Samið við Orkufjarskipti um hringtengingu ljósleiðara um Snæfellsnes
Í dag var undirritaður samningur milli fjarskiptasjóðs, f.h. innanríkisráðuneytisins, við Orkufjarskipti hf. um hringtengingu ljósleiðara um Snæfellsnes. Ekkert fjarskiptafélag bauð sig fram til verksins á markaðslegum forsendum og bauð sjóðurinn því út styrk í mars síðastliðnum. Þrjú tilboð bárust á bilinu 66 til 87 milljónir króna og áttu Orkufjarskipti hf. hagstæðasta tilboðið. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 86 milljónir króna.
Verkið felst í lagningu á ljósleiðarastofnstreng milli Hörðubóls og Álftafjarðar með möguleika á ljósleiðaraheimtaugum að byggingum á leið strengsins. Ljósleiðaraheimtaugar heimila og fyrirtækja eru þó ekki hluti þessa samnings. Stefnt er að því að ljúka framkvæmdinni á árinu.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra skrifaði undir samninginn ásamt Bjarna M. Jónssyni, forstjóra Orkufjarskipta hf., og Arnbjörgu Sveinsdóttur, formanni stjórnar fjarskiptasjóðs.