Hoppa yfir valmynd
20. september 2002 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fréttabréf fyrir stjórnendur ríkisstofnana, 20. september 2002. 3. tbl. 4. árg.


3. tölublað 4. árg. 20. september 2002.

Efnisyfirlit

Endurskoðun laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna?
Samráðs- og umræðufundir
Nýtt fjárhags- og mannauðskerfi ríkissjóðs og stofnana
Tölvu- og netnotkun starfsmanna
Breytingar á reglum um auglýsingar á lausum störfum
Hvatningarráðstefna og námskeið
Skiptidvöl norrænna ríkisstarfsmanna
Athyglisverður dómur
Ýmislegt fréttnæmt
- Tilkynningar um ráðstefnur og fundi
- Áhugavert efni
Frá félagi forstöðumanna
- Vandi og vegsemd
3 tbl. 4. árg.
Útgefið 20. september 2002
Útgefandi: Fjármálaráðuneytið
Ábyrgðarmaður: Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri
Vefur: www.fjarmalaraduneyti.is
Tölvupóstfang: [email protected]



Fréttabréfið er einnig fáanlegt á PDF-formi (PDF 100K) sem unnt er að lesa með forritinu Adobe Acrobat Reader en það fæst ókeypis á vefslóðinni: "http://www.adobe.com/products/acrobat/readstep.html"





Endurskoðun laga
um kjarasamninga opinberra starfsmanna?

Samkvæmt lögum um kjarasamninga opinbera starfsmanna fer fjármálaráðherra með fyrirsvar ríkissjóðs við gerð og framkvæmd kjarasamninga. Er þannig gert ráð fyrir því að fjármálaráðherra fari með hlutverk ríkisins sem vinnuveitanda þegar kemur að samningum um kaup og kjör ríkisstarfsmanna. Ríkið semur við 136 stéttarfélög og gerir við þau um 80 kjarasamninga en stundum eiga fleiri en eitt stéttarfélag aðild að sama kjarasamningnum. Með tilkomu stofnanasamninga hafa forstöðumenn á hinn bóginn fengið ákveðið hlutverk við gerð og framkvæmd kjarasamninga en þeir stýra einnig vinnu starfsmanna og taka ákvarðanir um réttindi þeirra og skyldur. Endurskoðun og gerð kjarasamninga við stéttarfélög ríkisstarfsmanna hefur hin síðari ár verið krefjandi og tímafrek. Við þetta bætast ennfremur skiptar skoðanir um hvort kjarasamningar ríkisstarfsmanna hafi fylgt almennri launaþróun í landinu eða hvernig meta eigi áhrif þeirra við gerð fjárlaga og fyrir stjórn efnahagsmála.

Við búum við það, eins og nágrannaþjóðir okkar, að meginþorri ríkisstarfsmanna tekur laun sín á grundvelli kjarasamninga. Fróðlegt er að bera saman kjarasamningsumhverfi Norðurlandaþjóðanna að því er varðar starfsmenn ríkisins (meira). Fyrirsvar hins opinbera við kjarasamningsgerðina getur einnig verið mismunandi eins og rakið er í vefriti fjármálaráðuneytisins fjr.is 12. september s.l. Hér á landi eru ríkar formkröfur gerðar um það hvaða stéttarfélög hafa rétt til að gera kjarasamninga við ríkið og hvaða skilyrði ný stéttarfélög verða að uppfylla til þess að öðlast slíkan rétt. Hér á landi liggur samningsaðildin hjá hverju og einu stéttarfélagi en ekki hjá heildarsamtökum þeirra. Eitt af því sem einkennt hefur opinberan vinnumarkað hjá hinum norrænu þjóðunum eru almennir samningar (hovedavtaler) sem heildarsamtök stéttarfélaga hafa gert við viðsemjendur sína, þar á meðal um samskipti sín við gerð og endurskoðun kjarasamninga og um réttindi og skyldur starfsmanna. Er þá gjarnan litið svo á að slíkt sé verkefni aðila vinnumarkaðarins en ekki löggjafans. Innan heildarsamtakanna eru oft stéttarfélög sem taka jafnt til starfsmanna ríkisins og einkaaðila. Sérstök löggjöf er almennt um sáttastörf í vinnudeilum og um sérstakan dómstól í vinnuréttarmálum sem tekur til alls vinnumarkaðarins. Nokkuð mismunandi reglur gilda á hinn bóginn um úrræði aðila í vinnudeilum, þar á meðal um boðun verkfalla og verkbanns. Hér á landi hefur ríkið ekki haft verkbannsrétt en slíkt þekkist hjá opinberum vinnuveitendum hinna Norðurlandanna. Það er einnig athyglisvert að við endurskoðun kjarasamninga eru lagðar fram ákveðnar forsendur, m.a. um launaþróun, um starfsmannaþörf og aðrar efnahagslegar forsendur sem jafnframt hafa verið lagðar fyrir þjóðþingin eða eru fyrirfram ákveðnar á grundvelli tölfræðilegra upplýsinga sem aflað hefur verið með kjararannsóknum óháðra aðila. Það er einnig áberandi að gert er ráð fyrir því að fyrst semji heildarsamtökin um launaramma og eftir það er hluta hans ráðstafað staðbundið eða innan ákveðins geira. Í Noregi og Svíþjóð er beinlínis gert ráð fyrir því að þegar heildarlaunarammi kjarasamningsins hefur verið samþykktur, sé komin á friðarskylda gagnvart öðrum þáttum hans. Með slíku fyrirkomulagi er stefnt að því að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra og einangraðar vinnudeilur þegar samstaða ríkir almennt um helstu ágreiningsatriðin.

