Niðurstöður PISA rannsóknarinnar 2009
Íslenskir nemendur bæta stöðu sína í lesskilningi samkvæmt niðurstöðum nýrrar PISA rannsóknar á lesskilningi og læsi á stærðfræði og náttúrufræði á meðal 15 ára nemenda.
Íslenskir nemendur bæta stöðu sína í lesskilningi samkvæmt niðurstöðum nýrrar PISA rannsóknar á lesskilningi og læsi á stærðfræði og náttúrufræði á meðal 15 ára nemenda.
Ísland hefur tekið þátt í rannsókninni fjórum sinnum, fyrst árið 2000, og hefur lesskilningi íslenskra nemenda hrakað í hvert sinn sem mælingin hefur verið gerð síðan, þ.e. árin 2003 og 2006. Niðurstöðurnar fyrir árið 2009 gefa von um að Ísland sé á réttri leið og eru keimlíkar niðurstöðum árið 2000. Nemendur í 10 löndum af 68 koma betur út í lesskilningi en íslensku nemendurnir og 8 ef aðeins eru talin OECD löndin 33.
Niðurstöðurnar benda til að lesskilningi og læsi í stærðfræði sé vel sinnt í grunnskólum landsins. Þrátt fyrir að frammistaða íslenskra nemenda í læsi á náttúrufræði hafi batnað lítillega frá síðustu mælingu, árið 2006, eru þeir enn undir meðaltali OECD landanna líkt og nemendur í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.
Mikill munur er á frammistöðu innflytjenda og innfæddra sem er sérstakt áhyggjuefni. Líkt og árið 2006 er ekki marktækur munur á frammistöðu drengja og stúlkna í stærðfræði og náttúrufræði.
Helstu niðurstöður
- 10 lönd af 68 eru með marktækt betri frammistöðu en Ísland í lesskilningi í PISA 2009 og 8 OECD lönd af 33 hafa marktækt betri lesskilning.
-
Ísland stendur í stað í stærðfræði og náttúrufræði frá fyrri rannsóknum, er í 11.-13. sæti í stærðfræði af OECD löndunum en í 20.-25. sæti í náttúrufræði.
-
Finnland sýnir enn frammistöðu sem er með því besta sem sést í allri rannsókninni. Dregið hefur saman með hinum fjórum Norðurlöndunum, Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Danmörku í öllum greinum. Ísland og Noregur hafa sýnt framfarir frá 2006, sérstaklega í lesskilningi, en Danmörk hefur staðið í stað og Svíþjóð hrakað.
-
Breytileiki á milli árangurs skóla á Íslandi hefur aukist verulega á síðustu árum og Ísland er ekki lengur á meðal þeirra landa sem hafa allra minnstan mun á milli skóla, eins og áður var. Þannig hefur Ísland færst frá öðrum samanburðarlöndum eins og Noregi og Finnlandi þar sem lítill munur er á milli skóla. Fyrri PISA rannsóknir hafa sýnt jákvæða fylgni á milli jöfnuðar og góðs árangurs líkt og hjá Finnlandi sem verið hefur með einna minnstan breytileika í árangri milli skóla ásamt því að skora hæst að meðaltali.
-
Líkt og árið 2006 reyndist ekki vera til staðar kynjamunur í stærðfræði og náttúrufræði á meðal 15 ára nemenda á Íslandi. Í lesskilningi standa stúlkur ennþá drengjum framar, á svipaðan hátt og í nágrannalöndunum. Árið 2003 var Ísland eina landið þar sem stúlkur mældust marktækt hærri í stærðfræðitengdu efni og var kynjamunur í lesskilningi stúlkum í vil með því hæsta meðal þátttökuþjóða. Árið 2009 er kynjamunur í lesskilningi með allra minnsta móti eða svipaður og árið 2000. Árið 2003 stóðu íslenskar stúlkur sig talsvert betur í stærðfræðilæsi en drengir. Stúlkurnar koma nú verr út en drengirnir sem standa í stað.
-
Talsverður munur er á frammistöðu á Íslandi eftir landshlutum í öllum greinum og er hún best á höfuðborgarsvæðinu. Mestur hópamunur er á frammistöðu innflytjenda samanborið við innfædda í lesskilningi.
Um PISA 2009
Íslenska skýrslu um niðurstöður PISA 2009 má nálgast á vef Námsmatsstofnunar ásamt skýrslum OECD um PISA 2009. Áfram verður unnið að greiningu á niðurstöðum og þær síðar kynntar frekar í skólum og fræðsluumdæmum og á reglulegum fræðslufundum á stofnuninni.
PISA er umfangsmikil alþjóðleg rannsókn á hæfni og getu 15 ára nemenda í lestri, náttúrufræði, stærðfræði og þrautalausn. Árið 2009 var sérstök áhersla á almennan lesskilning, læsi í stærðfræði og læsi í náttúrufræði. PISA er skammstöfun fyrir enska heiti rannsóknarinnar Programme for International Student Assessment. Rannsóknin er á vegum OECD (Efnahags- og framfarastofnunarinnar). Námsmatsstofnun sér um framkvæmd rannsóknarinnar á Íslandi fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Allar þátttökuþjóðir taka þátt í stefnumótun og þróun PISA.
Færni á hverju og einu sviði, þ.e. í stærðfræði, lesskilningi og náttúrufræði, er skilgreind sem sú færni sem einstaklingurinn þarf á því sviði til að takast á við framtíðina, leysa verkefni sem daglegt líf krefst af honum og nýta þekkingu við raunverulegar aðstæður. Þátttökulöndum fer stöðugt fjölgandi og eru nú 68. Yfir 70 lönd munu taka þátt í næstu umferð árið 2012.
- Íslenskar niðurstöður
- Fréttatilkynning frá OECD
- Samantekt helstu niðurstaðna frá OECD
- PISA 2009 Results: What Students Know and Can Do. (Volume I)
- PISA 2009 Results: Overcoming Social Background. (Volume II)
- PISA 2009 Results: Learning to Learn. (Volume III)
- PISA 2009 Results: What Mages a School Successful? (Volume IV)
- PISA 2009 Results: Learning Trends. (Volume V)