skólaskrifstofa/leikskóli |
428
|
Foreldrar |
375
|
Nágrannar |
223
|
Ættingjar |
186
|
Heilbrigðisyfirvöld |
150
|
Önnur barnaverndarnefnd |
69
|
Barnið sjálft |
15
|
Aðrir |
151
|
Tilkynningar alls |
2.359
|
120. Ákvæði 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, um að börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst, er meðal annars sett til þess að árétta að hagsmunir barna geti réttlætt skerðingu á réttindum annarra.
121. Samkvæmt lögum nr. 74/1997 skal læknir eða annar heilbrigðisstarfsmaður snúa sér til barnaverndaryfirvalda ef foreldrar sem fara með forsjá barns neita að samþykkja nauðsynlega
meðferð. Ef ekki vinnst tími til að leita liðsinnis barnaverndaryfirvalda vegna lífsnauðsynlegrar bráðameðferðar á sjúku barni er skylt að hafa heilbrigði þess að leiðarljósi og grípa tafarlaust til nauðsynlegrar meðferðar.
122. Ákvæði um tillit til þarfa og hagsmuna hvers nemenda eru áréttuð í nýjum lögum um grunn- og framhaldsskóla, svo og í nýjum aðalnámskrám fyrir öll skólastig. (106)
(c)Réttur til lífs, afkomu og þroska (6. grein)
123. Markmið laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 er að tryggja sjúklingum tiltekin réttindi í samræmi við almenn mannréttindi og mannhelgi og styrkja þannig réttarstöðu þeirra gagnvart heilbrigðisþjónustunni. Í lögunum er sérstakt ákvæði um skyldu til að gera allt sem unnt er til að sjúkt barn fái að þroskast og njóta lífsgæða þrátt fyrir veikindi og meðferð eftir því sem ástand þess leyfir.
124. Fjöldi fóstureyðinga á Íslandi samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum: (112)
Fóstureyðingar
|
Fjöldi alls
|
Fjöldi á 100 lifandi fæddra barna
|
1993
|
827
|
17.8
|
1994
|
775
|
17.4
|
1995
|
807
|
18.8
|
1996
|
854
|
19.6
|
1997
|
921
|
22.1
|
(d) Virðing fyrir sjónarmiðum barnsins (12. grein)
125. Með lögum nr. 160/1998, um breytingu á barnaverndarlögum nr. 58/1992, var lögfest nýtt ákvæði, 43. gr. a, um réttindi barns við málsmeðferð. Var formlegur réttur barna til að tjá sig í barnaverndarmálum aukinn með vísan til 12. gr. samningsins um réttindi barnsins. Samkvæmt 43. gr. a. ber að veita barni kost á að tjá sig um mál sem það varðar og taka skal réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn máls, allt í samræmi við aldur og þroska barnsins. Ávallt skal veita barni 12 ára og eldri kost á að tjá sig um mál. Þá var rýmkað ákvæðið um skipan talsmanns fyrir börn en barnaverndarnefnd ber nú að skipa barni talsmann til að gæta hagsmuna þess ef þörf krefur. (117)
126. Á árinu 1998 leituðu barnaverndarnefndir upplýsinga hjá 692 börnum vegna vinnslu einstakra barnaverndarmála, eða tæplega 30% af heildarfjölda barna sem fengu aðstoð á árinu. Skipaður var talsmaður fyrir barn í 9 tilvikum.
127. Nafnabreytingar eru háðar samþykki barns sem náð hefur 12 ára aldri samkvæmt lögum nr. 45/1996. (121)
128. Samkvæmt lögum um réttindi sjúklinga skulu sjúkum börnum veittar upplýsingar um heilsufar og meðferð að teknu tilliti til aldurs þeirra og þroska. Þau eiga sama rétt og aðrir á að hafna því að fá upplýsingar. Eftir því sem kostur er skulu sjúk börn höfð með í ráðum varðandi samþykki fyrir nauðsynlegri meðferð og alltaf ef þau eru 12 ára eða eldri.
129. Með nýjum grunnskólalögum nr. 66/1995 var fellt niður heimildarákvæði um setu fulltrúa nemenda á fundum skólastjóra og kennararáðs og á kennarafundum, þar sem rétt þótti að hafa það í valdi hvers skóla hvernig formlegri aðild nemenda að stjórn skólans væri fyrir komið. Í nýrri aðalnámskrá fyrir grunnskóla er lögð áhersla á mikilvægi þess að allt skólasamfélagið, það er starfsfólk skóla, foreldrar og nemendur, taki þátt í umræðum og komi að stefnumótun í öllum málefnum sem snúa að því sem fram fer í skólanum. Í lögunum er ákvæði um að nemendum grunnskóla sé heimilt að stofna nemendaráð sem vinnur að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum þeirra. Skólastjóri skal fela einum af kennurum skólans að aðstoða nemendaráð. Jafnframt er ákvæði um að skólastjóri skuli að minnsta kosti tvisvar á ári boða til sameiginlegs fundar kennararáðs, foreldraráðs og nemendaráðs til þess að veita upplýsingar um skólastarfið og fjalla um málefni þessara ráða.
130. Samkvæmt reglugerð nr. 385/1996 um skólareglur og aga í grunnskólum ber skólastjóra að kynna fyrir nemendum grunnskóla settar skólareglur um almenna umgengni og hegðun nemenda og samskipti þeirra við aðra. Nemendum og forsjáraðilum skal alltaf gefinn kostur á að tjá sig um meint agabrot nemenda í skóla.
131. Með reglugerð nr. 710/1996 er nemendum í grunnskóla og forsjáraðilum þeirra tryggður réttur til að skoða metnar prófúrlausnir nemenda og að skoða þau gögn sem liggja til grundvallar hvers konar skriflegum vitnisburði um námsstöðu nemandans.
132. Samkvæmt lögum nr. 80/1996 um framhaldsskóla skal starfa nemendaráð í hverjum framhaldsskóla sem er fulltrúi nemenda í hagsmunamálum þeirra. Nemendaráð hefur tillögu- og umsagnarrétt um markmið náms, námsefni og kennslutilhögun í skóla sínum. Almenn samtök nemenda í hverjum skóla, nemendafélög, setja reglur um skipan, starfssvið og starfshætti nemendaráðs. Nemendafélög tilnefna jafnframt einn áheyrnarfulltrúa með málfrelsi og tillögurétt á fundum skólanefnda sem ætlað er að marka áherslur í starfi hvers framhaldsskóla.
133. Vísað er til umfjöllunar í 67. mgr. um Þingvöll, nýtt verkefni umboðsmanns barna.
134. Í mars 1999 var haldið á Alþingi sérstakt þriggja daga Alþingi ungmenna í tilefni af 50 ára afmæli Evrópuráðsins. Ræddu ungmenni ýmis mál og samþykktu ályktanir, svo sem um ungt fólk og menntun á 21. öldinni og umhverfisvernd á Íslandi.
135. Ísland sendi tvo fulltrúa á þing æskunnar í París í október 1999, sem haldið var af menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, og franska þjóðþinginu. Tilgangurinn var meðal annars að fjalla um og samþykkja Yfirlýsingu ungmenna fyrir 21 öldina, sem lið í undirbúningi fyrir Alþjóðaár friðarmenningar árið 2000. Öllum íslenskum grunnskólabörnum var boðið að senda inn tillögur.
V. Borgaraleg réttindi
(a) Nafn og þjóðerni (7. grein)
136. Ný lög um mannanöfn nr. 45/1996 tóku gildi 1. janúar 1997. Markmið laganna var meðal annars að auka frelsi í nafngiftum frá því sem var, einkum með því að heimila aðlöguð erlend nöfn og með því að heimila millinöfn, einnig að jafna nafnrétt manna með því að auka rétt erlendra manna sem gerast íslenskir ríkisborgarar. Ákvæði um skyldu til nafngiftar og sektarheimildir eru óbreytt. Dagsektum hefur aldrei verið beitt. (126)
137. Samkvæmt lögunum er því ekki lengur tilskilið að eiginnafn skuli að jafnaði vera íslenskt. Fái maður sem heitir erlendu nafni íslenskt ríkisfang má hann halda fullu nafni sínu óbreyttu. Á þetta einnig við um börn hans sem fá ríkisfang með honum. Þeim er heimilt að taka upp eiginnöfn, millinöfn og/eða kenninöfn í samræmi við ákvæði mannanafnalaga. Þeim, sem fyrir gildisgöku laganna fengu íslenskt ríkisfang með því skilyrði að þeir breyttu nöfnum sínum í samræmi við ákvæði eldri mannanafnalaga, er heimilt með leyfi dómsmálaráðherra að taka aftur upp þau nöfn sem þeir báru fyrir og/eða fella niður þau nöfn sem þeim var gert að taka sér.
138. Nafnabreytingar eru háðar samþykki foreldra ef maður er yngri en 18 ára gamall.
139. Um ríkisborgararétt er nú fjallað í 66. gr. stjórnarskrárinnar. Veita má útlendingi íslenskan ríkisborgararétt samkvæmt lögum, en ekki einungis með lögum eins og áður var. Með þessu er löggjafanum veitt svigrúm til að setja almenn lög um veitingu ríkisborgararéttar. Með lögum nr. 62/1998 voru gerðar allnokkrar breytingar á lögum um íslenskan ríkisborgararétt nr. 100/1952, meðal annars þær að dómsmálaráðherra geti veitt útlendingum sem sækja um og uppfylla nánar tiltekin skilyrði íslenskan ríkisborgararétt án þess að umsókn þurfi að leggja fyrir Alþingi. Alþingi getur þó jafnframt veitt ríkisborgararétt með sérstökum lögum. (132, 134)
140. Samkvæmt núgildandi lögum um ríkisborgararétt öðlast barn íslenskt ríkisfang við fæðingu ef móðir þess er íslenskur ríkisborgari eða ef móðir hefur annað ríkisfang en er gift íslenskum ríkisborgara. Afnuminn hefur verið munurinn á skilgetnum og óskilgetnum börnum. Eignist ógift kona, sem er erlendur ríkisborgari, barn hér á landi öðlast það íslenskan ríkisborgararétt ef karlmaður, sem er íslenskur ríkisborgari, er faðir þess samkvæmt barnalögum. Eignist ógift kona, sem er erlendur ríkisborgari, barn erlendis með karlmanni sem er íslenskur ríkisborgari getur faðirinn, áður en barnið nær 18 ára aldri, óskað þess við dómsmálaráðuneytið að barnið öðlist íslenskan ríkisborgararétt. Skal hafa samráð við barnið hafi það náð 12 ára aldri. (132)
141. Erlent barn, sem ættleitt er af íslenskum ríkisborgara með leyfi íslenskra stjórnvalda, öðlast íslenskt ríkisfang við ættleiðinguna ef það er yngra en 12 ára. Erlent barn, yngra en 12 ára, sem ættleitt er af íslenskum ríkisborgara með erlendri ákvörðun, sem íslensk stjórnvöld viðurkenna, öðlast íslenskt ríkisfang við staðfestingu dómsmálaráðuneytisins að ósk ættleiðanda.
142. Dómsmálaráðherra er einnig heimilt að veita íslenskan ríkisborgararétt barni sem er fætt á Íslandi og sannanlega hefur ekki öðlast annan ríkisborgararétt við fæðingu og hefur ekki öðlast hann, eða átt rétt til að öðlast hann, þegar umsókn um ríkisborgararétt er borin fram. Barnið skal hafa átt lögheimili og samfellda dvöl hér á landi frá fæðingu í að minnsta kosti þrjú ár. Þetta ákvæði var rökstutt með vísan til samningins um réttindi barnsins og samnings Evrópuráðsins um ríkisborgararétt frá 1997 sem Ísland hefur undirritað. (133)
(b) Réttur til að varðveita auðkenni (8. grein)
143. Ekki voru gerðar sérstakar efnisbreytingar á ákvæðinu um missi ríkisborgararéttar í 7. gr. laganna um íslenskan ríkisborgararétt. (135)
144. Nú hefur einhver, sem öðlast hefur íslenskt ríkisfang við fæðingu og átt hefur hér lögheimili til fullnaðs 18 ára aldurs, misst íslenskt ríkisfang sitt, og fær hann þá ríkisfangið að nýju, hafi hann átt hér lögheimili síðustu 2 árin, með því að tilkynna dómsmálaráðuneytinu skriflega þá ósk sína, sbr. 4. gr. laganna. Hefur verið fellt niður það skilyrði fyrir endurveitingu að viðkomandi sanni að hann missi við það erlent ríkisfang. Engin sérstök áhersla er því lengur lögð á að koma í veg fyrir tvöfaldan ríkisborgararétt. (136)
145. Íslenskur ríkisborgari, sem fæddur er erlendis og aldrei hefur átt lögheimili hér á landi né hefur dvalist hér í einhverju skyni, missir íslenskt ríkisfang þegar hann verður 22 ára. Þó getur forseti leyft, að hann haldi ríkisfangi sínu, ef um það er sótt innan þess tíma. Með lögum nr. 62/1998 var gerð sú breyting að hann missir þó ekki íslenskt ríkisfang verði hann við það ríkisfangslaus. (137)
146. Um mannanöfn erlendra manna var fjallað í 137. mgr. (138-140)
(c) Tjáningarfrelsi (13. grein)
147. Samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar, á hver maður rétt á að láta í ljós hugsanir sínar en verður þó að ábyrgjast þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða. Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. (141)
148. Skorður við almennt tjáningarfrelsi eru stundum réttlættar með sérstakri vísan til hagsmuna barna, sbr. lög nr. 47/1995 um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum. Má einnig nefna bann við áfengisauglýsingum, sbr. 20. gr. áfengislaga nr. 75/1998, en Hæstiréttur Íslands taldi það ákvæði ekki brjóta í bága við 73. gr. stjórnarskrárinnar í dómi sínum frá 25. febrúar 1999 og var vísað þar meðal annars til fræðilegra athugana, sem gerðar hafa verið að tilhlutan Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar WHO sem gefa vísbendingar um að áfengisauglýsingar hafi áhrif til aukinnar drykkju, ekki síst meðal yngri aldurshópa. (142)
(d) Aðgangur að upplýsingum (17. grein)
149. Fjölmiðlum á Íslandi hefur fjölgað jafnt og þétt á undanförnum árum. Árið 1998 voru starfræktar níu sjónvarpsstöðvar auk ríkissjónvarpsins og á þriðja tug útvarpsstöðva. Erlendar sjónvarpsstöðvar í endurvarpi voru alls 22. (146)
150. Ríkissjónvarpið sendi út um 500 stundir af barna- og unglingaefni árið 1998. Um 90% þess var erlent efni en erlent barnaefni er að mestu leyti talsett. Heildarútsendingartími Ríkissjónvarpsins var að jafnaði 9 klukkustundir á dag.
151. Ríkisútvarpið rekur 2 stöðvar á landsvísu sem sendu út alls um 250 stundir af barna- og unglingaefni árið 1998.
152. Stærsta einkarekna sjónvarpsstöðin, Stöð 2, sendi út um 700 stundir af barna- og unglingaefni árið 1998. Um 98% var erlent efni og var um 60% efnisins talsett, fyrst og fremst efni fyrir yngri aldurshópana. Heildarútsendingartími Stöðvar 2 árið 1998 var að jafnaði 16 klukkustundir á sólarhring. Síðla árs 1999 hóf Stöð 2 útsendingar á morgunsjónvarpi, því fyrsta sinnar tegundar á Íslandi, sem felur í sér aukningu á daglegu framboði barnaefnis í sjónvarpi.
153. Í nóvember 1999 var lagt fram á Alþingi frumvarp til nýrra útvarpslaga. Í frumvarpinu eru tekin upp ákvæði um vernd barna gegn óheimilu efni og um vernd barna gegn ótilhlýðilegum auglýsingum, sem ætlað er að styrkja ákvæði samkeppnislaga nr. 8/1993 um sama efni.
154. Árið 1998 voru starfrækt á Íslandi 25 kvikmyndahús með 45 sali, alls voru að meðaltali 860 sýningar á hverri viku og var heildarfjöldi gesta um 1.5 milljónir. Þess má geta að hlutfall kvikmyndahúsa- og leikhúsgesta á Íslandi miðað við mannfjölda er með því hæsta í heimi.
155. Árið 1998 voru um 1.800 íslenskar eða þýddar bækur gefnar út á Íslandi. Þar af voru barnabækur 146 og kennslubækur 263. Árið 1997 komu út 143 barnabækur og 303 kennslubækur. Bókaútgáfa á Íslandi er talsvert meiri en á hinum Norðurlöndunum, eða um 6 bækur á ári að meðaltali á hverja 1000 íbúa. (150)
156. Árið 1998 voru gefin út á Íslandi 23 fréttablöð, þar af 3 dagblöð. Það stærsta, Morgunblaðið, er daglega gefið út í um 53 þúsund eintökum. Með því fylgir vikulega sérblað fyrir börn. Með öðru stærsta blaðinu, Dagblaðinu, fylgir vikulega sérstakt blað fyrir unglinga. Þá voru gefin út árið 1998 um 1000 tímarit, samanborið við um 600 árið 1993, en um 10 tímarit, auk teiknimyndasagna, eru sérstaklega fyrir börn.
157. Á undanförnum árum hefur orðið bylting í upplýsingamálum sem Ísland hefur ekki farið varhluta af og notkun tölvutækni og Netsins hefur aukist mjög hratt. Samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands hafa um 60% Íslendinga aðgang að tölvu á heimili. Þar af eru rúmlega 50% með mótald og tengingu við Netið, miðað við 3% árið 1994. Eru þetta nær tvöfalt fleiri en á hinum Norðurlöndunum. Áætlaður fjöldi netnotenda á Íslandi er um 45% af mannfjölda sem er með því hæsta í heimi.
158. Samkvæmt nýjum aðalnámskrám grunn- og framhaldsskóla frá 1999 er tekin upp ný námsgrein, upplýsinga- og tæknimennt. Lögð er áhersla á að bæði kynin verði að öðlast trausta þekkingu á tölvum og upplýsingatækni nútímans. Einnig er lögð almenn áhersla á upplýsingalæsi, en það er sú þekking og færni sem þarf til þess að afla, flokka, vinna úr og miðla upplýsingum á gagnrýninn og skapandi hátt. Nemendum er kennt að afla upplýsinga úr bókum, af tölvunetum, myndefni, hljóðrituðu efni og öðrum miðlum. Samhliða læra nemendur að meta upplýsingar og vinna úr þeim á skipulegan hátt. Upplýsingamennt er gerð að sjálfstæðum þætti í námi og einnig samþætt við annað nám nemenda til að undirstrika þá staðreynd að upplýsingalæsi er öðrum þræði sérstök aðferð til að afla sér af sjálfsdáðum þekkingar og færni á ólíkum sviðum.
159. Um kvikmyndir gilda nú lög nr. 47/1995 um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum. Bannað er að framleiða hér á landi eða flytja til landsins ofbeldiskvikmyndir og enn fremur er bönnuð sýning, dreifing og sala slíkra mynda. Menntamálaráðherra skipar sex manna nefnd, sem starfar undir heitinu Kvikmyndaskoðun, til þriggja ára í senn. Telji Kvikmyndaskoðun kvikmynd vera ofbeldiskvikmynd í skilningi laganna úrskurðar hún að dreifing og sýning kvikmyndarinnar skuli vera bönnuð á Íslandi. Teljist kvikmynd geta haft skaðleg áhrif á siðferði eða sálarlíf barna, að mati Kvikmyndaskoðunar, ákveður hún hvort banna skuli að sýna eða afhenda kvikmyndina börnum innan 16 ára aldurs eða á tilteknum aldursskeiðum innan þess aldurs. Kvikmyndaskoðun er heimilt að ákveða sérstök aldursmörk fyrir mismunandi myndmiðla. Kvikmyndaskoðun skoðaði alls 172 myndir árið 1998, settar voru aldurstakmarkanir á um 55% þeirra og um 20% voru bannaðar innan 16 ára aldurs. (151)
160. Sjónvarpsstöðvar, sem leyfi hafa til útvarps, annast skoðun kvikmynda sem sýna á í dagskrá, að höfðu samráði við Kvikmyndaskoðun.
161. Heimilt er að setja reglur um skoðun tölvuforrita sem hafa að geyma gagnvirka leiki til að tryggja að notkun þeirra sé ekki í ósamræmi við tilgang laganna um bann við ofbeldiskvikmyndum. Skal þá haga slíkri skoðun með áþekkum hætti og skoðun kvikmynda að fengnum tillögum Kvikmyndaskoðunar.
162. Þann 1. janúar 1997 tóku gildi upplýsingalög nr. 50/1996. Markmið þeirra er fyrst og fremst að gera borgurum kleift að fylgjast með athöfnum og starfsemi þeirra stofnana sem reknar eru í almennings þágu. Er þetta talin ein forsenda lýðræðislegra stjórnarhátta og til þess fallið að auka aðhald á starfsemi stjórnsýslunnar. Samkvæmt lögunum er stjórnsýslustofnunum ríkis og sveitarfélaga skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með nánar tilgreindum takmörkunum. Stjórnvöldum er jafnframt almennt skylt, sé þess óskað, að veita aðila aðgang að skjölum og öðrum gögnum sem varða tiltekið mál ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Í upplýsingalögunum eru ekki sett nein aldursskilyrði um þá sem óskað geta aðgangs að gögnum. Þannig er talið að börn og unglingar eigi rétt á gögnum hafi þau nægan þroska til að skilja þær upplýsingar sem óskað er aðgangs að.
(e) Réttur til frjálsar hugsunar, sannfæringar og trúar (14. grein)
163. Samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar eru allir frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Óheimilt er að mæla fyrir um nokkrar takmarkanir á þessum réttindum. (155)
164. Ákvæði 62. gr. stjórnarskrárinnar um hina íslensku þjóðkirkju er óbreytt. Þann 1. janúar 1998 tóku gildi ný lög nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Markmið þeirra er að þjóðkirkjan fái mun meira sjálfstæði á starfs- og stjórnunarsviði sínu í því skyni að efla hana til starfa og átaka til aukins velfarnaðar með þjóðinni. (156)
165. Með lögum nr. 97/1995 voru gerðar smávægilegar breytingar á 63. og 64. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt 63. gr. stjórnarskrárinnar eiga allir rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Þó má ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu. Í 64. gr. segir að enginn megi neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna, né heldur má nokkur fyrir þá sök skorast undan almennri þegnskyldu. Öllum er frjálst að standa utan trúfélaga og enginn er skyldaður til að inna af hendi persónuleg gjöld til trúfélags sem hann á ekki aðild að. (156)
166. Lagt var fram á Alþingi haustið 1999 frumvarp til nýrra laga um trúfélög sem hefur það meðal annars að markmiði að setja skýrari reglur um skilgreiningu á trúfélögum og hvað greini þau frá annars konar félögum, með hliðsjón af ákvæðum laga eða stjórnarskrár. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því skilyrði fyrir skráningu trúfélags að um sé að ræða félag sem leggi stund á átrúnað eða trú sem tengja megi við þau trúarbrögð mannkyns sem eiga sér sögulegar eða menningarlegar rætur. Enn fremur að félag hafi náð fótfestu, starfsemi þess sé virk og stöðug og að í félaginu sé kjarni félagsmanna sem reglulega iðki trú sína í samræmi við kenningar þær sem félagið er stofnað um. Eins og áður segir gerir frumvarpið ráð fyrir að hækka aldursmörk þeirra sem geta tekið ákvörðun um aðild að trúfélagi, úr 16 árum í 18 ár, í samræmi við hækkun sjálfræðisaldurs. (157-158)
167. Samkvæmt jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar er tekið fram að allir skuli njóta mannréttinda, meðal annars án tillits til trúarbragða.
168. Skráning í trúfélög og utan trúfélaga á Íslandi 1. desember 1998 er sem hér segir: (160)
Fjöldi í trúfélögum - Íbúar á Íslandi í árslok 1998 alls 275.277
|
Þjóðkirkjan246.012Vegurinn721 |
Fríkirkjur10.007Kletturinn - kristið samfélag78 |
Kaþólska kirkjan3.513Búddistafélag Íslands349 |
Aðventistar723Kefas - kristið samfélag47 |
Hvítasunnusöfnuður1.349Baptistakirkjan4 |
Sjónarhæðarsöfnuður49Félag múslima á Íslandi89 |
Vottar Jehóva616Íslenska Kristskirkjan132 |
Baháisamfélag425Boðunarkirkjan45 |
Ásatrúarfélag301Samfélag trúaðra23 |
Krossinn542Önnur trúfélög og ótilgreint4.335 |
Kirkja Jesú Krists h.s.d.h.171Utan trúfélaga5.746 |
169. Í 2. gr. grunnskólalaga nr. 66/1995 segir að starfshættir skóla skuli mótast af umburðarlyndi, kristilegu siðgæði og lýðræðislegu samstarfi. Í grunnskólalögum er áréttað að í námi og kennslu skuli hafa það markmið að koma í veg fyrir mismunun, meðal annars á grundvelli trúarbragða. Í skólastarfi skal m.a. leggja áherslu á að efla sjálfsvitund og félagsvitund nemenda, hæfni nemenda til að skilja orsakasamhengi og draga rökréttar ályktanir og efla skilning og frjótt, skapandi starf.
170. Samkvæmt 30. gr. grunnskólalaga skal setja ákvæði um inntak og skipulag náms í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræði í aðalnámskrá. Fjallað er nánar um þetta í kaflanum um menntun. (162)
(f) Félagafrelsi og frelsi til að koma saman með friðsömum hætti (15. grein)
171. Samkvæmt 74. gr. stjórnarskrárinnar eiga menn rétt á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félög má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds. Heimilt er að banna um sinn starfsemi félags sem talið er hafa ólöglegan tilgang en höfða verður án ástæðulausrar tafar dómsmál gegn félaginu til að fá því slitið með dómi. (163)
172. Ákvæði um félagafrelsi girða ekki fyrir að setja megi skilyrði fyrir stofnun tiltekinna tegunda félaga. Dæmi um þetta eru lög um einkahlutafélög nr. 138/1994 og ný lög um hlutafélög nr. 30/1995. (164)
173. Engan má skylda til aðildar að félagi samkvæmt 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.
174. Fjallað er um fundafrelsi í 3. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt ákvæðinu eiga menn rétt á að safnast saman vopnlausir. Lögreglunni er heimilt að vera við almennar samkomur og banna má mannafundi undir berum himni ef uggvænt þykir að af þeim leiði óspektir. (168)
(g) Vernd einkalífs (16. grein)
175. Samkvæmt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar skulu allir njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Óheimilt er samkvæmt 2. mgr. að gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum eða öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manna. (171)
176. Þrátt fyrir þessi ákvæði má, samkvæmt 3. mgr. 71. gr., með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra. Tilgangurinn með þessari takmörkun beinist fyrst og fremst að tilvikum þar sem afskipti af heimili og fjölskyldulífi eru nauðsynleg til að vernda hagsmuni barna. Er þetta í samræmi við 3. mgr. 76. gr. um að börnum skuli í lögum tryggð sú vernd og umönnum sem velferð þeirra krefst.
177. Ákvæðið um friðhelgi fjölskyldunnar er talið vernda fjölskyldutengsl í víðtækum skilningi og tryggja verður með lögum rétt manna til að njóta fjölskyldulífs. Gagnkvæmur umgengnisréttur barns og foreldris, sem ekki fer með forsjá þess, nýtur þannig verndar ákvæðisins. Undir ákvæðið fellur einnig réttur til að stofna fjölskyldu.
178. Mikilvægur þáttur í ákvæðinu um friðhelgi fjölskyldunnar er að sú skylda hvílir á ríkinu að veita fjölskyldunni lagavernd gagnvart afskiptum einkaaðila. Árið 1997 fjallaði Alþingi um skýrslu um orsakir, umfang og afleiðingar heimilisofbeldis og annars ofbeldis gegn konum og börnum. Í framhaldi af því voru skipaðar nefndir til að huga að úrbótum á þessu sviði. Meðal þeirra var nefnd sem hafði það hlutverk að huga að meðferð heimilisofbeldismála á rannsóknarstigi hjá lögreglu og nefnd er skyldi huga að meðferð heimilisofbeldismála í dómskerfinu. Sú síðari lagði til í skýrslu sinni frá því í apríl 1998 að í lög um meðferð opinberra mála yrði meðal annars tekið upp ákvæði um nálgunarbann. Nefndin taldi brýna þörf á lagaákvæði er heimili notkun nálgunarbanns sem bráðabirgðaúrræðis sem beita mætti til þess að koma í veg fyrir refsiverðan verknað. Þannig ætti að vera unnt að banna manni að halda sig á ákveðnum svæðum, fylgja eftir, ásækja eða á annan hátt setja sig í samband við annan mann ef sýnt þætti að hætta væri á að sá sem bannið beindist gegn myndi annars fremja refsiverðan verknað gegn honum, ásækja eða á annan hátt raska friði hans. Jafnframt var lagt til að ákvæði um brot gegn nálgunarbanni yrði tekið upp í almenn hegningarlög. Gert er ráð fyrir að frumvarp um þetta efni verði lagt fram á Alþingi á yfirstandandi löggjafarþingi.
179. Með lögum nr. 36/1999 voru gerðar ýmsar breytingar á lögum nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, fyrst og fremst til að bæta réttarstöðu brotaþola. Eru það ákvæði um heimild og skyldu til að tilnefna brotaþola réttargæslumann, sérstaklega ef barn á í hlut. Þá getur dómari neitað málsaðilum að vera viðstöddum í dómsal eða annars staðar þar sem dómþing er háð til skýrslutöku af börnum á rannsóknarstigi ef dómari telur að nærvera þeirra geti orðið barni sérstaklega til íþyngingar eða haft áhrif á framburð þess. Nánar verður fjallað um þetta síðar. (174)
180. Fyrirhuguðum breytingum á barnaverndarlögum er ætlað að tryggja enn frekar réttarstöðu barna við beitingu þvingunar og aðra meðferð mála. (175)
(h) Réttur til að þurfa ekki að þola pyndingar eða aðra grimmilega, ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (37. grein a)
181. Samkvæmt 68. gr. stjórnarskrárinnar má engan beita pyndingum, né annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Nauðungarvinnu skal engum gert að leysa af hendi.
182. Samkvæmt 51. gr. barnaverndarlaga nr. 58/1992 skal félagsmálaráðuneytið sjá um að sérhæfð heimili og stofnanir séu tiltæk fyrir börn þegar úrræði barnaverndarnefnda koma ekki að gagni og eru slík heimili og stofnanir reknar undir yfirumsjón og eftirliti Barnaverndarstofu. (179)
183. Árið 1998 kom út greinargerð sérfræðinga á vegum félagsmálaráðuneytisins um þvingunarráðstafanir á meðferðarheimilum ríkisins fyrir unglinga og eftirlitsskyldur barnaverndaryfirvalda. Barnaverndarstofa gaf þann 1. nóvember 1997 út reglur um réttindi barna á meðferðarheimilum en þær voru endurskoðaðar meðal annars með tilliti til greinargerðar sérfræðinganna. Þann 1. febrúar 1999 voru gefnar út reglur um réttindi barna og beitingu þvingunar á meðferðarheimilum undir yfirstjórn Barnaverndarstofu. Í reglunum er tekið fram að allt starf á meðferðarheimilum skuli miða að því að tryggja börnum almenn mannréttindi, virða persónufrelsi þeirra, rétt þeirra til að hafa samskipti við aðra, rétt þeirra til einkalífs og tjáningar- og skoðanafrelsis. Skal þetta gert innan þess ramma sem leiða má af markmiðum vistunar og með þeim takmörkunum sem eru nánar útfærðar í reglunum.
184. Heimilt er að takmarka réttindi skjólstæðinga á meðferðarheimilum þegar það telst nauðsynlegt til þess að lögmætum meðferðar- og uppeldislegum markmiðum með rekstri meðferðarheimilis verði náð og til verndar lífi og heilsu viðkomandi skjólstæðings, annarra skjólstæðinga, starfsmanna eða til verndar eignum. Takmarkanir skulu aldrei ganga lengra en nauðsynlegt er til þess að ná því markmiði sem stefnt er að.
185. Í reglunum kemur fram að beiting líkamlegra refsinga, einangrunarvistar, lyfjagjafar án samráðs við lækni og beiting þvingunartækja, svo sem snæris, límbanda, belta eða annarra tækja til að fjötra líkamann er ekki leyfileg, hvorki í refsingarskyni né í uppeldis- eða meðferðartilgangi. Þá er í reglunum að finna heimildir til að bregðast við neyðaraðstæðum, heimildir til að stöðva óæskilega hegðan, ákvæði um líkamsleit og leit í herbergi og viðbrögð við stroki.
186. Samkvæmt reglunum er óheimilt að opna póst eða hlusta á símtöl barna til eða frá opinberum aðilum, lögmanni eða talsmanni barns.
187. Allar ákvarðanir um takmörkun réttinda eða beitingu þvingunarúrræða skulu skráðar. Ef talið er að um brot á reglunum sé að ræða geta skjólstæðingar, forsjáraðilar, barnaverndarnefndir og starfsmenn meðferðarheimila komið á framfæri kvörtun til Barnaverndarstofu. Skylt er að aðstoða skjólstæðinga við að koma kvörtun á framfæri. Ákvörðunum Barnaverndarstofu má skjóta til félagsmálaráðuneytisins.
188. Einstaklingum, félagasamtökum og öðrum aðilum er heimilt að setja á stofn heimili eða stofnanir til stuðnings börnum að fengnu leyfi Barnaverndarstofu. Um þessi heimili gilda reglur nr. 401/1998 þar sem sett eru ýmis skilyrði fyrir leyfisveitingu. Í reglunum er tekið fram að aldrei megi beita börn líkamlegum eða andlegum refsingum eða þvingunum á heimilum. Ennfremur að starfsmenn skuli haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við líkamlegar og andlegar þarfir barna og stuðla að alhliða þroska þeirra og heilbrigði í uppeldi hvers og eins barns.
189. Barnaverndarnefnd í hverju umdæmi skal gæta þess að ekki séu rekin í umdæminu önnur heimili en þau sem hlotið hafa leyfi Barnaverndarstofu og jafnframt hafa eftirlit með þeim heimilum sem fengið hafa leyfi. Barnaverndarstofa getur hvenær sem er krafið barnaverndarnefnd um skýrslu um eftirlit með heimilum í umdæmi hverrar nefndar. Þá getur Barnaverndarstofa, samkvæmt ábendingum barnaverndarnefndar eða að eigin frumkvæði, svipt rekstraraðila rétti til áframhaldandi rekstrar ef umönnun barns er óhæfileg eða rekstri heimilis ábótavant.
190. Barnaverndarnefnd skal gefinn kostur á að fylgjast með rannsókn mála þegar grunur leikur á að refsiverður verknaður hafi verið framinn annaðhvort af barni eða gegn barni undir 18 ára aldri, þar með talið að láta fulltrúa sinn vera viðstaddan skýrslutökur af barninu. (181)
191. Sett hefur verið sérstök reglugerð nr. 385/1996 um skólareglur og aga í grunnskólum. Setja skal skólareglur í hverjum grunnskóla sem skulu vera skýrar og afdráttarlausar og í þeim koma skýrt fram hvernig skólinn hyggst bregðast við brotum á reglunum. Í skólareglum skal kveðið á um hvort heimilt sé að víkja nemanda úr skóla að fullu eða um stundarsakir ef um alvarleg eða endurtekin brot á skólareglum er að ræða, svo og hvort heimilt sé að víkja nemanda úr kennslustund ef hann hefur valdið verulegri truflun eða ekki látið skipast við áminningu kennara. Í reglugerðinni er tekið fram að starfsmenn skóla skuli sýna kurteisi og sanngirni í samskiptum við nemendur, en nemendum er skylt að fara eftir skólareglum og hlíta fyrirmælum starfsfólks skóla. Unnið er að endurskoðun þessarar reglugerðar með það að markmiði að gera hana skýrari og tryggja betur rétt barna.
192. Samkvæmt úrskurði menntamálaráðuneytisins frá febrúar 1999 hafa skólayfirvöld ekki heimildir til að krefjast þess að nemendur gangist undir mælingar án samþykkis viðkomandi til að meta hvort nemandi hafi neytt áfengis eða annarra vímuefna, né heimildar til að leita á nemendum eða í farangri þeirra. Skólastjórnendum er rétt að leita liðsinnis lögreglu og/eða barnaverndaryfirvalda ef þeir hafa grun um að grunnskólanemendur hafi gerst sekir um refsiverða háttsemi.
VI. Fjölskyldumálefni
193. Vísað er til umfjöllunar um friðhelgi fjölskyldunnar sem tryggt er í 71. gr. stjórnarskrárinnar, og hið sérstaka ákvæði 76. gr. stjórnarskrárinnar um rétt barna til verndar. (183-185)
(a) Leiðsögn og handleiðsla foreldra (5. grein)
194. Eftir hækkun sjálfræðisaldursins lúta börn forsjá foreldra sinna til 18 ára aldurs. (186)
195. Vísað er til þess sem segir í umfjöllun um 3. grein samningsins um hagsmuni barna varðandi breytingar á barnaverndarlögum sem tryggja að börn skuli njóta réttinda í samræmi við aldur og þroska, sjá 118. mgr.
(b) Foreldraábyrgð (18. grein 1. og 2. málsgrein)
1. málsgrein
196. Í barnalögum nr. 20/1992 eru reglur um feðrun barna. Þannig telst eiginmaður móður sjálfkrafa faðir þess ef barnið er alið í hjúskap þeirra. Ef móðir barns og maður sem hún lýsir föður þess búa saman við fæðingu barnsins, eða taka upp sambúð síðar, telst hann faðir barnsins. Ef þessar reglur eiga ekki við verður barn feðrað með faðernisviðurkenningu eða með dómi í barnsfaðernismáli. Samkvæmt ákvæðum barnalaga getur móðir eða barnið sjálft höfðað faðernismál. Hefur þetta verið gagnrýnt og það talið brjóta í bága við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar að sá sem telur sig föður barns geti ekki jafnframt höfðað samskonar mál til viðurkenningar á faðerni. Verður þetta skoðað við fyrirhugaða endurskoðun barnalaga. Einnig verður skoðað hvort rétt sé að skylda mæður til að feðra börn sín en slík skylda er ekki fyrir hendi. Á árinu 1998 fæddust á Íslandi alls 4.178 börn. Í 14 tilvikum lýsti móðir engan föður við fæðingu barns, þar af lýsti móðir föður seinna í 6 tilvikum og af þeim hafa 2 barnanna verið feðruð með lögmætum hætti.
197. Sameiginleg forsjá foreldra í sambúð eða hjúskap gildir einnig um stjúpforeldra samkvæmt ákvæðum barnalaga. Þá er talið rétt og eðlilegt að einstaklingar í staðfestri samvist fari með sama hætti sameiginlega með forsjá barna sem alast upp hjá þeim, sbr. lög nr. 87/1996 um staðfesta samvist. (192)
198. Við fyrirhugaða endurskoðun á barnalögum verður metið hvort ekki er nauðsynlegt að heimila foreldrum sem fara sameiginlega með forsjá barns að leita til sýslumanns til að fá skorið úr ágreiningi um umgengni eða meðlag með barni en þessi heimild er ekki til staðar samkvæmt núgildandi lögum. Væntanlega verður einnig skoðað að auka ráðgjöf til foreldra, réttur barna til talsmanns, réttarstaða stjúpforeldra og fleira. (193)
199. Gerðar voru breytingar á barnalögum nr. 20/1992 með lögum nr. 23/1995. Markmið þessara breytinga var að treysta tengsl foreldris sem ekki hefur forsjá barns við barnið og var í því sambandi vitnað til samningsins um réttindi barnsins. Til viðbótar við hefðbundinn umgengnisrétt var lögfest regla um að ef sérstaklega stendur á geti sýslumaður að ósk foreldris, sem ekki hefur forsjá barns, mælt fyrir um rétt þess til að hafa bréfa- og símasamband eða hliðstætt samband við barnið. (196)
200. Einnig var lögfest regla um að það foreldri sem ekki hefur forsjá barns eigi rétt á að fá frá hinu upplýsingar um hagi barnsins, þar á meðal varðandi heilsufar þess, þroska, dvöl á barnaheimili, skólagöngu, áhugamál og félagsleg tengsl. Það foreldri sem ekki hefur forsjá barns á rétt á að fá upplýsingar um barnið frá barnaheimilum, skólum, sjúkrahúsum, heilsugæslu- og félagsmálastofnunum og lögreglu. Heimilt er að synja um upplýsingar ef telja verður að upplýsingagjöf sé skaðleg fyrir barn eða samband barns og foreldris. Skjóta má synjun um upplýsingar um barn til sýslumanns sem tekur endanlega ákvörðun á stjórnsýslustigi. Þegar sérstaklega stendur á getur sýslumaður ákveðið að ósk forsjárforeldris að svipta hitt foreldrið heimild til að fá upplýsingar. Slík ákvörðun sýslumanns er kæranleg til dómsmálaráðuneytisins en ráðuneytinu hafa aldrei borist mál af þessu tagi.
201. Tölur um fjölda samninga og ákvarðana um forsjá barna á landsvísu eru ekki teknar saman með reglubundunum hætti en Hagstofa Íslands vinnur að úrbótum á þessu. Alls eru rekin um 30-40 forsjármál fyrir héraðsdómstólum á ári. Forsjármálum sem koma til úrskurðar í dómsmálaráðuneytinu fer fækkandi, þau voru 41 árið 1996, 26 árið 1997 og 21 árið 1998. Á vegum sérfræðinga við Háskóla Íslands er nú unnið að viðamikilli rannsókn á sameiginlegri forsjá sem væntalega verður gefin út í ársbyrjun 2000. Könnunin tekur til þeirra foreldra sem slitu óvígðri sambúð eða fengu lögskilnað á árunum 1994-1996. Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum reyndust um 67% allra samvistarslita vera slit á óvígðri sambúð og um 33% voru hjónaskilnaðir. Þá virðist mun algengara að foreldrar sem slíta óvígðri sambúð semji um sameiginlega forsjá heldur en foreldrar sem slíta hjúskap, eða um 65% á móti 35%. Algengara er að yngri foreldrar semji um sameiginlega forsjá en eldri foreldrar. Eftirfarandi sýnir forsjá barna eftir lögskilnað foreldra. Miðað við þessar tölur má reikna með að um 60% foreldra sem slíta samvistir semji um sameiginlega forsjá barna sinna: (195).
Forsjá
|
Fjöldi lögskilnaða
|
Börn
alls |
Móðir
fær forsjá |
Faðir
fær forsjá |
Sameiginleg
forsjá |
1996
|
530
|
569
|
375
|
5
|
189
|
1997
|
514
|
545
|
311
|
20
|
214
|
1998
|
484
|
521
|
281
|
27
|
213
|
202. Lögbundið lágmarksmeðlag með einu barni hefur hækkað nokkuð og var 12.693 ISK mánaðarlega í árslok 1999. (199)
2. málsgrein
203. Grunnreglur um fæðingarorlof eru óbreyttar en lögum um fæðingarorlof nr. 57/1987 og lögum um almannatryggingar nr. 117/1993 var breytt með lögum nr. 51/1997. Breytingarnar miða allar að því að rýmka rétt til fæðingarorlofs við sérstakar aðstæður. Var fæðingarorlof vegna töku barns yngra en fimm ára í varanlegt fóstur lengt úr fimm mánuðum í sex. Lenging fæðingarorlofs vegna fjölburafæðinga er þrír mánuðir fyrir hvert barn umfram eitt í stað eins mánaðar áður. Tvíbura- og þríburafæðingum hefur fjölgað nokkuð á síðustu árum og er það helst rakið til framkvæmda tæknifrjóvgunar. Þetta þýðir að kona sem fæðir tvíbura á rétt á níu mánaða fæðingarorlofi og kona sem fæðir þríbura á rétt á eins árs fæðingarorlofi. Foreldrar, sem ættleiða eða taka í fóstur fleiri en eitt barn, njóta sömu lengingar. Ef barn dvelur á sjúkrahúsi í meira en sjö daga, í beinu framhaldi af fæðingu, lengist fæðingarorlof um samsvarandi tíma í allt að fjóra mánuði. Þá er heimilt að lengja fæðingarorlof vegna alvarlegs sjúkleika barns í allt að þrjá mánuði í stað eins mánaðar áður. Einnig er heimilt að lengja fæðingarorlof um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda móður eftir fæðingu. (201)
204. Lögum nr. 57/1987 um fæðingarorlof var einnig breytt með lögum nr. 147/1997 sem fjalla um sjálfstæðan rétt föður til tveggja vikna fæðingarorlofs, en breytingin tók gildi 1. janúar 1998. Faðir má taka fæðingarorlof hvenær sem er fyrstu átta vikurnar eftir fæðingu eða heimkomu barns og lengist réttur föður í allt að fjórar vikur ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns eða alvarleg veikindi móður. Jafnframt á faðir rétt á fæðingarorlofi í tvær vikur til viðbótar fyrir hvert barn umfram eitt. Réttur föður er bundinn því skilyrði að hann sé í hjúskap eða skráðri óvígðri sambúð með móður barnsins. Faðir í fæðingarorlofi á hlutfallslega rétt til sömu greiðslna og móðir í fæðingarorlofi.
205. Þann 1. janúar 1998 tóku gildi reglur fjármálaráðherra um sjálfstætt fæðingarorlof feðra í þjónustu ríkisins þar sem feðrum í þjónustu ríkisins er tryggður réttur til launa í tvær vikur vegna fæðingar barns.
206. Reglur um fæðingarstyrk eru í almannatryggingalögum nr. 117/1993. Nokkrar viðbótarbreytingar voru gerðar með lögum nr. 51/1997. Fæðingarstyrkur skal greiðast móður í fæðingarorlofi við hverja fæðingu barns. Gerð var sú breyting að kona skuli að jafnaði eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðinguna í stað fortakslauss ákvæðis í greininni áður. Var þetta gert meðal annars með vísan til ákvæða reglugerðar EBE nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og fjölskyldum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja og Norðurlandasamnings um almannatryggingar, sbr. reglugerð nr. 655/1994 um framkvæmd almannatryggingalaga. Fæðingarstyrkur mæðra nam 32.005 ISK mánaðarlega í árslok 1999. (202)
207. Foreldrar, sem leggja niður launuð störf í fæðingarorlofi, eiga rétt á fæðingardagpeningum, enda séu þeir búsettir á Íslandi við fæðingu barns og hafi að jafnaði haft búsetu á Íslandi síðustu tólf mánuði fyrir fæðingu. Er þetta samsvarandi rýmkun og varðandi fæðingarstyrk. Fæðingardagpeningar voru 1.342 ISK á dag í árslok 1999. (202)
208. Eftirfarandi er yfirlit yfir fjölda foreldra sem fengu greiddan óskertan fæðingarstyrk og fæðingardagpeninga 1998:
Fjöldi í fæðingarorlofi | Konur | Karlar | Samtals |
Fæðingarorlof almennt | |||
- Fæðingarstyrkur, mæður |
5.004
|
0
|
5.004
|
- Fæðingardagpeningar |
4.273
|
5
|
4.278
|
Fæðingarorlof feður, sjálfstæður réttur | |||
- Fæðingarstyrkur |
0
|
1.108
|
1.108
|
- Fæðingardagpeningar |
0
|
1.097
|
1.097
|
209. Samkvæmt lögum um almannatryggingar er barnalífeyrir greiddur með börnum yngri en 18 ára, ef annað hvort foreldra er látið eða er örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram. Séu báðir foreldrar látnir eða örorkulífeyrisþegar skal greiddur tvöfaldur barnalífeyrir. Greiða má barnalífeyri með barni ellilífeyrisþega og einnig með barni manns sem sætir gæsluvist eða afplánar fangelsi, enda hafi vistin varað a.m.k. þrjá mánuði. Móðir fær einnig greiddan barnalífeyri ef hún leggur fram skilríki um að barn verði ekki feðrað. Eftirfarandi er yfirlit yfir fjölda karla og kvenna sem fengu greiddan barnalífeyri á árinu 1998:
Barnalífeyrir | Konur | Karlar | Samtals |
- v/örorku foreldra |
1.931
|
553
|
2.484
|
- v/andláts foreldra |
485
|
154
|
639
|
- v/ófeðraðra barna |
133
|
0
|
133
|
- v/ellilífeyris |
11
|
31
|
42
|
- v/refsivistar |
6
|
2
|
8
|
- v/endurhæfingarlífeyris |
114
|
31
|
145
|
210. Lögum nr. 118/1993 um félagslega aðstoð var breytt með lögum nr. 144/1995, en frá og með 1. janúar var felld niður skylda til að greiða mæðra- og feðralaun með einu barni. Mæðra- og feðralaun voru í lok árs 1999 á mánuði 3.697 ISK með tveimur börnum og 9.612 ISK með þremur börnum. Alls fengu 2.959 konur mæðralaun á árinu 1998 og 105 karlar fengu feðralaun. (203)
211. Samkvæmt lögum um félagslega aðstoð er heimilt að greiða barnalífeyri vegna skólanáms eða starfsþjálfunar ungmennis á aldrinum 18—20 ára ef annað foreldri eða báðir foreldrar eru látnir, ef annað foreldri eða báðir foreldrar eru ellilífeyrisþegar eða örorkulífeyrisþegar, vegna efnaleysis foreldris eða ef ekki tekst að hafa uppi á því. Fengu alls 313 foreldrar slíkar greiðslur á árinu 1998. (203)
212. Þá flokkast sem félagsleg aðstoð umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna, sem dveljast í heimahúsi eða á sjúkrahúsi, og/eða taka aukinn þátt í greiðslu sjúkrakostnaðar ef andleg eða líkamleg hömlun barns hefur í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu, sbr. reglugerð nr. 504/1997 um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna. Heimilt er að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda barna með alvarleg þroskafrávik, sem jafna má við fötlun, og barna með alvarleg hegðunarvandamál sem jafna má við geðræna sjúkdóma. Almenn leikskóla- og skólaþjónusta skerðir ekki umönnunargreiðslur. Önnur dagleg, sértæk þjónusta og vistun utan heimilis, þar með talin umtalsverð skammtímavistun, skerðir umönnunargreiðslur. Fullar umönnunargreiðslur námu í árslok 1999 67.179 ISK á mánuði. Greiðslur af þessu tagi voru greiddar alls 1.765 foreldrum árið 1998.
213. Samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar er einnig hægt að sækja um sérstök umönnunarkort til lækkunar læknis- og lyfjakostnaðar. Að auki hafa verið rýmkaðar reglur almannatryggingalaga er varða styrki til að kaupa næringarefni og sérfæði fyrir þá sem þurfa á slíku að halda.
214. Sett hafa verið lög nr. 66/1996 um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd Norðurlandasamning um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu. Samningurinn tekur til allrar löggjafar í norrænum löndum sem gildir á hverjum tíma um félagsleg málefni, þar með talin félagsleg aðstoð og félagsleg þjónusta svo og aðrar félagslegar bætur sem ákvæði Norðurlandasamningsins um almannatryggingar frá 1992 taka ekki til. Samkvæmt lögunum gildir sú regla að ríkisborgarar norræns lands, sem dvelja með lögmætum hætti tímabundið eða hafa löglega búsetu í öðru norrænu landi, njóta jafnréttis á við ríkisborgara þess lands.
215. Í lögum nr. 75/1981 um tekju- og eignaskatt eru ýmis ákvæði til stuðnings barnafjölskyldum. Þannig skal lækka tekjuskattsstofn manns ef hann hefur á framfæri sínu barn sem er haldið langvinnum sjúkdómi eða er fatlað eða vangefið og veldur framfæranda verulegum útgjöldum umfram venjulegan framfærslukostnað og mótteknar bætur. Einnig ef maður hefur veruleg útgjöld vegna menntunar barna sinna 16 ára og eldri.
216. Með lögum nr. 65/1997 voru gerðar nokkrar breytingar á ákvæðum skattalaga um barnabætur og barnabótaauka. Eru bætur nú greiddar í einu lagi sem barnabætur og eru þær reiknaðar út með hliðsjón af tekjum, eignum og fjölskyldugerð. Þannig skerðast barnabætur miðað við tekju- og eignaskattsstofn framfærenda en óskertar barnabætur á ári námu í árslok 1999 eftirfarandi (204):
Óskertar barnabætur |
ISK
|
Hjón | |
- með fyrsta barni |
104.997
|
- með hverju barni umfram eitt |
124.980
|
- viðbót vegna barns undir 7 ára |
30.930
|
Einstætt foreldri | |
- með fyrsta barni |
174.879
|
- með hverju barni umfram eitt |
179.389
|
- viðbót vegna barns undir 7 ára |
30.930
|
217. Í lok árs 1998 voru alls 249 leikskólar reknir á landinu og um 400 starfandi dagmæður í heimahúsum. (205)
218. Fjölskyldum er tryggður margháttaður stuðningur samkvæmt ákvæðum laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Markmið þeirra laga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar. Skal það gert meðal annars með því að bæta lífskjör þeirra sem standa höllum fæti, að tryggja þroskavænleg uppeldisskilyrði barna, að veita aðstoð til þess að íbúar geti búið sem lengst í heimahúsum, stundað atvinnu og lifað sem eðlilegustu lífi og að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir félagsleg vandamál.
219. Var lögunum breytt með lögum nr. 34/1997 þar sem félagsmálanefndum er gert skylt að bjóða upp á félagslega ráðgjöf, í stað þess að leitast við að sinna þessu hlutverki. Markmið ráðgjafar er að veita upplýsingar og leiðbeiningar um félagsleg réttindamál annars vegar og stuðning vegna félagslegs og persónulegs vanda hins vegar. Félagsleg ráðgjöf tekur meðal annars til ráðgjafar á sviði fjármála, húsnæðismála, uppeldismála, skilnaðarmála, þar með talinna forsjár- og umgengnismála, ættleiðingarmála o.fl. Á vegum félagsþjónustu sveitarfélaga er rekið öflugt forvarnarstarf í þágu barna.
220. Dómsmálaráðherra hefur ákveðið að setja af stað tilraunaverkefni árið 2000 með að gefa foreldrum kost á sérfræðilegri sáttameðferð í forsjár- og umgengnisdeilum hjá embætti Sýslumannsins í Reykjavík. Tilgangurinn er að aðstoða foreldra við að leysa ágreining með tilliti til þess hvað barni er fyrir bestu.
221. Þá er það markmið barnaverndarlaga nr. 58/1992 að tryggja börnum viðunandi uppeldisskilyrði og skal það gert fyrst og fremst með því að styrkja uppeldishlutverk fjölskyldunnar. Barnaverndarnefndum er þannig skylt að aðstoða foreldra við að gegna foreldraskyldum sínum, en þó grípa til viðeigandi úrræða samkvæmt ákvæðum laganna. Eftirfarandi er yfirlit yfir beitingu helstu stuðningsúrræða inni á heimili, miðað við fjölda barna:
Stuðningsúrræði barnaverndarnefnda |
1996
|
1997
|
1998
|
- 21. gr. a - leiðbeiningar til foreldra |
228
|
1.263
|
1.073
|
- 21. gr. b - tilsjónarmaður með fjölskyldu |
99
|
167
|
132
|
- 21. gr. b - persónulegur ráðgjafi fyrir barn |
156
|
144
|
183
|
- 21. gr. b - stuðningsfjölskylda fyrir barn/for. |
82
|
67
|
120
|
- 21. gr. c - dagvist, skólavist o.fl. fyrir barn |
59
|
101
|
126
|
- 21. gr. d - beitt úrræðum annarra laga |
98
|
162
|
302
|
- 21. gr. e - aðstoð við meðferð fyrir foreldra |
60
|
118
|
224
|
- 23. gr. - ráðgjöf til barns vegna ofbeldis |
92
|
106
|
125
|
- ráðgjöf til barns á grundvelli annarra laga |
160
|
253
|
336
|
- fjölskyldur í rannsóknar/kennsluvistun |
21
|
9
|
28
|
(c) Aðskilnaður frá foreldrum (9. grein)
222. Engir úrskurðir um að umgengni samkvæmt ákvæðum barnalaga njóti ekki við hafa komið til kasta dómsmálaráðuneytisins á undanförnum árum.
223. Barnaverndarnefndir kváðu upp alls 13 úrskurði um umgengni barns í fóstri við nákomna árið 1998 en skylt er að úrskurða ef ekki næst samkomulag við þann sem umgengni á að njóta. Á árinu 1997 staðfesti Barnaverndarráð Íslands tvo úrskurði barnaverndarnefnda um að umgengni skyldi ekki njóta við tímabundið. Engin slík mál komu til Barnaverndarráðs árið 1998. (208)
224. Eftirfarandi er yfirlit yfir ákvarðanir og úrskurði barnaverndarnefnda um töku barns af heimili samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga nr. 58/1992: (210-211)
Barn utan heimilis |
1996
|
1997
|
1998
|
- 21. gr. - vistun utan heimilis með samþykki foreldra |
128
|
150
|
146
|
- 21. gr. - fóstur með samþykki foreldra |
19
|
9
|
6
|
- 22. gr. - börn á stofnunum |
78
|
137
|
96
|
- 24. gr. - taka af heimili tímabundið - kyrrsetning |
25
|
18
|
8
|
- 25. gr. - forsjársvipting |
5
|
18
|
9
|
- 35. gr. - kyrrsetning í fóstri |
23
|
5
|
2
|
225. Rétt er að ítreka að dómstólar meta í raun efnislegar ákvarðanir í barnaverndarmálum. Í lok ársins 1998 var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem ógilt var ákvörðun Barnaverndarnefndar Reykjavíkur um að svipta móður forsjá barns síns. Hæstiréttur sneri þessum dómi við með dómi sínum frá 26. mars 1999. Á báðum dómstigum var fjallað nokkuð ítarlega um sérfræðileg gögn sem ákvörðun byggðist á, svo og í Hæstarétti um matsgerð dómkvaddra manna sem fengnir voru til að meta hæfi móður og hagsmuni barnsins eftir að héraðsdómur gekk. (213)
226. Mjög sjaldgæft hefur verið að ákvarðanir barnaverndarnefnda séu bornar undir dómstóla, eins og sjá má af þessu yfirliti:
Dómar |
1994
|
1995
|
1996
|
1997
|
1998
|
Héraðsdómur |
0
|
0
|
0
|
2
|
1
|
Hæstiréttur |
0
|
0
|
0
|
2
|
0
|
227. Við endurskoðun barnaverndarlaga stendur til að gera gagngerar breytingar á úrskurðarvaldi barnaverndarnefnda og málskotsleiðum. Líklegasta niðurstaðan er sú að barnaverndarnefndum verði gert skylt að höfða mál fyrir dómstólum ef talið er rétt að krefjast þess að foreldri verði svipt forsjá barns. (213)
228. Vísað er í umfjöllum um 12. grein samningsins þar sem var gerð grein fyrir víðtækari rétti barna til að tjá sig í barnaverndarmálum og ákvæði um skipan talsmanns. (215)
229. Ákvæði barnaverndarlaga um málsmeðferð hafa verið túlkuð með hliðsjón af ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, meðal annars um að takmarka heimildir barnaverndarnefnda til að synja málsaðilum um aðgang að gögnum máls áður en úrskurður er kveðinn upp. Einungis er heimilt að synja um aðgang þegar sérstaklega stendur á og eingöngu á þeim forsendum að synjun byggi á sjónarmiðum um hagsmuni barnsins. (217)
230. Réttur til upplýsinga í barnaverndarmáli er einnig í sumum tilvikum fyrir hendi samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga nr. 50/1996 og laga nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, sem gilda um skýrslur sálfræðinga og félagsráðgjafa samkvæmt breytingu sem gerð var með lögum nr. 76/1997. (217-218)
(d) Endurfundir fjölskyldunnar (10. grein)
231. Samkvæmt 66. gr. stjórnarskrárinnar skal skipa með lögum rétti útlendinga til að koma til landsins og dveljast hér, svo og fyrir hvaða sakir hægt sé að vísa þeim úr landi. (220)
232. Lögum nr. 45/1965 um eftirlit með útlendingum var breytt með lögum nr. 23/1999. Í stað þess að ríkislögreglustjóri veiti Útlendingaeftirlitinu forstöðu hefur stofnunin haft sér-stakan forstjóra frá 1. október 1999. Helstu rökin fyrir þessari breytingu eru að þau málefni sem Útlendingaeftirlitið sinnir eru í eðli sínu ekki lögreglustörf og því óeðlilegt að ríkislögreglustjóri sé yfirmaður stofnunarinnar. Þá hafa þau verkefni sem heyra undir stofnunina aukist verulega á undanförnum árum og því talið nauðsynlegt að styrkja starfsemi og marka henni sjálfstæðan farveg. Má ætla að þetta muni bæta réttarstöðu útlendinga á Íslandi. (220)
233. Vísað er til 359. mgr. skýrslunnar hér á eftir um frumvarp til laga um málefni útlendinga.
234. Ný lög nr. 136/1998 um vegabréf tóku gildi þann 1. júní 1999. Samkvæmt lögunum skal hvert vegabréf einungis gefið út handa einum einstaklingi. Með þessu er felld úr gildi sú regla að í vegabréfi náins aðstandanda sé unnt að skrá barn yngra en 15 ára. Hvert barn þarf því að hafa sérstakt vegabréf með mynd. Regla þessi er í samræmi við alþjóðleg viðhorf, meðal annars innan Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, ICAO. Við útgáfu vegabréfs til barns innan 18 ára aldurs skal liggja fyrir samþykki forsjáraðila barnsins. Þetta á einnig við ef báðir foreldrar fara sameiginlega með forsjá í kjölfar skilnaðar eða slita óvígðrar sambúðar. Sá áskilnaður er nauðsynlegur í ljósi þess að öðru foreldri er óheimilt við þær aðstæður að fara með barnið úr landi án samþykkis hins, sbr. ákvæði barnalaga nr. 20/1992. Heimilt er að víkja frá þessum skilyrðum ef sérstaklega stendur á með tilliti til hagsmuna barns enda er í vissum tilvikum nauðsynlegt að tryggja börnum vegabréf þegar aðstæður valda því að ekki verður aflað samþykkis forsjáraðila. (221)
(e) Innheimta framfærslueyris með barni (27. grein 4. málsgrein)
235. Efnisreglur um greiðslu meðlags og þátttöku Tryggingastofnunar ríkisins eru óbreyttar. Samkvæmt upplýsingum stofnunarinnar voru alls 6.777 börn á framfæri mæðra sinna og 232 á framfæri feðra sinna í desember 1998. (224-225)
(f) Börn sem ekki njóta fjölskyldu sinnar (20. grein)
236. Með lögum nr. 22/1995 um breytingu á barnaverndarlögum nr. 58/1992 voru gerðar nokkrar breytingar á ákvæðum um ráðstöfun barna í fóstur. Barnaverndarstofu ber nú að meta hæfi væntanlegra fósturforeldra og veita þeim fræðslu með námskeiðahaldi. Ekki má ráðstafa barni í fóstur nema til aðila sem fengið hefur meðmæli Barnaverndarstofa en jafnframt þarf að liggja fyrir samþykki barnaverndarnefndar í umdæmi fósturforeldris. Barnaverndarstofa heldur skrá yfir þá sem metnir hafa verið sem hæfir fósturforeldrar en það eru um 30 á hverju ári sem fá meðmæli sem hæfir fósturforeldrar. Hverri barnaverndarnefnd ber síðan að hafa samráð við Barnaverndarstofu um val á fósturforeldrum þegar kemur að því að ráðstafa tilteknu barni í fóstur, hvort sem það er tímabundið eða varanlegt. Settar voru skýrari reglur í reglugerð um ráðstöfun barna í fóstur nr. 532/1996. (231, 235)
237. Barnaverndarstofa hefur árlega haldið námskeið fyrir fósturforeldra og væntanlega fósturforeldra. Unnið er að því að taka upp nýtt og öflugt kerfi til að meta og þjálfa fósturforeldra mun betur en gert hefur verið, svokallað FOSTERPRIDE. Einnig er fyrirhugað að gera rannsókn á fósturbörnum á vegum Barnaverndarstofu. (235)
238. Barnaverndarstofa heldur skrá yfir börn í fóstri. Eftirfarandi eru ýmsar tölfræðilegar upplýsingar um fósturbörn (236-237):
Börn í fóstri |
1996
|
1997
|
1998
|
Fjöldi barna í varanlegu fóstri |
193
|
185
|
189
|
Fjöldi barna í tímabundnu fóstri |
36
|
54
|
56
|
Alls |
229
|
239
|
245
|
Börn sem fóru í fóstur |
1996
|
1997
|
1998
|
Fóru í varanlegt fóstur á árinu |
16
|
20
|
19
|
Fóru í tímabundið fóstur á árinu |
13
|
19
|
31
|
Alls |
29
|
39
|
50
|
239. Um stuðningsfjölskyldur, tilsjónarmenn og persónulega ráðgjafa vísast til umfjöllunar um stuðning við foreldra, 18. grein, 2. málsgrein samningsins í 221. mgr. hér að framan. (238-239)
240. Á vegum Félagsþjónustunnar í Reykjavík eru rekin tvö vistheimili, fyrst og fremst fyrir börn undir 12 ára aldri. Algengast er að börn komi á vistheimili til greiningar og meðferðar eða í þeim tilvikum þegar taka þarf börn af heimilum vegna neyðarástands. Á vistheimilum eru einnig íbúðir þar sem foreldrar geta búið með börn sín og fá þeir þá meðferð eða þjálfun við uppeldið. Á árinu 1998 voru alls 60 börn á vistheimilum í Reykjavík, meðalaldur þeirra var 7,5 ár og meðaldvalartími var 60 dagar. (241)
241. Félagsþjónustan rekur einnig eitt fjölskylduheimili fyrir börn, fyrst og fremst þau sem ekki tekst að ráðstafa í fóstur. Á árinu 1998 bjuggu 5 börn á heimilinu. Þá er rekið eitt fjölskylduheimili fyrir unglinga sem þurfa á tímabundinni vistun að halda utan heimilis. Stefnt er að því að unglingarnir fari aftur til foreldra sinna eftir eins til tveggja ára dvöl. Árið 1998 dvöldu alls 8 unglingar á heimilinu.
242. Umtalsverðar breytingar voru gerðar á stofnunum og meðferðarheimilum ríkisins með lögum nr. 22/1995 um breytingu á barnaverndarlögum. Voru breytingarnar gerðar í kjölfar úttektar Hagsýslu ríkisins á heildarskipan málaflokksins sem leiddu í ljós að meðferðarkerfi ríksins var gallað, rekstur þess ósveigjanlegur, nýting meðferðarheimila ófullnægjandi og rekstarform óhagkvæm. Lagabreytingunum var ætlað að bæta úr þessum vanda. (242-245)
243. Barnaverndarstofa fer nú með yfirumsjón og fjárhagslegt og faglegt eftirlit með öllum meðferðarheimilum sem rekin eru af ríkinu, en ríkinu ber að sjá til þess að sérhæfð heimili og stofnanir séu tiltækar fyrir börn þegar önnur stuðningsúrræði barnaverndarnefnda hafa ekki komið að gagni. Hér er um að ræða heimili og stofnanir þar sem fram fer sérhæfð meðferð, svo sem vímuefnameðferð og vistun í bráðatilvikum vegna meintra afbrota og alvarlegra hegðunarerfiðleika. Barnaverndarstofa hefur því yfirsýn yfir öll meðferðarúrræði ríkisins og nýtingu þeirra og er Barnaverndarstofu heimilt að mæla fyrir um sérhæfingu heimilanna. Jafnframt er starfandi á vegum Barnaverndarstofu fagteymi sérfræðinga sem hefur það hlutverk að treysta samstarf og samhæfingu meðferðarstofnana fyrir börn. (245)
244. Barnaverndarnefnd sendir beiðni um vistun barns, á heimili eða stofnun sem ríkið rekur, til Barnaverndarstofu. Barnaverndarstofa leggur umsóknir að jafnaði fyrir fagteymi til umsagnar. Ef skilyrði vistunar eru uppfyllt er gerður vistunarsamningur milli barnaverndarnefndar, meðferðarheimilis, forsjáraðila og barnsins.
245. Samkvæmt ákvæðum laga nr. 160/1998 um breytingu á barnaverndarlögum skal vistun barns á meðferðarheimili alltaf vera tímabundin og eigi standa lengur en þörf krefur. Hún skal sæta endurskoðun eigi sjaldnar en á sex mánaða fresti. Ef vistun er gegn vilja barns sem orðið er 12 ára skal það fá tækifæri til að tala máli sínu fyrir barnaverndarnefnd, með liðsinni sérstaks talsmanns ef því er að skipta. Gefa skal barni undir 12 ára aldri kost á að tjá sig með sama hætti ef það þykir hafa aldur og þroska til eða óski barnið þess.
246. Gert er ráð fyrir að börn hefji vistun í meðferðarkerfi ríkisins á Stuðlum, meðferðarstöð ríkisins fyrir unglinga, en um hana gildir reglugerð nr. 271/1995, með síðari breytingum. Meðferðarstöðin veitir eftirfarandi þjónustu:
· Skammtímavistun í neyðar- og bráðatilvikum á lokaðri deild að ósk barnaverndarnefndar eða lögreglu. Hámarksvistunartími á lokaðri deild er 14 dagar.
· Sérhæfða meðferð, þar með talda vímuefnameðferð, með vistun í allt að fjóra mánuði. Gert er ráð fyrir að samhliða meðferðarstarfi fari fram greining á vanda unglings.
· Vistun unglinga sem þegar eru vistaðir á öðrum meðferðarheimilum ef þörf er á að endurmeta meðferð eða eftir strok og annað stjórnleysi.
· Eftirmeðferð að aflokinni vistun í allt að 6 mánuði þar sem megináhersla er lögð á hópameðferð.
247. Meðalfjöldi unglinga á mánuði á meðferðardeild á Stuðlum árið 1998 var 7,8 en alls eru rými fyrir 8 unglinga. Meðalfjöldi á lokaðri deild var 1,5 á mánuði en alls eru þar rými fyrir 4 unglinga. Meðalaldur við komu var 15,3 ár og meðalvistunartími um 90 dagar. Árið 1998 bárust alls 84 umsóknir um vistun í meðferð að Stuðlum, þar af 68 frá Reykjavík og nágrannasveitarfélögum. Eftirfarandi eru tölulegar upplýsingar um fjölda barna á Stuðlum árið 1998:
Stuðlar |
Drengir
|
Stúlkur
|
Samtals
|
Lokuð deild |
27
|
43
|
70
|
Meðferðardeild |
23
|
21
|
44
|
248. Eftirfarandi eru upplýsingar um vanda unglinga sem komu til meðferðar á Stuðlum árið 1998. Um fjöltalningu er að ræða þannig að hver og einn getur verið talinn oftar en einu sinni:
Greining |
Drengir
|
Stúlkur
|
Samtals
|
Skólaerfiðleikar |
18
|
12
|
30
|
Erfiðleikar á heimili |
17
|
9
|
26
|
Vímuefnaneysla |
12
|
14
|
26
|
Þunglyndi |
12
|
8
|
20
|
Afbrot |
12
|
4
|
16
|
Ofbeldi/gerendur |
10
|
4
|
14
|
Ofvirkni/athyglisbrestur |
8
|
3
|
11
|
Útigangur |
4
|
10
|
14
|
Ofbeldi/einelti/þolendur |
4
|
5
|
9
|
Áföll |
5
|
4
|
9
|
Fjöldi barna |
23
|
21
|
44
|
249. Undir yfirumsjón og eftirliti Barnaverndarstofu voru í ársbyrjun 2000 rekin sjö langtímameðferðarheimili víðsvegar um landið með þjónustusamningum um einkaframkvæmd. Barnaverndarnefndir sækja um vistun á langtímameðferðarheimili fyrir um þriðjung þeirra barna sem útskrifast af Stuðlum. Algengast er að miðað sé við að börn dvelji á langtímameðferðarheimilum í eitt skólaár en dvöl varir stundum lengur. Meðferðarheimilin eru rekin á fjölskyldugrunni, flest börnin stunda skóla og leitast er við að nýta umhverfið í meðferðarstarfinu. Almennt er lögð áhersla á samstarf við forsjáraðila barnanna. Nokkur sérhæfing er á langtímameðferðarheimilum, bæði með tilliti til aldurs barnanna og greiningar á meginvanda þeirra.
250. Eftirfarandi er yfirlit yfir langtímameðferðarheimili ríksins og tölulegar upplýsingar fyrir þau sem rekin voru árið 1998:
Langtíma- meðferðarheimili |
Fjöldi rýma | Fjöldi vistaðra barna yfir árið | Meðallengd dvalar í dögum |
Meðalaldur við lok dvalar |
Árbót/Berg 1) |
6/4
|
8
|
312
|
15.3
|
Bakkaflöt/Háholt 2) |
6
|
13
|
96.2
|
15.3
|
Geldingalækur |
6
|
7
|
325.5
|
11.5
|
Hvítárbakki 3) |
6
|
6
|
•
|
•
|
Torfastaðir |
6
|
9
|
406
|
16.0
|
Varpholt |
6
|
11
|
272.6
|
15.8
|
Skjöldólfsstaðir 4) |
6
|
•
|
•
|
•
|
1) Berg hóf starfsemi sem viðbót við Árbót í mars 1999.
2) Bakkaflöt var lagt niður í árslok 1998 en sérhannað meðferðarheimili, Háholt, kom í staðinn og hóf starfsemi í janúar 1999.
3) Hvítárbakki hóf starfsemi í nóvember 1998.
4) Skjöldólfsstaðir munu hefja starfsemi í febrúar 2000.
251. Allt árið 1998 jókst eftirspurn eftir greiningar- og meðferðarvistun á Stuðlum sem og eftir langtímameðferð. Þessi aukning tengist hækkun sjálfræðisaldurs en meðalaldur barna á meðferðarheimilum hefur hækkað og neysla harðra vímuefna aukist. Meðferðarrýmum í langtímameðferð hefur fjölgað jafnt og þétt, þau voru 29 í lok árs 1996, 35 í lok árs 1997 og 36 í lok árs 1998. Meðferðarrýmum fjölgaði um 4 á árinu 1999 og frá og með 1. febrúar 2000 verða rými á langtímameðferðarheimilum undir eftirliti Barnaverndarstofu orðin alls 46. Unnið er með hugmyndir um að fjölga rýmum í bráða og greiningarvistun í samráði við Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, sveigjanlegri meðferðartíma og frekari fjölgun rýma í langtímameðferð.
252. Eftirlit Barnaverndarstofu með rekstri meðferðarheimila hefur falist fyrst og fremst í heimsóknum á heimilin nokkrum sinnum á ári þar sem farið er yfir stöðu hvers barns og söfnun upplýsinga. Þá hafa verið fengnir sjálfstæðir aðilar til að gera úttektir á starfsemi heimilanna. Unnið er að því að skilgreina nánar hlutverk og verkefni Barnaverndarstofu gagnvart meðferðarheimilum.
253. Einkaaðilar, sem vilja reka meðferðarheimili, verða að sækja um leyfi til Barnaverndarstofu skv. reglum nr. 401/1998. Um mitt ár 1998 opnaði Götusmiðjan meðferðarheimilið Virkið fyrir ungt fólk í vímuefnavanda. Heimilið er ætlað ungu fólki á aldrinum 16 til 20 ára en samkvæmt leyfi frá Barnaverndarstofu má vista þar á hverjum tíma alls 4 unglinga á aldrinum 16 til 18 ára. Alls hófu 30 einstaklingar meðferð í Virkinu árið 1998, þar af 19 undir 18 ára aldri. Meðaldvalartími skjólstæðinga var 46 dagar.
254. Neyðarathvarf Rauða Kross Íslands er talsvert sótt af unglingum í vanda. Eftirfarandi er yfirlit yfir nýtingu þess (246):
Rauðakrosshúsið |
1996
|
1997
|
1998
|
Gestakomur til dvalar |
170
|
138
|
123
|
Fjöldi unglinga í gestakomum |
97
|
83
|
76
|
Meðalaldur |
16.3 ár
|
16.2 ár
|
14.2 ár
|
Meðaldvalartími |
5.7 nætur
|
5.9 nætur
|
5.3 nætur
|
255. Samtök um kvennaathvarf hafa rekið athvarf í Reykjavík í um 20 ár sem er styrkt af ríki og sveitarfélögum. Markmiðið er að reka athvarf fyrir konur og börn þegar dvöl í heimahúsi er þeim óbærileg vegna ofbeldis heimilismanns. Boðið er upp á meðal annars húsaskjól og stuðning, barnastarf og viðtalsþjónustu. Árið 1998 komu alls 114 konur til dvalar í Kvennaathvarfið og alls 98 börn, 48 drengir og 50 stúlkur. Um 65% barnanna voru undir 6 ára aldri. Meðaldvalartími barna voru 23 dagar.
256. Vísað er til 405. mgr. um börn í áfengis- og vímefnameðferð á Sjúkrahúsinu Vogi.
(g) Ættleiðing (21. grein)
257. Um haustið 1999 var lagt fram frumvarp til nýrra ættleiðingarlaga. Mikilvægur þáttur frumvarpsins varðar ákvæði vegna fyrirhugaðrar fullgildingar Íslands á Haag-samningnum frá 29. maí 1993 um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingar milli landa. Með frum-varpinu er lögð til sú breyting að karl og kona sem hafa verið í óvígðri sambúð í 5 ár geti sótt um að ættleiða barn. (255)
258. Þá er í frumvarpinu, eins og í gildandi lögum, almennt ákvæði um að eigi megi ættleiða þann sem orðinn er 12 ára nema með samþykki hans. Áður en barn gefur samþykki sitt er lagt til það nýmæli að ræða skuli við barn á vegum barnaverndarnefndar og veita því leiðsögn um ættleiðingu og réttaráhrif hennar. Ennfremur er lagt til það nýmæli að leita skuli afstöðu barna yngri en 12 ára ef slíkt þyki gerlegt miðað við aldur þess og þroska. Er þetta stutt með vísan til samningsins um réttindi barnsins. Neikvæð afstaða barns yngra en 12 ára þarf ekki að koma í veg fyrir ættleiðingu en gögn um viðræður við barn eiga að koma til álita við mat á því hvort ættleiðing er barni fyrir bestu.
259. Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að kjörforeldrum verði gert skylt að skýra kjörbarni sínu frá því að það sé ættleitt jafnskjótt og það hafi þroska til. Skuli það að jafnaði gert eigi síðar en þegar barn nái sex ára aldri og lagt til að kjörforeldrar eigi rétt á ráðgjöf viðkomandi barnaverndarnefndar við upplýsingagjöf. Þá er einnig lagt til að þegar kjörbarn nái 18 ára aldri eigi það rétt á að fá tiltækar upplýsingar um kynforeldra eða fyrri kjörforeldra frá dómsmálaráðuneytinu.
260. Eftirfarandi er yfirlit yfir fjölda ættleiðinga á Íslandi 1996-1998 (253):
Ættleiðingar á Íslandi |
1996
|
1997
|
1998
|
Ættleiðingar samtals |
39
|
35
|
36
|
Frumættleiðingar á íslenskum börnum |
14
|
8
|
6
|
Frumættleiðingar á erlendum börnum |
10
|
10
|
13
|
Stjúpættleiðingar |
15
|
17
|
17
|
(h) Ólöglegur flutningur barna og hald erlendis (11. grein)
261. Ísland hefur fullgilt Evrópusamning frá 20. maí 1980 um viðurkenningu og fullnustu ákvarðana varðandi forsjá barna og endurheimt forsjár barna, sem gerður var á vegum Evrópuráðsins, og Haag-samning frá 25. október 1980 um einkaréttarleg áhrif af brottnámi barna til flutnings milli landa. Voru sett sérstök lög nr. 160/1995 um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna. Lögin gilda um börn sem hafa ekki náð 16 ára aldri. Tiltekin ákvæði þeirra gilda um samskipti Íslands við þau ríki sem eru aðilar að hvorum alþjóðasamningi fyrir sig. Dómsmálaráðuneytið tekur við erindum á grundvelli Evrópusamningsins og kemur þeim áfram til hlutaðeigandi yfirvalda. Almennt fer um beiðnir samkvæmt samningunum eftir lögum nr. 90/1989 um aðför, þó þannig að beiðnir sæta alltaf í byrjun meðferð fyrir héraðsdómi. Meðferð þessara mála skal hraða svo sem unnt er. (260)
262. Í lögunum er sérstakt ákvæði um að áður en héraðsdómari tekur ákvörðun um fullnustu ákvörðunar samkvæmt Evrópusamningnum eða um afhendingu samkvæmt Haagsamningnum skuli kanna afstöðu barns sem hefur náð þeim aldri og þroska að rétt sé að taka tillit til skoðana þess. Ákvæði 4. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 20/1992 eiga við þegar afstaða barns er könnuð, en
það ákvæði fjallar um að almennt skuli ræða við barn sem náð hefur 12 ára aldri og yngri börn miðað við aldur og þroska. Unnt er að fela sérfræðingi að kynna sér viðhorf barns og gefa skýrslu um það.
263. Með lögum nr. 22/1995 var gerð sú breyting á barnalögum nr. 20/1992 að ef foreldrar fara sameiginlega með forsjá barns þá er öðru foreldri óheimilt að fara með barnið úr landi án samþykkis hins. Stendur þetta ákvæði í tengslum við áðurnefnda alþjóðasamninga. (257)
(i) Misnotkun og vanræksla á börnum (19. grein).
Líkamlegur og sálrænn bati og félagsleg aðlögun (39. grein)
264. Áhættuskráning samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga nr. 58/1992 hefur aldrei verið tekin upp á Íslandi og á síðari árum talið vafasamt hvaða tilgangi hún ætti að þjóna. Lögð hefur verið áherslu á skráningu einstakra mála og samantekta um fjölda mála, fjölda barna, ástæður afskipta og úrræði í hverju máli. Slík skráning ætti að tryggja yfirsýn yfir vanda barna og þörf fyrir aðstoð. (264)
265. Ákvæði barnaverndarlaga um vistun barns í meðferð var breytt í lok árs 1998, eins og fram kemur í 245. mgr. (265)
266. Um breytingar á málsmeðferð vegna kynferðisbrota vísast til umfjöllunar um 34. gr. samningsins hér á eftir, eða 416-421. mgr. skýrslunnar.(267)
267. Öllum sveitarfélögum er skylt að sjá grunnskólum fyrir sérfræðiþjónustu samkvæmt reglugerð nr. 386/1996 um sérfræðiþjónustu skóla. Er hér átt við hvorttveggja kennsluráðgjöf og sálfræðiþjónustu. Sérfræðiþjónustu skóla er ætlað að stuðla að því að kennslufræðileg og sálfræðileg þekking nýtist sem best í skólastarfi og skal kennurum og skólastjórnendum standa til boða ráðgjöf og stuðningur vegna skólastarfs. Starfsmenn sérfræðiþjónustu skulu vinna að forvarnarstarfi í samvinnu við starfsmenn skóla, m.a. með athugunum og greiningu á nemendum sem eiga í erfiðleikum. Starfsmenn skóla og heilsugæslu geta komið með ósk um slíka athugun að fengnu samþykki forsjáraðila, svo og forsjáraðilar sjálfir. Að athugun lokinni gera starfsmenn sérfræðiþjónustu tillögur um viðeigandi meðferð og úrbætur. Tekið er fram í reglugerðinni að allar athuganir og rannsóknir sem varða einstaka nemendur skuli gera í samráði við og með samþykki forsjáraðila. (268)
(j) Regluleg endurskoðun á vistun (25. grein)
268. Vísað er til breytinga sem áður hafa verið nefndar á 22. gr. barnaverndarlaga, sbr. lög nr. 160/1998, sjá 245. mgr. í skýrslunni. (271)
269. Vísað er til umfjöllunar um ný lögræðislög en ákvæði lögræðislaga um vistanir gilda ekki lengur um börn, sjá 46-50. mgr. í skýrslunni. (272-277)
270. Samkvæmt ákvæðum 35. og 50. gr. barnaverndarlaga nr. 58/1992 geta foreldrar undir vissum kringumstæðum óskað endurskoðunar á ákvörðunum barnaverndarnefnda um að ráðstafa börnum í fóstur eða svipta foreldra forsjá. Líta skal til breyttra aðstæðna foreldra en þó fyrst og fremst til hagsmuna viðkomandi barns og er barnaverndarnefnd heimilt að mæla fyrir um að ráðstöfun barns í fóstri haldist ef það fer vel um barnið og hagsmunir þess mæla með því.
VII. Heilsugæsla
(a) Afkoma og þroski (6. grein, 2. mgr.)
271. Í almennri umfjöllun að framan um 6. grein var lýst markmiðum laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997, sjá 123. mgr., en löggjöf þessi markar þáttaskil og tekur á mörgum mikilvægum atriðum. Umræða um réttindi sjúklinga er ofarlega á baugi innan Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og voru Íslendingar með fyrstu þjóðum til að tryggja þessi réttindi með sérstakri lagasetningu. (278)
272. Um fæðingarorlof og fæðingardagpeninga foreldra vísast til umfjöllunar í 203-208. mgr. skýrslunnar. (279).
(b) Fötluð börn (23. grein)
273. Sérstök reglugerð nr. 155/1995 gildir um þjónustu við fötluð börn og fjölskyldur fatlaðra. Fjölskyldur fatlaðra barna eiga kost á stuðningsfjölskyldu til að létta álag af heimili, svo og skammtímavistun sem meðal annars er ætlað að veita hinum fatlaða tilbreytingu eða til undirbúnings flutnings úr foreldrahúsum. Fötluð börn skulu ennfremur eiga aðgang að sumardvöl með sama hætti og önnur börn, auk annarrar stoðþjónustu.
274. Í desember 1998 kom út úttekt félagsmálaráðuneytis á málefnum fatlaðra 1997. Upplýsingar miðast við fyrstu 10 mánuði ársins. Samkvæmt úttektinni bjuggu alls um 350 fatlaðir á 66 sambýlum á landsvísu, þar af voru um 20% á aldrinum 16-25 ára. Starfrækt voru 3 heimili sérstaklega með rýmum fyrir alls 12 fötluð börn. Fjöldi þeirra barna sem fengu skammtímavistun var um 250 á 18 heimilum. Meðalvistun var 4.8 sólarhringar á mánuði. Alls voru um 270 börn með stuðningsfjölskyldur og dvalartími var að jafnaði 3 sólarhringar á mánuði.
275. Í gildandi lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðra segir að lögin skuli endurskoða innan fjögurra ára frá gildistöku þeirra og að við þá endurskoðun skuli miða að því að auka ábyrgð sveitarfélaga á málefnum fatlaðra. Lögum um málefni fatlaðra var breytt með lögum nr. 161/1996 og lögum nr. 156/1998 sem fela í sér að málefni fatlaðra færast til sveitarfélaga. Áður en yfirfærsla málaflokksins kemur til framkvæmda skal Alþingi meðal annars hafa samþykkt ný lög um félagsþjónustu sveitarfélaga sem taki til þjónustu við fatlaða. Verið er að leggja lokahönd á þessa löggjöf. Nokkur sveitarfélög hafa þegar tekið yfir þjónustu við fatlaða ýmist með þjónustusamningum við ríkið eða sem tilraunaverkefni, samkvæmt lögum nr. 82/1994 um reynslusveitarfélög. (281-283)
276. Markmið með flutningi málefna fatlaðra til sveitarfélaga er að stíga lokaskrefið í þeirri þróun að fatlaðir séu sjálfsagðir þátttakendur í samfélaginu. Óæskilegt er talið að greina þjónustu fatlaðra frá þjónustu við aðra íbúa sveitarfélags og eðlilegra að þjónustan falli að almennri félagsþjónustu sem sveitarfélögunum er skylt að veita. Með flutningi málaflokksins til sveitarfélaga eru bundnar vonir við að þjónustan verði bætt og litið er á yfirtöku sveitarfélaga á málefnum fatlaðra sem eðlilegan þátt í þróun sveitarstjórnarstigs. Hagsmunasamtök fatlaðra hafa á undanförnum árum bent á að einn liður í blöndun fatlaðra og ófatlaðra sé sá að þjónusta við fatlaða og ófatlaða sé hlið við hlið og aðgreining milli fatlaðra og ófatlaðra sé óæskileg. (281-283)
277. Á hverju starfssvæði málefna fatlaðra starfar svæðisráð, skipað fulltrúum félagsmálaráðuneytis, sveitarfélaga og frjálsra félagasamstaka, sbr. lög nr. 59/1992 um málefni fatlaðra og reglugerð nr. 606/1998 um svæðisráð í málefnum fatlaðra. Svæðisráðið hefur eftirlit með því að fatlaðir fái lögbundna þjónustu, eftirlit með stofnunum fyrir fatlaða og skal að auki meðal annars stuðla að samræmingu á þjónustu allra þeirra aðila sem sinna fötluðum á svæðinu. Þá annast svæðisráð almenna og sérstaka réttindagæslu fyrir fatlaða. Hvert svæðisráð skipar trúnaðarmann á sínu svæði sem gætir hagsmuna fatlaðra sem búa á sambýlum, vistheimilum barna eða öðrum stofnunum. Hann fylgist með högum þeirra með reglubundnum heimsóknum og leggur mál fyrir svæðisráð ef hann telur brotið á rétti fatlaðs einstaklings.
278. Eitt af skilyrðum yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaganna er að sett verði sérstök lög um Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins. Á miðju ári 1997 voru gerðar nokkrar breytingar á skipuriti og starfsháttum Greiningar- og ráðgjafastöðvarinnar sem endurspegla meðal annars þá stefnu að þjónusta við fatlaða verði felld að félagsþjónustu sveitarfélaga. Er gert ráð fyrir að yfirfærslan hafi í för með sér að starfsemi Greiningarstöðvarinnar verði enn sérhæfðari og ráðgjafarhlutverk hennar viðameira en áður. Breytingarnar miða að því að gera starfið skilvirkara og auka sérþekkingu á hinum ýmsu tegundum fatlana. Voru stofnuð fjögur fötlunarsvið sem hvert um sig bera ábyrgð á þjónustu og þekkingaröflun vegna vissra fatlana og aukin áhersla lögð á rannsóknir, fræðslu og námskeiðahald. (284)
279. Fjárhagsleg aðstoð vegna fatlaðra og langveikra barna, sbr. reglugerð nr. 504/1997, er byggð á umönnunarmati. Eftirfarandi er yfirlit yfir fjölda barna með umönnunarmat: (285)
Umönnunarmat - fjöldi barna |
1997
|
1998
|
Fötluð börn |
575
|
684
|
Langveik börn |
787
|
1.112
|
Börn með þroska- og hegðunarröskun |
871
|
1.035
|
Alls |
2.233
|
2.831
|
Fötluð börn eftir fötlunarstigi |
1998
|
Mjög alvarleg fötlun - algerlega háð öðrum |
71
|
Alvarleg fötlun - aðstoð og nær stöðug gæsla |
235
|
Fötlun - aðstoð og gæsla |
351
|
Alvarlegar þroskaraskanir sem jafna má við fötlun eða geðræna sjúkdóma |
27
|
Vægari þroskaraskanir - aðstoð, þjálfun og eftirlit |
0
|
Alls |
684
|
280. Samkvæmt reglugerð nr. 225/1995 um starfsemi leikskóla skal gera ráð fyrir aðgengi og aðstöðu fyrir fötluð börn með sérþarfir og vinnuaðstöðu fyrir starfsfólk sem vinnur með þeim börnum. Í reglugerðinni eru einnig áréttuð ákvæði um ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu leikskóla. Gera skal áætlun fyrir hvert barn, sem þarf sérstaka aðstoð eða þjálfun, og skal hún stuðla að því að auka færni barnsins miðað við þroskastig þess. Á árinu 1998 voru alls 553 börn á leikskólum sem nutu sérstaks stuðnings, svo sem vegna fötlunar, tilfinningalegra eða félagslegra erfiðleika.
281. Í grunnskólalögum nr. 66/1995 kemur fram að markmið náms og kennslu og starfshættir grunnskóla skuli vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun, meðal annars vegna fötlunar. Jafnframt er áréttað að við setningu aðalnámskrár, skipulagningu náms og kennslu og við gerð námsgagna skuli sérstaklega gætt að því að allir nemendur fái sem jöfnust tækifæri til náms. Börn sem eiga erfitt með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika og/eða fötlunar eiga rétt á sérstökum stuðningi í námi. Kennslan getur verið einstaklingsbundin eða farið fram í hópi innan eða utan almennra bekkjardeilda, í sérdeildum eða í sérskóla. Meginstefnan skal vera sú að kennslan fari fram í heimaskóla. Á árinu 1998 voru þrír sérskólar á grunnskólastigi fyrir fatlaða með alls um 150 nemendur.
282. Í nýrri skólastefnu, sem liggur til grundvallar nýjum aðalnámskrám fyrir öll skólastig, er lögð áhersla á að sérþarfir nemenda séu metnar með öflugri greiningu, einkum við upphaf grunnskóla. Er sérstaklega stefnt að því að taka á málefnum barna með lesblindu. Í aðalnámskrá grunnskóla eru settar fram skýrar kröfur til skóla um greiningu á lestrarörðugleikum. (288)
283. Sérstök reglugerð nr. 389/1996 gildir um sérkennslu í grunnskóla. Í reglugerðinni er áréttað að grunnskólinn skuli laga starf sitt að þroska og getu allra nemenda sinna. Sveitarstjórn skal sjá um að börn á grunnskólaaldri sem þurfa á sérkennslu að halda fái kennslu við sitt hæfi. Lögð er áhersla á að greina þá einstaklinga sem þurfa á sérkennslu að halda vegna fötlunar eða af öðrum ástæðum og að vinna rökstudda námsáætlun fyrir hvern nemanda. Þá gildir reglugerð nr. 709/1996 um námsmat nemenda sem víkja svo frá almennum þroska að þeim henta ekki samræmd próf.
284. Í aðalnámskrá grunnskóla eru ný ákvæði um sérstaka íslenskukennslu fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta nemendur og táknmálskennslu fyrir heyrnarlausa. Lögð er áhersla á tvítyngisstefnu en forsenda hennar er að ganga út frá táknmáli og nemendur læri síðan önnur mál á þeim grunni. Lögð er áhersla á mikilvægi þess að borin sé jöfn virðing fyrir táknmáli og íslensku.
285. Samkvæmt lögum um framhaldsskóla nr. 80/1996 skal veita fötluðum nemendum á framhaldsskólastigi kennslu og sérstakan stuðning í námi. Látin skal í té sérfræðileg aðstoð og nauðsynlegur aðbúnaður eftir því sem þörf krefur. Fatlaðir nemendur skulu stunda nám við hlið annarra nemenda eftir því sem kostur er. Menntamálaráðherra getur heimilað stofnun sérstakra deilda við framhaldsskóla fyrir fatlaða nemendur en ekki er gert ráð fyrir sérskólum.
286. Sérstök reglugerð nr. 372/1998 er í gildi um kennslu fatlaðra nemenda í framhaldsskólum. Samkvæmt reglugerðinni skulu fatlaðir nemendur stunda nám við hlið annarra nemenda eftir því sem kostur en að auki eiga fatlaðir nemendur rétt á kennslu og sérstökum stuðningi í námi. Kennsla fatlaðra skal byggja á rökstuddri námsáætlun fyrir nemendahóp eða einstakling.
287. Í lögum um framhaldsskóla er fjallað um rétt heyrnarlausra nemenda til íslensku-kennslu. Samkvæmt reglugerð nr. 329/1997, um sérstaka íslenskukennslu í framhaldsskólum, eiga heyrnarlausir nemendur og heyrandi börn heyrnarlausra foreldra rétt á sérstakri kennslu í íslensku. Í aðalnámskrá framhaldsskóla er lögð áhersla á tvítyngisstefnu og táknmálskennslu.
288. Þann 4. febrúar 1999 kvað Hæstiréttur Íslands upp dóm þar sem Háskóli Íslands var talinn hafa brotið á rétti fatlaðs nemanda. Blind stúlka hélt því fram að hún hefði ekki fengið þá aðstoð og aðstöðu sem fötlun hennar krefðist, en hún stundaði nám við Háskólann frá 1990-1994. Taldi Hæstiréttur að Háskólanum hefði borið skylda til að taka við nemandanum og gera almennar ráðstafanir sem fylgdu námi svo fatlaðs nemanda við skólann, til að hún fengi notið þeirrar þjónustu sem almennir stúdentar nutu. Var vísað til laga um málefni fatlaðra, mannréttindasáttmála Evrópu og jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Talið var að þrátt fyrir að komið hefði verið til móts við ýmsar óskir nemandans um undanþágur og aðstoð vegna fötlunar hennar hefði skort á að gerðar væru almennar ráðstafanir eða heildarstefna mótuð um námsaðstoð, námsframvindu, aðstoð í prófum og próftíma sem nemandi gæti gengið að. Rétt er að geta þess að árið 1995 endurskoðaði Háskóli Íslands samþykktir sínar um málefni fatlaðra.
289. Um félagslega aðstoð til foreldra fatlaðra barna er vísað til umfjöllunar í 212-213. mgr. hér að ofan, sérstaklega um reglugerð nr. 504/1997 um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna. Auk þessa er hægt að sækja um heimahjúkrun fyrir mikið fötluð eða langveik börn bæði á vegum heilsugæslu og sjálfstætt starfandi hjúkrunarfræðinga. (289)
(c) Heilsa og heilsugæsla (24. grein)
290. Lög nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu eru efnislega að mestu leyti óbreytt en heildarendurskoðun á lögunum er hafin. Mikilvæg ákvæði um rétt til heilbrigðisþjónustu er að finna í lögum nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga og er vísað til umfjöllunar í 123. mgr. skýrslunnar hér að framan. Samkvæmt lögum um réttindi sjúklinga er skylt að gera allt sem unnt er til að sjúkt barn fái að þroskast og njóta lífsgæða þrátt fyrir veikindi og meðferð eftir því sem ástand þess leyfir. Hlífa ber börnum við ónauðsynlegum rannsóknum og aðgerðum. Í lögunum eru að auki ákvæði um rétt sjúkra barna, sem dveljast á heilbrigðisstofnunum, til að hafa foreldra eða aðra nákomna hjá sér eftir því sem kostur er, rétt systkina og vina til að heimsækja sjúk börn á heilbrigðisstofnunum og rétt sjúkra barna á skólaskyldualdri til að fá kennslu sem hæfir aldri þeirra og ástandi. Þá skal umhverfi og aðbúnaður sjúkra barna á heilbrigðisstofnunum hæfa aldri þeirra, þroska og ástandi.
291. Þann 1. janúar 1998 tóku gildi ný sóttvarnarlög nr. 19/1997 sem eiga að tryggja betri heildaryfirsýn yfir smitsjúkdóma á landinu og skjót viðbrögð við þeim.
292. Læknalögum nr. 53/1988 var breytt með lögum nr. 68/1998. Með breytingunni var kom á öflugu viðbragðskerfi þegar óvæntan skaða ber að höndum, tilkynningarskyldu heilbrigðisstarfsmanna, skráningu, rannsókn og meðferð þessara mála.
293. Sett hafa verið lög nr. 139/1998 um gagnagrunn á heilbrigðissviði með það að markmiði að heimila gerð og starfrækslu miðlægs gagnagrunns með ópersónugreinanlegum heilsufarsupplýsingum í þeim tilgangi að auka þekkingu, til þess að bæta heilsu og efla heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt lögunum getur sjúklingur hvenær sem er óskað eftir því við landlækni að upplýsingar um hann verði ekki fluttar í gagnagrunn á heilbrigðissviði og er skylt að verða við slíkri beiðni.
294. Heilbrigðisráðuneytið setti á laggirnar sérstakan Forvarnarsjóð árið 1995 til forvarna á sviði áfengis- og fíkniefnamála. Sjóðurinn heyrir undir Áfengis- og vímuvarnarráð sem nánar er fjallað um í 409. mgr.
295. Hafinn er undirbúningur að byggingu nýs barnaspítala við Landspítala Íslands sem ráðgert er að taka í notkun árið 2002 en spítalinn mun bæta til muna aðstöðuna til að sinna sjúkum börnum. Þá mun ný barnadeild við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri taka til starfa fyrri hluta árs 2000.
296. -mislegt hefur áunnist í stefnumótun í heilbrigðismálum, ekki síst með tilliti til barna. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá maí 1999 segir að tryggja skuli öllum landsmönnum greiðan aðgang að heilbrigðisþjónustu og að ráðist verði í aðgerðir til að bæta þjónustu við sjúk börn og ungmenni.
297. Slysavarnarráð Íslands starfar samkvæmt lögum nr. 33/1994. Í júní 1998 lagði heilbrigðisráðherra fram á Alþingi skýrslu um tíðni og eðli barnaslysa á tímabilinu 1990-1996. Í skýrslunni er gerð grein fyrir ýmsu því sem gert hefur verið af hálfu stjórnvalda í samvinnu við aðra aðila í slysavörnum. Slysavarnarráð hefur, ásamt Umferðarráði, staðið fyrir námskeiðum og fræðslu í samvinnu við sveitarfélög og löreglu og þá hefur Umferðarráð staðið fyrir margvíslegri fræðslu sem miðar að öryggi barna í umferðinni. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að kannanir sýni umtalsverða aukningu í notkun öryggisbúnaðar í bílum fyrir börn á leikskólaaldri. Staðlagerð hefur verið aukin og byggingarreglugerð endurskoðuð með öryggi barna í huga. Tekið hefur verið upp eftirlit með sölu og gæðum leikfanga, sbr. reglugerð nr. 408/1994 um öryggi leikfanga og hættulegar eftirlíkingar og lög nr. 134/1995 um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu. Þá hafa verið gerðar öryggisúttektir í sveitarfélögum í samvinnu við slysavarnarfélög. Eftirfarandi eru upplýsingar úr skýrslunni um fjölda barnaslysa. Upplýsingar voru aðallega fengnar frá Sjúkrahúsi Reykjavíkur, en þar er rekin slysadeild sem þjónar fólki mun víðar að en úr Reykjavík:
Barnaslys |
1993
|
1994
|
1995
|
1996
|
Slys í heimahúsum |
2.876
|
2.837
|
2.975
|
2.969
|
Skólaslys |
1.238
|
1.251
|
1.349
|
1.476
|
Íþróttaslys |
1.518
|
1.440
|
1.281
|
1.302
|
Umferðarslys |
650
|
634
|
851
|
1.191
|
Heildarfjöldi |
1990-1996
|
Drengir
|
Stúlkur
|
Slys í heimahúsum |
22.153
|
12.422
|
9.731
|
Skólaslys |
10.139
|
5.771
|
4.368
|
Íþróttaslys |
9.924
|
6.239
|
3.685
|
Umferðarslys |
6.019
|
3.374
|
2.645
|
298. Algengustu orsakir slysa eru högg af hlut eða árekstur við hlut, fall eða hrösun á jafnsléttu. Banaslys barna á árunum 1990-1995 voru alls 70, af því voru 48 drengir og 22 stúlkur. Algengustu orsakir voru nátturuhamfarir, umferðarslys og drukknun.
299. Árið 1997 hófst þriggja ára átaksverkefni á vegum heilbrigðisráðuneytisins um slysavarnir barna og unglinga. Skipuð var verkefnisstjórn fulltrúa sex ráðuneyta ásamt fulltrúa sveitarfélaganna. Meginverkefni hennar er að draga úr slysum barna, stuðla að samræmdri slysaskráningu, efla og samhæfa aðgerðir þeirra sem þegar vinna að slysavörnum barna, tryggja tengsl við opinberar stofnanir, sveitarfélög, félagasamtök og faghópa og veita ráðgjöf um slysavarnir. Sérstakur framkvæmdarstjóri var ráðinn til verkefnisins sem áður var barnaslysafulltrúi Slysavarnarfélags Íslands.
300. Undanfarin ár hefur verið í gangi samstarfsverkefni heilbrigðisráðuneytis og landlæknisembættisins um forvarnir og bætta lífshætti undir heitinu Heilsuefling - hefst hjá þér. Tekið er mið af markmiðum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um heilbrigði fyrir alla. Markmið með verkefninu eru að vekja almenning til ábyrgðar og umhugsunar um heilbrigða lífshætti, bæta þekking almennings á áhættuþáttum og að auka vilja og möguleika almennings til að lifa heilsusamlegu lífi. Gerðar hafa verið kannanir á lífsháttum og líðan fólks, gefið út fræðsluefni og unnið að heilsueflingu í skólum og á vinnustöðum. Árið 1997 hófst samstarf við Íþróttasamband Íslands um breitt átak um heilsueflingu og forvarnir.
301. Starfshópur um stefnumótun í málefnum geðsjúkra á vegum heilbrigðisráðuneytis skilaði skýrslu í lok árs 1998. Talið var að sérstaka áherslu bæri að leggja á málefni barna og unglinga sem eiga við geðsjúkdóma að stríða. Lagt var til meðal annars að efla til muna þjónustu Barna- og unglingageðdeildar Landspítala Íslands, efla grunngeðheilbrigðisþjónustu í tengslum við skóla og heilsugæslu, fjölga sérhæfðum fagmönnum á öllum sviðum sem sinnt geta börnum og fjölskyldum þeirra og koma á skipulegu samstarfi opinberra aðila varðandi mat og meðferð á unglingum í hegðunar- og vímuefnavanda.
302. Unnið er að forgangsröðun og gerð framkvæmdaráætlana í samræmi við fyrirliggjandi stefnumótun. Þegar hefur verið hrint í framkvæmd fyrstu áföngum sem varða úrbætur í geðheilbrigðismálum unglinga, ekki síst þeirra sem eiga við áfengis- og vímuefnavanda að stríða. Nýlega samþykkti ríkisstjórnin að efla þjónustu Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans og koma á samstarfi milli deildarinnar og Barnaverndarstofu um bráðamótttöku fyrir unglinga. Jafnframt var skipað samstarfsráð heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytis um meðferð barna og unglinga með vímuefnavanda, hegðunar- og geðraskanir. Samstarfsráðið skal skila tillögum um framtíðarskipan þessara mála fyrir 1. júlí 2000.
303. Barna- og unglingageðdeild Landsspítalans tók í notkun framhaldsdeild langveikra geðsjúkra barna í ársbyrjun 1998.
304. Í heilbrigðisráðuneytinu er verið að leggja lokahönd á nýja íslenska heilbrigðisáætlun fram til ársins 2005, en þetta er landsáætlun í heilbrigðismálum sem byggir að verulegu leyti á stefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um heilbrigði á 21. öldinni og Evrópuáætlun Heilsa 21. (290)
305. Til grundvallar heilbrigðisáætluninni liggja einnig nýlegar viðmiðanir um forgangsröðun á verkefnum og viðfangsefnum heilbrigðisþjónstunnar á Íslandi en þar er sérstök áhersla lögð á að tryggja rétt þeirra sem sökum æsku, fötlunar og öldrunar eiga undir högg að sækja í þjóðfélaginu. Samkvæmt drögum að heilbrigðisáætlun eru skilgreind ákveðin forgangsverkefni og meðal þeirra eru börn, slysavarnir og tóbaksvarnir. Markmiðin eru að jafna mun á heilsufari barna tengdum þjóðfélagsstöðu foreldra og að geðheilbrigðisþjónusta nái árlega til 2% barna á aldrinum 0-18 ára líkt og á hinum Norðurlöndunum, en árið 1997 náði þjónustan einungis til 0,4-0,5 % barna í þessum aldurshópi. Þá er forgangsverkefni að draga verulega úr reykingum barna og unglinga.
306. Auk þessa skilgreina drög að heilbrigðisáætlun ýmis sérstök markmið, svo sem um:
· jafnræði til heilbrigðisþjónustu,
· að gerð verði landsáætlun í umhverfis- og heilbrigðismálum,
· að Ísland verði ávallt meðal þeirra fimm þjóða sem búa við bestu heilbrigðisþjónustu í heiminum samkvæmt gæðakvörðum Sameinuðu þjóðanna,
· að öll börn á skólaskyldualdri fái heilbrigðisfræðslu á hverju námsári og að börn fái skipulega fræðslu og þjálfun í heilsueflingu,
· að draga úr ungbarnadauða, slysum og slysadauða barna og fæðingartíðni meðal mæðra 19 ára og yngri,
· að draga úr áfengis-, vímuefnaneyslu og reykingum ungs fólks,
· að draga úr tíðni og dauðsföllum vegna heimilisofbeldis, kynferðisofbeldis og annars ofbeldis.
307. Lögum um tóbaksvarnir nr. 74/1984 var breytt með lögum nr. 101/1996, sem breyttu ákvæðum um aðgengi að tóbaki, um auglýsingar og um reykingar á ýmsum stöðum, með það að markmiði að styrkja baráttuna gegn reykingum barna. Aldursmörk til tóbakskaupa voru hækkuð úr 16 árum í 18 ár. Reykingar eru með öllu bannaðar á leikskólum, í grunnskólum, framhaldsskólum, sérskólum, dagvistum barna og húsnæði til félags- og tómstundastarfs barna og unglinga.
308. Í júní 1998 samþykkti Alþingi ályktun um að fela ríkisstjórninni að undirbúa heildstæða og samræmda stefnu í málefnum langsjúkra barna. Undirbúningsskýrsla um stefnumótun liggur fyrir og í júní 1999 samþykkti ríkisstjórnin að skipa nefnd með fulltrúum heilbrigðis-, félags-, mennta- og fjármálaráðherra til þess að semja drög að heildstæðri og samræmdri stefnu í málefnum langveikra barna. Á árinu 1998 voru alls 48 börn með umönnunarmat í tveimur alvarlegustu flokkunum, það er börn sem þurfa langvarandi vistun á sjúkrahúsi eða heimahjúkrun og yfirsetu og börn sem þurfa tíðar sjúkrahúsinnlagnir, hvort tveggja vegna lífshættulegra sjúkdóma, sjá einnig 279. mgr. hér að framan.
(d) - (e) Félagsleg aðstoð og aðstaða til umönnunar barna (26. grein og 18. grein, 3. málsgrein) og lífsafkoma (27. grein 1.-3. málsgrein)
309. Samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar skal öllum sem þess þurfa tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Eins og áður sagði skal börnum að auki tryggð sérstök vernd og umönnun. (296, 307-308)
310. Vísað er til umfjöllunar um 18. grein, 2. málsgrein samningsins hér að ofan, sjá 203-221. mgr. skýrslunnar, um bætur almannatrygginga og lög um félagslega aðstoð. Til viðbótar má nefna að almennt hefur verið dregið úr tekjutengingu bóta, til dæmis skerðir félagsleg fjárhagsaðstoð sveitarfélaga samkvæmt lögum um félagsþjónustu ekki bætur almannatrygginga frá og með 1. september 1997. Þá voru í mars 1999 settar í heilbrigðisráðuneytinu reglur með stoð í lögum um almannatryggingar sem rýmka rétt til greiðslu ferðakostnaðar sjúklinga og aðstandenda þeirra. (297-306, 309)
VIII. Menntun, tómstundir og menningarmál
(a) Menntun, þar með talin starfsmenntun og ráðgjöf (28. grein)
311. Samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar skal öllum sem þess þurfa tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá maí 1999 segir að tryggja skuli öllum jöfn tækifæri til náms án tillits til búsetu og efnahags. (310)
312. Sett hefur verið sérstök reglugerð nr. 225/1995 um starfsemi leikskóla þar sem kveðið er á um þá þætti í rekstri leikskóla sem eru grunnforsendur þess að uppeldismarkmiðum leikskóla verði náð. Fyrir hvert stöðugildi leikskólakennara, sem sér um umönnun, uppeldi og menntun barna í leikskóla, skulu vera 8 barngildi. Barngildi reiknast þannig:
· 5 ára barn reiknast sem 1,0 barngildi
· 4 ára barn reiknast sem 1,0 barngildi
· 3ja ára barn reiknast sem 1,3 barngildi
· 2ja ára barn reiknast sem 1,6 barngildi
· 1 árs barn eða yngra reiknast sem 2,0 barngildi.
313. Þann 1. júlí 1999 tók gildi í fyrsta sinn á Íslandi aðalnámskrá fyrir leikskóla, sem hefur ígildi reglugerðar. Aðalnámskrá inniheldur faglega stefnumörkun um uppeldis- og menntunarhlutverk leikskólastarfsins og leiðir að settu marki þar sem þroski barnsins og þarfir eru þungamiðja. Aðalnámskrá geymir einnig upplýsingar og viðmiðun fyrir foreldra svo að þeir geti fylgst með vinnu í leikskólum og árangri starfsins. Áhersla er lögð á samvinnu leikskóla og grunnskóla til að tryggja hagsmuni barnanna. Eftirfarandi eru nokkrar tölulegar upplýsingar um leikskóla á Íslandi 1998: (311)
Börn í leikskólum |
Hlutfall af árgangi %
|
Alls 1-5 ára |
69
|
1 árs |
12
|
2 ára |
65
|
3 ára |
87
|
4 ára |
91
|
5 ára |
88
|
Upplýsingar um leikskóla |
Fjöldi
|
Börn 0-5 ára alls |
26.098
|
Börn á leikskólum 0-5 ára |
15.105
|
- drengir |
7.809
|
- stúlkur |
7.296
|
Leikskólar alls |
249
|
Stöðugildi alls í leikskólum |
2.780
|
- leikskólakennarar |
788
|
- önnur uppeldismenntun |
129
|
- ófaglærðir |
1.588
|
- önnur störf en uppeldi |
275
|
Barngildi í leikskólum |
13.083
|
314. Samkvæmt lögum nr. 66/1995 um grunnskóla, er grunnskólinn 10 ára skóli og almennt er gert ráð fyrir að nemendur hefji nám árið sem þeir verða sex ára. Grunnskólinn er skyldunám og er hverju sveitarfélagi skylt að sjá öllum börnum á aldrinum 6-16 ára, sem þar eiga lögheimili, fyrir skólavist. Vísað er til þess sem segir um hlutverk menntamálaráðuneytisins og skólayfirvalda í 17-24. mgr. skýrslunnar hér að framan, auk upplýsinga um grunnskólann í 35-38, 40, 42, 84, 115, 129-131, 158, 169-170, 191-192 og 282-284. mgr. skýrslunnar. Til viðbótar má nefna að menntamálaráðuneytinu ber nú skylda til þess að sjá um að samræmd próf séu haldin í 4. bekk, 7. bekk og í lok 10. bekkjar, er það fjölgun samræmdra prófa frá því sem áður var og um leið aukið aðhald og eftirlit með skólastarfi. (312, 314)
315. Árið 1998 voru alls um 30 þúsund kjarnafjölskyldur með börn á grunnskólaaldri og rúmlega 15% þjóðarinnar voru börn á grunnskólaaldri.
316. Grunnskólalög segja til um þann lágmarkstíma sem nemendur eiga að vera í skóla og sá tími er jafnframt skilgreining á lágmarkskennslu sem nemendur eiga rétt á. Skóladagar nemenda skulu eigi vera færri en 170 á skólaári. Eftirfarandi viðmiðanir gilda frá og með skólaárinu 2001-2002 þegar ákvæði grunnskólalaga um kennslutíma verða komin að fullu til framkvæmda. Miðað við níu mánaða skólatíma og fjörutíu mínútna kennslustundir eiga nemendur rétt á eftirfarandi fjölda kennslustunda:
· 1.-4. bekkur á rétt á 30 kennslustundum á viku
· 5.-7. bekkur á rétt á 35 kennslustundum á viku
· 8.-10. bekkur á rétt á 37 kennslustundum á viku.
317. Samkvæmt reglugerð nr. 388/1996 um nemendaverndarráð getur skólastjóri grunnskóla stofnað nemendaverndarráð. Hlutverk þess er að samræma skipulag og framkvæmd þjónustu við nemendur varðandi heilsugæslu, námsráðgjöf og sérfræðiþjónustu og aðstoða við gerð og framkvæmd áætlana um sérstaka aðstoð við nemendur.
318. Vísað er til 311. mgr. skýrslunnar hér að framan um jafnrétti til náms. Reglugerð nr. 391/1996 gefur öllum nemendum í grunnskólum, sem hafa annað móðurmál en íslensku og hafa fasta búsetu hér á landi, rétt á sérstakri kennslu í íslensku. Í aðalnámskrá er vísað í þessu sambandi til samningsins um réttindi barnsins. Með tilvísan í reglugerðina geta þeir sem hafa annað tungumál en íslensku fengið kennslu í og á móðurmáli sínu í samráði við forsjáraðila með samþykki viðkomandi sveitarstjórnar. Með kennslunni skal stefnt að virku tvítyngi þessara nemenda. Skólaárið 1998-1999 töldust alls 747 grunnskólanemendur, eða 1,8% hafa erlent tungumál að móðurmáli, en með því er átt við að annar eða báðir forsjáraðilar nemandans hafi annað tungumál en íslensku að móðurmáli og noti það mál að staðaldri í daglegum samskiptum sínum við nemandann. (313)
319. Eftirfarandi eru nokkrar tölulegar upplýsingar um grunnskóla fyrir skólaárið 1998-1999: (317)
Upplýsingar um grunnskóla |
Fjöldi
|
Nemendur alls |
42.421
|
- drengir |
21.793
|
- stúlkur |
20.628
|
Grunnskólar alls |
196
|
- almennir grunnskólar |
185
|
- einkaskólar |
5
|
- sérskólar |
6
|
Nemendur í einkaskóla |
655
|
Nemendur í sérskóla |
147
|
Meðalfjöldi nemenda í skóla |
217
|
Meðalfjöldi nemenda á kennara |
10.5
|
Meðalstærð almennra bekkjardeilda |
18.9
|
Stöðugildi alls í grunnskóla |
6.092
|
- kennarar með kennsluréttindi |
3.336
|
- kennarar án kennsluréttinda |
709
|
320. Með nýjum lögum nr. 80/1996 um framhaldsskóla er mörkuð skýrari stefna um skólastarf á framhaldsskólastigi, markmið þess, skipulag og starfshætti. Samkvæmt lögunum skulu allir nemendur sem lokið hafa grunnskólanámi eða hlotið jafngilda undirstöðumenntun eiga kost á að hefja nám í framhaldsskóla. Nemendum sem ekki hafa náð tilskildum árangri við lok grunnskóla skal standa til boða fornám eða nám í sérstökum deildum á framhaldsskólastigi. Að jafnaði hefja um 85-90% nemenda í árgangi nám í framhaldsskóla en nokkuð er um brottfall meðan á námi stendur. Eitt af markmiðum nýrra framhaldsskólalaga eru breyttar áherslur í námsframboði og áhersla á að öllum nemendum standi til boða námsleiðir við hæfi. Um framhaldsskóla er einnig vísað til 42, 132 og 285-287. mgr. (319)
321. Árlegur starfstími nemenda í framhaldsskólum skal eigi vera skemmri en níu mánuðir. Á því tímabili skulu kennsludagar ekki vera færri en 145. Sérstök reglugerð nr. 552/1997 gildir um starfstíma skóla og leyfisdaga. Skólaárið 1998-99 voru alls starfandi um 40 skólar á framhaldsskólastigi, þar af 4 einkaskólar. Nemendur voru alls um 20 þúsund. (319)
322. Framhaldsskólalög fela í sér nýja stefnumörkun um starfsnám á framhaldsskólastigi en breyttar áherslur í námsframboði beinast fyrst og fremst að uppbyggingu á sviði starfsnáms. Lögin gera ráð fyrir virkri þátttöku aðila atvinnulífs í tillögugerð og stefnumótun og skapaður er vettvangur fyrir samstarf aðila atvinnulífs og skólamanna um framkvæmd starfsnáms. Sett hefur verið ný reglugerð nr. 648/1999 um löggiltar iðngreinar. (322)
323. Í reglugerð nr. 329/1997 er fjallað um sérstaka íslenskukennslu í framhaldsskólum sem gefur öllum nemendum í framhaldsskólum, sem hafa annað móðurmál en íslensku og hafa fasta búsetu hér á landi, svo og íslenskum nemendum sem dvalið hafa langdvölum erlendis, rétt á sérstakri kennslu í íslensku. Í aðalnámskrá framhaldsskóla er áréttað að brúa þurfi bilið milli kunnáttu í móðurmáli og íslensku og að traust undirstaða í móðurmáli sé forsenda færni í seinni málum.
324. Sett hafa verið lög nr. 136/1997 um háskóla, sem setja háskólastofnunum almennan ramma um stjórnsýslu og fjárveitingar ríkisins auk þess sem sett eru fram meginskilyrði sem skólastofnun þarf að uppfylla til þess að geta talist háskóli. Árið 1998 voru alls tíu skólar á háskólastigi á Íslandi, þar af 2 einkaskólar. Sett hafa verið sérstök lög nr. 43/1995 um listmenntun á háskólastigi. Um Kennaraháskóla Íslands gilda nú lög nr. 137/1997, um Háskólann á Akureyri lög nr. 40/1999 og um Háskóla Íslands lög nr. 41/1999. Þá gilda reglur nr. 331/1999 um gæðaeftirlit með háskólakennslu með það að markmiði að auka gæði kennslu í háskólum, vinna að því að nýta tæki gæðastjórnunar til að bæta skipulag og sveigjanleika í starfsemi háskóla og stuðla að aukinni ábyrgð háskólastofnana á eigin starfsemi. (324)
325. Háskóli Íslands er fjölmennastur skóla á háskólastigi. Skipulagðar námsleiðir í grunnnámi til fyrsta háskólaprófs eru 57, til meistaraprófs eru þær 47, en 7 námsleiðir eru til doktorsprófs. Alls eru haldin um 1500 námskeið árlega í deildum og námsbrautum skólans. Nemendur í Háskóla Íslands eru um 6000 og rúmlega 800 útskrifast árlega. (325)
326. Eftirfarandi er yfirlit yfir útgjöld hins opinbera til fræðslumála sem hlutfall af landsframleiðslu og í milljónum ISK þar sem sést hver aukningin hefur orðið á undanförnum árum:
Útgjöld til fræðslumála (hlutfall af landsframleiðslu %) |
1996
|
1997
|
1998
|
Grunnskólastig |
2.71
|
2.83
|
3.01
|
Framhaldsskólastig |
1.46
|
1.32
|
1.42
|
Háskólastig |
0.65
|
0.65
|
0.72
|
Alls |
5.32
|
5.35
|
5.70
|
Útgjöld til fræðslumála í milljón ISK |
1996
|
1997
|
1998
|
Grunnskólastig |
13.159
|
14.977
|
17.631
|
Framhaldsskólastig |
7.081
|
7.015
|
8.352
|
Háskólastig |
3.148
|
3.459
|
4.250
|
327. Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD) gaf nýlega út ritið Education at a Glance 1998 og fram kemur í ritinu að menntunarstig Íslendinga í árum talið er hátt í samanburði við önnur OECD ríki. Væntanlega skólagang 5 ára einstaklings á Íslandi er 17,5 ár og er Ísland þar í 6. sæti af 33 samanburðarlöndum.
(b) Markmið menntunar (29. grein)
328. Samkvæmt lögum nr. 66/1995 um grunnskóla er hlutverk grunnskólans óbreytt.
329. Vísað er til 84. mgr. skýrslunnar hér að framan um aðalnámskrá grunnskóla. Aðalnámskrá grunnskóla tók gildi 1. júní 1999 en með henni voru gerðar talsverðar umbætur í skólastarfi á grundvelli nýrrar skólastefnu. Byrjað var að starfa eftir aðalnámskránni skólaárið 1999-2000 og skal hún að fullu vera komin til framkvæmda í júní 2002. Aðalnámskráin skiptist í almennan hluta, þar sem meðal annars er fjallað um uppeldishlutverk grunnskólans, meginstefnu í kennslu, meginmarkmið náms og kennslu, og svo ellefu sérstaka greinarhluta þar sem fjallað er um markmið, inntak og skipulag náms á tilteknum námssviðum. (330)
330. Lífsleikni er gerð að skyldunámsgrein í grunnskóla. Í sérstökum greinarhluta aðalnámskrár um lífsleikni er tekið fram að íslenskum menntayfirvöldum beri, samkvæmt lögum og ýmsum skuldbindingum íslenska ríkisins innlendum og erlendum, að veita börnum ýmsa fræðslu sem standi utan hefðbundinna námsgreina. Er sérstaklega vitnað til 26. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og laga um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna. Lífsleikni er ætlað að auðvelda skólum að verða við þessum kröfum og koma til móts við kröfur um aukið uppeldishlutverk skóla. Lífsleikni á að efla alhliða þroska nemandans. Það felur í sér meðal annars að nemandi geri sér far um að rækta með sér andleg verðmæti, líkamlegt heilbrigði og sálrænan styrk. Hann efli félagsþroska sinn, siðvit og virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Auk þess er leitast við að styrkja áræði hans, frumkvæði, eðlislæga sköpunargáfu og aðlögunarhæfni til að takast á við kröfur og áskoranir í daglegu lífi. Fengist er við þætti sem tengjast því að vera þátttakandi í lýðræðislegu þjóðfélagi og að tilheyra fjölskyldu.
331. Nám í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræði er einnig skyldunámsgrein í grunnskóla og er náminu ætlað að stuðla að menntun og þroska nemenda og efla skilning þeirra á íslensku samfélagi og menningu. Samkvæmt aðalnámskrá er námsgreininni einkum ætlað að efla trúar-, siðgæðis- og félagsþroska þannig að nemendur verði sífellt hæfari til að taka afstöðu í trúarlegum, siðferðilegum og félagslegum efnum. Námi í trúarbragðafræðum er ætlað að miðla þekkingu á ríkjandi trúarbrögðum og siðferðilegum gildum og auka þannig skilning á ólíkum menningar- og trúarhefðum. Markmiðið er að stuðla að umburðarlyndi og auka víðsýni. Lögð er áhersla á að uppeldishlutverk grunnskólans hafi aukist jafnt og þétt, þótt meginábyrgð uppeldismótunarinnar sé foreldranna, og að mikilvægur þáttur uppeldismótunarinnar sé siðgæðisuppeldið. Skólanum er ætlað að gefa nemendum tækifæri til að fást við viðfangsefni sem tengjast leit þeirra að svörum við spurningum um merkingu lífsins og siðræn gildi og skal temja nemendum að spyrja um skyldur sínar, réttindi og ábyrgð í samskiptum sínum við einstaklinga, samfélagið og umhverfið. (331)
332. Námsgagnastofnun hefur fengið sérstaka fjárveitingu til að endurskoða námsefni grunnskóla með tilliti til nýrrar námskrár og bæta úr því sem talið er ábótvant.
333. Samkvæmt lögum nr. 80/1996 um framhaldsskóla er hlutverk þeirra að stuðla að alhliða þroska allra nemenda svo að þeir verði sem best búnir undir að taka virkan þátt í lýðræðisþjóðfélagi. Framhaldsskólinn býr nemendur undir störf í atvinnulífinu og frekara nám og skal leitast við að efla ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi nemenda, þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum og gagnrýnni hugsun, kenna þeim að njóta menningarlegra verðmæta og hvetja til stöðugrar þekkingarleitar.
334. Aðalnámskrá framhaldsskóla tók gildi 1. júní 1999. Byrjað var að starfa eftir aðalnámskránni skólaárið 1999-2000 og skal hún að fullu vera komin til framkvæmda fimm árum eftir gildistöku. Í almennum hluta aðalnámskrár framhaldsskóla er meðal annars fjallað um hlutverk og markmið framhaldsskóla, uppbyggingu náms og námsleiðir, almenn inntökuskilyrði, skólanámskrá, réttindi og skyldur nemenda, námsmat og próf, sveinspróf og námsamninga, undanþágur og meðferð persónulegra upplýsinga og meðferð mála. Í námskrám einstakra námsgreina og námskrám í sérgreinum starfsnáms eru meðal annars skilgreind markmið námsins og lýsingar á námskipan.
335. Lífsleikni er einnig skyldunámsgrein í framhaldsskóla. Lífsleikni á framhaldsskólastigi felur í sér námsþætti sem gera nemendur hæfari til að lifa í lýðræðisþjóðfélagi og dýpka skilning þeirra á samfélaginu, svo sem sögulegum forsendum þess, atvinnuháttum, menningu og listum, náttúru og umhverfi, hagfræði og auðlindum jarðar, samskiptum, fjölskylduábyrgð og einstaklingsskyldum. Samkvæmt aðalnámskrá um lífsleikni skiptast viðfangsefni greinarinnar í tvo hluta. Annars vegar sjálfsþekking, samskipti, sköpun og lífstíll, og hins vegar samfélag, umhverfi, náttúra og menning. Eftir nám í síðari hluta á nemandi meðal annars að hafa öðlast samfélagslega yfirsýn sem geri honum kleift að skilja og virða reglur samfélagsins, þekkja helstu stofnanir samfélagsins sem starfa að almannaheill og hlutverk þeirra, þroskað með sér alþjóðavitund og þekkja helstu samninga og samþykktir um mannréttindi.
336. Samkvæmt lögum um framhaldsskóla skal starfsnám stuðla að almennri menntun nemenda, veita þeim undirbúning til tiltekinna starfa og innsýn í hlutverk fyrirtækja og starfsfólks í atvinnulífi. Náminu er jafnframt ætlað að hvetja nemendur til að viðhalda þekkingu sinni og bæta hana með endurmenntun eða áframhaldandi námi.
337. Samkvæmt lögum nr. 136/1997 er háskóli menntastofnun sem jafnframt sinnir rannsóknum ef svo er kveðið á um í reglum um starfsemi viðkomandi skóla. Háskóli skal veita nemendum sínum menntun til þess að sinna sjálfstætt vísindalegum verkefnum, nýsköpun og listum og til þess að gegna ýmsum störfum í þjóðfélaginu þar sem æðri menntunar er krafist. Háskólar skulu miðla fræðslu til almennings og veita þjóðfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar.
(c) Frítími, tómstundir og þátttaka í menningarlífi (31. grein)
338. Samkvæmt aðalnámskrá leikskóla skal leggja áherslu á skapandi starf og leik barnsins. Lögð er áhersla á leik barna sem náms- og þroskaleið og skal skipulag og búnaður leikskóla miða að því að örva leik barna, frumkvæði þeirra og virkni.
339. Í lögum 66/1995 um grunnskóla eru efnislega sömu ákvæði og áður um tómstunda- og félagsstarf og takmarkanir á vinnu nemenda með námi. (335)
340. Íþróttir, líkams- og heilsurækt eru skyldubundnir þættir í starfsemi grunnskóla. Samkvæmt greinarhluta aðalnámskrár um íþróttir er hlutverk íþróttakennslu í skólum að stuðla að alhliða þroska hvers nemanda, efla heilsufar hans og afkastagetu. Lögð er áhersla á að markvisst íþrótta- og hreyfinám hafi jákvæð áhrif á andlega og félagslega líðan nemenda og geti lagt grunninn að heilsusamlegum lífsstíl.
341. Listir eru einnig skyldunámsgrein í grunnskóla. Samkvæmt aðalnámskrá um listgreinar miðar öll listgreinakennsla að því að þroska sköpunargáfu, efla sjálfsvitund og auka menningarskilning nemenda. Lögð er áhersla á jafnvægi milli sköpunar, túlkunar og tjáningar annars vegar og skynjunar, greiningar og mats hins vegar. (340)
342. Íþróttir, líkams- og heilsurækt eru skyldugreinar í framhaldsskólum. Samkvæmt aðalnámskrá er hlutverk íþróttakennslunnar að hafa uppbyggjandi áhrif á líkamlega heilsu og andlega og félagslega líðan. Íþróttakennslan byggist á því að styrkja sjálfsmynd nemandans og má tengja íþróttakennsluna lífsleiknihugtakinu.
343. Samkvæmt lögum um framhaldsskóla er gert ráð fyrir listnámsbrautum sem veita eiga undirbúning að frekara námi í listgreinum á háskólastigi. Listir eru einnig í boði sem valgreinar. Í aðalnámskrá er skilgreint hlutverk listgreinakennslu í fyrsta lagi að kenna tjáningarleiðir listgreinanna og í öðru lagi að vekja með nemendum vitund um tilgang, merkingu og samhengi í listum.
344. Sett hafa verið sérstök íþróttalög nr. 64/1998 en samkvæmt þeim eru meginmarkmið aðgerða ríkis og sveitarfélaga á sviði íþróttamála að stuðla að því að allir landsmenn eigi þess kost að iðka íþróttir við sem hagstæðust skilyrði. Í lögunum er vikið sérstaklega að gildi íþrótta fyrir uppeldis- og forvarnastarf og skal samstarf hins opinbera við íþróttahreyfinguna taka mið af því. Menntamálaráðuneytið fer með yfirstjórn íþróttamála á vegum ríksins og skipar sérstaka íþróttanefnd sem gerir tillögur um fjárframlög til íþróttamála. Rannsóknarstofnun uppeldis- og menntamála gaf árið 1994 út skýrslu sem birtist í bókinni Um gildi íþrótta fyrir íslensk ungmenni. Er þar gerð grein fyrir niðurstöðum rannsóknar sem sýnir að unglingar sem iðka íþróttir og eru í góðri líkamlegri þjálfun eru ekki eins líklegir til að reykja, drekka eða neyta fíkniefna og þeir sem ekki ástunda íþróttir eða eru í lélegri þjálfun. Þeir segjast að jafnaði fá hærri einkunnir í skóla, telja sig betur undirbúna fyrir kennslustundir og líður betur í skólanum.
345. Samkvæmt íþróttalögunum skal menntamálaráðuneytið hafa forgöngu um setningu reglna um öryggisráðstafanir í íþróttamannvirkjum, þar á meðal um eftirlit, og að því er varðar íþróttaáhöld og annan búnað. Árið 1999 voru settar reglur um öryggi á sundstöðum og við kennslulaugar. Unnið er að setningu reglna um öryggi annarra íþróttamannvirkja.
346. Árið 1998 lét menntamálaráðuneytið, í samstarfi við Æskulýðsráð ríksins, Íþróttanefnd ríkisins og frjáls félagasamtök, vinna álit á ábyrgð og öryggismálum í félags- og tómstundastarfi með börnum og unglingum. Er álitið til þess fallið að stuðla að vönduðum vinnubrögðum við þessa starfsemi og auka öryggi.
347. Sett hafa verið ný leiklistarlög nr. 138/1998, en þetta er heildstæð löggjöf um leiklistarmálefni með sérstökum kafla um Þjóðleikhús. Markmið laganna er að efla íslenska leiklist og aðrar sviðslistir og búa þeim hagstæð skilyrði. Þjóðleikhús skal á hverju leikári hafa eitt eða fleiri viðfangsefni ætluð börnum. Þá skal Alþingi árlega veita fé til stuðnings annarri leiklistarstarfsemi, bæði til atvinnumanna og áhugaleikfélaga. Slíkur fjárstuðningur getur auk almennrar leikstarfsemi tekið til meðal annars barnaleikhúsa og brúðuleikhúsa.
348. Í menntamálaráðuneytinu er unnið að gerð frumvarps til laga um tómstundastarf barna sem leysa munu af hólmi núgildandi æskulýðslög, meðal annars með hliðsjón af samningnum um réttindi barnsins og aukna áherslu á hagsmuna- og réttindamál barna. Lögð verður áhersla á að réttindi barna til tómstundastarfs hafi skilgreint inntak, á formlega umgjörð um atbeina opinberra aðila til þess að efla skipulagt tómstundastarf og kröfur til þeirra sem vinna með börnum í skipulegu tómstundastarfi. (339)
349. Aðilar sem standa fyrir reglubundnum rekstri sumarbúða, reiðskóla og þess háttar starfsemi fyrir börn þurfa leyfi Barnaverndarstofu. Árið 1998 höfðu alls 12 aðilar leyfi fyrir alls 556 börn.
350. Félagsmálaráðuneytið skipaði starfshóp árið 1998 til að kanna á hvern hátt fatlaðir geti notið lista- og menningarlífs, tómstunda og sumarleyfa á sama hátt og aðrir í þjóðfélaginu. Hefur meðal annars verið kannað hvernig sveitarfélög standi að skipulegu tómstundastarfi fyrir fötluð börn og er unnið að stefnumótun í málinu.
351. Til viðbótar við sívaxandi starf Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur opnaði árið 1995 öflug menningar- tómstunda- og upplýsingarmiðstöð fyrir ungt fólk 16-25 ára, Hitt húsið, í nýju húsnæði í miðborg Reykjavíkur. Á vegum hússins er rekin margvísleg starfsemi. (337)
352. Á vegum Upplýsinga- og menningamiðstöðvar fyrir nýbúa í Reykjavík, sem sett var á laggirnar 1993, er rekið hópastarf með unglingum í samvinnu við Íþrótta- og tómstundaráð og þrjá grunnskóla. Verkefni eru sambland af fræðslu og skemmtun. Einnig eru starfræktir leshópar fyrir börn á grunnskólaaldri til að hjálpa börnum að halda sínu móðurmáli.
353. Reykjavík er ein af menningarborgum Evrópu árið 2000. Grunnskólar borgarinnar taka þátt í þessu verkefni með það meginmarkmið að auka tækifæri barna til listsköpunar og tjáningar. Áhersla er lögð á víðtæka þátttöku barna og samvinnu við aðra aðila sem tengjast barna- og unglingastarfi.
354. Samstarfsverkefni sveitarfélaga og menntamálaráðuneytisins með stuðningi Norðmanna, Tónlist fyrir alla, hefur verið í gangi í nokkur ár. Á vegum verkefnisins fóru fram 358 skólatónleikar á árinu 1998 og 30 opinberir tónleikar auk tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands fyrir nemendur og almenning.
355. Frá árinu 1995 hefur 16. nóvember ár hvert verið dagur íslenskrar tungu. Árið 1999 var inntak dagsins Skólinn og tungan. Var lögð áhersla á þátttöku skólabarna og voru öllum skólastofnunum landsins send bréf og veggspjöld til að minna á daginn.
IX. Sérstakar verndarráðstafanir
(a) Börn í neyðarástandi
(i) Flóttamannabörn (22. grein)
356. Ríkisstjórnin samþykkti árið 1995 að stofna Flóttamannaráð. Ráðið er skipað fulltrúum fimm ráðuneyta og áheyrnarfulltrúum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Rauða Krossi Íslands. Fulltrúi menntamálaráðuneytsins situr reglulega fundi ráðsins. Meginhlutverk Flóttamannaráðs er að gera tillögur að heildarstefnu og skipulag er varðar móttöku á flóttamönnum og hafa yfirumsjón með framkvæmd á móttöku flóttamanna. Starf Flóttamannaráðs hefur að mestu tengst móttöku flóttamannahópa sem hingað hafa komið til lands á vegum ríkisstjórnarinnar. (346)
357. Móttaka flóttamanna, sem koma hingað á vegum ríkisstjórnarinnar, byggir að öðru leyti á þríhliða samstarfi félagsmálaráðuneytis, Rauða krossins og þess sveitarfélags sem flóttamenn fara til. Árið 1996 var gerður samningur milli félagsmálaráðuneytisins og Rauða Kross Íslands til fimm ára um þetta verkefni.
358. Árið 1999 gerði dómsmálaráðuneytið samning við Rauða Kross Íslands um þjónustu við þá sem koma til Íslands á eigin vegum og leita hælis sem flóttamenn. Árið 1998 leituðu alls 19 einstaklingar hælis, þar af 2 börn og er það í fyrsta sinn sem börn leita hælis á Íslandi án þess að koma í skipulögðum flóttamannahópum. Árið 1999, fram til 1. desember höfðu 17 leitað hælis, þar af 2 börn.
359. Í mars 1999 lagði dómsmálaráðherra fram á Alþingi frumvarp til laga um málefni útlendinga. Með frumvarpinu er miðað við að ákvarða reglur um réttarstöðu útlendinga hér á landi, við komu þeirra, dvöl og brottför. Hefur verið tekið tillit til almennrar þróunar sem á undanförnum árum hefur orðið á löggjöf og viðhorfi til málefna útlendinga, svo sem breytinga á stjórnarskránni árið 1995, þróunar á sviði stjórnsýsluréttar og mannréttinda, svo og þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi, bæði norrænu og evrópsku, og aðildar að mannréttindasamningum eins og flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna. (343)
360. Talsverð vinna hefur verið lögð í að móta stefnu um málefni útlendinga á Íslandi. Árið 1995 skipaði menntamálaráðherra nefnd til að móta stefnu í málefnum útlendinga sem flytjast búferlum til Íslands. Nefndin skilaði árið 1997 skýrslunni Um stöðu og þátttöku útlendinga í íslensku samfélagi þar sem einkum er fjallað um viðfangsefnið út frá ytri aðstæðum. Í skýrslunni er leitast við að skilgreina hugtök, fjallað er um frumréttarstöðu útlendinga á Íslandi og þar er að finna efnismikla kafla um fræðslumál, félagslega aðstoð, heilbrigðisþjónustu, almannatryggingar, vinnumarkaðsmál, upplýsingamál og túlkaþjónustu. Rannsóknarstofnun uppeldis- og menntamála gaf árið 1997 út skýrsluna Aðlögun Íslendinga af erlendum uppruna og stefnumótun í málefnum þeirra. Þetta verkefni má rekja til þátttöku Íslendinga í verkefnum Evrópuráðsins á grundvelli Vínaryfirlýsingarinnar frá 1993 um mannréttindamál. Í þessari skýrslu er gerð ítarleg grein fyrir mismunandi hugmyndafræði við stefnumótun um aðlögun innflytjenda. Skýrslan byggir ennfremur á viðtölum við útlendinga um reynslu þeirra af íslensku samfélagi og viðtölum við fólk sem starfar við þjónustu við Íslendinga af erlendum uppruna.
361. Þegar skýrslur þessar lágu fyrir ákvað ríkisstjórnin að félagsmálaráðuneytið hefði forystu um að skipa vinnuhóp til að fjalla um málefni nýbúa. Ráðherra skipaði vinnuhóp í lok árs 1997 til að fylgja eftir tillögum úr áðurnefndum skýrslum. Vinnuhópur þessi skilaði um mitt ár 1998 skýrslunni Tillögur að aðgerðum sem geta auðveldað útlendingum aðlögun og þátttöku í íslensku samfélagi. Var leitast við að forgangsraða verkefnum og móta þau með það að markmiði að ná meiri heildarsýn yfir málaflokkinn og styrkja þjónustu við nýbúa. Í skýrslu vinnuhópsins er lögð megináhersla á þrjú atriði:
· mikilvægi þess að fólk viðhaldi móðurmáli sínu og að gagnkvæmur skilningur ríki milli meirihluta og minnihluta,
· mikilvægi skóla- og fræðslumálanna,
· þörf á samstarfsvettvangi á landsvísu.
362. Unnið er að framkvæmd tillagna vinnuhópsins. Í lok árs 1999 var skipuð nefnd til að kanna grundvöll fyrir stofnun þjónustu- og fræðslumiðstöðvar á landsvísu um málefni útlendinga. Fyrirsjáanleg verkefni slíkrar miðstöðvar eru upplýsinga- og ráðgjafaþjónusta, túlka- og þýðingarþjónusta, umsjón með námskeiðum og fræðslu, undirbúningur komu flóttamanna í samstarfi við Flóttamannaráð og Rauða Kross Íslands og margþætt menningarstarfsemi. (344)
363. Félagsmálaráðuneytið hefur nýlega gefið út upplýsingabækling fyrir útlendinga sem flytjast til Íslands, þar sem er að finna upplýsingar um íslenskt þjóðfélag, réttindi og skyldur. Í bæklingnum eru meðal annars upplýsingar um opinberar stofnanir sem útlendingar þurfa einkum að hafa samskipti við. Fjallað er um skráningu í landið, dvalar- og atvinnuleyfi, flóttafólk, reglur um forsjá og framfærslu barna, barnabætur og hjúskap og óvígða sambúð. Þá er að finna allar helstu upplýsingar um félagsþjónustu, barnavernd, almannatryggingar, heilbrigðisþjónustu, skattamál og skólamál. Bæklingurinn er gefinn út á íslensku, ensku, pólsku, rússnesku, taílensku, serbnesku og víetnömsku og er aðgengilegur víða. Fyrirhuguð er útgáfa á fleiri tungumálum. Þá gaf félagsmálaráðuneytið út árið 1999 að auki handbók fyrir útlendinga um íslenskt samfélag þar sem farið er ítarlega yfir alla þætti og þýðingu þess að flytjast til landsins. Ætlunin er að þýða handbókina á erlend tungumál.
364. Um menntun barna með annað móðurmál en íslensku er vísað til 318. og 323. mgr. í skýrslunni hér að framan. Árið 1998 voru alls 747 nemendur í grunnskóla með erlent tungumál að móðurmáli og fjöldi barna í leikskólum með erlent móðurmál var 572.
365. Eftirfarandi eru tölulegar upplýsingar um mannfjölda á Íslandi eftir fæðingarlandi/heimsálfu í lok árs 1998:
Fæðingarland |
Fjöldi
|
Ísland |
261.922
|
Norðurlönd |
5.137
|
Önnur EES-lönd |
2.538
|
Önnur Evrópulönd |
2.131
|
Ameríka |
1.840
|
Afríka |
331
|
Asía |
1.720
|
Eyjaálfa |
93
|
Mannfjöldi á Íslandi alls |
275.712
|
366. Eftirfarandi eru nokkrar tölulegar upplýsingar um flóttamenn sem komið hafa á vegum ríkisstjórnarinnar til Íslands: (345)
Þjóðerni flóttamanna
|
Fjöldi
|
Komuár
|
Júgóslavía
|
30
|
1996
|
Júgóslavía
|
17
|
1997
|
Júgóslavía
|
23
|
1998
|
Júgóslavía
|
76
|
1999
|
Flóttabörn
|
Fjöldi
|
Aldur
|
Komuár
|
Júgóslavía
|
16
|
1-15 ára
|
1996
|
Júgóslavía
|
6
|
5-15 ára
|
1997
|
Júgóslavía
|
7
|
7-17 ára
|
1998
|
Júgóslavía
|
37
|
2 mán-17 ára
|
1999
|
(ii) Börn í vopnuðum átökum (38. grein). Sálrænn bati og samfélagsleg aðlögun (39. grein)
367. Ísland hefur hvatt til þess að lágmarksaldur til að mega taka þátt í hernaði verði 18 ár. Var gerð ályktun þessa efnis á ráðherrafundi Norðurlandanna sem haldinn var á Íslandi árið 1999. (351).
(b) Börn sem komast í kast við lögin
(i) Stjórn á málefnum sem varða brot ungmenna (40. grein)
368. Sett hafa verið lög nr. 15/1998 um dómstóla sem eiga að tryggja í sem ríkustum mæli að dómstólarnir verði óháðir hinum tveimur þáttum ríkisvaldsins, sem þeir hafa eftirlit með, og því að sem mestu sjálfstæðir er varðar stjórn innri málefna sinna. (354-355)
369. Samkvæmt 69. gr. stjórnarskrárinnar verður engum gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi sem var refsiverð samkvæmt lögum á þeim tíma þegar hún átti sér stað eða má fullkomlega jafna til slíkrar háttsemi. Viðurlög mega ekki verða þyngri en heimiluð voru í lögum þegar háttsemin átti sér stað. Í lögum má aldrei mæla fyrir um dauðarefsingu. (356)
370. Samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar ber öllum réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Dómþing skal háð í heyranda hljóði nema dómari ákveði annað lögum samkvæmt til að gæta velsæmis, allsherjarreglu, öryggis ríkisins eða hagsmuna málsaðila. Hver sá sem er borinn sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð. (357-358)
371. Í 67. gr. stjórnarskrárinnar eru ákvæði um rétt handtekinna manna. Þar segir meðal annars að engan megi svipta frelsi nema með heimild í lögum. Hver sá sem hefur verið sviptur frelsi á rétt á að fá að vita tafarlaust um ástæður þess. Hvern þann sem er handtekinn vegna gruns um refsiverða háttsemi skal án undandráttar leiða fyrir dómara. Sé hann ekki jafnskjótt látinn laus skal dómari, áður en sólarhringur er liðinn, ákveða með rökstuddum úrskurði hvort hann skuli sæta gæsluvarðhaldi. Heimildir til að úrskurða gæsluvarðhald eru takmarkaðar með nánar tilgreindum hætti. Hver sá sem er sviptur frelsi af öðrum ástæðum á rétt á að dómstóll fjalli strax um lögmæti þess og hafi maður verið sviptur frelsi að ósekju skal hann eiga rétt til skaðabóta.
372. Lögum nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var breytt með lögum nr. 36/1999, þar sem meðal annars var aukinn réttur verjenda til aðgangs að gögnum í opinberum málum. Meginmarkmið breytinga var annars að bæta réttarstöðu brotaþola og verður nánar gerð grein fyrir því síðar. Voru meðal annars settar sérreglur um yfirheyrslur yfir brotaþolum undir 18 ára aldri. (359, 363)
373. Með gildistöku nýrra lögreglulaga nr. 90/1996 urðu grundvallarbreytingar á skipulagi lögreglunnar og æðstu stjórn hennar. Nýtt embætti Ríkislögreglustjóra tók til starfa en Rannsóknarlögregla ríkisins var lögð niður. Rannsóknarlögregla ríkisins sá áður um rannsókn ýmissa brotaflokka en með nýju lögunum varð meginþorri þessara brota viðfangsefni lögreglu á hverjum stað. Embætti Ríkislögreglustjóra hefur meðal annars það hlutverk að styðja einstaka lögreglustjóra og er starfrækt rannsóknardeild sem hefur það hlutverk annast rannsókn efnahagsbrota og aðstoðar lögregluumdæmin við rannsóknir alvarlegra sakamála
374. Samkvæmt ákvæðum lögreglulaga skulu lögreglan og önnur stjórnvöld og stofnanir hafa gagnkvæmt samstarf varðandi verkefni sem tengjast löggæslu, svo sem forvarnir. Sérstaklega skal lögregla vinna með félagsmálayfirvöldum, heilbrigðisyfirvöldum og menntamálayfirvöldum að forvörnum eftir því sem tilefni gefst til og aðstæður leyfa og upplýsa þessa aðila um málefni sem krefjast afskipta þeirra. Lögreglu ber að hafa afskipti af börnum yngri en 16 ára sem eru á stöðum þar sem heilsu þeirra eða velferð er alvarleg hætta búin og koma þeim í hendur forsjáraðila eða barnaverndaryfirvalda ef nauðsynlegt þykir.
375. Sérstök reglugerð nr. 395/1997 gildir um réttarstöðu handtekinna manna og yfirheyrslur hjá lögreglu. Þar segir að lögreglu beri þegar í stað að hafa samband við foreldra og fulltrúa barnaverndarnefndar ef handtekinn er maður yngri en 18 ára. Sérreglur gilda um skýrslutöku af sakborningi yngri en 18 ára. Foreldrum, eða öðrum sem barnið ber traust til, skal gert viðvart um yfirheyrslu ef þess er kostur og þeim veitt færi á að vera viðstaddir. Jafnframt skal gefa foreldrum kost á að benda á verjanda. Gefa skal barnaverndarnefnd kost á að láta fulltrúa sinn eða starfsmann vera viðstaddan yfirheyrslu og getur lögreglan farið fram á fulltrúi sé viðstaddur.
376. Í reglugerðinni eru einnig sérreglur um yfirheyrslur yfir börnum sem vitnum. Ef yfirheyra á vitni yngra en 18 ára skal gefa foreldrum kost á að vera við yfirheyrsluna. Þetta á ekki við ef viðkomandi er sjálfur kærður í málinu eða aðrar ástæður mæla því í mót. Gefa skal fulltrúa barnaverndarnefndar eða starfsmanni kost á að vera við skýrslutöku. Tekið er fram að gæta skuli fyllstu tillitssemi við yfirheyrslu barna yngri en 18 ára. Barn skal yfirheyrt á heimavelli ef kostur er. Í lögum um meðferð opinberra mála eins og þeim var breytt árið 1999 eru sérstakar reglur um skýrslutökur af börnum sem þolendum kynferðisbrota og verður gerð nánari grein fyrir þeim síðar.
377. Fjallað verður um vistun barna sem svipt hafa verið frelsi sínu í næsta kafla. (368, 371)
378. Dómsmálaráðherra skipaði nefnd árið 1998 til að fjalla um málefni ungra afbrotamanna og gera tillögur til úrbóta. Nefndin skilaði viðamikilli skýrslu í maí 1999 og verið er að vinna úr niðurstöðunum.
(ii) Börn sem eru svipt frelsi sínu, þar með talið hvers konar varðhald, fangelsun og ráðstöfun vegna forsjár (37. grein (b), (c) og (d))
379. Fangelsismálastofnun ríksins birtir skilorðsbundna ákærufrestun fyrir þeim einstaklingum sem búsettir eru á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Sérstakur fulltrúi er starfandi hjá stofnuninni sem hefur umsjón og eftirlit með ungmennum þessum. Aðstæður eru metnar í samráði við foreldra ef unnt er og reynt að beina ungmennum á rétta braut á skilorðstímanum sem yfirleitt er 2 ár. Athuganir Fangelsismálastofnunar sýna að um 70% ungmenna eru ekki með skráð brot á hegningarlögum á skilorðstímanum. Eftirfarandi er yfirlit yfir skilorðsbundna ákærufrestun sem kemur til framkvæmda hjá Fangelsismálastofnun: (370)
Ákærufrestun |
1997
|
1998
|
Alls 15 ára |
12
|
23
|
- drengir |
9
|
18
|
- stúlkur |
3
|
5
|
Alls 16 ára |
41
|
41
|
- drengir |
36
|
31
|
- stúlkur |
5
|
10
|
Alls 17 ára |
31
|
30
|
- drengir |
31
|
23
|
- stúlkur |
0
|
7
|
380. Þann 1. júlí 1995 tóku í fyrsta sinn gildi lög um samfélagsþjónustu. Ákvæði þeirra voru felld inn í lög nr. 48/1988 um fangelsi og fangavist með lögum nr. 123/1997. Hafi maður verið dæmdur í allt að sex mánaða óskilorðsbundið fangelsi er heimilt, ef almannahagsmunir mæla ekki gegn því, að hann fullnusti refsinguna með ólaunaðri vinnu í þágu samfélagsins. Samfélagsþjónusta má minnst vera 40 klukkustundir og mest 240 klukkustundir. Fangelsismálastofnun ríkisins metur hvort skilyrði laganna séu uppfyllt að öðru leyti. Frá upphafi hefur verið miðað við að þau störf sem komi helst til greina séu fyrst og fremst aðstoðarstörf hjá opinberum stofnunum, stofnunum sem njóta opinberra styrkja og félagasamtökum. Enginn undir 18 ára aldri hefur sinnt samfélagsþjónustu. Árið 1998 luku 6 á aldrinum 18-20 ára samfélagsþjónstu.
381. Með lagabreytingunni nr. 123/1997 var jafnframt kveðið á um heimild til að vista gæsluvarðhaldsfanga í fangelsum sem ætluð eru fyrir afplánunarfanga. Fram til ársins 1996 var rekið sérstakt gæsluvarðhaldsfangelsi í Reykjavík en nú eru gæslufangar vistaðir í almennum fangelsum. Eftirfarandi er yfirlit yfir sakhæfa einstaklinga sem sætt hafa gæsluvarðhaldi:
Gæsluvarðhald |
1996
|
1997
|
1998
|
16-17 ára |
4
|
3
|
5
|
382. Eftirfarandi er yfirlit yfir refsingar dómþola 15-17 ára. Með blönduðum skilorðsdómi er átt við að hluti refsingar sé skilorðsbundinn en hluti óskilorðsbundinn:
Refsingar |
1996
|
1997
|
1998
|
Óskilorðsbundin refsivist |
2
|
1
|
5
|
Blandaður skilorðsdómur |
2
|
2
|
4
|
Skilorðsbundin refsivist |
23
|
47
|
57
|
Skilorðsbundin refsivist + sekt |
12
|
14
|
18
|
Ákvörðun refsingar frestað skilorðsbundið |
5
|
11
|
29
|
Ákvörðun refsingar frestað + sekt |
0
|
1
|
1
|
Sekt |
11
|
19
|
20
|
Alls |
55
|
95
|
134
|
383. Eftirfarandi eru upplýsingar um fjölda 16-17 ára fanga sem luku afplánun eða voru í afplánun um áramót:
Fangar í afplánun |
1996
|
1997
|
1998
|
16-17 ára |
5
|
2
|
3
|
% af öllum föngum |
1.2
|
0.6
|
1.1
|
384. Fangelsismálastofnun ríkisins og Barnaverndarstofa gerðu með sér samstarfssamning í október 1998 um að miða beri að því að fangar undir 18 ára aldri verði vistaðir á meðferðarheimilum sem rekin eru undir yfirumsjón og eftirliti Barnaverndarstofu. Er með samningi þessum ætlað að koma til móts við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Um vistun fer almennt eftir þeim ákvæðum sem gilda um vistun barna á meðferðarheimilum ríksins en vilji fanga þarf að standa til þess að vistast á slíku heimili frekar en í fangelsi. Barnaverndarstofa velur tiltekið meðferðarheimili í hvert skipti í samráði við barnaverndarnefnd. Áður en ákvörðun er tekin um vistun skal liggja fyrir skriflegur samningur við fangann og forsjáraðila hans um vistun í meðferð, í að minnsta kosti sex mánuði óháð lengd refsitímans, eða úrskurður barnaverndarnefndar. Ef fangi brýtur skilyrði sem honum eru sett eða reglur meðferðarheimilis, svo sem ef hann strýkur eða reynir að strjúka, skal hann að jafnaði fluttur tafarlaust í fangelsi. Barnaverndarstofa skuldbindur sig til að bjóða vistun út refsitímann þeim föngum sem verða 18 ára í meðferð ef refsitími þeirra er ekki liðinn við það tímamark. Fram til ársloka 1999 hafa tveir fangar notið þessarar þjónustu. (375)
385. Vísað er til umfjöllunar um 22. gr. barnaverndarlaga í 245. mgr. í skýrslunni hér að framan. Þá er vísað til umfjöllunar um meðferðarheimili Barnaverndarstofu í 243-251. mgr.
386. Heildarfjöldi rýma í fangelsum á Íslandi eru tæplega 140. Langstærst er fangelsið að Litla-Hrauni sem hefur 87 rými. Miklar breytingar hafa átt sér stað þar á undanförnum árum. Er fangelsinu nú skipt niður í sjö 10-11 manna deildir. Við val á deildir er meðal annars tekið tillit til hegðunar, vímuefnaneyslu, aldurs, tengsla fanga og áforma þeirra á afplánunartíma. Tvær einangrunardeildir, 4 og 6 manna, eru einkum ætlaðar fyrir gæsluvarðhaldsfanga sem sæta einangrun. Myndarlegur skóli er rekinn á staðnum og fangavinna er fjölbreytileg miðað við aðstæður. Flestir starfsmenn hafa lokið námi í fangavarðaskólanum og einnig fengið sérþjálfun á ýmsum sviðum. Nýtt íþróttahús var tekið í notkun árið 1997 sem gerbreytti möguleikum á heilsurækt og tómstundaaðstöðu fanga.
387. Samkvæmt reglugerð nr. 408/1998 um vinnu, nám og dagpeninga afplánunarfanga skal fangi eiga kost á að stunda nám eða starfsþjálfun. Þá er í gildi reglugerð um leyfi afplánunarfanga til dvalar utan fangelsis nr. 719/1995 með síðari breytingum. (376)
388. Lögum nr. 48/1988 um fangelsi og fangavist var breytt með lögum nr. 22/1999. Var þar lögfest skýr heimild fyrir Fangelsismálastofnun til að leyfa fanga að ljúka afplánun utan fangelsis enda stundi hann vinnu eða nám sem Fangelsismálastofnun samþykkir, búi á sérstakri stofnun eða heimili þar sem hann er undir eftirliti og vinnan eða námið er liður í aðlögun hans að samfélaginu á ný.
389. Með lögum nr. 123/1997, sem breyttu lögum um fangelsi og fangavist, var endurskipulögð og bætt til muna heilbrigðisþjónusta við fanga. Var meðal annars tekið tillit til athugasemda í skýrslu Evrópunefndar um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu sem nefndin sendi ríkisstjórn Íslands 1994 í framhaldi af heimsókn sinni til landsins 1993. Nefndin skilaði nýrri skýrslu í febrúar 1999 eftir heimsókn til Íslands árið 1998. Þar kemur fram að flest þau tilmæli sem sett voru fram í fyrri skýrslunni hafi verið framkvæmd af íslenskum yfirvöldum. Gerðar voru nokkar athugasemdir í síðari skýrslunni og er verið að vinna að frekari úrbótum.
(iii) Refsing ungmenna, sérstaklega bann við dauðarefsingu og lífstíðarfangelsi (37. grein (a))
390. Eins og sagði áður í 369. mgr. þá leggur stjórnarskrá Íslands bann við því að í lögum megi kveða á um dauðarefsingu.
391. Rétt er að geta þess að með lögum nr. 82/1998 var varðhald afnumið sem viðurlög við refsiverðri háttsemi enda var í lögum og framkvæmd ekki raunverulegur munur á varðhaldi og fangelsi.
392. Að öðru leyti vísast til umfjöllunar um 40. og 37. grein, (b), (c) og (d) hér að framan.
(iv) Líkamlegur og sálrænn bati (39. grein)
393. Vísað er til athugasemda í umfjöllun um íslenska heilbrigðiskerfið að framan í VII. kafla.
(c) Misnotkun barna. Líkamlegur og sálrænn bati og samfélagsleg aðlögun (39. grein)
(i) Efnahagsleg misnotkun, þar með talin vinna barna (32. grein)
394. Vísað er til 43. og 98. mgr. hér að framan um breytingar á lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og fullgildingu á samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Nokkuð ítarleg lagaákvæði eru um vinnu barna og auk þess hefur verið sett reglugerð nr. 426/1999 um vinnu barna og unglinga. Eins og áður sagði eru skilgreiningar á barni, unglingi og ungmenni í reglum um vinnu barna : (384)
· barn er einstaklingur undir 15 ára aldri eða sem er í skyldunámi,
· unglingur er sá sem hefur náð 15 ára aldri en er undir 18 ára aldri og er ekki lengur í skyldunámi
· ungmenni er einstaklingur undir 18 ára aldri.
395. -msar almennar reglur gilda um vinnu allra einstaklinga undir 18 ára aldri. Við öll störf ungmenna skal við val og skipulagningu á vinnu leggja áherslu á að öryggi og andlegu og líkamlegu heilbrigði ungmenna sé ekki hætta búin og að vinna hafi ekki truflandi áhrif á menntun þeirra og þroska. Tryggja skal að ungmenni fái fullnægjandi kennslu og leiðbeiningar þannig að vinnan sé ekki hættuleg öryggi þeirra. Vinnan skal fara fram undir viðeigandi eftirliti af einstaklingi sem er orðinn 18 ára og hefur nægilega innsýn í eðli vinnunnar. Sérstök ákvæði eru um vinnu sem óheimil er ungmennum undir 18 ára aldri, svo sem störf þar sem unnið er með tiltekin tæki eða vinna við tiltekin verkefni sem hafa hættu í för með sér. Undantekningar eru gerðar varðandi starfsnám ungmenna 15 ára og eldri og vinnu í fjölskyldufyrirtækjum, svo sem í landbúnaði, með nánari skilyrðum. Ungmenni mega ekki vinna með eða vera í hættu af efnum sem eru sérstaklega upptalin. Ungmenni mega ekki handleika þungar byrðar og almennt skal forðast ónauðsynlega líkamsáreynslu ungmenna við störf. Ekki má ráða ungmenni til vinnu þar sem líkamlegum eða andlegum þroska þeirra er sérstök hætta búin nema þau starfi með fullorðnum eða þeim sem náð hefur 18 ára aldri. Þetta á sérstaklega við um störf í söluturnum, myndbandaleigum, skyndibitastöðum, bensínstöðum eða á sambærilegum stöðum. Þá mega ungmenni ekki starfa við vinnuaðstæður sem eru sérstaklega tilgreindar í viðauka við reglugerð.
396. Sérreglur gilda um vinnu barna, en börn má ekki ráða í vinnu nema annað sé sérstak-lega tekið fram. Börn sem eru á aldrinum 13-14 ára, eða sem eru í skyldunámi, mega aðeins vinna við það sem fellur undir viðauka reglugerðar um störf af léttara tagi, svo sem garðvinna, létt störf í fiskvinnslu eða verslunum, minni háttar hreingerningar, létt sendisveinastörf, blaðasala og póstburður og létt skrifstofustörf. Heimilt er að ráða ungmenni 13 ára og eldri til léttra starfa á sumarleyfistíma skóla þegar vinnan er hluti af fræðilegu eða verklegu námi. Í sérstökum viðaukum við reglugerð eru talin upp þau störf sem koma þarna til greina fyrir þá sem eru yngri en 15 ára, þá sem náð hafa 15 ára aldri og þá sem náð hafa 16 ára aldri. Við ráðningu barna skal kynna forsjáraðilum öll ráðningarkjör og þær ráðstafanir sem gerðar eru til að auka öryggi og heilbrigði barna við störf.
397. Sérstakar reglur gilda um vinnutíma barna og unglinga. Vinnutími barna á aldrinum 13-15 ára, eða þeirra sem eru í skyldunámi, má vera tvær klukkustundir á skóladegi og tólf klukkustundir á viku þegar vinna fer fram á starfstíma skóla en utan skipulegs skólatíma. Vinnutími barna á aldrinum 13-14 ára má vera 7 klukkustundir á dag og 35 klukkustundir á viku þegar um er að ræða vinnu sem fram fer á tíma þegar skólinn starfar ekki. Daglegur vinnutími 15 ára barna má vera 8 klukkustundir og 40 tímar á viku. Börn mega ekki vinna á tímabilinu frá kl. 20 til kl. 6 og þau skulu fá að minnsta kosti 14 klukkustunda samfellda hvíld á hverjum sólarhring. Vinnutími unglinga má ekki fara yfir 8 klukkustundir á dag og 40 klukkustundir á viku. Unglingar mega ekki vinna frá kl. 22 til kl. 6 nema annað sé sérstaklega tekið fram, þó aldrei milli kl. 24 og kl. 4. Unglingar skulu fá minnst 12 klukkustunda samfellda hvíld á hverjum sólarhring. Í lögum og reglugerð eru afmarkaðar nokkrar undantekningar frá ákvæðum um vinnu- og hvíldartíma við tilteknar aðstæður.
398. Börn undir 13 ára aldri er heimilt að ráða til að taka þátt í menningar- eða listviðburðum og íþrótta- eða auglýsingastarfsemi. Áður þarf þó að afla leyfis frá Vinnueftirliti ríkisins.
399. Við hækkun sjálfræðisaldurs gilda ekki lengur sérreglur um heimildir barna 16-18 ára til að ráða vinnu sinni en reglur um ráðstöfun sjálfsaflafés gilda óbreyttar. (385)
(ii) Misnotkun ávana- og fíkniefna (33. grein)
400. Með lögum nr. 10/1997 voru gerðar nokkrar breytingar á ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um meðferð ávinnings af brotum, svo og breyting á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, um skilgreiningu á fíkniefnabroti þannig að inn- og út-flutningur, sala, kaup, skipti, afhending, móttaka, framleiðsla og varsla tækja, hluta eða efna til notkunar við ólöglega ræktun, framleiðslu eða tilbúning ávana- og fíkniefna er nú bönnuð. Breytingar þessar voru undanfari fullgildingar Íslands á samningi Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni frá 1988 og samningi Evrópuráðsins um þvætti, leit, hald og upptöku ávinnings af afbrotum frá 1990. (386-387)
401. Sett hafa verið ný áfengislög nr. 75/1998 sem einn liður í umfangsmeiri breytingum á áfengis- og tóbakssölumálum á Íslandi.
402. Árið 1995 var Ísland þátttakandi í fjölþjóðlegri könnun sem kallast ESPAD (European School Survey Project on Alcohol and Other Drugs). Könnunin er framkvæmd að tilstuðlan Evrópuráðsins og lögð fyrir 100.000 nemendur á aldrinum 15-16 ára í 25 löndum.
403. -msar aðrar rannsóknir hafa verið gerðar á neyslu barna og unglinga. Árið 1998 kom út bókin Vímuefnaneysla ungs fólks - umhverfi og aðstæður , þar sem er að finna upplýsingar um vímuefnaneyslu unglinga á grundvelli könnunar sem var gerð í öllum grunnskólum landsins árið 1997. Árið 1998 var gerð rannsókn á vímuefnaneyslu nemenda í þremur efstu bekkjum grunnskólans. Í ljós kemur að ríflega 80% nemenda í 10. bekk grunnskóla hafa neytt áfengis einhvern tíma á ævinni. Þá er sniffneysla vandamál meðal grunnskólanema og áhyggjuefni er að hassneysla virðist hafa aukist frá árinu 1997-1998.
404. Eftirfarandi eru upplýsingar úr ofangreindum rannsóknum á neyslu barna og unglinga. Miðað er við prósentuhlutfall árganga í þremur efstu bekkjum grunnskólans:
Daglegar reykingar % |
1997
|
1998
|
- 8. bekkur |
5.0
|
5.9
|
- 9. bekkur |
12.5
|
13.6
|
-10. bekkur |
21.4
|
22.3
|
Áfengisneysla % |
1997
|
1998
|
- 8. bekkur - aldrei neytt áfengis |
49.4
|
49.3
|
" - einu sinni eða oftar |
50.6
|
50.7
|
- 9. bekkur - aldrei neytt áfengis |
34.2
|
32.9
|
" - einu sinni eða oftar |
65.8
|
67.1
|
- 10. bekkur - aldrei neytt áfengis |
18.7
|
19.3
|
" - einu sinni eða oftar |
81.3
|
80.7
|
-Ýmis vímuefni - 8. bekkur % |
1997
|
1998
|
Hass - 1 sinni eða oftar |
3.6
|
5.0
|
" - 3 sinnum eða oftar |
1.8
|
1.8
|
Sniffefni - 1 sinni eða oftar |
5.7
|
6.3
|
" - 3 sinnum eða oftar |
2.7
|
2.4
|
-Ýmis vímuefni - 9. bekkur % |
1997
|
1998
|
Hass - 1 sinni eða oftar |
7.7
|
8.4
|
" - 3 sinnum eða oftar |
3.8
|
4.5
|
Amfetamín - 1 sinni eða oftar |
3.2
|
2.5
|
" - 3 sinnum eða oftar |
1.3
|
1.0
|
Sveppir - 1 sinni eða oftar |
3.8
|
2.1
|
" - 3 sinnum eða oftar |
1.6
|
1.1
|
Sniffefni - 1 sinni eða oftar |
8.1
|
7.5
|
" - 3 sinnum eða oftar |
4.1
|
3.5
|
-Ýmis vímuefni - 10. bekkur % |
1997
|
1998
|
Hass - 1 sinni eða oftar |
13.0
|
16.5
|
" - 3 sinnum eða oftar |
7.4
|
9.9
|
Amfetamín - 1 sinni eða oftar |
4.6
|
5.8
|
" - 3 sinnum eða oftar |
2.0
|
2.3
|
E-tafla - 1 sinni eða oftar |
2.3
|
2.2
|
" - 3 sinnum eða oftar |
1.0
|
0.7
|
Sveppir - 1 sinni eða oftar |
5.3
|
4.6
|
" - 3 sinnum eða oftar |
2.1
|
1.6
|
Sniffefni - 1 sinni eða oftar |
8.0
|
9.9
|
" - 3 sinnum eða oftar |
4.2
|
5.5
|
405. Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann, SÁÁ, hafa um árabil rekið áfengis- og vímuefnameðferð að Sjúkrahúsinu Vogi, auk endurhæfingardeilda. Stofnuð var forvarnardeild árið 1995 þar sem lögð er áhersla á samstarf við sveitarfélög um forvarnir fyrir ungt fólk. Árið 1998 hófst undirbúningur að byggingu sérstakrar meðferðardeildar fyrir ungt fólk á vegum SÁÁ og er gert ráð fyrir að hin nýja unglingadeild opni í byrjun árs 2000. Fjöldi ungs fólk sem leitar sér meðferðar á Sjúkrahúsinu Vogi hefur aukist á síðustu árum. Fjöldi barna sem kom á Vog árið 1998 var eftirfarandi:
Börn á Vogi 1998
|
Stúlkur
|
Drengir
|
Alls
|
14 ára
|
2
|
1
|
3
|
15 ára
|
7
|
11
|
18
|
16 ára
|
16
|
26
|
42
|
17 ára
|
15
|
15
|
30
|
406. Í desember 1996 samþykkti ríkistjórnin margvíslegar aðgerðir í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum. Ákvað ríkisstjórnin að beita sér markvisst fyrir því að ráðuneyti og stofnanir, löggæsla og tollgæsla, í samvinnu við sveitarfélög, foreldrafélög, félagasamtök og aðra, tækju höndum saman og samhæfðu viðbrögð, aðgerðir og samstarf með það fyrir augum að uppræta fíkniefnaneyslu barna og draga stórlega úr áfengis- og tóbaksnotkun þeirra. Áhersluatriði í þessum málaflokki fram til ársins 2000 eru samkvæmt stefnuyfirlýsingunni:
· að efla forvarnir, einkum þær sem beint er að einstaklingum sem eru í áhættuhópum gagnvart notkun fíkniefna, áfengis og tóbaks,
· að hefta aðgengi barna og ungmenna að fíkniefnum, áfengi og tóbaki,
· að auka öryggi almennings með fækkun fíkniefnatengdra brota,
· að efla andstöðu í þjóðfélaginu gegn notkun barna og ungmenna á fíkniefnum, áfengi og tóbaki,
· að efla meðferðarúrræði fyrir ungmenni sem orðið hafa fíkninni að bráð.
407. Undirbúnar voru framkvæmdaráætlanir á vegum ráðuneyta og undirstofnana til að færa nánar út stefnuna með hliðsjón af verkefnum einstakra ráðuneyta. Sérstaklega er vísað til þess sem áður hefur verið nefnt í skýrslunni og tengist þessu, svo sem 79. mgr. um Fjölskylduráð, 243. mgr. um meðferðarheimili á vegum Barnaverndarstofu, 294. mgr. um Forvarnarsjóð heilbrigðisráðuneytisins, 300. mgr. um heilsueflingu, 302. mgr. um nýtt samstarfsráð heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytis og 307. mgr. um tóbaksvarnir.
408. Einn liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar var að ganga til samstarfs við Reykjavíkurborg og Samtök Evrópuborga gegn eiturlyfjum (ECAD, European Cities Against Drugs) um áætlunina Ísland án eiturlyfja. Var undirritaður samstarfsamningur í febrúar 1997 sem gildir til ársins 2002. Meginmarkmið samstarfsins eru að sameina krafta þjóðarinnar í baráttunni gegn ólöglegum fíkniefnum, efla forvarnir og skipuleggja verkefni og aðgerðir sem hafa þessi markmið að leiðarljósi. Áætluninni hefur verið skipuð sérstök stjórn sem í eiga sæti fimm fulltrúar og auk þess hefur verið ráðinn sérstakur verkefnisstjóri. Verkefnisstjórnin hefur gert áætlun til fimm ára og gerir að auki árlegar framkvæmdaráætlanir. Í samvinnu við félagsmálaráðuneytið hafa öll sveitarfélög verið hvött til að vinna að stefnumótun og áætlanagerð í vímuefnavörnum. Samstarf um forvarnir hefur meðal annars verið við landssamtökin Heimili og skóli og foreldrasamtökin Vímulausa æsku. Þá hefur verið unnið að sérstökum átaksverkefnum, haldnar ráðstefnur, fundir, fyrirlestrar og staðið fyrir víðtækri kynningu á verkefninu og málefnunum í heild.
409. Sett voru lög um Áfengis- og vímuvarnaráð nr. 76/1998. Tilgangur með stofnun ráðsins er að efla og styrkja áfengis- og vímuvarnir og sporna við afleiðingum af neyslu áfengis og annarra vímuefna. Starfsemi ráðsins skal beinast gegn neyslu áfengis- og vímuefna í öllum aldurshópum en ráðið skal þó leggja sérstaka áherslu á áfengis- og vímuvarnir meðal barna og ungmenna. Markmiðið með starfi Áfengis- og vímuvarnaráðs er að uppræta fíkniefnaneyslu og draga stórlega úr áfengisneyslu. Áfengis- og vímuvarnaráði er sérstaklega ætlað að beita sér fyrir samvinnu og samræmingu starfa allra þeirra sem að málunum koma, svo sem heilsugæslu og annarra heilbrigðisstofnana, félagsmálayfirvalda sveitarfélaga, löggæslu, menntakerfisins, refsivörslukerfisins og félagasamtaka.
410. Eftirfarandi er yfirlit yfir annað það helsta sem hefur verið hrint í framkvæmd:
· Auknar fjárveitingar til löggæslu og tollyfirvalda og aukin skipulögð samvinna.
· Skipulagt forvarnarstarf í skólum. Fjölmargir aðila hafa komið að forvörnum í grunn- og framhaldsskólum, svo sem lögreglan, félagsmálayfirvöld og menntamálaráðuneytið í samvinnu við Fræðslumiðstöð í fíkniefnavörnum. Á árinu 1998 skilaði teymi sérfræðinga skýrslu um forvarnir í skólum sem var meðal annars lögð til grundvallar við aðalnámskrárgerð. Þá hafa fjölmargir skólar sett sér sérstakar vímuvarnaráætlanir.
· Menntamálaráðuneytið hefur staðið fyrir námskeiðum fyrir starfsfólk framhaldsskóla um áhættuhegðun barna og ungmenna og viðbrögð við slíkri hegðun, í samvinnu við Fræðslumiðstöð í fíkniefnavörnum, Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands.
· Árið 1998 var gerður samstarfssamningur milli heilbrigðisráðuneytis og forvarnardeildar SÁÁ, um tveggja ára samstarf í forvarnarmálum. Markmið verkefnisins er að virkja sveitarfélög, opinbera aðila, félagasamtök, skóla, nemendur, foreldra og aðra áhugamenn til að vinna að markvissu forvarnarstarfi innan sveitarfélags með faglegri ráðgjöf, aðstoð og stuðningi. Hefur forvarnardeild SÁÁ gert samninga við fjölmörg sveitarfélög um framkvæmd þessa verkefnis. Fjöldi sveitarfélaga hafa að auki sett sér sérstakar vímuvarnaráætlanir.
· Jafningjafræðsla. Árið 1995 ákvað Félag framhaldsskólanema að hrinda af stað verkefni um forvarnir sem var skipulagt í samvinnu við menntamálaráðuneytið og fleiri aðila. Á undanförnum árum hefur Jafningjafræðsla framhaldsskólanema unnið markvert forvarnarstarf en hugmyndafræðin byggir á því að jafningjar fræði jafningja um fíkniefni og skaðsemi þeirra.
· Árið 1997 var hafinn rekstur Fjölskyldumiðstöðvar sem er forvarnarverkefni meðal grunnskólanema í Reykjavík. Að þessu verkefni standa félagsmálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, Reykjavíkurdeild Rauða Kross Íslands og Reykjavíkurborg en markmið verkefnisins eru að draga úr áfengis- og vímuefnaneyslu barna á grunnskólaaldri, styðja og styrkja nemendur gegn neyslu og stuðla þannig að vímuefnalausum grunnskóla. Rík áhersla er lögð á samstarf við foreldra og þátttöku nemendaverndarráða grunnskóla.
· Á vegum Barnaverndarstofu var komið á fót stuðningsmeðferð fyrir börn áfengissjúkra árið 1996. Vímulaus æska tók við þessu starfi árið 1997 með stuðningi Forvarnarsjóðs.
· Aukin áhersla hefur verið lögð á forvarnir í starfsemi heilsugæslu. Þá hefur landlæknisembættið staðið fyrir skipulögðum áróðri fyrir heilsusamlegum lifnaðarháttum, slysavörnum, vímuefnavörnum, geðheilbrigðismálum, heilbrigðisfræðslu og skólaheilsugæslu.
· Árið 1999 voru settar reglur um tóbaksvarnir á vinnustöðum, í samvinnu Tóbaksvarnarnefndar ríkisins, Krabbameinsfélags Íslands, Vinnueftirlitsins, Heilbrigðiseftirlitssins og aðila vinnumarkaðarins.
· Aukin áhersla hefur verið lögð á rannsóknir á áhættuþáttum sem tengjast fíkniefnaneyslu og mat á árangri forvarnarstarfs.
411. Samkvæmt stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá maí 1999 er markmið hennar á kjörtímabilinu meðal annars að gera áætlun um sérstakt átak í baráttunni gegn fíkniefna-vandanum í samstarfi við foreldra og skóla, frjáls félagasamtök á sviði forvarna og meðferðar-úrræða auk sveitarfélaga, íþrótta- og ungmennafélaga. Þeir meginþættir, sem unnið skal að, eru auknar forvarnaraðgerðir, samræming starfsemi lögreglu og tollgæslu og fjölgun meðferðarúrræða fyrir unga fíkniefnaneytendur. Í ágúst 1999 skipaði félagsmálaráðherra, í samráði við ríkistjórnina, sérstakan starfshóp sem á að gera tillögur um aðgerðir gegn vímuefnum og um úrræði fyrir fórnarlömb vímuefna í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Nefndin skal móta tillögur um aðgerðir til að hrinda í framkvæmd sérstöku átaki í fíkniefnamálum og með hvaða hætti átakinu verði fylgt eftir á næstu misserum og árum.
(iii) Kynferðisleg hagnýting og misnotkun (34. grein)
412. Með lögum nr. 126/1996 var gerð breyting á almennum hegningarlögum nr. 19/1940 í því skyni að gera vörslu efnis með barnaklámi refsiverða og auka með því vernd barna gegn kynferðislegri misnotkun. Bann er talið geta dregið út kynferðislegri misnotkun barna í tengslum við gerð slíks efnis. Hver sem hefur í vörslu sinni ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilega hluti sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt skal sæta sektum. Sömu refsingu varðar að hafa í vörslu sinni ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilega hluti sem sýna börn í kynferðisathöfnum með dýrum eða nota hluti á klámfenginn hátt. Almennt varðar það allt að 6 mánaða fangelsi að búa til eða flytja inn í útbreiðsluskyni, selja, útbýta eða dreifa á annan hátt út klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum, eða hafa þá opinberlega til sýnis, svo og að efna til opinbers fyrirlestrar, eða leiks, sem er ósiðlegur á sama hátt. Í nóvember 1999 var lagt fram á Alþingi frumvarp þess efnis að hækka refsimörkin í 2 ára fangelsi þegar um barnaklám er að ræða. (396)
413. Með lögum nr. 63/1998 var gerð breyting á almennum hegningarlögum sem mælir fyrir um sérstakan fyrningarfrest vegna kynferðisbrota gegn börnum. Almennan reglan er sú að fyrningarfrestur telst frá þeim degi þegar refsiverðum verknaði lauk. Fyrningarfrestur vegna tiltekinna kynferðisbrota telst þó eigi fyrr en frá þeim degi er brotaþoli nær 14 ára aldri. Sök fyrnist á mismunandi tíma eftir því hve þung fangelsisrefsing liggur við broti. Miðað við þau brot sem hér um ræðir er lágmarksfyrningarfrestur 5 ár þannig að sök mun aldrei vera fyrnd fyrr en brotaþoli nær 19 ára aldri. Þetta á við um vægustu brotin en lengri fyrningarfrestur gildir um alvarlegri brot.
414. Árið 1997 voru lagðar fram á Alþingi ýmsar upplýsingar um kynferðisbrot gegn börnum, byggðar á könnun Barnaverndarstofu. Barnaverndarnefndir fengu alls 465 mál til meðferðar á fimm ára tímabili, eða 1992-1996, vegna meints kynferðislegs ofbeldis og þar áttu í hlut 560 börn yngri en 16 ára. Í um 50% mála um kynferðisofbeldi gegn börnum var á þessum árum óskað lögreglurannsóknar. Ríkissaksóknari birti á sama árabili ákæru í 45 málum, eða rúmum þriðjungi þeirra mála er til hans var vísað frá lögreglu. Vitað var um sakfellingu í 30 málum. Niðurstaða könnunarinnar var jafnframt sú að ekki væri nægilega tryggður stuðningur við fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis. Á vegum Barnaverndarstofu er nú unnið að ítarlegri úttekt á þessum málum og er niðurstöðu að vænta árið 2000. (393)
415. Í kjölfar ofangreindrar könnunar fól félagsmálaráðherra Barnaverndarstofu að gera tillögur um með hvaða hætti væri best að bæta meðferðarþörf barna sem verða fyrir kynferðisofbeldi. Tillögur voru mótaðar í samstarfi við Félagsþjónustuna í Reykjavík, önnur félagsmálayfirvöld, lækna, Lögregluna í Reykjavík, Ríkislögreglustjóra, Ríkissaksóknara og aðra sérfræðinga. Í nóvember 1998 tók til starfa Barnahús á vegum Barnaverndarstofu en það er samstarfsvettvangur allra þeirra sem koma að málunum. Meginmarkmið með starfsemi Barnahúss eru:
· að samhæfa hlutverk félagsmálayfirvalda, löggæsluyfirvalda og annarra í málaflokknum,
· að koma á þverfaglegu samstarfi til að bæta rannsóknaraðferðir,
· að varna því að barn þurfi að endurupplifa erfiða reynslu með ítrekuðum viðtölum við marga viðmælendur og tryggja að gætt sé hagsmuna barna við skýrslutöku og aðra meðferð máls,
· að bæta gæði sálfræðilegrar meðferðar sem barn þarf á að halda,
· að tryggja sérfræðiþekkingu í þessum málaflokki.
416. Barnahús starfar í sérhönnuðu húsnæði sem hefur útbúnað til þess að taka skýrslur af börnum þannig að málsaðilar geti fylgst með jafnóðum án þess að vera viðstaddir sjálfa skýrslutökuna. Aðstaðan fyrir barnið er hönnuð með þarfir þess í huga og í húsinu er fullkominn búnaður til læknisrannsókna. Ráðnir voru sérfræðingar til þess að sjá um skýrslutökur og meðferð barnanna. Barnahúsið tók til starfa í nóvember 1998 og á fyrsta starfsári þess var vísað þangað málum um 130 barna.
417. Lögum nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var breytt með lögum nr. 36/1999. Meginmarkmið lagabreytingarinnar var að bæta réttarstöðu brotaþola. Ef rannsókn máls beinist að kynferðisbroti gegn barni er lögreglu skylt að skipa barninu réttargæslumann. Heimilt er að skipa barni réttargæslumann í öðrum tilvikum. Hlutverk réttargæslumanns er að gæta hagsmuna brotaþola og veita honum aðstoð í málinu. Er réttargæslumanni ætíð heimilt að vera viðstaddur þegar skýrsla er tekin af brotaþola og eftir að ákæra er gefin út á réttargæslumaður rétt á að vera viðstaddur öll þinghöld. Meðan á rannsókn máls stendur á réttargæslumaður einungis rétt á að fá aðgang að þeim gögnum sem honum eru nauðsynleg til að gæta hagsmuna brotaþola. Eftir málshöfðun á réttargæslumaður almennt rétt á að fá aðgang að öllum gögnum máls.
418. Með lögum 36/1999 var einnig breytt ákvæðum laga um meðferð opinberra mála er fjalla um skýrslutökur af börnum sem vitnum. Ef rannsókn löreglu beinist að kynferðisbroti og brotaþoli hefur ekki náð 18 ára aldri þegar rannsókn hefst ber lögreglu að leita atbeina dómara sem sér um taka skýrslu af barninu. Skal þess gætt að ákæranda, verjanda og réttargæslumanni brotaþola sé tilkynnt um hana fyrirfram þannig að þeir geti verið viðstaddir. Sé þess kostur skal framburður tekinn upp á myndband. Dómari getur kvatt til kunnáttumann sér til aðstoðar við skýrslutöku. Þá eiga ákærandi, ákærði og verjandi hans ekki rétt á að vera viðstaddir í dómsal, eða annars staðar þar sem dómþing er háð, ef dómari telur að nærvera þeirra geti orðið brotaþola sérstaklega til íþyngingar eða haft áhrif á framburð hans. Í því tilviki skal dómari sjá til þess að málsaðilar geti fylgst með skýrslutöku um leið og hún fer fram og er honum rétt að leggja fyrir brotaþola þær spurningar sem þeir óska. Þegar brotaþoli hefur gefið skýrslu á rannsóknarstigi samkvæmt þessum reglum skal hann að jafnaði ekki koma fyrir dóm að nýju nema dómari telji sérstaka ástæðu til.
419. Sett hefur verið reglugerð nr. 321/1999 um tilhögun skýrslutöku fyrir dómi af brotaþola yngri en 18 ára. Í reglugerðinni segir að skýrsla af brotaþola yngri en 18 ára skuli almennt tekin á dómþingi fyrir luktum dyrum. Ef brotaþoli er yngri en 14 ára, eða ef um er að ræða kynferðisbrot, skal skýrslutaka að jafnaði fara fram annars staðar en í dómsal og þá í sérútbúnu húsnæði ef þess er nokkur kostur. Herbergið þar sem skýrslutakan fer fram skal vera innréttað og búið húsgögnum og leikföngum með það fyrir augum að barninu, sem gefur skýrslu, líði sem best. Þar skal og vera til staðar búnaður til að unnt sé að taka skýrsluna upp á myndband. Þá skal húsnæðið vera þannig úr garði gert að þeir, sem ekki eru viðstaddir sjálfa skýrslutökuna, geti fylgst með henni um leið og hún fer fram. Áréttað er að dómari geti kallað til kunnáttumann, til dæmis sérþjálfaðan sálfræðing eða lögreglumann, einkum þegar brotaþoli er yngri en 14 ára. Skýrslutaka skal framkvæmd á eins varfærinn hátt og unnt er þó með það að leiðarljósi að fá brotaþola til að skýra satt og rétt frá og draga ekkert undan sem skiptir máli.
420. Frá hausti 1999 hefur Héraðsdómur Reykjavíkur haft sérútbúna aðstöðu í dómhúsi Reykjavíkur til að taka skýrslur af börnum þannig að málsaðilar geti fylgst með án þess að vera viðstaddir en samsvarandi aðstaða er ekki við aðra dómstóla landsins. Dómarar hafa að jafnaði notað aðstöðuna í dómhúsinu eftir að hún var tekin í notkun en í einhverjum tilvikum hefur aðstaðan í Barnahúsi verið nýtt.
(iv) Önnur misnotkun barna (36. grein)
421. Ekki hafa verið gerðar hér sérstakar breytingar. (397)
(v) Sala og brottnám barna og verslun með börn (35. grein)
422. Vísað er til umfjöllunar um brottnám barna við vissar aðstæður í 261-263. mgr. skýrslunnar hér að framan.
(d) Börn sem tilheyra hópum minnihluta eða frumbyggja (30. grein)
423. Vísað er til umfjöllunar um flóttamenn og útlendinga í 356-366. mgr. hér að framan.
Lokaathugasemdir nefndar um réttindi barnsins,
samþykktar á 287. fundi 26. janúar 1996,
(CRC/C/15/Add.50)
424.Eftirfarandi eru dregin saman nokkur atriði er varða lokaathugasemdir nefndarinnar um réttindi barnsins. Fjallað er nánar um öll þessi atriði í skýrslunni.
Helstu áhyggjuefni
425. Með ákvæði stjórnarskrárinnar um vernd barna, hækkuðum sjálfræðisaldri og breytingu á skilgreiningu barns í barnaverndarlögum hefur verið stigið mikilvægt skref í þá átt að tryggja öllum börnum þá vernd og umönnun sem þau þarfnast. Hækkun sjálfræðisaldurs hafði einnig í för með sér umræðu um réttindi barna óháð aldri og stigvaxandi réttindi miðað við aldur og þroska. Þá er þess að vænta að í nýjum barnaverndarlögum og breytingum á barnalögum verði hugað sérstaklega að því að skilgreina betur aðilastöðu barna í þeim mikilvægu málaflokkum sem lögin fjalla um. (13)
426. Miklar lagabreytingar hafa orðið frá gerð fyrstu skýrslunnar, svo sem nánar er lýst í kaflanum um ráðstafanir í samræmi við ákvæði samningsins. Unnið er markvisst að því að tryggja að samningurinn endurspeglist að fullu í landslögum og reglugerðum. (14)
427. Talsvert hefur áunnist í stefnumótun. Ályktun um mótun opinberrar fjölskyldustefnu og stofnun Fjölskylduráðs markar þáttaskil. Aðalnámskrár útfæra nýja og framsækna stefnu í skólamálum. Í heilbrigðisáætlun mun verða lögð áhersla á málefni barna. Þá er þess vænst að tillaga um heildarstefnumótun og framkvæmdaáætlanir í málefnum barna og unglinga verði samþykkti á Alþingi fyrri hluta árs 2000. (15)
428. Lögð hefur verið áhersla á miðstýrt eftirlit á ýmsum sviðum stjórnsýslunnar. Eftirlit Barnaverndarstofu með barnaverndarnefndum sveitarfélaga er mikilvægt til að tryggja samhæfða þjónustu. Við flutning grunnskólans til sveitarfélaganna var þess gætt að skipuleggja eftirlitshlutverk menntamálaráðuneytsins og stofnuð var sérstök eftirlitsdeild. Þá er lögð áhersla á sjálfsmat skóla og úttektir á sjálfsmatsaðferðum. Við flutning málefna fatlaðra til sveitarfélaganna verður einnig lögð áhersla á eftirlitsþáttinn til að tryggja samræmda þjónustu eins og kostur er. (16)
429. Við gerð nýrra aðalnámskráa fyrir öll skólastig var samningurinn um réttindi barnsins hafður að leiðarljósi, svo og aðrir mannréttindasáttmálar. Hin nýja námsgrein, lífsleikni, sem er skyldunámsgrein í grunn- og framhaldsskólum tryggir mannréttindakennslu barna og gerð námsefnis stendur yfir. (17)
430. Reglubundin námskeið og útgáfa fræðsluefnis af hálfu Barnaverndarstofu er mjög mikilvæg fyrir barnaverndarnefndir, starfsmenn þeirra og samstarfsaðila, svo sem kennara, lögreglumenn, starfsmenn heilbrigðisþjónustu og fleiri. Það er stefna Barnaverndarstofu að standa fyrir kerfisbundinni fræðslu til sem flestra þeirra sem starfa með börnum. Námskeið Barnaheilla og Mannréttindaskrifstofunnar í samstarfi við Endurmenntunardeild Kennaraháskóla Íslands um mannréttindakennslu og samninginn um réttindi barnsins tryggja einnig leiðsögn varðandi réttindi barna. Þá hefur menntamálaráðuneytið staðið fyrir námskeiðum fyrir starfsfólk skóla um ýmis réttindamál barna, svo og heilbrigðisráðuneytið fyrir starfsfólk heilbrigðisþjónustu, ekki síst með kynningu á lögum um réttindi sjúklinga. (18)
431. Markmið opinberrar fjölskyldustefnu er að efla fjölskylduna og að skapa skilyrði til þess að ná fram jafnvægi milli fjölskyldulífs og atvinnu. Lögð er áhersla á að stofnanir samfélagsins starfi í samvinnu við fjölskylduna og taki mið af ábyrgð foreldra á börnum sínum. Lenging skóladagsins og heilsdagsskóli, þar sem börnin geta sinnt tómstundum sínum í tengslum við skólastarfið og fengið aðstoð við heimanám, eru einnig mikilvægar breytingar sem koma munu í síauknum mæli til framkvæmda á næstu árum. (19)
Tillögur og tilmæli
432. Varðandi yfirlýsingar Íslands er varða samninginn um réttindi barnsins er vísað til viðauka við viðbótarathugasemdir Íslands (CRC/C.11/WP.8). Þess er að vænta að við endurskoðun barnaverndarlaga verði dómstólum með skýrum hætti falið að skera úr tilteknum ágreiningsefnum er varða barnavernd, svo sem hvort svipta skuli foreldra forsjá barns. Málskotsleiðir verði jafnframt almennt einfaldaðar. Að öðru leyti er áréttað að einstaklingum er heimilt að bera ákvarðanir undir dómstóla og hafa dómstólar endurskoðað ákvarðanir barnaverndaryfirvalda með tilliti til lögmætis þeirra. Um málefni ungra fanga er vísað til samnings Fangelsismálastofnunar ríkisins og Barnaverndarstofu um vistun fanga undir 18 ára aldri í meðferð, sem er ætlað að koma í veg að fyrir að þau fáu börn sem dæmd eru í óskilorðsbundna refsivist þurfi að afplána í fangelsi. (20)
433. Eins og áður sagði er unnið markvisst að því að öll ákvæði samningsins sem efnislega þýðingu hafa komi fram í landslögum og reglugerðum þannig að tryggt sé að þau réttindi sem talin eru í samningnum njóti fullrar verndar. (21)
434. Um stefnumótun er vísað til þess sem segir í 427. mgr. hér að ofan. (22)
435. Unnið verður áfram að því að útbreiða upplýsingar um samninginn og stuðla að aukinni meðvitund um hann. Fullyrða má að vitund um réttindi barna hefur aukist mjög á undanförnum árum svo og umfjöllun um einstök efnisréttindi barna. Má hér nefna aðgerðir eins og heilsueflingu, áfengis- fíkniefna- og tóbaksvarnir og umræðu um kynferðis- og önnur ofbeldisbrot gegn börnum. Aukin áhersla hefur verið lögð á fræðslu til fagfólks um réttindi barna, ekki síst í tengslum við hækkun sjálfræðisaldurs og verður unnið frekar að þessu. (23)
436. Í stefnuáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir kjörtímabilið er lögð áhersla á bætta þjónustu við börn, að auka forvarnaraðgerðir og meðferðarúrræði vegna áfengis- og vímuefnavandans, að bæta þjónustu við sjúk börn og ungmenni og að tryggja öllum jöfn tækifæri náms án tillits til búsetu og efnahags. Þá má vænta þess að mótun heildarstefnu um málefni barna geti orðið til þess að tryggja frekar sambærilega þjónustu við öll börn. (24)
437. Framkvæmdaáætlun Alþingis um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna frá 1998 er mjög mikilvæg þar sem gert er ráð fyrir að sjónarmið jafnréttis verði fléttuð inn í alla þætti stefnumótunar, ákvarðana og aðgerða á vegum ríkisins. Þá hafa fjölmörg sveitarfélög sett sér sérstakar jafnréttisáætlanir. (25)
438. Endurskoðun barnalaga stendur nú yfir og við þá vinnu verður lögð rík áhersla á að gæta hagsmuna barna. (26)
439. Fyrsta skýrsla Íslands um framkvæmd samningsins um réttindi barnsins var send öllum helstu aðilum sem starfa að málefnum barna. Lokaathugasemdir nefndar um réttindi barnsins voru þýddar á íslensku og sendar öllum ráðuneytum og opinberum stofnunum og félagasamtökum sem vinna að málefnum barna. Lokaathugsemdir voru einnig sendar fjölmiðlum með sérstakri fréttatilkynningu. (27)
Önnur skýrsla Íslands um framkvæmd
samnings á vegum Sameinuðu þjóðanna
frá 20. nóvember 1989 um réttindi barnsins
I. Almennar athugasemdir 4-40
(a) Stjórnskipan og stjórnarhættir 4-7
(b) Meðferð mála sem varða börn 8-24
(c) Ýmsar tölfræðilegar upplýsingar varðandi börn o.fl. 25-40
II. Ráðstafanir 41-91
(a) Ráðstafanir til þess að aðlaga íslenska löggjöf að ákvæðum
samningsins 42-54
(b) Heildarsamræming á stefnumótun um málefni barna og eftirlit með
því að ákvæðum samningsins sé framfylgt 55-91
III. Hugtakið barn 92-110
IV. Almennar jafnræðisreglur 111-135
(a) Jafnræðisreglan (2.grein) 111-117
(b) Hagsmunir barnsins í fyrirrúmi (3. grein) 118-122
(c) Réttur til lífs, afkomu og þroska (6. grein) 123-124
(d) Virðing fyrir sjónarmiðum barns (12. grein) 125-135
V. Borgaraleg réttindi 136-192
(a) Nafn og þjóðerni (7. grein) 136-142
(b) Réttur til að varðveita auðkenni (8. grein) 143-146
(c) Tjáningarfrelsi (13. grein) 147-148
(d) Aðgangur að upplýsingum (17. grein) 149-162
(e) Réttur til frjálsrar hugsunar, sannfæringar og trúar (14. grein) 163-170
(f) Félagafrelsi og frelsi til að koma saman með friðsömum hætti
(15. grein) 171-174
(g) Vernd einkalífs (16. grein) 175-180
(h) Réttur til að þurfa ekki að þola pyndingar eða aðra grimmilega,
ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (37. grein a) 181-192
VI. Fjölskyldumálefni 193-270
(a) Leiðsögn og handleiðsla foreldra (5. grein) 194-195
(b) Foreldraábyrgð (18. grein 1. og 2. málsgrein)
1. málsgrein 196-202
2. málsgrein 203-221
(c) Aðskilnaður frá foreldrum (9. grein) 222-230
(d) Endurfundir fjölskyldunnar (10. grein) 231-234
(e) Innheimta framfærslueyris með barni (27. grein 4. málsgrein) 235
(f) Börn sem njóta ekki fjölskyldu sinnar (20. grein) 236-256
(g) Ættleiðing (21. grein) 257-260
(h) Ólöglegur flutningur barna og hald erlendis (11. grein) 261-263
(i) Misnotkun og vanræksla á börnum (19. grein)
Líkamlegur og sálrænn bati og félagsleg aðlögun (39. grein) 264-267
(j) Regluleg endurskoðun á vistun (25. grein) 268-270
VII. Heilsugæsla 271-310 (a) Afkoma og þroski (6. grein, 2. málsgrein) 271-272
(b) Fötluð börn (23. grein) 273-289
(c) Heilsa og heilsugæsla (24. grein) 290-308
(d) Félagsleg aðstoð og aðstaða til umönnunar barna (26. grein og
18. grein 3. málsgrein) og
(e) Lífsafkoma (27. grein 1.-3. málsgrein) 309-310
VIII. Menntun, tómstundir og menningarmál 311-355
(a) Menntun, þar með talið starfsmennun og ráðgjöf (28. grein) 311-327
(b) Markmið menntunar (29. grein) 328-337
(c) Frítími, tómstundir og þátttaka í menningarlífi (31. grein) 338-355
IX. Sérstakar verndarráðstafanir 356-423
(a) Börn í neyðarástandi
(i) Flóttamannabörn (22. grein) 356-366
(ii) Börn í vopnuðum átökum (38. grein) Sálrænn bati og
samfélagsleg aðlögun (39. grein) 367
(b) Börn sem komast í kast við lögin
(i) Stjórn á málefnum sem varða brot ungmenna (40. grein) 368-378
(ii) Börn sem eru svipt frelsi sínu, þar með talið hvers konar
varðhald, fangelsun og ráðstöfun vegna forsjár (37. grein (b),
(c) og (d)) 379-389
(iii) Refsing ungmenna, sérstaklega bann við dauðarefsingu og
lífstíðarfangelsi (37. grein (a)) 390-392
(iv) Líkamlegur og sálrænn bati (39. grein) 393
(c) Misnotkun barna. Líkamlegur og sálrænn bati og samfélagsleg
aðlögun (39. grein)
(i) Efnahagsleg misnotkun, þ.m.t. vinna barns (32. grein) 394-399
(ii) Misnotkun ávana- og fíkniefna (33. grein) 400-411
(iii) Kynferðisleg hagnýting og misnotkun (36. grein) 412-420
(iv) Önnur misnotkun (36. grein) 421
(v) Sala og brottnám barna og verslun með börn (35. grein) 422
(d) Börn sem tilheyra hópum minnihluta eða frumbyggja (30. grein) 423
Niðurlag - Lokaathugasemdir nefndar um réttindi barnsins 424-439