Fréttabréf fyrir stjórnendur ríkisstofnana, 19. desember 2003. 4. tbl. 5. árg.
Útgefandi: Fjármálaráðuneytið
Ábyrgðarmaður: Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri
Vefur: www.fjarmalaraduneyti.is
Tölvupóstfang: [email protected]
Nýtt fjárhags- og mannauðskerfi
Tímamót um áramótin 2003-4 - greiðsluþjónusta öll inn í fjárhag.
Nú um áramótin verða mikil tímamót í innleiðingarferli Oracle eBusiness Suite (OEBS). Nýjar stofnanir koma inn í fjárhagshluta kerfisins og Fjársýsla ríkisins mun flytja þangað alla bókun fyrir stofnanir í greiðslu- og bókhaldsþjónustu. OEBS-kerfið mun að auki taka við því hlutverki BÁR að draga saman heildaryfirlit fyrir ríkissjóð og stofnanir hans. Í mannauðskerfið verða komnar upplýsingar um 5.0000 starfsmenn í starfsmannahluta og í vakta- og viðverukerfi.
Fjárhagskerfi.
Nú er komin góð reynsla á fjárhagshluta kerfisins og búið er að slípa af flesta vankanta. Áfram er þó haldið með nýjungar sem nýtast ríkissjóði og stofnunum. Þannig verður nú boðið upp á skönnunarhnapp í GL (fjárhag), VSK-útreikningar hafa verið efldir í GL, hreyfingarlisti bættur, verið er að undirbúa nýja veflausn fyrir stjórnendur og þannig má lengi telja. Í AR (viðskiptakröfum) verður unnið að því að koma til móts við ýmsar ábendingar sem borist hafa frá stofnunum.
Nánast öll bókun mun verða flutt í OEBS-kerfið og frá áramótum verður kerfið notað til að fá heildaryfirlit yfir rekstur ríkisins á árinu 2004 og efnahag ríkissjóðs á hverjum tíma. Þannig munu ráðuneyti nú geta nýtt sér OEBS-kerfið til eftirlits og upplýsinga um sínar stofnanir. FJS mun í samráði við ráðuneytin vinna nýjar skýrslur til að sinna því hlutverki. Um áramótin verður öll bókun fyrir stofnanir í greiðslu- og bókhaldsþjónustu flutt í kerfið. Fyrir flestar stofnanir mun það ekki hafa mikla breytingu í för með sér, þær mun áfram senda FJS áritaða reikninga til greiðslu og bókunar en nota nú OEBS í stað BÁR til að skoða rekstur stofnana sinna. Boðið verður upp á sérstök námskeið fyrir þá notendur sem munu vinna upplýsingar úr kerfinu
Mannauðskerfi.
Um áramótin verða stofnupplýsingar um u.þ.b. 5.000 starfmenn komnar í mannauðskerfið, þ.e. allar forsendur fyrir launagreiðslum eru skráðar í Oracle en launin áfram reiknuð í gamla launakerfinu. Stefnt er að því að fyrsta útborgun launa í nýju launkerfi verði í vor. Flestir þessara starfsmanna verða einnig skráðir í vakta- og viðverukerfið. Þar er haldið utan um vinnutíma, vaktir og skipulag vakta. Starfsmenn fá síðan aðgang að þessum upplýsingum um sjálfsafgreiðsluhluta kerfisins. Vinnan við innleiðingu kerfisins gerir mismiklar kröfur til stofnana. Þær stofnanir sem annast sjálfar launaafgreiðslu, þurfa að tileinka sér nýja hugsun og ný vinnubrögð. Fyrir þær stofnanir sem eru í þjónustu hjá FJS, verður innleiðingin auðveldari þar sem starfsmenn FJS munu að mestu sjá um þá hluti sem mest breytast. Nú er unnið að því að skipuleggja vinnuna og vonast er til að hægt verði að kynna stofnunum fljótlega hvenær röðin kemur að þeim.
Lærdómur.
Reynsla þeirra stofnana sem komnar eru af stað í fjárhags- og mannauðskerfinu er jákvæð og uppörvandi. Því er ekki að leyna að í byrjun komu upp erfiðleikar en með samstilltu átaki tókst að vinna bug á þeim. Nú eru flestir notendur þeirrar skoðunar að OEBS-kerfið sé gott kerfi og gefi fyrirheit um margvíslega möguleika sem felast í þeim fjölmörgu tæknilegu þáttum sem kerfið býður upp á.
Fjárlög 2004 voru samþykkt á Alþingi 5. des. sl. Með þeirri afgreiðslu staðfesti þingið stefnu ríkisstjórnarinnar um aðhald í ríkisútgjöldum og nokkurn afgang á fjárlögum. Að venju fengu ekki allir þær hækkanir sem þeir lögðu til við fjárlagagerðina. Nú er komið að því að stofnanir ljúki gerð rekstraráætlana sem stuðla að því að rekstrarútgjöld verði innan fjárheimilda í fjárlögum 2004, að teknu tilliti til ónotaðra heimilda og umframútgjalda sem færast á milli ára. Ennfremur þarf að forgangsraða útgjöldum og endurskoða framkvæmd verkefna.
Fjárlagagerð er verkefni sem hefst í ársbyrjun hverju sinni og stendur út árið. Í janúar næstkomandi verður farið yfir stefnumörkun ríkisstjórnarinnar með það að markmiði að fylgja henni eftir. Gert er ráð fyrir að unnið verði eftir svipaðri tímaáætlun á næsta ári og á yfirstandandi ári. Við gerð fjárlagfrumvarps markaði ríkisstjórnin skýra stefnu í ríkisfjármálum fyrir árin 2004-2007 með nokkrum tölulegum markmiðum. Þar segir meðal annars að aðhald í ríkisútgjöldum verði aukið og að árlegur vöxtur samneyslunnar verði ekki umfram 2% að raungildi á tímabilinu. Vegna takmarkaðs svigrúms fyrir ný eða aukin útgjöld má reikna með því að ráðuneyti og stofnanir þurfi að leggja meiri vinnu í að vega og meta forgangsröðun þeirra verkefna og útgjalda sem fyrir eru. Sömuleiðis má reikna með að erfiðara verði að fá samþykktar tillögur um viðbótar útgjöld.
Eins og kom fram í síðasta fréttabréfi renna allflestir kjarasamningar ríkisins við stéttarfélög innan ASÍ út nú um áramótin. Tveir kjarasamningar, við flugmenn og flugvirkja hjá Landhelgisgæslu runnu út 15. sept. sl. Lagabreyting var gerð vegna heilsugæslulækna sl. vor og heyra þeir ekki lengur undir kjaranefnd. Þá var gildistími kjarasamninga við nokkur stéttarfélög opinberra starfsmanna skemmri en annarra. Hér á eftir verður greint frá stöðu samningamála:
Flugmenn og flugvirkjar.
Samningar voru undirritaðir við báða þessa aðila í kjölfar samningsgerðar þeirra við Samtök atvinnulífsins. Nýju samningarnir gilda til 15. mars 2004 (flugmenn) og 15. október 2004 (flugvirkjar).
Starfsgreinasamband Íslands.
Samningaviðræður hófust 20. nóvember sl. og var lögð fram sameiginleg kröfugerð og heildstæður samningstexti af hálfu allra verkalýðsfélaganna sem áttu gildandi kjarasamning við ríkið, hvort heldur sem um var að ræða samninga vegna almennrar verkamannavinnu, ræstingar eða starfa ófaglærðra á heilbrigðisstofnunum og á sambýlum. Hafa samninganefndirnar síðan unnið við að yfirfara textann. 11. des. sl. frestaði Starfsgreinasambandið öllum samningaviðræðum við samninganefnd ríkisins ótímabundið og á fundi nokkrum dögum síðar vísaði sambandið málinu til meðferðar hjá ríkissáttasemjara og lagði fram nýja forgangsröð krafna sinna.
Læknafélag Íslands v/heilsugæslulækna.
17. desember var undirritað samkomulag með Læknafélagi Íslands vegna heilsugæslulækna sem gildir frá 1. janúar 2004. Skv. l. nr. 71/2003 fá heilsugæslulæknar samningsrétt á ný frá og með næsta samningstímabili, þ.e. heyra ekki lengur undir kjaranefnd. Laun þeirra verða óbreytt frá því sem nú er að undanteknum 3% hækkun um tvenn næstu áramót. Með samkomulaginu var gengið frá lítils háttar breytingum fyrir þá lækna sem kjósa að vinna hluta af vinnuvikunni skv. gjaldskrá í afkastahvetjandi launakerfi. Að öðru leyti gildir úrskurður kjaranefndar um laun og önnur starfskjör heilsugæslulækna frá 15. október 2002 út yfirstandandi samningstímabil sem er til ársloka 2005.
Stéttarfélög opinberra starfsmanna.
Þau stéttarfélög sem fyrst sömdu í síðustu samningalotu, þ.e. á tímabilinu desember 2000 – febrúar 2001, gerðu samninga til aprílloka 2004 og með lægri launahækkun frá 1. janúar 2004 en þau félög sem síðar sömdu. Sum þeirra hafa nú óskað eftir að framlengja samning sinn til jafns við önnur félög og hafa þegar verið undirritaðir framlengingarsamningar við tæknifræðinga, leikara Þjóðleikhúss og FHSS. Aðrir með slíka samninga eru framhaldsskólakennarar.
Auglýsing á lausum störfum flugumferðarstjóra.
