Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2000 Innviðaráðuneytið

Rafræn viðskipti og stjórnsýsla - vinnuáætlun apríl 2000

Vinnuáætlun um þróun rafrænna viðskipta og rafrænnar stjórnsýslu 2000-2002

I. Inngangur

Í Framtíðarsýn ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið, sem gefin var út í október 1996 eru skilgreind 3 forgangsverkefni sem talin eru mikilvægur þáttur í því að stefnan nái fram að ganga. Þau eru:

  • átak á sviði menntamála,
  • fullnægjandi flutningsgeta og flutningsöryggi fjarskiptakerfis og
  • að útboðsstefnu ríkisins verði framfylgt við kaup hugbúnaðar.

Í ljósi hinnar öru þróunar á sviði upplýsinga- og fjarskiptatækni telur Verkefnisstjórn um upplýsingasamfélagið nauðsynlegt að stjórnvöld endurmeti áherslur sínar. Í alþjóðlegu samstarfi er lögð mikil áhersla á þróun rafrænna viðskipta sem leitt geti til aukins hagvaxtar, skapi störf, auki viðskipti milli landa og bæti félagslegar aðstæður fólks (sbr. ráherraráðstefnu OECD í Ottawa í október 1998).

Rafræn viðskipti eru viðskipti þar sem flutningur ýmissa gagna sem varða viðskiptin á sér stað með aðstoð upplýsinga- og fjarskiptatækni. Viðskiptin geta falist í hefðbundinni opinberri þjónustu, verslun með hefðbundnar vörur eða þjónustu, verslun með stafrænt efni, fjármagnsflutningum, inn- og útflutningsskýrslum, útboðum og tilboðum, svo fátt eitt sé nefnt.

Rafræn viðskipti eru nú í örum vexti á Íslandi og hið alþjóðlega samfélag er langt komið með að móta þær leikreglur sem almennt munu gilda í rafheimum. Nú er því tímabært að opinberir aðilar á Íslandi endurskoði lagarammann, móti reglur og viðmiðanir og gangi á undan með góðu fordæmi og taki upp rafræn opinber viðskipti og rafræna stjórnsýslu.

Verkefnisstjórnin, Samráðshópur ráðuneyta og Alþingis um upplýsingasamfélagið og Samráðshópur sveitarfélaga, atvinnulífs og launþega um upplýsingasamfélagið hafa haft samráð um mál sem snerta þróun upplýsingasamfélagsins frá árinu 1997.

Nú leggja þessir hópar til að stjórnvöld geri rafræn viðskipti og rafræna stjórnsýslu að 4. forgangsverkefni sínu við framkvæmd stefnunnar um upplýsingasamfélagið og mæla með að auknu fjármagni verði veitt til þessa verkefnaflokks.

Birgir Már Ragnarsson og Einar Hannesson hafa unnið að þessari tillögugerð með Verkefnisstjórninni og samráðshópum hennar.

Hér á eftir fer tillaga hópanna um vinnuáætlun um þróun rafrænna viðskipta og rafrænnar stjórnsýslu á Íslandi.

f.h. verkefnisstjórnar um upplýsingasamfélagið

Guðbjörg Sigurðardóttir, formaður

II. Rafræn stjórnsýsla

Forsendur þess að hægt sé að veita opinbera þjónustu með rafrænum hætti eru þær að almenningur hafi aðgang að tölvum og Interneti, öryggi og traust ríki á rafrænum viðskiptum almennt og hægt sé að nýta sér þjónustuna án mikils kostnaðar.

Samkvæmt könnun sem gerð var í nóvember 1999 hafa um 71% fólks (á aldrinum 16-75 ára) tölvu á heimili sínu og nálægt 70% hefur aðgang að Interneti á heimili, í skóla eða á vinnustað. Hið alþjóðlega samfélag er óðum að setja viðmiðunarreglur til að auka öryggi rafrænna samskipta og sammælast um staðla sem Íslendingar geta tekið mið af og innleitt.

Allar forsendur eru því fyrir því að Íslendingar verði áfram í hópi fremstu þjóða heims í rafrænni stjórnsýslu en til þess að svo verði þarf stöðuga vinnu.

Lagt er til að farið verði útí eftirfarandi aðgerðir:

Þróunar og tilraunaverkefni:

  • Góð þróunar- og tilraunaverkefni á sviði rafrænnar stjórnsýslu og/eða rafrænna viðskipta verði sett í forgang í fjárlögum 2001 og 2002. Tryggja þarf að unnið verði markvisst að því að gera gagnvirka þjónustu við almenning örugga og aðgengilega á Interneti, að opinberar stofnanir stundi markvisst þróunarstarf og starfsmenn hafi svigrúm til að sinna verkefnum á þessu sviði. Í forgang þarf að setja þau gagnvirku verkefni sem þjóna stórum hópum í samfélaginu. Einnig þarf að tryggja að hið opinbera gangi á undan með góðu fordæmi, komi innkaupum sínum á rafrænt form og geri ýmsar framsæknar tilraunir
  • Tryggja þarf áframhaldandi þróun og viðhald stjórnarráðsvefs (www.stjr.is) sem ekki er haldið nægjanlega við. Ráðinn verði vefstjóri fyrir stjórnarráðið f.hl. árs 2000. Vefstjóri vinni með Ritstjórn stjórnarráðsvefs og Nefnd um stjórnarráðsvef við að endurskoða útlit og uppbyggingu stjórnarráðsvefs.
  • Gerð verði sérstök áætlun um mótun upplýsingaveitu fyrir almenning og henni hrundið af stað á árinu 2000. Þessi vinna krefst samvinnu við fjölmarga aðila innan stjórnsýslu, við ríkisstofnanir og sveitarfélög. Í fjárlögum árið 2000 hefur verið veitt 5,0 milljónum kr. til þessa verkefnis.
  • Komið verði upp öflugum fjarfundabúnaði sem ráðuneyti hafi greiðan aðgang að. Búnaðurinn verði nýttur í fundahaldi með landsbyggðinni, erlendum sendiráðum og samstarfsaðilum stjórnsýslunnar almennt.
  • Gerðar verði tilraunir um rafrænar kosningar (dómsmálaráðuneyti).

Aðgengi:

  • Gert verði átak varðandi  aðgengi almennings að útstöðvum (einföldum snertiskjám og/eða venjulegum tölvum) í opinberum stofnunum í samráði við viðkomandi stofnanir. Gera þarf ráð fyrir þessu í mótun fjárlagatillagna fyrir árið (2001 og) 2002.
  • Gerðar verði áætlanir um aðgengi nemenda að netinu og fundin "lausn" á tölvukosti nemenda ( fartölvur, tölvuver, ....)

Málaskrá stjórnarráðsins:

  • Málaskrárkerfið þarf að vera í stöðugri þróun og endurskoðun. M.a. þarf að tryggja að þróun grunnkerfis sé með þeim hætti að það þjóni þörfum stjórnsýslunnar, tryggja sem mesta samræmingu milli ráðuneyta, lágmarka kostnað með því að auka samstarf um "sérlausnir" og halda vel á samningum almennt. Ganga þarf eftir að verklagsreglur séu til í ráðuneytum og eftir þeim sé farið. Lagt er til að innan stjórnarráðsins verði eitt stöðugildi sem sinni þróun, samræmingu, samningum, kennslu og aðstoð við notendur í öllu stjórnarráðinu.
  • Málaskrárkerfi verið komið í notkun í öllum sendiráðum (og fastanefndum) Íslands erlendis.

Internetið:

  • Kostnaður almennings og fyrirtækja við að nota Internetið er ein stærsta hindrunin sem gæti orðið í framvindu rafrænna viðskipta og því um leið möguleikum opinberra aðila til að færa þungann af ýmissi þjónustu alfarið á Internetið. Því er brýnt að leita leiða til að halda öllum kostnaði sem tengist rafrænum viðskiptum í lágmarki, ekki síst fjarskiptakostnaði. Þessum þætti verður að gefa sérstakan gaum.
  • Gefið verði út (rafrænt) hnitmiðað upplýsingarit fyrir ríkisstofnanir, ráðuneyti og fyrirtæki í landinu þar sem útskýrðar eru lagalegar hliðar rafrænna gagna, tölvupósts og höfundaréttar. Þar mætti einnig fjalla um vernd persónuupplýsinga og önnur mál sem varða síaukna notun starfsmanna á tölvum og Interneti.

Nefndir:

Vakin er sérstök athygli á því að styrkja þarf þær fastanefndir innan stjórnsýslunnar sem vinna að mikilvægum þróunarmálum s.s. stjórnarráðsvef og málaskrá með því að starfsmaður vinni með/fyrir þessar nefndir. Þróunin gengur einfaldlega of hægt við núverandi skipan mála. Þróun þessara mála væri mun markvissari og örari ef þannig væri að málum staðið. Stöðugt koma fram ný úrlausnarefni sem stjórnsýslan þarf að taka afstöðu til ef þróunin á að ganga eðlilega fyrir sig. Mikilvægt er að hagsmunaaðilar utan stjórnsýslunnar komi að nefndarvinnu þar sem það á við. Lagt er til að eftirfarandi nefndir verði skipaðar:

  • Nefnd um verðlagningu opinberra upplýsinga.
  • Nefnd/vinnuhópur um tölvupóstmál og notkun veraldarvefs: 

Nefndin fjalli um:

a)Persónulega notkun starfsmanna á tölvupósti og veraldarvef innan stjórnsýslunnar og geri tillögur um meðhöndlun hvernig best verður haldið á þessum málum í stjórnsýslunni (t.d. ruslpóstur, hópsendingar á pósti, sérstök persónuleg tölvupóstföng?, síun á ákveðnum vefsíðum?). Stefnt sé að útgáfu n.k. leiðbeininga sem nýst gætu fyrirtækjum í landinu ekki síður en stjórnsýslunni.

b)Verklagsreglur um notkun/meðhöndlun/skjölun tölvupósts í stjórnsýslunni.

III. Hvatning - Miðlun þekkingar og reynslu

Almenn þekking á rafrænum viðskiptum er af skornum skammti bæði meðal opinberra starfsmanna, tæknifólks og almennings. Nauðsynlegt er að byggja upp traust á þessum viðskiptaháttum og mennta tæknifólkog stjórnendur þannig að það geti séð til þess að upplýsingakerfin og aðferðir sem beitt verður í notkun þeirra standi undir því trausti.

  • Haldnir verði opnir fundir og ráðstefnur. Stjórnsýslan leiti samstarfs m.a. við aðila viðskiptalífsins um slíkt ráðstefnuhald þar sem miðlað verði upplýsingum um þróun rafrænna viðskipta og stjórnsýslu. Áhersla verði lögð á að miðla upplýsingum um aðgerðir opinberra aðila s.s. skuldbindingar í erlendum samningum, lagasmíð og vinnu sem fram fer í opinberum nefndum. Mikilvægt er að á slíkum fundum komi fram þarfir viðskiptalífs og almennings og leitað sé eftir skoðunum og tillögum sem flestra varðandi þróun þessa málaflokks.
  • Kynningarefni sem skrifað er á einföldu máli verði komið til fjölmiðla og hagsmunaaðila þegar ný skref eru stigin í ákvarðanatöku eða einstök verkefni komast á framkvæmdastig. Hvetja þarf almenning og fyrirtæki til að taka virkan þátt í þróun og notkun rafrænna viðskipta.
  • Sett verði upp sérstök vefsíða fyrir rafræn viðskipti og rafræna stjórnsýslu. Þar verði að finna tilvísanir í innlendar og erlendar skýrslur, minnisblöð, fréttatilkynningar og annað sem gagnlegt gæti verið fyrir þá sem vilja fylgjast með og taka þátt í þróuninni. Notendur vefsíðunnar verði hvattir til að senda inn efni/tilvísanir sem bæta má inná síðuna. Vefsíðan gæti verið samstarfsverkefni Verkefnisstjórnar um upplýsingasamfélagið og samstarfshópa hennar og mætti fela einkafyrirtæki uppsetningu hennar og viðhald.
  • Verkefnisstjórn um upplýsingasamfélagið og samráðshópar hennar beini athygli sinni sérstaklega að þessum málaflokki á árunum 2000-2002.
  • Tryggt verði að fjölbreytt framboð verði á námskeiðum um ýmsa þætti rafrænna viðskipta, m.a. almennt grunnnámskeið, tæknileg námskeið t.d. um rafrænar undirskriftir og námskeið um lagalega þætti málsins. Einkaskólar verði hvattir til að koma upp slíkum námskeiðum sem nýtast munu einkafyrirtækjum ekki síður en opinberum. Stuðlað verði að því að fjallað verði um rafræn viðskipti í almenna skólakerfinu þar sem það á við. 

 IV. Rafræn viðskipti - endurskoðun á lögum

1. Rafrænar undirskriftir

Tilskipun Evrópusambandsins um rafrænar undirskriftir.

Tillaga að tilskipun um rafrænar undirskriftir var sett fram af framkvæmdastjórn Evrópusambandins þann 13. maí 1998. Með tillögunni er stefnt að því að setja niður lágmarksreglur varðandi öryggi og ábyrgð, og tryggja að rafrænar undirskriftir njóti viðurkenningar að lögum í löndum sambandsins á grundvelli reglunnar um frjálst flæði þjónustu og heimaríkisreglunnar. Tillögunni er þannig ætlað að skapa ramma fyrir örugg viðskipti á alnetinu á hinum innra markaði og með því örva fjárfestingu í fyrirtækjum tengdum rafrænum viðskiptum.

Tillagan hefur verið samþykkt og er orðin að tilskipun. Hún varðar EES-samninginn og því eru Íslendingar skuldbundnir til að taka hana upp í íslenskan rétt.

Innan iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins er starfandi nefnd sem vinnur að því að undirbúa innleiðingu tilskipunarinnar í íslenskan rétt. Stefnt er að því að haga löggjöf á þessu sviði með sem líkustum hætti innan norðurlandanna.

Gert er ráð fyrir að nýtt frumvarp um rafrænar undirskriftir verði tilbúið í maí 2000. Æskilegt er að fá frumvarpið samþykkt sem fyrst.

Nefndir

  • Öryggismál – Vottun. Þegar á árinu 2000 þarf að skipa nefnd sem skoði, skýri og/eða geri tillögur um vottun rafrænna undirskrifta fyrir opinbera aðila, öryggi persónuupplýsinga, kröfur um dulkóðun, áreiðanleika og uppbyggingu trausts á rafrænum viðskiptamáta.. Skoða þarf hvort ástæða er til að opinberir aðilar gefi út e-k "borgarakort", hvert verður hlutverk Hagstofu og annarra opinberra aðila í að staðfesta hver einstaklingurinn er. Þurfa opinberir aðilar að koma upp vottunarstarfsemi eða munu einkaaðilar sjá um það (einnig fyrir hið opinbera) og fleira þessu tengt. Viðfangsefni nefndarinnar er stórt og flókið. Gera verður ráð fyrir að skipa þurfi vinnuhópa um um tiltekin mál og fá þurfi tæknilega sérfræðinga til að vinna afmörkuð verkefni. Að þessari nefnd þurfa að koma a.m.k. fulltrúar atvinnulífs auk fulltrúa fjármálaráðuneytis, Hagstofu og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis.
  • Staðlar. Skipa þarf vinnuhóp eða fela Staðlaráði að kynna sér alþjóðlega staðla sem lúta að rafrænum undirskriftum og rafrænum viðskiptum almennt. Könnuð verði þörf á því að íslenska alþjóðlega staðla á þessu sviði eða gera þá formlega að íslenskum stöðlum.

2. Rafræn viðskipti – almenn atriði

Rammatilskipun Evrópusambandsins um rafræn viðskipti.
Þann 18. nóvember 1998 gaf framkvæmdastjórnin út frumvarp að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins að tilskipun um rafræn viðskipti á innri markaðinum (EES). Ekki er tímabært að innleiða drög tilskipunarinnar fyrr en hún hefur öðlast gildi innan ESB. Venjulega líður nokkur tími frá því löggjöf öðlast gildi innan ESB þar til hún hefur farið í gegnum málsmeðferð EES. Ekkert er því til fyrirstöðu að Ísland innleiði tilskipunina áður en EES-ferlinu er lokið. Þrátt fyrir ákveðna óvissu um tæknileg atriði verður að telja að meginatriði tilskipunar um rafræn viðskipti liggi nú fyrir. Eftirfarandi atriði þarf að framkvæma eftir að sameiginleg afstaða Ráðsins og Evrópuþingsins liggur fyrir.

Setja þarf lagaákvæði með efnisreglum tilskipunarinnar.
a. Ákvæði um upplýsingaskyldu netþjónustuaðila til stjórnvalda og notenda þjónustunnar.
b. Ákvæði um upplýsingaskyldu netþjónustuaðila í markaðsstarfi.
c. Ákvæði um að þjónusta þjónustuaðila sem stunda löggilta starfsemi skuli uppfylla sömu kröfur hvort sem þjónustan er boðin á netinu eða með hefðbundinni markaðsfærslu.
d. Ákvæði um að rafrænir samningar hafi óskertar réttarverkanir nema annað leiði af sérlögum.
e. Sérstök ákvæði þurfa að vera í gildi um upplýsingaskyldu til neytenda (sjá þó hugsanlega reglugerð skv. 31. gr. samkeppnislaga).
f. Ákvæði um hvernig samningar á netinu verða til (sjá þó ákvæði í samningalögum nr. 7/1936 með síðari breytingum).
g. Ákvæði um ábyrgðarleysi milligönguaðila í netviðskiptum.
h. Ákvæði um að ekki megi leggja almenna eftirlitsskyldu á þjónustuveitendur.
i. Ákvæði um gerðardóma á netinu.
j. Ákvæði sem heimila samstarf við erlendar ríkisstofnanir um eftirlit á netinu.

Afnema þarf lagaákvæði sem brjóta í bága við markmið tilskipunarinnar.
Skipa þarf nefnd/vinnuhóp er hafi það markmið að finna lagaákvæði sem kunna að vera andstæð tilskipuninni, t.d. með því að gera óþarfa kröfur til forms löggerninga sem hindra rafræn viðskipti.

Setja þyrfti siðareglur, með alþjóðlegri skírskotun, er gilda á Netinu.
Skipa þarf nefnd/vinnuhóp er hafi það markmið að semja siðareglur er gilda á netinu. Þessar siðareglur hafi alþjóðlega skírskotunn því tekið verði mið af þeim reglum sem þegar hafa verið mótaðar. Þegar siðareglur hafa verið mótaðar þarf væntanlega að skipa úrskurðarnefnd.

Athuga þarf hvort settar verði sérstakar siðareglur um notkun opinberra starfsmanna og menntastofnana á netinu og/eða uppsetningu á síum sem koma í veg fyrir að starfsmenn geti skoðað ákveðnar tegundir síðna o.s.frv. (ath. samstarf við nefnd um tölvupóstmál og notkun veraldarvefs).


Stofna þyrfti gerðardóm fyrir netverslun.
Skipa þarf nefnd sem semur fullnægjandi reglur um úrlausn ágreiningsmála vegna minniháttar krafna í netviðskiptum. Hugsanlega má taka þessi ákvæði inn í löggjöf sbr. 1. tl. Þegar reglurnar hafa verið mótaðar þarf væntanlega að skipa í gerðardóm.

V. Persónuvernd

Hinn 7. febrúar 1996 skipaði dómsmálaráðherra þriggja manna nefnd til að endurskoða lög nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, vegna gildistöku nýrrar tilskipunar Evrópusambandsins, þ.e. DIRECTIVE 95/46/EC OF THE EUROPEAN PARLIAMENT AND OF THE COUNCIL of October 24 1995 on the protection of individuals with regard to the processing of personal data and on the free movement of such data.

Nú í byrjun árs 2000 var lagt fram á Alþingi : Frumvarp til laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Mikilvægt er að lagaramminn um vernd persónuupplýsinga sé skýr og taki mið af þeirri öru þróun sem nú á sér stað og fyrirsjáanlegri aukningu mála/álitamála sem upp koma með útþenslu rafrænna viðskipta og rafrænnar stjórnsýslu. Í þessu frumvarpi er tekið á mörgum þörfum málum sem snerta vernd persónuupplýsinga. Einnig eru þar breytingar á skipun og starfsskilyrðum tölvunefndar því í stað tölvunefndar er gert ráð fyrir að sett verði upp Persónuverndarstofnun. Vonir standa til að þetta frumvarp verði að lögum á árinu 2000.

VI. Niðurlag

Í þessari vinnuáætlun eru tilgreind þau verkefni sem augljóslega þarf að vinna á næstu 2-3 árum til þess að Íslendingar verði áfram í fararbroddi þjóða heims í notkun upplýsingatækninnar. Erfitt er að gera áætlanir til langs tíma þar sem hin síbreytilega upplýsinga- og fjarskiptatækni kemur við sögu. Má því búast við að sinna þurfi enn öðrum, nýjum og ófyrirséðum verkefnum sem snerta rafræn viðskipti og rafræna stjórnsýslu á næstu 2-3 árum.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta