Hoppa yfir valmynd
29. febrúar 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fréttabréf stjórnenda ríkisstofnana 29. febrúar 2012

Þátttaka ríkisstofnana í Framadögum 2012

Fyrsta febrúar síðastliðinn voru hinir árlegu Framadagar haldnir. Framadagar hafa verið haldnir frá árinu 1995 og hafa fest sig í sessi sem árlegur viðburður. Á Framadögum sem haldnir voru í Háskóla Reykjavíkur gafst nemendum sem stunda háskólanám kostur á að kynna sér stofnanir og fyrirtæki, starfssemi þeirra og hlutverk.

Framadagar 2012Frá upphafi hafa ýmsar ríkisstofnanir tekið þátt í Framadögum. Lítið hefur verið um formlega samvinnu á milli ríkisstofnana um þátttöku, þó var gerð tilraun til samvinnu árið 2006 sem tókst ágætlega en var ekki fylgt eftir sem skyldi. Á Framadögum 2011 var fjármálaráðuneytið í fyrirsvari fyrir kynningar á ríkisstofnunum. Markmiðið var að kynna ríkið sem heildstæðan þekkingarvinnustað sem býður upp á áhugaverð störf innan 190 ríkisstofnana. Áhersla var lögð á að sýna breytileikann sem er til staðar í verkefnum, milli starfsgreina og í stærð stofnana. Þátttaka miðaði að því að gera ímynd ríkisins sem vinnuveitanda jákvæðari og meira aðlaðandi. Þátttaka ríkisins mæltist vel fyrir bæði meðal nemenda og þeirra stofnana sem tóku þátt.

Í kynningu ríkisstofnana á Framadögum 2012 var áhersla lögð á mikilvægi nýsköpunar í opinberum rekstri. Nýsköpun í opinberum rekstri felur í sér að skapa nýjar lausnir og bæta það sem er til staðar í starfsemi opinberra stofnana á vegum ríkis og sveitarfélaga. Þetta á m.a. við um nýja og endurbætta þjónustu eða vöru, tækni, aðferðir, stjórnskipulag, verklag og verkferla.

Á Framadögum 2012 tóku eftirtaldar stofnanir þátt: Skattrannsóknarstjóri, Ríkiskaup, Einkaleyfastofa, ISOR, Nýsköpunarmiðstöð, Matís, Fiskistofa, Mannvirkjastofnun, Umhverfisstofnun, Utanríkisráðuneyti, Landspítali og Þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.

Fjármálaráðuneytið þakkar þátttökustofnunum kærlega fyrir sitt framlag á þessum degi og vonast eftir jafn jákvæðum undirtektum að ári liðnu. Mikilvægt er að ríkið, sem stærsti þekkingarvinnustaður á Íslandi, sé ekki eftirbátur annarra þegar kemur að því að laða hæft ungt fólk til mikilvægra starfa í samfélaginu.


Endurnýjun stofnanasamninga


Fjármálaráðuneytinu er kunnugt um, að stéttarfélög eru þessa dagana að óska eftir fundum hjá stofnunum til þess að fá stofnanasamninga endurnýjaða í kjölfar nýgerðra kjarasamninga.

Í tilefni þessa vill ráðuneytið koma því á framfæri við stjórnendur stofnana ríkisins að í kjaraviðræðunum á síðasta ári kom til umræðu að nota hluta þess fjármagns sem þar var til ráðstöfunar til endurnýjunar stofnanasamninga. Þessari leið var hafnað af hálfu stéttarfélaganna og því er ekkert sérstakt fjármagn til þessarar endurnýjunar.

Þrátt fyrir þetta er þó rétt að hafa í huga að stofnanasamningar eiga að taka mið af starfsemi stofnana eins og hún er á hverjum tíma. Því er eðlilegt að endurnýja þá og sníða af þeim þá vankanta sem þörf er á.

Ráðuneytið beinir því til stofnana að huga að þessari endurnýjun og hafa jafnframt í huga hvort ekki sé hægt að fækka stofnanasamningum með því að gera sameiginlegan stofnanasamning við öll félög innan stofnunar eða að eðlislíkar stofnanir sameinist um gerð slíkra samninga.

Fjármálaráðuneytið er tilbúið til að styðja stofnanir við þessa endurnýjun. t.d. með því að vinna með þeim tölfræðiupplýsingar.


Kynjabókhald forstöðumanna 2011


Í árslok 2011 voru forstöðumenn 182 og hefur þeim fækkað um 11 frá árinu 2010. Ástæður þessarar fækkunar eru ýmsar t.d. sameining ráðuneyta í janúar 2011. Taflan sýnir fjölda forstöðumanna (þ.m.t. ráðuneytisstjóra) eftir ráðuneytum og hlutfall kvenna eftir hverju ráðuneyti fyrir sig. Þannig eru t.d. konur tvær af þremur forstöðumönnum sem heyra undir forsætisráðuneytið og er hlutfallið því 67%, óbreytt frá árinu 2010.

Ráðuneyti Karlar Konur Samtals 2011 ár 2011 ár 2010
Forsætisráðuneyti 1 2 3 67% 67%
Efnahags- og viðskiptaráðuneyti 4 2 6 33% 33%
Fjármálaráðuneyti 9 2 11 18% 9%
Iðnaðarráðuneyti 5 2 7 29% 14%
Innanríkisráðuneyti 34 12 46 26% 25%
Mennta- og menningarmálaráðuneyti 29 25 54 46% 44%
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti 7
7 0% 13%
Umhverfisráðuneyti 13 1 14 7% 7%
Utanríkisráðuneyti 2
2 0% 33%
Velferðarráðuneyti 22 10 32 31% 36%
  126 56 182 31% 31%


Lítil breyting er á kynjahlutföllum, konur eru enn 31% forstöðumanna árið 2011, eins og árið 2010. Í súluritinu má sjá fjölda frá árinu 2008 til ársins 2011. Heildarfjöldi er 208 forstöðumenn árið 2008 og fer niður í 182 árið 2011.

Forstöðumenn kyn

Meðalaldur forstöðumanna er hærri en annarra ríkisstarfsmanna og karlar í þessum hópi eru eldri en konur. Forstöðumenn eru 55 ára að meðaltali á árinu 2011, konur eru 51,3 ára og karlar eru 56,6 ára. Meðalaldur ríkisstarfmanna í heild er lægri eða tæplega 46 ár og er meðalaldur kvenna 45 ár en karla rúmlega 46 ár.


Nýsköpun í opinberum rekstri


Nýsköpun í opinberum rekstri er mjög þýðingarmikil, vegna umfangs hins opinbera og þeirra verkefna sem unnin eru í almannaþágu. Meðal áskorana sem stjórnvöld um allan heim standa frammi fyrir er að veita sífellt meiri og betri þjónustu fyrir minna fé. Við núverandi efnahagsaðstæður og niðurskurð í opinberum rekstri er hætta á að ríki standi ekki undir þessum væntingum og veiti minni þjónustu fyrir minna fé. Við slíkar aðstæður verður aukin þörf fyrir nýsköpun á sem flestum sviðum. Það felur í sér nýjar lausnir eða verulegar endurbætur á eldri lausnum sem beinast að vörum, þjónustu, tækni, aðferðum, skipulagi, gildum, verklagi og verkferlum.

Gróska í nýsköpun ríkisins

Orðið nýsköpun hefur ekki mikið sést í umræðu um opinberan rekstur. Þegar rætt er um nýsköpun koma oft upp í hugann á fólki fyrirtæki eins og Össur, Marel, CCP o.fl. Sjaldnast hugsa menn um framtalsvef Ríkisskattstjóra, örnefnasjá Landmælinga Íslands, notkun samfélagsmiðla lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eða rýmingaráætlun almannavarnarnefndar á Hvolsvelli. Þess má geta að þrjú síðastnefndu verkefnin fengu öll viðurkenningar fyrir framúrskarandi nýsköpun í opinberum rekstri á síðasta ári.

