Hoppa yfir valmynd
3. september 2015 Dómsmálaráðuneytið

Starfshópur leggur til að stofnað verði mennta- og starfsþróunarsetur löggæslunnar

Starfshópur um endurskoðun á lögreglunámi hefur skilað innanríkisráðherra skýrslu sinni og er aðal tillaga hópsins að sett verði á stofn mennta- og starfsþróunarsetur löggæslunnar. Lagt er til að grunnnám lögreglu verði tvö ár sem ljúki með diplómaprófi á háskólastigi. Þeir sem ljúki ársnámi til viðbótar verði lögreglufræðingar. Tillögurnar eru nú til skoðunar í ráðuneytinu.

Innanríkisráðherra skipaði starfshóp í lok febrúar á þessu ári til að endurskoða innihald lögreglunáms hér á landi. Aðdragandann má rekja til þess að í breytingum á lögreglulögum vorið 2014 var ákvæði til bráðabirgða um að endurskoða skyldi skipulag og starfsemi Lögregluskóla ríkisins og gera tillögu að framtíðarskipan lögreglumenntunar. Starfshópur um verkefnið skilaði tillögum haustið 2014 og lagði meðal annars til að grunnnámi lögreglumanna yrði útvistað til menntastofnana á háskólastigi og að Lögregluskólanum yrði breytt í fræðslu- og rannsóknarsetur.

Með seinni starfshópnum var lögð áhersla á það samfélagslega markmið að menntun lögreglumanna skuli svara kröfum samtímans um öryggi fyrir almenning og að ákvarðanir um innihald lögreglunáms verði teknar með upplýstum og faglegum hætti svo að sérstaða námsins og hagsmunir lögreglu verði ekki fyrir borð bornir.

Starfshópinn skipuðu: Vilhjálmur Árnason, alþingismaður og formaður hópsins, Silja Dögg Gunnarsdóttir alþingismaður, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, Karl Gauti Hjaltason, skólastjóri Lögregluskóla Íslands, Ólafur Örn Bragason, fulltrúi ríkislögreglustjóra og Frímann Birgir Baldursson, fulltrúi Landssambands lögreglumanna. Með hópnum starfaði Margrét Kristín Pálsdóttir, lögfræðingur í innanríkisráðuneytinu.

Alls hélt starfshópurinn 14 fundi auk óformlegra vinnufunda og leitaði eftir umsögnum hagsmunaaðila um áherslur og tillögur að bættu námi. Þá ræddi hópurinn við ýmsa aðila, m.a. formenn landssambanda lögreglumanna á Norðurlöndum þegar þeir héldu fund hér á landi. Hvöttu þeir til þess að lögreglunám yrði samræmt eins og kostur væri við námið á Norðurlöndum sem er ýmist í háskólum eða sérstökum lögregluskólum á háskólastigi.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta