Frá fjarskiptasjóði um stefnu Vodafone vegna samnings um háhraðanettengingar
Vegna umfjöllunar um stefnu Vodafone á hendur fjarskiptasjóði vegna samnings um háhraðanettengingar í dreifbýli á Íslandi vill fjarskiptasjóður taka eftirfarandi fram:
Fjarskiptasjóður auglýsti útboð vegna háhraðanettengingar 27. febrúar 2008 og voru tilboð opnuð 4. september 2008. Verkefnið snerist um uppbyggingu á háhraðanetsþjónustu á svæðum þar sem háhraðanetþjónusta var ekki í boði og engin áform fjarskiptafyrirtækja að bjóða uppá slíkar tengingar á markaðslegum forsendum.
Til að taka af allan vafa um að slíkt útboð gæti hugsanlega stangast á við ríkisstyrkjareglur ESB óskaði fjarskiptasjóður eftir umsögn fjármálaráðuneytisins líkt og var gert áður en gengið var til samninga við Vodafone annarsvegar og Símann hinsvegar um GSM farsímaverkefni fjarskiptasjóðs. Var það álit sérfræðinga fjármálaráðuneytisins á sviði ríkisstyrkja að svo væri ekki.
Sjö tilboð bárust og voru bjóðendur og tilboðsfjárhæðir eftirfarandi:
- Nordisk Mobil Island ehf. Heildartilboðsfjárhæð 974.864.503.
- Síminn hf. Tilboð 2: Heildartilboðsfjárhæð 379.000.000.
- Síminn hf. Tilboð 1: Heildartilboðsfjárhæð 5.000.000.000.
- Hringiðan ehf. Tilboð 2: Heildartilboðsfjárhæð 1.297.257.098.
- Hringiðan ehf. Tilboð 1: Heildartilboðsfjárhæð 1.499.719.189.
- Og fjarskipti ehf. Tilboð 2: Heildartilboðsfjárhæð 1.858.339.001.
- Og fjarskipti ehf. Tilboð 1: Heildartilboðsfjárhæð 2.256.549.333.
Umfang verkefnisins í útboðsgögnum byggðist á upplýsingum frá fjarskiptafyrirtækjum um útbreiðslu háhraðaneta og áformum þeirra um uppbyggingu slíkra neta. Í ljós kom eftir að tilboðsfrestur var útrunninn að verulega skorti á að fjarskiptafyrirtækin myndu standa við áformaða uppbyggingu og því ljóst að mun fleiri svæði yrði að taka inn í verkefni fjarskiptasjóðs. Vegna hinna breyttu forsendna var sérstaklega auglýst eftir hvort markaðsaðilar hefðu áform um að byggja upp þjónustu á viðkomandi svæðum. Engin viðbrögð bárust vegna auglýsingarinnar. Í framhaldi af því var ljóst að stækkun þjónustusvæða var nauðsynleg þar sem ella hefðu um 600 heimili á landsbyggðinni verið án tenginga við háhraðanet og markmið verkefnisins um að öll heimili yrðu tengd háhraðaneti myndi því ekki ná fram að ganga.
Samningaviðræður fóru fram við lægstbjóðanda, Símann hf., og hófust skýringarviðræður í árslok árið 2008. Auk þess sem verkefnið hafði aukist að umfangi var ljóst að vegna efnahagshrunsins voru ýmsar forsendur breyttar og ljóst að gengisfall krónunnar hafði veruleg áhrif til hækkunar á kostnaði við verkefnið og endanlega samningsfjárhæð.
Skýringaviðræðum lauk með samningi sem skrifað var undir 25. febrúar 2009
Vodafone gerir einnig athugasemd við að hafa ekki náð samningum við Símann hf. um reiki né um heildsöluaðgengi vegna nettenginga. Fjarskiptasjóður var á sínum tíma upplýstur um að slíkar viðræður væru fyrirhugaðar og hafði því ekki önnur afskipti af því máli enda talið að þær viðræður stæðu enn yfir. Fjarskiptasjóður hefur lýst yfir þeirri skoðun sinni að mikilvægt sé að reiki sé boðið á þessum sendum líkt og öðrum.
Í lokin má taka fram að verkefni fjarskiptasjóðs sem snúast m.a. um að bjóða öllum landsmönnum sem þess óska háhraðanettengingar og aukna GSM farsímaþjónustu um landið, færir Ísland í flokk fremstu þjóða hvað varðar netaðgang og fjarskipti og skiptir sköpum varðandi jafnræði í búsetu um landið allt.