Hoppa yfir valmynd
28. mars 2014 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Netöryggissveit flutt til almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun frumvarp Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra um að netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar verði flutt til almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Frumvarpinu er ætlað að tryggja aukið öryggi á þessu sviði og tryggja að forvarnir, viðbrögð og áherslur er varða netöryggi séu í samræmi við það sem best gerist í nágrannalöndum okkar.

Forsaga málsins er sú að innanríkisráðherra ákvað að gerð yrði sérstök úttekt á net- og upplýsingaöryggi fjarskipta í kjölfar þess alvarlega öryggisbrests sem varð vegna tölvuinnbrots hjá fjarskiptafyrirtækinu Vodafone aðfaranótt 30. nóvember 2013. Var Páli Ásgrímssyni hdl., sem hefur sérhæft sig í samkeppnis- og fjarskiptarétti, falið verkefnið. Tilgangur úttektarinnar var að greina heildstætt stöðu ofangreindra öryggismála, þar með talið ábyrgð fjarskiptafyrirtækja, ábyrgð og eftirlit opinberra stofnana, þá helst Póst- og fjarskiptastofnunar, Persónuverndar og ríkislögreglustjóra, réttarstöðu neytenda og lagarammann svo og koma með ábendingar um hvernig tryggja megi net- og upplýsingaöryggi sem best.

Niðurstaða úttektarinnar var sú að farsælast verði að færa netöryggissveitina, verkefni hennar og eftirlit til almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, líkt og algengast er í nágrannalöndum okkar.

Vistun netöryggissveitarinnar hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra gefur betri möguleika á að samhæfa skipulag viðbúnaðar og viðbragða vegna öryggisatvika sem kunna að hafa áhrif. Þetta er sérstaklega mikilvægt hvað snertir ómissandi innviði þjóðfélagsins. Efni frumvarpsins hefur verið kynnt Póst- og fjarskiptastofnun, embætti ríkislögreglustjóra, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og starfsmönnum netöryggissveitarinnar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta