Úrskurðir og álit
-
25. september 2024 /1218/2024. Úrskurður frá 25. september 2024
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að PDF-skjölum í vörslum Garðabæjar sem innihéldu yfirlit úr málaskrá sveitarfélagsins yfir mál og gögn sem varða kæranda og dóttur hans. Ákvörðun Garðabæjar að synja beiðni kæranda var byggð á því að PDF-skjölin væru vinnugögn í skilningi upplýsingalaga, sem heimilt væri að takmarka aðgang að. Úrskurðarnefndin taldi að gögnin uppfylltu ekki skilyrði upplýsingalaga að teljast vinnugögn. Beiðni kæranda var vísað til Garðabæjar til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.
-
25. september 2024 /1217/2024. Úrskurður frá 25. september 2024
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að ráðningarsamningum framkvæmdastjóra og útgerðarstjóra Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. Ákvörðun Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs var á því byggð að gögnin vörðuðu málefni starfsmanna félagsins og væru því undanþegin aðgangi samkvæmt 7. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Úrskurðarnefndin taldi að ráðningarsamningar væru gögn í málum sem vörðuðu ráðningu einstakra starfsmanna í starf og því væri almennt heimilt að takmarka aðgang að slíkum samningum á grundvelli upplýsingalaga. Nefndin taldi hins vegar með vísan til þess að framkvæmdastjóri Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs teldist til æðstu stjórnenda félagsins að kærandi ætti rétt til aðgangs að upplýsingum um launakjör hans sem fram kæmu í ráðningarsamningnum. Að öðru leyti var ákvörðun félagsins staðfest.
-
09. september 2024 /1216/2024. Úrskurður frá 9. september 2024
Kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál var vísað frá nefndinni, þar sem upplýsingalög gilda ekki um gögn í vörslu dómstóla um meðferð einstakra dómsmála.
-
09. september 2024 /1215/2024. Úrskurður frá 9. september 2024
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál barst beiðni um endurupptöku máls sem lauk með úrskurði nr. 1201/2024, með vísan til þess að úrskurðurinn væri haldinn verulegum annmarka. Nefndin taldi að skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, fyrir endurupptöku væru ekki uppfyllt. Þá væru ekki vísbendingar um að á úrskurði nefndarinnar væri haldinn annmarka sem leitt gæti til endurupptöku á ólögfestum grundvelli. Beiðni um endurupptöku var því hafnað.
-
09. september 2024 /1214/2024. Úrskurður frá 9. september 2024
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál barst beiðni um endurupptöku sem litið var svo á að lyti að tveimur málum sem lauk með úrskurðum árin 2020 og 2022. Nefndin taldi að skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, fyrir endurupptöku væru ekki uppfyllt. Þá væru ekki vísbendingar um að á úrskurðum nefndarinnar væru verulegir annmarkar að lögum. Beiðni um endurupptöku var því hafnað.
-
09. september 2024 /1213/2024. Úrskurður frá 9. september 2024
Vestmannaferjan Herjólfur ohf. synjaði beiðni um aðgang að rekstraráætlun félagsins fyrir árið 2024, með vísan til þess að áætlunin væri vinnugagn. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi að gagnið uppfyllti skilyrði þess að teljast vinnugagn. Þá væri í áætluninni ekki að finna neinar þær upplýsingar sem tilgreindar væru í 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Með vísan til þess var ákvörðun Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs staðfest.
-
09. september 2024 /1212/2024. Úrskurður frá 9. september 2024
Utanríkisráðuneyti synjaði beiðni um aðgang að samskiptum í tengslum við þá ákvörðun ráðherra að senda farþegaflugvél til Ísrael til að ferja heim Íslendinga sem þar væru strandaglópar. Ákvörðun ráðuneytisins var byggð á því að hluti gagnanna varðaði einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt og eðlilegt væri að færu leynt, sbr. 1. málsl. 9. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, auk þess sem annar hluti þeirra hefði að geyma upplýsingar um samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir, sbr. 2. tölul. 10. gr. laganna. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál felldi úr gildi þann hluta ákvörðunarinnar sem var byggður á 1. málsl. 9. gr. laganna og lagði fyrir ráðuneytið að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar og afgreiðslu að því leyti. Hins vegar féllst nefndin á að ef þau gögn sem synjað var um aðgang að með vísan til 2. tölul. 10. gr. laganna yrðu afhent kynni það að hafa skaðleg áhrif á tengsl Íslands við þau ríki sem samskiptin vörðuðu og raska mikilvægum almannahagsmunum. Var sá hluti ákvörðunar ráðuneytisins því staðfestur.
-
25. júní 2024 /1211/2024. Úrskurður frá 25. júní 2024
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að skattskrám ársins 2022 vegna tekna á árinu 2021, sem gerðar væru á grundvelli 2. mgr. 98. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Skatturinn kvað ekki heimilt að afhenda gögnin með vísan til þess að upplýsingar í þeim væru háðar þagnarskyldu. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál rakti að 117. gr. laga um tekjuskatt væri sérstakt þagnarskylduákvæði sem gengi almennt framar rétti til aðgangs að upplýsingum samkvæmt upplýsingalögum. Ákvæðið væri grundvallarregla á sviði skattaréttar um trúnað um tekjur og efnahag skattaðila, og umbeðnar upplýsingar féllu undir ákvæðið. Ákvæði 2. mgr. 98. gr. laganna væri undantekningarregla gagnvart þagnarskyldunni í 117. gr. laganna og fæli ekki í sér ríkari fyrirmæli um afhendingu skattskráa en berum orðum fælist í ákvæðinu. Með vísan til þessa auk fleiri sjónarmiða var ákvörðun Skattsins staðfest.
-
25. júní 2024 /1210/2024. Úrskurður frá 25. júní 2024
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að myndskeiði í vörslum Fiskistofu sem sýndi brottkast á fiski. Ákvörðun Fiskistofu að synja beiðninni byggðist að hluta til á því að afhending myndskeiðsins væri óheimil vegna hagsmuna útgerða og skipverja, sbr. 9. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Nefndin taldi að þótt andlit skipverja hefðu í flestum tilvikum verið gerð ógreinileg teldust þeir engu að síður vera persónugreinanlegir í skilningi laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Þá taldi nefndin að það að Fiskistofa hefði ekki á þeim tíma haft lagaheimild til þess að gera þær upptökur af skipverjum sem finna mætti í myndskeiðinu hefði áhrif á mat samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga. Þá teldust upplýsingar um það hvort einstaklingur væri grunaður um refsiverðan verknað eða önnur lögbrot almennt vera upplýsingar um einkamálefni viðkomandi sem sanngjarnt væri og eðlilegt að færu leynt. Með vísan til þessa auk fleiri sjónarmiða taldi úrskurðarnefndin að óheimilt væri að afhenda það myndskeið sem um var deilt í málinu, og staðfesti ákvörðun Fiskistofu.
-
25. júní 2024 /1209/2024. Úrskurður frá 25. júní 2024
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að umsögnum nánar tilgreindra stjórnvalda sem ríkislögmaður hafði aflað í tilefni af bótakröfu kæranda sem beint var að embættinu. Ákvörðun ríkislögmanns að synja beiðninni byggðist á því að gögnin væru bréfaskipti við sérfróðan aðila, sbr. 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi að samskipti stjórnvalds við ríkislögmann vegna könnunar á réttarstöðu eða vegna dómsmáls féllu undir framangreinda undanþágu í upplýsingalögum. Ákvörðun ríkislögmanns var staðfest.
-
25. júní 2024 /1208/2024. Úrskurður frá 25. júní 2024
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að gögnum í vörslum Fiskistofu. Ákvörðun Fiskistofu að synja beiðni kæranda var byggð á 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, með vísan til þess að meðferð beiðninnar tæki svo mikinn tíma eða krefðist svo mikillar vinnu að ekki teldist af þeim sökum fært að verða við henni. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi að Fiskistofa hefði með fullnægjandi hætti sýnt fram á að skilyrði þess að ákvæðinu yrði beitt væru uppfyllt í málinu. Var ákvörðun Fiskistofu því staðfest.
-
25. júní 2024 /1207/2024. Úrskurður frá 25. júní 2024
Deilt var um rétt kærenda til aðgangs að umsögnum nánar tilgreindra stjórnvalda sem ríkislögmaður hafði aflað í tilefni af bótakröfu kærenda sem beint var að embættinu. Ákvörðun ríkislögmanns að synja beiðninni byggðist á því að gögnin væru bréfaskipti við sérfróðan aðila, sbr. 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi að samskipti stjórnvalds við ríkislögmann vegna könnunar á réttarstöðu eða vegna dómsmáls féllu undir framangreinda undanþágu í upplýsingalögum. Hins vegar voru kærendur taldir eiga rétt til aðgangs að fylgigögnum sem fylgdu einni umsögninni. Að öðru leyti var ákvörðun ríkislögmanns staðfest.
-
25. júní 2024 /1206/2024. Úrskurður frá 25. júní 2024
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að umsögnum nánar tilgreindra stjórnvalda sem ríkislögmaður hafði aflað í tilefni af bótakröfu kæranda sem beint var að embættinu. Ákvörðun ríkislögmanns að synja beiðninni byggðist á því að gögnin væru bréfaskipti við sérfróðan aðila, sbr. 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi að samskipti stjórnvalds við ríkislögmann vegna könnunar á réttarstöðu eða vegna dómsmáls féllu undir framangreinda undanþágu í upplýsingalögum. Ákvörðun ríkislögmanns var staðfest.
-
25. júní 2024 /1205/2024. Úrskurður frá 25. júní 2024
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs meðal annars að gögnum um bótakröfu og bótagreiðslu sveitarfélags til einstaklings. Ákvörðun sveitarfélagsins að synja beiðninni byggðist fyrst og fremst á því að óheimilt væri að afhenda gögnin því þau vörðuðu einkamálefni einstaklingsins. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál fór yfir gögnin og taldi þau hafa að geyma upplýsingar um einkamálefni einstaklingsins sem sanngjarnt væri og eðlilegt að færu leynt. Var ákvörðun sveitarfélagsins því staðfest.
-
13. júní 2024 /1204/2024. Úrskurður frá 13. júní 2024
Kærandi óskaði eftir upplýsingum um hvort Vestmannaeyjaferjan Herjólfur ohf. hefði gefið út mörg leyfi til undirmanna á Herjólfi til að stunda önnur launuð eða ólaunuð störf. Herjólfur synjaði beiðninni með vísan til þess að ekki væru veittar upplýsingar um starfssamband félagsins við starfsfólk þess. Í skýringum til úrskurðarnefndar um upplýsingamál kom fram að ekki lægi fyrir gagn með þeim upplýsingum sem kærandi óskaði eftir. Úrskurðarnefndin taldi samkvæmt þessu að ekki lægi fyrir ákvörðun sem kæranleg væri til nefndarinnar og staðfesti því ákvörðun Herjólfs.
-
13. júní 2024 /1203/2024. Úrskurður frá 13. júní 2024
Kærandi óskaði eftir upplýsingum um heildartölu úr bókhaldi Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. um sálfræðikostnað sem félagið hefði greitt árið 2023. Herjólfur synjaði beiðninni með vísan til þess að ekki væru veittar upplýsingar um starfssamband félagsins við starfsfólk þess. Í skýringum til úrskurðarnefndar um upplýsingamál kom fram að ekki lægi fyrir gagn með þeim upplýsingum sem kærandi óskaði eftir. Úrskurðarnefndin taldi samkvæmt þessu að ekki lægi fyrir ákvörðun sem kæranleg væri til nefndarinnar og staðfesti því ákvörðun Herjólfs.
-
13. júní 2024 /1202/2024. Úrskurður frá 13. júní 2024
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum varðandi innkaup ríkislögreglustjóra á skotvopnum, skotfærum og öðrum vörum í tengslum við leiðtogafund Evrópuráðsins sem fram fór á Íslandi í maí 2023. Ákvörðun ríkislögreglustjóra að synja beiðni kæranda um aðgang að upplýsingunum var byggð á 1. tölul. 10. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, og 2. málsl. 9. gr. sömu laga. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál lagði fyrir ríkislögreglustjóra að taka að nýju til meðferðar og afgreiðslu þann hluta beiðninnar sem laut að upplýsingum um skotvopn og skotfæri. Þá taldi nefndin að kærandi ætti rétt til aðgangs að sölureikningum varðandi kaup á fatnaði, hjálmum og fylgibúnaði.
-
13. júní 2024 /1201/2024. Úrskurður frá 13. júní 2024
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að greinargerð fyrrverandi setts ríkisendurskoðanda um starfsemi Lindarhvols ehf. Fjármála- og efnahagsráðuneyti synjaði beiðni kæranda með vísan til þess að greinargerðin væri undirorpin þagnarskyldu og að án samþykkis Ríkisendurskoðunar væri ráðuneytinu óheimilt að afhenda hana kæranda. Eftir að kæra í málinu barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál var greinargerðin birt af hálfu forsætisnefndar á vef Alþingis. Með vísan til þess taldi úrskurðarnefndin að þeir hagsmunir sem áður kynnu að hafa staðið afhendingu greinargerðarinnar í vegi væru niður fallnir og að ráðuneytinu bæri að afhenda hana kæranda.
-
13. júní 2024 /1200/2024. Úrskurður frá 13. júní 2024
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að umsögnum sem ríkislögmaður aflaði í tilefni af erindi til embættisins þar sem krafist var viðurkenningar á bótaskyldu. Ríkislögmaður synjaði beiðni kæranda með vísan til þess að gögnin teldust bréfaskipti við sérfróða aðila, sbr. 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi að umbeðnar umsagnir lytu að könnun á réttarstöðu hlutaðeigandi stjórnvalda vegna nærliggjandi möguleika á málshöfðun og að ríkislögmanni hefði þannig verið heimilt að takmarka aðgang kæranda að þeim. Ákvörðun ríkislögmanns var því staðfest.
-
07. júní 2024 /1199/2024. Úrskurður frá 7. júní 2024
Kæranda var synjað um aðgang að PDF-skjölum sem innihalda yfirlit úr málaskrá Garðabæjar yfir mál og gögn sem varða kæranda og dóttur hans. Ákvörðunin var byggð á því að skjölin uppfylltu ekki skilyrði þess að teljast gögn í skilningi upplýsingalaga, auk þess sem þau vörðuðu ekki tiltekið mál. Úrskurðarnefndin taldi að með því að færa skjáskot úr málaskrá sinni yfir á PDF-form hefði sveitarfélagið búið til gögn í skilningi upplýsingalaga, sem teldust fyrirliggjandi. Þá næði upplýsingaréttur einnig til tiltekinna fyrirliggjandi gagna þótt þau væru ekki hluti af ákveðnu máli. Nefndin taldi þannig að sveitarfélagið hefði ekki afgreitt beiðni kæranda á réttum lagagrundvelli og vísaði beiðninni til Garðabæjar til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.
-
05. júní 2024 /1198/2024. Úrskurður frá 5. júní 2024
Óskað var eftir gögnum hjá Útlendingastofnun um möguleg tengsl þeirra sem kæmu til Íslands á grundvelli fjölskyldusameiningar við Hamas-samtökin og gögnum sem sýndu að þeir sem kæmu til Íslands frá Gaza-svæðinu uppfylltu skilyrði reglugerðar um aðgerðir gegn hryðjuverkastarfsemi og ákvæða um heimild til að koma inn á Schengen-svæðið. Stofnunin hafnaði beiðninni með vísan til þess að ekki væru afhent gögn úr einstökum málum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi að stofnunin hefði ekki afgreitt beiðni kæranda í samræmi við upplýsingalög og vísaði beiðninni til Útlendingastofnunar til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.
-
05. júní 2024 /1197/2024. Úrskurður frá 5. júní 2024
Kærður var óhóflegur dráttur á afgreiðslu beiðni kæranda til Umhverfisstofnunar. Úrskurðarnefndin rakti að það væri ekki hlutverk nefndarinnar að skera úr um rétt til að fá svar við erindi sem bæri ekki með sér að vera beiðni um aðgang að gögnum. Talið var að erindi kæranda væri ekki gagnabeiðni og var kærunni því vísað frá nefndinni.
-
05. júní 2024 /1196/2024. Úrskurður frá 5. júní 2024
Óskað var eftir aðstoð úrskurðarnefndar um upplýsingamál við að fá svar frá Vinnueftirlitinu við erindi kæranda, þar sem fleiri en 30 virkir dagar væru liðnir frá því erindið var sent. Úrskurðarnefndin rakti að það væri ekki hlutverk nefndarinnar að skera úr um rétt til að fá svar við erindi sem bæri ekki með sér að vera beiðni um aðgang að gögnum. Talið var að erindi kæranda væri ekki gagnabeiðni og var kærunni því vísað frá nefndinni.
-
05. júní 2024 /1195/2024. Úrskurður frá 5. júní 2024
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál barst beiðni um endurupptöku tveggja mála sem lokið hafði með úrskurðum árin 2020 og 2022 og vörðuðu ákvarðanir Vinnueftirlitsins að synja beiðnum kæranda um upplýsingar um hvort borist hefði kvörtun um einelti af hálfu hans. Beiðandi kvað að hagsmunir hans af að fá þessar upplýsingar vægju þyngra en mögulegir hagsmunir annarra af því að upplýsingarnar færu leynt. Úrskurðarnefndin hafnaði beiðni um endurupptöku þar sem skilyrði samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, væru ekki uppfyllt og að ekki væru annmarkar á úrskurðum nefndarinnar sem gætu leitt til endurupptöku á ólögfestum grundvelli.
-
05. júní 2024 /1194/2024. Úrskurður frá 5. júní 2024
Óskað var eftir aðstoð úrskurðarnefndar um upplýsingamál við að fá svar frá dómsmálaráðuneyti við erindi kæranda. Úrskurðarnefndin rakti að það væri ekki hlutverk nefndarinnar að skera úr um rétt til að fá svar við erindi sem bæri ekki með sér að vera beiðni um aðgang að gögnum. Talið var að erindi kæranda væri ekki gagnabeiðni og var kærunni því vísað frá nefndinni.
-
05. júní 2024 /1193/2024. Úrskurður frá 5. júní 2024
Óskað var eftir aðstoð úrskurðarnefndar um upplýsingamál við að fá svar frá Vinnueftirlitinu við erindi kæranda, þar sem fleiri en 30 virkir dagar væru liðnir frá því erindið var sent. Úrskurðarnefndin rakti að það væri ekki hlutverk nefndarinnar að skera úr um rétt til að fá svar við erindi sem bæri ekki með sér að vera beiðni um aðgang að gögnum. Talið var að erindi kæranda væri ekki gagnabeiðni og var kærunni því vísað frá nefndinni.
-
05. júní 2024 /1192/2024. Úrskurður frá 5. júní 2024
Óskað var eftir aðstoð úrskurðarnefndar um upplýsingamál við að fá svar frá Vinnueftirlitinu við erindi kæranda, þar sem fleiri en 30 virkir dagar væru liðnir frá því erindið var sent. Úrskurðarnefndin rakti að það væri ekki hlutverk nefndarinnar að skera úr um rétt til að fá svar við erindi sem bæri ekki með sér að vera beiðni um aðgang að gögnum. Talið var að erindi kæranda væri ekki gagnabeiðni og var kærunni því vísað frá nefndinni.
-
05. júní 2024 /1191/2024. Úrskurður frá 5. júní 2024
Kærð var ófullnægjandi afgreiðsla Reykjanesbæjar á beiðni um aðgang að gögnum varðandi tiltekna lóð í Keflavík og byggingar sem byggðar höfðu verið á lóðinni. Reykjanesbær kvað að öll gögn sem lægju fyrir hjá sveitarfélaginu og heyrt gætu undir gagnabeiðnina hefðu verið afhent kæranda. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi sig ekki hafa forsendur til að draga þá staðhæfingu í efa. Voru þannig ekki fyrir hendi þær aðstæður sem kæruheimildir samkvæmt upplýsingalögum ná til, og var ákvörðun Reykjanesbæjar því staðfest.
-
16. maí 2024 /1190/2024. Úrskurður frá 16. maí 2024
Kæranda var synjað um aðgang að upplýsingum um hvaða fyrirtæki hefðu fengið endurgreiddan rannsóknar- og þróunarkostnað samkvæmt lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki og upphæð til hvers fyrirtækis. Skatturinn vísaði einkum til þess að upplýsingarnar væru undirorpnar þagnarskyldu samkvæmt lögum um tekjuskatt. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi að þær upplýsingar sem kærandi óskaði eftir væru undirorpnar þagnarskyldu og að í settum réttarreglum væri ekki að finna frávik frá þagnarskyldunni sem heimilaði að upplýsingarnar væru afhentar, þótt ákveðið hefði verið að afmarkaðar upplýsingar um stuðning á grundvelli laga nr. 152/2009 skyldu birtar opinberlega. Var ákvörðun Skattsins því staðfest.
-
16. maí 2024 /1189/2024. Úrskurður frá 16. maí 2024
Óskað var eftir gögnum hjá Félagsbústöðum hf. sem innihéldu upplýsingar um kvartanir og athugasemdir sem borist hafa félaginu vegna tiltekinnar íbúðar í eigu þess. Beiðninni var hafnað því gögnin innihéldu upplýsingar um einkamálefni leigjenda félagsins, sbr. 9. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, sem sanngjarnt væri og eðlilegt að færu leynt. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi að með hliðsjón af efni gagnanna væri erfiðleikum bundið að skilja þær upplýsingar sem féllu undir 9. gr. upplýsingalaga frá þeim upplýsingum sem veita mætti aðgang að. Var ákvörðun Félagsbústaða staðfest.
-
16. maí 2024 /1188/2024. Úrskurður frá 16. maí 2024
Kæranda var synjað um aðgang að gögnum í vörslum Faxaflóahafna sf. sem vörðuðu lóðirnar Klettagarða 7 og 9, með vísan til þess að þau væru vinnugögn í skilningi upplýsingalaga, fælu í sér bréfaskipti við sérfróða aðila, sbr. 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, og innihéldu upplýsingar um einkamálefni annarra. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál féllst ekki á rökstuðning Faxaflóahafna og lagði fyrir félagið að afhenda kæranda þau gögn sem kæran laut að.
-
16. maí 2024 /1187/2024. Úrskurður frá 16. maí 2024
Óskað var eftir gögnum og lista yfir málsgögn vegna máls hjá Seðlabanka Íslands sem varðaði miðlun Arion banka hf. á bankaupplýsingum kæranda til óviðkomandi aðila. Seðlabanki Íslands taldi gögnin vera undirorpin sérstakri þagnarskyldu sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 41. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi að kærandi ætti rétt til aðgangs að hluta þeirra upplýsinga sem væri að finna í gögnunum, meðal annars vegna þess að upplýsingarnar væri að finna í gagnsæistilkynningu vegna málsins sem birt var á vef Seðlabanka Íslands. Var því lagt fyrir Seðlabanka Íslands að afhenda þær upplýsingar. Úrskurðarnefndin féllst á að aðrar upplýsingar væru undirorpnar sérstakri þagnarskyldu. Þá var beiðnum kæranda að hluta til vísað til bankans til nýrrar meðferðar og afgreiðslu. Að öðru leyti voru ákvarðanir bankans staðfestar.
-
30. apríl 2024 /1186/2024. Úrskurður frá 30. apríl 2024
Kærð var töf á afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á beiðni um upplýsingar um hve stórt hlutfall íbúa með lögheimili í Vestmannaeyjabæ væri á vinnumarkaði. Af hálfu Vestmannaeyjabæjar kom fram að erindi kæranda fyndist ekki í skjalakerfi sveitarfélagsins. Úrskurðarnefndin taldi af þeim sökum að ekki gæti verið um drátt á afgreiðslu beiðninnar að ræða, og var kærunni vísað frá nefndinni.
-
30. apríl 2024 /1185/2024. Úrskurður frá 30. apríl 2024
Óskað var eftir lögregluskýrslum vegna tjóns á vatnsleiðslu. Lögreglan í Vestmannaeyjum synjaði beiðninni með vísan til þess að gögnin vörðuðu rannsókn sakamáls og féllu utan gildissviðs upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi að lögregluskýrslur vegna málsins teldust varða rannsókn sakamáls í skilningi 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, og vísaði kærunni frá nefndinni.
-
30. apríl 2024 /1184/2024. Úrskurður frá 30. apríl 2024
Óskað var upplýsinga hjá Hagstofu Íslands um töflu um fjölda foreldra sem andast. Kærandi taldi svör stofnunarinnar ófullnægjandi. Við meðferð málsins hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál kom í ljós að engin gögn lægju fyrir hjá stofnuninni sem heyrðu undir beiðni kæranda. Þar sem ekki lá fyrir kæranleg ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar var ákvörðun Hagstofu Íslands staðfest.
-
30. apríl 2024 /1183/2024. Úrskurður frá 30. apríl 2024
Ríkislögreglustjóri synjaði beiðni kæranda um aðgang að hljóðupptöku af símtali milli einstaklings og fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra. Synjunin byggðist á því að upptakan innihéldi upplýsingar sem vörðuðu einkamálefni annarra og að hagsmunir þeirra af því að upptakan færi leynt vægju þyngra en hagsmunir kæranda af að fá aðgang að henni. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi að hagsmunir kæranda af að fá aðgang að upptökunni væru ríkir og féllst á að kærandi ætti rétt til aðgangs að hljóðupptökunni.
-
30. apríl 2024 /1182/2024. Úrskurður frá 30. apríl 2024
Kærandi óskaði eftir gögnum um greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands í kostnaði við tannréttingar hans. Sjúkratryggingar Íslands fullyrtu að öll gögn málsins hjá stofnuninni hefðu verið afhent kæranda. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi að um aðgang að gögnum í máli um ákvörðun um greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands í kostnaði við tannlækningar og tannréttingar færi samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga. Kærunni var því vísað frá nefndinni.
-
30. apríl 2024 /1181/2024. Úrskurður frá 30. apríl 2024
Óskað var eftir gögnum um yfirtöku Orku náttúrunnar á rekstri hleðslustöðva hjá Vestmannaeyjabæ. Sveitarfélagið kvaðst ekki hafa heimild til að afhenda gögnin því Orka náttúrunnar legðist gegn afhendingu þeirra. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tók til skoðunar hvort 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, um takmarkanir á upplýsingarétti vegna samkeppnishagsmuna aðila í opinberri eigu stæði í vegi fyrir afhendingu gagnanna. Niðurstaða nefndarinnar var að svo væri ekki. Lagt var fyrir Vestmannaeyjabæ að afhenda kæranda gögnin.
-
21. mars 2024 /1180/2024. Úrskurður frá 21. mars 2024
Óskað var eftir reikningum vegna vinnu Íslaga ehf. fyrir fjármála- og efnahagsráðuneyti, án þess að upplýsingar um lýsingu á vinnu félagsins væru afmáðar. Ráðuneytið synjaði beiðninni með vísan til þess að upplýsingarnar vörðuðu efnahagslega mikilvæga hagsmuni ríkisins og ættu að fara leynt. Úrskurðarnefndin féllst ekki á að takmarka mætti upplýsingarétt kæranda á þeim grundvelli. Þá taldi nefndin að aðrar takmarkanir ættu að langstærstum hluta ekki við um upplýsingarnar. Ráðuneytinu var því gert að afhenda reikningana.
-
29. febrúar 2024 /1175/2024. Úrskurður frá 29. febrúar 2024
Óskað var eftir upplýsingum hjá Reykjavíkurborg um það hvort skólastjóri tiltekins skóla hefði sætt viðurlögum vegna atviks sem varðaði son kæranda. Reykjavíkurborg hafnaði beiðninni með vísan til þess að upplýsingarnar vörðuðu starfsmannamál sem réttur almennings samkvæmt upplýsingalögum næði ekki til. Úrskurðarnefndin taldi að gögn í málum um beitingu stjórnsýsluviðurlaga á borð við áminningu teldust varða starfssamband viðkomandi starfsmanns að öðru leyti í skilningi 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Ákvörðun Reykjavíkurborgar var því staðfest.
-
29. febrúar 2024 /1177/2024. Úrskurður frá 29. febrúar 2024
Kærð var töf á afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á beiðni um skýrslu Minjastofnunar Íslands og drög að kostnaðarmati. Af hálfu Vestmannaeyjabæjar kom fram að erindi kæranda hefði ekki borist sveitarfélaginu. Úrskurðarnefndin taldi af þeim sökum að ekki gæti verið um drátt á afgreiðslu beiðninnar að ræða, og var kærunni vísað frá nefndinni.
-
29. febrúar 2024 /1176/2024. Úrskurður frá 29. febrúar 2024
Kærð var töf á afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á beiðni um upplýsingar um íbúafjölda. Af hálfu Vestmannaeyjabæjar kom fram að erindi kæranda hefði ekki borist sveitarfélaginu. Úrskurðarnefndin taldi af þeim sökum að ekki gæti verið um drátt á afgreiðslu beiðninnar að ræða, og var kærunni vísað frá nefndinni.
-
29. febrúar 2024 /1179/2024. Úrskurður frá 29. febrúar 2024
Farið var fram á að úrskurðarnefnd um upplýsingamál tæki upp að nýju mál sem lauk með úrskurði nefndarinnar nr. 1165/2023, þar sem ekki hefðu enn borist gögn frá barnaverndarþjónustu Mið-Norðurlands. Úrskurðarnefndin taldi að skilyrði fyrir endurupptöku málsins samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga væru ekki uppfyllt. Þá væru ekki vísbendingar um að á úrskurði nefndarinnar væru verulegir annmarkar að lögum sem leitt gætu til endurupptöku málsins á ólögfestum grundvelli. Var beiðninni því hafnað.
-
29. febrúar 2024 /1178/2024. Úrskurður frá 29. febrúar 2024
Kærð var töf á afgreiðslu dómsmálaráðuneytis á beiðni um upplýsingar varðandi verktakavinnu á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum 2023 og beiðni um úrskurð um nánar tilgreind atriði. Af hálfu ráðuneytisins kom fram að erindi kæranda hefði verið svarað daginn eftir að kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni. Að mati nefndarinnar laut erindi kæranda til ráðuneytisins ekki að fyrirliggjandi gögnum í vörslum þess. Var kærunni því vísað frá úrskurðarnefndinni.
-
21. febrúar 2024 /1171/2024. Úrskurður frá 21. febrúar 2024
Óskað var eftir gögnum um rafræna hillumiða o.fl. hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Beiðninni var hafnað með vísan til þess að afhending gagnanna myndi skaða samkeppnishagsmuni ÁTVR og mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni Origo hf. Úrskurðarnefndin taldi að gögnin vörðuðu ráðstöfun opinberra fjármuna og að hagsmunir almennings af að fá aðgang að þeim vægju þyngra en hagsmunir Origo af því að þau færu leynt. Þá taldi nefndin að þó svo að fallist yrði á að ÁTVR ætti í samkeppni vörðuðu gögnin ekki svo verulega samkeppnishagsmuni ÁTVR að réttlætanlegt þætti að þeir gengju framar upplýsingarétti almennings. Úrskurðarnefndin lagði því fyrir ÁTVR að veita kæranda aðgang að gögnunum.
-
21. febrúar 2024 /1173/2024. Úrskurður frá 21. febrúar 2024
Óskað var eftir athugun dómsmálaráðuneytis á því hvers vegna þinglýstur lóðarleigusamningur fyndist ekki hjá Sýslumanninum í Vestmannaeyjum. Í kæru kom fram að erindinu hefði ekki verið svarað. Ráðuneytið kvað erindi kæranda ekki hafa borist. Úrskurðarnefndin taldi í samræmi við það að ekki væri hægt að líta svo á að dráttur hefði orðið á afgreiðslu erindis hans, og var kærunni vísað frá nefndinni.
-
21. febrúar 2024 /1172/2024. Úrskurður frá 21. febrúar 2024
Óskað var eftir lagalegri greiningu á málum fyrir alþjóðadómstólum sem varða átökin fyrir botni Miðjarðarhafs, sem rædd hefði verið á fundi ríkisstjórnarinnar. Utanríkisráðuneyti hafnaði beiðninni því minnisblöð til ríkisstjórnar væru undanþegin upplýsingarétti samkvæmt upplýsingalögum. Minnisblaðið hefði verið tekið saman fyrir fund ríkisstjórnarinnar. Úrskurðarnefndin taldi efni skjalsins styðja þá skýringu og var ákvörðun ráðuneytisins staðfest.
-
21. febrúar 2024 /1174/2024. Úrskurður frá 21. febrúar 2024
Kærandi taldi umboðsmann barna ekki hafa svarað erindum sínum efnislega með málefnalegum rökum og gerði þar að auki athugasemd við að erindunum væri svarað nafnlaust. Úrskurðarnefndin taldi að fyrirspurnir kæranda til umboðsmanns barna teldust ekki varða fyrirliggjandi gögn í vörslum stofnunarinnar. Því hefði ekki verið tekin ákvörðun í málinu sem væri kæranleg til úrskurðarnefndarinnar og var kærunni því vísað frá nefndinni.
-
18. janúar 2024 /1170/2024. Úrskurður frá 18. janúar 2024
Óskað var eftir kæru Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur til lögreglu í máli Vy-Þrifa ehf. Beiðninni var hafnað því kæran væri hluti af rannsókn sakamáls og þar með undanþegin gildissviði upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin taldi ljóst að eftirlitið hefði ekki það hlutverk með höndum að rannsaka mál til að komast að raun um hvort refsiverð háttsemi hefði verið viðhöfð. Þá væri ljóst að gagnið hefði orðið til eftir að eftirlitið ákvað að vísa málinu til lögreglu. Því yrði réttur til aðgangs að gagninu ekki byggður á ákvæðum upplýsingalaga og var kærunni vísað frá úrskurðarnefndinni.
-
18. janúar 2024 /1169/2024. Úrskurður frá 18. janúar 2024
Óskað var eftir gögnum Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. og Hildu ehf. í vörslum F fasteignafélags ehf. Beiðninni var hafnað með vísan til þess að félögin tvö hefðu verið undanþegin gildissviði upplýsingalaga meðan þau voru starfandi. Þá væri F fasteignafélag í slitameðferð og félli ekki undir gildissvið upplýsingalaga meðan á því stæði. Úrskurðarnefndin taldi að það að F fasteignafélag væri í slitameðferð þýddi ekki að félagið væri þar með undanþegið gildissviði laganna. Þá teldust gögn Eignasafns Seðlabanka Íslands og Hildu í vörslum F fasteignafélags vera undirorpin upplýsingarétti á grundvelli laganna. Beiðni kæranda var því vísað aftur til F fasteignafélags og lagt fyrir félagið að taka beiðnina til efnislegrar meðferðar og afgreiðslu.
-
03. janúar 2024 /1168/2023. Úrskurður frá 20. desember 2023
Kærendur óskuðu svara hjá matvælaráðuneyti um það til hvaða ákvæða í lögum um stjórn fiskveiða og lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands reglugerð nr. 477/2011, um bann við notkun haukalóða við lúðuveiðar, sækti lagastoð sína. Ráðuneytið staðhæfði að ekki lægju fyrir nein gögn sem svöruðu spurningu kærenda. Þeim hefði hins vegar verið leiðbeint um það til hvaða ákvæða væri eðlilegt að líta til við mat á lagastoð reglugerðarinnar. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi samkvæmt þessu að kærendum hefði ekki verið synjað um aðgang að gögnum, og var kærunni vísað frá úrskurðarnefndinni.
-
03. janúar 2024 /1167/2023. Úrskurður frá 20. desember 2023
Óskað var eftir upplýsingum hjá fjármála- og efnahagsráðuneyti um þann arf sem hefði tæmst til ríkissjóðs á grundvelli 55. gr. erfðalaga, nr. 8/1962, undanfarin fimm ár. Ráðuneytið kvað upplýsingarnar ekki liggja fyrir í ráðuneytinu og því væri ekki hægt að verða við beiðni kæranda. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi sig ekki hafa forsendur til að draga þá staðhæfingu í efa og var ákvörðun ráðuneytisins því staðfest.
-
03. janúar 2024 /1166/2023. Úrskurður frá 8. desember 2023
Óskað var eftir svari Vinnueftirlitsins við því hvort tiltekinn skíðahjálmur væri viðurkenndur við löndun á sama hátt og byggingarvinnuhjálmur. Stofnunin svaraði ekki kæranda og var málinu því vísað til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Vinnueftirlitið taldi að beiðni kæranda rúmaðist ekki innan gildissviðs upplýsingalaga þar sem ekki væri óskað aðgangs að fyrirliggjandi gögnum heldur eftir afstöðu stofnunarinnar. Úrskurðarnefndin féllst á það að beiðnin lyti ekki að fyrirliggjandi gögnum í vörslum stofnunarinnar. Var kærunni því vísað frá úrskurðarnefndinni.
-
03. janúar 2024 /1165/2023. Úrskurður frá 8. desember 2023
Kærandi gerði kröfu um að fá afhent gögn máls hjá barnaverndarþjónustu Mið-Norðurlands. Í svari barnaverndarþjónustunnar kom fram að beiðnin væri afgreidd samkvæmt tilteknum verklagsreglum. Við meðferð málsins hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál upplýsti barnaverndarþjónustan að unnið væri að því að taka gögnin saman fyrir kæranda. Nefndin taldi því að kæranda hefði ekki verið synjað um aðgang að gögnum. Var kærunni vísað frá úrskurðarnefndinni.
-
03. janúar 2024 /1164/2023. Úrskurður frá 8. desember 2023
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að símtali við fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra, þar sem óskað hafði verið eftir aðstoð lögreglu vegna kæranda, sem væri mættur í jarðarför óvelkominn. Ríkislögreglustjóri taldi að réttur kæranda byggðist á 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, en að 3. mgr. sömu greinar kæmi í veg fyrir að honum yrði veittur aðgangur að símtalinu. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi að kærandi hefði hagsmuni af því að fá heildstæða mynd af tildrögum og ástæðum þess að lögreglan var kölluð til. Féllst nefndin því á rétt kæranda til aðgangs að símtalinu.
-
03. janúar 2024 /1163/2023. Úrskurður frá 8. desember 2023
Kærandi óskaði eftir gögnum sem kynnt hefðu verið á fundi sveitarstjórnar sveitarfélags. Sveitarfélagið kvað gögnin aðeins hafa verið kynnt á fundinum en ekki afhent sveitarfélaginu. Þau teldust því ekki fyrirliggjandi í skilningi upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál vísaði til þess að sem sveitarstjórnarfulltrúi hefði kærandi rýmri rétt til aðgangs að umbeðnum gögnum á grundvelli 28. gr. sveitarstjórnarlaga en samkvæmt upplýsingalögum. Ákvörðun sveitarfélagsins yrði þannig ekki kærð til úrskurðarnefndarinnar og var kærunni því vísað frá nefndinni.
-
03. desember 2023 /1162/2023. Úrskurður frá 16. nóvember 2023
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að samningum sem Happdrætti Háskóla Íslands hefði gert um rekstur á happdrættisvélum. Synjun Happdrættis Háskóla Íslands var byggð á 2. málsl. 9. gr. og 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Úrskurðarnefndin taldi að samningarnir teldust ekki varða mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni viðsemjenda Happdrættis Háskóla Íslands og að 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga stæði aðgangi kæranda þannig ekki í vegi. Þá taldi nefndin að jafnvel þótt gögnin vörðuðu að einhverju leyti samkeppnisrekstur Happdrættis Háskóla Íslands fælu þau ekki í sér upplýsingar sem væru til þess fallnar að valda Happdrætti Háskóla Íslands tjóni ef veittur yrði aðgangur að þeim. Var Happdrætti Háskóla Íslands því gert skylt að afhenda kæranda samningana.
-
03. desember 2023 /1161/2023. Úrskurður frá 16. nóvember 2023
Málið varðaði beiðni til ríkislögreglustjóra um gögn sem vörðuðu brottvísun umbjóðanda beiðandans. Ríkislögreglustjóri taldi umboð beiðanda ekki vera gilt og leit því svo á að réttur hans færi samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, um upplýsingarétt almennings. Úrskurðarnefndin taldi að það umboð sem lægi fyrir í málinu skyldi teljast gilt og að ríkislögreglustjóra hefði borið að afgreiða beiðni beiðanda líkt og hún hefði komið frá umbjóðanda hans. Á hinn bóginn væri til þess að líta að ákvörðun um brottvísun teldist ákvörðun um rétt eða skyldu, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga giltu lögin ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum. Kærunni var því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál
-
03. desember 2023 /1160/2023. Úrskurður frá 16. nóvember 2023
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tók að nýju upp mál nefndarinnar sem lyktaði með úrskurðum nr. 935/2020, 1009/2021 og 1020/2021. Í málunum komst nefndin að þeirri niðurstöðu að ríkisskattstjóra væri óheimilt að afhenda upplýsingar um hlutafjáreign úr gögnum sem tengjast skráningu raunverulegra eigenda, sbr. lög nr. 82/2019. Kærandi í framangreindum þremur málum vísaði til þess að upplýsingar um hlutafjáreign fólks væru ekki viðkvæmar og að hann teldi túlkun nefndarinnar á 9. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, vera ranga. Úrskurðarnefndin vísaði til þess að í nóvember 2022 hefði Evrópudómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu að 30. gr. tilskipunar (ESB) 2015/849, með síðari breytingum, sem veitti almenningi aðgang að ákveðnum upplýsingum um raunverulega eigendur, fæli í sér brot á þeim grundvallarréttindum sem tryggð væru í 7. og 8. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi. Ákvæði réttindaskrárinnar ættu sér nokkra hliðstæðu í 71. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Við mat á því hvaða upplýsingar yrðu felldar undir 9. gr. upplýsingalaga teldi úrskurðarnefndin að hafa þyrfti hliðsjón af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu, en við túlkun dómstólsins á 8. gr. sáttmálans væri nú höfð hliðsjón af fyrrnefndum dómi Evrópudómstólsins. Ganga yrði út frá því við túlkun 9. gr. upplýsingalaga að löggjafinn hafi ekki ætlað að ganga í berhögg við alþjóðlegar skuldbindingar á sviði mannréttinda. Með hliðsjón til þessa taldi nefndin ekki forsendur til annars en að staðfesta þær efnislegu niðurstöður sem komist var að í úrskurðum nefndarinnar nr. 935/2020, 1009/2021 og 1020/2021.
-
03. desember 2023 /1159/2023. Úrskurður frá 8. nóvember 2023
Deilt var um rétt kæranda, sem er blaðamaður, til aðgangs að upplýsingum um tollskrárnúmer farms og eðli farmsins um borð í tilteknu flugi flugfélagsins Ukraine Air Alliance, sem lenti á Keflavíkurflugvelli í lok júlí 2023. Synjun Skattsins byggðist á því að upplýsingarnar væru undirorpnar sérstakri þagnarskyldu, sbr. 188. gr. tollalaga, nr. 88/2005, og því væri Skattinum óheimilt að afhenda kæranda gögn sem innihaldi upplýsingarnar. Úrskurðarnefndin rakti að nefndin hefði slegið því föstu að ákvæðið væri sérstakt þagnarskylduákvæði að því er varðaði upplýsingar um viðskipti einstakra manna og fyrirtækja. Nefndin taldi að þau gögn sem óskað væri aðgangs að innihéldu slíkar upplýsingar. Því var ákvörðun Skattsins staðfest.
-
03. desember 2023 /1158/2023. Úrskurður frá 8. nóvember 2023
Kærðar voru til úrskurðarnefndarinnar tafir á afgreiðslu landlæknis á beiðni um gögn, en beiðninni hafði verið vísað til embættisins til nýrrar meðferðar og afgreiðslu með úrskurði nefndarinnar nr. 1088/2022. Beiðnin hljóðaði á um aðgang að nánar tilgreindum og sundurliðuðum upplýsingum um spítalainnlagnir og legudaga vegna COVID-19-sjúkdómsins, inflúensu og aukaverkana bólusetninga á tilteknu tímabili. Landlæknir tók fram að ekki stæði til að synja beiðni kæranda heldur væri beðið eftir samþykki fyrir því að fá að samkeyra heilbrigðisskrár embættisins til að unnt væri að afgreiða beiðnina. Þar sem ekki lægi fyrir synjun beiðni um aðgang að gögnum var kærunni vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
-
03. desember 2023 /1157/2023. Úrskurður frá 8. nóvember 2023
Deilt var um rétt til aðgangs að tillögum að fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2023 og framkvæmdaáætlun fyrir árin 2023–2033 sem voru til umræðu á fundi bæjarstjórnar í nóvember 2022. Af hálfu Ísafjarðarbæjar var aðallega vísað til þess að gögnin teldust til vinnugagna í skilningi upplýsingalaga og því væri heimilt að undanþiggja þau upplýsingarétti almennings. Úrskurðarnefndin taldi að gögnin uppfylltu skilyrði þess að teljast vinnugögn í skilningi 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga, en að hluti þeirra innihéldi upplýsingar um atvik máls sem ekki væri að finna annars staðar, sbr. 3. tölul. 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga. Sveitarfélagið vísaði til þess að upplýsingarnar skyldu vera undanþegnar aðgangi kæranda samkvæmt bæði 9. gr. og 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin taldi sveitarfélagið ekki hafa rökstutt þá afstöðu með fullnægjandi hætti og vísaði þeim hluta kæruefnisins til nýrrar meðferðar og afgreiðslu hjá Ísafjarðarbæ, en staðfesti að öðru leyti ákvörðun sveitarfélagsins.
-
03. desember 2023 /1156/2023. Úrskurður frá 8. nóvember 2023
Sýn hf. óskaði eftir því að úrskurðarnefnd um upplýsingamál tæki upp að nýju mál sem lauk með úrskurði nefndarinnar nr. 1086/2022. Í úrskurðinum var lagt til grundvallar að gögn úr botnrannsókn sem Farice ehf. hefði annast við strendur Íslands árið 2021 teldust ekki vera fyrirliggjandi hjá fjarskiptasjóði. Úrskurðarnefndin lagði þann skilning í endurupptökubeiðni að beiðandi teldi að nefndin hefði ekki átt að leggja til grundvallar að gögn úr botnrannsókn við strendur Íslands teldust ekki fyrirliggjandi hjá fjarskiptasjóði, þar sem nánast öruggt mætti telja að rannsóknin hefði verið greidd úr ríkissjóði en ekki af Farice. Nefndin taldi að úrskurður nefndarinnar hefði ekki byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða að niðurstöður hans hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að hann var kveðinn upp. Þá taldi nefndin röksemdir kæranda ekki leiða í ljós vísbendingar um að á úrskurðinum væru verulegir annmarkar að lögum. Beiðni um endurupptöku var því hafnað.
-
30. október 2023 /1155/2023. Úrskurður frá 20. október 2023
Kærandi óskaði eftir að fá afhent gögn frá Reykjavíkurborg sem vörpuðu ljósi á það fyrirkomulag sem væri viðhaft hjá borginni varðandi ráðstöfun fræsisvarfs. Reykjavíkurborg afhenti kæranda nokkurt magn af gögnum sem vörðuðu fræsun malbiksslitlaga. Af hálfu Reykjavíkurborgar var fullyrt að engin frekari gögn lægju fyrir sem fallið gætu undir beiðni kæranda. Úrskurðarnefndin hafði ekki forsendur til að draga þá staðhæfingu í efa og var ákvörðun Reykjavíkurborgar því staðfest.
-
30. október 2023 /1154/2023. Úrskurður frá 20. október 2023
Deilt var um synjun Tækniskólans á beiðni kæranda um aðgang að skýrslu sálfræði- og ráðgjafastofunnar Lífs og sálar um athugun á fylgni skólans við lög og reglugerðir. Úrskurðarnefndin rakti að gildissvið upplýsingalaga næði til einkaaðila, meðal annars þegar þeim væri falið að sinna þjónustu sem kveðið væri á um í lögum að stjórnvald skyldi sinna. Tækniskólinn væri að öllu leyti í eigu einkaaðila. Að mati nefndarinnar gætu starfsmannamál skólans hins vegar ekki talist vera hluti af þeirri opinberu þjónustu sem skólanum væri falið að veita samkvæmt lögum um framhaldsskóla. Var kærunni því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
-
30. október 2023 /1153/2023. Úrskurður frá 20. október 2023
Deilt var um synjun Akraneskaupstaðar á beiðni kæranda um aðgang að skipulagslýsingum sem lagðar höfðu verið fram á fundi skipulags- og umhverfisnefndar sveitarfélagsins. Meðan málið var til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni voru kæranda afhend gögnin. Þar sem ljóst var að ekki lægi lengur fyrir ákvörðun að synja kæranda um aðgang að gögnum var kærunni vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
-
30. október 2023 /1152/2023. Úrskurður frá 20. október 2023
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að gögnum sem Tryggingastofnun afhendir félags- og vinnumarkaðsráðuneyti vegna eftirlits með framkvæmd fjárlaga. Synjun ráðuneytisins var á því byggð að gögnin væru vinnugögn í skilningi upplýsingalaga, sem aðeins hefðu verið afhent ráðuneytinu sem eftirlitsaðila og misstu þannig ekki stöðu sína sem vinnugögn þótt þau hefðu verið afhent út fyrir Tryggingastofnun. Úrskurðarnefndin taldi hluta gagnanna ekki uppfylla það skilyrði upplýsingalaga að hafa verið útbúin af Tryggingastofnun til eigin nota. Þau gögn sem eftir stæðu uppfylltu skilyrði þess að teljast vinnugögn og að þau misstu ekki stöðu sína sem slík þótt þau hefðu verið afhent ráðuneytinu, þar sem Tryggingastofnun væri skylt að lögum að afhenda þau. Beiðni kæranda var vísað til félags- og vinnumarkaðsráðuneytis til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.
-
02. október 2023 /1151/2023. Úrskurður frá 31. ágúst 2023
Kæranda, sem er fréttamaður, var synjað um aðgang að stefnu og greinargerð Sinfóníuhljómsveitar Íslands í nánar tilgreindu dómsmáli. Ákvörðun Sinfóníuhljómsveitar Íslands byggðist á því að um viðkvæm gögn væri að ræða sem vörðuðu einstaklinga, auk þess sem gögnin væru liður í dómsmáli. Úrskurðarnefndin taldi engum vafa undirorpið að gögnin lytu að einkamálefnum þeirra einstaklinga sem um ræðir, sem sanngjarnt væri og eðlilegt að leynt færu, sbr. 1. málsl. 9. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Þá væri það verulegum erfiðleikum bundið að skilja þær upplýsingar sem féllu undir undantekningarákvæði laganna frá þeim upplýsingum sem veita mætti aðgang að. Var ákvörðun Sinfóníuhljómsveitar Íslands því staðfest.
-
02. október 2023 /1150/2023. Úrskurður frá 31. ágúst 2023
Kærandi bað sveitarfélagið Garðabæ um yfirlit úr málaskrá sveitarfélagsins sem tengdist eldri gagnabeiðnum hans og upplýsingar um það hvaða gögn voru afhent í hvert skipti. Afstaða sveitarfélagsins var sú að kærandi hefði þegar fengið slíkt yfirlit afhent, þótt afhendingin hefði ekki verið í formi skjáskota úr málaskrá sveitarfélagsins. Úrskurðarnefndin taldi að kærandi hefði ekki afmarkað beiðni sína við tilgreind mál eða tilgreind gögn, og þannig ekki uppfyllt skilyrði 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, um tilgreiningu gagna. Var ákvörðun Garðabæjar því staðfest.
-
02. október 2023 /1149/2023. Úrskurður frá 31. ágúst 2023
Matvælastofnun synjaði kæranda um aðgang að gögnum sem lægju til grundvallar birtingu á tölfræði um afföll eldisfiska í sjókvíum í mælaborði fiskeldis á vef stofnunarinnar. Ákvörðunin byggðist aðallega á því að gögnin teldust ekki fyrirliggjandi í skilningi upplýsingalaga, því þau tilheyrðu gagnagrunni stofnunarinnar. Í skýringum Matvælastofnunar kom fram að hægt væri að draga út úr gagnagrunninum allar upplýsingar, þ.m.t. þær sem synjað var um, og flytja yfir í excel-skjal án mikillar fyrirhafnar. Úrskurðarnefndin taldi í ljósi þeirra skýringa og með hliðsjón af ákvæði 15. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, að gögnin teldust í reynd vera fyrirliggjandi í skilningi upplýsingalaga. Var því ákvörðun Matvælastofnunar felld úr gildi og beiðni kæranda vísað til stofunarinnar til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.
-
22. ágúst 2023 /1148/2023. Úrskurður frá 26. júlí 2023
A kærði synjun barnaverndarþjónustu Garðabæjar á beiðni hans um aðgang að öllum gögnum máls í barnaverndarmáli dóttur sinnar. Úrskurðarnefndin taldi að um rétt kæranda til aðgangs að gögnunum gilti ákvæði 45. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og yrði því ágreiningur um aðgang að þeim borinn undir úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 6. gr. laga nr. 80/2002. Var málinu því vísað frá.
-
22. ágúst 2023 /1147/2023. Úrskurður frá 26. júlí 2023
Kærð var synjun dómsmálaráðuneytisins á beiðni A, fréttamanns, um aðgang að minnisblaði ráðherra sem lagt var fyrir á ríkisstjórnarfundi, um sjónarmið Almannavarna um samgöngumál á Austfjörðum. Úrskurðarnefndin taldi ljóst að minnisblaðið til ríkisstjórnar Íslands hefði verið lagt fyrir ráðherrafund og því undanþegin upplýsingarétti almennings með vísan til 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Synjun ráðuneytisins á afhendingu minnisblaðisins var því staðfest.
-
22. ágúst 2023 /1146/2023. Úrskurður frá 26. júlí 2023
Deilt var um rétt kærenda til aðgangs að gögnum í vörslum Samgöngustofu sem vörðuðu ábendingar og athuganir stofnunarinnar á tilteknum flugmanni og félagi hans. Synjun Samgöngustofu byggðist á því gögnin væru undirorpin sérstakri þagnarskyldu samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 119/2012, og girti fyrir aðgang kærenda að gögnunum samkvæmt upplýsingalögum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi ekki unnt að líta á ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga nr. 119/2012 sem sérstakt þagnarskylduákvæði gagnvart þeim upplýsingum sem beiðni kærenda í málinu beindist að, heldur færi úrlausn þess eftir ákvæðum upplýsingalaga. Af þeim sökum var það niðurstaða nefndarinnar að Samgöngustofa hefði ekki leyst úr beiði kærenda á réttum lagagrundvelli. Var beiðni kærenda því vísað til Samgöngustofu til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.
-
25. júní 2023 /1145/2023. Úrskurður frá 5. júní 2023
Kærð var synjun Biskupsstofu á beiðni kæranda um aðgang að tiltalsbréfi biskups Íslands. Synjun Biskupsstofu var á því byggð að starfsemi þjóðkirkjunnar félli ekki lengur undir gildissvið upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin rakti þær breytingar sem gerðar hefðu verið á lögum um þjóðkirkjuna og komst að þeirri niðurstöðu að þjóðkirkjan teldist ekki til stjórnvalda í skilningi 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga. Var það því niðurstaða nefndarinnar að synjun Biskupsstofu félli ekki undir gildissvið upplýsingalaga og kærunni vísað frá.
-
30. maí 2023 /1144/2023. Úrskurður frá 22. maí 2023
Kærð var afgreiðsla Háskólans á Bifröst á beiðni kæranda um aðgang að verkefni sem unnið hefði verið við skólann. Fyrir lá að kærandi hefði skjalið þegar undir höndum, að undanskilinni forsíðu þess þar sem fram komu upplýsingar um það hverjir hefðu unnið verkefnið. Synjunin var á því byggð að skilyrði til vinnslu samkvæmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga væru ekki uppfyllt og af þeim sökum mætti háskólinn ekki afhenda gagnið. Úrskurðarnefndin taldi að meðferð háskólans á máli kæranda hefði ekki samræmst ákvæði 1. mgr. 19. gr. upplýsingalaga. Beiðni kæranda hefði því ekki hlotið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem nefndinni væri fært að endurskoða og lagði úrskurðarnefndin því fyrir Háskólann á Bifröst að taka málið til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.
-
30. maí 2023 /1143/2023. Úrskurður frá 22. maí 2023
Kærð var afgreiðsla Norðurmiðstöðvar á beiðni um gögn. Í kjölfar uppkvaðningar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar nr. 1071/2022 voru kæranda afhent gögn en hann felldi sig ekki við efni gagnanna. Úrskurðarnefndin taldi að í málinu hefði kæranda ekki verið synjað um aðgang að gögnum. Var kærunni því vísað frá nefndinni.
-
17. maí 2023 /1142/2023. Úrskurður frá 28. apríl 2023
Deilt var um rétt kæranda, blaðamanns, til aðgangs að ákvörðunum nefndar um eftirlit með lögreglu á tilteknu tímabili. Synjunin byggði á því að afgreiðsla beiðninnar tæki svo mikinn tíma og krefðist svo mikillar vinnu að ekki væri af þeim sökum fært að verða við henni, sbr. 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin taldi beiðni kæranda ekki geta talist svo umfangsmikla að hún teldist til þeirra undantekningartilvika sem fallið geti undir 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Ákvörðunin var því felld úr gildi og lagt fyrir nefnd um eftirlit með lögreglu að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.
-
17. maí 2023 /1141/2023. Úrskurður frá 28. apríl 2023
Kærð var synjun sveitarfélagsins Múlaþings á beiðni kæranda, blaðamanns, um aðgang að tveimur greinargerðum lögmanns. Synjun Múlaþings var byggð á 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga, um að réttur almennings til aðgangs að gögnum taki ekki til bréfaskipta við sérfróða aðila í tengslum við réttarágreining eða til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfðað. Úrskurðarnefndin féllst ekki á að sveitarfélaginu hefði verið heimilt að synja kæranda um aðgang að gögnunum með vísan til 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Var sveitarfélaginu því gert að afhenda kæranda aðgang að greinargerðunum.
-
17. maí 2023 /1140/2023. Úrskurður frá 28. apríl 2023
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að frásögnum starfsmanna grunnskóla sem sendar voru stéttarfélögum starfsmannanna og vörðuðu m.a. samskipti þeirra við kæranda. Synjun Garðabæjar var byggð á því að gögnin innihéldu samskipti starfsmanna sveitarfélagsins við stéttarfélög sín og varði því einkamálefni þeirra samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga. Leyst var úr rétti kæranda til aðgangs að gögnunum samkvæmt 14. gr. upplýsingalaga. Var það mat úrskurðarnefndarinnar að hagsmunir starfsmannanna af því að ekki væri heimilaður aðgangur að skjalinu vægju þyngra en hagsmunir kæranda af því að fá aðgang að því, sbr. 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Var synjun Garðabæjar því staðfest.
-
17. maí 2023 /1139/2023. Úrskurður frá 28. apríl 2023
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að samningum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um veitingu lögfræðiþjónustu á sex ára tímabili. Synjunin var aðallega byggð á því að umbeðin gögn teldust ekki fyrirliggjandi í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin taldi að þau tölvupóstssamskipti sem um var deilt vera tiltekin fyrirliggjandi gögn, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, óháð þeirri fyrirhöfn, vinnu og kostnaði sem af kynni að hljótast við að afmarka þau og taka saman. Þá taldi úrskurðarnefndin heilsugæsluna ekki hafa rökstutt nægilega að undantekningarregla 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga ætti við i málinu. Að mati úrskurðarnefndarinnar hafði beiðnin ekki hlotið þá málsmeðferð sem upplýsingalög gera kröfu um. Ákvörðunin var því felld úr gildi og lagt fyrir heilsugæsluna að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.
-
19. apríl 2023 /1138/2023. Úrskurður frá 5. apríl 2023
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum úr viðtölum sem tengiliður vistheimila hefði aflað í starfi sínu fyrir dómsmálaráðuneytið. Ráðuneytið synjaði fyrirspurnum kæranda með vísan til þess að ráðuneytinu væri ófært að svara þeim án þess að veittar væru upplýsingar um einkamálefni sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari og falli undir 9. gr. upplýsingalaga, en veitti þó upplýsingar um fjórðu spurningu kæranda að því er varðaði vistheimilið Breiðavík. Úrskurðarnefndin féllst ekki á að hægt væri að útloka fyrir fram að lögmætt væri að afhenda einhver þeirra gagna, eða hluta þeirra, sem innihéldu þær upplýsingar sem falla kynnu undir beiðni kæranda. Af þeim sökum væri ráðuneytinu nauðsynlegt að skoða gögnin í heild sinni með hliðsjón af öllum fjórum töluliðum beiðni kæranda áður en efnisleg ákvörðun væri tekin í málinu. Var beiðni kæranda því vísað til ráðuneytisins til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.
-
12. apríl 2023 /1137/2023. Úrskurður frá 29. mars 2023
Kærð var afgreiðsla sveinsprófsnefndar í rafiðngreinum og Rafmenntar—fræðsluseturs rafiðnaðarins á beiðni um aðgang að gögnum sem sveinsprófsnefnd notaði til að meta færni kæranda og gefa honum einkunn á sveinsprófi. Þar sem ákvörðun um einkunnagjöf til lokaprófs væri ákvörðun um rétt eða skyldu í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og kærandi væri aðili að því stjórnsýslumáli, væri ljóst að upplýsingalög giltu ekki um gögn málsins. Var kærunni því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
-
12. apríl 2023 /1136/2023. Úrskurður frá 29. mars 2023
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að gögnum í vörslu Bankasýslu ríkisins sem innihéldu lista yfir kaupendur sem keyptu hlutabréf í Íslandsbanka hf. í júní 2021 fyrir hærri upphæð en 1.001.088 kr. Úrskurðarnefndin taldi að gögnin hefðu að geyma upplýsingar sem undirorpnar væru sérstakri þagnarskyldu samkvæmt 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 151/2002, og því næði upplýsingaréttur kæranda ekki til gagnanna.
-
12. apríl 2023 /1135/2023. Úrskurður frá 8. mars 2023
Endurvinnslan hf. synjaði kæranda um aðgang að upplýsingum um það hve mörgum plastflöskum, áldósum, stáldósum og glerflöskum framleiðendur og innflytjendur hefðu greitt af árin 2019–2021, og hve mörgum þessara íláta hefði verið skilað inn til Endurvinnslunnar á sama tímabili. Synjunin var á því byggð að það kynni að varða við samkeppnislög að veita upplýsingarnar þar sem um sé að ræða markaðsupplýsingar. Úrskurðarnefndin taldi að meðferð Endurvinnslunnar á máli kæranda hefði ekki samræmst ákvæði 1. mgr. 19. gr. upplýsingalaga. Auk þess verður ekki séð að Endurvinnslan hafi fjallað um málið á réttum lagagrundvelli. Var beiðni kæranda því vísað til Endurvinnslunnar að nýju til meðferðar og afgreiðslu.
-
12. apríl 2023 /1134/2023. Úrskurður frá 8. mars 2023
Kærð var synjun Innheimtustofnunar sveitarfélaga á beiðni um aðgang að tilteknum samningum sem gerðir hefðu verið milli stofnunarinnar og Creditinfo Lánstrausts frá árinu 2003. Í skýringum stofnunarinnar til úrskurðarnefndar um upplýsingamál kom fram að samningar með því efni sem kærandi óskaði eftir lægju ekki fyrir hjá stofnuninni. Þar sem ekki teldist um synjun að ræða í skilningi 20. gr. upplýsingalaga var kærunni vísað frá úrskurðarnefndinni.
-
12. apríl 2023 /1133/2023. Úrskurður frá 8. mars 2023
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að fundargerðum bankaráðs Seðlabanka Íslands á tilteknu tímabili. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál féllst á það með Seðlabanka Íslands að fundargerðirnar væru undirorpnar sérstakri þagnarskyldu samkvæmt 1. mgr. 41. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019. Þá hafði nefndin ekki forsendur til þess að kveða á um skyldu bankans til að veita kæranda aðgang að hluta þeirra. Var ákvörðun bankans því staðfest.
-
12. apríl 2023 /1132/2023. Úrskurður frá 8. mars 2023
Kærð var synjun Lindarhvols ehf. á beiðni kæranda um aðgang að minnisblöðum frá lögmannsstofu til forsætisnefndar Alþingis ásamt álitsgerð. Synjunin byggði á því að gagnanna hefði verið aflað í tengslum við réttarágreining sem þá hefði verið til meðferðar hjá forsætisnefnd Alþingis, sbr. 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál féllst ekki á að Lindarhvoli hefði verið heimilt að synja kæranda um aðgang að gögnunum á þeim grundvelli, þar sem ekki væri um að ræða atvik sem leggja mætti að jöfnu við málshöfðun til dómstóla eða sjálfstæðrar kærunefndar í skilningi ákvæðisins. Var félaginu því gert að veita kæranda aðgang að minnisblöðunum tveimur ásamt álitsgerð.
-
08. mars 2023 /1131/2023. Úrskurður frá 20. febrúar 2023
Kærð var afgreiðsla Landspítala á beiðni um aðgang að upplýsingum um sambýliskonu kæranda. Úrskurðarnefndin taldi umbeðnar upplýsingar vera sjúkraskrárupplýsingar í skilningi laga um sjúkraskrár, nr. 55/2009. Þá hafði nefndin ekki forsendur til annars en að leggja til grundvallar að upplýsingarnar væru aðeins vistaðar í sjúkraskrá konunnar. Ákvörðun að synja um aðgang að slíkum upplýsingum væri ekki kæranleg til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, þar sem lög um sjúkraskrár mæltu fyrir um sérstaka kæruleið í slíkum málum og teldust þannig sérlög gagnvart upplýsingalögum. Var kærunni því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
-
08. mars 2023 /1130/2023. Úrskurður frá 20. febrúar 2023
Kærð var afgreiðsla Skattsins á beiðni um aðgang að tilteknum bindandi álitum tollyfirvalda um tollflokkun. Skatturinn afgreiddi beiðni kæranda við meðferð málsins hjá nefndinni og afhenti hluta umbeðinna gagna, þar sem afmáðar höfðu verið upplýsingar með vísan til 1. mgr. 188. gr. tollalaga, nr. 88/2005. Úrskurðarnefndin vísaði til þess að ákvæðið teldist sérstakt þagnarskylduákvæði að því er varðaði upplýsingar um viðskipti einstakra manna og fyrirtækja. Var það mat úrskurðarnefndarinnar að þær upplýsingar sem höfðu verið afmáðar teldust í heild sinni falla undir ákvæðið og því næði upplýsingaréttur kæranda ekki til þeirra.
-
08. mars 2023 /1129/2023. Úrskurður frá 20. febrúar 2023
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum um annars vegar aðila sem nýttu sér fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands og hins vegar upplýsingum um stöðugleikasamninga. Synjun Seðlabankans var byggð á því að upplýsingarnar væru undirorpnar sérstakri þagnarskyldu samkvæmt 1. mgr. 41. gr. laga nr. 92/2019. Úrskurðarnefndin staðfesti synjunina og tók fram að valdheimildir nefndarinnar næðu ekki til þess að leggja mat á það hvort og þá hvernig Seðlabankinn nýti þá heimild sem bankanum er veitt í 6. mgr. 41. gr. laga nr. 92/2019 til að birta upplýsingar opinberlega sem undirorpnar eru þagnarskyldu samkvæmt 1. mgr. sama ákvæðis.
-
08. mars 2023 /1128/2023. Úrskurður frá 27. febrúar 2023
Landsnet hf. synjaði kæranda um aðgang að gögnum sem innihéldu staðsetningar loftlínumastra fyrirtækisins á miðhálendi Íslands. Synjunin var á því byggð að gögnin teldust ekki fyrirliggjandi í skilningi upplýsingalaga, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna, auk þess sem upplýsingarnar vörðuðu öryggi ríkisins, sbr. 1. tölul. 10. gr. sömu laga. Úrskurðarnefndin taldi að sá hluti þeirrar skrár sem afhent var nefndinni sem innihéldi staðsetningar loftlínumastra á öllu landinu teldist tiltekið fyrirliggjandi gagn í skilningi upplýsingalaga. Hins vegar væri Landsneti óskylt á grundvelli laganna að útbúa gagn sem innihéldi staðsetningar loftlínumastra aðeins á miðhálendi Íslands, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Kærunni var því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
-
14. febrúar 2023 /1127/2023. Úrskurður frá 30. janúar 2023
Blaðamaður kærði synjun Barna- og fjölskyldustofu á beiðni hans um gögn sex meðferðarheimila. Synjunin byggði á því að afgreiðsla beiðninnar tæki svo mikinn tíma og krefðist svo mikillar vinnu að ekki væri af þeim sökum fært að verða við henni, sbr. 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga, enda þyrfti að yfirfara gögnin og afmá viðkvæmar persónugreinanlegar upplýsingar, sbr. 9. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi að í ljósi umfangs beiðninnar og viðkvæms eðlis gagnanna ætti undantekning 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga við í málinu og staðfesti ákvörðun Barna- og fjölskyldustofu.
-
14. febrúar 2023 /1126/2023. Úrskurður frá 30. janúar 2023
Kærð var ákvörðun ríkislögreglustjóra um að synja kæranda um aðgang að gögnum. Meðan málið var til meðferðar hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál lést kærandi. Nefndin taldi að réttur kæranda til aðgangs að umbeðnum gögnum teldist varða persónubundin réttindi hans með þeim hætti að dánarbú hans eða erfingjar gætu ekki átt lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins á sama grundvelli og kærandi. Af þeim sökum var óhjákvæmilegt að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.
-
14. febrúar 2023 /1125/2023. Úrskurður frá 30. janúar 2023
Kærð var synjun Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. á beiðni um aðgang að niðurstöðu úttektar mannauðsráðgjafa. Synjun félagsins var byggð á því að um vinnugagn væri að ræða í skilningi 8. gr. upplýsingalaga, sbr. 5. tölul. 6. gr. laganna, auk þess sem umbeðin gögn vörðuðu málefni starfsmanna, sem undanþegin væru upplýsingarétti almennings á grundvelli 7. gr. laganna. Úrskurðarnefndin taldi úttektina ekki uppfylla skilyrði upplýsingalaga fyrir því að teljast vinnugagn, þar sem hún var unnin af utanaðkomandi fyrirtæki. Þá taldi nefndin að takmörkunarákvæði 7. gr. upplýsingalaga gæti ekki átt við um skjalið í heild. Var ákvörðunin því felld úr gildi og lagt fyrir félagið að taka beiðnina til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.
-
14. febrúar 2023 /1124/2023. Úrskurður frá 30. janúar 2023
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að tölfræðiupplýsingum hjá utanríkisráðuneyti í tengslum við breytingar á reglugerð um vegabréf. Þar sem fyrir lá að þær upplýsingar sem óskað var eftir höfðu ekki verið teknar saman tók úrskurðarnefndin afstöðu til þeirra fyrirliggjandi gagna sem hefðu að geyma umbeðnar upplýsingar. Úrskurðarnefndin taldi ótvírætt að gögnin féllu undir ákvæði 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga og staðfesti synjun utanríkisráðuneytisins.
-
14. febrúar 2023 /1123/2023. Úrskurður frá 30. janúar 2023
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að tölfræðiupplýsingum hjá utanríkisráðuneyti í tengslum við breytingar á reglugerð um vegabréf. Þar sem fyrir lá að þær upplýsingar sem óskað var eftir höfðu ekki verið teknar saman tók úrskurðarnefndin afstöðu til þeirra fyrirliggjandi gagna sem hefðu að geyma umbeðnar upplýsingar. Úrskurðarnefndin taldi ótvírætt að gögnin féllu undir ákvæði 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga og staðfesti synjun utanríkisráðuneytisins.
-
05. janúar 2023 /1122/2022. Úrskurður frá 19. desember 2022
Kærð var synjun Orkuveitu Reykjavíkur á beiðni um aðgang að upplýsingum um nöfn umsækjenda um stöðu forstjóra félagsins. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál vísaði til þess að samkvæmt 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga næði réttur almennings almennt ekki til gagna í málum sem vörðuðu umsóknir um starf hjá þeim aðilum sem heyrðu undir upplýsingalög. Undantekningar frá þessari reglu væru hins vegar að finna vegna umsókna um opinbera starfsmenn en þá væri skylt að veita upplýsingar um nöfn og starfsheiti umsækjenda um starf þegar umsóknar frestur væri liðinn. Úrskurðarnefndin taldi hugtakið opinbera starfsmenn aðeins taka til starfsmanna stjórnvalda. Því gæti ákvæði 2. mgr. 7. gr. upplýsingalaga ekki átt við um starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur, þar sem félagið væri ekki stjórnvald heldur lögaðili í meirihlutaeigu hins opinbera, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna. Var það því niðurstaða nefndarinnar að félaginu hefði verið heimilt að synja beiðni kæranda um nöfn umsækjenda.
-
05. janúar 2023 /1121/2022. Úrskurður frá 19. desember 2022
Kærð var afgreiðsla Heilbrigðiseftirlits Suðurlands á beiðni kæranda um áætlun fyrirtækisins Terra um hreinsun á úrgangi. Heilbrigðiseftirlit Suðurlands kvað gögnin ekki fyrirliggjandi en vísaði kæranda á vefsíðu sína þar sem upplýsingar um málið væru aðgengilegar. Úrskurðarnefndin hafði ekki forsendur til að rengja þá staðhæfingu Heilbrigðiseftirlits Suðurlands að áætlunin lægi ekki fyrir hjá eftirlitinu. Þar sem ekki lá fyrir synjun á beiðni um aðgang að gögnum var kærunni vísað frá úrskurðarnefndinni.
-
05. janúar 2023 /1120/2022. Úrskurður frá 19. desember 2022
Í málinu gerði kærandi athugasemdir við að tiltekin símtöl sem hann hefði óskað aðgangs að hjá Kópavogsbæ væru ekki til í formi upptöku. Þá var deilt um synjun Kópavogsbæjar á beiðni hans um lista yfir símtöl milli tiltekins einstaklings og skipulagsdeildar bæjarins. Loks laut kæran að aðfinnslum kæranda við skjölun og vistun gagna hjá bænum. Úrskurðarnefndin hafði ekki forsendur til að rengja þá staðhæfingu að þau símtöl sem kærandi óskaði aðgangs að hefðu ekki verið hljóðrituð. Þá taldi úrskurðarnefndin að Kópavogsbæ væri óskylt að búa til lista yfir símtöl við skipulagsdeild bæjarins, með vísan til 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Loks kæmi það í hlut annarra aðila en úrskurðarnefndarinnar að hafa eftirlit með því hvernig sveitarfélög sinntu skyldum sínum um skráningu og vistun gagna. Var kærunni því vísað frá úrskurðarnefndinni.
-
05. janúar 2023 /1119/2022. Úrskurður frá 19. desember 2022
Deilt var um afgreiðslu Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. á beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum um starfsmannaveltu hjá félaginu. Félagið kvað slíkar upplýsingar ekki vera fyrirliggjandi, auk þess sem þær væru undanþegnar upplýsingarétti samkvæmt 7. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Úrskurðarnefndin hafði ekki forsendur til að rengja þá staðhæfingu Herjólfs að upplýsingar um starfsmannaveltu hjá félaginu væru ekki fyrirliggjandi. Þá væri Herjólfi ekki skylt að taka saman þau gögn þar sem umbeðnar upplýsingar væri að finna, þar sem ljóst þætti að slík gögn heyrðu undir takmörkunarákvæði 7. gr. upplýsingalaga. Þar sem ekki lá fyrir synjun á beiðni um aðgang að gögnum var kærunni vísað frá úrskurðarnefndinni.
-
05. janúar 2023 /1118/2022. Úrskurður frá 19. desember 2022
Kærð var synjun Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. á beiðni um aðgang að skjali með úrbótaáætlun vegna ýmissa þátta í rekstri Herjólfs. Synjun félagsins var byggð á því að um vinnugögn væri að ræða sem heimilt væri að undanþiggja aðgangi kæranda með vísan til 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga, sbr. 8. gr. sömu laga. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál fór yfir gögnin og taldi að félaginu hefði verið heimilt að synja kæranda um aðgang að skjalinu. Var ákvörðun félagsins því staðfest.
-
05. janúar 2023 /1117/2022. Úrskurður frá 19. desember 2022
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum vegna ráðgjafarvinnu lögmannstofu fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið á tilteknu tímabili. Kæranda höfðu verið afhentir reikningar þar sem afmáðar voru að hluta til m.a. upplýsingar um einingarverð og magn með vísan til 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Að mati úrskurðarnefndarinnar var ekki nægilega í ljós leitt að umræddar upplýsingar næðu til svo mikilvægra fjárhags- eða viðskiptahagsmuna að þær væru sérstaklega til þess fallnar að valda lögmannsstofunni tjóni yrðu þær gerðar opinberar. Þá taldi nefndin að viðskiptahagsmunir lögmannsstofunnar vægju ekki eins þungt og hagsmunir almennings að upplýsingum um ráðstöfun opinberra hagsmuna. Var því lagt fyrir ráðuneytið að afhenda kæranda þá reikninga sem afhentir voru án þess að afmáðar væru upplýsingar um tímagjald og -fjölda og upplýsingar um hvenær vinna lögmannsstofunnar var innt af hendi.
-
05. janúar 2023 /1116/2022. Úrskurður frá 19. desember 2022
Kærð var synjun Lyfjastofnunar á beiðni um aðgang að samantekt um aukaverkanir vegna Covid-19-bóluefna sem innihéldi sundurliðun á því hvaða skammtur bóluefnis hefði valdið aukaverkun. Ákvörðun Lyfjastofnunar byggðist á því að slík samantekt væri ekki fyrirliggjandi og að stofnuninni væri óskylt að búa hana til, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Var það mat úrskurðarnefndarinnar að slík samantekt teldist ekki fyrirliggjandi í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga þar sem ekki væri hægt að kalla upplýsingar þar að lútandi fram með tiltölulega einföldum hætti úr gagnagrunni stofnunarinnar. Var kærunni því vísað frá.
-
05. janúar 2023 /1115/2022. Úrskurður frá 19. desember 2022
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að gögnum hjá Háskóla Íslands sem vörðuðu hann sjálfan. Ákvörðun háskólans byggðist á því að þau gögn sem aðgangur kæranda skyldi takmarkaður að teldust vera vinnugögn í skilningi 8. gr. upplýsingalaga, sbr. 5. tölul. 6. gr. sömu laga. Úrskurðarnefndin taldi að stærstur hluti gagnanna tilheyrði stjórnsýslumáli kæranda, en fyrir lá að honum hafði verið sagt upp störfum hjá háskólanum. Sá hluti kærunnar heyrði ekki undir gildissvið upplýsingalaga, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna. Nefndin féllst á að þau gögn sem eftir stæðu uppfylltu skilyrði upplýsingalaga fyrir því að teljast vinnugögn og að háskólanum hefði verið heimilt að synja kæranda um aðgang að þeim. Var ákvörðun Háskóla Íslands því staðfest en kærunni að öðru leyti vísað frá.
-
20. desember 2022 /1114/2022. Úrskurður frá 5. desember 2022
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að gögnum um greiðslur sem Isavia hefur fengið vegna sérleyfa um verslun með útivistarfatnað og minjagripi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á tilteknu tímabili. Synjun Isavia byggðist annars vegar á því að hluti gagnanna heyrði ekki undir gildissvið upplýsingalaga samkvæmt 3. mgr. 36. gr. upplýsingalaga og hins vegar að meðferð beiðninnar um þau gögn sem eftir stæðu útheimti svo mikinn tíma og vinnu að ekki sé fært að verða við henni, sbr. 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. laganna. Úrskurðarnefndin féllst ekki á að yfirferð á reikningum gæti tekið svo langan tíma að undantekningarákvæði 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. ætti við. Ákvörðun Isavia var því felld úr gildi og lagt fyrir félagið að taka málið til nýrrar meðferðar og afgreiðslu en kærunni var að öðru leyti vísað frá.
-
20. desember 2022 /1113/2022. Úrskurður frá 5. desember 2022
Kærð var afgreiðsla Ísafjarðarbæjar á beiðni kæranda í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 1077/2022, þar sem beiðninni hafði verið vísað aftur til Ísafjarðarbæjar til nýrrar meðferðar og afgreiðslu. Samkvæmt Ísafjarðarbæ lágu þau gögn sem kærandi óskaði eftir ekki fyrir hjá sveitarfélaginu. Þar sem ekki teldist um synjun að ræða í skilningi 20. gr. upplýsingalaga var kærunni vísað frá nefndinni.
-
20. desember 2022 /1112/2022. Úrskurður frá 5. desember 2022
Deilt var um afgreiðslu sveitarfélags á beiðni kæranda um aðgang að gögnum sem vörðuðu málefni og starfslok kæranda hjá sveitarfélaginu. Sveitarfélagið taldi að öll umbeðin gögn hefðu verið afhent kæranda, að undanskildum tilteknum tölvupóstssamskiptum sem væru undanþegin afhendingarskyldu samkvæmt 3. og 4. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin féllst hvorki á að sveitarfélaginu hafi verið heimilt að synja kæranda um aðgang að gögnunum með vísan til 3. tölul. 6. gr. laganna, né að önnur takmörkunarákvæði upplýsingalaga ættu við um gögnin. Var sveitarfélaginu því gert að veita kæranda aðgang að samskiptum við almannatengil og lögmann, en kærunni var að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefndinni.
-
20. desember 2022 /1111/2022. Úrskurður frá 5. desember 2022
Kærð var synjun heilbrigðisráðuneytis á beiðni um aðgang að samningum íslenska ríkisins um kaup á bóluefnum gegn COVID-19. Synjun ráðuneytisins byggðist aðallega á því að mikilvægir almannahagsmunir krefðust þess að aðgangur kæranda yrði takmarkaður, sbr. 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin féllst á það með ráðuneytinu að umbeðin gögn hefðu að geyma upplýsingar um samskipti við önnur ríki og fjölþjóðastofnanir sem mikilvægir almannahagsmunir stæðu til að færu leynt. Að fenginni þeirri niðurstöðu var að mati nefndarinnar óþarft að kanna hvort skilyrði 9. gr. upplýsingalaga væru uppfyllt til takmörkunar á rétti kæranda til aðgangs. Var synjun ráðuneytisins því staðfest.
-
25. nóvember 2022 /1110/2022. Úrskurður frá 16. nóvember 2022
Kærð var afgreiðsla Reykjavíkurborgar á beiðni kæranda um gögn í tengslum við umsókn um byggingarleyfi vegna óleyfisframkvæmda. Reykjavíkurborg kvað engin gögn sem heyrðu undir gagnabeiðni kæranda vera fyrirliggjandi. Úrskurðarnefndin hafði ekki forsendur til að rengja þær staðhæfingar Reykjavíkurborgar og hefði að auki ekki valdheimildir til að ganga úr skugga um hvort gögnin væru til, þrátt fyrir að kærandi teldi slíkt vera hafið yfir vafa. Að mati nefndarinnar var þannig ekki um að ræða synjun um aðgang að fyrirliggjandi gögnum, sbr. 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga, og kærunni því vísað frá.
-
25. nóvember 2022 /1109/2022. Úrskurður frá 16. nóvember 2022
Kærð var afgreiðsla Reykjavíkurborgar á beiðni kæranda um gögn um tilurð götumerkinga í Bankastræti. Kæran barst rúmlega 14 mánuðum eftir að kærufrestur skv. 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga rann út. Úrskurðarnefndin taldi skilyrði 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga ekki uppfyllt og var kærunni því vísað frá.
-
25. nóvember 2022 /1108/2022. Úrskurður frá 16. nóvember 2022
Í málinu var deilt um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum um hvort kvartað hefði verið til Vinnueftirlitsins vegna eineltis af hálfu kæranda sem og vinnugögnum í vörslum stofnunarinnar. Það var mat úrskurðarnefndarinnar að 2. til 4. málsliður 2. mgr. 83. gr. laga nr. 46/1980 fæli í sér sérstaka þagnarskyldureglu um upplýsingar sem vörðuðu umkvartanir til Vinnueftirlitsins. Þannig væri ljóst að upplýsingar um hvort kvartað hafi verið til stofnunarinnar vegna eineltis á vinnustað, sem og gögn stofnunarinnar sem fjalla kynnu um slíka umkvörtun, féllu undir þagnarskylduákvæðið. Taldi úrskurðarnefndin því að Vinnueftirlitinu væri óheimilt að veita kæranda slíkar upplýsingar og staðfesti ákvörðun stofnunarinnar að þessu leyti en kærunni var að öðru leyti vísað frá.
-
11. nóvember 2022 /1107/2022. Úrskurður frá 2. nóvember 2022
Kærð var synjun dómsmálaráðuneytis á beiðni um aðgang að minnispunktum ráðuneytisins af fundi fulltrúa ráðuneytisins með namibískri sendinefnd. Synjunin byggðist á 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga en samkvæmt greininni er heimilt að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast enda hafi þau að geyma upplýsingar um samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál fór yfir gögnin sem kæranda var synjað um aðgang að og taldi að ráðuneytinu hefði verið heimilt að synja kæranda um aðgang að gögnunum. Var ákvörðun ráðuneytisins því staðfest.
-
11. nóvember 2022 /1106/2022. Úrskurður frá 2. nóvember 2022
Barna- og fjölskyldustofa synjaði kæranda um aðgang að bréfi frá fjölskyldu- og félagsþjónustu með beiðni um lögreglurannsókn og bréfi frá lögreglustjóra sem vörðuðu kæranda. Úrskurðarnefndin taldi gögnin ótvírætt tilheyra rannsókn sakamáls og yrði aðgangur að þeim því ekki byggður á ákvæðum upplýsingalaga, sbr. 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga. Var því óhjákvæmilegt að vísa kærunni frá nefndinni.
-
11. nóvember 2022 /1105/2022. Úrskurður frá 2. nóvember 2022
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að áfangaskýrslu starfshóps um starfsemi og starfshætti Samgöngustofu frá október 2017 í heild sinni. Innviðaráðuneytið afhenti stærstan hluta skýrslunnar á grundvelli 1. mgr. 11. gr. upplýsingalaga, en afmáði aðra hluta með vísan til þess að um vinnugögn væri að ræða samkvæmt 5. tölul. 6. gr., sbr. 8. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin taldi skýrsluna ekki uppfylla skilyrði upplýsingalaga fyrir því að teljast vinnugagn, þar sem hún var afhent Samgöngustofu. Þá taldi nefndin ekki að önnur undanþáguákvæði upplýsingalaga ættu við. Var innviðaráðuneytinu því gert að afhenda skýrsluna án útstrikana.
-
11. nóvember 2022 /1104/2022. Úrskurður frá 2. nóvember 2022
Deilt var um rétt kæranda, fréttamanns, til aðgangs að gögnum í tengslum við fyrirætlanir um toll- og landamæraskoðun á vegum bandarískra stjórnvalda á Keflavíkurflugvelli. Synjun Isavia ohf. byggðist m.a. á 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga en samkvæmt greininni er heimilt að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast enda hafi þau að geyma upplýsingar um samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál fór yfir gögnin sem kæranda var synjað um aðgang að og taldi að Isavia hefði verið heimilt að synja kæranda um aðgang að gögnunum. Var synjun félagsins því staðfest.
-
31. október 2022 /1100/2022. Úrskurður frá 19. október 2022
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum um starfsheiti, föst launakjör og fastar greiðslur til starfsmanna Landspítala sem eru félagsmenn Eflingar stéttarfélags. Synjun Landspítala var á því byggð að stéttarfélagsaðild geti ekki talist lögmæt afmörkun fyrirspurnar um störf og launakjör starfsmanna, enda teldist stéttarfélagsaðild til viðkvæmra persónuupplýsinga. Úrskurðarnefndin rakti að upplýsingar um stéttarfélagsaðild teldust vera upplýsingar sem sanngjarnt og eðlilegt væri að færu leynt í skilningi 9. gr. upplýsingalaga. Þótt gögnin innihéldu ekki nöfn starfsmanna taldi nefndin að kæranda yrði engu að síður fært að persónugreina starfsmennina með notkun viðbótarupplýsinga, og þannig öðlast upplýsingar um stéttarfélagsaðild þeirra. Var ákvörðun Landspítala því staðfest.
-
31. október 2022 /1102/2022. Úrskurður frá 19. október 2022
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að fundargerðum ráðherranefndar um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins, frá þeim fundum þar sem rætt hafi verið um fyrirkomulag við seinna útboð á hlutabréfum ríkisins í Íslandsbanka. Ákvörðun forsætisráðuneytis að synja beiðni kæranda studdist við 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga þar sem fram kemur að réttur almennings til aðgangs að gögnum nái ekki til fundargerða ríkisráðs og ríkisstjórnar, minnisgreina á ráðherrafundum eða gagna sem tekin hafa verið saman fyrir slíka fundi. Úrskurðarnefndin féllst á að gögnin teldust til minnisgreina af ráðherrafundum í skilningi ákvæðisins og staðfesti ákvörðun ráðuneytisins.
-
31. október 2022 /1103/2022. Úrskurður frá 19. október 2022
Í málinu var kærð töf ríkisendurskoðanda á afgreiðslu beiðni kæranda um upplýsingar. Í 4. mgr. 15. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016, kæmi fram að ákvarðanir ríkisendurskoðanda um aðgang að gögnum sættu ekki kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Af framangreindu leiddi að töf ríkisendurskoðanda á afgreiðslu beiðni um aðgang að gögnum yrði ekki kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Varð því að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni.
-
31. október 2022 /1101/2022. Úrskurður frá 19. október 2022
Landspítali synjaði kæranda um aðgang að rótargreiningu sem spítalinn lét framkvæma vegna fráfalls eiginmanns kæranda, á þeim grundvelli að um vinnugagn væri að ræða. Úrskurðarnefndin rakti skilyrði upplýsingalaga fyrir því að gagn gæti talist vinnugagn og féllst á að skilyrðin væru uppfyllt. Á hinn bóginn taldi nefndin að rótargreiningin kynni að innihalda upplýsingar um atvik máls auk þess sem þar væri lýsing á vinnureglum eða stjórnsýsluframkvæmd á viðkomandi sviði. Nefndin taldi sig hins vegar ekki hafa forsendur til að taka afstöðu til þess fyrst á kærustigi hvaða upplýsingar í skjalinu skyldu afhentar kæranda. Var hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og lagt fyrir Landspítala að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.
-
31. október 2022 /1099/2022. Úrskurður frá 19. október 2022
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að samningi milli dótturfélags Ríkisútvarpsins og Storytel um heimild til að dreifa hljóðbókum Ríkisútvarpsins á streymisveitu Storytel. Synjun Ríkisútvarpsins byggðist á því að samningurinn varðaði mikilvæga viðskiptahagsmuni Storytel auk þess sem almannahagsmunir krefðust þess að hann færi leynt þar sem Ríkisútvarpið væri að þessu leyti í samkeppni við aðra. Úrskurðarnefndin taldi að um rétt kæranda færi samkvæmt 14. gr. upplýsingalaga, sem varðar upplýsingar um aðila sjálfan. Þá taldi nefndin að viðskiptahagsmunir Storytel og samkeppnislegir hagsmunir Ríkisútvarpsins vægju ekki eins þungt og hagsmunir kæranda af því að fá aðgang að samningnum. Var því lagt fyrir Ríkisútvarpið að afhenda kæranda samninginn.
-
13. október 2022 /1098/2022. Úrskurður frá 5. október 2022
Kærðar voru tafir Tryggingastofnunar á beiðni kæranda um upplýsingar. Af hálfu Tryggingastofnunar kom fram að erindi kæranda hefði ekki borist stofnuninni og hefði því litið á erindi úrskurðarnefndarinnar sem framsendingu á erindi kæranda sem stofnunin svaraði í kjölfarið. Var því ekki um að ræða synjun á aðgangi að gögnum sem kæranleg væri til nefndarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga og kærunni vísað frá.
-
13. október 2022 /1097/2022. Úrskurður frá 5. október 2022
Kærð var afgreiðsla Borgarbyggðar á beiðni kæranda um afrit úr dagbók eða málaskrá slökkviliðsins á tilteknu tímabili. Af hálfu sveitarfélagsins kom fram að ekki væri til nein skrá yfir inn- og útsend erindi hjá slökkviliðinu og að engin gögn um það mál sem kærandi vísaði til lægju fyrir hjá slökkviliðinu. Úrskurðarnefndin hafði ekki forsendur til að draga þær staðhæfingar Borgarbyggðar í efa. Að mati nefndarinnar var þannig ekki um að ræða synjun um aðgang að fyrirliggjandi gögnum, sbr. 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga, og kærunni því vísað frá.
-
13. október 2022 /1096/2022. Úrskurður frá 5. október 2022
Reykjavíkurborg afhenti kæranda gögn um samskipti Reykjavíkurborgar við lóðarhafa á Einimel í tengslum við deiliskipulagstillögu en afmáð öll nöfn einstaklinga og eftir atvikum netföng þeirra og símanúmer úr gögnunum. Að því er varðaði útstrikanir á nöfnum starfsmanna Reykjavíkurborgar féllst úrskurðarnefndin ekki á að slíkar upplýsingar teldust til einkamálefna einstaklinga í skilningi 9. gr. upplýsingalaga. Var ákvörðunin því felld úr gildi og Reykjavíkurborg gert að afhenda kæranda gögnin án útstrikana á nöfnum einstaklinga en skylt að strika yfir upplýsingar um einkanetföng og -símanúmer, enda lægi ekki fyrir að þær hafi verið birtar með lögmætum hætti.
-
13. október 2022 /1095/2022. Úrskurður frá 5. október 2022
Deilt var um afgreiðslu Matvælastofnunar á beiðni kæranda um upplýsingar. Matvælastofnun vísaði frá erindi kæranda þar sem það lyti ekki að afhendingu gagna og uppfyllti þar af leiðandi ekki skilyrði upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin taldi hluta beiðninnar ekki hafa hlotið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem nefndinni væri fært að endurskoða og lagði fyrir Matvælastofnun að taka málið til nýrrar meðferðar. Að öðru leyti var kærunni vísað frá þar sem beiðni kæranda lyti ekki að afhendingu gagna.
-
13. október 2022 /1094/2022. Úrskurður frá 5. október 2022
Kærð var synjun Fiskistofu á beiðni kæranda um aðgang að upptökum úr dróna sem sýndu brottkast á fiski. Kæran barst rúmum mánuði eftir að kærufrestur skv. 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga rann út. Úrskurðarnefndin taldi skilyrði 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga ekki uppfyllt og var kærunni því vísað frá.
-
21. september 2022 /1093/2022. Úrskurður frá 29. ágúst 2022
Kærð var töf á afgreiðslu skrifstofu Alþingis á beiðni um aðgang að stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar um framkvæmda- og rekstrarkostnað Landeyjahafnar. Úrskurðarnefndin rakti að skv. 4. mgr. 2. gr. upplýsingalaga sættu ákvarðanir Alþingis ekki kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Því væri óhjákvæmilegt að vísa kærunni frá nefndinni. Úrskurðarnefndin vakti athygli kæranda á því að stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar væri aðgengileg í heild sinni á vef Ríkisendurskoðunar.
-
21. september 2022 /1092/2022. Úrskurður frá 29. ágúst 2022
Kærandi felldi sig ekki við það hvernig Garðabær hefði staðið að afhendingu gagna um sig, konu sína og dóttur þeirra. Af því tilefni beindi kærandi spurningum til úrskurðarnefndar um upplýsingamál m.a. um það hvort um refsivert athæfi sé að ræða þegar aðili sem fellur undir gildissvið upplýsingalaga ýmist afhendir gögn sem eru efnislega röng eða upplýsir ekki beiðanda um það að tiltekin gögn sem liggja fyrir séu ekki afhent, og hver séu viðurlög við slíku. Úrskurðarnefndin taldi að í málinu hefði kæranda ekki verið synjað um aðgang að gögnum. Kæran sneri að atriðum sem féllu utan valdsviðs nefndarinnar og var henni því vísað frá úrskurðarnefndinni.
-
21. september 2022 /1091/2022. Úrskurður frá 29. ágúst 2022
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið synjaði kærendum um aðgang að greinargerð fyrrverandi félagsmanna samtakanna Hugarafls um starfs- og stjórnunarhætti samtakanna og framkomu formanns gagnvart félagsmönnum. Synjunin byggðist á því að hagsmunir þeirra sem hefðu tjáð sig í greinargerðinni vægju þyngra en hagsmunir kærenda af því að fá aðgang að henni, þar sem í greinargerðinni kæmu fram upplýsingar um einkamálefni þeirra sem sanngjarnt og eðlilegt væri að færu leynt. Úrskurðarnefndin taldi að um rétt kærenda til aðgangs færi skv. 14. gr. upplýsingalaga. Taldi nefndin að kærendur hefðu hagsmuni af því að fá aðgang að greinargerðinni m.a. þar sem hún hefði orðið tilefni neikvæðrar fjölmiðlaumfjöllunar um samtökin. Var því lagt fyrir ráðuneytið að veita kærendum aðgang að greinargerðinni að hluta, sbr. 3. mgr. 5. gr., en því gert skylt að afmá tilteknar upplýsingar um einkamálefni þeirra sem rituðu greinargerðina.
-
21. september 2022 /1090/2022. Úrskurður frá 29. ágúst 2022
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að gögnum um greiðslur sem Isavia hefur fengið vegna sérleyfa um verslun með útivistarfatnað og minjagripi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á tilteknu tímabili. Synjun Isavia byggðist á 9. gr. þar sem upplýsingarnar vörðuðu mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni þriðju aðila. Þá hélt Isavia fram að gögnin lægju ekki fyrir í skilningi upplýsingalaga heldur væru þau á mismunandi stöðum í bókhaldi félagsins og hefðu ekki verið tekin saman. Úrskurðarnefndin féllst ekki á það og taldi málsmeðferð Isavia ekki hafa verið fullnægjandi. Var beiðni kæranda því vísað til Isavia til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.
-
31. júlí 2022 /1089/2022. Úrskurður frá 12. júlí 2022
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að minnisblöðum sem tekin voru saman og rituð af hálfu Sjúkratrygginga Íslands og send heilbrigðisráðuneytinu í tengslum við fyrirhugaðar samningaviðræður ríkisins við einkareknar heilsugæslustöðvar. Ákvörðun SÍ um að synja beiðni kæranda um aðgang að umbeðnum gögnum byggist á 5. tölul. 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga og 3. tölul. sömu greinar laganna. Af hálfu SÍ er vísað til þess að umrædd gögn snerti framkvæmd þjónustusamnings SÍ við kæranda og aðrar einkareknar heilsugæslustöðvar og verði nýtt í tengslum við fyrirhugaðar samningaviðræður þessara aðila. Verulegir hagsmunir séu í húfi fyrir ríkið þar sem samningarnir séu fjármagnaðir úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Opinberun slíkra skjala geti haft áhrif á samningastöðu ríkisins í fyrirhuguðum samningaviðræðum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi vandséð hvernig afhending gagnanna gæti haft þau áhrif sem 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga áskilur. Þá taldi nefndin ekki unnt að fallast á það með Sjúkratryggingum Íslands að aðgangur kæranda að umræddum minnisblöðum yrði takmarkaður í heild eða að hluta með vísan til 3. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Var Sjúkratryggingum Íslands því gert að afhenda kæranda gögnin.
-
31. júlí 2022 /1088/2022. Úrskurður frá 12. júlí 2022
Deilt var um afgreiðslu landlæknis á beiðni kæranda um aðgang að nánar tilgreindum og sundurliðuðum upplýsingum um spítalainnlagnir og legudaga vegna COVID-19, inflúensu og aukaverkana bólusetninga á tilteknu tímabili. Ákvörðunin var reist á því að umbeðnar upplýsingar væru ekki fyrirliggjandi hjá embættinu í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga og jafnframt að meðferð beiðninnar útheimti svo mikinn tíma og vinnu að ekki sé fært að verða við henni, sbr. 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. laganna. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál báru gögn málsins það ekki með sér að kæranda hefði verið leiðbeint og honum veitt færi á að afmarka beiðni sína nánar, sbr. 3. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 7. gr. og 10. gr. stjórnsýslulaga. Að mati úrskurðarnefndarinnar hafði beiðnin ekki hlotið þá málsmeðferð sem upplýsingalög gera kröfu um. Ákvörðun landlæknis var því felld úr gildi og lagt fyrir embættið að taka beiðnina til nýrrar og lögmætrar meðferðar.
-
31. júlí 2022 /1087/2022. Úrskurður frá 12. júlí 2022
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að skýrslu eftirlitsmanns með framkvæmdum við grunnskólann í Borgarnesi vegna vandamála sem komu upp á verktíma vegna hönnunar verksins. Synjun Borgarbyggðar var byggð á 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga, um að réttur almennings til aðgangs að gögnum taki ekki til bréfaskipta við sérfróða aðila í tengslum við réttarágreining eða til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfðað. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál fékk ekki séð að hið umbeðna gagn fæli í sér sérfræðilega álitsgerð um réttarstöðu sveitarfélagsins vegna réttarágreinings eða dómsmáls sem hafi verið höfðað. Þá yrði ekki talið að um væri að ræða könnun á réttarstöðu sveitarfélagsins við mat á því hvort slíkt mál skuli höfðað eða vegna krafna sem hafi verið hafðar uppi við sveitarfélagið af öðrum. Var Borgarbyggð því gert að afhenda kæranda gagnið.
-
31. júlí 2022 /1086/2022. Úrskurður frá 12. júlí 2022
Fjarskiptasjóður synjaði Sýn hf. um aðgang að gögnum úr botnrannsókn, sem sjóðurinn gerði samkomulag um að Farice ehf. annaðist í tengslum við lagningu nýs fjarskiptasæstrengs milli Íslands og Írlands. Synjun fjarskiptasjóðs var byggð á 9. gr. og 1. og 3. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál féllst á það með fjarskiptasjóði að mikilvægir öryggishagsmunir íslenska ríkisins gætu staðið til þess að leynd ríkti um gögnin, sbr. 1. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Með hliðsjón af því að ákvæðið þyrfti að skýra tiltölulega rúmt taldi nefndin að fjarskiptasjóði hefði verið heimilt að synja kæranda um aðgang að gögnum úr botnrannsókn sem gerð var í efnahagslögsögu Írlands árið 2020.
-
31. júlí 2022 /1085/2022. Úrskurður frá 12. júlí 2022
Skatturinn synjaði kæranda um aðgang að gögnum vegna fundar Skattsins (þá Tollstjóra) með innflytjendum og tollmiðlurum í tengslum við áreiðanleikakannanir Skattsins til að kanna gæði gagna í innflutningi. Synjunin var byggð á þagnarskylduákvæði 188. gr. tollalaga, nr. 88/2005, og 9. gr. upplýsingalaga. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál fól 188. gr. tollalaga í sér sérstaka þagnarskyldureglu að því er varðar upplýsingar um viðskipti einstakra manna og fyrirtækja, þ.m.t. hvers konar vitneskju sem ráða megi af samritum af sölu- og vörureikningum sem tollyfirvöld halda eftir. Taldi nefndin að gögnin féllu undir þagnarskylduákvæði tollalaga. Ákvörðun Skattsins var því staðfest.
-
31. júlí 2022 /1084/2022. Úrskurður frá 21. júní 2022
Kærðar voru tafir á afgreiðslu beiðna kæranda um viðbrögð Garðabæjar við nánar tilgreindum úrskurðum Persónuverndar og spurningum sem kærandi beindi til sveitarfélagsins í tengslum við þá. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi að af upplýsingalögum yrði ekki leidd skylda stjórnvalda til að svara almennum fyrirspurnum sem hafa ekki tengsl við gögn í vörslum stjórnvalda, með vísan til þess hvernig hlutverk nefndarinnar væri afmarkað í 20. gr. upplýsingalaga. Var því kærunum vísað frá úrskurðarnefndinni.
-
31. júlí 2022 /1083/2022. Úrskurður frá 21. júní 2022
Isavia ohf. synjaði kæranda um aðgang að viðskiptaáætlun og tilboðsblaði tiltekins félags vegna samkeppni Isavia frá 2014 sem bar heitið „Commercial Opportunities at Keflavik Airport“. Kærandi var meðal þeirra sem tók þátt í samkeppninni. Synjunin byggðist aðallega á 9. gr. upplýsingalaga, þar sem upplýsingarnar vörðuðu mikilvæga og virka fjárhags- og viðskiptahagsmuni þess félags sem upplýsingarnar vörðuðu, auk þess sem þær hefðu verið veittar í trúnaði. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi upplýsingarnar ekki varða hagsmuni félagsins með þeim hætti að til greina kæmi að synja um aðgang að þeim. Þá áréttaði nefndin að aðili sem heyrir undir gildissvið upplýsingalaga gæti ekki heitið þeim trúnaði sem veitti honum upplýsingar og takmarkað með því aðgang almennings að gögnum samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga í víðtækari mæli en leiðir af 6.–10. gr. upplýsingalaga. Var Isavia því gert að veita kæranda aðgang að gögnunum.
-
09. júní 2022 /1082/2022. Úrskurður frá 1. júní 2022
Kærandi óskaði eftir upplýsingum frá Orkustofnun, en fyrir lá að hann var meðal umsækjenda um starf hjá stofnuninni. Þar sem ráðning í opinbert starf væri ákvörðun um rétt eða skyldu í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, var óhjákvæmilegt með vísan til 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, að vísa henni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
-
09. júní 2022 /1081/2022. Úrskurður frá 1. júní 2022
Kæranda var synjað um aðgang að tveimur tölvupóstum frá framkvæmdastjóra sænska fyrirtækisins Swerec til framkvæmdastjóra Úrvinnslusjóðs á þeim grundvelli að þeir innihéldu upplýsingar um mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni tiltekinna þjónustuaðila Úrvinnslusjóðs og fyrirtækisins Swerec og innihéldu persónulegar hugleiðingar framkvæmdastjóra Swerec, sem hefðu verið settar fram undir því fororði að efni hans kæmi einungis fyrir augu framkvæmdastjóra Úrvinnslusjóðs. Úrskurðarnefndin taldi að hvorugur pósturinn félli undir takmörkunarákvæði 9. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, og lagði fyrir Úrvinnslusjóð að veita kæranda aðgang að þeim.
-
09. júní 2022 /1080/2022. Úrskurður frá 1. júní 2022
Í málinu lá fyrir að Sveitarfélagið Ölfus hafði afgreitt þær gagnabeiðnir sem kærandi beindi að sveitarfélaginu og lágu til grundvallar kærum hans til úrskurðarnefndarinnar. Samkvæmt upplýsingum til úrskurðarnefndarinnar lágu ekki fyrir frekari gögn hjá sveitarfélaginu sem það teldi að féllu undir beiðnir kæranda. Þar sem ekki teldist um synjun að ræða í skilningi 20. gr. upplýsingalaga var kærunni vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
-
09. júní 2022 /1079/2022. Úrskurður frá 1. júní 2022
Seðlabanki Íslands synjaði kæranda um aðgang að tilteknum gögnum um Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. og Hildu ehf. Ákvörðun bankans var byggð á því að það væri ekki bankans að svara beiðnum um upplýsingar og gögn um starfsemi Eignasafns Seðlabanka Íslands og Hildu, því félögin hefðu verið aðskilin frá Seðlabanka Íslands. Úrskurðarnefndin taldi að það hefði ekki þýðingu í málinu þar sem beiðnum kæranda hefði sannarlega verið beint að Seðlabankanum, sem hefði borið að taka beiðnir hans til efnislegrar meðferðar á grundvelli IV. kafla upplýsingalaga, nr. 140/2012. Var beiðnum kæranda því vísað til Seðlabankans til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.
-
09. júní 2022 /1078/2022. Úrskurður frá 1. júní 2022
Kæranda var synjað um aðgang að gögnum sem sýndu fram á hvað tvö hópbílafyrirtæki greiddu til Isavia ohf. í gjöld vegna afnota af svonefndum nær- og fjarstæðum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Synjun Isavia studdist fyrst og fremst við 9. gr. upplýsingalaga, þar sem upplýsingarnar vörðuðu mikilvæga virka fjárhags- og viðskiptahagsmuni þeirra fyrirtækja sem upplýsingarnar vörðuðu. Úrskurðarnefndin taldi að Isavia hefði ekki fært fullnægjandi rök fyrir því hvernig afhending gagnanna kynni að vera til þess fallin að valda fyrirtækjunum tjóni. Var félaginu því gert að afhenda kæranda gögnin.
-
09. júní 2022 /1077/2022. Úrskurður frá 1. júní 2022
Kærandi óskaði eftir tilteknum gögnum við Ísafjarðarbæ. Ísafjarðarbær taldi beiðnina vera svo til samhljóða beiðni sem kærandi hefði áður sent bænum, sem hefði verið svarað með fullnægjandi hætti. Úrskurðarnefndin taldi að beiðni kæranda væri a.m.k. að hluta til beiðni um gögn sem ekki hafði verið óskað eftir áður. Ekki lá fyrir að Ísafjarðarbær hefði afgreitt beiðnina með fullnægjandi hætti, svo sem með því að afmarka beiðnina við fyrirliggjandi gögn í vörslum sveitarfélagsins og meta rétt kæranda til aðgangs að þeim með hliðsjón af takmörkunarákvæðum laganna og hvort veita skuli aðgang að gögnum að hluta til. Var því ekki hjá því komist að vísa beiðni kæranda til Ísafjarðarbæjar til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.
-
22. apríl 2022 /1076/2022. Úrskurður frá 31. mars 2022
Hagstofa Íslands synjaði kæranda um aðgang að upplýsingum um árlegar tölur með skiptingu í allar flokkunarbreytur fyrir fjölda foreldra sem andast eftir kyni, aldursflokkum og dánarorsökum. Synjun Hagstofunnar byggist á 1. mgr. 10. gr. laga um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð, nr. 163/2007, þar sem kveðið er á um þagnarskyldu um allar upplýsingar sem Hagstofan safnar til hagskýrslugerðar og snerta tilgreinda einstaklinga eða lögaðila. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi að líta bæri á tilvitnað ákvæði sem sérstakt ákvæði um þagnarskyldu í framangreindum skilningi, sem gengi framar ákvæðum upplýsingalaga. Var því óhjákvæmilegt að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni.
-
22. apríl 2022 /1075/2022. Úrskurður frá 31. mars 2022
Deilt var um afgreiðslu Borgarbyggðar á beiðni um gögn sem varða lokun starfsemi og sölu húsnæðis við Brákarbraut sem var í eigu sveitarfélagsins. Beiðni kæranda um yfirlit úr málaskrá yfir öll gögn sveitarfélagsins vegna málsins á tilteknu tímabili var hafnað. Þá taldi sveitarfélagið sér óheimilt að veita kæranda aðgang gögnum varðandi tilboð sem sveitarfélaginu hefði borist í eignir við Brákarbraut með vísan til 9. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi að Borgarbyggð væri skylt að veita kæranda aðgang að yfirliti yfir gögn í málaskrá sem varða lokun á starfsemi við Brákarbraut. Þá var það mat nefndarinnar að gögn um tilboð í eignir við Brákarbraut teldust ekki veita svo viðkvæmar upplýsingar um fjármál viðkomandi aðila að óheimilt sé að veita aðgang að þeim á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Var Borgarbyggð því gert að veita kæranda aðgang að gögnunum, en kærunni að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
-
22. apríl 2022 /1074/2022. Úrskurður frá 31. mars 2022
Sjúkratryggingar Íslands synjuðu beiðni kæranda um aðgang að samningi stofnunarinnar við Íslandshótel hf. um afnot af fasteign við Þórunnartún í Reykjavík um sérstaka hótelþjónustu fyrir einstaklinga í sóttkví vegna Covid-19-faraldursins. Ákvörðun Sjúkratrygginga byggðist á því að óheimilt væri að veita aðgang að samningnum á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi að um aðgang kæranda að samningnum færi skv. 14. gr. upplýsingalaga þar sem kærandi væri eigandi fasteignarinnar. Hagsmunir kæranda af því að fá aðgang að samningnum voru taldir vega þyngra en hagsmunir Íslandshótela af því að hann færi leynt, m.a. þar sem samningurinn hefði verið gerður án samþykkis kæranda. Þá féllst úrskurðarnefndin ekki á að almannahagsmunir stæðu því í vegi að kæranda yrði veittur aðgangur að samningnum. Var Sjúkratryggingum því gert að afhenda kæranda samninginn.
-
22. apríl 2022 /1073/2022. Úrskurður frá 31. mars 2022
Kærandi óskaði eftir gögnum um hlutabótaleið stjórnvalda hjá Vinnumálastofnun. Stofnunin afhenti kæranda hluta af gögnunum en taldi sér ekki skylt að útbúa ný gögn eða samantektir til að verða við beiðni um fjölda starfsmanna einstakra fyrirtækja sem hefðu sótt um hlutabætur og heildarfjárhæð sem greidd hefði verið til starfsmanna einstakra fyrirtækja. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi að af svörum Vinnumálastofnunar yrði ekki annað ráðið en að í kerfum stofnunarinnar lægju upplýsingarnar fyrir og að þær væri unnt að kalla fram með tiltölulega einföldum hætti. Ekki yrði séð að vinna við samantekt gagnanna væri frábrugðin eða eðlisólík þeirri vinnu sem upplýsingalög krefðust almennt af stjórnvöldum við afgreiðslu beiðna um upplýsingar. Ákvörðun Vinnumálastofnunar var því felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.
-
01. mars 2022 /1072/2022. Úrskurður frá 1. mars 2022
Kærðar voru tafir á afgreiðslu sveitarfélagsins Rangárþings eystra á beiðni um gögn varðandi ráðningu í starf. Kærandi var meðal umsækjanda um starfið og átti því rétt til aðgangs að gögnum í málinu á grundvelli 15. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga gilda lögin ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum og var kæru af þeim sökum vísað frá nefndinni.
-
01. mars 2022 /1071/2022. Úrskurður frá 1. mars 2022
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að gögnum hjá Reykjavíkurborg sem vörðuðu málefni látinnar sambýliskonu hans. Synjun Reykjavíkurborgar byggði á því að gögnin væru undanþegin upplýsingarétti á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga enda væri um að ræða gögn um einkamálefni látins einstaklings sem sanngjarnt og eðlilegt væri að leynt færu. Þá taldi borgin að hluti gagnanna væri vinnugögn í skilningi 8. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin leysti úr málinu á grundvelli 14. gr. upplýsingalaga, hún taldi hvorki að forsendur væru til þess að takmarka aðgang kæranda að gögnunum vegna einkahagsmuna konunnar né að gögnin gætu talist vinnugögn í raun og lagði fyrir Reykjavíkurborg að veita kæranda aðgang að þeim.
-
01. mars 2022 /1070/2022. Úrskurður frá 1. mars 2022
Nefnd um eftirlit með lögreglu synjaði beiðni blaðamanns um aðgang að ákvörðun nefndarinnar í máli sem varðaði starfshætti starfsmanna lögreglu í Ásmundarsalarmálinu, og kvörtun til nefndarinnar vegna vinnubragða starfsfólks héraðssaksóknara í Samherjamálinu. Úrskurðarnefndin taldi kvörtunina tengjast sakamálarannsókn sem enn væri í gangi og væri hún þannig undanþegin gildissviði upplýsingalaga, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna. Úrskurðarnefndin féllst ekki á að ákvörðun nefndar um eftirlit með lögreglu væri gagn sem tengdist málefnum starfsmanna í skilningi 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Þá taldi nefndin að þær upplýsingar sem fram kæmu í ákvörðuninni yrðu ekki heimfærðar undir þagnarskylduákvæði 7. mgr. 35. gr. a lögreglulaga. Loks væri í ákvörðuninni ekki að finna upplýsingar um einkahagsmuni viðkomandi starfsmanna sem óheimilt væri að veita aðgang að á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Var nefnd um eftirlit með lögreglu því gert að veita kæranda aðgang að ákvörðuninni í heild sinni.
-
01. mars 2022 /1069/2022. Úrskurður frá 1. mars 2022
Deilt var um afgreiðslu Reykjavíkurborgar á beiðni kæranda um afrit af gögnum sem varða úthlutun lóða á Sjómannaskólareit. Kærandi hafði fengið afhent nokkuð af gögnum og Reykjavíkurborg fullyrti að engin frekari gögn væru fyrirliggjandi. Eins og atvikum málsins var háttað taldi úrskurðarnefndin ekki um að ræða synjun um aðgang að gögnum og var kærunni því vísað frá.
-
01. mars 2022 /1068/2022. Úrskurður frá 1. mars 2022
Deilt var um ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytisins um að synja beiðni kæranda um aðgang svarbréfi Lindarhvols ehf. til setts ríkisendurskoðanda. Synjunin byggði á því að bréfið væri vinnugagn og þar með undanþegið upplýsingarétti á grundvelli 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Einnig að ráðuneytinu væri óheimilt að veita aðgang að því með vísan til 9. gr. upplýsingalaga. Þá vísaði ráðuneytið til þess að bréfið innihéldi að stórum hluta umfjöllun um sömu atriði og fram kæmu í bréfi setts ríkisendurskoðanda, sem úrskurðarnefndin hafi talið með úrskurði nr. 1004/2021 að væri undirorpið sérstakri þagnarskyldu á grundvelli 3. mgr. 15. gr. laga nr. 46/2016. Að mati úrskurðarnefndarinnar bar ráðuneytinu að veita kæranda aðgang að bréfinu fyrir utan upplýsingar í því sem vísuðu annaðhvort orðrétt eða svo til orðrétt til bréfs setts ríkisendurskoðanda.
-
01. mars 2022 /1067/2022. Úrskurður frá 1. mars 2022
Kærð var afgreiðsla Garðabæjar á beiðni um tiltekin gögn sem kærandi taldi sig hafa staðreynt að lægju fyrir hjá sveitarfélaginu. Hins vegar lá ekki fyrir í málinu ákvörðun Garðabæjar að synja kæranda um aðgang að þessum gögnum. Kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er skv. 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga bundin við synjun á beiðni um aðgang að gögnum. Því vísaði nefndin málinu frá.
-
24. febrúar 2022 /1066/2022. Úrskurður frá 24. febrúar 2022
Deilt var um afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á beiðni kæranda um aðgang að siðareglum fyrir kjörna fulltrúa hjá bænum, með undirritun fulltrúanna. Við málsmeðferðina kom í ljós að til voru siðareglur fyrir kjörna fulltrúa hjá bænum sem staðfestar höfðu verið af innanríkisráðuneytinu og voru þær afhentar kæranda. Af hálfu Vestmannaeyjabæjar kom fram að ekki lægju fyrir frekari gögn sem heyrðu undir gagnabeiðni kæranda. Að mati úrskurðarnefndarinnar var ekki um að ræða synjun beiðna um aðgang að fyrirliggjandi gögnum og var kærunum því vísað frá nefndinni.
-
24. febrúar 2022 /1065/2022. Úrskurður frá 24. febrúar 2022
Í málinu var deilt um rétt blaðamanns til aðgangs að upplýsingum um hvort sjúklingar sem lágu inni á gjörgæsludeild Landspítala vegna Covid-19 hefðu verið bólusettir. Beiðninni var synjað á þeim grundvelli að hópurinn væri fámennur og upplýsingarnar vörðuðu þannig trúnaðarskyldu og persónuvernd. Úrskurðarnefndin féllst á að í þessu tilviki kynnu upplýsingarnar í raun að varða einkahagsmuni, sbr. 9. gr. upplýsingalaga. Var ákvörðun spítalans því staðfest.
-
24. febrúar 2022 /1064/2022. Úrskurður frá 24. febrúar 2022
Deilt var um afgreiðslu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á beiðni um afrit af samningum sem stofnunin hafði gert við lögmannsstofur. Stofnunin afhenti kæranda einn verksamning en við meðferð málsins hjá nefndinni var að auki afhent afrit af gjaldskrá og viðskiptaskilmálum. Úrskurðarnefndin taldi mega ætla að ýmis samskipti lægju fyrir sem gætu falið í sér samkomulag um að veita tiltekna þjónustu, þ.e. samninga, og að ekki væri hægt að útiloka að slík gögn féllu undir upplýsingarétt almennings. Nefndin taldi stofnunina ekki hafa tekið rökstudda afstöðu til þessa og vísaði því málinu heim til nýrrar og lögmætrar meðferðar og afgreiðslu.
-
24. febrúar 2022 /1063/2022. Úrskurður frá 24. febrúar 2022
Orkuveita Reykjavíkur synjaði beiðni um aðgang að gögnum sem vörðuðu reikningsskil félagsins. Félagið vísaði til 9. gr. upplýsingalaga synjuninni til stuðnings og taldi að ef gögnin yrðu gerð opinber gætu þau villt um fyrir fjárfestum og haft áhrif á verðmæti skuldabréfa. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál leysti úr málinu á grundvelli 4. tölul. 10. gr. en taldi upplýsingarnar ekki þess eðlis að félaginu væri heimilt að undanþiggja þær upplýsingarétti. Var félaginu gert að afhenda kæranda umbeðin gögn.
-
24. febrúar 2022 /1062/2022. Úrskurður frá 24. febrúar 2022
Kærð var afgreiðsla Lindarhvols ehf. á beiðni um upplýsingar úr fundargerðum. Félagið hafði veitt kæranda aðgang að hluta fundargerðanna en strikað yfir hluta þess sem þar kom fram, á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga og 2. mgr. 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Úrskurðarnefndin taldi kæranda eiga rétt til aðgangs að tilteknum upplýsingum sem honum hafði verið synjað um og lagði fyrir Lindarhvol að veita kæranda aðgang að þeim.
-
17. febrúar 2022 /1061/2022. Úrskurður frá 3. febrúar 2022
Kærð var synjun Herjólfs ohf. á beiðni um afrit af ráðningarsamningi við framkvæmdastjóra félagsins og starfslýsingu hans. Úrskurðarnefndin rakti að skv. 7. gr. upplýsingalaga ætti almenningur að jafnaði ekki rétt á upplýsingum um málefni starfsmanna þeirra aðila sem heyra undir lögin. Í 7. gr. kæmu fram nokkrar undantekningar frá þeirri meginreglu en ráðningarsamningur og starfslýsing framkvæmdastjóra opinbers hlutafélags féllu ekki undir þær. Var synjun Herjólfs því staðfest.
-
17. febrúar 2022 /1060/2022. Úrskurður frá 3. febrúar 2022
Deilt var um aðgang kæranda að tilkynningu Vatnajökulsþjóðgarðs til lögreglu vegna meints utanvegaaksturs í þjóðgarðinum. Málinu var vísað til úrskurðarnefndarinnar á grundvelli 3. mgr. 17. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í umsögn Vatnajökulsþjóðgarðs var byggt á því að tilkynningin væri undanþegin gildissviði upplýsingalaga á grundvelli 1. mgr. 4. gr. laganna. Úrskurðarnefndin taldi tilkynninguna ótvírætt vera hluta af rannsókn sakamáls. Aðgangur að henni yrði því ekki byggður á ákvæðum upplýsingalaga, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna. Synjun á beiðni um aðgang að henni verður þar af leiðandi ekki kærð til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga. Var kærunni því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
-
17. febrúar 2022 /1059/2022. Úrskurður frá 3. febrúar 2022
Fjármála- og efnahagsráðuneytið synjaði beiðni kæranda um aðgang að samskiptum ráðuneytisins við forstjóra Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins vegna breytinga á launum vegna COVID-19 faraldursins. Beiðni kæranda var hafnað með vísan til 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Fram kom að forstjóra ÁTVR hefðu ekki verið ákvörðuð viðbótarlaun, sbr. reglur um greiðslu viðbótarlauna forstöðumanna, nr. 491/2019. Úrskurðarnefndin taldi gögnin bera ótvírætt með sér að tilheyra máli þar sem tekin væri ákvörðun um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga og vörðuðu þar af leiðandi „starfssambandið að öðru leyti“ í skilningi 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Synjun ráðuneytisins var því staðfest.
-
17. febrúar 2022 /1058/2022. Úrskurður frá 3. febrúar 2022
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu synjaði kæranda um aðgang að dagbókarfærslu sem varð til vegna tilkynningar kæranda til lögreglunnar um að barn hans væri týnt. Lögreglan vísaði til þess að þegar aðili kæmi á lögreglustöð og tilkynnti um týndan einstakling skyldi lögregla hefja rannsókn máls, þótt ekki lægi fyrir grunur um refsiverða háttsemi, sbr. 52. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Úrskurðarnefndin taldi dagbókarfærsluna tilheyra rannsóknargögnum sakamáls og yrði aðgangur að þeim því ekki byggður á ákvæðum upplýsingalaga, sbr. 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga. Synjun á beiðni um aðgang að þeim verður þar af leiðandi ekki kærð til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga. Kærunni var því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
-
17. febrúar 2022 /1057/2022. Úrskurður frá 3. febrúar 2022
Deilt um afgreiðslu Garðabæjar á gagnabeiðnum kæranda en hann taldi sveitarfélagið ekki hafa yfirsýn og gæti því ekki sannað að öll umbeðin gögn hefðu verið afhent. Úrskurðarnefndin rakti að skv. 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga væri úrskurðarvald nefndarinnar afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum. Það væri ekki hlutverk úrskurðarnefndarinnar að hafa eftirlit með því hvort stjórnvöld hafi yfirsýn yfir afgreiðslu upplýsingabeiðna og afhendingu gagna, eða með hvaða hætti þau skrá upplýsingar um meðferð mála hjá sér. Kærunni var því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
-
17. febrúar 2022 /1056/2022. Úrskurður frá 3. febrúar 2022
Deilt var um það hvort yfirmönnum hjúkrunarheimilisins Dyngju væri heimilt að takmarka upplýsingar til kæranda um það hverjir veittu honum þjónustu hverju sinni og krefjast þess að kærandi bæði þrisvar sinnum á sólarhring um upplýsingarnar. Úrskurðarnefndin tók fram að kæruheimild til nefndarinnar væri bundin við synjun á beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt upplýsingalögum og synjun á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Það væri ekki á valdsviði nefndarinnar að leggja mat á hvort viðvarandi upplýsingagjöf til einstaklings væri í samræmi við persónuverndarlöggjöf eða hvernig slíkri upplýsingagjöf skyldi hagað til framtíðar. Kærunni var því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
-
30. desember 2021 /1055/2021. Úrskurður frá 30. desember 2021.
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að ráðningarsamningi yfirskipstjóra Herjólfs ohf. Úrskurðarnefndin tók fram að þegar kemur að málefnum starfsmanna lögaðila sem falla undir gildissvið upplýsingalaga skv. 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nær upplýsingaréttur almennings eingöngu þeirra upplýsinga sem tilgreindar eru í 4. mgr. 7. gr. sömu laga. Var synjun Herjólfs ohf. því staðfest.
-
30. desember 2021 /1054/2021. Úrskurður frá 30. desember 2021.
Kærð var synjun Barnaverndarstofu á beiðni A um gögn varðandi vistun hennar sjálfrar á meðferðarheimilinu Laugalandi. Synjunin byggðist á því að óheimilt væri að veita kæranda aðgang að upplýsingum um einkamálefni annarra einstaklinga sem einnig var fjallað um í gögnunum, sbr. 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin féllst ekki á það með Barnaverndarstofu að eðli gagnanna væri slíkt að ekki væri hægt að afmá viðkvæmar persónuupplýsingar um aðra einstaklinga. Ákvörðun stofnunarinnar var því felld úr gildi og lagt fyrir hana að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar þar sem farið yrði efnislega yfir gögnin og afmáðar upplýsingar um einkamálefni annarra.
-
30. desember 2021 /1053/2021. Úrskurður frá 30. desember 2021.
Deilt var um afgreiðslu Garðabæjar á beiðni A um gögn sem vörðuðu hann sjálfan og fjölskyldu hans. Sveitarfélagið afhenti honum gögnin að hluta en synjaði honum um aðgang að tölvupóstssamskiptum sem talin voru vinnugögn, sbr. 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga, sbr. 8. gr. sömu laga, og þannig undanþegin aðgangi kæranda. Úrskurðarnefndin féllst á það með sveitarfélaginu að meirihluti gagnanna teldist til vinnugagna. Hins vegar lagði nefndin fyrir Garðabæ að afhenda kæranda tvö skjöl sem uppfylltu ekki skilyrði til að teljast vinnugögn því þau höfðu verið afhent öðrum eða stöfuðu frá öðrum en starfsmönnum sveitarfélagsins.
-
30. desember 2021 /1052/2021. Úrskurður frá 30. desember 2021.
Kærð var synjun utanríkisráðuneytisins á beiðni um aðgang að gögnum sem varða refsiaðgerðir íslenskra stjórnvalda gegn Rússlandi. Fyrst og fremst taldi ráðuneytið mikilvæga almannahagsmuni krefjast þess að aðgangur að gögnunum yrði takmarkaður þar sem þau hefðu að geyma upplýsingar um samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir, sbr. 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga, eða upplýsingar um öryggi ríkisins eða varnarmál, sbr. 1. tölul. 10. gr. Þá taldi ráðuneytið hluta skjalanna undanþeginn upplýsingarétti á grundvelli 1. tölul. 6. gr. enda hefðu þau verið tekin saman fyrir ráðherrafundi. Að lokum var kæranda synjað um aðgang að hluta skjalanna með vísan til þess að um vinnugögn væri að ræða í skilningi 8. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin tók undir mat ráðuneytisins á gögnunum og staðfesti synjunina.
-
29. nóvember 2021 /1051/2021. Úrskurður frá 29. nóvember 2021.
Deilt var um afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á beiðnum kæranda um upplýsingar um greiðslur sveitarfélagsins vegna fjárhagsaðstoðar í hverjum mánuði. Af hálfu Vestmannaeyjabæjar kom fram að upplýsingarnar væru ekki fyrirliggjandi hjá sveitarfélaginu og þyrfti sveitarfélagið að leggja í sérstaka vinnu í hverjum mánuði til þess að verða við upplýsingabeiðnunum. Úrskurðarnefndin taldi ekki ástæðu til að draga þær skýringar Vestmannaeyjabæjar í efa. Að mati úrskurðarnefndarinnar var ekki um að ræða synjun beiðna um aðgang að fyrirliggjandi gögnum og var kærunum því vísað frá nefndinni.
-
29. nóvember 2021 /1050/2021. Úrskurður frá 29. nóvember 2021.
Kærð var synjun Herjólfs ohf. á beiðni um aðgang að skjali með reikningsjöfnuði félagsins yfir sex mánaða tímabil. Úrskurðarnefndin staðfesti synjun félagsins með vísan til þess að skjalið væri vinnugagn sem heimilt væri að undanþiggja upplýsingarétti á grundvelli 5. tölul. 6. gr., sbr. 8. gr. upplýsingalaga.
-
29. nóvember 2021 /1049/2021. Úrskurður frá 29. nóvember 2021.
Beiðni kæranda um endurupptöku úrskurðar nr. 1019/2021 var hafnað. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga um endurupptöku ekki uppfyllt og að ekki væru rökstuddar vísbendingar um að á úrskurðinum væru verulegir annmarkar að lögum.
-
29. nóvember 2021 /1048/2021. Úrskurður frá 29. nóvember 2021.
A fréttamaður, kærði synjun embættis landlæknis á beiðni hans um aðgang að afriti af samningi íslenska ríkisins við lyfjafyrirtækið Moderna um kaup á bóluefni gegn COVID-19. Synjun landlæknis byggðist annars vegar á því að samningurinn hefði að geyma upplýsingar um mikilvæga virka fjárhags- og viðskiptahagsmuni framleiðenda bóluefnanna, sbr. 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga, en hins vegar á því að mikilvægir almannahagsmunir krefðust þess að aðgangur kæranda yrði takmarkaður, sbr. 2. tölul. 10. gr. laganna. Úrskurðarnefndin féllst á það með embætti landlæknis að umbeðin gögn hefðu að geyma upplýsingar um samskipti við önnur ríki og fjölþjóðastofnanir sem mikilvægir almannahagsmunir stæðu til að færu leynt. Að fenginni þeirri niðurstöðu var að mati nefndarinnar óþarft að kanna hvort skilyrði 9. gr. upplýsingalaga væru uppfyllt til takmörkunar á rétti kæranda til aðgangs. Var synjun embættis landlæknis því staðfest.
-
29. nóvember 2021 /1047/2021. Úrskurður frá 29. nóvember 2021.
Kærð var afgreiðsla Reykjavíkurborgar á beiðni um aðgang að minnisblöðum og skyldum gögnum sem lögð voru í trúnaði fyrir fundi borgarráðs. Af hálfu Reykjavíkurborgar var vísað til þess hluti gagnanna varðaði almannahagsmuni, sbr. 10. gr. upplýsingalaga, þá væri um að ræða virka fjárhags- og viðskiptahagsmuni lögaðila sem og fjármál og tekjuöflun sveitarfélagsins, sbr. 9. gr. upplýsingalaga og 122. gr. þágildandi laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007. Loks taldi sveitarfélagið öll umbeðin gögn vinnugögn í skilningi 5. tölul. 6. gr., sbr. 8. gr., upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin fór yfir gögnin og lagði fyrir Reykjavíkurborg að veita kæranda aðgang að tilteknum hlutum þeirra.
-
29. nóvember 2021 /1046/2021. Úrskurður frá 29. nóvember 2021.
Óskað var eftir því að úrskurðarnefndin endurupptæki mál sem lyktaði með úrskurði nr. 779/2019. Í ljósi niðurstöðu umboðsmanns Alþingis frá 3. mars 2021 í máli nr. 10055/2019 taldi úrskurðarnefndin rétt að verða við endurupptökubeiðni kæranda og taka málið til nýrrar meðferðar. Við hina endurteknu málsmeðferð kom í ljós að Vegagerðin hafði afhent kæranda þau gögn sem fjallað var um í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 779/2019 og fjallað var um í áliti umboðsmanns Alþingis. Var því óhjákvæmilegt að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.
-
29. nóvember 2021 /1045/2021. Úrskurður frá 29. nóvember 2021.
A kærði afgreiðslu Alþingis á beiðni um að gögn um tiltekin fund undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa yrðu gerð aðgengileg á vefnum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tók fram að ákvörðun um aðgang að gögnum í vörslum Alþingis væri ekki kæranleg til úrskurðarnefndar um upplýsingamál á grundvelli 20. gr. upplýsingalaga. Sama gilti um ákvörðun Alþingis um synjun beiðni kæranda um að tiltekin gögn verði birt á vefnum en slíkar ákvarðanir heyra almennt ekki undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar. Varð því að vísa kærunni frá.
-
29. nóvember 2021 /1044/2021. Úrskurður frá 29. nóvember 2021.
Deilt var um afgreiðslu Borgarholtsskóla á beiðni kæranda um aðgang að gögnum sem varða launamál starfsmanna skólans. Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu í málinu að Borgarholtsskóla væri skylt að veita kæranda upplýsingar um launakjör æðsta stjórnanda, skjal fjármálastjóra um heildarlaun starfsmanna skólans og gögn sem sýna sundurliðun launakostnaðar. Ákvörðun skólans um að synja beiðni kæranda um skjal vegna undirbúnings greiðslu viðbótarlauna var hins vegar staðfest enda féllst nefndin á að um væri að ræða vinnugagn í skilningi 8. gr. upplýsingalaga.
-
19. október 2021 /1043/2021. Úrskurður frá 19. október 2021.
Kærð var ákvörðun dómsmálaráðuneytisins um að synja beiðni um aðgang að gögnum er varða spilakassarekstur. Ráðuneytið taldi óheimilt að afhenda innsend erindi Íslandsspila sf. og Happdrættis Háskóla Íslands enda hefðu þau að geyma upplýsingar um virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni aðilanna, sbr. 2. málsl. 9. gr. laganna. Að mati úrskurðarnefndarinnar vörðuðu gögnin ekki slíka hagsmuni. Var ákvörðunin því felld úr gildi og lagt fyrir ráðuneytið að afhenda kæranda gögnin.
-
18. október 2021 /1042/2021. Úrskurður frá 18. október 2021.
Deilt var um synjun Seðlabanka Íslands á beiðni blaðamanns um aðgang að gögnum um úthlutun LBI hf. á hlutabréfum í Landsbankanum hf. til starfsmanna árið 2013. Ákvörðun Seðlabankans byggði einkum á því að gögnin væru háð þagnarskyldu, sbr. 1. mgr. 41. gr. laga nr. 92/2019. Úrskurðarnefndin staðfesti synjunina og tók fram að þagnarskylduákvæðið gerði ekki ráð fyrir því að hagsmunamat færi fram við ákvörðun á því hvort almenningur ætti rétt til aðgangs að gögnunum heldur nægði að gögnin vörðuðu hagi viðskiptamanna bankans til að upplýsingaréttur almennings yrði takmarkaður á grundvelli ákvæðisins.
-
18. október 2021 /1041/2021. Úrskurður frá 18. október 2021.
Kærð var ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytisins um að synja beiðni um aðgang að greinargerð setts ríkisendurskoðanda um starfsemi Lindarhvols ehf. Ákvörðun ráðuneytisins byggði á því að umbeðin gögn væru háð sérstakri þagnarskyldu skv. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 46/2016, sbr. fyrri úrskurði úrskurðarnefndarinnar. Kærandi taldi þagnarskylduákvæðið ekki eiga við í þessu tilviki enda hefði greinargerðin ekki verið send ráðuneytinu sem drög, á grundvelli lagaskyldu, heldur hefði verið um lokaskil hennar að ræða. Úrskurðarnefndin taldi ljóst af greinargerðinni að ekki væri um endanlega útgáfu að ræða. Greinargerðin væri þar með undirorpin sérstakri þagnarskyldu, sbr. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 46/2016, sem gengi framar rétti almennings til aðgangs að upplýsingum samkvæmt upplýsingalögum, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna. Var synjun ráðuneytisins því staðfest.
-
18. október 2021 /1040/2021. Úrskurður frá 18. október 2021.
Blaðamaður kærði afgreiðslu Barnaverndarstofu á beiðni hans um gögn sem varða meðferðarheimilið Laugaland. Kærandi fékk afhentan hluta umbeðinna gagna en var synjað um tvö skjöl á þeim grundvelli að þau vörðuðu einkamálefni einstaklinga, sbr. 9. gr. upplýsingalaga, og að þau væru vinnugögn í skilningi 8. gr. laganna. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál skoðaði gögnin og taldi engum vafa undirorpið að gögnin lytu að einkamálefnum einstaklinga sem sanngjarnt og eðlilegt væri að leynt færu. Nefndin taldi Barnaverndarstofu ekki unnt að fjarlægja allar persónugreinanlegar upplýsingar úr gögnunum og afhenda þau svo kæranda þar sem gögnin innihéldu nær eingöngu slíkar upplýsingar. Var ákvörðun Barnaverndarstofu því staðfest.
-
18. október 2021 /1039/2021. Úrskurður frá 18. október 2021.
Blaðamaður kærði synjun Barnaverndarstofu á beiðni hans um gögn sem varða meðferðarheimilið Laugaland. Synjunin byggði á því að afgreiðsla beiðninnar tæki svo mikinn tíma og krefðist svo mikillar vinnu að ekki væri af þeim sökum fært að verða við henni, sbr. 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga, enda þyrfti að yfirfara gögnin og afmá viðkvæmar persónugreinanlegar upplýsingar, sbr. 9. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi að í ljósi umfangs beiðninnar og viðkvæms eðlis gagnanna ætti undantekning 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga við í málinu og staðfesti ákvörðun Barnaverndarstofu.
-
02. september 2021 /1038/2021. Úrskurður frá 27. ágúst 2021.
A kærði afgreiðslu Hafnarfjarðarbæjar á beiðni um aðgang að gögnum hjá sveitarfélaginu sem tengjast breytingu á deiliskipulagi. Beiðni kæranda hafði ekki verið afgreidd af sveitarfélaginu um tíu mánuðum eftir að hún var lögð fram. Úrskurðarnefndin taldi hafið yfir allan vafa að tafir á afgreiðslu Hafnarfjarðarbæjar á beiðni kæranda teldust óréttlætanlegar og úrskurðaði því um rétt kæranda til aðgangs að umbeðnum gögnum samkvæmt 3. mgr. 17. gr. upplýsingalaga.
-
02. september 2021 /1037/2021. Úrskurður frá 27. ágúst 2021.
Kærð var synjun heilbrigðisráðuneytisins á beiðni um aðgang að samningum íslenska ríkisins um kaup á bóluefnum gegn COVID-19. Synjun ráðuneytisins byggðist annars vegar á því að samningarnir hefðu að geyma upplýsingar um mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni framleiðenda bóluefnanna, sbr. 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga, en hins vegar á því að mikilvægir almannahagsmunir krefðust þess að aðgangur kæranda yrði takmarkaður, sbr. 2. tölul. 10. gr. laganna. Úrskurðarnefndin féllst á það með ráðuneytinu að umbeðin gögn hefðu að geyma upplýsingar um samskipti við önnur ríki og fjölþjóðastofnanir sem mikilvægir almannahagsmunir stæðu til að fari leynt. Að fenginni þeirri niðurstöðu var að mati nefndarinnar óþarft að kanna hvort skilyrði 9. gr. upplýsingalaga væru uppfyllt til takmörkunar á rétti kæranda til aðgangs. Var synjun ráðuneytisins því staðfest.
-
02. september 2021 /1036/2021. Úrskurður frá 27. ágúst 2021.
A kærði synjun Garðabæjar á beiðni um aðgang að gögnum er vörðuðu störf starfsmanns sveitarfélagsins. Af hálfu sveitarfélagsins kom fram að erindi kæranda hefði ekki leitt til gagnagerðar eða söfnunar gagna af hálfu bæjarins. Úrskurðarnefndin taldi ekki forsendur til að rengja staðhæfingu sveitarfélagsins og vísaði kærunni frá.
-
02. september 2021 /1035/2021. Úrskurður frá 27. ágúst 2021.
Ritstjóri fréttaskýringarþáttar á RÚV kærði afgreiðslu Sjúkratrygginga Íslands á beiðni um aðgang að upplýsingum um nöfn lækna sem afmáð voru úr töflureikningskjali. Synjun stofnunarinnar var byggð á því að óheimilt væri að veita kæranda aðgang að umbeðnum upplýsingum með vísan til 9. gr. upplýsingalaga, þar sem hætta gæti skapast á því að unnt væri að persónugreina sjúklinga. Úrskurðarnefndin féllst ekki á að óheimilt væri að veita kæranda aðgang að umbeðnum upplýsingum á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga og lagði því fyrir Sjúkratryggingar Íslands að veita kæranda aðgang að þeim.
-
02. september 2021 /1034/2021. Úrskurður frá 27. ágúst 2021.
Deilt var um afgreiðslu sýslumannsins í Vestmannaeyjum á beiðni kæranda um aðgang að öllum fundagerðum, bréfasamskiptum og símtölum sýslumannsins við Vestmannaeyjabæ á grundvelli 7. gr. laga nr. 50/2014 um framkvæmdavald og stjórnsýslu ríkisins á ótilgreindu tímabili. Embætti sýslumannsins í Vestmannaeyjum taldi ómögulegt án verulegrar fyrirhafnar að afmarka beiðnina við tiltekin gögn eða tiltekið mál sbr. 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin taldi beiðni kæranda ekki uppfylla skilyrði 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga og vísaði kærunni frá.
-
02. september 2021 /1033/2021. Úrskurður frá 27. ágúst 2021.
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að viðaukum við skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um eldsvoða að Bræðraborgarstíg. Synjun stofnunarinnar um hluta umbeðinna gagna var byggð á því að um vinnugögn væri að ræða samkvæmt. 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga, sbr. 8. gr. laganna. Úrskurðarnefndin fór yfir gögnin og staðfesti synjun stofnunarinnar að þessu leyti. Þá lagði úrskurðarnefndin fyrir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að taka beiðni kæranda um upplýsingar um nöfn þess starfsfólks sem kom að ritun skýrslunnar til efnislegrar meðferðar. Kærunni var að öðru leyti vísað frá.
-
20. júlí 2021 /1032/2021. Úrskurður frá 7. júlí 2021.
A blaðamaður, kærði synjun forsætisráðuneytisins á beiðni hans um aðgang að öllum gögnum varðandi samkvæmi, móttökur, veislur og aðra slíka viðburði sem verið hafi á vegum ráðuneytisins eða ráðherra á tilteknu tímabili. Ráðuneytið synjaði beiðninni ýmist þar sem hluti gagnanna var ekki fyrirliggjandi eða þegar aðgengilegar á vefsvæðinu opnirreikningar.is. Úrskurðarnefndin taldi ekki forsendur til að rengja þær staðhæfingar ráðuneytisins. Þá vísaði ráðuneytið til þess að beiðni kæranda væri of víðtæk til að unnt væri að afmarka hana við umbeðin gögn og leiðbeindi ráðuneytið því kæranda um að afmarka beiðni sína nánar sem hann hafi ekki gert. Úrskurðarnefndin taldi beiðnina ekki uppfylla skilyrði 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga og vísaði kærunni frá.
-
20. júlí 2021 /1031/2021. Úrskurður frá 7. júlí 2021.
A blaðamaður, kærði synjun dómsmálaráðuneytisins á beiðni hans um aðgang að öllum gögnum varðandi samkvæmi, móttökur, veislur og aðra slíka viðburði sem verið hafi á vegum ráðuneytisins eða ráðherra á tilteknu tímabili. Ráðuneytið synjaði beiðninni ýmist þar sem hluti gagnanna var ekki fyrirliggjandi eða þegar aðgengilegar á vefsvæðinu opnirreikningar.is. Úrskurðarnefndin taldi ekki forsendur til að rengja þær staðhæfingar ráðuneytisins. Þá vísaði ráðuneytið til þess að beiðni kæranda væri of víðtæk til að unnt væri að afmarka hana við umbeðin gögn og leiðbeindi ráðuneytið því kæranda um að afmarka beiðni sína nánar sem hann hafi ekki gert. Úrskurðarnefndin taldi beiðnina ekki uppfylla skilyrði 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga og vísaði kærunni frá.
-
20. júlí 2021 /1030/2021. Úrskurður frá 7. júlí 2021.
A blaðamaður, kærði synjun fjármála- og efnahagsráðuneytisins á beiðni hans um aðgang að öllum gögnum varðandi samkvæmi, móttökur, veislur og aðra slíka viðburði sem verið hafi á vegum ráðuneytisins eða ráðherra á tilteknu tímabili. Ráðuneytið synjaði beiðninni ýmist þar sem hluti gagnanna var ekki fyrirliggjandi eða þegar aðgengilegar á vefsvæðinu opnirreikningar.is. Úrskurðarnefndin taldi ekki forsendur til að rengja þær staðhæfingar ráðuneytisins. Þá vísaði ráðuneytið til þess að beiðni kæranda væri of víðtæk til að unnt væri að afmarka hana við umbeðin gögn og leiðbeindi ráðuneytið því kæranda um að afmarka beiðni sína nánar sem hann hafi ekki gert. Úrskurðarnefndin taldi beiðnina ekki uppfylla skilyrði 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga og vísaði kærunni frá.
-
20. júlí 2021 /1029/2021. Úrskurður frá 7. júlí 2021.
A blaðamaður, kærði synjun félagsmálaráðuneytisins á beiðni hans um aðgang að öllum gögnum varðandi samkvæmi, móttökur, veislur og aðra slíka viðburði sem verið hafi á vegum ráðuneytisins eða ráðherra á tilteknu tímabili. Ráðuneytið synjaði beiðninni ýmist þar sem hluti gagnanna var ekki fyrirliggjandi eða þegar aðgengilegar á vefsvæðinu opnirreikningar.is. Úrskurðarnefndin taldi ekki forsendur til að rengja þær staðhæfingar ráðuneytisins. Þá vísaði ráðuneytið til þess að beiðni kæranda væri of víðtæk til að unnt væri að afmarka hana við umbeðin gögn og leiðbeindi ráðuneytið því kæranda um að afmarka beiðni sína nánar sem hann hafi ekki gert. Úrskurðarnefndin taldi beiðnina ekki uppfylla skilyrði 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga og vísaði kærunni frá.
-
20. júlí 2021 /1028/2021. Úrskurður frá 7. júlí 2021.
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að skýrslu KPMG ehf. til sveitarstjórnar Borgarbyggðar um skoðun á innra eftirliti og fjárhagskerfi. Synjun sveitarfélagsins var byggð á því að skýrslan teldist vinnuskjal í skilningi 8. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin taldi skjalið ekki uppfylla skilyrði upplýsingalaga fyrir því að teljast vinnugagn enda unnið af utanaðkomandi fyrirtæki og lagði fyrir sveitarfélagið að veita kæranda aðgang að gögnunum.
-
20. júlí 2021 /1027/2021. Úrskurður frá 7. júlí 2021.
Deilt var um afgreiðslu Framkvæmdasýslu ríkisins á beiðni um aðgang að gögnum. Kærandi sem hafði fengið afhent ýmis gögn taldi enn vanta tiltekið minnisblað. Framkvæmdasýsla ríkisins tók fram að umrætt minnisblað væri ekki fyrirliggjandi hjá stofnuninni og leiðbeindi jafnframt kæranda um hvar það ætti að liggja fyrir. Að mati nefndarinnar var þannig ekki um að ræða synjun um aðgang að fyrirliggjandi gögnum, sbr. 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga, og var málinu vísað frá.
-
20. júlí 2021 /1026/2021. Úrskurður frá 28. júní 2021.
A blaðamaður, kærði synjun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á beiðni hans um aðgang að öllum gögnum varðandi samkvæmi, móttökur, veislur og aðra slíka viðburði sem verið hafi á vegum ráðuneytisins eða ráðherra á tilteknu tímabili. Ráðuneytið synjaði beiðninni ýmist þar sem hluti gagnanna var ekki fyrirliggjandi eða þegar aðgengilegar á vefsvæðinu opnirreikningar.is. Úrskurðarnefndin taldi ekki forsendur til að rengja þær staðhæfingar ráðuneytisins. Þá vísaði ráðuneytið til þess að beiðni kæranda væri of víðtæk til að unnt væri að afmarka hana við umbeðin gögn og leiðbeindi ráðuneytið því kæranda um að afmarka beiðni sína nánar sem hann hafi ekki gert. Úrskurðarnefndin taldi beiðnina ekki uppfylla skilyrði 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga og vísaði kærunni frá.
-
20. júlí 2021 /1025/2021. Úrskurður frá 28. júní 2021.
Kærð var afgreiðsla embættis ríkislögmanns á beiðni kæranda um aðgang að samningum sem embættið hefur gert vegna krafna um greiðslu skaða- og/eða miskabóta á nánar tilgreindum tímabilum.. Embætti ríkislögmanns taldi beiðni kæranda útheimta svo umfangsmikla vinnu að heimilt væri að synja beiðninni með vísan til 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin taldi embættið ekki hafa rökstutt nægilega að undantekningarregla 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga ætti við í málinu. Ákvörðunin var því felld úr gildi og lagt fyrir embættið að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.
-
20. júlí 2021 /1024/2021. Úrskurður frá 28. júní 2021.
Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að rótargreiningu vegna atviks sem átti sér stað á Sjúkrahúsinu á Akureyri í ágúst 2018. Synjun sjúkrahússins var reist á því að um vinnugögn væri að ræða. Á það féllst úrskurðarnefndin ekki enda lá fyrir að rótargreiningin hafði verið kynnt utanaðkomandi sérfræðingi. Úrskurðarnefndin taldi því sjúkrahúsinu skylt að verða við beiðni kæranda um aðgang að umbeðnum gögnum.
-
20. júlí 2021 /1023/2021. Úrskurður frá 28. júní 2021.
Deilt var um afgreiðslu Kópavogsbæjar á beiðni um aðgang að gögnum í tengslum við skipulagsvinnu. Í málinu lá fyrir að Kópavogsbær hafði leiðbeint kæranda um það hvar gögnin væri að finna auk þess sem sveitarfélagið tók sömu gögn saman fyrir kæranda og afhenti honum. Að mati úrskurðarnefndarinnar hafði kæranda ekki verið synjað um aðgang að gögnum frá sveitarfélaginu í skilningi upplýsingalaga og var kærunni því vísað frá.
-
20. júlí 2021 /1022/2021. Úrskurður frá 28. júní 2021.
A fréttamaður, kærði synjun heilbrigðisráðuneytisins á beiðni hans um aðgang að gögnum. Ráðuneytið tók fram að öll fyrirliggjandi gögn hefðu verið afhent að undanskildu minnisblaði, sem ekki hefði fallið undir gagnabeiðni kæranda auk þess sem það væri undanþegið upplýsingarétti almennings sbr. 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin taldi að ekki væru forsendur til að rengja framangreinda staðhæfingu ráðuneytisins og vísaði kærunni frá.
-
19. júlí 2021 /1021/2021. Úrskurður frá 28. júní 2021.
Deilt var um synjun skattrannsóknarstjóra á beiðni A, fréttamanns, um aðgang að öllum ársreikningum erlendra félaga sem embættið hefði undir höndum og tengdust S ehf. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál komst að þeirri niðurstöðu að umbeðin gögn lytu að rannsókn sakamáls í skilningi 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 að teknu tilliti til hlutverks skattrannsóknarstjóra samkvæmt lögum. Kæru var því vísað frá úrskurðarnefndinni.
-
19. júlí 2021 /1020/2021. Úrskurður frá 28. júní 2021.
A fréttamaður, kærði afgreiðslu ríkisskattstjóra á beiðni hans um aðgang að gögnum um skráningu raunverulegra eigenda. Úrskurðarnefndin taldi ríkisskattstjóra skylt að verða við beiðni kæranda um afhendingu umbeðinna gagna á því formi sem þau væru varðveitt hjá embættinu í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga og lagði fyrir embættið að afhenda umbeðin gögn á rafrænu formi. Þá felldi nefndin ákvörðun ríkisskattstjóra um að strika yfir upplýsingar um nafnverð hlutafjár í eigu lögaðila úr gildi og vísaði til nýrrar meðferðar. Að öðru leyti var ákvörðun ríkisskattstjóra staðfest.
-
01. júlí 2021 /1019/2021. Úrskurður frá 14. júní 2021.
Deilt var um afgreiðslu Skipulagsstofnunar á beiðni kæranda um afhendingu allra gagna í máli er varðaði umsókn kæranda um að hljóta skráningu á lista yfir þá sem heimilt er að sinna gerð skipulagsáætlana. Úrskurðarnefndin taldi kæranda sem umsækjanda um að hljóta skráningu á umræddan lista aðila stjórnsýslumáls í skilningi stjórnsýslulaga og átti því rétt til aðgangs að gögnum í málinu á grundvelli ákvæða IV. kafla stjórnsýslulaga. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga gilda lögin ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum og var kæru af þeim sökum vísað frá nefndinni.
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.