Samgönguráðherra heimsækir Íslandssíma
Samgönguráðherra mun á næstunni heimsækja fyrirtæki á íslenska fjarskiptamarkaðinum. Samgönguráðherra ætlar með þessu að kynna sér nánar stöðu fjarskiptafyrirtækjanna.
Í þessum tilgangi mun ráðherra heimsækja helstu fyrirtæki sem starfa á fjarskiptamarkaði í landinu. Verður fyrsta heimsóknin til yngsta fyrirtækisins, Íslandssíma, kl. 11 fimmtudaginn 14. júní, í húsakynnum fyrirtækisins að Borgartúni 30 í Reykjavík. Á næstunni mun ráðherra síðan meðal annars heimsækja Landssímann, Tal og Línu.Net.
Íslenskur fjarskiptamarkaður hefur tekið örum breytingum síðustu misseri með tækniframförum og breyttu markaðsumhverfi. Samkeppni hefur aukist neytendum til hagsbóta og fjarskiptamarkaðurinn vaxið mikið. Veltan hér á landi á síðasta ári nam rúmum 20 milljörðum og gert er ráð fyrir að sú tala nær tvöfaldist á næstu fimm árum.
Frekari framþróun er fyrirséð á fjarskiptamarkaðnum. Ný tækni er að ryðja sér til rúms sem opnar ekki einungis nýja möguleika heldur nýja heima. Öll fyrirtækin sem ráðherra heimsækir hafa til dæmis verið að útvíkka starfsemi sína á erlendri grundu. Þá hafa stjórnvöld víða einkavætt og selt fjarskiptafyrirtæki sem áður tilheyrðu ríkinu.
Sama þróun á sér stað hér á landi. Fyrir skemmstu varð Íslandssími fyrsta íslenska fjarskiptafyrirtækið sem skráð er á markað. Viðskipti hófust með hlutabréf í fyrirtækinu kl. 10 í morgun á Verðbréfaþingi Íslands. Stefnt er að því að setja Landssímann á markað á haustdögum.
Á fundinum með Íslandssíma verður rætt um starfsemi félagsins, breytt markaðsumhverfi, samkeppni á fjarskiptamarkaði og þau lög og reglur sem fjarskiptafyrirtæki búa við.