Félag íslenskra flugumferðarstjóra lagði fram kvörtun til umboðsmanns Alþingis sem snýr að framkvæmd auglýsinga hjá Flugmálastjórn Keflavíkurflugvelli á lausum störfum flugumferðarstjóra hjá flugumferðarþjónustunni. Umboðsmaður lauk umfjöllun sinni um málið með bréfi, dags. 12. desember s.l. (Mál nr. 3878/2003). Fram kom að um langt árabil hafði framkvæmdin verið sú að auglýsa umrædd störf laus til umsóknar í flugturni. Jafnframt var öðrum þeim sem höfðu heimild til að gegna störfunum, gefinn kostur á að sækja um. Umboðsmaður tók fram að þó svo að um væri að ræða afmarkaðan hóp aðila sem gæti sinnt starfinu, veitti það út af fyrir sig ekki heimild til að víkja frá ákvæðum 7. gr. starfsmannalaga (stml.) um auglýsingaskyldu. Í skýringum flugmálastjórnar kom fram að þar sem gerð hefði verið athugasemd við framkvæmdina, hafi verið ákveðið að endurskoða hana. Í þeirri endurskoðun yrði tekin afstaða til þess hvort auglýsa ætti allar lausar stöður á vefsíðunni starfatorg.is eða hvort stofnunin setti sérreglur um auglýsingar skv. 2. málsl. 2. mgr. 7. gr. stml. eða þá að starfsmenn yrðu færðir til innan stofnunarinnar með heimild í 19. gr. laganna. Í tilefni af þessu svari flugmálastjórnar ákvað umboðsmaður að benda á afstöðu sína til fáeinna atriða sem vörðuðu túlkun á 2. mgr. 7. gr. stml. um auglýsingar á lausum störfum. Í því sambandi benti hann á að ákvæðið, og þ. á m. hvort settar yrðu sérstakar reglur, yrði þó að skýra í ljósi annarra ákvæða stml. og þá einkum 19. gr. laganna. Þyrfti þá að hafa í huga að skylda til að auglýsa starf ætti aðeins við ef umrætt starf væri laust í merkingu 7. gr. stml. Hvort starf teldist laust væri að ýmsu leyti komið undir aðstæðum og afstöðu forstöðumanns. Vísaði umboðsmaður þar til álits síns í málum nr. 3684/2003 og 3714/2003 en um þau var fjallað í síðasta fréttabréfi (breyting á störfum innkaupafulltrúa). Taldi umboðsmaður að forstöðumaður eigi á grundvelli stjórnunarheimilda sinna að nokkru leyti mat um það hvort tiltekin viðfangsefni skuli skilgreind sem laust starf eða hvort þau verði felld undir starfssvið þeirra starfsmanna sem þegar starfa hjá stofnuninni. Þá væri ekki sjálfgefið að þegar nýtt starf yrði til vegna nýrra verkefna að skylt væri að auglýsa það enda kynni að vera heimilt að haga breytingum með þeim hætti að starfsmaður sem þegar starfaði hjá viðkomandi stofnun tæki yfir þau verkefni og þar með yrði annað starf en stofnaðist auglýst. Tók umboðsmaður fram að afstaða þessi byggðist á 19. gr. stml. Þannig væri ekki loku fyrir það skotið að forstöðumaður hækkaði starfsmann "í tign" innan stjórnskipulags stofnunar þannig að hann tæki í raun við störfum sem gerðu ráð fyrir aukinni hlutdeild í stjórnun og meiri ábyrgð. Kynni slíkt síðan að leiða til þess að hann raðaðist í annan launaramma í kjarasamningi en áður. Í lokin tók umboðsmaður fram að ábendingar sínar væru settar fram með það í huga að þær gætu nýst við endurskoðun Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvelli á framkvæmd stofnunarinnar við auglýsingar á lausum störfum.
Starfatorg.is er sérstakur vefur fyrir störf sem auglýst eru laus til umsóknar hjá ríkisstofnunum. Á torginu er að finna, auk ítarlegra upplýsinga um ákveðin störf, ýmsan fróðleik um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna, tilvísanir á vefi ríkisstofnana og fleira sem talist getur hvetjandi fyrir þá sem íhuga að sækja um störf hjá ríkinu.
Meðal þeirra markmiða sem skilgreind voru í byrjun með starfrækslu Starfatorgsins, var að lækka kostnað ráðuneyta vegna birtinga sérauglýsinga um laus störf í dagblöðum og að efla ríkið sem vinnuveitanda í samkeppni um hæft og gott starfsfólk.
Viðbrögð stofnana og einstaklinga í leit að atvinnu hafa verið afar jákvæð og sterk. Hefur starfræksla Starfatorgsins staðist allar væntingar sem gerðar voru í upphafi. Heimsóknartíðni á starfatorg.is er ein sú hæsta á öllum vef stjórnarráðsins. Í októbermánuði var fjöldi heimsókna 18.025 sem eru u.þ.b. 580 heimsóknir á dag. Á fyrstu tíu mánuðum þessa árs var fjöldi heimsókna komin í 153.932 sem eru að meðaltali 506 heimsóknir á dag.
Vikulega er birt í Morgunblaðinu yfirlit yfir laus störf sem auglýst eru á Starfatorginu. Það sem af er þessu ári hafa 890 ný störf verið auglýst á Starfatorginu og þá jafnframt í yfirlitinu í Morgunblaðinu. Við það eitt að birta auglýsingarnar með þessum hætti en ekki í sérauglýsingu í dagblaði má áætla að sparnaðar á þessu ári hafi numið á bilinu 55-65 m.kr. ef miðað er við verð á algengum sérauglýsingum.
Þegar litið er til fjölda þeirra auglýsinga sem birtar hafa verið á Starfatorginu og í yfirliti um laus störf á vegum ríkisins í Morgunblaðinu, kemur í ljós fjöldi og margbreytileiki þeirra verkefna og starfa sem ríkið býður upp á. Af viðtölum við ráðningarskrifstofur að dæma hefur aðsókn og áhugi á störfum hjá ríkinu aukist gífurlega meðal umsækjenda á síðustu 1-2 árum. Sérstaklega á þetta við um háskólamenntaða sérfræðinga. Stafar þessi aukni áhugi meðal annars af starfsumhverfi og áhugaverðum verkefnum á vegum ríkisins, tækifærum til starfs- og endurmenntunar, breytingum á launakerfi ríkisstarfsmanna sem gerir það að verkum að auðveldara er að greiða sambærileg laun fyrir ríkisstarfsmenn og starfsmenn í sams konar störfum á hinum almenna markaði.
Forstöðumenn eru eindregið hvattir til þess að nýta sér þetta birtingarform auglýsinga um laus störf og ná þannig til fleiri umsækjenda, sameinast um að ná því markmiði að auðvelda umækjendum að sjá á einum stað allar auglýsingar um laus störf á vegum ríkisins og lækka auglýsingakostnað stofnana vegna sérauglýsinga í dagblöðum.
Upp hafa komið dæmi um að starfsmenn mæti til vinnu þrátt fyrir að hafa ekki náð 11 klst. hvíld eftir útköll án þess að yfirmaður þeirra hafi sérstaklega óskað eftir því og telja þeir sig þar með hafa öðlast frítökurétt.
Því hefur jafnvel verið haldið fram að fyrir því sé hefð að starfsmenn mæti óbeðnir á reglubundna vakt sína þrátt fyrir að hafa ekki náð 11 klst. hvíld.
Þetta er ekki rétt. Meginreglan er sú að starfsmanni ber að fá 11 klst. samfellda hvíld að lokinnni vinnulotu og frítökuréttur skapast ekki í slíkum tilfellum nema starfsmaður sé sérstaklega beðinn um að mæta aftur til vinnu áður en 11 klst. lágmarkshvíld er náð, sbr. gr. 2.4.5 í allflestum kjarasamningum. Slík fyrirmæli verða að koma til sérstaklega í hverju tilfelli fyrir sig eða að fyrirfram séu þau tilvik skilgreind af yfirmanni sem leiða til þess að starfsmanni sé skylt að mæta til vinnu þrátt fyrir að lágmarkshvíld sé ekki náð. Athugið þó að undantekning frá þessari meginreglu er að heimilt er að hafa 8 klst. hvíld á skipulögðum vaktaskiptum.
Mæti starfsmaður til vinnu áður en 11 klst. hvíld er náð án þess að vera sérstaklega beðinn um það eða að fyrirfram séu skilgreind af yfirmanni tilvik sem leiða til þess að starfsmanni sé skylt að mæta til vinnu án þess að lágmarkshvíld sé náð, þá mætir hann á eigin forsendum og öðlast ekki frítökurétt.
Það er almennt hlutverk yfirmanns að gera athugasemdir við það ef starfsmaður mætir ítrekað til vinnu án þess að vera búinn að fá 11 klst. samfellda hvíld, vitandi það að starfsmaðurinn átti ekki að mæta til vinnu á ný fyrr en lágmarkshvíld væri náð. Annars nær tilgangur hvíldatímareglnanna ekki fram að ganga.
Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um uppfinningar starfsmanna. Lagafrumvarpið er um uppfinningar starfsmanna almennt og þá m.a. uppfinningar starfsmanna er sinna vísindastörfum við háskóla og aðra skóla á háskólastigi, svo og við opinberar rannsóknastofnanir. Með frumvarpinu er stefnt að því að taka tillit til hagsmuna atvinnurekanda og starfsmanns þannig að þeir þurfi ekki að semja sín á milli um öll atriði, t.d. rétt starfsmanns til uppfinningar sem hann kemur fram með og framsalsrétt atvinnurekanda til uppfinningarinnar. Í frumvarpinu kemur fram að starfsmaður eigi rétt til uppfinningar sem hann kemur fram með að svo miklu leyti sem annað leiði eigi af lögum þessum eða öðrum lögum.
Með orðinu "uppfinning" er í frumvarpinu einungis átt við uppfinningar sem unnt er að fá einkaleyfi fyrir hér á landi. Ef starfsmaður hefur komið fram með uppfinningu sem er þáttur í starfi hans, getur atvinnurekandi krafist framsals réttarins yfir uppfinningunni til sín enda sé hagnýting hennar á starfssviði atvinnurekandans eða að hún tengist tilteknu verkefni sem hann hefur falið starfsmanninum.
Hafi starfsmaður komið fram með uppfinningu, skal hann án ástæðulauss dráttar tilkynna atvinnurekanda um uppfinninguna og gefa honum upplýsingar um hana til að atvinnurekandinn geti metið mikilvægi hennar. Óski atvinnurekandi eftir því að öðlast rétt til uppfinningar, skal hann skýra starfsmanninum frá því innan þriggja mánaða frá móttöku tilkynningar starfsmannsins. Á þessum biðtíma getur starfsmaðurinn ekki upplýst aðra um uppfinninguna án skriflegs samþykkis atvinnurekandans. Starfsmaðurinn getur hins vegar á þessum biðtíma sótt um einkaleyfi fyrir uppfinningunni en hann skal þó áður tilkynna atvinnurekandum það.
Ákvæði frumvarpsins eru frávíkjanleg nema ótvírætt sé kveðið á um annað. Atvinnurekandi og starfsmaður geta því samið um önnur kjör en í ákvæðum frumvarpsins felast almennt, verði það að lögum. Má t.d. nefna að Iðntæknistofnun hefur útbúið samning til að gera við starfsmenn sína um uppfinningar þeirra og er eintak af samningnum birtur sem fylgiskjal með frumvarpinu. Slíkir samningar mega þó ekki vera í andstöðu við ófrávíkjanleg ákvæði frumvarpsins. Þannig myndu dómstólar eiga endanlegt úrskurðarvald um hvað sé sanngjarnt endurgjald vegna uppfinningar.
Samkvæmt frumvarpinu telst uppfinning hafa orðið til á starfstímanum ef sótt er um einkaleyfi á uppfinningu starfsmanns innan sex mánaða frá starfslokum nema líkur megi leiða að því að uppfinningin hafi orðið til eftir raunveruleg starfslok.
