Hoppa yfir valmynd

Úrskurðir og álit


Forsætisráðuneytið
Sýni 801-1000 af 1549 niðurstöðum.
Raða eftir: Dagsetningu Mikilvægi

Áskriftir

  • A-530/2014. Úrskurður frá 5. maí 2014

    A kærði afgreiðslu landlæknis á beiðni um aðgang að reikningum fyrir prentun á bæklingum yfir MMR og önnur bóluefni. Landlæknir hafði synjað beiðni A því það myndi kosta embættið of mikla vinnu að verða við beiðninni. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi landlækni hafa brugðist við gagnabeiðninni, með þeim hætti sem gert var, vegna þess að hún kom frá A en ekki einhverjum öðrum einstaklingi. Synjunin hafi því verið  byggð á ómálefnalegum sjónarmiðum. Lagt var fyrir  landlækni að taka málið til nýrrar meðferðar.


  • A-525/2014. Úrskurður frá 5. maí 2014

    I kærði synjun Þjóðskrár á því að afhenda honum íbúaskrár fyrir Vestur og Austur Barðastrandarsýslu. Synjunin var hvorki byggð á fyrirvaranum í 13. gr. upplýsingalaga, né því að skrárnar hefðu ekki verið fyrirliggjandi þegar beiðnin barst, heldur einkum því að um væri að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar. I gæti ekki fengið þær sér til gamans. Úrskurðarnefndin kvað það ekki hafa áhrif á rétt kæranda að hann setti beiðni sína fram til gamans. Til voru tvær tegundir af skránni og nefndin taldi hvoruga þeirra hafa að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi laga nr. 77/2000. Í 10. gr. þeirra laga væri hins vegar sérregla um kennitölur. Í ljósi hennar, og þar sem upplýsingar um kennitölur ættu ekki erindi við þá sem ekki þyrftu á þeim að halda, féllu þær undir 9. gr. upplýsingalaga. Þjóðskrá bæri því að afhenda I skrárnar, en án kennitalna einstaklinga.


  • A-528/2014. Úrskurður frá 5. maí 2014

    I kærði synjun Vinnueftirlitsins á beiðni um aðgang að gögnum varðandi tiltekið vinnuslys. Vinnueftirlitið hafði m.a. byggt synjun sína á 2. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 83. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Nefndin kvað 2. málslið 1. mgr. 83. gr. ekki fela í sér sérstaka þagnarskyldureglu. Í 2. mgr. 83. gr. (varðandi eftirlitsferðir) í væri slík regla en ekki yrði séð að hún gæti átt við. Málið félli undir 14. gr. upplýsingalaga, en undanþágan í 3. mgr. hennar ætti ekki heldur við. Því ætti I rétt til aðgangs að tilgreindum gögnum. Varðandi önnur gögn sem um var deilt, kvað nefndin upplýsingalög ekki geta staðið því í vegi að aðili fengi þau. Þau stöfuðu enda frá honum sjálfum, eða hefði verið að honum beint, og þau hefðu ekki að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra. Því bæri Vinnueftirlitinu að afhenda kæranda þau.


  • A-526/2014. Úrskurður frá 5. maí 2014

    A kærði Tryggingastofnun ríkisins fyrir að verða ekki við beiðni hans um gögn um þjónustuhlutverk stofnunarinnar, um tilflutning peningasendinga frá launþegum til atvinnurekenda o.fl. Málið varðaði annars vegar beiðni A um svar við tiltekinni spurningu sem TR kvaðst hafa svarað. Hins vegar varðaði það beiðni A um upplýsingar úr skilaskýrslum Innheimtustofnunar sveitarfélaga til TR, en TR kvaðst ekki hafa yfir þeim upplýsingum að ráða. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi þar með ekki vera skilyrði fyrir kæru og ákvað að vísa málinu frá.


  • A-529/2014. Úrskurður frá 5. maí 2014

    A kærði afgreiðslu innanríkisráðuneytisins á beiðni hans um aðgang að verklagsreglum lögreglu um beitingu skotvopna. Upphaflega hafði beiðninni verið beint að embætti ríkislögreglustjóra, sem hafði haft hin umbeðnu gögn í sínum vörslum, en hafði þó framsent beiðnina til innanríkisráðuneytisins. Nefndin taldi embættinu ekki hafa verið rétt að gera það, en taldi sér þó vera skylt að taka afstöðu til kærunnar, í stað þess að hafa bein afskipti af málsmeðferðinni. Þar sem reglurnar hefðu að geyma lýsingu á verklagi lögreglu, þegar upp kæmu alvarleg mál á sviði löggæslu, þar sem beita yrði valdi, og þær hefðu að geyma upplýsingar um skipulag löggæslu, gæti það raskað almannahagsmunum að veita almenningi aðgang að þeim. Var ákvörðun innanríkisráðuneytisins því staðfest.


  • A-527/2014. Úrskurður frá 5. maí 2014

    A kærði með hvaða hætti Höfði, hjúkrunar- og dvalarheimili brást við úrskurði nefndarinnar, nr. A-514/2014, þess efnis að því bæri að veita A aðgang að endurskoðunarskýrslu vegna ársreiknings fyrir árið 2012. Höfði hugðist gera það með því einu að leyfa A að lesa skýrsluna á starfstöð sinni. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál kvað Höfða ekki geta uppfyllt skyldu sína samkvæmt úrskurðinum með því einu, heldur bæri heimilinu að afhenda kæranda afrit af  umræddri skýrslu.


  • A-520/2014. Úrskurður frá 1. apríl 2014

    Þrír einstaklingar kærðu afgreiðslu sýslumannsembætta á beiðnum um að fá afhentar upplýsingar um kjör löglærðra fulltrúa hjá embættunum. Þeir höfðu fengið töflu yfir föst launakjör fulltrúa hjá sýslumannsembættum utan Reykjavíkur, en á þeirri töflu koma hvorki fram nöfn umræddra fulltrúa né hjá hvaða sýslumannsembættum þeir starfa. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál lagði fyrir tilgreinda sýslumenn að afhenda kærendum upplýsingar um föst launakjör umræddra fulltrúa.  


  • A-524/2014. Úrskurður frá 1. apríl 2014

    A kærði synjun Fjármálaeftirlitsins á beiðni nokkurra erlendra vátryggjenda um aðgang að gögnum, sem þeir hugðust leggja fram í bótamálum sem höfðuð hafa verið á hendur þeim.Úrskurðarnefndin lagði til grundvallar að ákvæði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 væri sérstakt þagnarskylduákvæði. Hins vegar var deilt um hvort ákvæði 5. mgr. 13. gr. ætti við, en samkvæmt því má, við rekstur einkamála, upplýsa um atriði sem þagnarskylda gildir annars um þegar eftirlitsskyldur aðili er gjaldþrota eða þvinguð slit fara fram. Nefndin taldi LBI hf. hafa verið í aðstöðu sem leggja mætti að jöfnu við að hafin væru gjaldþrotaskipti - og því verið í þvinguðum slitum í skilningi ákvæðisins. Hins vegar tengdist ákvæðið aðeins gagnaöflun fyrir dómi, innan ramma laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Það ætti ekki við og því yrði að meta hvort gögnin væru háð sérstakri þagnarskyldu. Það var niðurstaða nefndarinnar að tiltekið bréf Landsbanka Íslands hf. til FME, tiltekin minnisblöð og hluti af skýrslu FME, um athugun á útlánaáhættu hjá bankanum, sem um var deilt, væru háð slíkri skyldu. FME hafði neitað að taka afstöðu til beiðni kærenda um aðgang að afritum af kærum og tilvísunum til sérstaks saksóknara, enda yrði með því upplýst hvort mál varðandi tilgreinda aðila væru eða hefðu verið til rannsóknar hjá stofnuninni. Nefndin kvað upplýsingar um hvort tiltekið mál um ákveðna einstaklinga, væri eða hafi verið til meðferðar hjá stjórnvaldi, geta fallið undir 9. gr. upplýsingalaga. Það ætti t.d. við ef það varðaði viðkvæmar persónuupplýsingar en það væru m.a. upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður eða ákærður fyrir refsiverðan verknað. Umrædd ákvörðun FME var staðfest og þessum hluta málsins vísað frá.


  • A-523/2014. Úrskurður frá 1. apríl 2014

    A kærði synjun embættis sérstaks saksóknara á beiðni um aðgang að skýrslum tveggja hópa sérfræðinga, sem unnar voru að beiðni sérstaks saksóknara. Í synjun sinni hafði sérstakur saksóknari m.a. leiðbeint A um kærurétt til úrskurðarnefndar um upplýsingamála. Hann kvað skýrslurnar vera hluta sakamálarannsóknar og þær féllu utan gildissviðs upplýsingalaga. Hann varð ekki heldur við beiðni úrskurðarnefndarinnar um að fá afrit af þeim. Að mati nefndarinnar er engum vafa undirorpið að honum er skylt að afhenda henni skýrslunar. Framfylgi stjórnvald ekki þeirri skyldu sinni að afhenda slík gögn vekur það bæði tortryggni nefndarinnar og almennings. Þar sem nefndin hefur hins vegar ekki nægilegar ríkar valdheimildir, s.s. sérstakar kæruleiðir, til að fá gögn afhent sem stjórnvald neitar að láta af hendi, var henni ekki fær önnur leið en sú að byggja á þeirri fullyrðingu sérstaks saksóknara að umbeðin gögn féllu utan gildissviðs upplýsingalaga. Hún varð að vísa kærunni frá.


  • A-522/2014. Úrskurður frá 1. apríl 2014

    H kærði synjun Framkvæmdasýslu ríkisins á beiðni um afhendingu gagna varðandi tiltekið útboð. Framkvæmdasýslan vísaði m.a. til þess að H nyti ekki réttar samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga. Úrskurðarnefndin tók ekki afstöðu til þess hvort H ætti aðgangsrétt sem aðili stjórnsýslumáls, eða hvort útboðið væri stjórnsýslumál í skilningi stjórnsýslulaga, en hún tók efnislega afstöðu til réttar hans skv. upplýsingalögum.  Hún taldi ekkert vera í umræddum gögnum sem gæti valdið öðrum aðila tjóni þótt H fengi aðgang að þeim, eða að aðgangur H gæti raskað samkeppnisstöðu aðila á markaði. Því ætti H rétt til aðgangs, þ.e. sama rétt og almenningur á til aðgangs að slíkum gögnunum. Þegar af þeirri ástæðu reyndi ekki á hvort hann ætti sérstakan rétt til aðgangs á grundvelli 14. gr. upplýsingalaga.


  • A-521/2014. Úrskurður frá 1. apríl 2014

    A kærði synjun Tollstjóra á að verða við beiðni hans um aðgang að verklagsreglum varðandi tollframkvæmd. A hafði fengið hluta þeirra í hendur en verið synjað að öðru leyti, m.a. vegna þess að Tollstjóri gæti ekki skorið úr um hvort meðal samantekinna gagna væru verklagsreglur (í skilningi 12. tl. 40. gr. tollalaga). Úrskurðarnefndin rengdi það mat Tollstjóra ekki og vísaði málinu að því leyti frá. Hins vegar lagði hún fyrir Tollstjóra að afhenda A verklagsreglur um inn-, út- og umflutning villtra dýra og plantna í útrýmingarhættu og verklagsreglur um inn- og útflutning menningarverðmæta og náttúruminja. 


  • A-516/2014. Úrskurður frá 13. febrúar 2014

    M kærði synjun Ríkiskaupa á beiðni hans um gögn. Beiðnin laut að gögnum sem nefndin hafði þegar tekið afstöðu til í eldri úrskurði sínum (nr. A-431/2012) en í honum er lagt fyrir landlækni að afhenda gögnin. Þetta eru gögn um rammasamninga, gögn vegna útboðs um kaup á bóluefni í almennum bólusetningum og tilboðsgögn vegna útboða. Niðurstaða nefndarinnar í hinum nýja úrskurði (A-516/2014) var sú að Ríkiskaupum bæri, eins og landlækni, að afhenda kæranda umrædd gögn enda hefðu þau ekki þegar verið afhent honum. 


  • A-518/2014. Úrskurður frá 13. febrúar 2014

    M kærði synjun Tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu á beiðni um að afhenda honum afrit af reikningum vegna læknadaga. Að virtum gildistökuákvæðum upplýsingalaga varð það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að Tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu bæri að afhenda kæranda afrit af þeim reikningum sem það gaf út vegna læknadaga er haldnir voru árið 2013. Hins vegar var synjun þess, að því er varðaði reikning vegna læknadaga árið 2012, staðfest. 


  • A-519/2014. Úrskurður frá 13. febrúar 2014

    M kærði synjun Skútustaðahrepps á beiðni hans um upplýsingar varðandi álagningu sorphirðugjalda. Fyrra mál hans hafði verið fellt niður, í ljósi ákvæða um kærufrest. Sendi hann þá inn nýja kæru eftir að hreppurinn synjaði kröfu hans um gögn er bæru með sér upplýsingar um fyrir hvaða fasteignir/fyrirtæki - og hvaða ekki - greitt væri sorphirðugjald. Einnig ósk hans um upplýsingar um  í hvaða sorphirðugjaldaflokki fasteignir/fyrirtæki væru, um fjárhæðir sorphirðugjalda, um fjölda fasteigna sem flokkuðust sem sumarhús/frístundahús og nákvæmlega um hvernig sorphirðugjald fyrir fyrirtæki og býli í rekstri væri ákveðið. Úrskurðarnefndin taldi lista yfir álögð sorpgjöld 2013, þar sem fyrirtækjum er raðað eftir gjaldflokkum, m.a. hafa að geyma persónuupplýsingar. Eðli þeirra væri þó ekki slíkt að sanngjarnt væri og eðlilegt að þær færu leynt. Því bæri að veita aðgang að listanum. Annað ætti við um afrit af álagningarseðlum vegna tiltekinna fasteigna - og að því leyti  var ákvörðun hreppsins staðfest. Vísað var frá beiðni um skýringar á útreikningi/ákvörðun fjárhæðar gjalda.


  • A-517/2014. Úrskurður frá 28. janúar 2014

    Af hálfu TM Software Origo ehf. var gerð krafa um frestun réttaráhrifa úrskurðar nr. A-497/2013. Úrskurðarorð þess úrskurðar beinast að embætti landlæknis og ekki TM Software Origo ehf. Voru þegar af þeirri ástæðu ekki talin vera lagaskilyrði til þess að fjalla efnislega um kröfu félagsins um frestun réttaráhrifa. Varð því að vísa henni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


  • A-514/2014. Úrskurður frá 28. janúar 2014

    A kærði þá ákvörðun Höfða, hjúkrunar- og dvalarheimilis, að synja beiðni hans um afrit af endurskoðunarskýrslu vegna ársreiknings fyrir árið 2012 og bréfum umsækjenda sem óskað höfðu eftir skriflegum rökstuðningi vegna ráðningar í starf framkvæmdastjóra Höfða. Það var niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að Höfða bæri að veita kæranda aðgang að endurskoðunarskýrslu vegna ársreiknings fyrir árið 2012, en beiðni um aðgang að bréfum þriggja umsækjenda um beiðni um rökstuðning vegna ráðningar framkvæmdastjóra Höfða var vísað frá.


  • A-515/2014. Úrskurður frá 28. janúar 2014

    Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar hafði verið sett fram krafa um frestun réttaráhrifa úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-508/2013 og sú krafan verið rökstudd með vísan til 2. tölul. 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Samkvæmt því ákvæði er heimilt að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, hafi þau að geyma upplýsingar um samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir. Að mati nefndarinnar hafði ekkert komið fram er sýndi að þetta ætti við og fyrir hendi væru lagaskilyrði til þess að fresta réttaráhrifum umrædds úrskurðar. Var kröfunni því hafnað.


  • A-513/2014. Úrskurður frá 28. janúar 2014

    Kærð var synjun Hafnarfjarðarkaupstaðar á því að verða við beiðni um að fá afrit af minnisblaði sem ritað var í aðdraganda ákvörðunar um fjárhagsaðstoð við íþróttafélagið Hauka. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi umrætt minnisblað hafa að geyma upplýsingar sem skýrðu forsendur ákvörðunar bæjarráðs um að semja við Hauka um kaup á hlut í mannvirkjum þeirra að Ásvöllum. Þær upplýsingar kæmu ekki annars staðar fram. Var það því niðurstaða nefndarinnar að Hafnarfjarðarkaupstaður skyldi afhenda kæranda afrit af minnisblaðinu.


  • A-510/2013. Úrskurður frá 13. desember 2013

    A kærði til úrskurðarnefndar um upplýsingamál afgreiðslu fjármála- og efnahagsráðuneytisins á beiðni hans um aðgang að tilteknum gögnum. Beiðni hans hafði  upphaflega lotið að fjórum atriðum/gögnum en þar af hafði nefndin þegar, með úrskurði A-490/2013, tekið afstöðu til þriggja. Eftir stóð að fjalla um gögn stýrinefndar, sem í sátu fulltrúar þriggja ráðuneyta, varðandi endurreisn stóru íslensku viðskiptabankanna. Úrskurðarnefndin vísaði frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu beiðni um aðgang að „þeim greinargerðum, minnisblöðum og öðrum gögnum sem höfð voru til hliðsjónar um ákvörðun nefndarinnar um þá leið sem farin var í heimildarlausri einkavæðingu Nýja Kaupþings hf.“ Hins vegar lagði hún fyrir ráðuneytið að afhenda kæranda tilteknar fundargerðir stýrinefndarinnar.


  • A-512/2013. Úrskurður frá 13. desember 2013

    A kærði ákvörðun Borgarbyggðar um að synja beiðni hans um gögn sem tengdust máli sveitarfélagsins og úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála um sorphirðugjald. Með vísun til undanþáguákvæðis um bréfaskipti tengd dómsmálum, eða athugun á höfðun slíks máls, var synjun Borgarbyggðar að hluta til staðfest. A.ö.l. var Borgarbyggð gert að afhenda kæranda, A, afrit af tilgreindum gögnum.


  • A-511/2013. Úrskurður frá 13. desember 2013

    A kærði  afgreiðslu Ríkiskaupa á beiðni hans um gögn. Kæran laut efnislega að sömu gögnum og hann hafði áður óskað eftir að fá frá landlækni – og  nefndin hafði úrskurðað um þá ósk (sjá A-430/2012, A-431/2012 og A-433/2012). A taldi hins vegar að misbrestir hefðu orðið á því hjá landlækni að afhenda gögn samkvæmt þeim úrskurðum. Því hafði hann snúið sér til Ríkiskaupa, sem einnig höfðu gögnin undir höndum, en fengið synjun. Þá synjun kærði hann til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Hún kvað menn eiga rétt á að óska eftir sömu gögnum hjá öðru stjórnvaldi, sem einnig hefði þau í vörslu sinni, m.a. til að ganga úr skugga um að þau væru eins hjá báðum stjórnvöldum, og lagði fyrir Ríkiskaup að afhenda A umrædd gögn.


  • A-508/2013. Úrskurður frá 20. nóvember 2013

    Kærð var sú ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar að synja um aðgang að lánssamningi sem bærinn gerði við FMS Wertmanagement. Áður hafði verið úrskurðað í því máli (úrsk. nr. A-474/2013) en þann úrskurð hafði orðið að fella úr gildi vegna efnisannmarka. Því var kveðinn upp nýr úrskurður en efnislega varð niðurstaðan í megindráttum sú sama, þ.e. að veita skyldi aðgang að samningnum. Þó var gerð breyting varðandi tilteknar útstrikanir. 


  • A-507/2013. Úrskurður frá 20. nóvember 2013

    Kærð var synjun fjármála- og efnahagsráðuneytisins á beiðni um að fá afrit af hlutum fundargerða nefndar um fjármálastöðugleika þar sem rætt er um málefni L hf. M.a. var metið hvort um vinnuskjöl væri að ræða, en niðurstaðan varð sú að svo væri ekki. Það varð niðurstaða nefndarinnar að ráðuneytinu bæri að afhenda kæranda afrit af þeim hlutum fundargerða þar sem rætt hafði verið um málefni félagsins, á tilgreindu tímabili.


  • A-509/2013. Úrskurður frá 20. nóvember 2013

    Landlæknir krafðist þess að úrskurðarnefnd um upplýsingamál myndi fresta réttaráhrifum úrskurðar nr. A-497/2013, dags. 23. september 2013. Nefndin fór yfir gögn málsins en taldi ekkert nýtt hafa komið fram er sýndi að fyrir hendi væru lagaskilyrði til þess að fresta réttaráhrifum úrskurðarins. Þá sá hún ekki ástæðu til þess að afturkalla úrskurðinn að eigin frumkvæði enda benti ekkert til þess að hann væri haldinn slíkum annmörkum að hann væri ógildanlegur að lögum.  Var því úrskurðað þannig að kröfu landlæknis um frestun réttaráhrifa var hafnað.


  • A-503/2013. Úrskurður frá 7. nóvember 2013

    A kærði synjun Seðlabanka Íslands um afhendingu gagna varðandi eftirlit samkvæmt lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál og tengdum stjórnvaldsfyrirmælum. Bankinn taldi umrædd gögn falla undir 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001.  Varðandi skjölin: a) Meðferð og skráning upplýsinga um gjaldeyrisviðskipti, b) Verklagsreglur almenns eftirlits og c) Verklagsreglur við afhendingu mála úr eftirliti, leit úrskurðarnefnd um upplýsingamál til þess að bankinn hefði sett sér þessar reglur til þess að rækja lögbundið hlutverk sitt. Telja mætti skjölin varða hann sjálfan sérstaklega, enda gæti það beinlínis auðveldað sniðgöngu á lögunum, og gert eftirlit hans að sama skapi erfiðara, yrðu þau gerð opinber. Því gætu þau fallið undir ákvæðið. Það ætti hins vegar ekki við um skjalið Nýfjárfesting – verklagsreglur. Seðlabankinn hafði einnig vísað til 5. tl. 10. gr. upplýsingalaga en nefndin taldi þær undantekningar ekki eiga við. Því bæri Seðlabankanum að veita aðgang að skjalinu.


  • A-505/2013. Úrskurður frá 7. nóvember 2013

    A kærði afgreiðslu Vestmannaeyjabær á beiðni hans um gögn um samskipti bæjarins við lögmann. Þau tengdust starfsmannamáli sem bærinn hafði til meðferðar, n.t.t. ágreiningsmáli milli bæjarins og tilgreinds starfsmanns um túlkun á ákvæðum kjara- og ráðningarsamnings. Gögnin voru á formi tölvupósts þar sem fjallað var um svigrúm nafngreinds starfsmanns Vestmannaeyjabæjar til sveigjanlegs vinnutíma. Þessi póstur var talinn til gagna máls varðandi starfssamband í skilningi ákvæðis 1. málsgr. 7. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Það var því niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að réttur kæranda skv. 5. gr. upplýsingalaga tæki ekki til tölvupóstsins og var ákvörðun Vestmannaeyjabæjar því staðfest.


  • A-506/2013. Úrskurður frá 7. nóvember 2013

    A kærði synjun Hörgársveitar (H) á beiðni um aðgang að gögnum varðandi kaup H á eignarhluta Íslandsbanka hf. í Hrauni í Öxnadal ehf. A vísaði til þess að hún og eiginmaður hennar ættu einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta, og ættu því rétt til aðgangs samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin taldi upplýsingarnar ekki hafa slík tengsl við þessa einstaklinga að vinnsla með þær gæti haft áhrif á hagsmuni þeirra. Því gilti umrædd grein ekki um aðgang þeirra að gögnunum. H hafði m.a. synjað um aðgang á þeim grundvelli að um væri að ræða einkahlutafélag. Úrskurðarnefnd taldi það engu breyta enda lyti málið ekki að synjun félagsins heldur að gögnum í vörslu H og að sem stjórnvaldi bæri H, að lagaskilyrðum uppfylltum, að veita almenningi aðgang að þeim. Upplýsingar í umræddum gögnum teldust hvorki varða fjárhags- og viðskiptahagsmuni einkahlutafélagsins né vera til þess fallnar að valda samningsaðila H, Íslandsbanka hf., tjóni yrðu gögnin gerð opinber. Því bæri H að veita aðgang að gögnunum. 


  • A-502/2013. Úrskurður frá 7. nóvember 2013

    A kærði, fyrir hönd Flugvirkjafélags Íslands, afgreiðslu Flugmálastjórnar Íslands á beiðni þess um aðgang að upplýsingum um hvort nýstofnað fyrirtæki hefði sótt um EASA part-145 starfsleyfi til að viðhalda hjólum, bremsum og öðrum íhlutum. Umsókn R hafði ekki borist Flugmálastjórn Íslands þegar henni barst umrædd beiðni - en þegar málið kom til úrskurðar hafði Flugmálastjórn ákveðið að umsóknin félli undir beiðnina, og að verða ekki við henni. Flugmálastjórn vísaði í fyrsta lagi til 1. mgr. 7. gr. laga nr. 100/2006. Úrskurðarnefndin taldi það vera sérákvæði um þagnarskyldu en að umsókn R félli ekki undir það. Þá ætti 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 ekki við. Í öðru lagi vísaði Flugmálastjórn til ákvörðunar sinnar nr. 1/2009, sbr. auglýsingu nr. 349/2009, en  úrskurðarnefndin kvað lögbundinn rétt almennings til aðgangs að gögnum ekki verða takmarkaðan með stjórnvaldsfyrirmælum og mælti fyrir um að kæranda yrði afhent umbeðið gagn 


  • A-501/2013. Úrskurður frá 7. nóvember 3013

    A kærði, f.h. eigenda jarðar, synjun sýslumanns um að veita þeim aðgang að öllum gögnum tiltekins sáttamáls um landamerki. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál féllst ekki á það með sýslumanni að málið félli utan valdmarka hennar, enda hefði hann komið að sáttameðferðinni sem handhafi stjórnsýsluvalds og upplýsingalög tækju til allrar stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Þá var ekki á það fallist með honum að hér mætti lögjafna frá vissum undantekningum frá meginreglum um upplýsingarétt og heldur ekki á það að kærendur gætu ekki átt aðild að þessu máli fyrir nefndinni því þeir hefðu ekki átt aðild að umræddu sáttamáli. Loks féllst nefndin ekki á að þetta væru upplýsingar sem sanngjarnt væri  og eðlilegt að færu leynt. Ekki væri séð að þær vörðuðu slík einkamálefni einstaklinga að víkja mætti frá þeim grundvallarupplýsingarétti sem kærendur nytu að lögum. Sýslumanni bar að afhenda kærendum umrædd gögn.


  • 28. október 2013 / Kærunefnd jafnréttismála

    Mál nr. 5/2013

    Launakjör.


  • A-498/2013. Úrskurður frá 10. október 2013

    A kærði þá ákvörðun Þjóðskjalasafns Íslands að synja honum um aðgang að skýrslu sem B gaf fyrir rannsóknarnefnd Alþingis. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál leit til þess að þótt löggjafinn hafi með skýrum hætti ákveðið að þau gögn sem rannsóknarnefndin aflaði vegna rannsóknar sinnar skyldu færð á Þjóðskjalasafn Íslands, og að um aðgang að þeim skyldi fara eftir ákvæðum upplýsingalaga, hefðu þau lög að geyma mikilvæga undantekningu á upplýsingarétti almennings vegna einkahagsmuna einstaklinga. Við mat á því hvort þessi undanteking ætti við skipti máli að þeim sem gáfu skýrslur fyrir rannsóknarnefndinni var gjarnan heitið trúnaði um upplýsingagjöf þeirra. Að teknu tilliti til einkahagsmuna B taldi úrskurðarnefnd efni skýrslunnar falla undir þessa undanþágu og staðfesti synjun Þjóðskjalasafnsins.


  • A-500/2013. Úrskurður frá 10. október 2013

    M kærði þá ákvörðun Þjóðskjalasafns Íslands að synja honum um aðgang að gögnum varðandi Kaupþing banka hf.  Nánar tiltekið um a) aðgang að öllum skjölum er varða mál sem tilgreind voru í kafla IV við bréf sem sett var fram í 11 tölusettum liðum, b) aðgang að öllum  gögnum og skjölum sem greint var frá í fylgiskjali við það bréf, en þessi hluti beiðninnar var nánar tilgreindur í 14 liðum og 14 undirliðum og c) aðgang að þeim gögnum og skjölum sem greint var frá í fylgiskjali við bréf sem sett var fram í 18 liðum og 11 undirliðum. Þjóðskjalasafnið hafði ekki talið upplýsingabeiðnina uppfylla lagaskilyrði en úrskurðarnefndin taldi beiðnina ekki hafa verið svo almenna að ekki hafi verið unnt að afgreiða hana efnislega, a.m.k. að hluta til. Taldi hún því vera óhjákvæmilegt annað en að vísa málinu heim til nýrrar og lögmætrar efnislegrar afgreiðslu Þjóðskjalasafns Íslands.


  • A-499/2013. Úrskurður frá 10. október 2013

    A kærði afgreiðslu fjármála- og efnahagsráðuneytisins á beiðni hans um aðgang að gögnum varðandi Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hann óskaði eftir a) gögnum sem ráðuneytið kynni að hafa vegna breytingartillögu meirihluta fjárlaganefndar við aðra umræðu fjárlaga ársins 2012 og b) gögnum sem ráðuneytið kynni að hafa vegna tiltekinnar breytingartillögu á fjáraukalögum fyrir árið 2011. Það varð niðurstaða úrskurðarnefndar að ráðuneytinu bæri að afhenda A tilgreind skjöl. Einnig skyldi honum afhent tiltekið bréf ráðuneytisins til fjárlaganefndar Alþingis varðandi breytingar á frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2011 vegna kjarasamninga. Þá skyldi afhenda honum bréf til fjárlaganefndar Alþingis, sem m.a. varðaði breytingar á frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2012. Loks skyldi afhenda honum yfirlit sem ráðuneytið boðaði að það myndi senda fjárlaganefnd Alþingis. Ráðuneytið var talið hafa brotið gegn reglu 11. gr. upplýsingalaganna um aukinn aðgang og reglu 19. gr. um leiðbeiningarskyldu o.fl. Að öðru leyti var málinu vísað til nýrrar meðferðar ráðuneytisins.


  • A-497/2013. Úrskurður frá 23. september 2013

    Kærð var sú  ákvörðun landlæknis að synja um aðgang að kaupsamningi milli hans og TM Software – heilbrigðislausna. Af hálfu landlæknis kom fram að umræddur samningur innihéldi mikilvægar upplýsingar um fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækis sem sanngjarnt væri og eðlilegt að leynt færu. Nefndin taldi að þótt almenn vitneskja um kjör í viðskiptum fyrirtækja við hið opinbera gæti skaðað samkeppnisstöðu þeirra, og kynni jafnvel að skaða samkeppnisstöðu hins opinbera, hvort sem væri ríki eða sveitarfélög, yrði það sjónarmið að jafnaði að víkja fyrir almennum fyrirmælum laga um upplýsingarétt almennings. Þá taldi nefndin ekki hafa verið sýnt fram á að upplýsingar í samningnum væru til þess fallnar að valda samningsaðilum tjóni yrðu þær gerðar opinberar. Því var úrskurðað að landlækni bæri að afhenda kæranda afrit af umræddum kaupsamningi.


  • A-496/2013. Úrskurður frá 23. september 2013

    Kærð var synjun Siglingastofnunar á beiðni um afrit af útsendum yfirlitum með reikningum vegna vinnu tiltekinna starfsmanna. Úrskurðarnefnd féllst í fyrsta lagi ekki á það með Siglingastofnun að synja bæri beiðninni vegna skorts á skýrleika. Þá féllst nefndin í öðru lagi ekki á það með stofnuninni að synja bæri um aðgang vegna þess að í gögnunum væru slíkar upplýsingar um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila að aðgangur að þeim gæti verið til þess fallinn að valda þeim tjóni. Í þriðja lagi var ekki fallist á að synja mætti vegna álags á stofnunina sem hlytist af verkefnaflutningi til Samgöngustofu. Því var úrskurðað að veita bæri umbeðinn aðgang.


  • 26. september 2013 / Kærunefnd jafnréttismála

    Mál nr. 3/2013

    Ráðning í starf. Hæfnismat. Málskostnaður.


  • 26. september 2013 / Kærunefnd jafnréttismála

    Mál nr. 4/2013

    Ráðning í starf. Hæfnismat.


  • A-495/2013. Úrskurður frá 23. september 2013

    A kærði drátt á svörum ríkislögmanns við ósk hennar um aðgang að fyrirliggjandi gögnum varðandi tiltekin samskipti hans og velferðarráðuneytisins, tengdum máli hennar á hendur ráðuneytinu. Eftir að úrskurðarnefnd um upplýsingamál tók kæruna til meðferðar var beiðnin afgreidd. Með vísan til þess lá ekki fyrir synjun stjórnvalds á afhendingu gagna í skilningi upplýsingalaga, sem heyrði undir nefndina að fjalla um. Varð því að vísa kærunni frá nefndinni. 


  • 11. september 2013 / Úrskurðir forsætisráðuneytisins

    Úrskurður forsætisráðuneytisins nr. 2 í máli nr. 1/2013

    Kæra Must Visit Iceland ehf vegna ákvörðunar Sveitarfélagsins Hornafjarðar


  • 28. ágúst 2013 / Kærunefnd jafnréttismála

    Mál nr. 2/2013

    Ráðning í starf. Hæfnismat.


  • A-491/2013. Úrskurður frá 16. ágúst 2013

    Kærð var sú ákvörðun Fjármálaeftirlitsins að vísa frá beiðni um aðgang að gögnum er tengjast Kaupþingi banka hf. Kærandi krafðist aðgangs að gögnunum. Beiðninni var að hluta til vísað til Fjármálaeftirlitsins til nýrrar meðferðar og afgreiðslu en beiðni um aðgang að öðrum gögnum sem Fjármálaeftirlitið afhenti Rannsóknaranefnd Alþings og varða Kaupþing banka, þ.e. níunda og síðasta lið beiðni, var vísað frá nefndinni.


  • A-492/2013. Úrskurður frá 16. ágúst 2013

    Kærð var sú ákvörðun Byggðastofnunar að synja M um afhendingu ráðningarsamninga við tilgreinda starfsmenn stofnunarinnar. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál féllst ekki á að það með Byggðastofnun að tiltekin ákvæði upplýsingalaga, um starfsmannamálefni undanþegin upplýsingarétti girtu fyrir að M fengi umbeðinn aðgang. Hún kvað þann rétt, sem upplýsingalögin veita borgurunum til aðgangs að upplýsingum um föst launakjör opinberra starfsmanna, ekki eiga að víkja fyrir slíkum viðskipta- og samkeppnishagsmunum sem Byggðastofnun vísaði til. Þá gæti stjórnvald ekki, án sérstakrar lagaheimildar, lofað þeim sem það gerði ráðningarsamninga við, að aðrir fengju ekki afrit af þeim samningum. Byggðastofnun bæri því að veita aðgang að umræddum ráðningarsamningum. Áður skyldi þó afmá úr þeim upplýsingar um aðild að stéttarfélagi og um aðild að lífeyrisjóði þegar um væri að ræða lífeyrissjóð stéttarfélags starfsmannsins.


  • A-494/2013. Úrskurður frá 16. ágúst 2013

    Kærð var afgreiðsla sérstaks saksóknara á beiðni um afrit af tölvupóstsamskiptum hans og fréttamanns. Við meðferð málsins sagði sérstakur saksóknari að gögnunum hefði að öllum líkindum verið eytt og öryggisafrit væru ekki til. Í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál segir að þótt ýmsum lagaákvæðum sé ætlað að tryggja að stjórnvöld skrái og varðveiti þær upplýsingar sem þau sýsla með komi eftirlit með þeim ákvæðum í hlut annarra aðila. Hlutverk hennar sé að úrskurða um ágreining vegna synjunar stjórnvalda um aðgang að gögnum. Þar sem umrædd gögn voru ekki til hjá sérstökum saksóknara varð ekki hjá því komist að vísa málinu frá nefndinni.


  • A-493/2013. Úrskurður frá 16. ágúst 2013

    Kærð var ákvörðun landlæknis um aðgang að gögnum um úttekt á lyfjagagnagrunni. Landlæknir hafði orðið við beiðni varðandi gögn á málaskrá en m.a. synjað um aðgang að tölvupóstum sem væru vinnugögn. Í úrskurði segir að stjórnvald geti ekki synjað um aðgang að gagni því það sjálft telji það vera vinnugagn. Heldur ekki vegna þess að gagn hafi ekki verið fært í málaskrá, það ekki verið merkt þar sem vinnugagn eða  verið ranglega flokkað. Þá taldi nefndin oft ekki vera ljóst, að því er tölvupóstana varðaði, hvort um væri að ræða innanhússamskipti eða samskipti eins eða fleiri stjórnvalda. Þá innihéldu nokkrir þeirra mögulega upplýsingar um einkamálefni einstaklinga, sumir virtust hafa að geyma hluta af lyfjagagnagrunni og sumir hafa að geyma fundargerðir eða drög þeim. Nefndin hefði því ekki forsendur til að meta hvort gögnin væru, vegna efnis þeirra, undanþegin upplýsingarétti. Ekki lá fyrir að slíkt mat hafi farið fram af hálfu landlæknis. Varð því að fella ákvörðun hans úr gildi og leggja fyrir hann að taka málið til nýrrar meðferðar. Beiðni um aðgang að gögnum um verkferla var hins vegar vísað frá landlækni, því þau væru ekki til.


  • 25. júlí 2013 / Úrskurðir forsætisráðuneytisins

    Úrskurður forsætisráðuneytisins nr. 1 í máli nr. 1/2013

    Kæra Must Visit Iceland ehf vegna ákvörðunar Sveitarfélagsins Hornafjarðar


  • A-490/2013. Úrskurður frá 3. júlí 2013

    Kærð var synjun fjármála- og efnahagsráðuneytisins um aðgang að gögnum stjórnsýslunefndar, sem hafði með höndum samninga um endurmat á lánasöfnum bankanna nýju við erlenda kröfuhafa. Í öðru lagi var kærð sú ákvörðun ráðuneytisins að halda eftir ákveðnum hlutum tveggja samninga. Í þriðja lagi var þess óskað að úrskurðarnefndin endurmæti úrskurð sinn nr. A-436/2012. Með úrskurði A-490/2013 var staðfest synjun ráðuneytisins á beiðni um aðgang að tilteknum hlutum umræddra samninga og hafnað beiðni um endurupptöku  umrædds úrskurðar. Nefndin taldi hins vegar þörf frekari upplýsinga frá ráðuneytinu til að geta tekið afstöðu til synjunar um aðgang að gögnum umræddrar stjórnsýslunefndar. Er þeim þætti málsins því ólokið.


  • A-489/2013. Úrskurður frá 3. júlí 2013

    Kærð var ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að synja um aðgang að samantekt sem unnin var fyrir hann um skipulag lögreglu við mótmælin 2008 til 2011. Með úrskurði nr. A-489/2013 var því hafnað að þessi samantekt væri undirbúningsgagn og vinnuskjal í skilningi upplýsingalaga. Hins vegar var talið að samantektin hefði að geyma persónuupplýsingar sem sanngjarnt væri og eðlilegt að færu leynt. Því hafi verið rétt að synja kæranda um aðgang að skjalinu í heild sinni. Kærandi ætti þó rétt á aðgangi að hlutum þess - þ.e. upplýsingum um sjálfan sig og þeim hlutum sem hefðu að geyma orðréttar tilvitnanir í fjölmiðla.


  • A-488/2013. Úrskurður frá 25. júní 2013

    Kærð var afgreiðsla velferðarráðuneytis á beiðnum kæranda um aðgang að fyrirliggjandi gögnum um samskipti velferðarráðuneytisins og embættis ríkislögmanns vegna máls hennar á hendur velferðarráðuneytinu. Erindunum hafði ekki verið svarað. Kveðinn var upp úrskurður nr. A-488/2013 þess efnis að þau gögn sem kærandi óskaði eftir og væru fyrirliggjandi hafi þegar verið afhent því lægi ekki fyrir synjun stjórnvalds um afhendingu gagna. Kærunni var því vísað frá.


  • B-474/2013. Úrskurður frá 25. júní 2013

    Úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 31. janúar 2013 nr. A-474/2013 felldur úr gildi. Ekki efni til að taka afstöðu til kröfu um að frestað yrði réttaráhrifum úrskurðarins.


  • A-487/2013. Úrskurður frá 6. júní 2013

    Kærð var ákvörðun Þjóðskjalasafn Íslands um að synja um aðgang að skýrslum nokkurra nafngreindra einstaklinga í skjalasafni rannsóknarnefndar Alþingis. Kveðinn var upp úrskurður nr. A-487/2013 þar sem farið var yfir efni hverrar skýrslu og lagagrundvöll synjunar í hverju tilviki. Synjunin var staðfest.


  • A-486/2013. Úrskurður frá 6. júní 2013

    Kærð var ákvörðun Landsnets hf. um að synja um afhendingu gagna í tengslum við kostnaðaráætlun Landsnets hf. frá 2008 fyrir 200kV jarðstreng frá Blöndustöð til Akureyrar. Umræddar upplýsingar og gögn eru upplýsingar um umhverfismál er varða opinbert hlutverk Landsnets hf. í skilningi 2. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfismál. Kveðinn var upp úrskurður nr. A-486/2013 þess efnis að kærði hafi eðli máls samkvæmt ekki synjað kæranda um aðgang að kostnaðaráætlun sem ekki finnst. Kærunni var því vísað frá að þessu leyti. Upplýsingar úr verðbanka Landsnets hf. voru ekki fyrirliggjandi og ekki var talið að skylt væri að vinna sérstakar upplýsingar fyrir kæranda úr verðbankanum. Synjun Landsnets hf. var því staðfest. Ekki var fjallað um það skjal sem Landsnet hf. tók saman og afhenti úrskurðarnefnd um upplýsingamál í tilefni af máli þessu enda tekur kæruheimildin einungis til skjala sem synjað hefur verið um aðgang að og eðli máls samkvæmt þurfa þau því að hafa orðið til áður en upplýsingabeiðni er sett fram.


  • A-482/2013. Úrskurður frá 6. júní 2013

    Kærð var ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytisins varðandi aðgang að gögnum vegna sölu á Síldarverksmiðjum ríkisins. Kveðinn var upp úrskurður nr. A-482/2013 um að ekki lægi fyrir synjun stjórnvalds á beiðni um aðgang að gögnum í skilningi 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og því væru skilyrði fyrir kæru til nefndarinnar ekki uppfyllt. Fyrirvari ráðuneytisins um hugsanlega gjaldtöku á grundvelli 3. mgr. 18. gr. laganna fæli ekki í sér synjun á afhendingu gagna  og haggi hann því ekki framangreindri niðurstöðu. Kærunni var því vísað frá nefndinni.


  • A-484/2013. Úrskurður frá 6. júní 2013

    Hagsmunasamtök heimilanna kærðu afgreiðslu velferðarráðuneytisins á beiðni um aðgang að reglugerð um greiðsluaðlögun einstaklinga. Samtökin gerðu ekki athugasemd við efnislega afgreiðslu ráðuneytisins en óskuðu samt sem áður eftir því að úrskurðað yrði um þá hlið málsins sem snúi að töfum á afgreiðslu fyrirspurnarinnar. Þar sem ekki lá fyrir synjun á beiðni um aðgang að gögnum eða dráttur á svörum sem kæranlegur er skv. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 var málinu vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


  • A-485/2013. Úrskurður frá 6. júní 2013

    Hagsmunasamtök heimilanna kærðu afgreiðslu velferðarráðuneytisins á beiðni um aðgang að reglugerð um störf kærunefndar greiðsluaðlögunarmála. Samtökin gerðu ekki athugasemd við efnislega afgreiðslu ráðuneytisins en óskuðu samt sem áður eftir því að úrskurðað yrði um þá hlið málsins sem snúi að töfum á afgreiðslu fyrirspurnarinnar. Þar sem ekki lá fyrir synjun á beiðni um aðgang að gögnum eða dráttur á svörum sem kæranlegur er skv. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 var málinu vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


  • A-483/2013. Úrskurður frá 6. júní 2013

    Kærð var afgreiðsla mennta- og menningarmálaráðuneytis á beiðnum kæranda um afrit af þjónustusamningi við Verzlunarskóla Íslands og Menntaskóla Borgarfjarðar ehf. Erindunum hafði ekki verið svarað. Kveðinn var upp úrskurður nr. A-483/2013 þess efnis að þau gögn sem kærandi óskaði eftir væru að hluta til ekki fyrirliggjandi hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og þau sem væru fyrirliggjandi hafi þegar verið afhent eða verið vísað til þess að þau séu kæranda aðgengileg, sbr. 2. mgr. 19. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Því lægi ekki fyrir synjun stjórnvalds um afhendingu gagna í skilningi 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Kærunni var því vísað frá.


  • 29. maí 2013 / Kærunefnd jafnréttismála

    Mál nr. 11/2012

    Endurupptaka. Almannaskráning. Mismunun.


  • 29. maí 2013 / Kærunefnd jafnréttismála

    Mál nr. 1/2013

    Ráðning í starf. Hæfnismat.


  • A-481/2013. Úrskurður frá 3. maí 2013

    Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) kærðu þá ákvörðun tollstjóra að hafna beiðni um aðgang að gögnum um þá aðila sem nýttu sér  tollkvóta á landbúnaðarafurðum. Kveðinn var upp úrskurður nr. A-481/2013 þess efnis að þagnarskylduákvæði 188. gr. tollalaga nr. 88/2005 væri sérstakt ákvæði um þagnarskyldu, í skilningi 3. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Upplýsingar um hvort fyrirtæki hafi nýtt sér úthlutaðan WTO tollkvóta féllu þar með undir sérstakt þagnarskylduákvæði og því yrði réttur til aðgangs að þeim hjá tollstjóra ekki byggður á ákvæði 3. gr. upplýsingalaga.


  • A-480/2013. Úrskurður frá 3. maí 2013

    Ótilgreind erlend tryggingarfélög kærðu synjun Þjóðskjalasafns Íslands á beiðni um aðgang a) að öllum gögnum rannsóknarnefndar Alþingis varðandi Kaupþing banka og b) að tilgreindum gögnum tengdum Kaupþingi banka. Kveðinn var upp úrskurður nr. A-480/2013 um að beiðni um aðgang að öllum gögnum um þennan banka hafi ekki tengst tilteknu máli, þ.e. í skilningi upplýsingalaga. Málefni bankans kæmu við sögu í fjölmörgum köflum skýrslu rannsóknarnefndarinnar og þeim væri ekki haldið til haga sem sérstöku máli. Auk þess væri ekki hægt að finna viss gögn sem beðið var um. Framangreindu var vísað frá safninu. Að öðru leyti var heimvísað og safninu gert að afgreiða efnislega beiðni um aðgang að tilgreindum gögnum, eða eftir atvikum takmarka hann vegna þagnarskyldu.


  • A-479/2013. Úrskurður frá 3. maí 2013

    Tryggingamiðstöðin hf. kærði synjun Þjóðskjalasafns Íslands, dags. 5. júlí, á beiðni félagsins. Sú beiðni laut í fyrsta lagi að öllum gögnum er varða málið: „Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis“. Í öðru lagi laut hún að aðgangi að tilteknum gögnum, í 23 nánar tilgreindum töluliðum, frá nefndinni. Í þriðja lagi laut hún að aðgangi að gögnum nefndarinnar, tengdum einstökum gerningum og/eða samningum, sem voru talin upp í 46 nánar tilgreindum töluliðum. Í fjórða lagi laut hún að aðgangi gögnum nefndarinnar í 29 sérstaklega tilgreindum töluliðum. Kveðinn var upp úrskurður nr. A-479/2013 um að staðfesta þá ákvörðun Þjóðskjalasafnsins að synja um aðgang að öllum gögnum sem rannsóknarnefnd Alþingis nýtti við gerð skýrslu sinnar. Að öðru leyti var beiðnin ekki talin vera svo almenn að ekki hafi verið unnt að afgreiða hana efnislega, a.m.k. að hluta til, og var þeim hluta málsins vísað heim til Þjóðskjalasafns Íslands.


  • A-478/2013, Úrskurður 12. apríl 2013

    Akureyrarbær krafðist þess að réttaráhrifum úrskurðar nr. A-472/2013, sem kveðinn var upp 31. janúar 2013, yrði frestað vegna þess að nafn kæranda hafi verið rangt tilgreint. Nefndin taldi að af hálfu Akureyrarbæjar hefði ekkert komið fram um að uppfyllt væru framangreind skilyrði svo fyrir hendi væri sérstök ástæða, í skilningi 24. gr. laga nr. 140/2012, til að ákveða að fresta réttaráhrifum úrskurðarins. Kröfunni var því hafnað, en samhliða gefið út nýtt leiðrétt staðfest endurrit úrskurðar A-472/2013.


  • A-476/2013. Úrskurður frá 12. apríl 2013

    Kærð var synjun embættis ríkisskattstjóra  um a) heildrænar, ópersónugreinanlegar upplýsingar um upphæðir og tilhögun greiðslu lögbundins tekjuskatts af eftirgjöf skulda og niðurfellingu persónulegra ábyrgða og b) um verklagsreglur og eftirfylgni embættis ríkisskattstjóra með áðurgreindu. Um fyrra atriðið vísaði úrskurðarnefndin til 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, um að kæra megi synjun stjórnvalds um að veita aðgang að fyrirliggjandi gögnum. Þau gögn sem kærandi hafði óskað eftir lágu ekki fyrir hjá ríkisskattstjóra og þessum þætti var vísað frá. Um seinna atriði var vísað til 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1996, um skyldu stjórnvalda til að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál. Þar sem nefndin taldi beiðnina ekki lúta að  „tilteknu máli“ eða tilgreindum málum í skilningi upplýsingalaga nr. 50/1996 var þessum þætti einnig vísað frá.


  • A-477/2013. Úrskurður frá 12. apríl 2013

    Kærð var synjun Barnaverndar Reykjavíkur á beiðni um aðgang að öllum gögnum er varða mál ólögráða dóttur kæranda. Úrskurðarnefndin leit til þess að Barnavernd Reykjavíkur starfar á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í 38. gr. þeirra kemur fram að um könnun barnaverndarmáls og málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd gilda stjórnsýslulög. Þar sem  upplýsingalög gilda ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum var talið að ágreiningur um rétt kæranda yrði ekki borinn undir nefndina, sbr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Var málinu vísað frá.


  • A-475//2013. Úrskurður frá 12. apríl 2013

    Kærð var synjun Fjármálaeftirlitsins um aðgang að gögnum í 26 töluliðum. FME hafði talið beiðnina vera of almenna og hafði synjað af þeirri ástæðu.  Úrskurðarnefndin benti á að ef beiðni væri sett fram í mörgum liðum bæri stjórnvaldi að afgreiða hvern lið fyrir sig. Fjármálaeftirlitið hafði ekki skoðað gert það heldur vísað beiðninni frá í heild sinni. Nefndin féllst á að hluti af þessum 26 töluliðum hafi verið of almennur til þess að hægt hafi verið að taka hann til efnislegrar afgreiðslu án nánari afmörkunar en að öðru leyti var málinu vísað heim til nýrrar og lögmætrar efnislegrar afgreiðslu Fjármálaeftirlitsins.


  • 21. mars 2013 / Kærunefnd jafnréttismála

    Mál nr. 12/2012

    Ráðning í starf. Hæfnismat. Aðfinnslur.


  • 15. mars 2013 / Kærunefnd jafnréttismála

    Mál nr. 9/2012

    Val í starfsnemastöðu. Hæfnismat.


  • A-470/2013. Úrskurður frá 31. janúar 2013

    Kærð var afgreiðsla Fjölbrautaskólans í Breiðholti á beiðni kæranda um afrit af samningi Kennarasambands Íslands og Fjölbrautaskólans í Breiðholti (sumarskóla FB) um laun kennara í sumarskóla. Gögn ekki fyrirliggjandi hjá stjórnvaldi. Frávísun. Fallist á að afhenda bæri samkomulag um launagreiðslur til kennara við Sumarskólann í FB sumarið 2002.


  • A-471/2013. Úrskurður frá 31. janúar 2013

    Kærð var synjun Orkustofnunar á beiðni kæranda um aðgang að gögnum. Gögn ekki fyrirliggjandi hjá stjórnvaldi. Skylda stjórnvalds skrá mál sem koma til meðferðar hjá þeim á kerfisbundinn hátt. Samþykki samningsaðila. Fallist á að afhenda bæri annars vegar lista yfir málsgögn sem og afrit af samningi.


  • A-474/2013. Úrskurður frá 31. janúar 2013

    Kærð var synjun Hafnarfjarðarbæjar á beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum „vegna lánasamninga sem bærinn gerði fyrir hönd bæjarbúa við Depfa banka“. Talið að um markaðsviðskipti væri að ræða en ekki lántöku af þýska ríkinu eða fjölþjóðlegri stofnun. Úskurðarnefnd um upplýsingamál komst að þeirri niðurstöðu að veita ætti aðgang að hlutum skjalsins. Byggist sú niðurstaða á því annars vegar að þar komi fram upplýsingar sem ekki verði séð að muni valda samningsaðilum tjóni verði þær gerðar opinberar og hins vegar að um sé að ræða upplýsingar sem lúti með svo beinum hætti að ráðstöfun opinberra fjárhagslegra hagsmuna að þær beri af þeim sökum að gera opinberar með vísan til 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.


  • A-472/2013. Úrskurður frá 31. janúar 2013

    Kærð var synjun Akureyrarbæjar á beiðni kæranda um aðgang að tilboði [C] ehf. og fylgigögnum þess í verkið „Sorphirða í Akureyrarkaupstað“ sem opnað var 13. mars 2010. Kærandi var þátttakandi í umræddu útboði og nýtur því réttar til aðgangs að umræddum gögnum samkvæmt ákvæði 9. gr. upplýsingalaga með þeim takmörkunum sem greinir í 2. og 3. mgr. ákvæðisins. Ekki var talið að fyrir hendi væru lagaskilyrði til að synja um afhendingu gagnanna, hvorki í heild né hluta, með vísan til 3. mgr. 9. gr. upplýsingalaga. Hagsmunir kæranda af því að fá gögnin taldir vega þyngra en hagsmunir aðila. Gögnin varði m.a. ráðstöfun opinberra fjármuna og hagsmuni kæranda af því að rétt hafi verið staðið að mati á tilvoðum í umræddu útboði.


  • A-473/2013. Úrskurður frá 31. janúar 2013

    Kærð var synjun fjármála- og efnahagsráðuneytsins á beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum og útreikningum sem ráðuneytið kynni að hafa vegna breytingartillögu meirihluta fjárlaganefndar við aðra umræðu fjárlaga ársins 2012 vegna ákvörðunar um að auka við fjárheimildir Sinfóníuhljómsveitar Íslands um 69 milljónir kr. vegna kjarasamninga sem gerðir voru eftir að fjárlög voru lögð fram. Kærunni var vísað fram þar sem upplýsingalögin tóku ekki samkvæmt orðalagi sínu og markmiðum til þess þegar stjórnvöld óska eftir upplýsingum hjá öðrum stjórnvöldum. Tekið er fram að sömu niðurstöðu leiðir af gildandi upplýsingalögum nr. 140/2012.


  • 04. janúar 2013 / Kærunefnd jafnréttismála

    Mál nr. 11/2012

    Almannaskráning. Mismunun.


  • A-469/2012. Úrskurður frá 28. desember 2012

    Kærð var synjun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á beiðni kæranda um aðgang að „Samantekt á skipulagi lögreglu við mótmælin 2008 til 2011.“ Ekki varð séð að Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefði með ákvörðun sinni 16. september 2012, afgreitt beiðni kæranda á réttum lagagrundvelli. Beiðninni var vísað til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til nýrrar meðferðar og afgreiðslu á grundvelli upplýsingalaga nr. 50/1996.


  • A-467/2012. Úrskurður frá 28. desember 2012.

    Kærð afgreiðsla stjórnvalda á beiðni þar sem óskað var eftir upplýsingum um nýtt fyrirkomulag á byrjunaruppboðum hjá sýslumannsembættunum. Afgreiðsla máls hjá stjórnvaldi. Innanríkisráðuneytinu bar að taka fyrir á ný til lögmætrar afgreiðslu beiðni kæranda um aðgang að gögnum. Vísað var frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæru á hendur Sýslumanninum í Bolungarvík. Gögn þegar verið afhent.


  • A-468/2012. Úrskurður frá 28. desember 2012

    Kærð var synjun kærunefndar lausafjár- og þjónustukaupa á beiðni um aðgang að tilgreindum gögnum í máli kærunefndarinnar nr. M-36/2011. Um rétt kæranda til aðgangs að umbeðnum gögnum hjá kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa fer eftir 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæru vísað frá.


  • A-463/2012. Úrskurður frá 20. desember 2012

    Kærð var synjun umboðsmanns skuldara fundargerðum samráðshóps vegna hæstaréttardóms nr. 600/2011 frá 15. febrúar 2012 sem og öðrum gögnum sem tengdust vinnu hans frá upphafi til enda. Einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga. Viðskiptahagsmunir. Þagnarskylda. Fallist á að umboðsmanni bæri að afhenda umrædd gögn.


  • A-460/2012. Úrskurður frá 20. desember 2012.

    Kærð var synjun efnahags- og viðskiptaráðuneytisins, nú fjármála- og efnahagsráðuneyti, á beiðni kæranda um aðgang að fundargerðum nefndar um fjármálastöðugleika þar sem fjallað var um málefni tiltekins eignarhaldsfélags, fyrir og eftir 1. október 2009. Réttur aðila til aðgangs að upplýsingum um hann sjálfan. Þagnarskylda. Vinnuskjöl. Fallist á að ráðuneytinu bæri að afhenda fundargerðirnar eftir 1. október 2009. Kæru vegna kröfu um afhendingu fundargerða fyrir þann tíma vísað frá nefndinni þar sem nefndinni hafði þá verið stýrt af fulltrúa forsætisráðuneytisins en beiðni um aðgang að gögnunum hafði ekki verið beint að forsætisráðuneytinu í upphafi og erindið ekki verið framsent á grundvelli 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 


  • A-462/2012. Úrskurður frá 20. desember 2012.

    Staðfest var synjun Fjármálaeftirlitsins á því að afhenda afrit af skýrslu PricewaterhouseCoopers ehf. um starfshætti Sparisjóðsins í Keflavík. Kæru vísað frá að því er varðar beiðni um upplýsingar um það hvort Fjármálaeftirlitið hafi kært tiltekin efnisatriði sem fram komi í skýrslunni til sérstaks saksóknara eða áframsent skýrsluna með einhverjum hætti til hans. 


  • A-461/2012. Úrskurður frá 20. desember 2012.

    Vísað var frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæru þar sem farið var fram á gögn er vörðuðu útboð. Kærandi var einn af þeim sem lagði fram tilboð. Um rétt til aðgangs að umbeðnum upplýsingum fór eftir ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Beiðni skal beint að stjórnvaldi sem tekur stjórnvaldsákvörðun.


  • A-464/2012. Úrskurður frá 20. desember 2012

    Kærð var afgreiðsla Samkeppniseftirlitsins á beiðni um aðgang að gögnum sem aflað var í tengslum við ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í máli nr. 17/2010. Aðgangur veittur að hluta. Synjun staðfest að hluta. Kærunni að öðru leyti vísað frá.


  • A-465/2012. Úrskurður frá 20. desember 2012.

    Kærð var synjun Fjármálaeftirlitsins um aðgang að gögnum. Gögn ekki fyrirliggjandi hjá stjórnvaldi. Rannsókn eða saksókn í opinberu máli. Frávísun að hluta. Synjun staðfest að hluta.


  • A-466/2012. Úrskurður frá 20. desember 2012.

    Kærð var synjun Akureyrarbæjar á beiðni um aðgang að tveim skýrslum er vörðuðu eineltismál. Skýrsla gagn í máli sem lokið var með ákvörðun um rétt og skyldu kæranda. Einkamálefni einstaklinga. Vísað frá varðandi aðra skýrsluna. Staðfest synjun að undanskildum tilteknum hlutum úr hinni skýrslunni. 


  • 12. desember 2012 / Kærunefnd jafnréttismála

    Mál nr. 6/2012

    Ráðning í starf. Hæfnismat.


  • A-458/2012. Úrskurður frá 22. nóvember 2012.

    Kærð var sú ákvörðun Þjóðskjalasafns Íslands að synja um aðgang að skýrslum nafngreindra einstaklinga sem gefnar voru fyrir rannsóknarnefnd Alþingis. Þagnarskylda. Einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga. Synjun staðfest.


  • A-459/2012. Úrskurður frá 22. nóvember 2012.

    Kærð var synjun Ríkiskaupa á beiðni um aðgang að upplýsingum um utanlandsferðir allra starfsmanna stofnunarinnar á hennar vegum frá ársbyrjun 2010 til þess dags er beiðni var sett fram. Í beiðninni fólst að óskað var eftir upplýsingum í ótilteknum fjölda mála. Skylda til að útbúa gögn ekki fyrir hendi. Frávísun.


  • A-457/2012. Úrskurður frá 15. nóvember 2012

    Vísað var frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæru þar sem farið var fram á gögn er vörðuðu skipun í embætti skólameistara en kærandi var meðal umsækjenda um stöðuna. Um rétt hennar til aðgangs að umbeðnum upplýsingum fór því eftir ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. málslið 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga segir að þau gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993


  • A-456/2012. Úrskurður frá 15. nóvember 2012

    Fallist var á að Vestmannaeyjabæ bæri að afhenda kæranda afrit tveggja samninga, án útstrikana, sem gerðir höfðu verið við tiltekið einkahlutafélag um sorphirðu. Ekki talið að samningarnir hefðu að geyma upplýsingar sem féllu undir undantekningarákvæði 5. gr. upplýsingalaga.


  • A-455/2012. Úrskurður frá 15. nóvember 2012

    Vísað var frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæru vegna synjunar ÁTVR á beiðni um upplýsingar um heildarsölu stofnunarinnar samkvæmt reglum sem byggja á lögum nr. 96/1995 um gjald af áfengi og tóbaki, sbr. 3. tölul. 6. gr. laganna, sundurliðað eftir árum á tímabilinu 2005 til 2012 og sölu ÁTVR á áðurnefndu tímabili til hvers og eins þeirra aðila sem heyri undir fyrrgreinda reglu. ÁTVR talið falla undir gildissvið upplýsingalaga skv. 1.m gr. 1. gr. laganna. Í beiðni kæranda fólst að óskað var eftir upplýsingum í ótilteknum fjölda mála og samræmdist það ekki tilgreiningarreglu upplýsingalaga, sbr. 1. mgr. 3. gr., sbr. 10. gr. upplýsingalaga. Þær upplýsingar sem óskað var eftir lágu jafnframt ekki fyrir hjá stofnuninni og varð henni ekki gert að útbúa þær í ríkara mæli en leiðir af 7. gr. upplýsingalaga. Var málinu því vísað frá.


  • A-454/2012. Úrskurður frá 15. nóvember 2012

    Vísað var frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæru einkahlutafélags vegna synjunar beiðni um aðgang að upplýsingum um samskipti Portusar ehf. og tiltekin félags um kaup á flyglum fyrir Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhús. Portus ehf. er einkaréttarlegt félag og fellur þar af leiðandi ekki undir gildissvið upplýsingalaga nr. 50/1996. Þá lá ekki fyrir að félaginu hafi verið falið að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. upplýsingalaga, sbr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi gat jafnframt ekki byggt sjálfstæðan rétt til aðgangs að gögnum á ákvæðum upplýsingalaga um endurnot opinberra upplýsinga.


  • A-453/2012. Úrskurður frá 15. nóvember 2012

    Staðfest var sú ákvörðun utanríkisráðuneytisins að synja kæranda um aðgang að bls. 27-31 í viðauka C við samnings Og fjarskipta ehf. (Vodafone) við varnarmálastofnun, dags. 1. febrúar 2010. Fallist á að að stærstur upplýsinganna sem fram kæmu í umbeðnum gögnum gætu varðað mikilvæga samkeppnishagsmuni fyrirtækisins.


  • 09. nóvember 2012 / Kærunefnd jafnréttismála

    Mál nr. 5/2012

    Launamismunur.


  • 09. nóvember 2012 / Kærunefnd jafnréttismála

    Mál nr. 4/2012

    Launamismunur.


  • 02. nóvember 2012 / Kærunefnd jafnréttismála

    Mál nr. 10/2012

    Kærufrestur. Mismunun.


  • A-449/2012. Úrskurður frá 24. október 2012.

    Staðfest var synjun Hafnarfjarðarbæjar á því að veita kæranda aðgang að vitnisburðum 15 fyrrverandi samstarfsmanna, hennar sem veittir voru í tengslum við gerð úttektar á samskiptum kæranda við aðra starfsmenn tiltekins leikskóla og grunnskóla í Hafnarfirði. Hagsmunir þeirra einstöku starfsmanna sem gáfu skýrslurnar taldir vega þyngra en hagsmunir kæranda af aðgangi.


  • A-448/2012. Úrskurður frá 24. október 2012.

    Vísað var frá kæru bæjarfulltrúa í Mosfellsbæ, vegna afgreiðslu bæjarins á beiðni um gögn, sem framsend hafði verið frá innanríkisráðuneytinu til nefndarinnar. Ákvæði sveitarstjórnarlaga veita sveitarstjórnarmönnum rýmri rétt til aðgangs að upplýsingum en upplýsingalög nr. 50/1996 auk þess sem kæran var jafnframt til meðferðar hjá innanríkisráðuneytinu.


  • A-452/2012. Úrskurður frá 24. október 2012

    Meginhluta kæru málsins vísað frá þar sem gögn þau sem beðið hafði verið um höfðu verið afhent, að undanskilinni tiltekinni fundargerð sem bar að afhenda kæranda.


  • A-450/2012. Úrskurður frá 24. október 2012.

    Staðfest var synjun Ríkisútvarpsins ohf. á beiðni kæranda um aðgang að gögnum er vörðuðu þá ákvörðun Ríkisútvarpsins að kaupa ekki tiltekna kvikmynd af kæranda. Fyrirliggjandi gögn voru aðeins undirbúningsgögn en geymdu ekki ákvörðun eða mikilvægar staðreyndir málsins og töldust því falla undir 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga um vinnuskjöl. Afhenda bar kæranda lista yfir gögn málsins. Þá var vísað frá beiðni kæranda um dagbókarfærslur í sambærilegum málum, enda fólst í henni beiðni um aðgang að gögnum í ótilgreindum málum.


  • A-451/2012. Úrskurður frá 24. október 2012.

    Vísað var frá kæru sveitarstjórnarfulltrúa í Skagafirði, vegna afgreiðslu bæjarins á beiðni um gögn, sem framsend hafði verið frá innanríkisráðuneytinu til nefndarinnar. Ákvæði sveitarstjórnarlaga veita sveitarstjórnarmönnum rýmri rétt til aðgangs að upplýsingum en upplýsingalög nr. 50/1996 auk þess sem kæran var jafnframt til meðferðar hjá innanríkisráðuneytinu.


  • A-446/2012. Úrskurður frá 4. október 2012.

    Kæru sem beint var að Embætti landlæknis og velferðarráðuneytinu vísað frá úrskurðarnefndinni. Embætti landlæknis hafði aldrei borist beiðni um aðgang að því bréfi sem kæra málsins varðaði. Þá hafði velferðarráðuneytið afhent kæranda umbeðið gagn eftir að kæra barst úrskurðarnefndinni. Synjun stjórnvalds á aðgangi að gögnum var því ekki fyrir hendi.


  • A-445/2012. Úrskurður frá 4. október 2012.

    Staðfest synjun utanríkisráðuneytisins á beiðni um aðgang að skjali þar sem fram komu upplýsingar um heildargreiðslu til starfsmanns ráðuneytisins vegna tjóns sem hann og eiginkona hans urðu fyrir þegar búslóð þeirra var flutt til Bandaríkjanna vegna starfa hans fyrir ráðuneytið. Upplýsingarnar taldar varða einkahagsmuni og fjárhagsmálefni sem sanngjarnt væri að leynt færi sbr. 5. gr. upplýsingalaga.


  • A-444/2012. Úrskurður frá 4. október 2012.

    Kærð var sú ákvörðun fjármálaráðuneytisins að synja kæranda um aðgang að gögnum er vörðuðu málefni Ríkisútvarpsins, m.a. um hvernig Ríkisútvarpið uppfyllti skyldur sínar í almannaþjónustu að því er varðar dreifingu sjónvarps og hljóðvarps, og væri í vörslum ráðuneytisins. Talið að meiri hluti þeirra gagna sem synjað var um aðgang að vörðuðu upplýsingar sem með beinum hætti lytu að samskiptum fjölþjóðastofnunar, þ.e. Eftirlitsstofnun EFTA, við íslensk stjórnvöld, sbr. 2. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Synjun fjármálaráðuneytisins var því staðfest að því er varðaði umbeðin gögn að undanskildum tveimur skjölum, en efni þeirra hafði þegar verið birt opinberlega á vefsíðu Stjórnarráðsins.  


  • A-447/2012. Úrskurður frá 4. október 2012.

    Kærð var synjun Seðlabanka Íslands á beiðni kæranda um það hverjir hefðu fengið tilkynningu á svokallaðri RSS-efnisveitu bankans um húsleit Seðlabankans í húsakynnum kæranda sem og synjun á afhendingu lista yfir þá sem fengið höfðu fréttina senda með tölvupósti frá bankanum. Úrskurðarnefndin taldi ekki unnt að afhenda gögn um fyrri lið beiðni kæranda. Í síðari lið beiðni kæranda fólst beiðni um aðgang að skrá. Á grundvelli 14. gr. upplýsingalaga er ekki unnt að kæra synjun um aðgang að gögnum sem liggja ekki fyrir hjá stjórnvaldi. Synjun um aðgang að skrá er jafnframt ekki kæranleg skv. 14. gr. upplýsingalaga. Málinu var því vísað frá


  • 19. september 2012 / Kærunefnd jafnréttismála

    Mál nr. 7/2012

    Aðild. Óbein mismunun.


  • A-443/2012. Úrskurður frá 29. ágúst 2012

    Kærð var sú ákvörðun Þjóðskjalasafns Íslands að synja um aðgang að skýrslum 18 stjórnenda og starfsmanna Glitnis fyrir rannsóknarnefnd Alþingis. Aðgangur heimilaður að skýrslu eins aðila, en synjað vegna annarra. Einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga. Þagnarskylda.


  • 28. ágúst 2012 / Kærunefnd jafnréttismála

    Mál nr. 2/2012

    Skipun í embætti sýslumanns.


  • A-440/2012. Úrskurður frá 5. júlí 2012

    Kærð var synjun Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni um aðgang að upplýsingum um fjölda örorkulífeyrisþega og skattskyldar tekjur frá TR í maí og nóvember á árunum 2008-2011, sundurliðað eftir tekjubili. Fyrirliggjandi gögn. Upplýsingar í ótilteknum fjölda mála. Synjun staðfest.


  • A-438/2012. Úrskurður frá 5. júlí 2012.

    Kærð var synjun Hafnarfjarðarbæjar á beiðni um aðgang að 1) skilmálaskjali, dags. 5. desember 2011, milli Hafnarfjarðarbæjar og [B] og [C], sem samþykkt var í bæjarstjórn 7. desember 2011 og 2) yfirliti gagna varðandi endurfjármögnun lána Hafnarfjarðarbæjar hjá [B]. Fyrirliggjandi gögn. Frávísun að hluta. Aðgangur veittur að skilmálaskjali að hluta. Krafa um frestun réttaráhrifa.


  • A-439/2012. Úrskurður frá 5. júlí 2012.

    Kærð var synjun Eftirlaunasjóðs starfsmanna Hafnarfjarðarbæjar á beiðni um aðgang að afriti starfslokasamnings sjóðsins við fyrrum framkvæmdastjóra hans. Gildissvið upplýsingalaga. Frávísun.


  • B-442/2012. Úrskurður frá 10. ágúst 2012.

    Kröfu um frestun réttaráhrifa úrskurðar A-442/2012 frá 5. júlí 2012 hafnað.


  • A-434/2012. Úrskurður frá 28. júní 2012

    Kærð var synjun Flugmálastjórnar Íslands á beiðni um aðgang að gögnum. Aðild að stjórnsýslumáli. Hluti af gögnun ekki fyrirliggjandi hjá Flugmálastjórn Íslands. Samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir. Aðgangur veittur að hluta. Frávísun að hluta.


  • B-438/2012. Úrskurður frá 20. júlí 2012.

    Kröfu um frestun réttaráhrifa úrskurðar A-438/2012 frá 5. júlí 2012 hafnað.


  • A-433/2012. Úrskurður frá 28. júní 2012

    Kærður var dráttur á svörum frá Landlækni vegna erindis til embættisins þar sem farið var fram á aðgang að kaupsamningi og öllum tengdum gögnum yfir Cervarix bóluefnið. Upplýsingar er varða mikilvæg fjárhags- eða viðskiptamálefni lögaðila. Ráðstöfun almannafjár. Landlækni gert að afhenda kæranda rammasamning nr. 2870, dags. 24. júní 2011, um kaup á bóluefni gegn HPV sýkingum til notkunar í almennum bólusetningum á Íslandi í heild sinni. Landlækni bar einnig að afhenda kæranda útboðslýsingu vegna útboðs Ríkiskaupa nr. 15054, útboð á bóluefni gegn HPV (Human Papilloma Veiru) til notkunar í almennum bólusetningum á Íslandi, væri hún fyrirliggjandi hjá embættinu. Þá var staðfest ákvörðun Landlæknis um synjun á afhendingu afrits af tilboði GlaxoSmithKleine ehf., dags. 14. apríl 2011, vegna rammasamningsútboðs nr. 15036 á próteintengdum bóluefnum gegn pneumokokkum til notkunar í almennum bólusetningum.


  • A-431/2012. Úrskurður frá 28. júní 2012

    Kærð var synjun landlæknis á að afhenda kæranda afrit af gögnum er varða rammasamning nr. 2143, dags. 25. september 2009, annars vegar og afrit af gögnum er varða rammasamningi nr. 2144, dags. 2. október 2009, hins vegar, þ.e. óskað var eftir afritum af umræddum rammasamningum í heild sinni, án útstrikana, tilboðum seljenda og útboðslýsingum þeirra. Upplýsingar er varða mikilvæg fjárhags- eða viðskiptamálefni lögaðila. Ráðstöfun almannafjár. Aðgangur veittur að hluta. Landlækni gert að afhenda kæranda útboðslýsingu vegna útboðs Ríkiskaupa nr. 14042, sem beiðni kæranda um aðgang að gögnum laut að, enda um opið útboð að ræða, væri hún fyrirliggjandi hjá embættinu. 


  • A-429/2012. Úrskurður frá 28. júní 2012

    Kærður var dráttur á svörum frá velferðarráðuneytinu vegna erindis þar sem farið var fram á afrit af kaupsamningi milli ráðuneytisins og GlaxoSmithKline ehf. um kaup á Synflorix-bóluefni gegn pneumókokkum, svo og öllum undirliggjandi samningum varðandi málið. Gögn þegar verið afhent að hluta. Önnur gögn ekki fyrirliggjandi hjá ráðuneytinu. Kæruheimild. Frávísun.


  • A-430/2012. Úrskurður frá 28. júní 2012

    Kærð var synjun landlæknis á að afhenda kæranda afrit af tilboði dags. 14. apríl 2011, sem lagt var fram af fyrirtækinu GlaxoSmithKleine ehf. vegna útboðs nr. NR 15036 og af útboðslýsingu Ríkiskaupa vegna þess útboðs. Upplýsingar sem varða mikilvæg fjárhags- eða viðskiptamálefni lögaðila. Aðgangi hafnað. Landlækni gert að afhenda kæranda útboðslýsingu vegna útboðs Ríkiskaupa nr. 15036, sem beiðni kæranda um aðgang að gögnum laut að, enda um opið útboð að ræða, væri hún fyrirliggjandi hjá embættinu.


  • A-425/2012. Úrskurður frá 18. júní 2012

    Kærð var afgreiðsla innanríkisráðuneytisins á beiðni um leiðbeinandi yfirlit yfir lögmælt verkefni sveitarfélaga flokkuð eftir því hvort verkefni eru skyldubundin eða ekki. Við afgreiðslu upplýsingabeiðna var ekki fylgt þeirri reglu 11. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 að stjórnvaldi beri að taka ákvörðun um, hvort það verði við beiðni um aðgang að gögnum, svo fljótt sem verða megi. Ennfremur ekki þeirri reglu að skýra skuli þeim, sem fer fram á aðgang að gögnum frá ástæðum tafa og hvenær ákvörðunar sé að vænta, hafi beiðni ekki verið afgreidd innan sjö daga frá móttöku hennar. Frávísun. Gögn liggja ekki fyrir.


  • A-428/2012. Úrskurður frá 18. júní 2012

    Kærð var sú ákvörðun ríkislögreglustjóra að synja um afhendingu á gögnum um kaup embættisins á búningum af tilteknum lögaðila á árinu 2009 fyrir aðgerðarhóp lögreglunnar. Kærandi hafði þegar fengið afrit af tilboði lögaðilans ásamt pöntun. Kæran laut því eingöngu að aðgangi að reikningum. Ekki fallist á að aðgangur kæranda að reikningunum væri líklegur til að geta valdið lögaðilanum tjóni. Ríkislögreglustjóra gert að afhenda kæranda umbeðna reikninga.


  • A-426/2012. Úrskurður frá 18. júní 2012

    Kærð var sú ákvörðun Áfengis- og tóbaksverlsunar ríkisins, ÁTVR, að synja beiðni um aðgang að gögnum varðandi reynslusölu á áfengi í verslunum ÁTVR, lögfræðiþjónustu o.fl. Kærði gerði kröfu um frávísun málsins eða staðfestingu synjunar. ÁTVR bar að afhenda kæranda skjal með heitinu „ferli umsókna um reynslusölu hjá ÁTVR“ í samræmi við ákvörðun sína. Beiðni kæranda laut að öðru leyti að ekki að tilteknu máli eða tilgreindum málum í skilningi upplýsingalaga. Frávísun.


  • A-427/2012. Úrskurður frá 18. júní 2012

    Kærð var synjun Akureyrarkaupstaðar á beiðni um aðgang að drögum að yfirlýsingu vegna samstarfs við Denverborg, sem samþykkt var á fundi bæjarráðs Akureyrarkaupstaðar þann 3. maí 2012. Vinnuskjöl. Endanleg ákvörðun um afgreiðslu máls. Fallist á afhendingu gagnsins.


  • A-441/2012. Úrskurður frá 5. júlí 2012

    Kærð var afgreiðsla Vestmannaeyjabæjar á erindi kæranda þar sem óskað var eftir afhendingu samnings við Hjallastefnuna ehf. um rekstur leikskólans Sóla í Vestmannaeyjum. Erindi kærða hafði verið svarað á þá leið að umbeðin gögn væru ekki fyrirliggjandi hjá bænum, en að unnið væri að gerð þeirra. Frávísun.


  • A-437/2012. Úrskurður frá 5. júlí 2012

    Kærður var dráttur á svörum frá landlækni vegna beiðni um afrit af kaupsamningum og öllum tengdum gögnum við níu innflutningsaðila varðandi kaup á 630.000 hlífðarsloppum, öndunargrímum, augnhlífum og hlífðarsvuntum. Fyrirliggjandi gögn. Öryggi og varnir ríkisins. Viðskiptahagsmunir. Synjun staðfest að hluta. Aðgangur veittur að hluta.


  • A-424/2012. Úrskurður frá 18. júní 2012

    Kærð var sú ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar að synja beiðni um aðgang að kostnaðarliðum vegna 17. júní hátíðarhalda í Hafnarfirði, þ.e. synjun afhendingar gagna varðandi leigu á hljóð- og ljósabúnaði á Víðistaðatúni vegna hátíðahalda 17. júní 2011, verktakagreiðslum til verktaka sem unnu verkið, flutningskostnað á tækjabúnaði og sviði og einnig heildarkostnað á verkinu með og án skemmtikrafta. Frávísun að því er varðaði yfirlit úr bókhaldskerfi Hafnarfjarðarbæjar. Fallist á aðgang að reikningi einstaklings vegna hátíðarhaldanna, enda ekki talið vera til þess fallið að skaða viðskiptahagsmuni hans að veita aðgang að reikningnum.


  • A-423/2012. Úrskurður frá 18. júní 2012

    Kærð var sú ákvörðun Seðlabanka Íslands að synja beiðni um aðgang að upplýsingum um hvert bókfært virði seljendaláns bankans til nýrra eigenda hins danska FIH banka hefði verið í bókum Seðlabankans um áramótin 2011 til 2012. Í kærunni var ennfremur óskað eftir því að Seðlabankinn afhenti afrit af þeim kaupsamningi sem hann gerði við nýja eigendur FIH bankans þegar bankinn var seldur í október 2010. Staðfest ákvörðun Seðlabanka Íslands um synjun á beiðni um aðgang að bókfærðu virði seljendaláns en þar sem ekki lá fyrir synjun á beiðni um afrit af kaupsamningi við nýja eigendur FIH bankans var þeim hluta kærunnar vísað frá.


  • A-436/2012. Úrskurður frá 29. júní 2012

    Kærð var synjun fjármálaráðuneytisins á beiðni um aðgang að samningi um vörslu og skilyrtan virðisrétt og að hluthafasamkomulagi fjármálaráðuneytisins og Skilanefndar Kaupþings um Arionbanka. Mikilvægir fjárhags- eða viðskiptahagsmunir fyrirtækja og annarra lögaðila. Frávísun að hluta. Staðfest synjun um aðgang að samningi um vörslu og skilyrtan virðisrétt. Aðgangur veittur að hluta að hlutafjársamkomulagi.


  • A-422/2012. Úrskurður frá 18. júní 2012

    Kærð var sú ákvörðun velferðarráðuneytisins um synjun á beiðni um aðgang annars vegar að samningi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins við lögaðila um kaup á hugbúnaði fyrir heilsugæslustöðvar og hins vegar að samningi heilbrigðisráðuneytisins við lögaðila um kaup á rafrænum læknabréfum ásamt uppsetningu. Fallist var á beiðni kæranda að undanskildu einu fylgiskjali.


  • A-432/2012. Úrskurður frá 28. júní 2012

    Kærður var dráttur á svörum frá Landlækni vegna erindis, þar sem farið var fram á aðgang að kaupsamningum og öllum tengdum gögnum yfir veirulyfin Tamiflu og Relenza frá árinu 2006 til þess dags er beiðnin var sett fram. Landlæknir synjaði í kjölfarið beiðninni. Öryggi ríkisins. Synjun staðfest.


  • A-435/2012. Úrskurður frá 28. júní 2012

    Kærð var synjun Seðlabanka Íslands á beiðni um aðgang að hljóðritun milli formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands og forsætisráðherra um lánveitingu. Sérákvæði um þagnarskyldu. Synjun staðfest.


  • A-421/2012. Úrskurður frá 18. júní 2012

    Kærð var sú ákvörðun sýslumanns að synja beiðni um afrit af skýrslu frá fyrirtækinu Líf og sál ehf. til lögreglustjóra í tilefni ásakana um einelti kæranda í garð tiltekinna lögreglumanna. Kærandi hafði einungis fengið í hendur niðurlag skýrslunnar. Synjun staðfest varðandi lýsingar einstakra starfsmanna. Kærandi skyldi þó fá aðgang að öðrum hlutum skýrslunnar.


  • A-420/2012. Úrskurður frá 18. júní 2012

    Kærð var meint synjun Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða á beiðni um afhendingu allra gagna er vörðuðu meint kynferðisbrot gagnvart dóttur kæranda á Sólheimum, vistheimili Skúlagötu 46 og víðar. Kæruheimild var ekki fyrir hendi þar sem ekki var um synjun að ræða,  kæranda hafði verið boðinn aðgangur að þeim gögnum sem lágu fyrir hjá kærða. Frávísun.


  • A-419/2012. Úrskurður frá 18. júní 2012

    Kærð var sú ákvörðun Þjóðskjalasafns Íslands að synja um aðgang að skýrslum fimm einstaklinga sem gefnar voru fyrir rannsóknarnefnd Alþingis. Þagnarskylda. Synjun staðfest.


  • 15. maí 2012 / Kærunefnd jafnréttismála

    Mál nr. 1/2012

    Ráðning í starf. Hæfnismat.


  • A-418/2012. Úrskurður frá 20. apríl 2012

    Kærð var synjun Landspítala háskólasjúkrahúss á gögnum er vörðuðu opinber, en óútboðsskyld, innkaup spítalans á tilteknum vöruflokkum. Beiðni um gögn nægilega afmörkuð við tilgreind mál. Aðgangur aðila að gögnum er varða hann sjálfan. Ekki sýnt fram á að aðgangur að gögnunum gæti skaðað samkeppnisstöðu Landspítala eða hagsmuni viðskiptamanna spítalans, í samkeppni við kæranda. Ekki fallist á að aðgangur að gögnunum gæti verið til þess fallinn að valda fyrirtækjunum tjóni yrðu upplýsingarnar gerðar opinberar. Ráðstöfun almannafjár. Aðgangur veittur.


  • A-415/2012. Úrskurður frá 20. apríl 2012

    Kærð var synjun Þingvallanefndar á afhendingu gagna er vörðuðu annars vegar forkaupsrétt nefndarinnar að sumarhúsi, þ.e. samþykktu kauptilboði í sumarhúsið, tölvupóstum milli nefndarmanna í Þingvallanefnd vegna forkaupsréttarins og bréfi lögmanns Þingvallanefndar til lóðarleigusamningshafa um að fallið væri frá forkaupsrétti og hins vegar aðgangi að dreifibréfum sumarhúsaeigenda, ásamt álitsgerð lögfræðings, en gögnin höfðu verið lögð fram á fundum Þingvallanefndar. Synjað var á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga. Ekki varð af kaupum þeim sem forkaupsrétturinn varðaði og skjölum þar að lútandi því ekki þinglýst. Einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga Gögn er varða ákvörðun um hvort beita skuli opinberum fjárheimildum til forkaupsréttar. Gögn hluti af fyrirsjáanlegum réttarágreiningi sem einstaklingar hafa aflað og kostað. Synjun staðfest að hluta.


  • A-417/2012. Úrskurður frá 20. apríl 2012

    Kærð var synjun landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytisins á afhendingu efnahagsreikninga Bændasamtaka Íslands fyrir árin 2008-2010. Mikilvægir fjárhags- og viðskiptahagsmunir fyrirtækja og annarra lögaðila. Ráðstöfun opinberra fjármuna. Aðgangur veittur.


  • A-416/2012. Úrskurður frá 20. apríl 2012

    Kærð var synjun utanríkisráðuneytisins á aðgangi að skrá yfir þá muni sem tilteknum starfsmanni ráðuneytisins og eiginkonu hans voru bættir eftir að þeir eyðilögðust við flutning til Bandaríkjanna árið 2011. Einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga. Friðhelgi heimilis. Synjun staðfest.


  • A-414/2012. Úrskurður frá 20. apríl 2012

    Kærð var synjun Ríkiskaupa á afhendingu upplýsinga um tilboðsfjárhæðir annars bjóðanda í útboði Ríkiskaupa á flugsætum til og frá Íslandi. Kærandi var sjálfur þátttakandi í útboðinu. Þátttakandi í útboði telst aðili máls í skilningi þessa ákvæðis þegar hann fer fram á að fá aðgang að útboðsgögnum, þ. á m. gögnum frá öðrum þátttakendum í útboði, sem verða til áður en til samninga er gengið við tiltekinn bjóðanda. Með vísan til þessa leit úrskurðarnefndin svo á að 9. gr. upplýsingalaga gilti um aðgang kæranda að umbeðnum gögnum. Ekki fallist á að sýnt hefði verið fram á að það eitt og sér, gæti skaðað samkeppnisstöðu ríkisins á útboðsmarkaði, þótt kæranda yrði veittur aðgangur að umræddum tilboðsgögnum. Ekki heldur verið sýnt fram á að sérstök sjónarmið ættu að gilda um þá þjónustu sem rammasamningsútboðið laut að. Þá voru hagsmunir umrædds bjóðanda ekki taldir vega þyngra en hagsmunir kæranda af því að fá aðgang að gögnunum. Aðgangur veittur.


  • A-413/2012. Úrskurður frá 29. mars 2012

    Kærð var synjun Bankasýslu ríkisins á því að afhenda lista yfir alla umsækjendur um stöðu forstjóra stofnunarinnar, einnig þeirra sem dregið höfðu umsókn sína til baka eftir að umsóknarfresti lauk en áður en listinn var birtur. Bankasýsla ríkisins hafði hafnað því að birta nöfn þeirra sem dregið höfðu umsókn sína til baka, en birti lista yfir aðra umsækjendur. Málshraðareglu 11. gr. upplýsingalaga fullnægt. Einstaklingur sem sótt hefur um opinbert starf en dregur umsókn sína til baka verður almennt ekki lengur talinn umsækjandi um starfið. Synjun staðfest. Jafnframt var kærð afgreiðsla Bankasýslu ríkisins á beiðni Ríkisútvarpsins um sama lista og óskað eftir áliti úrskurðarnefndarinnar á því hvort Bankasýslu ríkisins hafi borið að birta lista yfir nöfn umsækjenda um leið og umsóknarfrestur um starfið rann út. Kæru málsins vísað frá að því leyti. Kæruheimild. Túlkun upplýsingalaga.


  • B-412/2012. Úrskurður frá 15. nóvember 2012

    Beiðni um endurupptöku úrskurðar nr. A-412/2012 hafnað.


  • A-412/2012. Úrskurður frá 29. mars 2012

    Kærð var afgreiðsla Kópavogsbæjar á beiðni um aðgang að gögnum er tengdust landi sem undirrituð hafði verið eignarnámssátt um þann 30. janúar 2007 milli aðila. Við afgreiðslu upplýsingabeiðna var ekki fylgt þeirri reglu 11. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 að stjórnvaldi beri að taka ákvörðun um, hvort það verði við beiðni um aðgang að gögnum, svo fljótt sem verða megi. Ennfremur ekki þeirri reglu að skýra skuli þeim, sem fer fram á aðgang að gögnum frá ástæðum tafa og hvenær ákvörðunar sé að vænta, hafi beiðni ekki verið afgreidd innan sjö daga frá móttöku hennar. Gögn ekki afhent úrskurðarnefnd, sbr. 2. mgr. 16. gr. upplýsingalaga, sbr. 3. gr. laga nr. 83/2000, jafn skjótt og ætla mátti að unnt hefði verið. Hlutverk úrskurðarnefndar. Fyrirliggjandi gögn. Vinnuskjöl. Skráning og vistun gagna. Kæruheimild. Gögn þegar afhent eða afhending samþykkt. Frávísun að hluta.


  • A-411/2012. Úrskurður frá 22. mars 2012

    Kærð var synjun Fjármálaeftirlitsins á aðgangi að stofnefnahagsreikningum Nýja Landsbanka Íslands hf., Nýja Kaupþings banka hf. og Nýja Glitnis banka hf., þ.e. þeim sem upphaflega voru útbúnir og afhentir stjórnum nýju bankanna þriggja á grundvelli laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., ásamt greinargerð um það hvernig eignir og skuldir voru klofnar út úr efnahag gömlu bankanna, þ.e. Landsbanka Íslands hf., Glitnis banka hf. og Kaupþings banka hf. Jafnframt var kærð synjun á aðgangi að afritum af öðrum gögnum sem innihéldu upplýsingar um þær forsendur sem lagðar hefðu verið til grundvallar við gerð framangreindra stofnefnahagsreikninga þar sem gerð þeirra væri að öðru leyti rakin. Vinnuskjöl. Gögn m.a. sett saman öðrum til afnota. Endanleg ákvörðun stjórnvalds, þrátt fyrir að hún hafi tekið breytingum síðar og því verið til bráðabirgða á þeim tíma er hún var tekin. Mikilvægir fjárhags- eða viðskiptahagsmunir. Sérstakt ákvæði um þagnarskyldu. Fyrirliggjandi gögn. Áður verið úrskurðað um aðgang að hluta gagna sem kæra beindist að. Aðgangur veittur að hluta. 


  • A-409/2012. Úrskurður frá 22. mars 2012

    Kærð var sú ákörðun Reykjavíkurborgar að synja um aðgang að tilboði tiltekins bjóðanda og fylgigögnum þess, í útboði Reykjavíkurborgar nr. 12484 á hreinsun gatna og gönguleiða 2011, en borgin samdi við viðkomandi aðila í útboðinu. Þagnarskylda. Aðgangur aðila að upplýsingum er varða hann sjáfan. Takmarkanir á upplýsingarétti almennings vegna mikilvægra fjárhags- eða viðskiptahagsmuna fyrirtækja eða annarra lögaðila. Takmarkanir á upplýsingarétti almennings vegna viðskipta stofnana eða fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga að því leyti sem þau eru í samkeppni við aðra. Aðgangur veittur.


  • A-410/2012. Úrskurður frá 22. mars 2012

    Kærð var sú ákvörðun Sorpu bs. að synja um aðgang að öllum gögnum og upplýsingum um viðskipta- og afsláttar-fyrirkomulag milli tiltekin fyrirtækis og Sorpu bs. vegna móttöku á sorpi. Tilgreining máls eða gagna í máli. Mikilvægir fjárhagsmunir fyrirtækja og annarra lögaðila. Hagsmunir kæranda. Mikilvægir viðskiptahagsmunir fyrirtækja og annarra lögaðila. Viðskipti stofnana í samkeppni við aðra. Ráðstöfun almannafjár. Aðgangur veittur.


  • A-408/2012. Úrskurður frá 22. mars 2012

    Kærð var afgreiðsla Landlæknisembættisins á beiðni um aðgang að skjölum og gögnum með upplýsingum um niðurstöður úttekta á hjúkrunarheimilum sem ekki hafði verið svarað. Í bréfi til úrskurðarnefndar féllst Landlæknisembættið á að veita kæranda aðgang að gögnunum, óskaði hann eftir því. Lagt fyrir Landlæknisembættið að afhenda kæranda umbeðin gögn.


  • A-407/2012. Úrskurður frá 22. mars 2012

    Kærð var sú ákvörðun Reykjavíkurborgar að synja beiðni um aðgang að tilboði tiltekins bjóðanda í útboði Reykjavíkurborgar, sem Reykjavíkurborg síðan samdi við, ásamt tilteknum fylgigögnum tilboðsins, sem og gögnum sem bárust eftir opnun tilboða, afriti af úttektarskýrslu Mannvits og matsskýrslu Mannvits á bjóðendum í útboðinu. Gögn nægilega tilgreind. Þagnarskylda. Aðgangur aðila er upplýsingar varða hann sjálfan. Vinnuskjöl. Takmarkanir á upplýsingarétti almennings vegna mikilvægra fjárhags- eða viðskiptahagsmuna fyrirtækja eða annarra lögaðila. Takmarkanir á upplýsingarétti almennings vegna viðskipta stofnana eða fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga að því leyti sem þau eru í samkeppni við aðra. Aðgangur veittur.


  • A-406/2012. Úrskurður frá 17. febrúar 2012

    Kærð var sú ákvörðun Seðlabanka Íslands að að synja um aðgang að tveimur bréfum umboðsmanns Alþingis vegna sölu á tilgreindu fyrirtæki og svörum Seðlabankans við þeim. Þagnarskylda. Synjun staðfest vegna bréfa umboðsmanns Alþingis. Aðgangur veittur að hluta svarbréfs Seðlabanka.


  • A-404/2012. Úrskurður frá 10. febrúar 2012

    Kærð var synjun Reykjavíkurborgar á beiðni um aðgang að gögnum um námsleyfi fjögurra starfsmanna Reykjavíkurborgar. Upplýsingaréttur almennings. Einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga. Ráðstöfun almannafjár. Aðgangur veittur. 


  • A-405/2012. Úrskurður frá 17. febrúar 2012

    Kærð var sú ákvörðun Háskóla Íslands að synja um aðgang að upplýsingum um nöfn tannlækna og aðstoðarfólks sem ráðið var til tannlæknadeildar HÍ til að sinna tímabundnu verkefni velferðarráðuneytisins um ókeypis tannlækningar fyrir börn. Listinn ekki fyrirliggjandi er beiðni um hann kom fram. Synjun staðfest.


  • A-403/2012. Úrskurður frá 10. febrúar 2012

    Kærð var afgreiðsla Reykjavíkurborgar á beiðni um aðgang að gögnum um námsleyfi starfsmanns Reykjavíkurborgar. Ekki til sérstök gögn um veitingu þess námsleyfis sem kæra beindist að. Frávísun.


  • A-402/2012. Úrskurður frá 10. febrúar 2012

    Kærð var sú ákvörðun Barnaverndarstofu að synja um aðgang að upplýsingum um fósturleyfishafa virkra fósturmála sem væru orðnir 50 ára eða eldri. Aðgangur að fyrirliggjandi gögnum. Aðgangur að skrám/ótilteknum fjölda mála. Synjun staðfest.


  • A-401/2012. Úrskurður frá 10. febrúar 2012

    Kærð var sú ákvörðun lögreglunnar á Eskifirði að hafna aðgangi að bókun er varðaði kæranda sjálfan með beinum hætti. Upplýsingaréttur aðila. Einkahagsmunir annarra. Aðgangur veittur, skylt að láta í té ljósrit eða afrit af bókuninni.


  • A-400/2012. Úrskurður frá 10. febrúar 2012

    Kærð var sú ákvörðun Þjóðskrár Íslands að synja um aðgang að kaupskrá Fasteignaskrár Íslands og afhendingu tiltekinna kaupskrárupplýsinga til endurnota til að verðmeta fasteignir. Aðgangur að skrá. Kæruheimild ekki fyrir hendi. Endurnot opinberra upplýsinga. Frávísun.


  • 08. febrúar 2012 / Kærunefnd jafnréttismála

    Mál nr. 8/2011

    Húsmæðraorlof.


  • A-396/2011. Úrskurður frá 29. desember 2011.

    Kærðar voru ákvarðarnir Neyðarlínunnar ohf. og lögreglunnar á Selfossi að synja um aðgang að upplýsingum um tilkynnanda. Gildissvið upplýsingalaga. Einkaréttarleg félög í eigu hins opinbera. Aðili máls. Frávísun að hluta, aðgangur veittur.


  • A-399/2011. Úrskurður frá 29. desember 2011.

    Kærð var sú ákvörðun Ago rekstrarfélags ehf. að synja um aðgang að samstarfssamningi við Icelandair. Gildissvið upplýsingalaga. Einkaréttarleg félög í eigu hins opinbera. Frávísun.


  • A-398/2011. Úrskurður frá 29. desember 2011.

    Kærð var sú ákvörðun Þjóðskjalasafns Íslands að synja um aðgang að ýmsum gögnum rannsóknarnefndar Alþingis sem vörðuðu bankann Glitni, þ. á m. skýrslum stjórnenda og starfsmanna fyrir rannsóknarnefndinni. Tilgreining máls eða gagna í máli. Þagnarskylda. Einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga. Mikilvægir fjárhags- eða viðskiptahagsmunir fyrirtækja og annarra lögaðila. Frávísun að hluta, synjun staðfest að hluta, úrskurði um aðgang að öðrum skýrslum frestað að svo stöddu.


  • A-397/2011. Úrskurður frá 29. desember 2011.

    Kærð var sú ákvörðun fjármálaráðuneytisins að synja um upplýsingar um kostnað við samninganefndir Íslands í Icesave-málinu. Bókhaldsgögn. Tilgreining máls eða gagna í máli. Aðgangur veittur.


  • 22. desember 2011 / Kærunefnd jafnréttismála

    Mál nr. 6/2011

    Ráðning í starf. Hæfnismat.


  • 22. desember 2011 / Kærunefnd jafnréttismála

    Mál nr. 7/2011

    Ráðning í starf. Hæfnismat.


  • A-391/2011. Úrskurður frá 14. desember 2011

    Kærð var sú ákvörðun mennta- og menningarmálaráðuneytisins að synja um aðgang að upplýsingum um samskiptaerfiðleika í Iðnskólanum í Hafnarfirði. Einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga. Vinnuskjöl. Aðgangur veittur að hluta.


  • A-393/2011. Úrskurður frá 14. desember 2011

    Kærð var sú ákvörðun Fjármálaeftirlitsins að takmarka aðgang að gögnum um föst launakjör tiltekinna starfsmanna. Beiðni skal beint að stjórnvaldi sem tekur stjórnvaldsákvörðun. Tilgreining máls eða gagna í máli. Einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga. Launakjör opinberra starfsmanna. Aðgangur veittur að hluta.


  • A-395/2011. Úrskurður frá 14. desember 2011

    Kærð var sú ákvörðun Fjármálaeftirlitsins að synja um aðgang að ráðningarsamningi forstjóra stofnunarinnar. Kæruheimild. Þegar orðið við beiðni. Frávísun.


  • A-394/2011. Úrskurður frá 14. desember 2011

    Kærður var dráttur Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands og Öndvegissetursins Eddu á að svara beiðnum kæranda um ýmsar upplýsingar sem tengdust fyrirlestrarröðinni Eilífðarvélinni og samnefndri bók. Ráðstöfun almannafjár. Aðgangur veittur.


  • A-392/2011. Úrskurður frá 14. desember 2011

    Kærð var sú ákvörðun Fræðsluskrifstofu rafiðnaðarins og sveinsprófsnefndar í rafgreinum að synja um afhendingu 21 prófverkefnis. Ljósrit. Aðgangur veittur.


  • A-390/2011. Úrskurður frá 25. nóvember 2011

    Kærð var sú ákvörðun forseta Íslands að synja um aðgang að undirskriftalista sem afhentur var forsetanum til þess að hvetja hann til að undirrita ekki lög nr. 13/2011 um svonefnda Icesave-samninga. Gildissvið upplýsingalaga. Frávísun.


  • A-389/2011. Úrskurður frá 25. nóvember 2011

    Kærð var sú ákvörðun Sorpu bs. að synja um aðgang að gögnum sem vörðuðu breytingu á stofnsamþykkt byggðasamlagsins árið 2007. Gildissvið upplýsingalaga. Vinnuskjöl. Aðgangur veittur að hluta.


  • A-388/2011. Úrskurður frá 25. nóvember 2011

    Kærð var sú ákvörðun Strætó bs. að synja um aðgang að gögnum er urðu til í tengslum við útboð kærða og gögnum er vörðuðu síðari samskipti kærða við Hagvagna hf. eftir að samþykkt var að ganga að tilboði félagsins. Gildissvið upplýsingalaga. Aðili máls. Mikilvægir fjárhags- eða viðskiptahagsmunir fyrirtækja og annarra lögaðila. Bréfaskipti við sérfræðinga til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfðað. Vinnuskjöl. Aðgangur veittur að hluta.


  • A-387/2011. Úrskurður frá 25. nóvember 2011

    Kærð var sú ákvörðun Þjóðskjalasafns Íslands að synja um aðgang að skýrslu sem gefin var fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 22. október 2009. Þagnarskylda. Synjun staðfest.


  • A-384/2011. Úrskurður frá 14. október 2011

    Kærð var sú ákvörðun forseta Íslands að synja um aðgang að bréfi forseta til forsætisráðherra, dags. 13. júlí 2010. Skjöl tekin saman fyrir fundi ríkisráðs. Aðgangur veittur.


  • A-385/2011. Úrskurður frá 14. október 2011

    Kærð var sú ákvörðun forseta Íslands að synja um aðgang að bréfi forseta til forsætisráðherra, dags. 13. júlí 2010. Skjöl tekin saman fyrir fundi ríkisráðs. Aðgangur veittur.


  • A-378/2011. Úrskurður frá 11. október 2011

    Kærð var sú ákvörðun Heilbrigðisstofnunar Suðurlands að synja um afhendingu afrita af öllum gildandi samningum stofnunarinnar um sértæka heilbrigðisþjónustu. Sérstaklega voru tilgreindir samningar stofnunarinnar við sveitarfélögin Árborg og Hveragerðisbæ. Tilgreining máls eða gagna í máli. Mikilvægir fjárhags- eða viðskiptahagsmunir fyrirtækja og annarra lögaðila. Samkeppnishagsmunir hins opinbera. Aðgangur veittur að hluta, frávísun.


  • A-380/2011. Úrskurður frá 11. október 2011

    Kærð var sú ákvörðun Heilbrigðisstofnunar Vesturlands að synja um afhendingu afrita af öllum gildandi samningum stofnunarinnar um sértæka heilbrigðisþjónustu. Sérstaklega var tilgreindur samningur stofnunarinnar við Norðurál. Tilgreining máls eða gagna í máli. Mikilvægir fjárhags- eða viðskiptahagsmunir fyrirtækja og annarra lögaðila. Aðgangur veittur að hluta, frávísun.


  • A-381/2011. Úrskurður frá 14. október 2011

    Kærð var sú ákvörðun landskjörstjórnar að synja um aðgang að gögnum um niðurstöðu talningar atkvæða í kosningum til stjórnlagaþings. Gildissvið upplýsingalaga. Frávísun.


  • A-383/2011. Úrskurður frá 11. október 2011

    Kærð var sú ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins að synja um afrit af leyfum til veiða á háhyrningum frá árinu 1983 og tengdum gögnum. Tilgreining máls eða gagna í máli.  Frávísun.


  • A-382/2011. Úrskurður frá 11. október 2011

    Kærð var afgreiðsla ríkislögmanns á beiðni um gögn um bann Fjármálaeftirlitsins við viðskiptum með hlutabréf í Glitni banka þann 6. október 2008. Kærufrestur. Kæruleiðbeiningar. Frávísun.


  • A-379/2011. Úrskurður frá 11. október 2011

    Kærð var sú ákvörðun Heilbrigðisstofnunar Austurlands að synja um afhendingu afrita af öllum gildandi samningum stofnunarinnar um sértæka heilbrigðisþjónustu. Sérstaklega var tilgreindur samningur stofnunarinnar við Alcoa Fjarðarál sf. Tilgreining máls eða gagna í máli. Samkeppnishagsmunir hins opinbera. Mikilvægir fjárhags- eða viðskiptahagsmunir fyrirtækja og annarra lögaðila. Aðgangur veittur að hluta, frávísun.


  • A-377B/2011. Úrskurður frá 14. desember 2011

    Farið fram á endurupptöku máls nr. A-377/2011. Beiðni um endurupptöku máls. Endurupptöku hafnað.


  • A-377/2011. Úrskurður frá 16. september 2011

    Kærð var sú ákvörðun heilbrigðisráðuneytisins að synja um aðgang að samningi við GlaxoSmithKline ehf. um kaup á bóluefni við svínaflensu o.fl. Mikilvægir fjárhags- eða viðskiptahagsmunir fyrirtækja og annarra lögaðila. Aðgangur veittur að hluta.


  • A-376/2011. Úrskurður frá 16. september 2011

    Kærð var sú ákvörðun utanríkisráðuneytisins að synja um aðgang að gögnum sem orðið hefðu til eftir að kærandi sendi tiltekna kvörtun til Eftirlitsstofnunar Fríverslunarsamtaka Evrópu og vörðuðu það málefni sem kvörtunin beindist að. Aðili máls. Samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir. Mikilvægir fjárhags- eða viðskiptahagsmunir fyrirtækja og annarra lögaðila. Aðgangur veittur að hluta.


  • 28. október 2011 / Kærunefnd jafnréttismála

    Mál nr. 9/2011

    Mismunun.


  • A-386/2011. Úrskurður frá 14. október 2011

    Kærð var sú ákvörðun forsætisráðuneytisins að synja um afhendingu bréfa forseta Íslands til forsætisráðherra, dags. 29. júní og 13. júlí 2010. Gögn í vörslum stjórnvalds. Aðgangur veittur.


  • 02. september 2011 / Kærunefnd jafnréttismála

    Mál nr. 5/2011

    Uppsögn


  • 12. ágúst 2011 / Kærunefnd jafnréttismála

    Mál nr. 4/2011

    Ráðning í starf. Hæfnismat.


  • 18. júlí 2011 / Kærunefnd jafnréttismála

    Mál nr. 3/2011

    Laun og starfskjör


  • A-373/2011. Úrskurður frá 28. júní 2011

    Kærð var sú ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur að synja um aðgang að gögnum er varða kaup Magma Energy Sweden AB á hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku hf. Gildissvið upplýsingalaga. Afmörkun kæruefnis. Gildissvið laga um upplýsingarétt um umhverfismál. Frávísun.


  • A-374/2011. Úrskurður frá 28. júní 2011

    Kærð var sú ákvörðun Seðlabanka Íslands að synja um aðgang að gögnum um kaup lífeyrissjóða á íbúðabréfum í eigu ríkissjóðs. Fyrirliggjandi gögn. Vinnuskjöl.Synjað um aðgang.


  • A-375/2011. Úrskurður frá 28. júní 2011

    Kærð var sú afgreiðsla Fjölbrautaskólans í Ármúla að synja um aðgang að gömlum prófum nema greiddar væru 500 kr. fyrir ljósrit af hverju prófi. Gjaldtaka fyrir ljósrit. Aðgangur veittur skv. skilyrðum gjaldskrár nr. 306/2009.


  • A-372/2011. Úrskurður frá 31. maí 2011

    Kærð var sú ákvörðun umboðsmanns Alþingis að synja um afhendingu korts af deiliskipulagssvæði sem kvörtun kæranda til umboðsmanns Alþingis laut að. Gildissvið upplýsingalaga. Frávísun.


  • A-369/2011. Úrskurður frá 31. maí 2011

    Kærð var sú ákvörðun Fjármálaeftirlitsins að synja um fullan aðgang að skýrslu dagsettri 2. nóvember sem nefnist: „Sérstök athugun, að beiðni stjórnar Fjármálaeftirlitsins, á atriðum er varða hæfi forstjóra Fjármálaeftirlitsins.“ Þagnarskylda. Einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga. Aðgangur veittur að hluta.


  • A-370/2011. Úrskurður frá 31. maí 2011

    Kærð var sú ákvörðun Fjármálaeftirlitsins að synja um aðgang að svörum fjögurra fjármálafyrirtækja við fyrirspurn stofnunarinnar. Þagnarskylda. Einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga. Mikilvægir fjárhags- eða viðskiptahagsmunir fyrirtækja og annarra lögaðila. Aðgangur veittur að hluta.


  • A-371/2011. Úrskurður frá 31. maí 2011

    Kærð var sú ákvörðun Blönduósbæjar að synja um afhendingu afrits af ráðningasamningum sveitarfélagsins við sviðsstjóra tæknideildar, skólastjóra grunnskóla, fjármálastjóra, bæjartæknifræðing, leikskólastjóra og bæjarstjóra sveitarfélagsins. Einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga. Ljósrit. Aðgangur veittur.


  • A-367/2011. Úrskurður frá 31. maí 2011

    Kærð var sú ákvörðun Borgarskjalasafns Reykjavíkur að synja kæranda um aðgang að ýmsum gögnum um látinn föður sinn. Aðili máls. Þagnarskylda. Einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga. Synjun staðfest.


  • A-368/2011. Úrskurður frá 31. maí 2011

    Kærð var sú ákvörðun Barnaverndarstofu að synja um aðgang að gögnum er varða umsókn barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar um meðferð fyrir dóttur kæranda á meðferðarheimilinu A. Gildissvið upplýsingalaga. Aðili máls. Einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga. Synjun staðfest.


  • A-366/2011. Úrskurður frá 31. maí 2011

    Kærð var sú ákvörðun Háskóla Íslands að synja um aðgang að listum yfir útreiknuð rannsóknastig háskólakennara við skólann fyrir árin 2001-2009. Gildissvið gagnvart lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Frávísun.


  • A-365/2011. Úrskurður frá 15. apríl 2011

    Kærð var sú ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins að synja um aðgang að minnisblaði um viðbrögð við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna nr. 1306/2004 frá 24. október 2007. Bréfaskipti við sérfræðinga til afnota í dómsmáli. Aðgangur veittur að hluta.


  • A-363/2011. Úrskurður frá 15. apríl 2011

    Kærð var sú ákvörðun efnahags- og viðskiptaráðuneytisins að synja um aðgang að drögum að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um innistæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta nr. 98/1999. Mikilvægir almannahagsmunir vegna fyrirhugaðra ráðstafana eða prófa á vegum ríkis eða sveitarfélaga. Vinnuskjöl. Aðgangur veittur.


  • A-363/2011B. Úrskurður frá 27. apríl 2011

    Farið var fram á það við úrskurðarnefnd um upplýsingamál að réttaráhrifum úrskurðar nefndarinnar nr. A-363/2011 yrði frestað. Frestun réttaráhrifa hafnað.


  • 27. apríl 2011 / Kærunefnd jafnréttismála

    Mál nr. 4/2010

    Ráðning í starf. Hæfnismat.


  • A-364/2011. Úrskurður frá 15. apríl 2011

    Kærð var sú ákvörðun Fornleifaverndar ríkisins að synja um aðgang að úttekt á kostnaði af viðhaldi Stangar í Þjórsárdal. Vinnuskjöl. Synjun staðfest.


  • A-362/2011. Úrskurður frá 31. maí 2011

    Kærður var dráttur og synjun Samkeppniseftirlitsins á beiðni um aðgang upplýsingum um rannsókn eftirlitsins á meintu ólögmætu samráði milli Hátækni ehf. og Tæknivara ehf./Skipta hf. á heildsölumarkaði fyrir farsíma.  Þagnarskylda. Mikilvægir fjárhags- eða viðskiptahagsmunir fyrirtækja og annarra lögaðila. Synjun staðfest.


  • 22. mars 2011 / Kærunefnd jafnréttismála

    Mál nr. 3/2010

    Skipun í embætti. Hæfnismat.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum