04/1997 - Úrskurður frá 30. janúar 1997 í málinu nr. A-4/1997
Hinn 30. janúar 1997 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-4/1997:
Kæruefni
Með bréfi, dags 20. janúar sl., kærði [...] synjun iðnaðarráðuneytisins, dags. 10. janúar 1997, um aðgang að skýrslu Ríkisendurskoðunar um viðskipti Iðnlánasjóðs og Byggingarfélagsins [A] hf. en með bréfi, dags. 2. janúar sl., hafði hann óskað eftir aðgangi að henni. Gerir hann aðallega þá kröfu að honum verði veittur aðgangur að skýrslunni í heild sinni en til vara að honum verði veittur aðgangur að þeim hluta skýrslunnar þar sem ekki er fjallað um mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.Með bréfi, dags. 21. janúar sl., var kæran send iðnaðarráðuneyti, og ráðuneytinu gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir synjuninni fyrir kl. 12 á hádegi hinn 24. janúar sl. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni væri látin í té sem trúnaðarmál þau gögn, sem kæran lýtur að. Umsögn ráðuneytisins, dags. 24. janúar sl., barst nefndinni samdægurs ásamt umræddum gögnum.
Eiríkur Tómasson prófessor vék sæti í máli þessu vegna fyrri afskipta sinna af því. Tekur varamaður Steinunn Guðbjartsdóttir sæti í nefndinni við afgreiðslu málsins. Þá tekur varamaðurinn Ólafur E. Friðriksson sæti í nefndinni við úrlausn málsins vegna forfalla Elínar Hirst.
Málsatvik
Málsatvik eru þau að með bréfi kæranda, dags. 21. júní 1993, til stjórnar Iðnlánasjóðs var óskað m.a. eftir "ítarlegri og óhlutdrægri (utanaðkomandi) rannsókn sjóðsstjórnar á samskiptum [A] hf. og tengdra félaga við Iðnlánasjóð." Iðnaðarráðherra sendi með bréfi, dags. 12. september 1993, Ríkisendurskoðun beiðni þessa til afgreiðslu. Með bréfi Ríkisendurskoðunar, dags. 1. júlí 1994, barst iðnaðarráðuneytinu skýrsla stofnunarinnar sem bar heitið "Greinargerð um fyrirgreiðslu Iðnlánasjóðs við Byggingarfélagið [A] hf. og tengd fyrirtæki."Kærandi hefur ítrekað freistað þess að fá umrædda skýrslu afhenta en án árangurs. Hann bar m.a. fram kvörtun hinn 26. ágúst 1994 til umboðsmanns Alþingis fyrir hönd tveggja hluthafa í [B] hf. vegna synjunar um skýrsluna en það fyrirtæki taldi sig hafa orðið fyrir tjóni af völdum Iðnlánasjóðs vegna fyrirgreiðslu við [A] hf. Niðurstaða umboðsmanns var þess efnis að umbjóðendur kæranda ættu eigi rétt til aðgangs að skýrslum þessum á grundvelli 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Kærandi telur sig nú eiga rétt á afhendingu téðrar skýrslu á grundvelli upplýsingalaga nr. 50/1996. Hann bendir á að lagaákvæði þau sem ráðuneytið byggi synjun sína á, þ.e. um þagnarskyldu banka og lánastofnana, sbr. 21. gr. laga nr. 76/1987, um Iðnlánasjóð, og 4. mgr. 7. gr. laga nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, sbr. 43. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, eigi ekki við í málinu vegna gjaldþrots [A] hf.
Í áðurnefndu svarbréfi iðnaðarráðuneytisins til úrskurðarnefndar er ítrekuð fyrri afstaða ráðuneytisins við beiðni kæranda. Byggir ráðuneytið synjun sína á áðurnefndum lagaákvæðum og að ákvæði þeirra laga um þagnarskyldu séu sérákvæði sem gangi framar 5. gr. upplýsingalaga.
Aðilar máls þessa hafa fært ítarleg rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn þessa máls.
Niðurstaða
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 76/1987, um Iðnlánasjóð, er tilgangur sjóðsins að efla framleiðslu og framleiðni í iðnaði með því að veita stofnlán og styðja við almennt umbótastarf í iðnaði. Iðnlánasjóður heyrir undir iðnaðarráðherra og eru tekjur hans gjald af öllum iðnaði í landinu, sbr. 2. og 4. gr. laganna, sbr. lög nr. 134/1993, um iðnaðarmálagjald.Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 taka lögin til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Telst Iðnlánasjóður heyra til stjórnsýslu ríkisins í þessum skilningi.
Stjórnvöldum er gert skylt skv. 3. gr. upplýsingalaga sé þess óskað að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr. laganna. Í 5. gr. laganna eru takmarkanir á upplýsingarétti að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Grein þessi tekur ekki til Iðnlánasjóðs samkvæmt skilgreiningu á sjóðnum hér að framan.
Frekari takmarkanir á upplýsingarrétti koma fram 3. tölul. 1. mgr. 6. gr. upplýsingalaga þar sem heimilað er að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um viðskipti stofnana og fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga að því leyti sem þau eru í samkeppni við aðra. Heyrir Iðnlánasjóður þar undir.
Í 4. gr. laga nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, segir að um stjórnendur og stjórnun lánastofnunar gildi ákvæði um stjórn viðskiptabanka og sparisjóða í 38.-43. gr. laga um þær stofnanir.
Í 43. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, segir að bankaráðsmenn, stjórnarmenn sparisjóðs, bankastjórar og sparisjóðsstjórar, endurskoðendur og aðrir starfsmenn viðskiptabanka eða sparisjóðs séu bundnir þagnarskyldu um allt það er varðar hagi viðskiptamanna hlutaðeigandi stofnunar og um önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skuli fara samkvæmt lögum eða eðli máls.
Í 21. gr. laga nr. 76/1987 kemur fram bann við því að stjórn Iðnlánasjóðs láti óviðkomandi aðilum í té nokkuð af þeim upplýsingum sem gefnar eru í sambandi við lántökubeiðnir eða lántökur úr sjóðnum. Skýra verður ákvæðið "óviðkomandi aðilum" með hliðsjón af meginsjónarmiðum upplýsingalaga.
[A] hf. var tekið til gjaldþrotaskipta í maí 1993 og skiptum á búinu er lokið. Það að skiptum á búinu er lokið leiðir ekki almennt til þess að kærandi eigi rétt til aðgangs að gögnum þess enda gætu verið þar um að ræða upplýsingar um viðskipti þrotabúsins, t.d. við önnur fyrirtæki sem viðskiptaleynd ætti að ríkja um. Hins vegar er ljóst að við þessar aðstæður eru ekki fyrir hendi sömu hagsmunir tengdir þeim trúnaðarupplýsingum sem skylt er að takmarka aðgang að sbr. 5. eða 6. gr. upplýsingalaga, sbr. og áðurnefnd ákvæði um þagnarskyldu starfsmanna banka og lánastofnana. Má í því sambandi hafa hliðsjón af hrd. í málinu nr. 419/1995 Rannsóknarlögregla ríkisins gegn Agnesi Bragadóttur. (H 1996:40)
Úrskurðarnefnd hefur farið yfir greinargerð Ríkisendurskoðunar um fyrirgreiðslu Iðnlánasjóðs við Byggingarfélagið [A] hf. og tengd fyrirtæki. Greinargerðin hefur aðallega að geyma annars vegar upplýsingar um lánafyrirgreiðslu Iðnlánasjóðs við fyrirtækið og tengd fyrirtæki og hins vegar mat Ríkisendurskoðunar á því hvort eðlilega hafi verið staðið að málum af hálfu Iðnlánasjóðs. Það er mat úrskurðarnefndar að greinargerð þessi hafi ekki að geyma upplýsingar um hag viðskiptamanna eða önnur atriði sem leynt skuli fara samkvæmt eðli máls þannig að 43. gr. laga nr. 113/1996 eða 21. gr. laga nr. 76/1987 standi því í vegi að kærandi megi fá aðgang að henni.
Með vísun til þess sem hér hefur verið rakið er það álit úrskurðarnefndar að iðnaðarráðuneytinu sé ekki rétt að neita kæranda um aðgang að skýrslunni. Iðnaðarráðuneytinu ber því að afhenda kæranda greinargerðina í heild sinni.
Úrskurðarorð:
Iðnaðarráðuneytinu ber að veita kæranda aðgang að skýrslu Ríkisendurskoðunar sem ber heitið "Greinargerð um fyrirgreiðslu Iðnlánasjóðs við Byggingarfélagið [A] hf. og tengd fyrirtæki".Valtýr Sigurðsson, formaður
Ólafur E. Friðriksson
Steinunn Guðbjartsdóttir