Nýtt pósthús á Húsavík
Nýtt pósthús Íslandspósts á Húsavík hefur verið tekið í notkun og var það rétt tæplega ár í byggingu. Pósthúsið er það fyrsta í röð 10 nýrra húsa sem Íslandspóstur byggir og tekur í notkun næstu misserin.
Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, og Björn Jósef Arnviðarson, stjórnarformaður félagsins, fluttu ávörp við opnunina ásamt Kristjáni L. Möller samgönguráðherra. Stöðvarstjóri pósthússins, Jónasína Skarphéðinsdóttir, tók síðan við lyklunum hjá forstjóranum.
Í ávarpi sínu sagði samgönguráðherra að nýir tímar væru framundan hjá Íslandspósti, starfsmönnum væru sköpuð betri vinnuskilyrði og unnt væri að taka upp nýjungar og endurbætur í þjónustu. Þá sagði ráðherra meðal annars:
,,Skýr stefna hefur verið mörkuð. Hún hefur verið kynnt og allir starfsmenn eru með á nótunum. Nú eru verkin látin tala sem aldrei fyrr. Það er þegar mikil samkeppni á þeim vettvangi sem Íslandspóstur starfar ? samkeppni um dreifingu bréfa, blaða og pakka.
Það er samkeppni á öllum sviðum flutningalausna eins og viðskiptaheimurinn kallar það á fagmáli sínu. Og við getum verið viss um eitt: Samkeppnin á bara eftir að aukast.
Íslandspóstur stendur vel að vígi í þessari samkeppni, hefur góða markaðshlutdeild og traustan fjárhag. Félagið ætlar að halda hlut sínum og það ætlar líka að ná góðri markaðshlutdeild á nýjum sviðum. Það geta verið svið sem tengjast núverandi starfsemi og það verður einnig á sviði rafrænnar þjónustu. Með því að víkka út starfsemina verður starfsgrundvöllur félagsins treystur og á það við um sóknarfæri bæði innanlands og utan.
Íslandspóstur hefur áfram mikilvægu hlutverki að gegna í þjóðfélaginu. Hann færir okkur daglega margs konar sendingar ? jafnvel eitt og annað sem við höfum alls ekki beðið um ? en allt gengur það hratt og vel fyrir sig. Við skutlum bréfi í póst síðdegis í dag og í fyrramálið er það komið fram á hinum enda landsins.?
Um helgina var síðan opnunarhátíð fyrir bæjarbúa og litu um 500 manns við. Næsta nýja pósthús Íslandspósts verður opnað á Reyðarfirði í lok mánaðarins.