Val á ríkisstofnun til fyrirmyndar 2004.
Á næstu dögum hefst undirbúningur fyrir val á fyrirmyndarstofnun 2004 sem fer fram næsta vor. Fljótlega verður kallað eftir upplýsingum um stofnanir sem vilja vera með og tilhögun útskýrð. Eins og í fyrri skipti mun sérstök nefnd gera tillögu til fjármálaráðherra um hvaða stofnanir fái viðurkenningu. Í nefndinni er að þessu sinni Ásta Bjarnadóttir, lektor hjá Háskólanum í Reykjavík, Ragnheiður Halldórsdóttir, formaður Stjórnvísi og Hörður Sigurgestsson, fyrrverandi forstjóri Eimskipfélagsins, sem er formaður nefndarinnar. Með nefndinni starfa Arnar Þór Másson og Leifur Eysteinsson, starfsmenn fjármálaráðuneytisins. Miðað er við að stuðst verði í öllum aðalatriðum við sömu viðmið og síðast þegar val á ríkisstofnun til fyrirmyndar fór fram. Greint er frá meginforsendum sem lagðar voru til grundvallar við valið árið 2002 á vefsíðunni.
stjornendavefur.is/fyrirmyndarstofnun.
20 nýir forstöðumenn hafa hafið störf frá því í júní 2002 en nokkrir þeirra hafa áður verið forstöðumenn. Á fundinn mættu 11 forstöðumenn að þessu sinni, 6 konur og 5 karlar.
Á fundinum fjallaði fulltrúi fjárlagaskrifstofu um undirbúning og gerð fjárlaga, fulltrúar fjárreiðu- og eignaskrifstofu fjölluðu um framkvæmd fjárlaga og árangursstjórnun í ríkisrekstri og fulltrúar starfsmannaskrifstofu fjölluðu um ríkið sem vinnuveitanda, hvað nýr forstöðumaður þarf að gera, þeim var kynnt vefsíðan og fjallað var um helstu verkefnin í starfsmannamálum o.fl. Þá var fjallað um stofnanaþátt kjarasamninga.
Mikil ánægja var með fundinn að hálfu forstöðumanna og telja þeir verulega þörf á enn frekari fræðslu.
Kynningarfundur á Oracle mannauðs- og fjárhagskerfum.
Fjársýsla ríkisins, Skýrr hf. og starfsmannaskrifstofa fjármálaráðuneytisins héldu kynningarfund fyrir stjórnendur sjúkrastofnana ríkisins utan Reykjavíkur á Grand hótel 23. október sl.
Tilgangur fundarins var að kynna Oracle mannauðs- og fjárhagskerfið en þessar stofnanir eiga allar að nota þetta kerfi og þar með hið miðlæga launa- og starfsmannakerfi en laun þessara stofnana eru nú unnin í svokölluðu H-launa kerfi, sjálfstætt í hverri stofnun fyrir sig. Áður en til kynningarfundarins kom, hafði verið rætt um að þessar stofnanir tækju hin nýju kerfi í notkun nú um áramótin.
Fundinn sóttu 45 aðilar frá allflestum sjúkrastofnunum ríkisins utan Reykjavíkur, bæði forstöðumenn, fjármálastjórar og aðrir sem koma að rekstri og starfsmannamálum þessara stofnana. Einnig sóttu fundinn fulltrúar nokkurra annarra stofnana sem komu til þess að fylgjast með en ljóst er að þeir hafa einnig áhuga á að taka þessi kerfi í notkun.
Á fundinum var farið yfir innleiðingarferlið og kynnt það helsta sem kerfið hefur upp á að bjóða, s.s. fjárhagskerfi, vörustýringu- og verkbókhald og mannauðskerfi. Þá var einnig farið yfir hvaða undirbúning þarf að viðhafa á stofnunum til að takast á við þetta verkefni. Í lok fundarins voru umræður og að þeim loknum gátu fundarmenn spjallað við ráðgjafa og kynnt sér kerfin í tölvum sem komið hafði verið fyrir í salnum.
Almenn ánægja var með fundinn og eftir þessa kynningu á kerfunum voru menn mun sáttari en áður við að taka nýju kerfin í notkun. Ekki síst vegna þess að á fundinum kom ítrekað fram að innleiðingarferlinu verður ekki lokið nú um áramótin en ljóst er að mun lengri tími mun líða áður en kerfin verða tilbúin til þess að taka við þessum stofnunum.
Að þessu sinni þykir rétt að vekja athygli á og reifa fjögur dómsmál. Í einu þeirra var deilt um frávikningu tollvarðar úr embætti vegna gruns um refsiverða háttsemi hans sem hefði í för með sér sviptingu réttinda skv. 68. gr. alm. hegningarlaga, þ.e. heimildasviptingu á rækslu starfs Í öðru máli var deilt um það hvort Hafrannsóknastofnunin ætti endurkröfu á hendur starfsmanni í samræmi við leiðrétt skil stofnunarinnar á iðgjaldi hans til lífeyrissjóðs. Þá var í tveimur málum deilt um hvort breytingar sem gerðar voru á störfum og verksviði tveggja starfsmanna, þ.e. hjá Landspítala - háskólasjúkrahúsi annars vegar og Skattstjóranum í Reykjavík hins vegar, væru innan þeirra heimilda sem kveðið er á um í 19. gr. starfsmannalaga nr. 70/1996 (stml).