Þegar litið er yfir þau verkefni sem tilnefnd voru til nýsköpunarverðlauna í opinberum rekstri árið 2011 fer ekki milli mála að ríkisreksturinn er bæði áhugaverður og lifandi. Þessi verkefni má kynna sér nánar á nyskopunarvefur.is. Tilnefningarnar bera það með sér að stofnanir á Íslandi eru í stöðugri þróun, þær fylgjast vel með tækninýjungum og eru á sumum sviðum leiðandi eins og nokkur dæmi bera vott um. Sú þekking sem er innan hins opinbera hefur leitt til þróunar verkefna sem vakið hafa athygli erlendis og hjá einkaaðilum. Hvatinn af þessum verkefnum kemur að innan, úr kjarna stofnana og fer þar fyrir metnaður um aukin gæði, betri þjónustu, hagræðingu í rekstri og fleira.

Þegar verkefnin eru skoðuð vekur einnig athygli hversu margar stofnanir eiga samráð við notendur um bestu lausnir. Almennt er talið mjög mikilvægt að stofnanir eigi samtal við sína viðskiptavini til að fá hugmyndir og tillögur um hvað megi bæta og laga til að sníða þjónustuna betur að þörfum þeirra. Nýsköpun, hvort sem er í opinberum rekstri eða einkarekstri, krefst oft náins samstarfs við utanaðkomandi aðila. Ljóst er að samstarf við einkaaðila hér á landi við þróun nýsköpunarverkefna hefur bæði verið náið og skilað miklu. Samstarf stofnana við systurstofnanir hérlendis og erlendis hefur einnig verið mikið.

Stuðningur við nýsköpun

Nýsköpun krefst þess að stofnanir prófi sig áfram með ýmsa hluti. Slíkt getur kallað á mikla vísindalega vinnu, gagna er aflað og líkön eru jafnvel þróuð til að útfæra eitthvað sem leiðir síðan til að ákvörðun er tekin um næstu skref. Það er alveg ljóst að þessi mikla vinna hefur mjög jákvæð áhrif á tækni- og vísindasamfélagið hér á landi. Nýsköpun krefst fjárfestingar, en þá fer tími starfsmanna og fjármagn stofnunar í þróun verkefnis sem menn gera sér vonir um að muni bæta starfsemina og vonandi draga úr útgjöldum þegar fram líða stundir. Ágætt dæmi eru ökklabönd fyrir dæmda afbrotamenn sem lengi hafa verið í umræðunni hér á landi. Stofnkostnaður er væntanlega þó nokkur en með tímanum næst fram sparnaður þar sem afplánun dóms með ökklabandi er mun ódýrari í rekstri en ef viðkomandi þyrfti að afplána í fangelsi. Einnig má nefna tölvuvæðingu grunnskólanema, en skólar bæði hér og erlendis eru að prufa sig áfram með IPAD-spjaldtölvur fyrir nemendur. Til lengri tíma litið sjá skólastjórnendur væntanlega fram á að kostnaður muni dragast saman, s.s. vegna bókakaupa og annarra hluta, auk þess sem spjaldtölvan kann að bjóða upp á ýmsar nýjungar við kennslu.

Nýsköpun í opinberum rekstri kallar á fjárfestingu ríkis og sveitarfélaga. Hún er hins vegar ekki án áhættu og það verða stofnanir að vera meðvitaðar um þar sem um almannafé er að ræða. Áhættan er sú að sum verkefni mistakast. Það er óhjákvæmilegt en fyrir því kunna að vera margvíslegar ástæður. Stofnanir verða því að gera ráðstafnir til að takmarka þessa áhættu, svo sem með markvissri upplýsingaöflun, ítarlegum rannsóknum, tilraunum, úttektum o.s.frv. Nýsköpun er engu að síður forsenda framfara og því er mikilvægt að stjórnvöld komi þeim skilaboðum áleiðis til stofnana í gegnum stefnumótun, áætlanagerð, árangursstjórnunarsamninga o.fl.


Staðan í mannauðsmálum ríkisins - stöðumat


Á grundvelli samþykktar ríkisstjórnar um áherslur í starfsmannamálum dags. 12. nóvember 2010 er af hálfu fjármálaráðuneytisins lögð áhersla á að styrkja og þróa aðferðir forstöðumanna sem snúa að starfsumhverfi og starfsmannastefnu.

Í samþykkt ríkisstjórnarinnar kemur í stuttu máli fram að lögð verði áhersla á markvissari innleiðingu á aðferðum mannauðsstjórnunar hjá ríkisstofnunum. Í því skyni verði stofnunum gert að setja sér heildstæða mannauðsstefnu. Stuðningur við framkvæmd starfsmannamála stofnana verður aukinn, einkum m.t.t. þess að áherslur í starfsmannamálum styðji við markmið stofnunar. Eftirlit með framkvæmd stofnana í launa- og starfsmannamálum verður aukið og árlega verður metið hvort að stofnanir uppfylli lágmarkskröfur um heildstæða mannauðsstefnu.

Megináhersla er lögð á að bæta mannauðsstefnu stofnana, auka gæði ráðninga og starfsloka, tryggja notkun starfslýsinga og árlegra starfsmannasamtala og stuðla að árangursríkri starfsþróun.

Nú þegar kjarasamningsgerð er að mestu lokið af hálfu fjármálaráðuneytis verður næst fyrir að fylgja fyrrgreindum áherslum eftir. Sú vinna er þegar hafin og hefur fyrst og fremst snúið að því að uppfæra mannauðshluta Oracle. Í mannauðshluta Oracle  er verið að setja upp stöðluð eyðublöð og kynningarefni vegna starfslýsinga, starfsmannasamtala og starfsþróunaráætlana. Er með því vænst að forstöðumönnum sé gert auðveldara að nýta kerfið og styðja þannig forstöðumenn við notkun á þessum tilteknu aðferðum mannauðsstjórnunar. Jafnframt er unnið að því að sjálfsafgreiðsla Oracle verði frá og með miðjum apríl 2012, tekin út fyrir eldvegg og verður hún þar með aðgengileg starfsmönnum og stjórnendum annars staðar en  á vinnustað. Það mun auðvelda mjög alla skráningu upplýsinga er tengjast starfsþróun, starfsreynslu, menntun o. fl. hjá viðkomandi starfsmanni.

Við munum upplýsa ykkur reglulega um hvernig þessari vinnu miðar og hvetjum ykkur til að kynna ykkur þá möguleika sem mannauðshluti Oracle býður upp á.


Nýtt efni á vef fjármálaráðuneytisins


Svo sem fram kom í síðasta Fréttabréfi urðu nokkrar breytingar á ákvæðum kjarasamninga í síðustu samningum auk þess sem samið var um ný ákvæði. Birt hefur verið umfjöllun um eftirfarandi ákvæði á síðunni spurt og svarað.


Forstöðumannalisti

Birtur hefur verið nýr listi yfir forstöðumenn ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja í Lögbirtingarblaðinu. Fyrir 1. febrúar ár hvert sker fjármálaráðherra úr því hvaða starfsmenn teljast forstöðumenn ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja skv. 1. mgr. 22. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna rikisins og birtir lista yfir þá í Lögbirtingarblaði.

Þegar listi þessi er skoðaður þá þarf ávallt að hafa í huga að hann er ekki tæmandi yfir forstöðumenn ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja. Embættismenn eru taldir upp í 1 - 13 tölulið í 1. mgr. 22. gr. laganna. Í 13. tölulið segir að fjármálaráðherra skeri úr hvaða starfsmenn falli undir þann lið. Það eru aðeins þeir sem birtir eru á forstöðumannalistanum. Aðrir eru sérstaklega taldir upp í lögunum.

Störf sem undanþegin eru verkfallsheimild

Birt hefur verið auglýsing nr. 77/2012 um skrá yfir störf sem undanþegin eru verkfallsheimild sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Samantekt á lögum um ríkisstarfsmenn

Samantektin er varðar lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins var uppfærð nú í janúar 2012 vegna dóma og álita sem birt voru á árinu 2011.

Reifanir á dómum

Einnig hafa verið birtar á heimasíðu ráðuneytisins reifanir á dómum sem kveðnir voru upp á árinu 2011 og varða starfsmannamál hjá ríkinu og stofnunum þess.


Félag forstöðumanna ríkisstofnana, 25 ára 27. nóvember 2011


Útdráttur úr erindi Óla H. Þórðarsonar sem flutt var á afmælisfundi Félags forstöðumanna 25. janúar 2012.

Tiltölulega ungur framkvæmdastjóri Umferðarráðs, 42 ára gamall, er staddur í flugstöðinni í Luxemborg. Árið er 1985. Dálítill biðtími er framundan. Strákur sest, með kókglas í hendi. Veit ekki hvort sá er við hlið hans situr er Íslendingur, en í ljós kemur að svo er. Þeir taka tal saman. Fljótlega kemur í ljós að báðir stýra ríkisstofnun á Íslandi. Teningunum var kastað. Þetta er fráleitt. Tiltölulega fámennur hópur forstöðumanna ríkisstofnana hefur engan sameiginlegan vettvang til þess að hittast og kynnast hver öðrum, þekkja ekki einu sinni andlit nema þeirra sem oft koma fram í sjónvarpi. Úr þessu verður að bæta. Flugvélin fer í loftið og stjórinn ungi er kominn á flug með hugmynd – stofna félag forstöðumanna, því ekki? Félög hafa verið stofnuð um ómerkari tilgang enn þann að efla kynni þeirra sem sinna íslenskri stjórnsýslu.

Á haustmánuðum 1985, ræddum við málið nokkrir starfsbræður og hugmyndinni var almennt mjög vel tekið. Við héldum tvo undirbúningsfundi á Hótel Holti, þann fyrri í febrúar 1986, þar sem 32 mættu, 31 karl og takið eftir, ein kona, og seinni fundinn í maí þar sem undirbúningsnefnd var kosin til þess að vinna að stofnun Félags forstöðumanna ríkisstofnana. Á þann fund mættu 35, og sama konan, og það er kannski áhugavert fyrir ykkur, ágætu forstöðumenn að hugleiða frá hvaða stofnun þessi kona kom, jú, auðvitað, frá Jafnréttisráði. Við getum rétt ímyndað okkur hvað hún hefur hugsað um stöðu kvenna í forstöðumannastétt, ein í salnum með á fjórða tug karlmanna.

Undirbúningsnefnd boðaði til stofnfundar á Hótel Esju, þann 27. nóvember árið 1986. Vel var mætt á fundinn og stofnfélagar urðu alls 80. Jafnréttisstýran var nú ekki ein kvenna í salnum, þrjár kynsystur hennar til viðbótar voru meðal stofnfélaga – heil 5%, en stofnkarlarnir voru 76. Meðalaldur stofnfélaga var liðlega 50 ár. Fimm stofnfélaga eru enn starfandi forstöðumenn, og sé ég a.m.k. tvo þeirra hér á fundinum í dag.

Í fyrstu stjórn félagsins voru kjörin: Varaformaður: Elfa-Björk Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Ríkisútvarpsins-hljóðvarps, ritari var Ásgeir Guðmundsson, námsgagnastjóri, og sá sem hér stendur, formaður.  Meðstjórnendur voru þeir Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Innkaupastofnunar ríkisins og Ágúst Guðmundsson, forstjóri Landmælinga Íslands.

