Fimm kærur til úrskurðarnefndar fjarskipa- og póstmála 2009
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur skilað samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu skýrslu sinni fyrir árið 2009. Þrír úrskurðir voru kveðnir upp á árinu og tvö mál bíða úrskurðar. Skýrslan fer hér á eftir.
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála bárust fimm kærur á árinu, þar af biðu tvær kærur afgreiðslu 31. desember 2009.
Úrskurður 1/2009; Síminn hf. gegn PFS
Með ákvörðun nr. 29/2008 útnefndi PFS Símann sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á heildsölumarkaði fyrir flutning símtala í föstum almennum talsímanetum (mörkuðum 8-10) og lagði tilgreindar kvaðir á fyrirtækið. Markaðsskilgreining PFS var byggð á tilmælum settum á grundvelli tilskipunar 2002/21/EB. Þar sem ný tilmæli um sama efni höfðu tekið gildi þegar ákvörðun PFS var tekin, krafðist Síminn þess að útnefning fyrirtækisins og kvaðir á þeim markaði yrðu felldar úr gildi. Úrskurðarnefnd tók þá ákvörðun að PFS hafi borið að skilgreina markaði í samræmi við eldri tilmælin þar sem tilskipun 2002/21/EB mælti fyrir um að markaður 10 skyldi vera skilgreindur í eldri tilmælum. Þegar af þessari ástæðu taldi úrskurðarnefndin ljóst að PFS væri heimilt að ljúka fyrstu umferð markaðsgreininga með því að greina markað 10 með þeim hætti sem gert var með hinni kærðu ákvörðun. Ákvörðun PFS nr. 29/2008 var því staðfest.
Úrskurður 2/2009; Míla ehf. gegn PFS
Í máli þessu var deilt um hvort verð fyrir aðstöðuleigu skyldi breytast í samræmi við byggingarvísitölu eða ekki. Í hinni kærðu ákvörðun hafði PFS ekki fallist á slíkt. Míla taldi aftur á móti að verðhækkanir byggðar á byggingarvísitölu hefðu verið í samræmi við fyrri kostnaðargreiningu félagsins frá árinu 2002 sem samþykkt hafði verið af PFS. Úrskurðarnefnd taldi að þar sem sú kvöð hvíldi á Mílu að taka mið af sögulegum kostnaði við verðákvarðanir fyrir hýsingu og leigu á tengdri aðstöðu væri ekki heimilt að taka mið af sjálfvirkum vísitöluhækkunum eða verðtryggingum. Þess háttar hækkanir rúmuðust ekki innan þeirrar kostnaðargreiningaraðferðar. Ákvörðun PFS var því staðfest.
Úrskurður 3/2009; Snerpa ehf., Hringiðan ehf. og Tölvun efh. gegn PFS
Deilt var um gjaldstofn þess rekstrargjalds sem fjarskiptafyrirtæki skulu greiða samkvæmt 14. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. Ofangreind fyrirtæki kærðu ákvarðanir PFS um álagningu rekstrargjalds þar sem þau töldu túlkun PFS á hugtakinu ,,fjarskiptastarfsemi” ekki vera í samræmi við 4. mgr. 14. gr. laganna. Úrskurðarnefnd taldi skilgreiningu PFS falla innan 4. mgr. 14. gr. laganna og staðfesti ákvörðun stofnunarinnar um álagningu rekstrargjalds.
Á árinu 2009 sátu í nefndinni: Jóna Björk Helgadóttir hdl., formaður, Brynja I. Hafsteinsdóttir lögfræðingur, varaformaður og Kirstín Þ. Flygenring, hagfræðingur.