Skýrsla Framkvæmdanefndar um einkavæðingu
Með bréfi, dags. 23. febrúar 2000, fól samgönguráðherra Framkvæmdanefnd um einkavæðingu að gera tillögu um hvernig standa beri að sölu hlutafjár í Landssíma Íslands hf.
I.
Í bréfinu segir:
Hinn 22. febrúar 2000 kynnti samgönguráðherra fyrir ríkisstjórn minnisblað um undirbúning að sölu hlutafjár í Landssíma Íslands hf. Í minnisblaðinu er vitnað til ákvæðis stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að á kjörtímabilinu verði hafinn undirbúningur að sölu Landssíma Íslands hf.
Í samræmi við stefnuyfirlýsinguna er Framkvæmdanefnd um einkavæðingu hér með falið að gera tillögu um hvernig standa skuli að sölu hlutafjár í Landssíma Íslands hf. Ráðuneytisstjóri samgönguráðuneytisins, aðstoðarmaður samgönguráðherra og stjórnarformaður Landssíma Íslands hf. verða tengiliðir samgönguráðherra við nefndina.
Lögð er áhersla á að nefndin skoði eftirfarandi:
1. Að tryggja starfsfólki kauprétt á hlutafé í fyrirtækinu með hliðsjón af sambærilegum tilvikum við sölu annarra ríkisfyrirtækja.
2. Að ákveðinn hluti verði seldur í almennri dreifðri sölu og þá sérstaklega símnotendum.
3. Að kanna kosti og galla þess að selja umtalsverðan hlut í fyrirtækinu til eins aðila.
4. Að meta hagkvæmni þeirra hugmynda sem fram hafa komið um að skilja að einstaka þætti í starfsemi fyrirtækisins, svo sem hið almenna fjarskiptanet.
Þegar tillögur nefndarinnar liggja fyrir verður málið lagt fyrir ráðherranefnd um einkavæðingu.
Hinn 24. janúar sl. afhenti nefndin samgönguráðherra skýrslu með skilabréfi.
II.
Um þau atriði sem tiltekin voru sérstaklega í framangreindu bréfi samgönguráðherra til nefndarinnar segir nefndin meðal annars í skýrslunni:
Um 1.-3. tl.:
Nefndin leggur til að hefja beri sölu á hlut ríkisins í Landssíma Íslands hf. sem fyrst í eftirfarandi áföngum:
Áfangi 1. Sala til almennings og starfsmanna á 14% heildarhlutafjár í fyrirtækinu. Jafnframt verði smærri og meðalstórum fjárfestum gefinn möguleiki á að bjóða í stærri hluti, á bilinu 2-3% hverjum, allt að 10% heildarhlutafjár. Fyrsti áfangi fari fram vorið 2001 og skráning hlutabréfanna á Verðabréfaþingi Íslands samhliða því.
Áfangi 2. Leitað verði eftir kjölfestufjárfesta í 25% heildarhlutafjár og að salan fari fram á síðari hluta árs 2001. Að loknum öðrum áfanga einkavæðingar eigi ríkissjóður 51% hlutafjár og einkaaðilar 49%.
Áfangi 3. Áhersla verði lögð á dreifða sölu til almennings og fjárfesta á íslenskum og erlendum mörkuðum. Gæti sú sala hafist á árinu 2002.
Um 4. tl.:
Varðandi skiptingu fyrirtækisins er það niðurstaða nefndarinnar að ekki sé ástæða til að skipta rekstri fyrirtækisins út frá sjónarmiðum um þjónustu, samkeppni eða vegna fyrirhugaðrar sölu. Ástæðan er einkum sú að fjarskiptalög tryggja samkeppnisaðilum Landssímans greiðan aðgang að grunnkerfinu á sama verði og Landssíminn sjálfur og nýlegar breytingar á gjaldskrá fyrirtækisins jafna mjög aðstöðu manna án tillits til búsetu.
Til frekari skýringar um skiptingu fyrirtækisins vísast til 5. kafla skýrslunnar, sjónarmið varðandi skiptingu fyrirtækisins, bls. 71.
III.
Jafn aðgangur landsmanna að ákveðinni fjarskiptaþjónustu er eitt af grundvallaratriðum nýrra fjarskiptalaga. Lögð hefur verið áhersla á að gjaldskrá Landssíma Íslands taki mið af þessari stefnumótun.
Aðgangur allra landsmanna að fullnægjandi fjarskiptaþjónustu, þ.m.t. ISDN, ADSL og ATM, er mjög mikilvægur að mati nefndarinnar. Í væntanlegu frumvarpi til laga um sölu Landssíma Íslands hf. verður kveðið sérstaklega á um þá þjónustu sem fyrirtækinu ber að veita til að tryggja almenningi og atvinnulífinu jafnan aðgang að tiltekinni lágmarksþjónustu, bæði hvað varðar gæði þjónustunnar og hraða uppbyggingar.
IV.
Varðandi þriðju kynslóð farsíma er það mat nefndarinnar að samanburðarútboð (sk. fegurðarsamkeppni) sé líklegra til að ná fram markmiði um trausta samkeppni, mikla útbreiðslu, ódýra þjónustu og gæði. Af þessu tilefni er rétt að taka fram að í samgönguráðuneytinu er nú unnið að gerð frumvarps til laga um úthlutun á rekstrarleyfum fyrir þriðju kynslóð farsíma. Við ákvörðun aðferðar við úthlutun mun samgönguráðherra meðal annars líta til tillagna Framkvæmdanefndar um einkavæðingu.
Markmið samgönguráðherra í fjarskipta- og upplýsingamálum er að Íslands verði í fremstu röð tæknivæddra ríkja með ódýra, góða og aðgengilega fjarskiptaþjónustu. Til að tryggja að þessu markmiði verði náð er nauðsynlegt að sú aðferð sem verður valin veiti góða þjónustu og stuðli að sem víðtækastri útbreiðslu þessa nýja farsímakerfis.
V.
Samgönguráðherra hefur lagt til við ríkisstjórnina að farið verði að tillögum nefndarinnar um hvernig staðið skuli að sölu á hlutabréfum ríkisins í Landssíma Íslands hf. Ríkisstjórnin samþykkti tillögu samgönguráðherra á fundi sínum í dag.