Umhugsunarvert er að skoða heiti stofnana þeirra forstöðumanna sem þarna riðu á vaðið. Við lauslega athugun sýnist mér að 34, af þessum 80 stofnunum, starfi enn undir sama nafni, 46 stofnanir, hafa annað hvort verið lagðar niður eða sameinaðar með einum eða öðrum hætti. Með öðrum orðum, 57,5 af hundraði þeirra stofnana sem um ræðir eru ekki til í þeirri mynd sem áreiðanlega hefur verið talin góð og gild í stofnanaumhverfi ársins 1986, og sýnir þetta mikinn dugnað þingmanna og ráðherra við að fækka stofnunum ríkisins. Í kjölfar stofnfundar lögðum við mikla áherslu á að kynna þetta nýja félag okkar og fyrir hvað það hyggðist standa.

Fljótt kom í ljós að aukin kynni við aðra forstöðumenn urðu til þess að auðveldara var að ná fram samstöðu við úrlausn ákveðinna mála, þvert á fagráðuneyti. Þessi auknu kynni voru stofnunum afar verðmæt og ég held að segja megi að félagið hafi tiltölulega fljótt notið, a.m.k. ákveðinnar viðurkenningar innan stjórnsýslunnar. Fljótt var ákveðið að koma til móts við þá forstöðumenn sem vildu að félagið sinnti kjaramálum í auknum mæli, en við höfðum fram að því lagt áherslu á almenn atriði eins og auknar og bættar tryggingar fyrir forstöðumenn. En okkur var nokkur vandi á höndum að hella okkur út í kröfugerð um bætt laun, þar sem áætlanir okkar til að byrja með gerðu fyrst og fremst ráð fyrir að félagið ætti að vera öflugur samráðs- og kynningarvettvangur forstöðumanna. Þetta leystum við hins vegar með lagabreytingu sem opnaði möguleika á að sérstök kjaranefnd innan félagsins, sem að vísu starfaði náið með stjórn þess, gæti barist fyrir bættum kjörum þeirra félagsmanna sem þess óskuðu. Með þessu móti opnaðist möguleiki á að fara að þrýsta á ráðuneytin, og síðar kjaranefnd um betrumbætur í launamálum.

Síðan kom að því að okkur var gert að semja sjálf við starfsfólk okkar í svokölluðum stofnanasamningum, og sumir forstöðumenn þurftu að bíta í það súra epli að semja á þann hátt að næstráðendur þeirra nutu mun betri kjara en þeir sjálfir.

Þegar ég lít nú til baka yfir þetta 25 ára starfstímabil félagsins okkar, verð ég að viðurkenna að ég er stoltur af þessu framtaki okkar frumherjanna. Við renndum auðvitað dálítið blint í sjóinn í upphafi, en bjartsýn vorum við um framgang þessarar félagsstofnunar okkar. Þá, eins og nú, var oft vegið harkalega að ríkisstofnunum og forstöðumönnum þeirra, og umræðan oft á afar lágu plani. Sjálfur hef ég verið svo lánsamur að geta fylgst náið með störfum félagsins, og þar með þeirri jákvæðu þróun sem á margan hátt hefur orðið í stjórnsýslunni, með 21 árs stjórnarsetu í FFR. Er ég ekki í nokkrum vafa um að félagið hefur unnið stórvirki á þessum árum, og það nýtur vaxandi virðingar, Eiginlega þyrfti að skrá sögu þess fyrir komandi kynslóðir.

Við núverandi stjórn segi ég;  ég er ánægður með störf ykkar. Einu bið ég ykkur þó að gæta sérstaklega að - fjöregginu okkar allra - Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Ótrúlega margir vilja hann feigan.

Megi Félag forstöðumanna ríkisstofnana halda áfram að vaxa og dafna - til hamingju með árin 25.  Megi og ykkur forstöðumönnum allt í hag ganga um ókomna tíð

Óli H. Þórðarson
Fyrrverandi framkvæmdastjóri Umferðarráðs

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta