Hoppa yfir valmynd
6. janúar 2000 Innviðaráðuneytið

Skýrsla um bandbreiddarmál

Frá blaðamannafundi þar sem skýrslan var kynnt.
Frá blaðamannafundi þar sem skýrslan var kynnt.

Fréttatilkynning 6. janúar 2000

Stafrænt Ísland

Skýrsla um bandbreiddarmál

Að tilstuðlan verkefnisstjórnar um upplýsingasamfélagið, sem starfar á vegum forsætisráðuneytis, svo og samgönguráðuneytis og RUT-nefndar hefur verið gerð úttekt á flutningsgetu fjarskiptakerfisins.

Halldór Kristjánsson verkfræðingur vann úttektina og eru niðurstöður birtar í skýrslu sem nefnist: Stafrænt Ísland – skýrsla um bandbreiddarmál. Skýrsluna má finna á:

Tilefni úttektarinnar er að aðstandendur verksins telja að fullnægjandi flutningsgeta fjarskiptakerfisins sé forsenda þess að hægt sé að halda uppi samkeppnishæfu atvinnulífi, menntun og menningu á landsbyggðinni.

Einnig þarf að huga að stöðu íslensks atvinnulífs í alþjóðlegri samkeppni. Tryggja verður að flutningsgeta og flutningsöryggi fjarskiptakerfis til útlanda verði fullnægjandi og anni vaxandi þörfum upplýsingaiðnaðar og annarar atvinnustarfsemi.

Úttektin er liður í framkvæmd stefnu ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið og er markmið hennar að kortleggja flutningsgetu/bandbreidd fjarskiptakerfisins og greina bandbreiddarþörf fyrir stafræna flutninga á næstu árum, innanlands sem til útlanda.

Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:

  • Ekki er gert ráð fyrir að fjölgun Internetnotenda verði eins mikil á næstu árum, og til þessa, en þörf hvers og eins fyrir bandbreidd mun vaxa.
  • Gert er ráð fyrir aukningu á framboði bandbreiddar að minnsta kosti í takt við spár um þörf fyrir hana á næstu árum.
  • Byggt á umsögnum innlendra og erlendra aðila er gert ráð fyrir því að bandbreiddarþörf/-notkun muni tvöfaldast á ári, næstu tvö til þrjú árin hér á landi. Sama á við um tenginguna við umheiminn. Reynist þær spár of lágar má búast við að innan fárra ára anni Cantat-3 ekki lengur þörfum Íslendinga fyrir bandbreidd til útlanda.
  • Mikilvægt er að millitengingar á milli heildsöluaðila á Íslandi séu öflugar, vegna innanlandsumferðar, svo og að þeim verði skylt að tryggja varaleiðir til útlanda eða að öðrum kosti að gera viðskiptavinum sínum grein fyrir því að þeir geti orðið sambandslausir við rof á Cantat-3.
  • Sett hefur verið fram sú stefna í fjarskiptalögum að öll lögheimili á landinu hafi aðgang að 128 kbs ISDN tengingu eða ígildi hennar og á því verki að vera lokið innan þriggja ára. Nú eru um 8% símnotenda með ISDN (128 kbs) en ekki er vitað um fjölda þeirra sem tengjast með þeim hætti við Internetið. Í ljósi þeirrar stefnu sem sett er fram í fjarskiptalögum er því spáð að meirihluti heimila verði með ISDN tengingar við Internetið innan fárra ára.
  • Ljósleiðaranet Landssímans teygir sig um allt land og tengist flestum helstu þéttbýlisstöðum landsins og mörgum smærri stöðum. Á höfuðborgarsvæðinu býður Íslandssími aðgang að ljósleiðaraneti sem síðar kann að verða útvíkkað. Aðrir valkostir eins og örbylgjunet eru einnig í boði á sama svæði. Dreifinetið er því nokkuð gott.
  • Nokkrum áhyggjum veldur að Ísland hefur aðeins eina tengingu við umheiminn, Cantat-3 sæstrenginn. Mikilvægi tengingarinnar hefur vaxið hratt á liðnum árum og sífellt fleiri eru háðir Internetsambandi til útlanda. Cantat 3 byggir á eldri tækni og er fyrirséð að hann muni ekki duga lengi enn miðað við spár um aukningu bandbreiddar auk þess sem rekstrarkostnaður hans stenst ekki samanburð við nýjustu sæstrengi. Aðeins ein varaleið er til staðar, um gervihnött, sem á stundum getur tekið tíma að koma á og er að auki með mun meiri töf en samband um sæstreng. Því er nauðsynlegt að hyggja nú þegar að öðrum valkostum ekki síst ef einnig er litið til þess mikla óöryggis sem felst í því að hafa aðeins eina fasta tengingu til Íslands. Í því samhengi koma gervihnattakerfi vart til álita á næstu árum og því er mikilvægt að huga að lagningu sæstrengs til Evrópu hvort sem það yrði gert af Íslendingum eða erlendur aðili fenginn til samstarfs. Vinna þarf að því að um ókomna framtíð verði a. m. k. þrjár óháðar leiðir til útlanda, vegna öryggis, þar af ein um gervihnött.
  • Helsti hemill á aukna Internetnotkun er kostnaður og á það jafnt við um heimili og fyrirtæki. Eftirspurn eftir bandbreidd kann því að breytast hratt ef veruleg lækkun verður á kostnaði. Gera má ráð fyrir að með aukinni bandbreidd til notenda komi fram ýmis ný og bandbreiddarfrek þjónusta sem áður hefur ekki verið í boði.
  • Auk þess sem aðgangur að bandbreidd hefur áhrif á framboð þjónustu er ljóst að mikill vöxtur verður í viðskiptum á Internetinu. Spáð er sjöföldun heimsviðskipta á Internetinu til ársins 2002 borið saman við árið 1999. Íslendingar geta orðið afl í alheimsviðskiptum á netinu og eiga að ætla sér stóran hlut þar, a. m. k. ekki minni en hlutur Íslendinga er nú í alþjóðaviðskiptum.
Í Reykjavík, 6. janúar 2000
Verkefnisstjórn um upplýsingasamfélagið, samgönguráðuneyti og RUT-nefnd

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta