Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2014 Dómsmálaráðuneytið

Óskað umsagna um framtíðarskipan lögreglumenntunar

Ráðuneytið óskar eftir umsögnum um tillögur starfshóps um framtíðarskipan lögreglumenntunar á Íslandi. Tillögurnar gera meðal annars ráð fyrir að námið verði þriggja ára nám á háskólastigi, að skólinn verði sjálfstæð eining en menntun útvistað til menntakerfis að stórum hluta og að Lögregluskólinn verði fræðslu- og rannsóknarsetur lögreglu.

Óskað er eftir umsögnum um tillögurnar fyrir 8. desember nk. Umsagnir sendist á [email protected] með efnislínunni: Umsögn um framtíðarskipan lögreglunáms

Með breytingum á lögreglulögum á liðnu vori var sett inn bráðabirgðaákvæði um að ráðherra skipi starfshóp til að endurskoða skipulag og starfsemi Lögregluskóla ríkisins og leggja fram tillögur um framtíðarskipan lögreglumenntunar.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri var fulltrúi innanríkisráðuneytisins og verkefnastjóri starfshópsins. Með henni sátu í hópnum þau Frímann Birgir Baldursson varðstjóri, fulltrúi Landssambands lögreglumanna, Ólafur K. Ólafsson lögreglustjóri, fulltrúi ríkislögreglustjóra, Karl Gauti Hjaltason, skólastjóri Lögregluskóla ríkisins, Eiríkur Hreinn Helgason yfirlögregluþjónn, fulltrúi Lögregluskóla ríkisins og Þórir Ólafsson, fulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Starfshópurinn beitti aðferðum straumlínustjórnunar í vinnu sinni. Stofnuð voru 22 verkefni í upphafi sem notuð voru sem grundvöllur fyrir stefnumótun hópsins. Starfshópurinn hélt alls 14 vinnufundi frá 20. júní til 12. september. Þá voru haldnir 10 fundir með hagsmunaaðilum auk fjölda óformlegra vinnufunda.

Megin tillögur starfshópsins eru þær að Lögregluskóli ríkisins verði framvegis sjálfstæð eining. Hlutverk skólans verði fræðslu- og rannsóknarsetur og að sjá um þróun og uppbyggingu grunnmenntunar lögreglu með þjónustusamningum svo og að sjá um framhaldsnám fyrir lögregluna. Hópurinn leggur til að samið verði við skólastofnun um kennslu grunnnáms og leggur til að það verði Háskólinn á Akureyri og Keilir. Lagt er til að grunnmenntun lögreglumanns, tveggja ára bóklegu námi og eins árs starfsnámi, ljúki með bakkalárgráðu og að hugað verði að frekari menntun í kjölfar bakkalárgráðu sem lyki með meistaragráðu.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta