Ný lög um fjarskipti
Á morgun, föstudaginn 25. júlí 2003, ganga í gildi ný lög um fjarskipti sem samþykkt voru á Alþingi sl. vor. Lögin, sem eru nr. 81/2003, innleiða fjórar tilskipanir Evrópusambandsins um fjarskipti og eina tilskipun um persónuvernd í fjarskiptum.
Hinni nýju fjarskiptalöggjöf er ætlað að skapa einsleit starfsskilyrði og einsleitan markað fyrir fjarskiptafyrirtæki í Evrópu. Hún gengur í gildi í öllum aðildarríkjum Evrópusambandsins þennan dag, 25. júlí 2003. Unnið hefur verið að því að taka tilskipanirnar upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með venjubundnum hætti. Það hefur aftur á móti tafist vegna samningaumleitan Liechtenstein við framkvæmdastjórn Evrópu um tilslakanir. Því er staðan sú að Ísland er komið á undan EES með gildistöku nýju laganna en er samstíga Evrópusambandinu. Þetta hefur í för með sér að nýju lögin verða túlkuð með hliðsjón af eldri tilskipunum á sviði fjarskipta þar til þær nýju hafa tekið gildi á Evrópska efnahagssvæðinu. Þess er vænst að tilskipanirnar verði teknar inn í EES-samninginn á haustmánuðum.