Hlutverk nefndar. skv. 27. gr. stml. þegar máli embættismanns er vísað til opinberrar rannsóknar.
Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 338/2002 gerði H kröfu um bætur fyrir óréttmætan embættismissi og vegna ólögmæts gæsluvarðhalds. Ávirðingar þær sem H var grunaður um í starfi tollvarðar, voru taldar réttlæta frávikningu hans um stundarsakir án áminningar skv. 3. og 4. mgr. 26. gr. stml. Á sama tíma var mál H til rannsóknar að hætti opinberra mála. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að heimild stjórnvalds eða embættismanns til þess að vísa máli til rannsóknar að hætti opinberra mála fæli ekki í sér að mál væri þar með tekið undan lögsögu nefndarinnar. Kæmi slíkt ekki fram í 27. gr. Markmið rannsóknar nefndarinnar væri allt annað en markmið opinberrar rannsóknar þar sem nefndinni væri m.a. ætlað að fjalla um hvort lausn um stundarsakir hefði verið réttmæt. Nefndin hafði komist að þeirri niðurstöðu að lausn um stundarsakir vegna gruns um refsiverða háttsemi hafi verið réttmæt. Þær ávirðingar sem bornar voru á H sönnuðust á hinn bóginn ekki og gat íslenska ríkið þannig ekki sýnt fram á að lagaskilyrði hefðu verið til þess að víkja H að fullu úr embætti. Í dómi Hæstaréttar er tekið fram að mál H hafi verið til rannsóknar að hætti opinberra mála og því hafi ekki verið þörf á að vísa því til nefndar sérfróðra manna, skv. 1. mgr. 27. gr. stml. svo sem gert hafi verið. Hafi sú meðferð á máli H ekki getað leitt til sjálfstæðrar niðurstöðu nema lausn um stundarsakir væri jafnframt byggð á öðrum ástæðum en fram kæmu í niðurlagi 3. mgr. 26. gr. stml. H voru dæmdar fjárhags- og miskabætur vegna óhóflegs dráttar á meðferð málsins, ólögmætrar gæsluvarðhaldsvistar og vegna embættismissisins.
Launamaður endurkrafinn um iðgjaldshluta sinn í lífeyrissjóð.
Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 6. nóvember 2003 í máli nr. E-1310/2003 var fjallað um heimild Hafrannsóknastofnunarinnar (H) til að endurkrefja S vélstjóra um iðgjaldshluta hans í lífeyrissjóð sem ríkissjóði hafði verið gert að skila til sjóðsins vegna tímabilsins 1. júlí 1998 til 31. desember 1999. H hafði á þeim tíma greitt iðgjald fyrir S til lífeyrissjóðsins miðað við föst laun hans en ekki heildarlaun. Eftir að greiðsluskylda ríkisins lá fyrir, endurkrafði H S um iðgjaldshluta hans. S hélt því fram að endurkrafan hefði verið óheimil samkvæmt reglum um endurgreiðslu ofgreidds fjár en hann hefði m.a. tekið við launum sínum á umræddu tímabili í góðri trú. H hafnaði því að þessar reglur ættu við. Í niðurstöðu dómsins er vísað til laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sem feli í sér skyldu til aðildar að lífeyrissjóði og til greiðslu iðgjalds. Á grundvelli þeirra laga hefði íslenska ríkið verið dæmt til þess að standa lífeyrissjóðnum skil á vangoldnum iðgjöldum, þ. á m. á 4% hluta S. Greiðsluskylda ríkisins skv. nefndum lögum leysti S ekki undan skyldu sinni til að greiða lögbundin iðgjöld í lífeyrissjóð og með greiðslu iðgjaldsins hefði ríkið eignast endurkröfurétt á S. Ekki var fallist á að ríkið hefði sýnt af sér tómlæti við innheimtu kröfunnar.
Störfum og verksviði breytt skv. 19. gr. starfsmannalaga.
Enda þótt starfsmenn séu almennt ráðnir til óákveðins tíma hjá ríkinu, geta þeir ekki vænst þess að eðli og inntak þeirra verka sem fylgja störfum þeirra haldist óbreytt að öllu leyti starfsævina á enda. Þvert á móti er viðbúið að störf þróist og breytist í takt við nýjar þarfir/áherslur og tækni. Oft er um minniháttar breytingar að ræða sem gerast á lengri tíma án þess að þær séu endilega staðfestar með formlegum hætti. Í þeim tilvikum þegar fyrirhugað er að breyta starfi með afgerandi hætti er aftur á móti nauðsynlegt að gæta að 19. gr. stml. Þar segir að starfsmanni sé skylt að hlíta breytingum á störfum sínum og verksviði frá því er hann tók við starfi en að hann geti kosið að segja upp starfi sínu vegna slíkra breytinga. Breytingar samkvæmt 19. gr. stml. kunna að fela í sér stöðuhækkun eða stöðulækkun fyrir viðkomandi sem aftur kann að hafa áhrif á launakjör hans til hækkunar eða lækkunar/skerðingar.
Nýlega voru kveðnir upp tveir héraðsdómar í málum þar sem deilt var um breytingar sem gerðar voru á störfum og verksviði á grundvelli 19. gr. stml.
Í dómi Héraðsdóms Rvk 18. nóvember 2003 í máli nr. E-10230/2003 var fjallað um heimild Landspítala - háskólasjúkrahúss (LSH) til að breyta störfum og verksviði hjúkrunarfræðingsins J. Hún hafði verið í leyfi frá störfum sínum á geðdeild Landspítala í tvö ár en þar hafði hún hin síðari ár einkum sinnt rannsóknar- og þróunarstörfum. Þegar hún kom aftur til starfa, höfðu miklar breytingar átt sér stað í starfsumhverfi hennar. Starfsemi Landspítala og Sjúkrahúss Rvk. hafði verið sameinuð. Því fylgdu miklar skipulagsbreytingar. Yfirmannaskipti urðu á mörgum sviðum og sjúkrahúsinu var skipt upp í nýjar skipulagsheildir, þ.á m. geðsvið. Starfi J var breytt með vísan til 19. gr. stml. og henni falið að vinna á göngudeild áfengisdeildar geðsviðs sem hjúkrunarfræðingur. Meðal verkefna þar voru klínisk störf. J neitaði að hlíta breytingunni og eftir árangurslausar viðræður milli hennar og stjórnenda LSH þar sem henni var ítrekað boðið að taka við breyttu starfi, lét hún af störfum. J taldi að um stjórnvaldsákvörðun hefði verið að ræða, að breytingarnar væru ósamboðnar sér og að þær fælu í sér ólögmæta niðurlagningu á starfi hennar. Hún krafðist ógildingar á niðurlagningunni fyrir dómi auk greiðslu vangoldinna launa og gerði áskilnað um frekari launakröfur.
Niðurstaða dómsins var sú að J hefði ekki sýnt fram á að starf hennar hefði í raun verið lagt niður. Hann taldi jafnframt að J hefði ekki sýnt fram á að sú breyting sem gerð var á starfi hennar og fól ekki í sér launalækkun, hafi fallið utan starfssviðs hennar samkvæmt ráðningarsamningi eða kjarasamningi (utan heimilda skv. 19. gr. stml). Í því sambandi var m.a. litið til framburða vitna um störf og verksvið J fyrir breytinguna og eftir en enga útlistun (starfslýsingu) var að finna á starfsskyldum hennar og virtust starfsheiti hennar hafa fylgt kjarsamningum á hverjum tíma. Farið var yfir hvernig starfsheiti hennar höfðu breyst í gegnum árin og skilgreiningar þeirra skv. kjarasamningi. J þótti ekki hafa sýnt fram á að hún hefði verið ráðin til að annast sjálfstæðar rannsóknir en hún hafði unnið flest verkefni sín í samvinnu við þáverandi yfirmann sinn. Þá var vísað til þess að samkvæmt framburði sviðsstjóra hjúkrunar á geðsviði hafi J unnið að verkefnum sem ekki hafi nýst þar, þ.e. eftir skipulagsbreytingarnar. Því þótti sýnt fram á að nauðsyn hafi borið til að finna J vekerfni í samræmi við þá stefnumótun (þarfir) sem átti sér stað á sjúkrahúsinu á þessum tíma. Dómurinn sýknaði LSH af kröfum J.
Í dómi Héraðsdóms Rvk 10. júlí 2003 í máli nr. E-13983/2002 var deilt um heimild Skattstjórans í Reykjavík (SR) til að breyta störfum og verksviði fulltrúans H. Breytingarnar fólust í tilfærslu frá launaþegadeild til afgreiðslu embættisins. Þær voru liður í því að styrkja afgreiðsluna en á sama tíma var störfum og verksviði annarra starfsmanna einnig breytt. Eftir breytinguna hélt H óbreyttum launaflokki ásamt sjö föstum yfirvinnutímum. Hann taldi að SR hefði farið út fyrir heimildir 19. gr. stml. með breytingunni og að stofnuninni hafi borið að fara eftir ákvæðum stjórnsýslulaga, þ.á m. varðandi meðalhóf en hann taldi sig hafa fengið of skamman frest (5 dagar) til að rýma starfsstöð sína. Auk þess taldi hann að breytingar hefðu haft í för með skert launakjör fyrir hann þar sem möguleikar hans til yfirvinnu væru minni en áður. Hann krafðist þess að ákvörðunin um breytinguna yrði dæmd ógild. Þá krafðist hann skaðabóta sem námu mismun þeirra yfirvinnulauna sem hann fékk og þeirra sem hann hefði fengið, hefði starfi hans ekki verið breytt.
Dómurinn sagði breytingu á yfirvinnu, í kjölfar breytinga á störfum og verksviði, ekki geta talist til skerðingar á launakjörum eða réttindum í skilningi 19. gr. stml. H nyti sömu lög- og samningsbundinna réttinda og hann naut fyrir breytinguna á starfi sínu. Því hefði ekki verið um stjórnsýsluákvörðun að ræða í skilningi stjórnsýslulaga. Dómurinn taldi breytingarnar ekki vera ósamboðnar H. Í því sambandi var litið til verklýsingar stofnunarinnar á starfi í afgreiðslu þar sem m.a. kom fram mikilvægi þess að afgreiðslan væri mönnuð starfsfólki sem hefði víðtæka þekkingu á skattamálum og skattaframkvæmd. Þá var litið til starfslýsingar H en samkvæmt henni væri ljóst að í starfi hans fælust ábyrgðarmikil og vandasöm verkefni sem m.a. væru fólgin í því að veita almennar upplýsingar og leiðbeiningar um álagningu opinberra gjalda og framkvæmd skattalöggjafar sem og að leiðbeina um frágang og útfyllingu algengustu eyðublaða, gefin út af ríkisskattstjóra. Talið var að H hefði haft nægan tíma til að hlíta breytingunni með því að flytja gögn sín. Að lokum sagði dómurinn að telja yrði að breytingarnar hefðu byggt á málefnalegum sjónarmiðum og jafnframt að fylgt hafi verið vönduðum stjórnsýsluháttum við töku hennar. Dómurinn sýknaði SR af kröfum H.
Þó svo að ekki liggi fyrir dómar Hæstaréttar þar sem beinlínis hefur verið fjallað um beitingu 19. gr. stml. eða hversu víðtækar heimildir forstöðumanns séu, er ljóst af framangreindum héraðsdómum að heimildir forstöðumanns til að breyta störfum og verkefnum starfsmanna, þ.á m. að færa þá á milli starfa, eru all víðtækar svo lengi sem þær byggjast á málefnalegum sjónarmiðum og ganga ekki lengra en nauðsynlegt er. Vísast í þessu sambandi einnig til álits umboðsmanns Alþingis í málum nr. 3684/2003 og 3714/2003, sem reifað var í síðasta fréttabréfi sem og áliti umboðsmanns í máli nr. 3878/2003, sem reifað er á öðrum stað í þessu tölublaði
Frá félagi forstöðumanna
Það er áleitin spurning hjá öllum einstaklingum hvar og hvernig þeir velja sér starfsvettvang. Slík spurning vaknar fyrst þegar staðið er upp úr námi og vitaskuld einnig síðar þegar aðstæður breytast. Fjölmargir hafa oft og tíðum talið það vera síðri kost að vera í þjónustu ríkisins heldur en að starfa hjá einkaaðilum. Er það án efa fjölmargt sem hefur þar áhrif á, en launakjör, starfsumhverfi og stjórnunarhættir er e.t.v. nærtækast við fyrstu sýn og út frá þeim forsendum væri ríkið óaðlaðandi vinnuveitandi.
Þvílíkur misskilningur!
Á síðustu 12 árum hafa nefnilega orðið meiri breytingar í starfsumhverfi ríkisstarfsmanna heldur en unnt er að nefna í fljótheitum. Þar ber vitaskuld hæst þá stefnu sem mörkuð var í upphafi tíunda áratugs síðustu aldar og nefnd hefur verið nýskipan í ríkisrekstri. Ný löggjöf um stjórnsýslu og upplýsingamál, rammafjárlög, nýtt launakerfi, breytt form á kjarasamningum og auknar kröfur um árangur og skilvirkni í ríkisrekstri hefur þar mikið að segja. Það sem áður var miðstýrt þunglamalegt kerfi, er orðið nýtískulegt og sveigjanlegt. Mestu skiptir þar e.t.v. aukið sjálfstæði stofnana og endurmat á starfsmannamálum og launaákvörðunum. Með því skapaðist tækifæri til að hagræða hjá stofnunum, fækka starfsfólki, endurmeta störf og umbuna starfsmönnum. Þannig hafa á síðustu 6 árum tímabilsins náðst fram miklar umbætur og ný hugsun í störfum ríkisstofnana. Þróun, endurmenntun og þroski starfsmanna hefur tekið miklum framförum. Þannig lítur starfsumhverfi ríkisstarfsmanna nú út.
Verkefni þau sem ríkisvaldið fer með, eru krefjandi og langflest vandasöm í eðli sínu. Opinberar stofnanir þurfa á hæfu starfsfólki að halda þar sem tvennt skiptir mestu - nákvæmni og hraði í vinnubrögðum. Það á að gera miklar kröfur til þeirra sem vinna störf í þágu hins opinbera. Samfélagið hefur einfaldlega ekki efni á því að til starfa hjá opinberum stofnunum komi aðrir einstaklingar en þeir sem valda verkefnum þeim sem ríkið þarf að leysa.
Hvernig lítur málið út frá sjónarhóli þess sem er að koma út á vinnumarkaðinn eða hefur áhuga á krefjandi starfi? Frá þeim sjónarhóli á ríkið að vera eftirsóknarverður kostur. Ekki endilega af því að launin, starfsaðstaðan og fríðindin séu eitthvað meiri eða betri en hjá einkaaðilum, heldur af því að það á að vera áhugavert að vinna við opinbera stjórnsýslu. Áður fyrr var það ekki eftirsóknarvert vegna þess að margir litu á ríkisstarfsmenn sem annars flokks starfsmenn sem hefðu valið starfsöryggi af því að þeir væru ekki eins hæfir og þeir sem voru á einkamarkaðnum. Þetta sjónarmið verður að hverfa og það er að breytast. Það er óneitanlega athyglisvert hve margir nýráðnir ríkisstarfsmenn hafa verið undrandi á því hve miklar kröfur eru gerðar til stofnana og hve mikil áhersla er lögð á vandaða og skilvirka stjórnsýslu. Nú er þetta ekki lengur eitthvað merkilegt fyrirbrigði heldur sjálfsagður hlutur.
Ríkið hefur mikið breyst sem vinnuveitandi og útlit er fyrir að það muni áfram batna. Áður en af er vitað gæti það orðið þannig að ríkið verði eftirsóknarverður starfsvettvangur vegna þess að það sé heiður að vinna í þjónustu hins opinbera og vera trúað fyrir þeim verkefnum sem löggjafarvaldið hefur falið ríkisstofnunum. Það á að vera eftirsóknarvert fyrir þann sem er að koma út á vinnumarkaðinn og raunar hvern sem er!
Skúli Eggert Þórðarson
formaður FFR.