Ljóst er að þau mörk sem skipta vinnumarkaðaðnum eru ekki eins glögg og áður var talið. Má þar einkum nefna að lítill munur hefur í raun verið gerður á verkfallsrétti stéttarfélaga hjá hinu opinbera og á einkamarkaði. Ríkið gerir einnig kjarasamninga við stéttarfélög sem starfa á almennum vinnumarkaði eftir þeim leikreglum sem þar gilda en ýmis vandkvæði eru því fylgjandi. Sérstaklega eftir tilkomu laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins 1996. Réttindi sem áður voru ákveðin með lögum og stjórnvaldsreglum eru nú ákveðin með kjarasamningum. Réttarreglur á sviði Evrópuréttar taka til vinnumarkaðarins í heild sinni. Við innleiðingu þeirra hafa heildarsamtök stéttarfélaga ríkisstarfsmanna fengið aukið vægi og hlutverk. Þá hefur einkavæðing ríkisfyrirtækja sett mark sitt á kjarasamningsumhverfið. Nýlegar úrlausnir Félagsdóms, þar á meðal um samningsaðild stéttarfélaga, hafa einnig leitt í ljós ýmsa vankanta við framkvæmd kjarasamningalaga opinberra starfsmanna. Öll þessi atriði gera það að verkum að brýnt er að endurskoða þann lagaramma sem er um kjarasamningsgerð opinberra starfsmanna. Áður hafa fjármálaráðherra og heildarsamtök ríkisstarfsmanna einnig vakið athygli á slíkri nauðsyn. Ljóst er að slíkt verk getur reynst vandasamt og verður varla framkvæmt nema í samvinnu við hlutaðeigandi hagsmunaaðila en þar á meðal eru einnig sveitarfélögin og sjálfseignarstofnanir sem hafa ákveðin tengsl við ríkið. Jafnhliða slíkri endurskoðun væri rétt að huga að endurskoðun laga um kjarasamninga banka í eigu ríkisins. Við endurskoðun kjarasamningalaganna ætti að gefast tækifæri til þess að skjóta enn frekari stoðum undir jafnvægi og áreiðanleika á vinnumarkaði hér á landi.


_______________Aftur í efnisyfirlit

Samráðs- og umræðufundir

Ákveðið hefur verið að halda samráðs- og umræðufundi með forstöðumönnum ríkisstofnana nú í nóvember. Meginþema fundanna verður:


Ábyrgð og valdsvið forstöðumanna.

Fundirnir verða haldnir á einum degi utan höfuðborgarsvæðisins eða u.þ.b. 45 mín. akstur frá Reykjavík. Fundarstaður hefur ekki verið endanlega ákveðinn. Farið verður frá Reykjavík með rútu frá Arnarhvoli kl. 8:30 og fundað fram til kl. 19:00 - 19:30 og endað á kvöldverði. Heimferð kl. 21:00.

Dagskrá fundanna verður sem hér segir:
Eftir setningu fjalla fulltrúar starfsmannaskrifstofu um eftirfarandi efni:

  • Ábyrgð- og valdsvið forstöðumanna. (Stefna ríkisstjórnarinnar í þeim efnum).
  • Ráðning, starfslok. (Starfslokasamningar).
  • Stofnanasamningar, starfsþróun.
  • Endurskoðun laga 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Eftir hádegisverð fjalla fulltrúar fjárlagaskrifstofu um:

  • Rammafjárlög. (Hugmyndafræði þeirra m.a. með tilliti til ábyrgðar og valdsviðs forstöðumanna sem og árangursstjórnunarsamninga.).

Þá koma fulltrúar fjárreiðu- og eignaskrifstofu og fjalla um:

  • Árangursstjórnun. (Stefnumiðað árangursmat, framtíðarsýn).
  • Framkvæmd fjárlaga. (Áætlanagerð, eftirfylgni, kostnaðargreining).

Að lokum hafa ráðuneytin tvo tíma til þess að fjalla um það efni sem þau telja brýnast.

Fundirnir verða haldnir sem hér segir:
Fyrsti fundurinn verður haldinn þann 7. nóvember. Á þeim fundi verða forstöðumenn stofnana fjármálaráðuneytisins, forsætisráðuneytisins og Hagstofu Íslands svo og fulltrúar ráðuneytanna.

Annar fundurinn verður 12. nóvember með forstöðumönnum stofnana dóms- og kirkju-málaráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins svo og fulltrúum ráðuneytanna.

Þriðji fundurinn verður 15. nóvember með forstöðumönnum stofnana heilbrigðis- og trygginga-málaráðuneytisins svo og fulltrúum ráðuneytisins.

Fjórði fundurinn verður 19. nóvember með forstöðumönnum stofnana menntamála-ráðuneytisins svo og fulltrúum ráðuneytisins.

Fimmti fundurinn verður 22. nóvember með forstöðumönnum stofnana félagsmála-ráðuneytisins og svo og fulltrúum ráðuneytisins.

Sjötti fundurinn verður 26. nóvember með forstöðumönnum stofnana landbúnaðarráðuneytis samgönguráðuneytis, sjávarútvegsráðuneytis, umhverfis-ráðuneytis, iðnaðar-og viðskiptaráðuneytis svo og fulltrúum ráðuneytanna.

Þegar nær dregur verður send tilkynning með tölvupósti til allra forstöðumanna um nánari skipulagningu og dagskrá fundanna. Vonast er til að sem flestir forstöðumenn sjái sér fært að mæta en geti þeir ekki komið því við þá er þess vænst að þeir sendi fulltrúa sinn.


_______________

Aftur í efnisyfirlit

Nýtt fjárhags- og mannauðskerfi ríkissjóðs og stofnana

Um nokkurt skeið hafa starfsmenn Fjársýslu ríkisins og fleiri unnið kappsamlega að innleiðingu nýrra kerfa. Nú er verkefnið á tímamótum þar sem grunnvinnan í kerfinu er að mestu búin og tími útbreiðslu að hefjast. Fjársýsla ríkisins (FJS) hefur sent öllum stofnunum bréf og óskað eftir tengilið hjá hverri stofnun. FJS mun ásamt stofnunum undirbúa innleiðingu hjá þeim, huga að hvernig skipulaginu skuli háttað og hvernig best verði staðið að verki.

Grunnkerfið að mestu tilbúið
Eitt af markmiðum í innleiðingunni var að greina og setja upp staðlaða uppsetningu fyrir fjárhags- og mannauðskerfið. Frá byrjun var ljóst mikilvægi þess að uppsetningin væri það sveiganleg að hún hentaði vel stórum jafnt sem smáum stofnunum.

Uppsetningin var þróuð fyrir Landspítala - Háskólasjúkrahús. Við þá vinnu voru leyst margvísleg vandamál sem upp komu í tengslum við innleiðinguna. Í framhaldi af því hefur nú þegar verið gerð frávikagreining á uppsetningum hjá nokkrum öðrum stofnunum. Svo virðist sem vel hafi tekist til því að ekki hefur komið fram merkjanlegur mismunur milli stofnana og allar hafa þær getað nýtt sér hina stöðluðu uppsetningu.

Innleiðing nýrra stofnana
Eins og áður hefur komið fram stendur yfir innleiðing kerfanna hjá Landspítala – Háskólasjúkrahúsi og undirbúningsvinna hjá Háskóla Íslands sækist vel. Í næsta áfanga innleiðingarinnar eru 36 stofnanir, þar af eru 27 skólar og 5 skattstofur. Verið er að leggja lokahönd á skipulag næstu áfanga, en gert er ráð fyrir að þeir verði í allt 6 talsins og verði innleiðingu þeirra að mestu lokið í apríl 2003.

Kennsla
Þann 9. september sl. hófst námskeiðalota fyrir starfsmenn þeirra stofnana sem falla undir 1. áfanga sem taka upp hin nýju kerfi. Er áætlað að síðustu námskeið í lotunni verði í byrjun október. Fyrirkomulag námskeiða verður endurskoðað í ljósi þeirrar reynslu sem af lotu þessari hlýst. Flokkar námskeiða nú eru:

Gunnnámskeið, sameiginlegt fyrir alla kerfishluta
Fjárhagur
Kerfisstjórn í mannauðskerfi
Ráðningarferill
Viðskiptakröfur 1 og 2
Viðskiptaskuldir 1 og 2


Þjónustuborð
Til að auðvelda stofnunum innleiðinguna verður komið upp þjónustuborði hjá FJS sem unnt verður að hafa samband við vegna vandamála sem upp kunna að koma í tengslum við notkun hinna nýju kerfa. Allar fyrirspurnir og úrlausnir verða skráðar og geymdar í sérstöku gagnasafni sem hægt verður að nálgast á vefnum.

Ásamt því að komið verður á fót þjónustuborði hjá FJS geta ríkisstofnanir skráð sig á upplýsingavef hjá Skýrr h.f. (http://oebs.skyrr.is) og nálgast þar ýmsar upplýsingar um hin nýju kerfi. Tengiliðum stofnana verður á næstunni send nánari lýsing á þessum möguleika.

Stökkpallur inn í framtíðina
Það að taka upp nýtt kerfi er alltaf erfitt því starfsmenn þurfa að hætta notkun á kerfum sem þeir þekkja og hafa komið sér upp vinnureglum í samræmi við það. Fyrstu viðbrögðin eru því oft þau að dásama gamla tíma og telja að nýja kerfið sé ekki eins gott. Þá er nauðsynlegt að hafa í huga að með nýju kerfi erum við að byggja grunn fyrir framtíðina. Ætlunin er að hagnýta nýjustu tækni, rafræn viðskipti, samþykktarferla, sjálfsafgreiðslu o.s.frv.

Ef ekki hefði verið tekist á við breytingar í fortíðinni værum við enn að handreikna laun og færa bókhald í bækur með blekpennum. Þetta voru allt saman góðar og gildar aðferðir á sínum tíma, en hvar værum við stödd í dag ef við væru enn á því stigi?
Það er aðeins ein leið fær og hún er fram á við.

_______________

Aftur í efnisyfirlit

Tölvupósts- og netnotkun starfsmanna

Stór hluti starfsmanna ríkisins hefur starfs síns vegna aðgang að tölvu á vinnustað. Tölvurnar eru oft nettengdar og starfsmenn með tölvupóstfang á léni stofnunar.

Enda þótt tölvubúnaðurinn sé í eigu stofnunar og tölvupósts- og netaðgangur sé fyrst og fremst ætlaður starfsmönnum til nota í tengslum við vinnu þeirra, er stofnun ekki frjálst að fylgjast á hvaða hátt sem er með tölvupósts- og netnotkun starfsmanna.

Í nýlegum leiðbeiningarreglum Persónuverndar nr. 1001/2001, um eftirlit vinnuveitanda með tölvupósts- og netnotkun starfsmanna, kemur fram að vinnuveitanda er óheimilt að fylgjast með tölvupósts- og netnotkun starfsmanna hafi hann ekki upplýst þá um það hvernig vöktun netnotkunar sé háttað, bæði að því er varðar tölvupósts- og netnotkun, sbr. 20. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000. Með netvöktun er átt við óreglubundnar athuganir vegna tilfallandi atvika og viðvarandi eða reglubundið endurtekið eftirlit vinnuveitanda með netnotkun starfsmanna. Kerfi sem tryggir sjálfvirka vistun tölvupósts og veffanga á netþjóni vinnuveitanda telst ekki netvöktun.

Hægt er að uppfylla ofangreinda fræðsluskyldu með setningu vinnureglna á viðkomandi stofnun um hvernig staðið sé að netvöktun. Við setningu slíkra reglna þarf að gæta að því að ganga ekki lengra en brýna nauðsyn ber til í því skyni að tryggja eðlilega hagsmuni og lögmætan rekstur stofnunar. Þá ber að virða einkalífsrétt starfsmanna og forðast alla óþarfa íhlutun í einkalíf þeirra. Nánar er fjallað um efni vinnureglnanna í fyrrnefndum reglum Persónuverndar.
(http://www.personuvernd.is/tolvunefnd.nsf/pages/tolvupostsreglur).

Það kann vel að vera að stofnanir sjái ekki ástæðu til netvöktunar gagnvart starfsmönnum. Í slíkum tilvikum þarf ekki að setja vinnureglur um netvöktun en það kann eftir sem áður að vera ástæða fyrir stofnun að setja vinnureglur um meðferð og notkun tölvupósts og netsins. Í sameiginlegri handbók Stjórnarráðsins var þessi leið farin. Þar er að finna vinnureglur um tölvupóst og netnotkun. Í þeim er t.d. fjallað um einkanot á tölvupósti og netnotkun og þau takmörkuð við einföld einkaerindi. Þá segir að einkanot á netinu megi ekki hafa truflandi áhrif á starf og afköst kerfis og tekið er fram að mótttaka útvarps- og sjónvarpssendinga og vistun tónlistar- og margmiðlunarefnis sé óheimil sem og móttaka og miðlun efnis sem brýtur gegn almennu velsæmi, meiðir æru annars manns eða gæti með öðrum hætti varðað við lög.

Ekki verður séð að ákvæði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og leiðbeiningarreglur Persónuverndar girði fyrir að stofnun geti gripið til viðeigandi úrræða þegar starfsmaður verður með tölvupósts- eða netnotkun uppvís að háttsemi sem samrýmist ekki starfsskyldum hans. Þannig væri t.d. rétt að huga að áminningu gagnvart starfsmanni sem á opnunartíma stofnunar er staðinn að því að vera skoða klámfengnar síður á netinu á tölvu sem er staðsett í afgreiðslu stofnunar.

Þá verður ekki séð að formlegar reglur um netvöktun á vinnustað séu algert skilyrði fyrir því að stofnun megi opna tölvupóst starfsmanns. Þannig verður t.d. að ætla að í þeim tilvikum þegar ekki næst í starfsmann, svo sem vegna veikinda hans eða andláts, að stofnun sé heimilt, starfseminnar vegna, að opna tölvupóst sem er sendur starfsmanni nema því aðeins að pósturinn beri klárlega með sér að vera einkamál.

Að lokum er vakin athygli á öðrum greinum um sama efni, þ.e. annars vegar grein Ernu Guðmundsdóttur, lögfræðings BSRB: Upplýsa skal um netvöktun fyrirtækja, í BSRB - tíðindum, útgefnum í september 2002, og hins vegar grein Páls Þórhallssonar, lögfræðings á mannréttindaskrifstofu Evrópuráðsins: Heimildir fyrirtækja til að fylgjast með netnotkun starfsmanna, í Morgunblaðinu þann 3. febrúar 2002.


_______________
Aftur í efnisyfirlit

Breytingar á reglum um auglýsingar á lausum störfum Starfatorg.is

Fjármálaráðuneytið hefur sent ráðuneytisstjórum, forstöðumönnum og starfsmannastjórum stofnana bréf um breytingar á reglum um auglýsingar á lausum störfum sem taka gildi 1. október 2002. Í þeim felst að nægjanlegt verður að auglýsa starf á Starfatorg.is sem er sérstakur vefur í umsjá fjármálaráðuneytisins um laus störf hjá ríkisstofnunum. Sjá reglur nr. 464/1996 um auglýsingar á lausum störfum með síðari breytingum.

Með breytingunum telst laust starf nægjanlega auglýst ef auglýsing birtist á netinu á sérstöku vefsvæði um laus störf hjá ríkinu og til hennar er jafnframt vísað að minnsta kosti einu sinni í yfirliti um laus störf hjá ríkinu eins og því sem birst hefur vikulega í Morgunblaðinu síðustu mánuði. Ekki verður lengur nauðsynlegt að birta sérauglýsingu um einstök störf í dagblaði en slík auglýsing telst eftir sem áður gild sem fullnægjandi auglýsing. Í breytingunni felst jafnframt að ekki verður lengur nægjanlegt að auglýsa starf í ljósvakamiðli.

Eftir að breytingarnar koma til framkvæmda verður jafnframt byrjað að birta á Starfatorg.is auglýsingar um laus störf hjá þeim ríkisstofnunum sem til þessa hafa verið undanskildar, þ.e. menntastofnunum, heilbrigðisstofnunum og svæðis-skrifstofum málefna fatlaðra. Yfirlit í dagblaði um laus störf hjá ríkinu verður birt um helgar í stað þriðjudaga frá 1. október.

Forstöðumenn eru hvattir til að nýta sér þennan kost við að auglýsa laus störf og draga þannig úr kostnaði við sérauglýsingar á tilteknum lausum störfum í dagblaði. Ráðuneyti og stofnanir bera engan kostnað af rekstri Starfatorg.is né birtingu auglýsinga á vefnum eða yfirliti um laus störf hjá ríkinu í dagblaði.

Allar frekari upplýsingar um Starfatorgið veitir A. Katrín Arnórsdóttir, vefstjóri ráðuneytisins.

Verklagsreglur um framkvæmd auglýsinga um laus störf á Starfatorg.is. verður að finna á vef Starfatorgsins www.starfatorg.is 1. október nk.


_______________
Aftur í efnisyfirlit

Hvatningarráðstefna og námskeið

- fyrir stjórnendur og ábyrgðarmenn fræðslu og þjálfunar

Á haustmánuðum mun Fræðslusetrið Starfsmennt, í samvinnu við fjármálaráðuneytið og með stuðningi Starfsmenntaráðs, standa fyrir röð ráðstefna og námskeiða sem ætlað er að hvetja til og efla starfsþróun og sí- og endurmenntun innan stofnana. Verkefnið skiptist í tvo hluta; hvatningarráðstefnu og námskeið í framhaldi hennar.

"Brettum upp ermar"
Hvatningarráðstefnan ber heitið "Brettum upp ermar" og stendur yfir í einn dag. Þar munu einstaklingar og sérfræðingar, sem hafa yfirgripsmikla þekkingu í málaflokknum, flytja erindi. Einnig verður lögð áhersla á fyrirspurnir og umræður. Ráðstefnan verður haldin tvisvar í Reykjavík og er þar búist við þátttakendum frá Suðvesturlandi og Vesturlandi, einu sinni á Selfossi fyrir Sunnlendinga og einu sinni á Akureyri fyrir Norðlendinga.

"Treystum grunninn"
Námskeiðið, sem fylgir í kjölfar ráðstefnunar, ber heitið "Treystum grunninn" og er ætlað þeim starfsmönnum ríkisins sem hafa með höndum áðurnefnda ábyrgð á fræðslu og þjálfun starfsmanna. Samstarfsaðilar eru þeir sömu og við hvatningarráðstefnuna.

Um er að ræða tveggja daga námskeið, samtals um 20 stundir, þar sem aðaláherslan verður lögð á að auka þekkingu á ýmsum grunnþáttum í fullorðinsfræðslu með áherslu á hönnun fræðsluferlis frá þarfagreiningu til mats. Jafnframt verður lögð áhersla á að kynna nýjar kenningar um skapandi aðferðir í kennslu fyrir fullorðna og hvernig beita megi þeim aðferðum við þjálfun og fræðslu innan stofnana. Miðað er við að þjálfa aðferðirnar með verklegum æfingum eins og tími leyfir.

_______________

Aftur í efnisyfirlit

Skiptidvöl norrænna ríkisstarfsmannaNorræna ráðherranefndin hefur frá árinu 1979 veitt styrk til þess að gera ríkisstarfsmönnum kleift að stunda tímabundið starfsnám eða störf á starfsvettvangi sínum í ríkisstofnunum á hinum Norðurlöndunum. Tilgangurinn er að gefa ríkisstarfsmönnum tækifæri til að auka þekkingu sína á stjórnun, stjórnsýslu og löggjöf í þessum löndum. Þetta fyrirkomulag er ekki bundið við að skiptin séu gagnkvæm en útilokar það ekki heldur.

Styrkurinn er nú 7.000 danskar krónur á mánuði. Ráðherranefndin greiðir einnig ferðakostnað til og frá dvalarstað samkvæmt sérstökum reglum. Umsóknarfrestur vegna ársins 2003 er til 30. nóvember 2002.

Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu fjármálaráðuneytisins. Slóðin er: fjarmalaraduneyti.is/skiptidvol
eða hjá [email protected]


_______________
Aftur í efnisyfirlit

Athyglisverður dómur

Dómur Félagsdóms 23. júní 2002 í málinu nr. F-8/2002. Fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs gegn Læknafélagi Íslands og Félagi ungra lækna. Boðun verkfalls, samningsaðild.

Fjármálaráðherra og St. Franciskusspítali annars vegar og Læknafélag Íslands hins vegar gerðu með sér kjarasamning 2. maí 2002. Var samningurinn samþykktur af 61,1% þeirra félagsmanna Læknafélagsins sem tóku þátt í atkvæðagreiðslu um hann 16. maí 2002. Fulltrúi Félags ungra lækna ritaði ekki undir kjarasamninginn þar sem hann taldi að ekki hefðu verið virtar óskir félagsins um vinnuákvæði, kjör og fleira. Á aukaaðalfundi í félaginu 10. maí 2002 var samþykkt að gera félagið að stéttarfélagi skv. lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Félag ungra lækna taldi sig ekki aðila að kjarasamningi Læknafélagsins og hefðu engir félagsmenn þess tekið þátt í atkvæðagreiðslunni um hann. Boðaði félagið til verkfalls félagsmanna sinna dagana 5.-6. júní 2002. Félagsdómur sýknaði Læknafélag Íslands vegna aðildarskorts, þar sem hvorki hefði verið fyrir að fara aðild Félags ungra lækna né einstakra félagsmanna þess að Læknafélagi Íslands. Í niðurstöðu dómsins segir að óumdeilt hafi verið að eldri kjarasamningar hefðu tekið til allra félagsmanna Læknafélags Íslands, þ. m. t. félagsmanna í Félagi Ungra lækna. Hefði Læknafélagið staðið að þeirri samningsgerð í krafti 16. gr. félagslaga sinna. Hefði Félag ungra lækna átt aðild að þeim viðræðum með fulltrúa í samninganefnd Læknafélags Íslands, sbr. 8. gr. laga nr. 94/1986. Hefði Læknafélagið því farið með samningsaðild fyrir félagsmenn Félags ungra lækna við gerð kjarasamningsins 2. maí 2002. Félagsdómur vísaði til þeirra reglu laga nr. 80/1938, að meðlimur stéttarfélags væri bundinn af samþykktum félags síns og sambands þess þegar hann skv. reglum félagsins er farinn úr því en samningar þeir, sem hann hefur orðið bundinn af meðan hann var félagsmaður, væru skuldbindandi fyrir hann meðan hann ynni þau störf, sem samningurinn væri um þar til þeir fyrst gætu fallið úr gildi skv. uppsögn. Gætti sömu reglu einnig í lögum nr. 94/1986. Við undirritun kjarasamningsins 2. maí 2002 hefði Félag ungra lækna skv. 2. gr. þágildandi félagslaga sinna notið réttarstöðu svæðafélags skv. félagslögunum en félagið hefði hins vegar ekki verið stéttarfélag í skilningi vinnulöggjafarinnar. Var boðuð vinnustöðvun félagsins því dæmd ólögmæt.

Meðal þess sem ríkið byggði einnig á í málflutningi sínum, var að Félag ungra lækna uppfyllti ekki skilyrði laga nr. 94/1986 til þess að öðlast samningsrétt. Þessu svarar dómurinn ekki en undirstrikar að þegar kjarasamningsviðræður hefðu átt sér stað milli Læknafélags Íslands og fjármálaráðherra hefði Félag ungra lækna verið svæðafélag en ekki stéttarfélag eins og áður segir.


_______________
Aftur í efnisyfirlit
Ýmislegt fréttnæmt

Tilkynningar um ráðstefnur og fundi

Á vefsíðu fjármálaráðuneytisins er að finna ýmislegt fræðsluefni tengt ráðstefnum, námskeiðum og fyrirlestrum. Þar má nefna fréttabréf FOCUS og PUMA og oft eru þar upplýsingar um ýmsar ráðstefnur á vegum EIPA. Að þessu sinni viljum við sérstaklega vekja athygli á ráðstefnu í Maastricht um framkvæmd ríkisstyrkja innan Evrópubandalagsins dagana 24 – 25. október 2002. Skráning er fyrir 14. október.

Slóðin inn á vefsíðuna er: http://fjarmalaraduneyti.is/namskeid


_______________
Aftur í efnisyfirlit
Áhugavert efni

Hér að neðan eru nokkrar krækjur í nýlegt og áhugavert efni á vefsíðum Alþingis og Efnahags- og framfararstofnunarinnar í París.

_______________
Aftur í efnisyfirlit
Frá félagi forstöðumanna ríkisstofnana

Vandi og vegsemd

Spakmælið "vandi fylgir vegsemd hverri" er ágætlega fallið til að lýsa stöðu forstöðumanna ríkisstofnana. Þeir eiga að vera fjölhæfir, þjónustusinnaðir, skapandi, faglegir, með góða aðlögunarhæfni og samstarfshæfni og síðast en ekki síst eiga þeir að vera styrkir stjórnendur. Gæta ber þess að þjónusta, fagmennska og góð stjórnsýsla sé ávallt höfð í fyrirrúmi gagnvart hinum almenna borgara. Allt þetta á að gerast með lágmarkstilkostnaði og með eins lágu ríkisframlagi og unnt er og eru stjórnendur ábyrgir fyrir hallarekstri. Þetta er allt gott og blessað og þess má vænta að forstöðumenn standi undir þeim kröfum sem til þeirra eru gerðar.

Það sem út af stendur er hins vegar sú staðreynd að aðstæður eru mjög mismunandi eftir því hvort viðkomandi forstöðumaður stýrir lítilli eða stórri stofnun og hvort sú stofnun er í bæ eða borg. Sá sem stýrir lítilli stofnun getur haft fullt eins mikið eða meira á sinni könnu en kollegi hans í stórri stofnun. Þá má ekki gleyma því að mannleg nálægð á minni stöðum gerir það að verkum að forstöðumaðurinn er alltaf að umgangast með einhverjum hætti þá sem hann þarf að hafa afskipti af í starfinu. Það er ekki óalgengt að málefni embættis eða framganga forstöðumanns þess séu rædd á götum úti, í verslunum nú eða á sundbolnum. Samræmd framkvæmd er þannig lykilatriði fyrir forstöðumann í litlum samfélögum úti á landi.

Gjaldandi á Vestfjörðum gerir t.d. þær kröfur að hann sitji við sama borð og gjaldandi á höfuðborgarsvæðinu við framkvæmd skattlagningar og innheimtu. Sömu lög og reglur gilda hvar sem er á landinu en eftirlitshlutverk og samræming er í höndum stofnunar á höfuðborgarsvæðinu sem og fagráðuneytis. Það er hins vegar ekki sama hvernig samræmingu er komið á. Staðreyndin er sú, að forstöðumenn á lands-byggðinni eiga sjaldan sæti í nefndum eða ráðum sem fjalla um framkvæmdaratriði og geta því illa komið á framfæri sínum sjónarmiðum. Sú staðreynd að forstöðumenn fá að stærstum hluta ekki greitt fyrir slík störf gerir þau ekki léttvægari – þvert á móti. Nefna má sem dæmi að símenntun og fræðsla verður æ mikilvægari og geta haft bein áhrif á kaup og kjör ríkisstarfsmanna. Kostnaður er mun meiri hjá embættum á landsbyggðinni þar sem ferðakostnaður og dagpeningar höggva skörð í rekstrar-grundvöll embættanna. Skapa þarf meira svigrúm til að mæta breyttum aðstæðum og þörfum stofnunar og forstöðumenn á landsbyggðinni verða að eiga beina aðild að þeirri samræmingu sem á sér stað innan stjórnsýslunnar.

Loks má nefna að forstöðumenn verða að fá laun í samræmi við þá ábyrgð og þau störf sem þeir inna af hendi. Hlutlægt mat á aðstæðum byggt á þekkingu þeirra sem um þau mál fjalla er lykilatriði. Þá er lágmarkskrafa að þeir aðilar sem ákvarða laun forstöðumanna taki mið af og fylgist með þróun launamála í landinu. Á því hefur verið nokkur misbrestur á liðnum árum. Öll þau atriði sem hér hafa verið nefnd eru forsenda þess að forstöðumenn geti uppfyllt þær kröfur sem til þeirra eru gerðar og að þeir geti sinnt vandasömum verkefnum sínum á þann hátt að vegsemd sé að.


Sigríður Guðjónsdóttir
sýslumaður á Ísafirði

_______________
Aftur í efnisyfirlit

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta