Leiðbeiningar fyrir erlenda ökumenn
Að frumkvæði lögreglunnar á Hvolsvelli hefur verið útbúið upplýsingablað á ensku fyrir erlenda ökumenn á Íslandi. Sjóvá styrkti hönnun upplýsingablaðsins og hún styrkti einnig Vegagerðina til að framleiða og setja upp skilti til leiðbeiningar erlendum ökumönnum á vegarköflum þar sem malarvegir taka við af malbiki.
Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Hvoldvelli, kynnti ný upplýsingablöð á ensku sem ætluð eru erlendum ökumönnum á blaðamannafundi með samgönguráðherra. Lögreglan á Hvolsvelli hefur haft frumkvæði að því að láta útbúa upplýsingablöðin og sagði Sveinn Rúnar það gert þar sem hlutfall erlendra ökumanna meðal þeirra sem teknir eru fyrir hraðakstur færi sífellt hækkandi. Með þessari orðsendingu frá lögreglunni er vakin athygli á að hámarkshraði á íslenskum þjóðvegum sé 90 km og bent á að hraðakstur sé varasamur ekki síst á malarvegum, þar sem einbreiðar brýr eru á þjóðvegunum og búfé geti verið við vegina. Sveinn og Einar Guðmundsson, forstöðumaður Forvarnahússins, afhentu síðan fulltrúum frá nokkrum bílaleigum vænan skammt af þessum upplýsingablöðum. Verður þeim dreift á bílaleigur og annars staðar þar sem má vænta þess að erlendir ökumenn séu á ferð.
Einnig afhjúpuðu Kristján L. Möller samgönguráðherra, Þór Sigfússon, forstjóri Sjóvár, og Jón Rögnvaldsson vegamálastjóri skilti þar sem vakin er athygli erlendra ökumanna á því þegar malarvegakaflar taka við af malbiksköflum. Verða þessi skilti sett niður á um 20 stöðum á þjóðvegakerfinu á næstu vikum.