Hoppa yfir valmynd
26. september 2015 Innviðaráðuneytið

Um tveggja milljarða króna hækkun á veltu Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga

Tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á síðasta ári námu alls 37,5 milljörðum króna og framlög úr sjóðnum 37,0 milljörðum króna. Er það tæplega tveggja milljarða króna hækkun á tekjum og framlögum frá árinu 2013. Þetta kom fram á ársfundi sjóðsins sem fór fram í Reykjavík miðvikudaginn 23. september.

Frá ársfundi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem haldinn var í vikunni.
Frá ársfundi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem haldinn var í vikunni.

Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri ávarpaði fundinn í fjarveru Ólafar Nordal innanríkisráðherra. Ragnhildur fjallaði m.a. um aukið hlutverk sjóðsins frá því hann hóf starfsemi í núverandi mynd en við gildistöku breyttrar verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga 1. janúar 1990 hafi farið fram umtalsverð endurskoðun á starfsemi sjóðsins sem fólst einkum í því að jöfnunarhlutverk hans var aukið til muna. Ragnhildur benti sérstaklega á áhugavert erindi síðar á dagskránni um rekstrarfyrirkomulag Innheimtustofnunar sveitarfélaga en unnin hefur verið skýrsla fyrir innanríkisráðuneytið þar sem kannaður er faglegur og fjárhagslegur ávinningur af því að færa verkefni sem nú eru hjá Innheimtustofnun til stofnunnar eða stofnana á vegum ríkisins.

Frá ársfundi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem haldinn var í vikunni.

Þá flutti Elín Pálsdóttir, forstöðumaður Jöfnunarsjóðs, skýrslu sína og fór yfir reikninga sjóðsins. Bergur Sigurjónsson, sérfræðingur hjá Jöfnunarsjóði, ræddi um heildarendurskoðun á regluverki sjóðsins og Svanbjörn Thoroddsen frá KPMG greindi frá skýrslu KPMG um rekstrarfyrirkomulag Innheimtustofnunar sveitarfélaga. Loks fjallaði Tryggvi Sigurðsson, sérfræðingur hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð Íslands, um mat á þjónustuþörf við fatlað fólk og um innleiðingu og framkvæmd á svonefndu SIS mati fyrir börn sem snýst um hlutlægt mat á þörfum barna með fötlun og þjónustu við þau.

Bergur fjallaði um stöðu mála hvað varðar heildarendurskoðun á regluverki sjóðsins og hvað fælist í hugmyndum um endurskipulagningu á sjóðnum. Fram kom í máli Bergs að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hafi unnið skýrslu fyrir sjóðinn vegna vinnu við endurskoðun á regluverkinu. Í skýrslu stofunarinnar kemur m.a. fram að með hugmyndum að breyttu fyrirkomulagi myndi reikniverk sjóðsins endurspegla betur útgjaldaþarfir sveitarfélaganna og ekki skapa hvata til útgjaldaaukningar af hálfu sveitarfélaga.

Svanbjörn greindi frá vinnu KPMG varðandi úttekt á rekstrarfyrirkomulagi Innheimtustofnunnar og greindi frá helstu göllum og kostum þess að færa verkefni frá stofnuninni. Fjallaði Svanbjörn um valkosti í stöðunni og helstu tillögur.

Tryggvi fjallaði um tilgang og aðferðarfræði við endurmat á einstaklingum sem metnir voru SIS mati í upphafi yfirfærslu á málefnum fatlaðs fólks á árinu 2011. Gerði Tryggvi grein fyrir niðurstöðum endurmatsins í tengslum við aldur þjónustunotenda, kyni og tegund fötlunar svo eitthvað sé nefnt. Jafnframt gerði Tryggvi grein fyrir innleiðingu SIS mats fyrir börn.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta