Hoppa yfir valmynd
28. desember 2012 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Stjórnvöld setja í fyrsta sinn fram stefnu í neytendamálum

Starfshópur um skipulag neytendamála sem innanríkisráðherra skipaði hefur skilað tillögum sínum. Leggur hópurinn meðal annars til að að stjórnvöld móti stefnu í neytendamálum sem sett verði fram sem þingsályktunartillaga og að ráðherra flytji Alþingi árlega skýrslu um stöðu neytendamála. Hér er ekki um að ræða samþykktar tillögur ráðherra heldur er einungis verið að kalla eftir sjónarmiðum varðandi þau efnisatriði sem koma fram í skýrslunni. Gefinn er frestur til og með 18. janúar til að skila inn ábendingum á netfangið [email protected].

Einnig er lagt til að nokkrir lagabálkar sem liggja á sviði kaupalaga og samningalaga sem nú eru vistaðir hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti verði fluttir til inanríkisráðuneytis. Þannig verði ráðuneytið styrkt sem ráðuneyti neytendamála en hingað til hefur málaflokkurinn verið dreifður um stjórnsýsluna. Einnig er lagt til að embætti talsmanns neytenda verði lagt niður.

Starfshópinn skipuðu: Steinunn Valdís Óskarsdóttir, innanríkisráðuneyti sem var formaður hópsins, Björn Freyr Björnsson, lögfræðingur í innanríkisráðuneyti, Bergþóra H. Skúladóttir, sérfræðingur og fulltrúi umhverfis- og auðlindaráðuneytis, og Valgerður Rún Benediktsdóttir, skrifstofustjóri frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Davíð Örn Guðnason, laganemi í innanríkisráðuneyti, vann með hópnum á samanburði á fyrirkomulagi neytendamála á Norðurlöndum og á Íslandi.

Fyrsti fundur starfshópsins var haldinn í janúar en alls voru þeir 15 og fékk hópurinn á fund sinn ýmsa gesti sem tengjast neytendamálum, svo sem fulltrúa Neytendasamtakanna, Neytendastofu, talsmanns neytenda, Fjármálaeftirlitsins, Póst- og fjarskiptastofnunar, Lagastofnunar HÍ, Persónuverndar og fleiri.

Í skýrslu starfshópsins kemur fram að á fundum gesta með starfshópnum hafi komið fram það megin sjónarmið að þörf væri á að einfalda leiðakerfi neytenda og alla skipulagningu neytendamála á Íslandi. Fyrirkomulagið væri villandi fyrir neytendur. Lykilatriði væri að kerfið væri einfalt og skilvirkt og að neytendur viti hvert skuli leita til að afla upplýsinga eða til að fá úrskurð um réttindi sín.

Meðal efnisatriða sem hópurinn fjallaði um eru verkaskipting ráðuneyta, hlutverk Neytendastofu, Neytendasamtakanna, talsmanns neytenda, smámálameðferð og hópmálameðferð fyrir neytendur og hlutverk frjálsra úrskurðarnefnda svo nokkuð sé nefnt.

Í niðustöðum starfshópsins kemur fram það álit hans að tillögurnar séu nokkuð ódýrar og einfaldar í framkvæmd og séu þær settar fram með hagkvæmni og skilvirkni í huga. Höfð er til hliðsjónar takmörkuð geta ríkisins til að veita meiri fjármunum í neytendamál.

Tillögur starfshópsins eru eftirfarandi:

1)      Starfshópurinn gerir þá tillögu að embætti talsmanns neytenda verði lagt niður og málaflokkur neytendamála styrktur með öðrum hætti með því fjármagni sem varið er í embættið. Á árinu 2012 var alls 14,5 milljónum á fjárlögum varið til talsmanns neytenda. Starfshópurinn leggur til að fjármagninu verði skipt að jöfnu milli neytendaréttarsviðs Neytendastofu og Neytendasamtakanna, eyrnamerkt kvörtunar- og leiðbeiningarþjónustunni sem þar er rekin.

2)      Starfshópurinn gerir þá tillögu að Neytendastofa fái aukið fjármagn eyrnamerkt neytendaréttarsviði og rannsóknum á sviði neytendamála.

3)      Starfshópurinn gerir þá tillögu að vægi Neytendasamtakanna verði aukið og við þau gerður þjónustusamningur um auknar fjárveitingar til reksturs kvörtunar- og leiðbeiningarþjónustu samtakanna.

4)      Starfshópurinn gerir þá tillögu að nokkrir lagabálkar sem nú eru vistaðir hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti verði fluttir á ábyrgð innanríkisráðuneytis og því ráðuneyti gert kleift að sinna málaflokknum með viðeigandi hætti. Um er að ræða lög um þjónustukaup, nr. 42/2000, lög um lausafjárkaup, nr. 50/2000, lög um neytendakaup, nr. 48/2003, lög um neytendalán, nr. 121/1994, lög um fasteignakaup, nr. 40/2002, lög nr. 36/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

5)      Starfshópurinn gerir þá tillögu að kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa taki upp verklag líkt og tíðkast í Danmörku. Verklagið þar er með þeim hætti að falli úrskurður nefndarinnar söluaðila í óhag hefur söluaðilinn 30 daga, eftir að honum var sannanlega tilkynntur úrskurðurinn, til að tilkynna nefndinni að hann vilji ekki vera bundinn úrskurðinum. Sendi hann ekki þessa tilkynningu verður úrskurðurinn bindandi og aðfararhæfur líkt og um dóm væri að ræða eftir frestinn.  Kjósi söluaðili að senda inn tilkynningu um að hann vilji ekki vera bundinn verður úrskurðurinn ekki bindandi.  Til að koma í veg fyrir að söluaðilar misnoti sér ekki þetta úrræði fylgist nefndin með því hvort söluaðilar fylgi úrskurðum nefndarinnar. Ef þeir gera það ekki innan ákveðinna tímamarka verða nöfn þeirra birt á svörtum lista á opinni heimasíðu.  Á þetta bæði við um þegar söluaðilar nýta sér tilkynningarúrræðið og þegar þeir gera það ekki. Bæði neytendur og söluaðilar geta áfrýjað úrskurðum nefndarinnar til dómstóla og þá eru úrskurðirnir ekki bindandi né verða nöfn þeirra birt á listanum.  Í Danmörku er 90% fylgni við úrskurði nefndarinnar meðan fylgnin er minni en 50% á Íslandi. Telja verður að þessi leið myndi færa neytendum mun ríkari rétt en þeir hafa í dag.

6)      Starfshópurinn gerir tillögu um að stjórnvöld móti stefnu í neytendamálum, setji markmið og skilgreini verkefni sem ætlað er að stuðla að markmiðum um bættan hag neytenda. Stefnan verði sett fram í formi þingsályktunartillögu. Ráðherra neytendamála flytji Alþingi árlega skýrslu um stöðu markmiða í neytendamálum, þeirra verkefna sem unnið er að og þróun neytendamála almennt.   

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta