Hljóðritun símtala
Samgönguráðuneytið óskaði nýlega eftir túlkun og áliti Persónuverndar á framkvæmd 48.gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003 er varðar hljóðritun símtala.
Tilefni álitsumleitunar ráðuneytisins er að óvissa virðist ríkja um hvernig túlka megi 2.mgr. fjarskiptalaga þar sem mælt er fyrir um undanþágu fyrir því að tilkynna viðmælanda að símtal verði hljóðritað.
Í 1.mgr. 48.gr. fjarskiptalaga er mælt fyrir um að sá aðili að símtali sem vill hljóðrita símtal skuli í upphafi þess tilkynna viðmælanda sínum um fyrirætlun sína. Í 2.mgr. er síðan mælt fyrir um undanþágu þess efnis að aðili þurfi ekki að tilkynna sérstaklega um upptöku símtals þegar ótvírætt megi ætla að viðmælandi sé kunnugt um hljóðritunina.
Ráðuneytið óskaði sérstaklega eftir afstöðu Persónuverndar til þess hvort túlka megi 2.mgr. 48.gr. fjarskiptalaga þannig að almenn og opinber tilkynning aðila um að hann muni hljóðrita öll símtöl, sem hann á við viðmælendur sína, geti gilt fyrir öll samtöl þaðan í frá. En forsaga málsins er sú að Blaðamannafélag Íslands gaf út, fyrir hönd félagsmanna sinna, slíka tilkynningu.
Niðurstaða Persónuverndar er "að slík túlkun á 2.mgr. 48.gr. sé ekki tæk enda myndi með slíkri túlkun í raun vera rutt brott meginreglu 1.mgr. Taldi stjórnin m.ö.o. að slík túlkun 2.mgr. ekki vera í samræmi við markmið 48.gr. laga nr. 81/2003. Er og rétt að minna á sönnunarbyrði um aðvörun hafi átt sér stað hvílir á þeim sem hljóðritar símtal."
Persónuvernd telur það ráða úrslitum um túlkun á ákvæði 2.mgr. 48.gr. fjarskiptalaga að hinn skráði hafi óvítrætt verið, eða mátt vera, kunnugt um hljóðritunina. Tekur Persónuvernd þannig undir ummæli í framsöguræðu samgönguráðherra þess efnis að öllu máli skipti að viðkomandi hafi fengið eða getað fengið vitneskju um upptökuna.
Telur Persónuvernd að markmið fræðslunnar gagnvart viðmælanda, samanber 1.mgr. 48.gr., verði aðeins náð með því að viðmælanda sé tilkynnt um það í upphafi símtals að ætlunin sé að hljóðrita það, nema að ótvírætt megi ætla að það sé óþarft, s.s. vegna stöðu og reynslu viðmælanda eða vegna þess að honum hefur verið tilkynnt um það áður í samskiptum sínum við fjölmiðil að samtöl hans séu hljóðrituð. Er þá um að ræða undanþágu sem ræðst af mati á atvikum og aðstæðum hverju sinni.
Telur Persónuvernd að almenn og opinber tilkynning fjölmiðils í eitt skipti fyrir öll um að símtöl aðila séu hljóðrituð fái ekki samrýmst þeim meginreglum sem almennt gilda um vinnslu persónuupplýsinga.
Bréf Persónuverndar til ráðuneytisins má nálgast hér (PDF-232KB)