Hljóðritun símtala
Á ríkisstjórnarfundi í morgun kynnti samgönguráðherra frumvarp um breytingu ákvæðis fjarskiptalaga um hljóðritun samtala, en í minnisblaði ráðherra til ríkisstjórnar sagði:
Í gildandi fjarskiptalögum segir í 3. mgr. 44. gr. að sá aðili að símtali sem vill hljóðrita það skuli í upphafi tilkynna viðmælanda sínum um fyrirætlun sína. Ákvæðið hefur það að markmiði að hljóðritun fari ekki fram án vitneskju hlutaðeigandi aðila.
Ákvæðið sætti gagnrýni nokkurra fjölmiðlamanna þar sem þeir lögðu til að ákvæðið yrði numið brott úr lögum. Samgöngunefnd fjallaði nokkuð um málið eftir að athugasemdir komu fram. Lögunum var hins vegar ekki breytt á síðastliðnu þingi.
Samgönguráðuneytið hefur kannað æskilegar breytingar á ákvæði 3. mgr. 44. gr. svo komið verði til móts við mismunandi sjónarmið. Í því sambandi hefur verið leitað til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og Tölvunefndar sem styður frumvarpið. Í meginatriðum var niðurstaðan sú með hliðsjón af rétti manna til einkalífs að halda skuli við fyrra markmið um að hljóðritun samtals fari ekki fram án vitneskju hlutaðeigandi aðila. Hins vegar er aðferðin við að tilkynna að hljóðritun fari fram rýmkuð, t.d. þegar hefur verið samið um slíkt í viðskiptasamningum. Auk þess geta stjórnvöld, að vissum skilyrðum uppfylltum, undir eftirliti Persónuverndar, hljóðritað samtöl sem þeim berast.