Úrskurðir og álit
-
13. desember 2019 /858/2019. Úrskurður frá 13. desember 2019
Kærð var afgreiðsla Náttúrufræðistofnunar Íslands á beiðni um gögn varðandi friðlýsingartillögu. Stofnunin kvaðst þegar hafa afhent kæranda öll gögn málsins að undanskildum vinnugögnum, sbr. 5. tölul. 6. gr. og 8. gr. upplýsingalaga. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál var vafalaust að um vinnugögn væri ræða og var ákvörðun Náttúrufræðistofnunar því staðfest.
-
13. desember 2019 /857/2019. Úrskurður frá 13. desember 2019
Kærð var synjun Isavia ohf. á beiðni blaðamanns um gögn varðandi bílastæði við Keflavíkurflugvöll. Beiðnin sneri m.a. að greiðslum fyrirtækja fyrir aðstöðu við flugvöllinn og rekstrarkostnaði Isavia af bílastæðum árið 2017. Beiðninni var synjað á grundvelli viðskipta- og samkeppnishagsmuna, sbr. 9. gr. og 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga, auk þess sem Isavia kvað hluta umbeðinna gagna ekki liggja fyrir hjá fyrirtækinu. Hins vegar lá fyrir hve mikið hópbifreiðafyrirtæki greiddu fyrir afnot af bílastæðum. Viðkomandi fyrirtæki lögðust ekki gegn afhendingu gagnanna og var Isavia gert að afhenda kæranda þau gögn. Úrskurðarnefndin vísaði hluta beiðninnar aftur til Isavia til nýrrar meðferðar og afgreiðslu, en hluta kærunnar var vísað frá.
-
12. desember 2019 /856/2019. Úrskurður frá 4. desember 2019
Kærð var synjun Ríkisútvarpsins ohf. á beiðni um aðgang að lista yfir umsækjendur um stöðu útvarpsstjóra. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál vísaði til þess að samkvæmt 1. mgr. 7. gr. . mgr. 7. gr. upplýsingalaga næði réttur almennings almennt ekki til gagna í málum sem varði umsóknir í starf hjá þeim aðilum sem heyri undir upplýsingalög. Undantekningar frá þessari reglu væru hins vegar að finna vegna umsókna um opinbera starfsmenn en þá væri skylt að veita upplýsingar um nöfn og starfsheiti umsækjenda um starf, þegar umsóknarfrestur væri liðinn. Úrskurðarnefndin taldi hugtakið opinbera starfsmenn aðeins taka til starfsmanna stjórnvalda. Því gæti ákvæði 2. mgr. 7. gr. ekki átt við um starfsmenn Ríkisútvarpsins. Var það því niðurstaða nefndarinnar að félaginu hafi verið heimilt að synja beiðni kæranda um nöfn umsækjenda.
-
12. desember 2019 /855/2019. Úrskurður frá 4. desember 2019
Kærð var synjun Vesturbyggðar á beiðni um gögn varðandi ráðningu í starf. Kærandi var meðal umsækjenda um starfið og átti því rétt til aðgangs að gögnum í málinu á grundvelli 15. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga gilda lögin ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum og var kæru af þeim sökum vísað frá nefndinni.
-
12. desember 2019 /854/2019. Úrskurður frá 4. desember 2019
Kærð var afgreiðsla umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á beiðni kæranda um gögn varðandi korta- og gagnagrunna sem stofnunin ÍSOR hefði í sínum vörslum. Ráðuneytið taldi fyrirspurn kæranda ekki fela í sér beiðni um tiltekin fyrirliggjandi gögn. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál áréttaði að ráðuneytinu hafi borið að taka til athugunar hvort fyrirliggjandi væru gögn í málaskrá þess sem felld yrðu undir gagnabeiðni kæranda. Þar sem það hafði ekki verið gert var það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi verið tekin rökstudd afstaða til gagnabeiðni kæranda líkt og upplýsingalög geri ráð fyrir. Var því lagt fyrir ráðuneytið að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.
-
12. desember 2019 /853/2019. Úrskurður frá 4. desember 2019
Kærð var synjun Fiskistofu á beiðni um aðgang að CITES-leyfum vegna útflutnings á hvalaafurðum árið 2018. Ákvörðunin byggðist á 9. gr. upplýsingalaga en útflutningsfyrirtækið sem átti í hlut lagðist gegn afhendingu leyfanna. Úrskurðarnefndin taldi fjárhags- og viðskiptahagsmuni fyrirtækisins ekki koma í veg fyrir að veittur yrði aðgangur að leyfunum að undanskildum upplýsingum um kaupanda vörunnar. Var því Fiskistofu gert að afhenda kæranda leyfin en afmá úr þeim upplýsingar um kaupanda.
-
12. desember 2019 /852/2019. Úrskurður frá 4. desember 2019
Kærð var synjun Flóahrepps á beiðni um aðgang að heildarupphæðum tilboða í efniskaup vegna Flóafjóss. Kæranda var synjað um hluta umbeðinna gagna á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga með vísan til mikilvægra fjárhags- og viðskiptahagsmuna tilboðsgjafanna en upplýsingarnar segðu til um einingarverð þeirra. Við meðferð málsins veitti einn tilboðsgjafi samþykki sitt fyrir því að veittur yrði aðgangur að upplýsingum hann og var Flóahreppi því gert að veita kæranda aðgang að þeim upplýsingum. Úrskurðarnefndin staðfesti hins vegar ákvörðun Flóahrepps varðandi upplýsingar um heildarupphæð tilboða annarra tilboðsgjafa með vísan til þess að ekki væri um að ræða ráðstöfun opinberra hagsmuna af hálfu stjórnvalda og að hagsmunir tilboðsgjafanna af því að upplýsingar um einingarverð í tilboðum þeirra færu leynt vægju þyngra en hagsmunir almennings af því að geta kynnt sér upplýsingarnar.
-
12. desember 2019 /851/2019. Úrskurður frá 4. desember 2019
Kærð var afgreiðsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands á beiðni Hvalaskoðunarsamtaka Íslands um upplýsingar varðandi skýrslu stofnunarinnar um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál skorti á að stofnunin hafi tekið rökstudda afstöðu til gagnabeiðni kæranda. Hin kærða ákvörðun var því haldin verulegum efnislegum annmörkum. Var því lagt fyrir Hagfræðistofnun að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar.
-
02. desember 2019 /850/2019. Úrskurður frá 15. nóvember 2019
Kærð var synjun Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. á beiðni um upplýsingar um nöfn starfsmanna félagsins og starfssvið þeirra og nöfn umsækjanda um störf hjá félaginu. Beiðni kæranda var synjað með þeim rökum að Herjólfur væri opinbert hlutafélag. Við meðferð málsins var kæranda afhentur listi yfir nöfn starfsmanna og starfssvið þeirra. Úrskurðarnefndin staðfesti synjun félagsins að því er varðar umsækjendur um störf enda er lögaðilum í eigu hins opinbera ekki skylt að afhenda slíkar upplýsingar, sbr. 4. mgr. 7. gr. upplýsingalaga.
-
02. desember 2019 /849/2019. Úrskurður frá 15. nóvember 2019
Deilt var um synjun Reykjavíkurborgar á beiðni félagasamtaka um aðgang að öllum gögnum varðandi tiltekinn einstakling. Úrskurðarnefndin taldi samþykki viðkomandi einstaklings ekki liggja fyrir og fór því um rétt samtakanna eftir 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Þá taldi nefndin gögnin öll innihalda viðkvæmar upplýsingar um einkamálefni einstaklingsins sem óheimilt væri að veita aðgang að, sbr. 9. gr. upplýsingalaga. Var ákvörðun Reykjavíkurborgar því staðfest.
-
02. desember 2019 /848/2019. Úrskurður frá 15. nóvember 2019
Kærð var synjun Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ofh. á beiðni um aðgang að samningi sem félagið gerði við einkaaðila um gerð nýrrar heimasíðu fyrir Herjólf. Beiðninni var synjað á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga með vísan til mikilvægra fjárhags- og viðskiptahagsmuna fyrirtækisins sem samið var við. Úrskurðarnefndin fór yfir samninginn og taldi ákvæði upplýsingalaga ekki standa aðgengi í vegi. Var því lagt fyrir Herjólf að veita kæranda aðgang að samningnum.
-
02. desember 2019 /847/2019. Úrskurður frá 15. nóvember 2019
Kærð var synjun heilbrigðisráðuneytisins á beiðni blaðamanns um gögn varðandi samningaviðræður ráðuneytisins við Rauða krossinn á Íslandi um yfirtöku reksturs sjúkrabifreiða. Beiðninni var synjað á grundvelli þess að um vinnugögn væri að ræða, sbr. 8. gr. upplýsingalaga, og að samningsumleitanir aðila væru enn yfirstandandi. Úrskurðarnefndin féllst ekki á að um vinnugögn væri að ræða enda hefðu gögnin þegar verið send utanaðkomandi aðila. Þá taldi nefndin ekki að önnur undanþáguákvæði upplýsingalaga ættu við. Var heilbrigðisráðuneytinu gert að afhenda gögnin.
-
02. desember 2019 /846/2019. Úrskurður frá 15. nóvember 2019
Deilt var um afgreiðslu Íslandspósts ohf. á beiðni blaðamanns um aðgang að fundargerðum stjórnar Íslandspósts. Fundargerðirnar voru afhentar kæranda en hluti upplýsinganna sem þar komu fram höfðu verið afmáðar úr fundargerðunum með vísan til þess að um væru að ræða trúnaðarupplýsingar og þess að birting upplýsinganna myndi skaða fjárhags- og viðskiptahagsmuni Íslandspósts, sbr. 9. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin lagði mat á fundargerðirnar og taldi stærstan hluta þeirra upplýsinga sem afmáðar höfðu verið ekki falla undir undanþáguákvæði upplýsingalaga. Íslandspósti var því gert að veita kæranda aðgang að þeim. Ákvörðun Íslandspósts um að synja kæranda um aðgang að átján atriðum var hins vegar staðfest.
-
02. desember 2019 /845/2019. Úrskurður frá 15. nóvember 2019
Kærð var synjun Isavia ohf. á beiðni kæranda um upplýsingar vegna bílastæða við Keflavíkurflugvöll. Beiðnin sneri að tekjum og kostnaði af rekstri bílastæða, fjölda starfsmanna við bílastæðin, kostnaði við uppbyggingu bílastæða á tilteknu tímabili, hvort tekjur af rekstri bílastæða væru nýttar til að fjármagna aðra starfsemi, hver hlunnindi starfsmanna Isavia væru varðandi bílastæði og hve mikið fjármagn Isavia hefði fengið frá Bílastæðasjóði Sandgerðisbæjar á tilteknu tímabili. Beiðninni var synjað með vísan í viðskipta- og samkeppnishagsmuni Isavia, sbr. 9. gr. og 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin taldi Isavia skylt að veita upplýsingar um tekjur vegna reksturs bílastæðanna. Beiðni um aðgang að upplýsingum um kostnað vegna reksturs bílastæðanna, hversu miklu fjármagni hafi verið varið í uppbyggingu þeirra og hversu mikið fjármagn hafi komið frá Bílastæðasjóði Sandgerðisbæjar, var vísað til Isavia ohf. til nýrrar meðferðar og afgreiðslu. Kæru var að öðru leyti vísað frá.
-
02. desember 2019 /844/2019. Úrskurður frá 15. nóvember 2019
Kærð var synjun Isavia ohf. á beiðni kæranda um upplýsingar vegna bílastæða við Keflavíkurflugvöll. Beiðnin sneri að tekjum af gjaldskyldum bílastæðum fyrir tiltekið tímabil, hvernig tekjunum hefði verið varið, fjölda slíkra bílastæða, upplýsingum um ákvörðun um upphaf gjaldtöku og svo gjaldtöku við aðra flugvelli. Beiðninni var hafnað með vísan í viðskipta- og samkeppnishagsmuni Isavia, sbr. 9. gr. og 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin taldi Isavia skylt að veita aðgang að skjölum þar sem fram komu upplýsingar um tekjur af bílastæðum fyrir tiltekið tímabil. Hins vegar var staðfest synjun um gögn varðandi ákvörðun um upphaf gjaldtöku. Kæru var að öðru leyti vísað frá.
-
02. desember 2019 /843/2019. Úrskurður frá 15. nóvember 2019
Deilt var um synjun fjármála- og efnahagsráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis á beiðnum kæranda um gögn varðandi laun rekstrarstjóra rannsóknarnefndar samgönguslysa. Af hálfu sveitarstjórnar- og samgönguráðuneytis kom fram að umbeðin gögn lægju ekki fyrir hjá ráðuneytinu. Fjármála- og efnahagsráðuneytið afhenti gögn sem innihéldu viðkomandi launaákvarðanir og launataxta en sagði engin frekari gögn liggja fyrir hjá ráðuneytinu. Úrskurðarnefndin hafði ekki forsendur til þess að rengja þær staðhæfingar ráðuneytanna og var málinu því vísað frá.
-
07. nóvember 2019 /842/2019. Úrskurður frá 28. október 2019
Kæru var vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál þar sem kærði fellur ekki undir upplýsingalög.
-
07. nóvember 2019 /841/2019. Úrskurður frá 28. október 2019
Kæru vegna afgreiðslu utanríkisráðuneytisins á beiðni um aðgang að gögnum var vísað frá þar sem umbeðin gögn voru ekki fyrirliggjandi í ráðuneytinu.
-
07. nóvember 2019 /840/2019. Úrskurður frá 28. október 2019
Deilt var um ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja beiðni kæranda, blaðamanns, um aðgang að gögnum með upplýsingum um hvaða fyrirtæki hafi gripið til hópuppsagna í maí 2019. Synjun Vinnumálastofnunar var byggð á því að óheimilt væri að veita kæranda aðgang að upplýsingunum vegna 9. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál óskaði eftir afstöðu tveggja fyrirtækja sem höfðu tilkynnt hópuppsögn til Vinnumálastofnunar. Annað þeirra veitti samþykki fyrir því að kærandi fengi aðgang að upplýsingunum og var synjun Vinnumálastofnunar um aðgang að tilkynningu þess fyrirtækis felld úr gildi. Nefndin staðfesti synjun stofnunarinnar varðandi það fyrirtæki sem ekki veitti samþykki sitt fyrir afhendingu upplýsinganna þar sem nefndin taldi tilkynninguna fela í sér viðkvæmar upplýsingar um fjárhagsstöðu þess fyrirtækis sem óheimilt væri að veita aðgang að sbr. 9. gr. upplýsingalaga.
-
07. nóvember 2019 /839/2019. Úrskurður frá 28. október 2019
Deilt var um ákvörðun Grindavíkurbæjar á beiðni um aðgang að sundurliðuðum útreikningum álagðra fasteignagjalda vegna tiltekinnar fasteignar. Sveitarfélagið hélt því fram að álagningarseðlar fasteignagjalda væru ekki vistaðir sjálfstætt heldur þyrfti að kalla þá fram með sérstakri aðgerð, þannig væru þeir ekki fyrirliggjandi hjá sveitarfélaginu. Úrskurðarnefnd taldi ekki ástæðu til að draga þær skýringar í efa og var kæru því vísað frá.
-
07. nóvember 2019 /838/2019. Úrskurður frá 28. október 2019
Kæru vegna afgreiðslu Landspítala-Háskólasjúkrahúss á gagnabeiðni var vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Landspítali-Háskólasjúkrahús hélt því fram að kærandi hefði fengið afhent öll fyrirliggjandi gögn er varði gagnabeiðni kæranda og hafði úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekki forsendur til að rengja þá staðhæfingu.
-
07. nóvember 2019 /837/2019. Úrskurður frá 28. október 2019
Samtök iðnaðarins kærðu ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun beiðni um aðgang að samningi Tryggingastofnunar við Veðurstofu Íslands um aðstöðu fyrir miðlægan tölvubúnað Tryggingastofnunar í tölvusal Veðurstofunnar. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál fór yfir samninginn og taldi ekki að ákvæði upplýsingalaga stæðu aðgangi í vegi. Var því fallist á rétt kæranda til aðgangs að samningnum með vísan til meginreglu 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings.
-
07. nóvember 2019 /836/2019. Úrskurður frá 28. október 2019
Kærð var ákvörðun Fjallabyggðar um synjun beiðni um aðgang að gögnum vegna verðkönnunar Fjallabyggðar. Leyst var úr rétti kæranda til aðgangs að gögnunum samkvæmt 14. gr. upplýsingalaga en kærandi var meðal tilboðsgjafa. Talið var að hagsmunir kæranda til aðgangs að gögnunum vægju þyngra en hagsmunir annarra tilboðsgjafa af því að upplýsingarnar í gögnunum færu leynt, sbr. 3. mgr. 14. gr. laganna. Var því synjun Fjallabyggðar felld úr gildi það lagt fyrir sveitarfélagið að veita kæranda aðgang að gögnunum.
-
07. nóvember 2019 /835/2019. Úrskurður frá 28. október 2019
Kærandi óskaði eftir upplýsingum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu um það úr hvaða háskólum verkfræðingar, arkitektar, landslagsarkitektar, tæknifræðingar og byggingafræðingar, sem séu á listum sem birtir eru á vefsíðum ráðuneytisins og fengið hafa leyfi til að nota viðkomandi starfsheiti, luku námi sínu, þ.e. nafn háskóla og námsland, auk upplýsinga um námsgráðu. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál féllst ekki á það með ráðuneytinu að um væri að upplýsingar um einkahagsmuni einstaklinga sem óheimilt sé að veita aðgang, sbr. 9. gr. upplýsingalaga. Þá féllst nefndin ekki á að umfang beiðninnar væri slíkt að ráðuneytinu væri heimilt að synja beiðninni með vísan til 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Var því ákvörðunin felld úr gildi og það lagt fyrir ráðuneytið að afhenda kæranda gögnin.
-
07. nóvember 2019 /834/2019. Úrskurður frá 28. október 2019
Deilt var um rétt kæranda, blaðamanns, til aðgangs að upplýsingum um kostnað vegna öryggisgæslu við íslensk sendiráð. Fyrir lá að ráðuneytið hafði útbúið skjal með umbeðnum upplýsingum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál féllst á það með utanríkisráðuneytinu að um væri að ræða upplýsingar um öryggi ríkisins sem mikilvægir almannhagsmunir krefjast að fari leynt, sbr. 1. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Var því synjun ráðuneytisins staðfest.
-
07. nóvember 2019 /833/2019. Úrskurður frá 28. október 2019
Kærandi óskaði eftir gögnum frá Reykjavíkurborg varðandi tiltekna framkvæmd annars vegar og samskipti kæranda við sveitarfélagið hins vegar. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi sig ekki hafa forsendur til að rengja þá fullyrðingu Reykjavíkurborgar að aðgangur hafi verið veittur að öllum fyrirliggjandi gögnum er varði framkvæmdina og var því kæru vísað frá að þessu leyti. Beiðni kæranda um gögn varðandi samskipti kæranda og Reykjavíkurborgar var hins vegar vísað aftur til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar þar sem skorta þótti á að kæranda hafi verið leiðbeint með afmörkun beiðninnar.
-
07. nóvember 2019 /832/2019. Úrskurður frá 28. október 2019
Í málinu var deilt um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum sem höfðu verið afmáðar úr samningum sem utanríkisráðuneytið og Þróunarsamvinnustofnun Íslands gerðu við Íslenskar orkurannsóknir. Utanríkisráðuneytið synjaði kæranda um aðgang að upplýsingunum með vísan til 2. og 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál staðfesti synjun utanríkisráðuneytisins að hluta, með vísan til 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga, en felldi úr gildi synjun ráðuneytisins að öðru leyti.
-
09. október 2019 /831/2019. Úrskurður frá 27. september 2019
Kæru var vísað frá þar sem afgreiðsla embættis ríkisendurskoðanda á beiðni um aðgang að gögnum er ekki kæranleg til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sbr. 4. mgr. 15. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016.
-
09. október 2019 /830/2019. Úrskurður frá 27. september 2019
Kæru var vísað frá þar sem kærði var ekki talinn heyra undir upplýsingalög nr. 140/2012.
-
09. október 2019 /829/2019. Úrskurður frá 27. september 2019
Kæru var vísað frá þar sem kærði var ekki talinn heyra undir upplýsingalög nr. 140/2012.
-
09. október 2019 /828/2019. Úrskurður frá 27. september 2019
Í málinu var deilt um rétt kæranda, blaðamanns, til aðgangs að sérfræðiálitum sem veitt voru í tengslum við málarekstur ríkisins fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Úrskurðarnefnd féllst á það með embætti ríkislögmanns að embættinu væri heimilt að takmarka rétt kæranda til aðgangs að gögnunum með vísan til 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga en samkvæmt ákvæðinu nær réttur almennings til aðgangs að gögnum ekki til bréfaskipta við sérfróða aðila í tengslum við réttarágreining eða til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfðað. Taldi nefndin embætti ríkislögmanns vera sérfróðan aðila í skilningi ákvæðisins auk þess sem gögn sem stöfuðu frá öðrum sérfróðum aðilum yrðu felld undir ákvæðið. Var því ákvörðun embættisins staðfest.
-
09. október 2019 /827/2019. Úrskurður frá 27. september 2019
Deilt var um þá ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytisins að synja beiðni kæranda um aðgang að greinargerð setts ríkisendurskoðanda um starfsemi Lindarhvols ehf. Ákvörðun ráðuneytisins var byggð á ákvæði 3. mgr. 15. gr., sbr. 14. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. Úrskurðarnefnd taldi ákvæðið fela í sér sérstaka þagnarskyldureglu sem takmarkaði upplýsingarétt almennings, sbr. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga. Nefndin féllst á það með ráðuneytinu að greinargerðin hefði verið send ráðuneytinu á grundvelli lagaskyldu og að hún væri í drögum og athugun málsins væri ekki lokið. Væri greinargerðin því undirorpin sérstakri þagnarskyldu, sbr. 3. mgr. 15. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. Var synjun ráðuneytisins því staðfest.
-
09. október 2019 /826/2019. Úrskurður frá 27. september 2019
Deilt var um þá ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytisins að synja beiðni kæranda um aðgang að greinargerð setts ríkisendurskoðanda um starfsemi Lindarhvols ehf. Ákvörðun ráðuneytisins var byggð á ákvæði 3. mgr. 15. gr., sbr. 14. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. Úrskurðarnefnd taldi ákvæðið fela í sér sérstaka þagnarskyldureglu sem takmarkaði upplýsingarétt almennings, sbr. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga. Nefndin féllst á það með ráðuneytinu að greinargerðin hefði verið send ráðuneytinu á grundvelli lagaskyldu og að hún væri í drögum og athugun málsins væri ekki lokið. Væri greinargerðin því undirorpin sérstakri þagnarskyldu, sbr. 3. mgr. 15. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. Var synjun ráðuneytisins því staðfest.
-
09. október 2019 /825/2019. Úrskurður frá 27. september 2019
Kærendur óskuðu eftir því að utanríkisráðuneytið veitti þeim aðgang að öllum gögnum borgaraþjónustumáls. Ráðuneytið synjaði beiðninni að hluta á þeim grundvelli að annars vegar væri um að ræða upplýsingar um viðkvæma einkahagsmuni einstaklinga, sbr. 9. gr. upplýsingalaga, en hins vegar að heimilt væri að takmarka aðgang kærenda að upplýsingum um samskipti við önnur ríki og fjölþjóðastofnanir, sbr. 2. tölul. 10. gr. laganna. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tók fram að um upplýsingarétt kærenda færi eftir 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Fallist var á röksemdir ráðuneytisins varðandi hluta umbeðinna gagna en um önnur vísaði nefndin til þess að ekki væri um viðkvæma einkahagsmuni að ræða eða mikilvægir almannahagsmunir stæðu ekki til beitingar 2. tölul. 10. gr., sbr. 3. mgr. 14. gr., upplýsingalaga. Var því lagt fyrir utanríkisráðuneytið að veita kærendum aðgang að hluta skjalanna en hin kærða ákvörðun staðfest að öðru leyti.
-
09. október 2019 /824/2019. Úrskurður frá 27. september 2019
Í málinu var deilt um þá ákvörðun Menntamálastofnunar að synja beiðni kæranda um aðgang samræmdum könnunarprófum sem lögð voru fyrir dóttur kæranda í september 2018. Fyrir lá að kærandi hafði fengið aðgang að svörum barnsins en hafði verið synjað um aðgang að prófspurningunum. Leyst var úr málinu á grundvelli 14. gr. upplýsingalaga. Fallist var á heimild Menntamálastofnunar til að synja kæranda um aðgang að prófspurningunum á grundvelli 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 14. gr. laganna, enda hafði stofnunin fyrirhugað að leggja annað prófið fyrir í óbreyttri mynd og hitt prófið í svo til óbreyttri mynd, haustið 2019.
-
09. október 2019 /823/2019. Úrskurður frá 27. september 2019
Deilt var um synjun sveitarfélagsins Árborgar á beiðni um skýrslu sem unnin var af sálfræðistofunni Lífi og sál og varðaði athugun á innra starfsumhverfi í Barnaskólanum [...]. Í fyrstu var kæranda synjað um aðgang að skýrslunni í heild sinni en undir rekstri málsins fékk kærandi aðgang að skýrslunni, þar sem strikað hafði verið yfir upplýsingar um einkahagsmuni tiltekinna einstaklinga. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi að um aðgang kæranda að skýrslunni færi samkvæmt 14. gr. upplýsingalaga. Var það mat nefndarinnar að hagsmunir kæranda af því að fá aðgang að skýrslunni vægju þyngra en hagsmunir þeirra sem upplýsingarnar vörðuðu af því að það sem strikað var yfir færi leynt, sbr. 3. mgr. 14. gr. laganna. Var því lagt fyrir sveitarfélagið Árborg að veita kæranda aðgang að skýrslunni í heild sinni.
-
18. september 2019 /822/2019. Úrskurður frá 10. september 2019
Kæru var vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál þar sem beiðni kæranda laut að gögnum í tilteknu sakamáli en upplýsingalög taka ekki til slíkra gagna, sbr. 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga.
-
18. september 2019 /821/2019. Úrskurður frá 10. september 2019
Kæru vegna afgreiðslu dómstólasýslunnar á beiðni um aðgang að gögnum var vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál þar sem meðferð dómstólasýslunnar á gagnabeiðni er ekki kæranleg til nefndarinnar.
-
18. september 2019 /820/2019. Úrskurður frá 10. september 2019
Kæru vegna synjunar skrifstofu Alþingis á beiðni um aðgang að gögnum var vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál þar sem ákvörðunin er ekki kæranleg til nefndarinnar.
-
18. september 2019 /819/2019. Úrskurður frá 10. september 2019
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að umsóknargögnum tilteknar vörumerkjarumsóknar. Ekki var fallist á það að gögnin væru undanskilin upplýsingarétti þar sem óheimilt hafi verið að veita aðgang að þeim á grundvelli ákvæðis í vörumerkjalögum sem var við gildi þegar umsóknin var lögð fram. Þá féllst nefndin ekki á að óheimilt væri að veita kæranda aðgang að gögnunum vegna 9. gr. upplýsingalaga en í þeim væri ekki að finna upplýsingar um einka- eða fjárhagsmálefni sem sanngjarnt væri og eðlilegt að leynt færu. Var því Hugverkastofunni gert að veita kæranda aðgang að umsóknargögnunum.
-
18. september 2019 /818/2019. Úrskurður frá 10. september 2019
Fallist var á rétt kæranda til aðgangs að fylgiskjali yfirlýsingar sem Grímsnes- og Grafningshreppur og Byggingarfélagið Geysir undirrituðu 27. september 2005. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi ekki að fylgiskjalið, sem hafði að geyma yfirlit yfir greiðslur lóðareigenda fyrir vatnsinntak við sumarhúsalóðir í Grímsnes- og Grafningshreppi, innihéldi viðkvæmar fjárhagsupplýsingar um einstaklinga sem óheimilt væri að veita aðgang að vegna 9. gr. upplýsingalaga. Þá var kæru vegna afgreiðslu Grímsnes- og Grafningshrepps á beiðni um aðgang að undirrituðum samningi vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál þar sem umbeðið gagn væri ekki fyrirliggjandi.
-
18. september 2019 /817/2019. Úrskurður frá 10. september 2019
Kæru var vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál á þeim grundvelli að umbeðin gögn væru ekki fyrirliggjandi í skilningi upplýsingalaga og lægi ekki fyrir synjun beiðni um aðgang að gögnum sem kæranleg væri til nefndarinnar.
-
18. september 2019 /816/2019. Úrskurður frá 10. september 2019
Kæru var vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál á þeim grundvelli að umbeðin gögn væru ekki fyrirliggjandi í skilningi upplýsingalaga og því lægi ekki fyrir synjun beiðni um aðgang að gögnum sem kæranleg væri til nefndarinnar.
-
18. september 2019 /815/2019. Úrskurður frá 10. september 2019
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum í þremur minnisblöðum Reykjavíkurborgar. Úrskurðarnefndin staðfesti ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja kæranda um aðgang að einu minnisblaðinu í heild sinni þar sem í því væru upplýsingar um að tilteknir einstaklingar hafi verið grunaðir um refsiverða háttsemi. Nefndin taldi minnisblaðið geyma viðkvæmar upplýsingar um einkahagi einstaklinga sem sanngjarnt væri og eðlilegt að leynt færi, sbr. 9. gr. upplýsingalaga og að ekki væri unnt að afhenda hluta þess, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna. Þá var staðfest ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja kæranda um aðgang að upplýsingum um framgang starfsmanns í starfi sem afmáðar voru úr minnisblaði, sbr. 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Reykjavíkurborg var aftur á móti gert að afhenda kæranda upplýsingar um lögmannskostnað einstaklinga sem áttu í ágreiningi við sveitarfélagið en ekki var talið að þær heyrðu undir 9. gr. upplýsingalaga.
-
18. september 2019 /814/2019. Úrskurður frá 10. september 2019
Í málinu var leyst úr rétti kæranda til aðgangs að upplýsingum frá Isavia ohf. um framboð á flugsætum og farþegafjölda sem fari um Keflavíkurflugvöll, sundurliðuðum eftir flugrekstraraðilum og tímabilum, að minnsta kosti fimm ár aftur í tímann. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál staðfesti ákvörðun Isavia ohf. um að synja beiðni kæranda á þeim grundvelli að upplýsingarnar væru undirorpnar sérstakri þagnarskyldu á grundvelli 71. gr. b laga um loftferðir, nr. 60/1998.
-
18. september 2019 /813/2019. Úrskurður frá 10. september 2019
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að annars vegar samningum um rannsóknarverkefni sem Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) hafi gert við ráðuneyti, stofnanir og fyrirtæki í opinberri eigu á tilteknu tímabili og hins vegar upplýsingum um húsaleigusamninga ÍSOR og kostnað vegna húsnæðis stofnunarinnar. Fallist var á rétt kæranda til aðgangs að samningum sem gerðir voru við ráðuneyti og stofnanir. Nefndin taldi hins vegar að stofnuninni væri heimilt að takmarka aðgang að samningum við fyrirtæki í opinberri eigu þar sem upplýsingar í þeim varði mikilvæga samkeppnishagsmuni ÍSOR, sbr. 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Þá var fallist á rétt kæranda til aðgangs að húsaleigusamningi ÍSOR við fjármálaráðuneytið en staðfest ákvörðun stofnunarinnar um að synja um aðgang að húsaleigusamningi við fyrirtæki í opinberri eigu á grundvelli 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. ÍSOR var auk þess gert að taka afstöðu til þess hluta gagnabeiðni kæranda sem ekki hafði verið afgreiddur.
-
20. ágúst 2019 /812/2019. Úrskurður frá 23. júlí 2019
Seðlabanki Íslands krafðist þess að réttaráhrifum úrskurðar úrskurðarnefndar nr. 810/2019 yrði frestað með vísan til 1. mgr. 24. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, enda hygðist bankinn bera úrskurðinn undir dómstóla. Krafa Seðlabanka Íslands byggði m.a. á því að birting skjalsins, sem fallist var á aðgang að í úrskurðinum, kynni að skerða með óbætanlegum hætti annars vegar orðspor bankans og hins vegar nánar tilgreinds starfsmanns. Að auki teldi bankinn mikilvægt að fá úrlausn dómstóla um skýringu á 7. gr. upplýsingalaga, en úrskurðarframkvæmd nefndarinnar væri reikul við skýringu á því hvað félli undir orðalagið „starfssambandið að öðru leyti“ í 7. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd tók fram að ekki yrði séð að dómstólar hefðu tekið afstöðu til sambærilegs ágreinings og leyst var úr í úrskurðinum, og kynni því að vera ástæða til þess að bera ágreining um túlkun framangreinds ákvæðis upplýsingalaga undir dómstóla. Í því samhengi tók nefndin þó fram að enda þótt einhver þróun kynni að hafa átt sér stað í túlkun hennar á 7. gr. upplýsingalaga teldi hún ekki augljóst að eldri úrskurðarframkvæmd hefði leitt til þess að synjun Seðlabankans á umbeðnu gagni hefði verið staðfest. Með vísan til vafa um túlkun á 7. gr. laganna og hagsmuna bankans taldi nefndin rétt, eins og á stæði, að fresta réttaráhrifum úrskurðarins.
-
15. júlí 2019 /810/2019. Úrskurður frá 3. júlí 2019
Kærð var ákvörðun Seðlabanka Íslands um að synja beiðni blaðamanns um aðgang að samningi bankans við starfsmann um námsleyfi og styrk til náms. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál féllst ekki á það að upplýsingarnar yrðu felldar undir þagnarskylduákvæði 35. gr. laga um Seðlabanka Íslands nr. 36/2001. Þá féllst nefndin ekki á að upplýsingarnar vörðuðu starfssamband bankans og fyrrum starfsmanns bankans, sbr. 7. gr. upplýsingalaga. Að lokum var ekki fallist á að upplýsingarnar vörðuðu einka- og fjárhagsmálefni einstaklings sem eðlilegt og sanngjarnt væri að leynt færu, sbr. 9. gr. upplýsingalaga. Var því lagt fyrir Seðlabanka Íslands að veita kæranda aðgang að samningnum.
-
15. júlí 2019 /811/2019. Úrskurður frá 3. júlí 2019
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að skjali um efnahagsleg áhrif af mögulegri rekstrarstöðvun WOW Air hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Beiðni kæranda var synjað á grundvelli 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga þar sem það hefði verið tekið saman fyrir fund ráðherranefndar. Að mati úrskurðarnefndar bar skjalið það ótvírætt með sér að hafa verið tekið saman fyrir ráðherranefnd. Vegna þessa taldi úrskurðarnefnd að fjármála- og efnahagsráðuneytinu hefði verið heimilt að synja kæranda um aðgang að skjalinu á grundvelli 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Með vísan til framangreinds varð ekki hjá því komist að staðfesta ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytisins um að synja beiðni kæranda um aðgang að skjalinu.
-
15. júlí 2019 /809/2019. Úrskurður frá 3. júlí 2019
Deilt var um afgreiðslu Lindarhvols ehf. á beiðni Frigus II ehf. um upplýsingar um stjórnarfundi Lindarhvols á tímabilinu 27. apríl 2016 til loka árs 2016. Synjun Lindarhvols var byggð á því að beiðni kæranda hefði ekki verið afmörkuð með fullnægjandi hætti, sbr. 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál laut beiðni kæranda að tilgreindum upplýsingum með nægilega skýrum hætti til þess að hægt væri, án verulegrar fyrirhafnar, að afmarka hana við tiltekin gögn. Þannig hefðu skilyrði 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga verið uppfyllt. Taldi úrskurðarnefnd ekki hjá því komist að vísa málinu aftur til Lindarhvols til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.
-
15. júlí 2019 /808/2019. Úrskurður frá 3. júlí 2019
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að afritum af lánasamningum og skuldaskilmálum Íslandspósts ohf. til dótturfélags síns, ePósts ehf. Af hálfu Íslandspósts kom fram að ePóstur væri undanþeginn gildissviði upplýsingalaga, og því þyrfti ekki að afhenda upplýsingar um lánveitingar og önnur fjárhagsmálefni sem vörðuðu undanþegið félag. Úrskurðarnefnd rakti að þegar beiðni kæranda barst Íslandspósti hefði ePóstur verið undanþeginn gildissviði laganna. Hins vegar væri til þess að líta að beiðni kæranda hefði ótvírætt verið beint að Íslandspósti, sem ekki væri undanþeginn gildissviði laganna. Með vísan til þess taldi úrskurðarnefnd að vísa skyldi beiðni kæranda til nýrrar meðferðar og afgreiðslu hjá Íslandspósti, þar sem tekin yrði efnisleg afstaða til beiðninnar á grundvelli þeirra gagna sem fyrir kynnu að liggja.
-
15. júlí 2019 /807/2019. Úrskurður frá 3. júlí 2019
Kærð var afgreiðsla Kópavogsbæjar á beiðni kæranda um aðgang að gögnum sem vörðuðu samþykktir byggingarfulltrúa sveitarfélagsins í tilteknum málum. Undir meðferð málsins veitti Kópavogsbær kæranda aðgang að þeim gögnum sem talið var að féllu undir beiðni kæranda, en kærandi taldi bæinn ekki hafa sinnt skyldu sinni að afhenda öll fyrirliggjandi gögn. Úrskurðarnefnd taldi sig ekki hafa forsendur til að draga í efa þá fullyrðingu bæjarins að kæranda hefði verið veittur aðgangur að öllum gögnum sem skráð væru í málaskrá bæjarins vegna þeirra mála sem hann tilgreindi í beiðni sinni. Það félli hins vegar utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar að hafa eftirlit með því hvort Kópavogsbær héldi skráningu um öll gögn málanna í samræmi við skráningarskyldu upplýsingalaga, stjórnsýslulaga og laga um opinber skjalasöfn. Með hliðsjón af framangreindu var kærunni vísað frá úrskurðarnefnd.
-
15. júlí 2019 /806/2019. Úrskurður frá 3. júlí 2019
Kærð var synjun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á beiðni um aðgang að bréfi og fylgigögnum frá Félagi makrílveiðimanna. Synjunin var byggð á því að um væri að ræða upplýsingar um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni félagsmanna í Félagi makrílveiðimanna sem sanngjarnt væri og eðlilegt að leynt færu á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin féllst ekki á að gögnin innihéldu slíkar upplýsingar og lagði fyrir ráðuneytið að veita kæranda aðgang að þeim.
-
15. júlí 2019 /805/2019. Úrskurður frá 3. júlí 2019
Kærð var synjun Grímsnes- og Grafningshrepps á beiðni um aðgang að upplýsingum um álögð fasteignagjöld fyrir frístundahús og lögbýli á ákveðnu tímabili. Af hálfu sveitarfélagsins kom fram að umbeðin gögn væru ekki fyrirliggjandi í skilningi upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin taldi að ekki væri um að ræða synjun í skilningi 20. gr. upplýsingalaga og var kærunni því vísað frá.
-
15. júlí 2019 /804/2019. Úrskurður frá 3. júlí 2019
Kærð var afgreiðsla Þjóðskrár Íslands á beiðni Siðmenntar – félags siðrænna húmanista á Íslandi um aðgang að netföngum félagsmanna. Þjóðskrá vísaði til þess að gögnin væru ekki fyrirliggjandi í skilningi upplýsingalaga, þar sem ekki væri til sérstök skrá yfir netföngin þó svo að þau væri að finna í gögnum í vörslum stofnunarinnar. Einnig vísaði Þjóðskrá til þess að óheimilt væri að veita aðgang að netföngunum, sbr. 9. gr. upplýsingalaga, þar sem netföng teldust til upplýsinga um einkamálefni einstaklinga. Úrskurðarnefndin tók fram að þegar beiðni um upplýsingar nær til upplýsinga sem nauðsynlegt væri að vinna upp úr öðrum gögnum dugi jafnan ekki að synja beiðninni á grundvelli 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. heldur beri stjórnvaldi að taka afstöðu til þess hvort beiðandi eigi rétt til aðgangs að gögnunum þar sem umbeðnar upplýsingar er að finna, svo hann geti sjálfur tekið þær saman. Úrskurðarnefndin taldi jafnframt að netföng einstaklinga teldust almennt ekki til viðkvæmra upplýsinga um einkamálefni einstaklinga sem sanngjarnt væri og eðlilegt að færu leynt. Þjóðskrá var því gert að veita kæranda aðgang að gögnum sem innihéldu netföng félagsmanna Siðmenntar.
-
21. júní 2019 /803/2019. Úrskurður frá 14. júní 2019
Kærð var afgreiðsla Lánasjóðs íslenskra námsmanna á beiðni um upplýsingar um nemendur sem sótt hefðu nám í skipulagsfræðum erlendis á ákveðnu tímabili. Stofnunin hafði afhent kæranda upplýsingar þess efnis en hann taldi þær ófullnægjandi. Þar sem ekki lá fyrir synjun á beiðni um afhendingu gagna í skilningi 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga, var málinu vísað frá.
-
21. júní 2019 /802/2019. Úrskurður frá 14. júní 2019
Kærð var synjun Hafrannsóknastofnunar á beiðni Landssambands smábátaeigenda um lista yfir þá aðila sem orsakað hefðu skyndilokanir á veiðisvæðum á árunum 2016 til 2018. Af gögnum máls mátti sjá að skipaskrárnúmer væru ekki skráð í gagnagrunn Hafrannsóknastofnunar um skyndilokanir. Af þeim sökum teldust umbeðnar upplýsingar ekki fyrirliggjandi hjá stofnuninni. Þar sem ekki lægi fyrir synjun á beiðni um afhendingu gagna í skilningi 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga, var málinu vísað frá.
-
21. júní 2019 /801/2019. Úrskurður frá 14. júní 2019
Kærð var synjun Íslandspósts ohf. á beiðni blaðamanns um aðgang að ákveðnum gögnum vegna eftirlitsnefndar sem komið hafði verið á fót vegna sáttar á milli Samkeppniseftirlitsins og Íslandspósts. Synjun Íslandspósts byggðist á því að eftirlitsnefndin væri hvorki stjórnvald né hluti af starfsemi Íslandspósts og heyrði því ekki undir gildissvið upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin komst að því að eftirlitsnefndin væri hluti af Íslandspósti. Synjun félagsins var felld úr gildi og lagt fyrir félagið að taka beiðnina til nýrrar meðferðar. Einum lið kærunnar var þó vísað frá þar sem fram hafði komið að engin gögn þar að lútandi lægju fyrir.
-
21. júní 2019 /800/2019. Úrskurður frá 14. júní 2019
Kærð var afgreiðsla Grindavíkurbæjar á beiðni um upplýsingar um álagningu stöðuleyfis- og fasteignagjalda á tiltekin stakstæð hús í sveitarfélaginu. Af gögnum málsins mátti sjá að fyrirspurn kæranda hafði verið svarað. Þar sem ekki lá fyrir synjun á beiðni um afhendingu gagna í skilningi 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga, var málinu vísað frá.
-
21. júní 2019 /799/2019. Úrskurður frá 14. júní 2019
Kærð var synjun Seðlabanka Íslands á beiðni um upplýsingar um tilfærslu listaverka í eigu bankans. Samkvæmt skýringum Seðlabankans lágu engin gögn fyrir í málinu og af þeirri ástæðu væri bankanum ómögulegt að verða við beiðni kæranda. Úrskurðarnefnd taldi ekki ástæðu til að draga þær skýringar í efa og var málinu því vísað frá.
-
21. júní 2019 /798/2019. Úrskurður frá 14. júní 2019
Kærð var afgreiðsla Vegagerðarinnar á beiðni um tilteknar upplýsingar um vöruflutninga um hafnir Íslands og um eftirlit stofnunarinnar með skráningu slíkra upplýsinga. Vegagerðin kvaðst hafa afhent kæranda allar fyrirliggjandi upplýsingar. Úrskurðarnefnd taldi ekki ástæðu til að draga þá fullyrðingu í efa og vísaði því málinu frá.
-
21. júní 2019 /797/2019. Úrskurður frá 14. júní 2019
Kærð var synjun Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. á beiðni um aðgang að lögfræðiáliti. Synjunin byggðist á því að um vinnugagn væri að ræða, sbr. 8. gr. upplýsingalaga, og að álitið gæti fallið undir 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga, sem heimilar takmörkun aðgangs að bréfaskriftum stjórnvalda við sérfróða aðila til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt máli skuli höfðað. Úrskurðarnefndin taldi skilyrði ofangreindra undanþága frá upplýsingarétti almennings ekki uppfyllt og var Umhverfis- og tæknisviði Uppsveita því gert að veita aðgang að lögfræðiálitinu.
-
21. júní 2019 /796/2019. Úrskurður frá 14. júní 2019
Kærð var afgreiðsla Sjúkratrygginga Íslands á beiðni um ýmis gögn er vörðuðu offitumeðferðir á Reykjalundi. Fram kom að SÍ hefði afhent kæranda ákveðin gögn í málinu en að engin önnur gögn sem heyrðu undir beiðni kæranda væru í vörslum stofnunarinnar. Úrskurðarnefndin taldi ekki ástæðu til að draga þá fullyrðingu í efa og vísaði málinu því frá.
-
21. júní 2019 /795/2019. Úrskurður frá 14. júní 2019
Kærð var synjun Landspítala-Háskólasjúkrahúss á beiðni um upplýsingar um framkvæmd magahjáveitu- og magaermisaðgerða á tilteknu tímabili. LSH kvað ekkert fyrirliggjandi gagn svara öllum þeim atriðum sem fyrirspurnin sneri að heldur þyrfti að sækja upplýsingarnar sérstaklega í sjúkraskrár sem væri óheimilt samkvæmt lögum um sjúkraskrár, nr. 55/2009. Þar sem ekki lá fyrir synjun á beiðni um afhendingu gagna í skilningi 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga, var málinu vísað frá.
-
11. júní 2019 /794/2019. Úrskurður frá 31. maí 2019
Kærð var töf mennta- og menningarmálaráðuneytisins á afgreiðslu beiðni kæranda um rökstuðning og gögn vegna ráðningar í starf þjóðskjalavarðar. Kærandi var meðal umsækjenda um embættið og því aðili stjórnsýslumáls í skilningi stjórnsýslulaga. Þar sem um aðgang kæranda að upplýsingum um málið færi eftir stjórnsýslulögum, og félli þar af leiðandi utan gildissviðs upplýsingalaga, var kærunni vísað frá.
-
11. júní 2019 /793/2019. Úrskurður frá 31. maí 2019
Kærð var synjun Sýslumannsins á Vestfjörðum á beiðni kæranda um aðgang að gögnum sem sýndu fram á hver hefði fengið líftryggingarbætur eftir mann sem lést árið 1900. Kæran barst rúmlega fimm mánuðum eftir að kærufrestur skv. 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga rann út. Úrskurðarnefndin taldi skilyrði 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga ekki uppfyllt og var kærunni því vísað frá.
-
11. júní 2019 /792/2019. Úrskurður frá 31. maí 2019
Blaðamaður kærði synjun Seðlabanka Íslands á beiðni um aðgang að gögnum sem vörðuðu rannsókn bankans á meintum brotum útgerðarfélagsins Samherja hf. á lögum um gjaldeyrismál. Úrskurðarnefndin fór yfir umbeðin gögn og taldi hafið yfir vafa að þau hefðu að geyma upplýsingar um hagi viðskiptamanna bankans og væru undirorpin sérstakri þagnarskyldu, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, sem gengi framar rétti almennings til aðgangs að upplýsingum samkvæmt upplýsingalögum, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna. Úrskurðarnefndin staðfesti því synjun Seðlabanka Íslands.
-
11. júní 2019 /791/2019. Úrskurður frá 31. maí 2019
Kærleikssamtökin, f.h. A, kærðu afgreiðslu Kópavogsbæjar á beiðni kæranda um aðgang að gögnum varðandi A. Kæranda höfðu verið afhent gögn um A en töldu að afhendingin hefði verið ófullnægjandi þar sem enn vantaði tiltekin gögn. Í umsögn Kópavogsbæjar vegna kærunnar kom fram að sveitarfélagið hefði þegar afhent öll fyrirliggjandi gögn sem féllu undir gagnabeiðni kæranda. Úrskurðarnefndin taldi ekki ástæðu til að draga þá fullyrðingu í efa og vísaði því málinu frá.
-
11. júní 2019 /790/2019. Úrskurður frá 31. maí 2019
Blaðamaður kærði afgreiðslu Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. á beiðni kæranda um gögn vegna kaupa félagsins á lögfræðiþjónustu á nánar tilgreindu tímabili. Á þeim tíma sem kæran barst var félagið undanþegið gildissviði upplýsingalaga, sbr. 3. mgr. 2. gr. laganna auk auglýsingar forsætisráðherra, nr. 1107/2015, og var málinu því vísað frá.
-
11. júní 2019 /789/2019. Úrskurður frá 31. maí 2019
Kærð var afgreiðsla Tryggingastofnunar á beiðni kæranda um aðgang að persónuupplýsingum um sig. Í umsögn Tryggingastofnunar kom fram að stofnunin hefði veitt kæranda aðgang að öllum þeim gögnum sem hefðu að geyma upplýsingar um kæranda. Úrskurðarnefnd hafði ekki forsendur til að rengja þá fullyrðingu Tryggingastofnunar að ekki hefðu verið frekari upplýsingar um kæranda í fórum stofnunarinnar þegar beiðni kæranda barst. Var málinu því vísað frá.
-
11. júní 2019 /788/2019. Úrskurður frá 31. maí 2019
Kærð var afgreiðsla Tryggingastofnunar á beiðni kæranda um aðgang að gögnum sem vörðuðu son hans. Í umsögn TR kom fram að stofnunin hefði þegar veitt kæranda aðgang að gögnunum að undanskildum þeim hluta þeirra sem stofnunin taldi varða einkamálefni barnsmóður kæranda. Úrskurðarnefnd hafði ekki forsendur til að rengja þá fullyrðingu að ekki höfðu verið frekari upplýsingar um son kæranda í fórum stofnunarinnar þegar beiðni kæranda barst. Úrskurðarnefndin vísaði því þeim hluta málsins frá. Einnig var deilt um hvort Tryggingastofnun skyldi veita kæranda upplýsingar varðandi son sinn jafnóðum og þær yrðu til eða þær bærust stofnuninni. Þar sem ekki væri um að ræða fyrirliggjandi gögn í skilningi upplýsingalaga var þeim hluta málsins einnig vísað frá úrskurðarnefnd.
-
11. júní 2019 /787/2019. Úrskurður frá 31. maí 2019
Kærð var synjun umboðsmanns skuldara á beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum um skuldir fyrrverandi maka. Kæran barst rúmum þremur árum eftir að kærufrestur skv. 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga rann út. Úrskurðarnefnd taldi skilyrði ákvæðis 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, ekki vera uppfyllt þar sem hvorki teldist afsakanlegt að kæran hefði ekki borist fyrr né að veigamiklar ástæður mæltu með því að kæran yrði tekin til meðferðar. Var kærunni því vísað frá úrskurðarnefnd.
-
11. júní 2019 /786/2019. Úrskurður frá 31. maí 2019
Kærð var synjun sveitarfélags á beiðni kæranda um aðgang að lögfræðiáliti sem lagt var fram á fundi bæjarráðs. Kærandi hafði óskað eftir endurgreiðslu frá sveitarfélagsinu vegna meintrar ofgreiðslu opinberra gjalda og við afgreiðslu málsins hafði sveitarfélagið leitað álits lögfræðings. Úrskurðarnefnd taldi að sú ákvörðun sveitarfélagsins að hafna endurgreiðslukröfu kæranda teldist vera stjórnvaldsákvörðun. Því færi um rétt kæranda til aðgangs að gögnum sem tilheyrðu stjórnsýslumálinu eftir ákvæðum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Kæran féll þar af leiðandi utan gildissviðs upplýsingalaga og var henni vísað frá.
-
11. júní 2019 /785/2019. Úrskurður frá 31. maí 2019
Deilt var um afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á beiðni kæranda um aðgang að samningi sveitarfélagsins við Íslenskar heilsulindir ehf. vegna könnunar á fýsileika þess að gert yrði baðlón í Vestmannaeyjum. Í umsögn Vestmannaeyjabæjar kom fram að enginn slíkur samningur lægi fyrir. Umsögninni fylgdi bókun frá bæjarráði Vestmannaeyjabæjar þar sem fram kom að gert hefði verið samkomulag um samstarf við Íslenskar heilsulindir. Úrskurðarnefnd taldi að þrátt fyrir að gagnabeiðni kæranda hefði verið orðuð þannig að óskað væri eftir „samningi“ hefði kærandi í reynd átt við það samkomulag sem nefnt var í bókun bæjarráðs. Var því lagt fyrir Vestmannaeyjabæ að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar.
-
11. júní 2019 /784/2019. Úrskurður frá 31. maí 2019
Deilt var um þá ákvörðun Vestmannaeyjabæjar að synja kæranda um aðgang að minnisblaði stýrihóps sem hafði farið fyrir viðræðum við íslenska ríkið um samning Vestmannaeyjabæjar og Vegagerðarinnar um rekstur Herjólfs. Vestmannaeyjabær vísaði til þess að minnisblaðið væri ekki opinbert og heyrði ekki undir upplýsingalög. Í ljósi þess að Vestmannaeyjabær væri stjórnvald sem heyrði undir upplýsingalög taldi úrskurðarnefnd ekki vafa leika á því að umrætt minnisblað félli undir lögin og því þyrfti að afgreiða ósk um aðgang að því í samræmi við ákvæði upplýsingalaga. Var því lagt fyrir Vestmannaeyjabæ að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar.
-
11. júní 2019 /783/2019. Úrskurður frá 31. maí 2019
Kærð var synjun Sorpu bs. á beiðni Íslenskra aðalverktaka hf. um gögn í tengslum við tilboð Ístaks hf. í innkaupaferli á vegum Sorpu sem kærandi tók einnig þátt í. Sorpa byggði á því að umbeðin gögn væru vinnugögn og því undanþegin upplýsingarétti kæranda. Úrskurðarnefndin féllst hvorki á að um vinnugögn væri að ræða né að þau fælu í sér mikilvægar upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- eða viðskiptaleyndarmál sem væru til þess fallnar að valda Ístaki tjóni. Var því lagt fyrir Sorpu að veita kæranda aðgang að gögnunum.
-
15. apríl 2019 /782/2019. Úrskurður frá 5. apríl 2019
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum hjá Héraðsdómi Reykjavíkur um fjölda þrotabúa sem tiltekinn lögmaður hefði fengið úthlutað á ákveðnu tímabili. Úrskurðarnefnd vísaði til athugasemda við 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 í frumvarpinu sem varð að lögunum. Þar kæmi fram að undir gildissvið ákvæðisins féllu aðeins þeir aðilar sem falið væri að fara með stjórnsýslu og teldust til handhafa framkvæmdarvalds í ljósi þrískiptingar ríkisvaldsins. Undir ákvæðið féllu því ekki aðrir opinberir aðilar á borð við dómstóla. Var kærunni því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
-
15. apríl 2019 /781/2019. Úrskurður frá 5. apríl 2019
Kærðar voru tafir Seðlabanka Íslands á meðferð beiðni Samherja hf. um aðgang að gögnum. Í umsögn Seðlabanka Íslands kom fram að umbeðnar upplýsingar vörðuðu stjórnsýslumál kæranda hjá Seðlabankanum. Með vísan til 1. málsl. 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga giltu lögin ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum. Úrskurðarnefnd taldi að þar sem umbeðin gögn tilheyrðu stjórnsýslumálum sem til meðferðar voru hjá Seðlabanka Íslands og kærandi hefði verið aðili þeirra mála í skilningi stjórnsýslulaga, færi um aðgang að upplýsingum sem tengdust þeim eftir 15.-19. gr. stjórnsýslulaga. Kæran var því talin falla utan gildissviðs upplýsingalaga og henni vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
-
15. apríl 2019 /780/2019. Úrskurður frá 5. apríl 2019
Kærð var afgreiðsla Vestmannaeyjabæjar á beiðni kæranda um nöfn umsækjenda í ýmsar stöður hjá Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi ohf. Af hálfu Vestmannaeyjabæjar kom fram að upplýsingarnar lægju ekki fyrir hjá sveitarfélaginu. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafði ekki forsendur til að rengja þá fullyrðingu. Þar sem ekki teldist um að ræða synjun stjórnvalds á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt upplýsingalögum var ekki hjá því komist að vísa málinu frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
-
15. apríl 2019 /779/2019. Úrskurður frá 5. apríl 2019
Kærð var synjun Vegagerðarinnar á beiðni um aðgang að glærum sem starfsmaður Vegagerðarinnar hafði sýnt í tengslum við erindi sem hann hélt á erlendri ráðstefnu. Kærandi taldi að þar sem stofnunin hefði greitt kostnað vegna þátttöku starfsmannsins í ráðstefnunni hefði almenningur hagsmuni af því að fá að sjá glærurnar. Í umsögn Vegagerðarinnar kom fram að stofnunin teldi glærurnar vera eign starfsmannsins en ekki Vegagerðarinnar, og féllu því ekki undir gildissvið upplýsingalaga, sbr. 2. gr. laganna. Taldi stofnunin engu skipta hvort starfsmaður hefði fengið heimild til að sinna endurmenntun í vinnutíma eða eftir atvikum fengið framlag vegna útlagðs kostnaðar. Úrskurðarnefndin taldi að þótt Vegagerðin teldist stjórnvald og heyrði undir gildissvið upplýsingalaga yrði að gera þá kröfu til þess að gagn í vörslum stjórnvalds væri í einhverjum tengslum við þá starfsemi sem færi fram á vegum þess. Væri þá til þess að líta að starfsfólk kynni að geyma á starfsstað ýmis gögn sem ekki tengdust starfi þeirra. Voru upplýsingalög því ekki talin ná til þeirra glæra sem starfsmaðurinn sýndi í tengslum við erindið á ráðstefnunni enda hefði þátttaka hans á ráðstefnunni ekki verið á vegum Vegagerðarinnar. Var kærunni vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
-
15. apríl 2019 /778/2019. Úrskurður frá 5. apríl 2019
Kærð var ófullnægjandi afgreiðsla og synjun Lánasjóðs íslenskra námsmanna, LÍN, á beiðni um gögn sem vörðuðu annars vegar kæranda sjálfan og hins vegar B. Í umsögn LÍN kom fram að öll gögn sem vörðuðu kæranda sjálfan og lægju fyrir hjá stofnuninni hefðu þegar verið afhent. Hvað varðaði gögn um B taldi LÍN að beiðni kæranda væri ekki nægjanlega vel afmörkuð í skilningi 15. gr. upplýsingalaga. Hvað varðaði gögn um kæranda sjálfan taldi úrskurðarnefndin ekki unnt að ráða að tekin hefði verið afstaða til hvers liðs gagnabeiðninnar fyrir sig. Vegna beiðni kæranda um gögn um B taldi úrskurðarnefndin að beiðni kæranda hefði verið nægjanlega vel afmörkuð. Að mati úrskurðarnefndarinnar skorti verulega á að tekin hefði verið rökstudd afstaða til beiðni kæranda líkt og upplýsingalög gera ráð fyrir. Hin kærða ákvörðun var því felld úr gildi og lagt fyrir LÍN að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar.
-
15. apríl 2019 /777/2019. Úrskurður frá 5. apríl 2019
Kærð var ófullnægjandi afgreiðsla og synjun Lánasjóðs íslenskra námsmanna, LÍN, á beiðni um gögn sem vörðuðu annars vegar kæranda sjálfan og hins vegar B. Í umsögn LÍN kom fram að öll gögn sem vörðuðu kæranda sjálfan og lægju fyrir hjá stofnuninni hefðu þegar verið afhent. Hvað varðaði gögn um B taldi LÍN að beiðni kæranda væri ekki nægjanlega vel afmörkuð í skilningi 15. gr. upplýsingalaga. Hvað varðaði gögn um kæranda sjálfan taldi úrskurðarnefndin ekki unnt að ráða að tekin hefði verið afstaða til hvers liðs gagnabeiðninnar fyrir sig. Vegna beiðni kæranda um gögn um B taldi úrskurðarnefndin að beiðni kæranda hefði verið nægjanlega vel afmörkuð. Að mati úrskurðarnefndarinnar skorti verulega á að tekin hefði verið rökstudd afstaða til beiðni kæranda líkt og upplýsingalög gera ráð fyrir. Hin kærða ákvörðun var því felld úr gildi og lagt fyrir LÍN að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar.
-
25. mars 2019 /776/2019. Úrskurður frá 12. mars 2019
Kærð var ákvörðun Borgarbyggðar að synja kæranda um aðgang að gögnum vegna gistihúss sem rekið væri í næsta húsi við kæranda. Synjun Borgarbyggðar var m.a. byggð á 9. og 15. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Kærandi hélt því fram að um rétt sinn til aðgangs að gögnunum færi eftir 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem fjallað er um upplýsingarétt aðila máls. Úrskurðarnefndin fór yfir gagnabeiðni kæranda og komst að þeirri niðurstöðu að um rétt kæranda til aðgangs að þeim færi eftir 15. gr. stjórnsýslulaga. Slíkur ágreiningur yrði ekki borinn undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sbr. 20. gr. upplýsingalaga. Var því óhjákvæmilegt að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.
-
25. mars 2019 /775/2019. Úrskurður frá 12. mars 2019
Heilbrigðisstofnun Suðurlands krafðist frestunar réttaráhrifa úrskurðar úrskurðarnefndarinnar nr. 772/2019 á meðan mál yrði borið undir dómstóla með vísan til 24. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin fór yfir röksemdir Heilbrigðisstofnunar Suðurlands fyrir kröfunni og komst að þeirri niðurstöðu að skilyrði ákvæðisins væru ekki uppfyllt. Kröfunni var því hafnað.
-
11. febrúar 2019 /774/2019. Úrskurður frá 31. janúar 2019
Kærð var ákvörðun Seðlabanka Íslands um að synja beiðni um aðgang að upplýsingum um svokallaða fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands. Í umsögn Seðlabankans var rakið að ákvæði 1. mgr. 35. gr. laga um Seðlabanka Íslands teldist til sérstaks þagnarskylduákvæðis annars vegar um hagi viðskiptamanna bankans og hins vegar málefni bankans sjálfs. Óhugsandi væri að líta öðruvísi á en svo að umbeðnar upplýsingar vörðuðu meira eða minna fjárhagsmálefni bæði einstaklinga og lögaðila sem sanngjarnt væri og eðlilegt að trúnaður skyldi ríkja um. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi að það léki ekki vafi á því að umbeðnar upplýsingar vörðuðu hagi þeirra aðila sem þar væru nefndir, sem viðskiptamanna bankans í skilningi 1. mgr. 35. gr. laga um Seðlabanka Íslands. Þar sem gögnin væru undirorpin sérstakri þagnarskyldu samkvæmt lögum næði réttur kæranda samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga ekki til þeirra samkvæmt gagnályktun frá 3. mgr. 4. gr. laganna. Ákvörðun Seðlabanka Íslands um að synja kæranda um aðgang að upplýsingunum var því staðfest.
-
11. febrúar 2019 /773/2019. Úrskurður frá 31. janúar 2019
Kærð var afgreiðsla fjármála- og efnahagsráðuneytisins á beiðni um annars vegar fundargerðir kjararáðs á tilteknu tímabili og hins vegar upplýsingar um ákveðnar launahækkanir í tengslum við ráðið. Fram kom af hálfu ráðuneytisins að gögnin væru ekki og hefðu ekki verið í vörslum ráðuneytisins. Ráðuneytið teldi því að ekki lægi fyrir synjun sem kæranleg væri til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, þar sem umbeðin gögn væru ekki fyrirliggjandi hjá ráðuneytinu. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi gögn málsins sýna að þegar beiðni kæranda um aðgang að fundargerðum kjararáðs hefði verið sett fram hefði starfsmaður fjármála- og efnahagsráðuneytisins unnið að frágangi skjalasafns kjararáðs í húsnæði á forræði Stjórnarráðsins. Nefndin teldi engum vafa undirorpið að gögnin hefðu þannig verið í vörslum ráðuneytisins á þessum tímapunkti og teldust þar af leiðandi fyrirliggjandi í skilningi upplýsingalaga. Þar sem afgreiðsla ráðuneytisins á beiðni kæranda hefði ekki samrýmst ákvæðum upplýsingalaga og rannsóknarreglu stjórnsýslulaga teldi nefndin hina kærðu ákvörðun vera haldna efnislegum annmörkum sem að mati nefndarinnar væru svo verulegir að ekki yrði hjá því komist að fella hana úr gildi og leggja fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar.
-
11. febrúar 2019 /772/2019. Úrskurður frá 31. janúar 2019
Kærð var synjun Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á beiðni um aðgang að tveimur tilkynningum um meint ástand kæranda, sem er læknir, í útkalli. Í umsögn stofnunarinnar kom fram að bæði almanna- og einkahagsmunir mæltu gegn því að kæranda yrðu afhent umbeðin gögn. Meðal annars væri nauðsynlegt að aðilar sem hefðu grunsemdir um möguleg brot heilbrigðisstarfsfólks í starfi gætu upplýst rétta aðila um þær án þess að eiga á hættu að viðkomandi heilbrigðisstarfsmaður yrði upplýstur um nöfn þeirra. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi að ekki stæðu rök til að synja kæranda um aðgang að umbeðnum tilkynningum, þar sem upplýsingalög innihéldu ekki heimild til að takmarka aðgang að gögnum á grundvelli þeirra tilteknu hagsmuna sem Heilbrigðisstofnun Suðurlands nefndi í umsögn sinni. Var því lagt fyrir stofnunina að veita kæranda aðgang að tilkynningunum.
-
20. desember 2018 /771/2018. Úrskurður frá 7. desember 2018
Kærð var afgreiðslutöf Landsvirkjunar á beiðni kæranda um upplýsingar, m.a. í tengslum við samningsgerð við Íslenskar orkurannsóknir. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tók fram að Landsvirkjun er meðal þeirra lögaðila sem eru undanþegnir upplýsingalögum á grundvelli 2. mgr. 3. gr. laganna og auglýsingu ráðherra nr. 600/2013. Var kæru því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
-
20. desember 2018 /770/2018. Úrskurður frá 7. desember 2018
Erlendur blaðamaður óskaði afrits af trúnaðarbréfi núverandi sendiherra Íslands í Palestínu. Utanríkisráðuneytið synjaði beiðninni með vísan til 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tók fram að það er skilyrði takmörkunar upplýsingaréttar almennings á grundvelli 10. gr. upplýsingalaga að mikilvægir almannahagsmunir krefjist þess. Beiðni um upplýsingar verði ekki synjað með stoð í ákvæðinu nema aðgangur leiði af sér hættu á tjóni. Að mati nefndarinnar var ljóst að hagsmunir Íslands eða annarra ríkja gætu ekki skaðast af því að almenningur kynnti sér það sem fram kemur í hinu umbeðna bréfi og var því lagt fyrir utanríkisráðuneytið að veita kæranda aðgang að því.
-
20. desember 2018 /769/2018. Úrskurður frá 7. desember 2018
Blaðamaður óskaði upplýsinga hjá Íbúðalánasjóði um nöfn þeirra lögaðila sem tekið hafa leiguíbúðalán hjá stofnuninni. Af hálfu sjóðsins kom fram að hann teldi umbeðnar upplýsingar undirorpnar sérstakri þagnarskyldu skv. 1. mgr. 8. gr. f. laga um húsnæðismál nr. 44/1998 og því óheimilt að veita utanaðkomandi aðgang að þeim. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál lagði til grundvallar að ákvæðið fæli í sér sérstaka þagnarskyldu að því er varðar upplýsingar um viðskipta- og einkamálefni lántakenda sjóðsins. Jafnvel þótt umbeðnar upplýsingar varði ekki viðskiptahagsmuni sem telja verði sanngjarnt og eðlilegt að fari leynt geri ákvæðið ekki ráð fyrir því að slíkt mat fari fram við ákvörðun um það hvort almenningur eigi rétt til aðgangs að þeim. Nefndinni væri því nauðugur einn sá kostur að staðfesta hina kærðu ákvörðun.
-
20. desember 2018 /768/2018. Úrskurður frá 7. desember 2018
Kærð var ákvörðun embættis ríkisskattstjóra um synjun beiðni um aðgang að gögnum um samskipti ársreikningaskrár við Seðlabanka Íslands og dótturfélög á tilteknu tímabili. Undir meðferð málsins fyrir úrskurðarnefndinni kom fram af hálfu ríkisskattstjóra að engin gögn lægju fyrir um samskipti ársreikningaskrár við þau félög sem kærandi tilgreindi í fyrirspurn sinni. Var kærunni því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
-
20. desember 2018 /767/2018. Úrskurður frá 7. desember 2018
Kærð var synjun Landspítala á beiðni um aðgang að samningi við Orku náttúrunnar ohf. (ON) um rafhleðslustöðvar. Synjunin byggðist á því að um væri að ræða upplýsingar sem varði mikilvæga fjárhagslega hagsmuni ON sem skyldu fara leynt skv. 9. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin tók fram að 9. gr. upplýsingalaga verndi fyrst og fremst lögaðila sem komið er á fót á einkaréttarlegum grunni en 4. tölul. 10. gr. verndi fjárhagslega hagsmuni fyrirtækja í opinberri eigu að því leyti sem þau eru í samkeppnisrekstri. Nefndin taldi enn fremur að Landspítali og ON hefðu ekki rökstutt sérstaklega hvernig upplýsingar sem fram koma í samningnum geti orðið ON skaðlegar, verði þær gerðar opinberar. Ekki var því talið að samkeppnishagsmunir fyrirtækisins af leynd væru svo ríkir að þeir réttlættu undanþágu frá meginreglu 5. gr. upplýsingalaga um rétt almennings til aðgangs að gögnum í fórum opinberra aðila.
-
20. desember 2018 /766/2018. Úrskurður frá 7. desember 2018
Blaðamaður óskaði eftir upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands (SÍ) um heildarkostnað stofnunarinnar af aðgerð á B árið 2011 þar sem græddur var í hann plastbarki. Synjun stofnunarinnar byggðist á lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og þagnarskylduákvæði 51. gr. laga um sjúkratryggingar nr. 112/2008. Úrskurðarnefndin tók fram að þessi ákvæði takmarki ekki ein og sér upplýsingarétt almennings samkvæmt upplýsingalögum en líta bæri til þeirra við skýringu ákvæða upplýsingalaga. Nefndin taldi enn fremur ljóst að upplýsingar um heildarkostnað vegna læknismeðferðar tiltekins einstaklings teljist til upplýsinga um viðkvæm einkamálefni hans sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari í skilningi 9. gr. upplýsingalaga. Sjónarmið sem mæltu með leynd vægju mun þyngra en hagsmunir kæranda af aðgangi. Þá var það mat nefndarinnar að möguleikar kæranda sem starfsmanns fjölmiðils til að miðla upplýsingum um opinber málefni væru ekki skertir um of með synjun beiðninnar, þar sem umbeðnar upplýsingar hefðu takmarkað upplýsingagildi með hliðsjón af umfangsmiklum upplýsingum sem birst hafa opinberlega um málið.
-
20. desember 2018 /765/2018. Úrskurður frá 7. desember 2018
Deilt var um ákvörðun Þjóðskjalasafns Íslands um að synja kæranda um hluta skýrslu vegna kvörtunar um einelti sem sálfræðistofa vann fyrir safnið. Ákvörðun safnsins byggði einkum á því að um væri að ræða upplýsingar um einkamálefni annarra, sbr. 9. og 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál fór yfir þá hluta skýrslunnar sem kæranda var synjað um aðgang að og lagði fyrir Þjóðskjalasafn að veita honum aðgang að þeim með útstrikunum.
-
20. desember 2018 /764/2018. Úrskurður frá 7. desember 2018
Kærð var ákvörðun Íslenskra orkurannsókna (ÍSOR) um synjun beiðni um aðgang að samningum um rannsóknir á jarðhitasvæðum og reikningum sem gefnir voru út í tengslum við þær. Ákvörðun ÍSOR byggðist á 9. og 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin tók fram að umbeðin gögn vörðuðu samkeppnisrekstur ÍSOR og að aðgangur að þeim gæti skaðað samkeppnisstöðu fyrirtækisins. Var ákvörðun ÍSOR því staðfest.
-
04. október 2018 /763/2018. Úrskurður frá 28. september 2018
Kærandi kærði ákvörðun Háskóla Íslands um synjun beiðni um aðgang að upplýsingum í tengslum við umsókn um starf lektors í heimspeki. Þar sem kærandi var meðal umsækjenda um starfið tók úrskurðarnefndin fram að um upplýsingarétt hans færi skv. stjórnsýslulögum. Var kæru því vísað frá úrskurðarnefndinni.
-
04. október 2018 /762/2018. Úrskurður frá 28. september 2018
Starfsmaður fjölmiðils kærði ákvörðun Endurmenntunar Háskóla Íslands um synjun beiðni um upplýsingar um rekstrarkostnað og tap frá árinu 2011. Hin kærða ákvörðun byggðist á 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin tók fram að ákvæðið felur í sér undantekningu frá meginreglu 5. gr. upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings og því ber að skýra það þröngri lögskýringu. Því næst fór nefndin í gegnum skilyrði beitingar ákvæðisins og komst að þeirri niðurstöðu að hagsmunir Endurmenntunar af því að umbeðnar upplýsingar færu leynt vægju ekki þyngra en hagsmunir almennings af því að fá aðgang að þeim. Var því lagt fyrir Endurmenntun að veita kæranda aðgang að upplýsingunum.
-
04. október 2018 /761/2018. Úrskurður frá 28. september 2018
Blaðamaður kærði meðferð embættis ríkissaksóknara á beiðni um upplýsingar um símhlustun. Af hálfu embættisins hafði komið fram að upplýsingarnar væru ekki fyrirliggjandi, heldur þyrfti að safna þeim saman úr fyrirliggjandi gögnum, og jafnframt féllu þær utan gildissviðs upplýsingalaga skv. 1. mgr. 4. gr. laganna. Úrskurðarnefndin féllst á að beiðni kæranda tæki að öllu leyti til upplýsinga úr málum sem varði rannsóknarúrræði skv. lögum um meðferð sakamála. Því yrði upplýsingaréttur kæranda ekki byggður á upplýsingalögum skv. 1. mgr. 4. gr. þeirra og kæru vísað frá.
-
04. október 2018 /760/2018. Úrskurður frá 28. september 2018
Deilt var um ákvörðun velferðarráðuneytisins um synjun beiðni fréttamanns um aðgang að minnisblaði vegna umkvartana þriggja barnaverndarnefnda varðandi samskipti við Barnaverndarstofu. Ákvörðunin byggðist á því að um vinnugagn væri að ræða og að þar væri að finna upplýsingar um starfssamband fyrrverandi forstjóra Barnaverndarstofu við ráðuneytið. Úrskurðarnefndin féllst á með ráðuneytinu að minnisblaðið uppfyllti skilyrði vinnugagnahugtaks 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga en taldi að þar kæmu fram upplýsingar um atvik máls sem ekki væri að finna annars staðar, sbr. 3. tölul. 3. mgr. 8. gr. laganna. Lagt var fyrir ráðuneytið að veita kæranda aðgang að minnisblaðinu að frátöldum hluta þess.
-
04. október 2018 /759/2018. Úrskurður frá 28. september 2018
Kærendur óskuðu eftir því að utanríkisráðuneytið veitti þeim aðgang að öllum gögnum borgaraþjónustumáls. Ráðuneytið synjaði beiðninni að hluta á þeim grundvelli að annars vegar væri um að ræða upplýsingar um viðkvæma einkahagsmuni einstaklinga, sbr. 9. gr. upplýsingalaga, en hins vegar að heimilt væri að takmarka aðgang kærenda að upplýsingum um samskipti við önnur ríki og fjölþjóðastofnanir, sbr. 2. tölul. 10. gr. laganna. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tók fram að um upplýsingarétt kærenda færi eftir 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Fallist var á röksemdir ráðuneytisins varðandi hluta umbeðinna gagna en um önnur vísaði nefndin til þess að ekki væri um viðkvæma einkahagsmuni að ræða eða mikilvægir almannahagsmunir stæðu ekki til beitingar 2. tölul. 10. gr., sbr. 3. mgr. 14. gr., upplýsingalaga. Var því lagt fyrir utanríkisráðuneytið að veita kærendum aðgang að hluta skjalanna en hin kærða ákvörðun staðfest að öðru leyti.
-
04. október 2018 /758/2018. Úrskurður frá 28. september 2018
Deilt var um ákvörðun velferðarráðuneytisins um synjun beiðni blaðamanns um aðgang að tveimur minnisblöðum vegna umkvartana þriggja barnaverndarnefnda varðandi samskipti við Barnaverndarstofu. Ákvörðunin byggðist á því að um vinnugögn væri að ræða og að þar væri að finna upplýsingar um starfssamband fyrrverandi forstjóra Barnaverndarstofu við ráðuneytið. Úrskurðarnefndin féllst á með ráðuneytinu að minnisblöðin uppfylltu skilyrði vinnugagnahugtaks 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga en taldi að í öðru þeirra kæmu fram upplýsingar um atvik máls sem ekki væri að finna annars staðar, sbr. 3. tölul. 3. mgr. 8. gr. laganna. Lagt var fyrir ráðuneytið að veita kæranda aðgang að þeim hluta annars minnisblaðsins en hin kærða ákvörðun var að öðru leyti staðfest.
-
04. október 2018 /757/2018. Úrskurður frá 28. september 2018
Kærð var ákvörðun Vegagerðarinnar um að synja beiðni um upplýsingar um kostnað stofnunarinnar vegna þátttöku starfsmanns á ráðstefnum erlendis á tilteknu tímabili. Ákvörðunin byggðist á því að upplýsingarnar vörðuðu starfssamband starfsmannsins og Vegagerðarinnar, sbr. 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga, og að um persónuupplýsingar væri að ræða sem 9. gr. laganna kæmi í veg fyrir að yrðu afhentar óviðkomandi. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál féllst ekki á þetta og lagði fyrir Vegagerðina að veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum.
-
07. ágúst 2018 /756/2018. Úrskurður frá 31. júlí 2018
Kærandi óskaði eftir aðgangi að gögnum frá Tryggingastofnun um son kæranda. Í hinni kærðu ákvörðun kom m.a. fram að barnsmóðir kæranda væri aðili að málum hjá stofnuninni sem varði barnið en ekki kærandi. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að Tryggingastofnun hefði borið að meta hvort kærandi ætti rétt á aðgangi að upplýsingunum á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga og lagði fyrir stofnunina að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar.
-
07. ágúst 2018 /755/2018. Úrskurður frá 31. júlí 2018
Óskað var eftir álitsgerðar nefndar heilbrigðisráðherra um hæfni umsækjenda um embætti landlæknis. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál staðfesti að ráðuneytinu hefði verið heimilt að synja beiðninni á grundvelli 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga.
-
07. ágúst 2018 /754/2018. Úrskurður frá 31. júlí 2018
Landssamband smábátaeigenda kærði synjun Hagstofu Íslands á beiðni um upplýsingar um kennitölur tiltekinna fyrirtækja. Hagstofan sagði upplýsingarnar undanþegnar upplýsingarétti almennings samkvæmt lögum um stofnunina og opinbera hagskýrslugerð. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál komst að þeirri niðurstöðu að um sérstakt þagnarskylduákvæði væri að ræða og jafnframt að umbeðnar upplýsingar féllu undir ákvæðið. Var synjun Hagstofunnar á beiðni kæranda því staðfest.
-
07. ágúst 2018 /753/2018. Úrskurður frá 31. júlí 2018
Félagasamtök óskuðu eftir upplýsingum um tekjur Isavia ohf. af gjaldskyldum bílastæðum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Í synjun Isavia var vísað til þess að umbeðin gögn væru ekki fyrirliggjandi auk þess sem þau væru undanþegin upplýsingarétti almennings á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga þar sem þau lytu að fjárhags- og viðskiptahagsmunum félagsins. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi ekki unnt að ráða að tekin hefði verið afstaða til hvers liðs gagnabeiðninnar fyrir sig og óljóst hvaða gögn Isavia segði ekki fyrirliggjandi og hvaða gögn teldust undanþegin upplýsingarétti kæranda. Að mati úrskurðarnefndarinnar skorti verulega á að tekin hefði verið rökstudd afstaða til beiðni kæranda líkt og upplýsingalög gera ráð fyrir. Hin kærða ákvörðun var því felld úr gildi og lagt fyrir Isavia að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar.
-
07. ágúst 2018 /752/2018. Úrskurður frá 31. júlí 2018
Óskað var eftir aðgangi að upplýsingum í vörslum forsætisráðuneytisins er varða gerð gjaldeyrisskiptasamnings milli Kína og Íslands í júní 2010. Af hálfu forsætisráðuneytisins kom fram að kærandi hefði fengið aðgang að gögnum samkvæmt beiðninni en önnur væru ekki í vörslum ráðuneytisins. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi ekki forsendur til að rengja þá fullyrðingu forsætisráðuneytisins og var kæru vísað frá úrskurðarnefndinni.
-
07. ágúst 2018 /751/2018. Úrskurður frá 31. júlí 2018
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að reikningum sem gefnir voru út í tilefni af árshátíð Reykjanesbæjar árið 2017. Synjun bæjarins byggðist á því að um einka-, fjárhags- og viðskiptamálefni einstaklinga og lögaðila væri að ræða en úrskurðarnefndin féllst ekki á það. Hin kærða ákvörðun var því felld úr gildi og lagt fyrir Reykjanesbæ að veita kæranda aðgang að reikningunum en þó þannig að bankaupplýsingar einstaklinga yrðu afmáðar.
-
07. ágúst 2018 /750/2018. Úrskurður frá 31. júlí 2018
Kærandi óskaði eftir aðgangi að upplýsingum í vörslum Vestmannaeyjabæjar sem vörðuðu hann sjálfan. Í svari bæjarins kom fram að ekkert mál væri skráð á kæranda en önnur mál varði hann ekki sérstaklega með þeim hætti að hann ætti rétt til aðgangs að upplýsingum um þau. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál komst að þeirri niðurstöðu að verulega hefði skort á að beiðnin hefði verið tekin til fullnægjandi málsmeðferðar og afgreiðslu á grundvelli upplýsingalaga og lagði fyrir sveitarfélagið að taka hana til nýrrar meðferðar.
-
07. ágúst 2018 /749/2018. Úrskurður frá 31. júlí 2018
Kærandi óskaði upplýsinga um það hvort skólastjóri grunnskóla á vegum Reykjavíkurborgar hefði sætt áminningu í starfi. Synjun Reykjavíkurborgar byggðist á því að upplýsingarnar vörðuðu málefni starfsmanna í skilningi 7. gr. upplýsingalaga. Þá teldist skólastjóri ekki til æðstu stjórnenda sveitarfélagsins í skilningi 3. mgr. 7. gr. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál rakti ákvæði 7. gr. upplýsingalaga og athugasemda við ákvæðið í frumvarpi til laganna. Þar sem skýr ummæli í athugasemdunum þóttu leiða til þess að skólastjóri í grunnskóla á vegum Reykjavíkurborgar teldist ekki til æðstu stjórnenda í skilningi ákvæðisins var hin kærða ákvörðun staðfest.
-
07. ágúst 2018 /748/2018. Úrskurður frá 31. júlí 2018
Kærandi óskaði aðgangs að yfirliti um greiðslur Reykjanesbæjar til tiltekinna aðila. Af hálfu bæjarins kom fram að slíkt yfirlit væri ekki fyrirliggjandi. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál féllst á að ekki væri skylt að taka saman slíkt yfirlit á grundvelli upplýsingalaga. Kæru var því vísað frá úrskurðarnefndinni.
-
07. ágúst 2018 /747/2018. Úrskurður frá 31. júlí 2018
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum í vörslum Matvælastofnunar um eftirlit stofnunarinnar með gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu. Kærandi hafði fengið aðgang að hluta umbeðinna gagna en um tilteknar upplýsingar í svonefndum landbótaáætlunum kom fram í hinni kærðu ákvörðun að um einkamálefni viðkomandi bónda væri að ræða. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál fór yfir gögnin og komst að þeirri niðurstöðu að kærandi ætti rétt á áætlununum án útstrikana. Þá lagði nefndin fyrir Matvælastofnun að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar varðandi hluta gagnanna þar sem ekki hafði verið tekin fullnægjandi afstaða til upplýsingaréttar kæranda.
-
05. júlí 2018 /746/2018. Úrskurður frá 27. júní 2018
Starfsmaður fjölmiðils kærði synjun kjararáðs á beiðni um aðgang að fundargerðum þess á tilteknu tímabili. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi skýrt af lokamálsl. 1. gr. laga um kjararáð nr. 130/2016 að kjararáð væri einn þeirra aðila sem falla undir gildissvið upplýsingalaga nr. 140/2012. Samkvæmt upplýsingalögum skipti ekki máli hvenær gögn hefðu orðið til og því hefði það ekki þýðingu þótt fundargerðirnar fjölluðu um mál eldri lög um kjararáð giltu um. Var það mat nefndarinnar að kjararáði hafi borið að afmarka beiðni kæranda við gögn í vörslum sínum, sbr. 5. og 15. gr. upplýsingalaga og taka afstöðu til réttar hans til aðgangs að þeim með rökstuddri ákvörðun. Þar sem kjararáð mat ekki rétt kæranda til aðgangs var málsmeðferð ráðsins ekki talin samrýmast ákvæðum upplýsingalaga, þ. á m. 1. mgr. 19. gr. laganna og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvörðunin var þannig talin haldin efnislegum annmörkum sem voru að mati nefndarinnar svo verulegir að hún var felld úr gildi og lagt fyrir kjararáð að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar.
-
05. júlí 2018 /745/2018. Úrskurður frá 27. júní 2018
Deilt var um rétt kæranda annars vegar til aðgangs að öllum úrskurðum sem dómsmálaráðuneytið hefur kveðið upp í umgengnismálum á grundvelli barnalaga nr. 76/2006 og hins vegar til aðgangs að úrskurðum sem lúta að deilumálum þar sem um er að ræða breytingu á umgengni sem ákveðin hefur verið með sátt fyrir dómi. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál féllst á það með dómsmálaráðuneytinu að heimilt hafi verið að synja kæranda um aðgang að öllum úrskurðum ráðuneytisins með vísan til 1. tölul. 2. mgr. 15. gr. upplýsingalaga þar sem meðferð hennar var talin taka svo mikinn tíma eða krefjast svo mikillar vinnu að ekki teldist af þeim sökum fært að verða við henni. Hins vegar taldi nefndin ekki sýnt fram á að beiðni kæranda um úrskurði þar sem um er að ræða breytingu á umgengni yrði felld undir ákvæðið. Var því lagt fyrir ráðuneytið að taka þann hluta beiðninnar til nýrrar meðferðar.
-
05. júlí 2018 /744/2018. Úrskurður frá 27. júní 2018
Í málinu var deilt um rétt kæranda til aðgangs að rafrænni stjórnendahandbók Akureyrarbæjar. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál féllst ekki á það að stjórnendahandbókin hefði að geyma vinnugögn í skilningi 5. mgr. 6. gr., sbr. 8. gr. upplýsingalaga, þar sem gögnin voru ekki talin hafa orðið til við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta tiltekins máls. Hins vegar var fallist á að Akureyrarbæ hafi með vísan til 9. gr. upplýsingalaga verið heimilt að synja kæranda um aðgang að tilteknum undirsíðum um bókhaldskerfi og mannauðskerfi sveitarfélagsins vegna viðskiptahagsmuna seljanda kerfisins.
-
05. júlí 2018 /743/2018. Úrskurður frá 27. júní 2018
Kærð var ákvörðun Landsnets hf. um að synja Orku náttúrunnar ohf. um upplýsingar varðandi kerfisframlag. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál komst að þeirri niðurstöðu að upplýsingar um kerfisframlag í samningi Landsnets og Landsvirkjunar féllu undir 5. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 89/2004 þar sem kveðið er á um sérstaka kæruheimild til Orkustofnunar og úrskurðarnefndar raforkumála vegna synjunar á afhendingu upplýsinga er nauðsynlegar eru við mat á því hvort flutningsfyrirtæki fullnægi skyldum sínum við rekstur og kerfisstjórnun flutningskerfis og tryggi jafnræði við flutning raforku, sbr. einnig 1. mgr. 30. gr. laganna. Var því kærunni vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
-
06. júní 2018 /742/2018. Úrskurður frá 6. júní 2018
Starfsmaður fjölmiðils kærði ákvörðun Sinfóníuhljómsveitar Íslands um að synja beiðni um aðgang að styrktarsamningi hljómsveitarinnar við sjóðsstýringarfyrirtækið GAMMA. Af hálfu Sinfóníuhljómsveitarinnar kom fram að GAMMA liti á samninginn sem upplýsingar um fjárhags- og viðskiptahagsmuni fyrirtækisins sem eðlilegt og sanngjarnt væri að færi leynt á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd féllst ekki á þetta með hliðsjón af því að um ráðstöfun opinberra hagsmuna væri að ræða og lagði fyrir hljómsveitina að veita kæranda aðgang að samningnum í heild sinni.
-
06. júní 2018 /741/2018. Úrskurður frá 6. júní 2018
Kærandi kærði afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á nokkrum fjölda beiðna um aðgang að upplýsingum. Kærurnar lutu að því að beiðnunum hefði ekki verið svarað að liðnum 9-17 dögum frá dagsetningu þeirra og leit úrskurðarnefndin svo á að um væri að ræða kærur vegna óhóflegra tafa á meðferð þeirra, sbr. 17. gr. upplýsingalaga og 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Með hliðsjón af mati á efni beiðnanna og fjölda beiðna sem kærandi hefur beint til sveitarfélagsins komst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að ekki væri um óhóflega töf á meðferð beiðnanna að ræða. Var kærunum því vísað frá úrskurðarnefndinni í einu lagi.
-
06. júní 2018 /740/2018. Úrskurður frá 6. júní 2018
Farið var fram á endurupptöku máls sem lyktaði með uppkvaðningu úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 740/2018 þar sem ákvörðun Reykjavíkurborgar um synjun beiðni um aðgang að minnisblaði borgarlögmanns var staðfest með vísan til þess að það væri vinnugagn skv. 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Í beiðni um endurupptöku var vísað til þess að í úrskurði nefndarinnar væri sérstaklega tekið fram að fyrirmælum 11. gr. laganna um aukinn aðgang hefði ekki verið fylgt við meðferð beiðninnar. Úrskurðarnefndin tók fram að þetta brot á málsmeðferðarreglu 2. mgr. 11. gr. upplýsingalaga hefði ekki verið talið fela í sér nægjanlega verulegan annmarka til að réttlæta ógildingu ákvörðunar borgarinnar. Beiðni um endurupptöku málsins var því hafnað.
-
06. júní 2018 /739/2018. Úrskurður frá 6. júní 2018
Samtök umgengnisforeldra kærðu meðferð Þjóðskrár Íslands á beiðni þeirra um aðgang að nöfnum og kennitölum umgengnisforeldra á Íslandi. Af hálfu Þjóðskrár kom m.a. fram að stofnunin hefði ekki tekið upplýsingarnar saman og ef til þess kæmi þyrfti að framkvæma vinnslur þar sem keyrðar væru saman fleiri en ein skrá og margar samkeyrslur þar innan. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál lagði til grundvallar að Þjóðskrá hefði ekki í vörslum sínum skrá yfir umbeðnar upplýsingar, þó ljóst væri að stofnuninni væri með ýmsum aðgerðum kleift að sækja yfirlit úr skrám sínum um umgengnisforeldra. Fallist var á með Þjóðskrá að upplýsingarnar væru ekki fyrirliggjandi í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga og kæru kæranda vísað frá.
-
06. júní 2018 /738/2018. Úrskurður frá 6. júní 2018
Kærð var ákvörðun Landspítala um að synja beiðni um aðgang að upplýsingum um lækna sem framkvæmdu ákveðnar aðgerðir á sjúkrahúsinu. Landspítali vísaði til þess að upplýsingarnar væru ekki fyrirliggjandi í skilningi upplýsingalaga, þrátt fyrir að þær væru til staðar í ýmsum skjölum og gögnum í vörslum spítalans. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál féllst ekki á þetta og vísaði beiðni kæranda til nýrrar meðferðar hjá Landspítala.
-
16. apríl 2018 /733/2018. Úrskurður frá 6. apríl 2018
Ríkisútvarpið ohf. kærði ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um að synja beiðni um aðgang að gögnum í máli sem varðaði aðbúnað og meðferð dýra á tilteknu býli. Úrskurðarnefndin tók fram að með hliðsjón af 9. gr. upplýsingalaga þyrfti að vega hagsmuni þeirra einstaklinga sem gögnin varða gegn hagsmunum almennings af því að þau yrðu birt opinberlega. Komist var að þeirri niðurstöðu að fyrrnefndu hagsmunirnir vægju þyngra á metunum og ákvörðun ráðuneytisins um synjun beiðninnar staðfest.
-
16. apríl 2018 /732/2018. Úrskurður frá 6. apríl 2018
Deilt var um synjun Orkustofnunar á beiðni Ungra umhverfissinna um aðgang að gögnum sem tengjast olíuleit á Drekasvæðinu. Stofnunin afmarkaði beiðnina við gögn um olíuleit tveggja fyrirtækja en vísaði til þess að upplýsingarnar væru undanþegnar upplýsingarétti almenning samkvæmt 26. gr. a laga nr. 13/2001 um leit, rannsóknir og vinnslu kolefnis. Úrskurðarnefndin túlkaði ákvæðið þannig að Orkustofnun væri heimilt að synja um aðgang að upplýsingum sem leyfishafar rannsóknar- og vinnsluleyfis afla og láta Orkustofnun í té á gildistíma leyfisins. Ákvörðun stofnunarinnar var því staðfest varðandi tiltekið fyrirtæki. Um annað fyrirtæki taldi nefndin að 9. gr. upplýsingalaga, sbr. 1. tl. 1. mgr. 6. gr. laga um upplýsingarétt um umhverfismál, kæmi í veg fyrir aðgang almennings, en í því tilviki var leyfið ekki lengur í gildi.
-
16. apríl 2018 /734/2018. Úrskurður frá 6. apríl 2018
Deilt var um ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja kæranda um aðgang að minnisblaði borgarlögmanns sem varðaði Hverfisgötu 41. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál fór yfir efni minnisblaðsins og komst að þeirri niðurstöðu að það uppfyllti skilyrði upplýsingalaga til að teljast vinnugagn. Ákvörðun borgarinnar var því staðfest.
-
16. apríl 2018 /735/2018. Úrskurður frá 6. apríl 2018
Kærð var ákvörðun embættis ríkislögreglustjóra um synjun beiðni um aðgang að upplýsingum um mannshvörf. Ákvörðunin byggðist fyrst og fremst á því að um væri að ræða upplýsingar um einkamálefni einstaklinga, sbr. 9. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin tók fram að af gögnum málsins mætti ráða að þessi röksemd gæti ekki átt við um öll gögnin sem kærandi krafðist aðgangs að. Embættið hefði því ekki gert grein fyrir því hvort unnt væri að veita kæranda aðgang að þeim að hluta, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Hin kærða ákvörðun var því felld úr gildi og lagt fyrir embættið að taka beiðnina til nýrrar meðferðar.
-
16. apríl 2018 /736/2018. Úrskurður frá 6. apríl 2018
Deilt var um ákvörðun Ríkisúvarpsins um að synja um aðgang að upplýsingum um samkomulag félagsins um greiðslu bóta við einstakling sem hafði höfðað meiðyrðamál í tilefni af fréttaflutningi þess. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál komst að þeirri niðurstöðu að upplýsingaréttur almennings næði til skjalsins að undanskildum litlum hluta sem hún taldi fela í sér upplýsingar um einkamálefni sem sanngjarnt væri og eðlilegt að leynt færi á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga.
-
16. apríl 2018 /737/2018. Úrskurður frá 6. apríl 2018
Ríkisútvarpið kærði ákvörðun Samgöngustofu um synjun beiðni um aðgang að upplýsingum um hergagnaflutninga á tilteknu tímabili. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál komst að þeirri niðurstöðu að umbeðnar upplýsingar væru undirorpnar sérstakri þagnarskyldu samkvæmt lögum um Samgöngustofu og staðfesti hina kærðu ákvörðun.
-
23. mars 2018 /727/2018. Úrskurður frá 15. mars 2018
Kærð var synjun Lindarhvols ehf. á beiðni kæranda um aðgang að gögnum um söluferli félagsins á eignarhluta og tengdum kröfum í Klakka ehf. Kærandi kvaðst hafa tekið þátt í söluferlinu og byggði beiðni sína á III. kafla upplýsingalaga. Lindarhvoll ehf. veitti kæranda aðgang að hluta en um önnur gögn var ýmist vísað til þess að þau væru vinnugögn, hefðu að geyma upplýsingar um einkamálefni sem leynt skyldu fara eða fælu í sér bréfaskipti við sérfróða aðila í tengslum við dómsmál. Úrskurðarnefndin fór yfir umbeðin gögn með hliðsjón af þessum sjónarmiðum og komst að þeirri niðurstöðu að kærandi ætti sem þátttakandi í söluferlinu ríkan rétt til aðgangs að umbeðnum gögnum. Hin kærða ákvörðun var því felld úr gildi og lagt fyrir Lindarhvol ehf. að veita kæranda aðgang að þeim.
-
23. mars 2018 /729/2018. Úrskurður frá 15. mars 2018
Deilt var um rétt foreldris til aðgangs að samræmdum könnunarprófum og úrlausnum barns í vörslum Menntamálastofnunar. Af hálfu stofnunarinnar kom fram að hún teldi 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga um takmarkanir á rétti almennings til aðgangs að gögnum um fyrirhugaðar ráðstafanir eða próf eiga við um umbeðin gögn. Úrskurðarnefndin rakti ákvæði laga og reglna um próf í grunnskólum og komst að þeirri niðurstöðu að engin þeirra kæmi í veg fyrir aðgang kæranda. Var hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og lagt fyrir Menntamálastofnun að veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum.
-
23. mars 2018 /730/2018. Úrskurður frá 15. mars 2018
Deilt var um rétt foreldris til aðgangs að samræmdum könnunarprófum og úrlausnum barns í vörslum Menntamálastofnunar. Af hálfu stofnunarinnar kom fram að hún teldi 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga um takmarkanir á rétti almennings til aðgangs að gögnum um fyrirhugaðar ráðstafanir eða próf eiga við um umbeðin gögn. Úrskurðarnefndin rakti ákvæði laga og reglna um próf í grunnskólum og komst að þeirri niðurstöðu að engin þeirra kæmi í veg fyrir aðgang kæranda. Var hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og lagt fyrir Menntamálastofnun að veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum.
-
23. mars 2018 /728/2018. Úrskurður frá 15. mars 2018
Kærð var ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytis um að synja beiðni um aðgang að gögnum um athugasemdir sem gerðar höfðu verið við söluferli Lindarhvols ehf. á eignarhluta og tengdum kröfum Klakka ehf. Synjunin byggðist á því að um væri að ræða upplýsingar um einkamálefni einstaklinga og fyrirtækja. Úrskurðarnefndin tók fram að kærandi hefði sem þátttakandi í söluferlinu veigamikla hagsmuni af því að kynna sér upplýsingar um það. Hins vegar bæri að vega hagsmuni kæranda gegn hagsmunum þeirra aðila sem getið er í gögnunum af því að þau fari leynt. Það var niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hagsmunir kæranda vægju þyngra á metunum og var hin kærða ákvörðun felld úr gildi og lagt fyrir ráðuneytið að veita honum aðgang að umbeðnum gögnum.
-
23. mars 2018 /731/2018. Úrskurður frá 15. mars 2018
Deilt var um rétt foreldris til aðgangs að samræmdum könnunarprófum og úrlausnum barns í vörslum Menntamálastofnunar. Af hálfu stofnunarinnar kom fram að hún teldi 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga um takmarkanir á rétti almennings til aðgangs að gögnum um fyrirhugaðar ráðstafanir eða próf eiga við um umbeðin gögn. Úrskurðarnefndin rakti ákvæði laga og reglna um próf í grunnskólum og komst að þeirri niðurstöðu að engin þeirra kæmi í veg fyrir aðgang kæranda. Var hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og lagt fyrir Menntamálastofnun að veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum.
-
19. febrúar 2018 /725/2018. Úrskurður frá 9. febrúar 2018
Landspítali-Háskólasjúkrahús fór þess á leit að úrskurðarnefnd um upplýsingamál tæki upp að nýju mál sem lyktaði með úrskurði nr. 607/2016 frá 18. janúar 2016. Í úrskurði nefndarinnar kom fram að samkvæmt 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga verði beiðni um endurupptöku ekki tekin til greina eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því aðila var tilkynnt um ákvörðun, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Þá verði mál ekki tekið upp ef ár er liðið nema veigamiklar ástæður mæli með því. Þar sem beiðnin barst tíu mánuðum eftir uppkvaðningu og samþykki gagnaðila fyrir endurupptöku lá ekki fyrr var henni hafnað.
-
19. febrúar 2018 /721/2018. Úrskurður frá 9. febrúar 2018
Kærð var töf sveitarfélags á afgreiðslu beiðni kæranda um aðgang að gögnum um landamerkjadeilu. Í svari kærða kom m.a. fram að engin formleg gögn væru til, enda hefði sveitarfélaginu aðeins borist afrit af gögnum dómsmáls sem eigandi lóðanna. Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar kom fram að þessari aðstöðu verði ekki jafnað til þess að engin gögn liggi fyrir um deiluna. Var því lagt fyrir sveitarfélagið að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar.
-
19. febrúar 2018 /726/2018. Úrskurður frá 9. febrúar 2018
ÚrskurðurHinn 9. febrúar kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 726/2018 í máli ÚNU 18010001.Kæra, málsatvik og málsmeðferðMeð erindi, dags. 2. janúar 2018, kærði A afgreiðs)...
-
19. febrúar 2018 /722/2018. Úrskurður frá 9. febrúar 2018
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum í vörslum Úrvinnslusjóðs um félagsmenn RR-skila, en kærandi kvaðst hafa í hyggju að krefja þá um endurgreiðslu kostnaðar. Upplýsingarnar var að finna í töflureiknisskjali sem hafði að geyma rúmlega 93.000 færslur. Úrskurðarnefndin taldi ekki unnt við þessar aðstæður að útiloka að það geti skaðað samkeppnis- eða viðskiptahagsmuni þeirra lögaðila sem skjalið fjallað um að veita aðgang að því. Þá hefði skjalið ekki að geyma upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna. Var því fallist á það með Úrvinnslusjóði að skjalið hefði að geyma upplýsingar um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni lögaðilanna og synjun beiðni kæranda staðfest. Beiðninni var hins vegar vísað til nýrrar meðferðar hvað varðar aðgang að félagatali RR-skila, þar sem Úrvinnslusjóður hafði ekki afgreitt hana að því leyti.
-
19. febrúar 2018 /724/2018. Úrskurður frá 9. febrúar 2018
Siðmennt kærði ákvörðun Þjóðskrár Íslands um synjun beiðni félagsins um aðgang að netföngum allra skráðra félagsmanna sinna. Ákvörðun Þjóðskrár byggði á því að um væri að ræða persónuupplýsingar í skilningi laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tók fram að í þeim lögum væri sérstaklega tekið fram að þau takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum og stjórnsýslulögum. Var hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og lagt fyrir Þjóðskrá að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar.
-
19. febrúar 2018 /723/2018. Úrskurður frá 9. febrúar 2018
Kærð var meðferð Umhverfisstofnunar á beiðni um aðgang að gögnum um samning við Landsnet um eftirlit vegna framkvæmda við Þeistareykjalínu 1 og Kröfulínu 4. Af hálfu Umhverfisstofnunar kom fram að kæranda hefði verið veittur aðgangur að þeim gögnum sem vörðuðu málið í vörslum stofnunarinnar. Þar sem réttur til aðgangs að gögnum nær eingöngu til fyrirliggjandi gagna var kærunni vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
-
08. janúar 2018 /720/2018. Úrskurður frá 3. janúar 2018
Kærandi óskaði aðgangs að gögnum sakamáls hjá embætti héraðssaksóknara. Úrskurðarnefndin tók fram að samkvæmt 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga gildi lögin ekki um rannsókn sakamála eða saksókn. Þar sem beiðni kæranda lyti skýrlega að að slíkum gögnum var kærunni vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
-
08. janúar 2018 /716/2018. Úrskurður frá 3. janúar 2018
Blaðamaður óskaði aðgangs að fundargerðum Stjórnstöðvar ferðamála úr vörslum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Í fyrri úrskurði úrskurðarnefndarinnar var ákvörðun ráðuneytisins um synjun beiðninnar felld úr gildi og lagt fyrir það að taka hana til nýrrar meðferðar. Ráðuneytið synjaði beiðninni að nýju á þeirri forsendu að fundargerðirnar teldust til vinnugagna. Úrskurðarnefndin fór efnislega yfir fundargerðirnar og komst að þeirri niðurstöðu að hluti þeirra gæti fallið undir vinnugagnahugtak upplýsingalaga. Hins vegar væri þar einnig að finna almennar umræður um stöðu ferðamála á Íslandi, endanlegar ákvarðanir um afgreiðslu mála hjá Stjórnstöðinni og upplýsingar um atvik mála sem ekki koma annars staðar fram. Þessar upplýsingar gætu ekki talist til vinnugagna. Úrskurðarnefndin lagði því fyrir ráðuneytið að veita kæranda aðgang að hluta fundargerðanna.
-
08. janúar 2018 /717/2018. Úrskurður frá 3. janúar 2018
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum um það hversu mörgum grísum var slátrað á tilteknu svínabúi árið 2016 úr vörslum Matvælastofnunar, sem synjaði beiðni á þeim grundvelli að um væri að ræða upplýsingar um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækis í skilningi 9. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin tók fram að ákvæðið væri undantekning frá meginreglu um upplýsingarétt almennings. Með hliðsjón af því að ýmsar upplýsingar um stærð búsins eru aðgengilegar almenningi og þeirri staðreynd að fyrirtækið rekur önnur svínabú taldi nefndin umbeðnar upplýsingar ekki lúta að mikilvægum fjárhags- eða viðskiptahagsmunum þess í skilningi 9. gr. upplýsingalaga.
-
08. janúar 2018 /715/2018. Úrskurður frá 3. janúar 2018
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum um kröfur til öruggs undirskriftarbúnaðar fyrir rafrænar undirskriftir, sem eru í vörslum Neytendastofu á grundvelli eftirlitshlutverks hennar. Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að upplýsingarnar féllu undir sérstakt þagnarskylduákvæði 4. mgr. 20. gr. laga nr. 28/2001 og staðfesti hina kærðu ákvörðun.
-
08. janúar 2018 /718/2018. Úrskurður frá 3. janúar 2018
Kærandi kærði ákvörðun Seðlabanka Íslands og fjármála- og efnahagsráðuneytisins um synjun beiðni um gögn um fjárfestingarleið bankans. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál vísaði kærunni frá gagnvart ráðuneytinu þar sem umbeðin gögn væru ekki fyrirliggjandi hjá því í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Þá var kærufrestur 1. mgr. 22. gr. laganna talinn vera liðinn gagnvart Seðlabanka Íslands en kæranda bent á að honum væri fært að leita til bankans að nýju.
-
08. janúar 2018 /719/2018. Úrskurður frá 3. janúar 2018
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að starfslokasamningi Flóahrepps við fyrrverandi skólastjóra Flóaskóla. Úrskurðarnefndin tók fram að af gögnum málsins mætti ráða að skólastjórinn samþykkti birtingu samningsins fyrir sitt leyti. Ekki yrði því séð að nokkrar takmarkanir ættu við um rétt kæranda til aðgangs að honum.
-
27. desember 2017 /714/2017. Úrskurður frá 13. desember 2017
Óskað var eftir því að úrskurðarnefndin endurupptæki mál sem lyktaði með úrskurði nr. 696/2017. Í úrskurðinum komst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að vísa bæri kæru kæranda frá á þeim grundvelli að umbeðin gögn væru ekki fyrirliggjandi hjá Ríkisútvarpinu ohf. Úrskurðarnefndin tók fram að með úrskurðinum hafi ekki verið tekin afstaða til þess hvort staðið hafi verið með réttum hætti að skráningu og varðveislu gagnanna hjá RÚV, heldur kæmi afhending þeirra ekki til greina á grundvelli upplýsingalaga. Beiðni um endurupptöku málsins var því hafnað.
-
27. desember 2017 /713/2017. Úrskurður frá 13. desember 2017
Isavia ohf. krafðist frestunar réttaráhrifa úrskurðar úrskurðarnefndarinnar nr. 709/2017 á meðan mál yrði borið undir dómstóla með vísan til 24. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin fór yfir röksemdir Isavia fyrir kröfunni og komst að þeirri niðurstöðu að skilyrði ákvæðisins væru ekki uppfyllt. Kröfunni var því hafnað.
-
27. desember 2017 /712/2017. Úrskurður frá 13. desember 2017
Úrskurðarnefndin endurupptók mál sem varðaði rétt kæranda til aðgangs að samantekt um öryggi fjarskipta sem fyrrverandi forsætisráðherra lét taka saman fyrir ríkisstjórnina. Eftir að nefndinni bárust nánari skýringar og gögn frá forsætisráðuneytinu taldi hún fært að leggja til grundvallar að umbeðin gögn hefðu sérstaklega verið tekin saman fyrir ráðherrafund í skilningi 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Ákvörðun forsætisráðuneytis um synjun beiðni kæranda var því staðfest.
-
27. desember 2017 /711/2017. Úrskurður frá 13. desember 2017
Kærð var ákvörðun Háskóla Íslands um að synja beiðni um aðgang að úrskurðum siðanefndar skólans þar sem fjallað var um 4. gr. starfsreglna siðanefndarinnar. Ákvörðun skólans var byggð á því að ákvarðanirnar hefðu að geyma upplýsingar um málefni starfsmanna skólans í skilningi 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga og einkamálefni sem sanngjarnt og eðlilegt væri að færu leynt skv. 9. gr. laganna. Úrskurðarnefndin taldi ekki unnt að fallast á það með Háskóla Íslands að umfjöllun siðanefndar skólans í málunum teldist gögn um starfssambandið að öðru leyti í skilningi fyrrnefnda ákvæðisins. Nefndin fór hins vegar yfir ákvarðanirnar með hliðsjón af ákvæði 9. gr. upplýsingalaga og lagði fyrir skólann að veita kæranda aðgang að þeim að hluta.
-
17. nóvember 2017 /706/2017. Úrskurður frá 2. nóvember 2017
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að vikulegum fréttapistlum forstjóra Lyfjastofnunar á tilteknu tímabili. Stofnunin synjaði kæranda m.a. um aðgang á þeirri forsendu að um væri að ræða gagnagrunn, en upplýsingaréttur almennings samkvæmt upplýsingalögum næði almennt ekki til slíkra gagna. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tók fram að þetta hafi gilt í tíð eldri upplýsingalaga en samkvæmt núgildandi lögum nr. 140/2012 þurfi upplýsingar einungis að vera fyrirliggjandi, hvort sem þær tilheyri tilteknu máli eða ekki. Úrskurðarnefndin taldi fréttapistlana fyrirliggjandi hjá stofnuninni í skilningi laganna. Þá taldi úrskurðarnefndin Lyfjastofnun ekki hafa gert nægjanlega grein fyrir því hvernig aðrar takmarkanir á upplýsingarétti almennings gætu átt við um fréttapistlana. Hin kærða ákvörðun var því felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar.
-
17. nóvember 2017 /708/2017. Úrskurður frá 2. nóvember 2017
Kærð var afgreiðsla Reykjavíkurborgar á beiðni kæranda um gögn varðandi samþykkt og útgáfu framkvæmdaleyfis. Af hálfu Reykjavíkurborgar kom fram að kærandi hefði þegar fengið aðgang að öllum fyrirliggjandi gögnum sem tengdust málinu. Kærunni var því vísað frá.
-
17. nóvember 2017 /707/2017. Úrskurður frá 2. nóvember 2017
Kærandi kærði afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á beiðni um aðgang að ráðningarsamningi bæjarins við meindýraeyði. Í skýringum bæjarins kom fram að bærinn hefði ekki gert slíkan samning, heldur væri til kallaður sjálfstætt starfandi meindýraeyðir eftir þörfum. Þar sem beiðnin laut að gögnum sem ekki eru fyrirliggjandi hjá Vestmannaeyjabæ var kærunni vísað frá.
-
17. nóvember 2017 /710/2017. Úrskurður frá 2. nóvember 2017
Kærð var ákvörðun Háskóla Íslands um synjun beiðni um aðgang að eldri prófum í námskeiði við skólann. Úrskurðarnefndin taldi ekki fært að fallast á með skólanum að prófið teldist fyrirhugað í skilningi 5. tl. 10. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Því var kærandi talinn eiga rétt á aðgangi samkvæmt meginreglu 1. mgr. 5. gr. laganna.
-
19. september 2017 /700/2017. Úrskurður frá 11. september 2017
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að öllum gögnum er tengdust ákvörðun sveitarfélags um framkvæmdaleyfi vegna lagningar Kröflulínu 4. Leyst var úr rétti kæranda til aðgangs að gögnunum á grundvelli meginreglu 5. gr. laga 23/2006 um upplýsingarétt almennings um umhverfismál. Ekki var fallist á að gögnin væru vinnugögn enda höfðu þau borist á milli utanaðkomandi sérfræðings og sveitarfélagsins. Þá var ekki fallist á að minnisblað lögmanns félli undir undanþáguákvæði 3. tl. 6. gr. upplýsingalaga. Þar sem engar undanþágur laga frá upplýsingarétti almennings þóttu eiga við um þau gögn, sem synjað var um aðgang að, var kveðið á um skyldu sveitarfélagsins til að afhenda kæranda gögnin.
-
19. september 2017 /701/2017. Úrskurður frá 11. september 2017
Staðfest var synjun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á beiðni kæranda um aðgang að skýrsludrögum vegna úttektar Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunarinnar. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál féllst á það með ráðuneytinu að líta mætti á skýrsludrögin sem „samskipti við fjölþjóðastofnun“ í skilningi 2. tl. 10. gr. upplýsingalaga. Vísað var til þess að nefndin hafi litið svo á að til að tryggja góð samskipti og gagnkvæmt traust í alþjóðasamstarfi væri rétt að undanþiggja samskipti sem færu fram á þeim vettvangi frá aðgangi almennings á meðan samskiptin stæðu yfir. Var því fallist á með ráðuneytinu að því hafi verið heimilt að synja um aðgang að skýrsludrögunum þegar ákvörðun um það var tekin en í málinu lá fyrir að lokaútgáfa skýrslunnar var birt almenningi eftir að úrskurðarnefnd um upplýsingamál tók málið til meðferðar.
-
19. september 2017 /702/2017. Úrskurður frá 11. september 2017
Synjun úrskurðarnefndar lögmanna á beiðni kæranda um aðgang að gögnum í máli tiltekins lögmanns var felld úr gildi og málinu vísað til úrskurðarnefndarinnar til nýrrar meðferðar. Synjun úrskurðarnefndar lögmanna var byggð á því að nefndinni væri óheimilt á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga að upplýsa hvort fyrirliggjandi væru gögn er heyrðu undir beiðni kæranda. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál féllst ekki á að úrskurðarnefnd lögmanna væri almennt óheimilt að staðfesta hvort mál hafi komið til kasta hennar heldur þyrfti að taka afstöðu til þess hverju sinni hvort 9. gr. upplýsingalaga komi í veg fyrir aðgang að gögnum mála.
-
19. september 2017 /703/2017. Úrskurður frá 11. september 2017
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að þremur lögregluskýrslum um föður kæranda á grundvelli laga um opinber skjalasöfn nr. 77/2014. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi kæranda ekki hafa einstaka hagsmuni umfram aðra að fá aðgang að skýrslunum. Var því fallist á það með Þjóðskjalasafni Íslands að rétt hafi verið að leysa úr beiðni kæranda á grundvelli V. kafla laga nr. 77/2014 um upplýsingarétt almennings. Þá var talið að Þjóðskjalasafni Íslands hafi verið rétt að synja kæranda um aðgang að skýrslunum með vísan til 1. mgr. 26. gr. laganna þar sem þær hefðu að geyma einkahagsmuni einstaklinga sem eðlilegt væri og sanngjarnt að færu leynt.
-
19. september 2017 /705/2017. Úrskurður frá 11. september 2017
Deilt var um aðgang kæranda að upplýsingum sem afmáðar höfðu verið úr sálfræðilegri greinargerð sem embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu lét útbúa í tilefni af kvörtun kæranda um meint einelti í sinn garð. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi, með vísan til 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, að réttur kæranda til aðgangs að framburði meintra gerenda og vitna um atvik sem snertu framgöngu hennar á vinnustað og meint einelti í garð kæranda vægi þyngra en hagsmunir sömu aðila af því leynd ríkti um framburð þeirra um atvik málsins. Úrskurðarnefndin taldi þó ekki að aðgangur kæranda samkvæmt 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga tæki til upplýsinga um rannsókn sakamáls, sbr. 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, og upplýsinga sem umræddir starfsmenn tjáðu sálfræðingi um persónuleg einkamálefni sín og annarra en kæranda og lytu ekki að henni sjálfri eða framgöngu á vinnustað. Var því embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu gert skylt að afmá slíkar upplýsingar áður en kæranda yrði veittur aðgangur að gögnunum.
-
19. september 2017 /704/2017. Úrskurður frá 11. september 2017
Deilt var um aðgang að umsóknargögnum umsækjanda um uppreist æru. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál féllst ekki á að umsókn viðkomandi umsækjanda félli í heild sinni undir undanþáguákvæði 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Yrði því að taka afstöðu til þess hvort einstök gögn málsins kynnu að geyma upplýsingar um einkahagi sem óheimilt væri að afhenda samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga. Var það mat nefndarinnar að upplýsingar um símanúmer og netföng umsækjanda og votta auk heilsufarsupplýsinga sem fram kæmu í vottorðum, væru upplýsingar sem sanngjarnt væri og eðlilegt að leynt færu á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Að öðru leyti var fallist á rétt kæranda til aðgangs að þeim upplýsingum er fram komu í gögnunum.
-
03. ágúst 2017 /693/2017. Úrskurður frá 27. júlí 2017
Kærð var synjun velferðarráðuneytisins á synjun beiðni um aðgang að öllum gögnum í vörslum ráðuneytisins sem varði þjónustu kæranda og bárust ráðuneytinu á tilteknu tímabili. Ráðuneytið afhenti kæranda umbeðin gögn en synjaði um aðgang tilteknum bréfaskiptum með vísan til 3. tl. 6. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin taldi hluta gagnanna heyra undir undanþáguákvæðið og staðfesti synjun ráðuneytisins á beiðni um aðgang að þeim. Úrskurðarnefndin féllst hins vegar ekki á að fylgiskjöl með bréfum féllu undir undanþáguákvæðið og taldi kæranda eiga rétt til aðgangs að þeim á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga.
-
03. ágúst 2017 /699/2017. Úrskurður frá 27. júlí 2017
Kærð var synjun Þingvallaþjóðgarðs og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á beiðni kæranda um afhendingu gagna er varða kaup ríkisins á sumarhúsi á Valhallarstíg nyrðri 13 og niðurrif á því. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tók fram að hvorki Þingvallaþjóðgarður, Þingvallanefnd né íslenska ríkið geti talist eiga mikilvægra fjárhags- eða viðskiptahagsmuna að gæta af því að upplýsingar um kaup hins opinbera á fasteign fari leynt í skilningi 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Almenningur hafi hins vegar ríka hagsmuni af því að geta kynnt sér gögn um ráðstöfun opinberra hagsmuna. Var því lagt fyrir Þingvallaþjóðgarð að veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tók fram að gagnabeiðni kæranda hafi meðal annars tekið til afrits af tilboði í niðurrif hússins og upplýsinga um hvernig stæði til að ganga frá lóðinni og nýta hana. Úrskurðarnefndin taldi ekki að öllu leyti ljóst hvort Þingvallanefnd hefði undir höndum gögn sem gætu veitt kæranda upplýsingar um þessi atriði. Var því lagt fyrir Þingvallanefnd að afgreiða beiðni kæranda að þessu leyti að nýju.
-
03. ágúst 2017 /694/2017. Úrskurður frá 27. júlí 2017
ÚrskurðurHinn 27. júlí 2017 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 694/2017 í máli ÚNU 16120001. Kæra og málsatvikMeð erindi, dags. 5. desember 2016, kærði A hrl., f.h. Rask)...
-
03. ágúst 2017 /697/2017. Úrskurður frá 27. júlí 2017
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að skýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands um rannsókn á myglusveppum í tveimur sýnum úr gólfefnum í skólastjórabústað við Húnavallaskóla en skýrslan var í vörslum Fasteigna Húnavatnshrepps. Kærandi hafði haft búsetu í húsnæðinu sem skýrslan fjallaði um og fór því um rétt hans til aðgangs eftir 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi engin rök hafa verið færð fram fyrir því að synja bæri kæranda um aðgang að skýrslunni. Var því synjunin felld úr gildi.
-
03. ágúst 2017 /695/2017. Úrskurður frá 27. júlí 2017
Deilt var um afgreiðslu Þingeyjarsveitar á beiðni um afrit af öllum gögnum í tengslum við samning sveitarfélagsins við Landsnet hf. frá 26. september 2014 um fébætur vegna lagningar háspennulínu um jörðina Þeistareyki. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi sig ekki hafa forsendur til að rengja þær staðhæfingar sveitarfélagsins að öll gögn hefðu verið afhent kæranda. Var því kærunni vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
-
03. ágúst 2017 /698/2017. Úrskurður frá 27. júlí 2017
Kærð var afgreiðsla Bílastæðasjóðs Reykjavíkur á beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum og gögnum um stöðumælasektir í Reykjavíkurborg. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál leit svo á að beiðni kæranda lyti ekki að því að fá í hendur öll gögn um stöðumælasektir í vörslum Bílastæðasjóðs, heldur að upplýsingar yrðu teknar saman. Þar sem umbeðið gagn var ekki talið fyrirliggjandi var kæru kæranda vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
-
03. ágúst 2017 /696/2017. Úrskurður frá 27. júlí 2017
Kærð var afgreiðsla Ríkisútvarpsins ohf. á beiðni kæranda um aðgang að gögnum sem tengjast honum og notuð voru til umfjöllunar í Kastljóssþætti sem sýndur var í sjónvarpinu. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi sig ekki hafa forsendur til að rengja þá fullyrðingu RÚV að gögnin væru ekki í vörslum félagsins heldur hafi félagið fengið aðgang að gögnum hjá þriðja aðila við vinnslu fréttarinnar. Var því kærunni vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
-
14. júlí 2017 /688/2017. Úrskurður frá 6. júlí 2017
Deilt var um aðgang að tilboðum fyrirtækis í gerð vefsíðna fyrir Reykjanesbæ sem synjaði um afhendingu gagnanna með vísan til 9. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi ekki að í gögnunum fælust upplýsingar um mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni tilboðsgjafa að undanskildum upplýsingum um viðskiptamenn fyrirtækisins. Var því aðgangur veittur að hluta. Beiðni kæranda um tilboðsbeiðni sveitarfélagsins var vísað til nýrrar meðferðar þar sem ekki hafði verið tekin afstaða til aðgangs að því gagni.
-
14. júlí 2017 /692/2017. Úrskurður frá 6. júlí 2017
Kæru vegna synjunar á aðgangi að gögnum í vörslum Langanesbyggðar var vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál þar sem sveitarfélagið afhenti kæranda gögnin eftir að kæra barst.
-
14. júlí 2017 /691/2017. Úrskurður frá 6. júlí 2017
Kærð var synjun Matvælastofnunar á beiðni blaðamanns um aðgang að gögnum um aðbúnað dýra á tilteknu lögbýli. Synjun stofnunarinnar var byggð á á 9. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi ljóst að þær upplýsingar sem fram kæmu í gögnunum varði einkamálefni einstaklinga í skilningi 9. gr. upplýsingalaga. Þegar vegnir væru saman hagsmunir aðila málsins af því að upplýsingar um viðkvæm persónuleg málefni þeirra fari leynt á móti þeim almennu hagsmunum sem felast í því að fjölmiðlar fái aðgang að gögnum um aðbúnað dýra, þótti nefndinni hinir fyrrgreindu vega þyngra. Var því ákvörðun Matvælastofnunar um synjun beiðni kæranda staðfest.
-
14. júlí 2017 /689/2017. Úrskurður frá 6. júlí 2017
Kærð var synjun embættis landlæknis á beiðni um aðgang að samstarfssamningi embættisins, heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og TM Software um þróun á hugbúnaði. Synjun embættisins var byggð á því að í samningnum kæmu fram upplýsingar um mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni TM Software sem sanngjarnt væri og eðlilegt að færu leynt, sbr. 9. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi ekki hafa verið sýnt fram á að í samningnum kæmu fram upplýsingar sem væru til þess fallnar að valda fyrirtækinu tjóni yrði aðgangur veittur. Þá var litið til þess að upplýsingarnar lytu með beinum hætti að ráðstöfun opinberra fjárhagslegra hagsmuna. Nefndin taldi að þegar vegnir væru saman hagsmunir fyrirtæksins af því að efni samningsins færi leynt og þeir mikilvægu almannahagsmunir sem felast í aðgangi almennings að upplýsingum um ráðstöfun opinberra hagsmuna, stæðu lagarök ekki til þess að heimilt væri að synja um aðgang að samningnum grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Var því fallist á rétt kæranda til aðgangs að samningnum í heild sinni.
-
14. júlí 2017 /690/2017. Úrskurður frá 6. júlí 2017
Kærð var synjun Akureyrarbæjar á aðgangi að launamiðum tiltekinna verktaka fyrir tiltekin ár en synjun sveitarfélagsins var reist á 9. gr. upplýsingalaga. Í málinu lá fyrir að sveitarfélagið hafði að eigin frumkvæði útbúið skjal með umbeðnum upplýsingum og sent þær með tölvupósti. Með hliðsjón af atvikum máls taldi úrskurðarnefnd um upplýsingamál tækt að fjalla um hvort kærandi ætti rétt til aðgangs að tölvupóstinum. Nefndin benti á að tölvupósturinn innibæri upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna. Var það niðurstaða nefndarinnar að ekkert í gagninu væri þess eðlis að heimilt væri að takmarka aðgang kæranda að þeim vegna hagsmuna þriðja aðila, sbr. 9. gr. upplýsingalaga. Var því fallist á rétt kæranda til aðgangs að tölvupóstinum.
-
16. júní 2017 /682/2017. Úrskurður frá 2. júní 2017
Kærð var afgreiðsla Þjóðskjalasafns Íslands á beiðni um aðgang að gögnum sem tengjast Landsbanka Íslands Úrskurðarnefndin taldi ýmis samskipti starfsmanna bankans og annarra lúta þagnarskylduákvæði 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 og taldi safnið bundið þagnarskyldunni samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins. Þá væri einnig að finna í umbeðnum gögnum upplýsingar sem vörðuðu mikilvæg einkamálefni sem sanngjarnt væri og eðlilegt að fari leynt á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Staðfest var synjun Þjóðskjalasafnsins á beiðni um aðgang að öllum umbeðnum gögnum nema minnisblaði Fjármálaeftirlitsins frá nóvember 2008.
-
16. júní 2017 /685/2017. Úrskurður frá 2. júní 2017
Úrskurður Hinn 2. júní 2017 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 685/2017 í máli ÚNU 16070008. Kæra og málsatvik Með bréfi, dags. 28. júlí 216, kærði A hrl., f.h. Geiteyra)...
-
16. júní 2017 /687/2017. Úrskurður frá 2. júní 2017
Beiðni kæranda um afrit af skjölum í vörslum embættis landlæknis sem varði hana sjálfa og nefni hana á nafn var vísað til embættisins til nýrrar meðferðar og afgreiðslu. Af skýringum embættis landlæknis varð ekki annað ráðið en að embættið hafi ekki framkvæmt leit í skjalavörslukerfi sínu í tilefni gagnabeiðninnar en ljóst var af skjölum sem fylgdu kæru sem og umsögn embættisins að kærandi hafi verið í samskiptum við embættið sem embættinu var skylt að halda til haga, sbr. t.d. 2. mgr. 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.
-
16. júní 2017 /686/2017. Úrskurður frá 2. júní 2017
Kæru vegna beiðni um upplýsingar um umsækjendur í starf við félagslega liðleiðslu fyrir börn og fullorðna hjá Vestmannaeyjabæ var vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál þar sem Vestmannaeyjabær hafði gefið þær skýringar að enginn hafi sótt um starfið. Lá því ekki fyrir synjun á afhendingu gagna, sbr. 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga.
-
16. júní 2017 /684/2017. Úrskurður frá 2. júní 2017
Kærð var synjun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á beiðni um aðgang að gögnum varðandi ívilnunarsamning við Silicor Materials. Ráðuneytið hafði synjað um aðgang að gögnunum á þeim grundvelli að gögnin vörðuðu mikilvæga fjarhags- eða viðskiptahagsmuni Silicor Materials, sbr. 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin staðfesti synjun ráðuneytisins að hluta en taldi ekki sýnt fram á að sum gagnanna innihéldu trúnaðarupplýsingar sem sanngjarnt væri og eðlilegt að leynt færi. Var því kveðið á um skyldu ráðuneytisins til að afhenda kæranda þau gögn.
-
16. júní 2017 /683/2017. Úrskurður frá 2. júní 2017
Kærandi óskaði eftir gögnum í vörslu Þjóðskjalasafns Íslands er varða Landsbanka Íslands. Úrskurðarnefnd tók fram að 1. mgr. 13. gr. nr. 87/1998 laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 um Seðlabanka Íslands feli í sér sérstaka þagnarskyldu og takmarki þar af leiðandi aðgang almennings á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga. Talið var að hluti umbeðinna gagna féllu undir þessar þagnarskyldureglur og þar af leiðandi ekki unnt að veita aðgang að þeim. Var því synjun Þjóðskjalasafns Íslands staðfest.
-
04. maí 2017 /681/2017. Úrskurður frá 26. apríl 2017
Deilt var um aðgang fjölmiðils að starfslokasamningi sem Kirkjuráð gerði við fyrrverandi framkvæmdastjóra ráðsins. Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að samningurinn hefði að geyma upplýsingar um föst launakjör starfsmannsins og tilhögun starfsloka, sem almenningur ætti rétt á aðgangi að samkvæmt 2. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Því bæri Kirkjuráði að veita kæranda aðgang að samningnum.
-
04. maí 2017 /680/2017. Úrskurður frá 26. apríl 2017
Deilt var um aðgang fjölmiðils að starfslokasamningi sem Kirkjuráð gerði við fyrrverandi framkvæmdastjóra ráðsins. Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að samningurinn hefði að geyma upplýsingar um föst launakjör starfsmannsins og tilhögun starfsloka, sem almenningur ætti rétt á aðgangi að samkvæmt 2. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Því bæri Kirkjuráði að veita kæranda aðgang að samningnum.
-
27. apríl 2017 /678/2017. Úrskurður frá 26. apríl 2017
Kærð var afgreiðsla Sorpurðunar Vesturlands á afgreiðslu á beiðni um upplýsingar um magn laxafurða sem stofnunin tók til urðunar frá fiskeldi og skráningu um laxafurðir frá fiskeldi á tilteknu ári. Af hálfu stofnunarinnar kom fram að ekki væru til sundurliðaðar upplýsingar um urðaðan fiskúrgang eftir tegund. Úrskurðarnefndin tók fram að valdsvið hennar næði ekki til þess að skera úr um það hvort slík skráning samrýmdist reglugerð 738/2003. Kæru var vísað frá úrskurðarnefnd með vísan til þess að gögnin væru ekki fyrirliggjandi, sbr. 20. gr. upplýsingalaga.
-
27. apríl 2017 /677/2017. Úrskurður frá 26. apríl 2017
Deilt var um aðgang að gögnum um samþykki Íslands á nýjum aðildarríkjum að Norður-Atlantshafsbandalaginu í vörslum utanríkisráðuneytisins. Kærandi hafði fengið aðgang að gögnunum að hluta en af hálfu ráðuneytisins kom fram að sum þeirra hefðu ekki fundist í skjalasafni þess. Úrskurðarnefndin tók fram að úrskurðavald nefndarinnar sé afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðnum samkvæmt upplýsingalögum. Þegar svo hátti til að umbeðin gögn eru ekki til staðar teljist ekki vera um synjun að ræða. Kæru kæranda var því vísað frá nefndinni.
-
27. apríl 2017 /679/2017. Úrskurður frá 26. apríl 2017
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum frá Hagstofu Íslands um hvernig vísitala neysluverðs hefði reiknast ef ekki hefði komið til mistaka við útreikning hennar á árinu 2016 sem og allra gagna sem útreikningarnir hefðu byggst á. Úrskurðarnefndin vísaði beiðni um útreikning frá þar sem beiðnin lyti ekki að fyrirliggjandi gögnum. Þar sem ekki yrði séð að tekin hafi verið afstaða til beiðni um gögn sem útreikningar byggðust á, var þeim hluta upplýsingabeiðninnar vísað til nýrrar meðferðar hjá Hagstofu Íslands.
-
12. apríl 2017 /675/2017. Úrskurður frá 17. mars 2017
ÚrskurðurHinn 17. mars 2017 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 675/2017 í máli ÚNU 17020004. Kæra, málsatvik og málsmeðferðMeð erindi, dags. 2. febrúar 2017, kvartaði A)...
-
12. apríl 2017 /673/2017. Úrskurður frá 17. mars 2017
Kærð var sú ákvörðun Reykjanesbæjar að synja kæranda um aðgang að gögnum um tilboðsumleitanir vegna nýrrar vefsíðu bæjarins. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tók fram að í slíkum málum væri lögð áhersla á hagsmuni þeirra sem taka þátt í útboðum af því að rétt sé staðið að framkvæmd þeirra. Þá standi almannahagsmunir til þess að veittur sé aðgangur að gögnum um ráðstöfun opinbers fjár. Kærandi var talinn hafa hagsmuni af því að vita um hvaða möguleika sveitarfélagið hafði að velja við ákvörðun um að ráðstafa fjármunum. Aðgangur að hluta umbeðinna gagna var þó takmarkaður með vísan til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, þ.e. upplýsingar um aðra viðskiptavini tveggja fyrirtækja sem sendu inn tilboð.
-
12. apríl 2017 /674/2017. Úrskurður frá 17. mars 2017
ÚrskurðurHinn 17. mars 2017 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 674/2017 í máli ÚNU 17020001. Kæra, málsatvik og málsmeðferðMeð erindi, dags. 24. janúar 2017, kvartaði A)...
-
12. apríl 2017 /676/2017. Úrskurður frá 23. mars 2017
Ríkisútvarpið kærði synjun Matvælastofnunar á beiðni um aðgang að hluta gagna um fjögur tiltekin mál sem stofnunin hafði til meðferðar. Matvælastofnun hafði afhent skýrslur og önnur gögn að undanskildum atriðum sem stofnunin taldi sér skylt að takmarka aðgang að á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Úrskurðarnefndin leit til þess markmiðs upplýsingalaga er lýtur að því að styrkja aðhald fjölmiðla og almennings að stjórnvöldum og möguleika þeirra til að miðla upplýsingum um opinber málefni, sbr. 3. og 4. tl. 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga. Niðurstaða nefndarinnar var sú að kærandi ætti rétt til aðgangs að umbeðnum gögnum að undanskildum upplýsingum um samskipti fyrirtækis við erlenda birgja um kaup á tilteknum vörum. Þá var réttur kæranda til aðgangs að upplýsingum um dauða kýr á búi á Norðvesturlandi viðurkenndur, fyrir utan þann hluta gagnanna sem höfðu að geyma upplýsingar um einkahagsmuni bóndans og annarra sem komu að málinu.
-
12. apríl 2017 /672/2017. Úrskurður frá 17. mars 2017
Deilt var um aðgang kæranda að gögnum í vörslum Þekkingarnets Þingeyinga sem varða fjölþjóðlegt verkefni. Kærandi vann að verkinu sem verktaki fyrir hönd Þekkingarnetsins en stjórn þess færðist síðar yfir til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að ákvörðun Þekkingarnetsins um að synja kæranda um aðgang að umbeðnum gögnum samræmdist ekki ákvæðum upplýsingalaga og rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Annmarkarnir voru taldir svo verulegir að ekki væri hjá því komist að fella ákvörðunina úr gildi og leggja fyrir Þekkingarnet Þingeyinga að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar.
-
12. apríl 2017 /671/2017. Úrskurður frá 17. mars 2017
Deilt var um aðgang kæranda að gögnum í vörslum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands sem varða fjölþjóðlegt verkefni. Kærandi vann að verkinu sem verktaki fyrir hönd Þekkingarnets Þingeyinga en stjórn þess færðist síðar yfir til Nýsköpunarmiðstöðvarinnar. Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að ákvörðun miðstöðvarinnar um að synja kæranda um aðgang að umbeðnum gögnum samræmdist ekki ákvæðum upplýsingalaga og rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Annmarkarnir voru taldir svo verulegir að ekki væri hjá því komist að fella ákvörðunina úr gildi og leggja fyrir Nýsköpunarmiðstöð Íslands að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar.
-
20. febrúar 2017 /669/2017. Úrskurður frá 30. janúar 2017
Deilt var um aðgang að gögnum í tengslum við athugun Lyfjastofnunar á afhendingu kæranda á lyfjum til tiltekinna heilbrigðisstofnana. Úrskurðarnefndin tók fram að ekki væri séð að Lyfjastofnun hefði tekið afstöðu til beiðni kæranda um hluta beiðninnar. Um önnur umbeðin gögn tók nefndin fram að kærandi væri tilgreindur í þeim og þau hefðu að geyma upplýsingar um hvernig hann afgreiði lyf. Kærandi var talinn eiga rétt til aðgangs á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, sem ekki yrði takmarkaður vegna 3. mgr. ákvæðisins.
-
20. febrúar 2017 /670/2017. Úrskurður frá 30. janúar 2017
Kærð var afgreiðsla forsætisráðuneytis á beiðni um aðgang að samantekt um síma og tölvur sem fyrrverandi ráðherra lét taka saman fyrir ríkisstjórnina. Ráðuneytið studdi ákvörðun sína við 1. tl. 6. gr. og 1. tl. 10. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar kom fram að ekki væru efni til að draga þær skýringar ráðuneytisins í efa að umbeðið gagn hafi verið tekið saman fyrir ráðherrafund, sbr. 1. tl. 6. gr. upplýsingalaga. Synjun forsætisráðuneytisins var því staðfest.
-
20. febrúar 2017 /667/2017. Úrskurður frá 30. janúar 2017
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að gögnum um rannsókn um skimun fyrir góðkynja einstofna mótefnahækkun. Vísindasiðanefnd hafði synjað kæranda um aðgang á grundvelli 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 vegna fjárhagslegra hagsmuna Háskóla Íslands og ábyrgðarmanns rannsóknarinnar. Einnig vísaði vísindasiðanefnd til þess að gögnin lytu að samkeppnishagsmunum,s br. 4. tl. 1. mgr. 10. gr. laganna. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi gögnin ekki hafa að geyma upplýsingar um hagsmuni þessara aðila í þeim mæli að upplýsingaréttur almennings næði ekki til aðgangs að þeim og úrskurðaði að veita bæri kæranda aðgang að almennri umsókn fyrir rannsóknina og eftirfarandi bréfaskiptum vísindasiðanefndar og umsækjanda.
-
20. febrúar 2017 /668/2017. Úrskurður frá 30. janúar 2017
Kærð var synjun ríkisskattstjóra á beiðni um aðgang að gögnum sem kærandi vísaði til þess að ríkisskattstjóri fengi afhent beint frá ýmsum lögaðilum. Ríkisskattstjóri bar fyrir sig að upplýsingarnar tilheyri framtali kæranda og væru honum einum aðgengilegar þar til framtali er skilað. Fram að því væru þær vistaðar sjálfvirkt í gagnagrunni sem ríkisskattstjóri geti ekki kallað eftir gögnum úr. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi skýringar ríkisskattstjóra leiða til þess að upplýsingarnar teldust ekki fyrirliggjandi hjá embættinu í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Með vísan til þess var málinu vísað frá nefndinni.
-
30. desember 2016 /663/2016. Úrskurður frá 30. desember 2016
Kærð var ákvörðun Seðlabanka Íslands á beiðni erlendra tryggingarfélaga um gögn um Landsbanka Íslands. Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að umbeðin gögn lytu sérstakri þagnarskyldu samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001, að undanskildri beiðni kærenda um aðgang að öllum skriflegum samskiptum á milli Seðlabanka og Landsbanka á tilteknu tímabili. Nefndin taldi Seðlabankann ekki hafa sýnt fram á að heimilt hefði verið að hafna beiðni kærenda að þessu leyti með vísan til þess að meðferð hennar tæki svo mikinn tíma eða krefðist svo mikillar vinnu að ekki teldist fært að verða við henni. Beiðni kærenda var að þessu leyti vísað til nýrrar meðferðar hjá Seðlabankanum.
-
30. desember 2016 /664/2016. Úrskurður frá 30. desember 2016
Deilt var um aðgang kærenda að skýrslu sem unnin var fyrir Grundarfjarðarbæ um meint einelti gegn þeim. Eldri upplýsingalög nr. 50/1996 giltu í málinu þar sem sveitarfélagið hafði færri en 1.000 íbúa, sbr. 4. mgr. 35. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál fór yfir hvern hluta skýrslunnar fyrir sig og tók afstöðu til þess hvort sveitarfélaginu hefði verið heimilt að synja kærendum um aðgang á grundvelli 3. mgr. 9. gr. eldri upplýsingalaga vegna einkahagsmuna þeirra sem koma fyrir í skýrslunni. Niðurstaðan var sú að sveitarfélaginu beri að afhenda kærendum þá hluta skýrslunnar sem ekki geymdu upplýsingar um einkahagsmuni annarra einstaklinga eða þar sem hagsmunir kærenda að aðgangi væru meiri en hagsmunir einstaklinganna af því að upplýsingar færu leynt.
-
30. desember 2016 /665/2016. Úrskurður frá 30. desember 2016
Kærð var ákvörðun Seðlabanka Íslands um að synja kæranda um aðgang að andmælum Klakka ehf. við niðurstöðum rannsóknar bankans á greiðslum samkvæmt nauðasamningi, lista yfir gögn sem bankinn sendi úrskurðarnefndinni í tilefni af eldra kærumáli milli sömu aðila og loks bréfi bankans til fjármála- og efnahagsráðuneytis um nauðsyn til lagabreytinga um gjaldeyrismál. Úrskurðarnefndin vísaði kæru frá að því er varðaði beiðni um lista yfir gögn sem Seðlabanki sendi úrskurðarnefndinni, þar sem nefndin hafði þegar tekið afstöðu til aðgangs kæranda að gögnunum. Að öðru leyti var hin kærða ákvörðun staðfest með vísan til þess að umbeðin gögn væru undirorpin sérstakri þagnarskyldu samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001.
-
30. desember 2016 /666/2016. Úrskurður frá 30. desember 2016
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál felldi úr gildi ákvörðun Vestmannaeyjabæjar um að synja kæranda um aðgang að ráðningarsamningi sveitarfélagsins við framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs og lagði fyrir það að veita kæranda aðgang að samningnum. Áður skyldi afmá úr samningnum bankaupplýsingar starfsmannsins og upplýsingar um aðild hans að lífeyrissjóði.
-
14. desember 2016 /661/2016. Úrskurður frá 30. nóvember 2016
Fallist var á rétt kæranda til aðgangs að ráðningarsamningi sveitarfélags við slökkviliðsstjóra að undanskildum upplýsingum um aðild hans að stéttarfélagi, lífeyrissjóði og bankaviðskipti.
-
14. desember 2016 /662/2016. Úrskurður frá 30. nóvember 2016
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að gögnum um fyrirhugaða byggingu stórskipahafnar í Finnafirði við Bakkaflóa í vörslum sveitarfélagsins Langanesbyggðar. Sveitarfélagið synjaði beiðni kæranda með vísan til 5. og 6. gr. eldri upplýsingalaga nr. 50/1996, sem giltu áfram um sveitarfélög með færri en 1.000 íbúa. Úrskurðarnefndin taldi hvorki fært að fallast á það með sveitarfélaginu að gögnin vörðuðu samkeppnishagsmuni stofnana eða fyrirtækja í eigu sveitarfélagsins né að um væri að ræða fyrirhugaðar ráðstafanir eða próf sem skiluðu ekki tilætluðum árangri ef upplýsingarnar yrðu veittar. Loks varð ekki við skoðun nefndarinnar séð að aðgangur almennings að gögnunum gæti skaðað hagsmuni þeirra einkaaðila sem koma að verkefninu, fyrir utan verkefnaáætlun. Var því fallist á rétt til kæranda að öðrum gögnum um framkvæmdina.
-
14. desember 2016 /660/2016. Úrskurður frá 30. nóvember 2016
Deilt var um aðgang að fundargerðum Stjórnstöðvar ferðamála í vörslum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Ráðuneytið synjaði kæranda um aðgang með vísan til 2. mgr. 8. gr. upplýsingalaga um vinnugögn nefnda eða starfshópa. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tók fram að ákvæðið fjallaði fyrst og fremst um það hver hefði haft gögn undir höndum en ekki hvort þau gætu fallið undir hugtakið vinnugagn, sbr. 1. mgr. 8. gr. laganna. Þar sem slíkt mat virtist ekki hafa farið fram hjá ráðuneytinu var hin kærða ákvörðun felld úr gildi og lagt fyrir það að taka málið til nýrrar meðferðar.
-
14. desember 2016 /659/2016. Úrskurður frá 30. nóvember 2016
Blaðamaður kærði synjun lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um að veita honum aðgang að gögnum sem urðu til við meðferð fyrri upplýsingabeiðnar kæranda. Úrskurðarnefndin tók fram að þegar fyrri beiðnin var borin upp hafi stofnast stjórnsýslumál sem leysa þurfti úr á grundvelli stjónsýslulaga. Þar sem upplýsingalög gilda ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum, sbr. 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, taldi nefndin ekki hjá því komist að vísa kæru frá nefndinni.
-
07. nóvember 2016 /652/2016. Úrskurður frá 31. október 2016
Kærð var sú ákvörðun Þjóðskjalasafns Íslands að synja um aðgang að skýrslum nafngreindra einstaklinga sem gefnar voru fyrir rannsóknarnefnd Alþingis. Þagnarskylda. Einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga. Synjun staðfest.
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.