Mannauðsstefna Stjórnarráðsins
Stjórnarráð Íslands gegnir lykilhlutverki í stefnumótun, nýsköpun og framþróun opinberrar þjónustu. Þar af leiðandi er mikilvægt að starfsfólk þess búi yfir hæfni og þekkingu til að hafa frumkvæði að breytingum ásamt getu og vilja til að laga sig að sífellt flóknara starfsumhverfi. Mikilvægt er að Stjórnarráðið sé eftirsóknarverður vinnustaður sem bjóði upp á tækifæri fyrir starfsfólk til að eflast og þróast. Mannauðsstefna Stjórnarráðsins er leiðarljós ráðuneyta í mannauðsmálum.
Ráðningar
Við höfum það að markmiði að ráða til starfa einstaklinga sem sýna frumkvæði, sjálfstæði og framúrskarandi samskiptahæfni í sínum störfum.
Unnið er eftir faglegu ráðningaferli þar sem hæfniskröfur eru skilgreindar út frá starfagreiningum. Ráðið er í öll störf samkvæmt lögum, reglum og leiðbeiningum þar um með samræmdum hætti.
Við tökum vel á móti nýju starfsfólki og leggjum áherslu á nýliðafræðslu.
Starfskjör
Áhersla er lögð á að starfsfólk Stjórnarráðsins búi við samkeppnishæft starfskjaraumhverfi. Öll ráðuneyti hafa hlotið jafnlaunavottun og mikil samvinna er á milli ráðuneyta þegar kemur að viðhaldi og þróun jafnlaunakerfa.
Heilsa og líðan
Við leitumst við að skapa öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi sem hefur jákvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu.
Unnið er að því að byggja upp Stjórnarráðið sem heilsueflandi vinnustað þar sem m.a. er hugað að aðbúnaði sem hefur áhrif á félagslega, líkamlega og andlega heilsu starfsfólks. Viðverustefna Stjórnarráðsins styður enn frekar við uppbyggingu á heilsueflandi vinnustað.
Jafnrétti og fjölbreytileiki
Við komum fram af virðingu við hvort annað og sýnum ekki óréttmæta eða móðgandi framkomu. Við vinnum í samræmi við stefnu og áætlun Stjórnarráðsins gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og annarri ótilhlýðilegri háttsemi.
Í anda Jafnréttisáætlunar Stjórnarráðsins á allt starfsfólk sömu möguleika á að geta nýtt hæfileika sína í starfi og á ekki að sæta mismun af nokkrum toga.
Samskipti og endurgjöf
Við veitum hvert öðru hvatningu og endurgjöf til að styðja við starfsánægju og árangur í starfi.
Við leggjum áherslu á jákvæð uppbyggileg samskipti og virðingu hvert fyrir öðru. Við getum leitað hvert til annars og fengið stuðning frá samstarfsfólki okkar og yfirmönnum. Markviss endurgjöf er mikilvægur þáttur í þeim samskiptum.
Reglulega fara fram samtöl milli stjórnenda og starfsfólks á samræmdu formi.
Starfsþróun
Við sköpum starfsumhverfi þar sem leitast er við að veita starfsfólki tækifæri til að þróast í starfi þannig að það sé ávallt í stakk búið til að takast á við viðfangsefni sem starfinu fylgja og geti mætt breytilegum kröfum og áskorunum.
Starfslok
Við veitum starfsfólki sem er að ljúka starfsferli sínum stuðning og leggjum áherslu á sveigjanleika við starfslok.
Öllu starfsfólki sem er 60 ára og eldra er boðið að sækja fræðslu vegna starfsloka.
Samþykkt á fundi ráðuneytisstjóra 5. des. 2019
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.