Niðurstöður könnunar um húsaleigubætur 2012
Námsmenn, öryrkjar og launafólk eru stærstu hópar þeirra sem eru á leigumarkaði og fá greiddar húsaleigubætur. Flestir sem fá húsaleigubætur eru einhleypir, konur eru í miklum meirihluta og einstæðar mæður stór hluti þess hóps. Þetta og fleira kemur fram í nýrri könnun um útgreiðslu húsaleigubóta sem unnin var fyrir samráðsnefnd um framkvæmd laga og reglugerða um húsaleigubætur.
Samráðsnefndin starfar á grundvelli 10. gr. reglugerðar um húsaleigubætur nr. 118/2003 og er skipuð af ráðherra. Hlutverk hennar er að fylgjast með framkvæmd laga og reglugerðar um húsaleigubætur.
Eftirfarandi er samantekt með helstu niðurstöðum könnunarinnar en skýrslan með könnuninni í heild er jafnframt aðgengileg hér.
Leigumarkaður
- Meirihluti húsaleigubótaþega býr í tveggja til þriggja herbergja íbúðum.
- Leiguverð fylgir fjölda herbergja, er ívið lægra í félagslegu leiguhúsnæði en á almennum markaði, og hærra á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni.
Húsaleigubótaþegar
- Um helmingur húsaleigubótaþega er á almennum leigumarkaði, fjórðungur býr í félagslegu leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaga, en einnig er stór hópur sem býr á stúdentagörðum eða í öðru námsmannahúsnæði.
- Um helmingur húsaleigubótaþega er yngri en 35 ára.
- Námsfólk, öryrkjar og launafólk eru þrír stærstu hópar húsaleigubótaþega, en atvinnulausir og ellilífeyrisþegar eru einnig nokkuð stór hluti hópsins.
- Allur þorri húsaleigubótaþega er einhleypur. Konur eru í miklum meirihluta og einstæðar mæður eru umtalsverður hluti þeirra.
- Það eru vissar vísbendingar um að samsetning húsaleigubótaþegahópsins sé að breytast. Hlutfall námsfólks og fólks á yngsta aldursbilinu af nýjum umsækjendum er umtalsvert hærra en meðal þeirra sem þegar fá húsaleigubætur. Þetta á einnig við um sérstakar húsaleigubætur.Um helmingur einhleypra húsaleigubótaþega er með árstekjur undir tveimur milljónum króna, enda eru húsaleigubætur lágtekjumiðaðar.
- Einhleypir foreldrar með þrjú börn eða fleiri búa að jafnaði við lakari kjör en aðrir húsaleigubótaþegar.
Sérstakar húsaleigubætur
- Um 60% sveitarfélaga greiða ekki sérstakar húsaleigubætur. Þrátt fyrir það búa um 83% íbúa landsins í sveitarfélögum sem greiða slíkar bætur. Það helgast af því að minni sveitarfélögin eru síður líkleg til að greiða sérstakar húsaleigubætur.
- Ekkert í gögnunum bendir til þess að það séu tengsl milli stærðar sveitarfélaga og fjárhæða sérstakra húsaleigubóta. Þá er ekki munur milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar.
- Hlutfall þeirra sem búa í félagslegu leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaga er umtalsvert hærra meðal þeirra sem fá sérstakar húsaleigubætur en meðal húsaleigubótaþega almennt. Hins vegar er allur þorri nýrra umsækjenda um sérstakar húsaleigubætur á almennum leigumarkaði.
- Stærstur hluti þeirra sem fá sérstakar húsaleigubætur er undir 35 ára aldri, en meðalaldur hópsins er þó hærri en húsaleigubótaþega almennt.
- Öryrkjar eru rúmur þriðjungur þeirra sem fá sérstakar húsaleigubætur.
Fjárhæðir húsaleigubóta
- Skipting þeirra fjármuna sem er varið í almennar og sérstakar húsaleigubætur endurspeglar samsetningu bótaþegahópsins. Rúmur helmingur þess fjármagns sem er varið í almennar húsaleigubætur fer til fólks á almennum leigumarkaði, rúmur fjórðungur til fólks í félagslegu leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaga og um 13% til fólks sem býr á stúdentagörðum eða í öðru námsmannahúsnæði.
- Meðalhúsaleigubætur þeirra sem eru á almennum leigumarkaði eru ívið hærri en bætur fólks sem býr í félagslegu leiguhúsnæði. Það á við um bæði almennar og sérstakar húsaleigubætur.
- Ætla má að lágtekjumiðun húsaleigubóta valdi því að stór hluti húsaleigubótaþega fái lágar bætur sem hafi hverfandi áhrif á húsnæðiskostnað þeirra. Þá benda gögnin til þess að stór hluti leigjenda fái ekki húsaleigubætur.