Hoppa yfir valmynd
20. maí 2010 Innviðaráðuneytið

Stofnun upplýsingatæknimiðstöðvar undirbúin

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að hefja undirbúning fyrir stofnun upplýsingatæknimiðstöðvar. Sett verður á fót framkvæmdanefnd sem mun útfæra tillögur um skipulag og starfsemi miðstöðvarinnar og móta henni fjárhagsáætlun.

Upplýsingatæknimiðstöðinni er ætlað að taka við miðlægum upplýsingatækniverkefnum sem í dag er sinnt af mörgum aðilum. Hún hafi það hlutverk að:

  • Sjá um tæknilegan rekstur og umsýslu fasteignaskrár, þjóðskrár, ökutækjaskrár og fyrirtækjaskrár og hugsanlega fleiri skráa. Vera þjónustuaðili fyrir skráarhald opinberra aðila og hafa yfirsýn yfir allar opinberar skrár.
  • Hafa umsjón með framkvæmd miðlægra verkefna á sviði upplýsingatækni, m.a. verkefna sem forsætis- og fjármálaráðuneyti hafa nú með höndum. 
  • Vera ráðgefandi fyrir ríkisstofnanir um upplýsingatæknimál.

Markmiðið er annars vegar að lækka útgjöld með betri nýtingu mannafla, skipulags og upplýsingatæknikerfa og hins vegar að auka skilvirkni og bæta þjónustu við notendur með aukinni samræmingu og samvirkni, meiri sveigjanleika og samnýtingu lausna.

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er kveðið á um að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir umtalsverðum stjórnkerfisbreytingum og umbótum í því skyni að gera þjónustu hins opinbera við almenning og atvinnulíf eins góða og kostur er með þeim fjármunum sem til ráðstöfunar eru hverju sinni.

Haustið 2009 voru skipaðar tvær nefndir sem skilað hafa skýrslum þar sem fram koma tillögur varðandi endurskipulagningu þróunar-, umbóta- og hagræðingarmála hjá ríkinu (umbótaskýrsla) annars vegar og tillögur um skipulagsbreytingar varðandi rekstur grunnskráa ríkisins (grunnskrárskýrsla) hins vegar.

Í umbótaskýrslunni er m.a. lagt til að ráðherranefnd um ríkisfjármál fjalli með reglubundnum hætti um umbótamál ríkisins þ.e. rafræna stjórnsýslu og almenn umbótamál, að mótuð verði umbótastefna þar sem tekið verði mið af sambærilegum stefnum í nágrannalöndunum og að sett verði á fót upplýsingatæknistofnun/starfseining sem hafi umsjón með framkvæmd miðlægra verkefna á sviði  upplýsingatækni. Í því felst að færa framkvæmd ýmissa núverandi verkefna ráðuneytanna til upplýsingatæknistofnunar og skerpa um leið á stefnumótunar og eftirlitshlutverki ráðuneytanna, einkum forsætisráðuneytis.  

Í grunnskrárskýrslunni eru gerðar tillögur um að allt sem lýtur að tæknilegum rekstri og umsýslu fasteignaskrár, fyrirtækjaskrár, þjóðskrár og ökutækjaskrár verði sameinað í einni skráareiningu eða stofnun. Er þar átt við rekstur tölvukerfa, þróun og tæknilega umsjón skráningar og miðlunar. Einnig er lagt til að skráning gagna verði færð sem næst uppruna upplýsinganna og sjálfsafgreiðsla verði sem  mest. Í skýrslunni kemur fram að varlega metið sé hægt að fækka stöðugildum í heild úr 126 um 15-20% í um 100-105 með sameiningu tæknilegs reksturs skránna en það er um 160-200 mkr. lækkun útgjalda á ári þegar allur ávinningurinn er kominn til.

Sameiginlegt með þessum skýrslum er að lagt er til að sett verði á stofn sérstök stofnun eða miðstöð þar sem færð eru saman upplýsingatækniverkefni sem í dag er sinnt af fleiri en einum aðila. Í þessu samhengi má benda á að kostnaður við upplýsingatækni hjá ríkinu á árinu 2008 var tæpir 6 milljarðar kr. auk launakostnaðar starfsmanna sem fást við upplýsingatæknimál. Margt bendir til að lækka megi þennan kostnað verulega eða nýta þessa fjármuni betur með breyttu skipulagi og meiri miðstýringu  og samræmingu við framkvæmd en verið hefur.

Nú liggur fyrir frumvarp um sameiningu Þjóðskrár og Fasteignaskrár í eina stofnun, Þjóðskrá Íslands, og er þegar búið að sameina tæknilegan rekstur grunnskráa þessara stofnana. Hin nýja stofnun Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands getur því orðið fyrsta skrefið í undirbúningi nýrrar upplýsingatæknimiðstöðvar.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta