Hoppa yfir valmynd
21. febrúar 2001 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Rekstrarleyfi þriðju kynslóðar farsímakerfa

Samgönguráðherra hefur ákveðið að beita sér fyrir veitingu rekstrarleyfa til notkunar tíðna fyrir þriðju kynslóð farsíma með samanburðarútboði gegn umtalsverðu gjaldi. Öll fréttin fylgir hér á eftir.

Í samanburðarútboði verða settar fyrirfram ákveðnar lágmarkskröfur sem lúta einkum að útbreiðslu, bæði meðal þjóðarinnar og eftir landshlutum, og hraða uppbyggingar á kerfinu. Umsækjendur keppa síðan um útbreiðslu, útbreiðsluhraða, þjónustu o.fl. Mikil áhersla verður lögð á að úthlutunin verði eins hlutlæg og kostur er og að matsaðferð verði skýr og nákvæm.
Skilmálar leyfisveitingar vegna fyrstu og annarrar kynslóðar farsíma, þ.e. NMT (langdræga farsímakerfið), GSM og DCS 1800 koma fram í fjarskiptalögum og rekstrarleyfum. Skilmálar vegna þriðju kynslóðar farsíma munu koma fram í sérstakri löggjöf sem túlka ber með hliðsjón af almennum fjarskiptalögum. Þá munu sérstök leyfisbréf verða gefin út til væntanlegra rekstrarleyfishafa. Þessi álitsumleitan bendir á þau atriði sem helst eru talin koma til skoðunar hér að lútandi.

Í hjálagðri álitsumleitan óskar samgönguráðuneytið eftir afstöðu hagsmunaaðila til mismunandi skilmála sem hugsanlegt er að tengdir verði útgáfu leyfanna.


1. Tíðnimál?
Samgönguráðherra hefur ákveðið að úthlutað verði 4 leyfum. Mismunandi aðferðafræði hefur verið beitt við ákvörðun á tíðnisviði sem leyfishafar fá til ráðstöfunar. Dæmi eru um að tíðnisvið UMTS hafi verið brotið upp í 10MHZ og 5MHz hluta sem úthlutað hafi verið. Hver leyfishafi hefur þá fengið tíðnisviði úthlutað í samræmi við áætlaða þörf þar til tíðninni er að fullu úthlutað. Með hliðsjón af þessu er spurt hvort rétt sé að úthluta öllum leyfishöfum sama tíðnisviði eða að úthluta mismunandi tíðnisviði eftir þörfum leyfishafa.

2. Hver á gildistími leyfanna að vera?
Rekstarleyfi vegna þriðju kynslóðar farsíma hafa þegar verið veitt í fjölmörgum ríkjum og hefur gildistími þeirra verið ákveðinn 10-20 ár. Tíðnir hér á landi eru almennt veittar til 10 ára frá veitingu leyfisins en samgönguráðherra hefur gefið til kynna að rekstarleyfi fyrir UMTS síma hér á landi verði veitt til 12 ára. Veiting rekstrarleyfa er aðeins í einstökum tilfellum ótímabundinn.

Með hliðsjón af þýðingu gildistíma fyrir rekstrarforsendur leyfishafa er óskað eftir afstöðu til þess hver tímalengd leyfanna eigi að vera eða jafnvel hvort þau skuli vera ótímabundin.

3. Á að leyfa eftirmarkað með tíðnir?
Framsal tíðni er óheimilt samkvæmt gildandi fjarskiptalögum. Ekki er fyrirhuguð breyting á þessu. Hins vegar er óskað eftir sjónarmiðum með og á móti banni við framsali á tíðnum. Einkum mati á því hvort bann við framsali sé fallið til þess að hámarka hagkvæm not tíðnisviðsins.

4. Hvaða kröfur á að gera um útbreiðslu?
Hvarvetna þar sem UMTS-leyfum hefur verið úthlutað hafa verið gerðar kröfur um útbreiðslu þjónustunnar til íbúa. Samgönguráðherra hefur hug á að gerðar verði ítrustu kröfur um útbreiðslu UMTS-þjónustu að teknu tilliti til kostnaðar við uppbyggingu og rekstur þeirra fjarskiptaneta sem byggði yrðu. Með þetta í huga er mögulegt að leyfa samstarf mismunandi leyfishafa við uppbyggingu netanna, þar sem markaðsaðstæður réttlæta ekki samkeppni í innviðarnetum. Ráðuneytið óskar því eftir tillögum um hvaða kröfur skuli gera um útbreiðslu og hvernig útfæra megi þær á þann hátt að þær hamli ekki samkeppni.

5. Útbreiðsluhraði þjónustunnar.
Væntanlega verða gerðar kröfur um að uppbygging UMTS-fjarskiptaneta verði með tilteknum hraða. Hins vegar hafa borist fréttir af töfum á afhendingu búnaðar. Samgönguráðuneytið leitar því álits á því hvaða kröfur eðlilegt sé að gera til hraða uppbyggingar.

6. Á að gera kröfur um tæknilega eiginleika UMTS kerfisins á leyfistímanum?
Póst- og fjarskiptastofnun hefur það hlutverk að skipuleggja notkun tíðnisviðsins. Gera verður ráð fyrir því að tækniþróun muni hafa það í för með sér að tíðnisvið sem nú er ætlað UMTS-þjónustu verði ráðstafað til annarra nota í framtíðinni. Leitað er álits á því hvort heimila eigi Póst- og fjarskiptastofnun að afturkalla tíðnir eða hvort veita eigi væntanlegum rekstrarleyfishöfum svigrúm til að nota þær tíðnir sem þeir hafa fengið til ráðstöfunar til annarra nota.

7. Kröfur um þjónustuframboð.
Þar sem óljóst er hvaða þjónusta verður veitt með UMTS-símum er spurt hvort gera eigi lágmarkskröfur um inntak þjónustunnar.

8. Samanburður á þráðlausum staðarnetum, GSM og UMTS.
Nýjar aðferðir við að auka gagnaflutning í GSM-fjarskiptanetum munu hugsanlega draga úr þörfinni á UMTS-þjónustu næstu misserin. Þá eru þráðslaus staðarnet innan fyrirtækja til þess fallin að koma að einhverju leyti til móts við bandvíddarþörf þráðlauss notendabúnaðar, þar sem sellustærð hefur úrslitaáhrif á mögulega bandvídd þjónustunnar. Ráðuneytið óskar því álits á því hvenær uppfærslumöguleikar GSM-kerfisins geri aðlögun að UMTS nauðsynlega. Einnig er óskað eftir áliti á því hvort einhverjar aðrar flutningsleiðir séu líklegar til að koma í stað UMTS-farsímaneta. Óskað er álits á því hvort almenn notkun IPV6 internets geti haft áhrif á notkun UMTS-farsímaneta.

Þeir sem vilja gera athugasemdir vinsamlegast sendið þær til samgönguráðuneytisins, Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík eða í tölvupósti: [email protected]

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta