Innanríkisráðherra skipar formenn fagráða siglingamála og fjarskiptamála
Innanríkisráðherra hefur skipað Jarþrúði Ásmundsdóttur, framkvæmdastjóra, formann fagráðs um fjarskiptamál til næstu tveggja ára og Sigrúnu Lilju Guðbjartsdóttur, hagfræðing, formann fagráðs um siglingamál. Fagráðin eru skipuð annars vegar í samræmi við lög um fjarskiptamál og hins vegar lög um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála.
Meðal helstu hlutverka fagráðs um fjarskiptamál er að fjalla um stefnumótun í fjarskiptamálum og lagafrumvörp á sviði fjarskipta. Í fagráði um fjarskiptamál eiga sæti fulltrúar Samtaka atvinnulífsins sem tilnefna þrjá fulltrúa, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Neytendasamtakanna.
Hlutverk fagráðs um siglingamál er að vera ráðherra til ráðuneytis um siglinga- og vitamál. Í fagráðinu eiga sæti fulltrúar frá helstu sjómannasamtökum og hagsmunaaðilum í sjávarútvegi og siglingum.