Skýrsla utanríkisráðherra til Alþingis: Öflugasta tækið til að gæta hagsmuna lands og þjóðar
Guðlaugur Þór Þórðarson flutti í í dag skýrslu sína um utanríkis- og alþjóðamál á Alþingi. Auk þess að veita yfirlit yfir stöðu utanríkismála og helstu atburði síðustu 12 mánuði er hún miðuð við markmið og aðgerðir utanríkisþjónustunnar til að ná þeim.
„Utanríkisþjónustan er öflugasta tæki sem við höfum til að gæta hagsmuna lands og þjóðar í æ breytilegri heimi. Við þurfum að skerpa og brýna þetta tæki reglulega til að það þjóni tilgangi sínum,“ sagði ráðherra. Hann hefur sett af stað nýtt endurskoðunarferli með stýrihópi sem skoðar störf og hagsmunagæslu utanríkisþjónustunnar til framtíðar en slík endurskoðun var síðast gerð árið 1998.
Ráðherra fjallaði í framsögu sinni um fjögur áherslusvið; öryggi lands og þjóðar, nýjar áskoranir í utanríkisviðskiptum, mikilvægi auðlindanýtingar og umhverfismála og nýja sýn á þróunarsamvinnu.
Öryggi og varnir
Á vettvangi Atlantshafsbandalagsins hefur Ísland lagt áherslu á málefni Norður-Atlantshafsins og öryggismál á hafi, svo og varnaráætlanagerð. Alls níu aðildarríki hafa sinnt loftrýmisgæslu við Ísland 26 sinnum frá árinu 2007. Borgaralegum sérfræðingum hefur verið fjölgað í störfum innan bandalagsins og aukið við gistiríkisstuðning á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Þá stendur yfir undirbúningur að þátttaka í tveimur viðamiklum æfingum á vegum bandalagsins hér við land sumarið 2017 og haustið 2018.
Nýjar áskoranir í utanríkisviðskiptum
Eitt veigamesta verkefni íslenskra stjórnvalda framundan eru viðræður um framtíðarskipan viðskiptanna við Breta vegna útgöngu þeirra úr Evrópusambandinu. Auk framtíðarviðræðna um markaðsaðgang hyggjast ríkin útvíkka reglubundið samráð til að ræða frekar sameiginleg hagsmunamál, eins og sjávarútvegsmál og fiskveiðistjórnun, orku- og umhverfismál. Einnig hefur utanríkisráðuneytið átt víðtækt samráð við samstarfsríkin í Fríverslunarsamtökum Evrópu, EFTA, og ESB.
Guðlaugur Þór sagði samstarfið innan EFTA grundvallarþátt í viðskipta- og fríverslunarstefnu Íslands. Útflutningur EFTA-ríkjanna til samningsríkjanna hefur vaxið úr 6,5 milljörðum evra árið 2006 í 37 milljarða evra árið 2015. Á vettvangi EFTA standa yfir viðræður við mikilvæg ríki, eins og Indland, Víetnam, Indónesíu og Malasíu, og viðræður eru að hefjast við Mercosur-bandalagið í Suður-Ameríku. Þá hafa stöðugt vaxandi umsvif íslenskra flugrekenda kallað á gerð tvíhliða loftferðasamninga. Nýverið var gengið frá samningi við Ísrael og framundan eru viðræður milli Íslands og Rússlands um loftferðamál, m.a. um yfirflugsheimildir en þær gætu valdið straumhvörfum fyrir íslenska flugrekendur.
„Utanríkisviðskiptastefnan hlýtur að draga mið af breytilegum mörkuðum, einkanlega miklum vexti millistétta í heiminum, hvort sem er í Asíu, Suður-Ameríku og ekki síst Afríku. Millistéttin í Kína er orðin fjölmennari en allir íbúar Bandaríkjanna og því er spáð að kaupmáttur millistéttarinnar á Indlandi muni aukast fjórfalt á næstu þrjátíu árum. Utanríkisþjónustan þarf að hafa þessa þróun í huga og aðlaga starf sitt og starfsvettvang að nýjum veruleika,“ sagði ráðherra.
Auðlindir og umhverfi
Í hafinu eru lífshagsmunir þjóðarinnar og vegna þeirra hefur Ísland um árabil verið leiðandi í alþjóðlegu samstarfi um hafréttarmál og fiskveiðar. Góðar vonir eru bundnar við það að innan tíðar verði gerður samningur til að koma í veg fyrir stjórnlausar fiskveiðar í Norður-Íshafinu.
Guðlaugur Þór sagði málefni norðurslóða hafa orðið æ fyrirferðameiri á alþjóðavettvangi og tengdist það ekki síst loftslagsbreytingum, umræðum um sjálfbæra nýtingu og vernd náttúruauðlinda, landgrunns- og fullveldiskröfum, samfélagsbreytingum og opnun nýrra siglingaleiða. „Formennska Íslands í Norðurskautsráðinu á árunum 2019 – 2021 gefur gott tækifæri til að styrkja stöðu Íslands í þessum málum á alþjóðavettvangi, taka virkari þátt í alþjóðasamstarfi sem stuðlar að umhverfisvernd, sjálfbærni og stöðugleika og vinna þar með að varanlegum hagsmunum Íslands.“
Þróunarsamvinna
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru leiðarljós í þróunarsamvinnunni og þar sagðist ráðherra leggja áherslu á tvennt; að sérþekking Íslendinga nýtist sem best í aðstoð og samvinnu við þróunarríkin, t.d. í sjávarútvegi og nýtingu jarðvarma, og að skoða möguleika á samvinnu við einkafyrirtæki og atvinnulíf um þróunarverkefni, þar sem það er hægt. „Ljóst er að opinbert fjármagn nægir ekki til að ná heimsmarkmiðunum; einkafjármagn þarf til. Þróunarsamvinna er, þegar öllu er á botninn hvolft, fjárfesting til framtíðar. Flest helstu framlagaríki og fjölþjóðastofnanir í þróunarsamvinnu hafa nú innan sinna vébanda virkar starfseiningar sem sinna samvinnu við atvinnulífið og einkafyrirtæki. Huga þarf að myndun slíkrar einingar í þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins.“