Fræðsla, umferðareftirlit og framkvæmdir til að fækka banaslysum
Stjórnvöld vörðu um 366 milljónum á síðasta ári í þágu aukins umferðaröryggis samkvæmt umferðaröryggisáætlun samgönguáætlunar. Lögð var áhersla á sérstakar aðgerðir sem eiga að leiða til fækkunar slysa og lækkunar kostnaðar samfélagsins af umferðarslysum. Markmið stjórnvalda um aukið umferðaröryggi til ársins 2022 er tvíþætt; annars vegar að fjöldi látinna í umferð á hverja 100.000 íbúa verði ekki meiri en það sem lægst gerist hjá öðrum þjóðum það ár. Hins vegar að fjöldi látinna og alvarlega slasaðra í umferðinni lækki að jafnaði um ekki minna en 5% á ári til ársins 2022. Þetta kemur fram í ársskýrslu um framkvæmd umferðaröryggisáætlunar árið 2013 sem var að koma út.
Aðgerðum í framkvæmdaáætlun umferðaröryggisáætlunarinnar er skipt í fjóra flokka: vegfarendur, vegakerfi, ökutæki og stefnumótun, rannsóknir og löggjöf. Í skýrslunni er gerð grein fyrir helstu verkefnum á síðasta ári en meðal þeirra var eftirlit með hraðakstri og sjálfvirkt hraðaeftirlit, ýmis fræðslu- og áróðursverkefni, eyðing svartbletta, framkvæmdir við umhverfi vega og vegrið, og gerð undirganga fyrir búfé og hvíldarsvæði við þjóðvegi. Þá var gerð könnun á aksturshegðun almennings. Birtar eru í skýrslunni fjölmargar töflur og margs konar tölfræði um umfang eftirlits og framkvæmda.
Fram kemur meðal annars að í hraðaeftirliti lögreglu voru hlutfallslega flest hraðakstursbrot á árinu 2013 skráð hjá lögreglunni á Hvolsvelli (17,4%) en næstflest hjá lögreglunni á Blönduósi (16,3%). Flest tilvik um ölvunarakstur voru skráð hjá embætti Selfoss (42,1%) og notkun bílbelta var helst ábótavant í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum (40,6%). Þá voru skráð 13.028 hraðakstursbrot í 15 stafrænum hraðamyndavélum víðs vegar um land á síðasta ári, eða 36 að meðaltali á dag sem er fækkun frá árinu á undan.
Skýrslan er unnin af samráðshópi um framkvæmd umferðaröryggisáætlunar sem hefur það hlutverk að gera samstarfs- og framkvæmdaáætlun á grundvelli umferðaröryggisáætlunar, skv. ályktun Alþingis. Árið 2013 störfuðu Katrín Þórðardóttir og Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir, lögfræðingar í innanríkisráðuneytinu, sem formenn samráðshópsins. Aðrir fulltrúar hópsins voru Gunnar Geir Gunnarsson, framkvæmdastjóri umferðaröryggissviðs Umferðarstofu og seinna umferðarsviðs Samgöngustofu, Auður Þóra Árnadóttir, forstöðumaður umferðardeildar hjá Vegagerðinni og Jónína Sigurðardóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra.