07/1997 - Úrskurður frá 12. mars 1997 í málinu nr. A-7/1997
Hinn 12. mars 1997 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-7/1997:
Með bréfi, dagsettu 4. mars sl., kærði [A] synjun Rafmagnsveitna ríkisins (RARIK), dagsetta 3. mars sl., um að afhenda honum ljósrit af bréfi frá [B], sem kærandi taldi að hefði verið lagt fram á stjórnarfundi í RARIK.
Með bréfi, dagsettu 5. mars sl., var kæran send Rafmagnsveitum ríkisins og fyrirtækinu gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun fyrir kl. 12 á hádegi hinn 10. mars sl. Jafnframt var þess óskað að fyrirtækið léti úrskurðarnefndinni í té sem trúnaðarmál það skjal, sem kæran lýtur að, innan þessa frests.
Umsögn Rafmagnsveitna ríkisins, dagsett 10. mars sl., barst nefndinni samdægurs, ásamt ljósriti af umræddu skjali.
Atvik þessa máls eru í stuttu máli þau að kærandi ritaði Rafmagnsveitum ríkisins bréf, dagsett 12. janúar sl., þar sem orðrétt segir: "Ég undirritaður krefst þess að fá afhent ljósrit af harðorðu bréfi í minn garð sem lagt var fram á stjórnarfundi í RARIK á síðastliðnu sumri ... Þetta bréf er að sögn frá [B]."
Forstjóri Rafmagnsveitna ríkisins svaraði beiðni kæranda með bréfi, dagsettu 3. mars sl. Í svarbréfinu kemur fram að beiðni kæranda var fyrst afhent á skrifstofu fyrirtækisins 25. febrúar sl. og var erindið tekið fyrir á stjórnarfundi þess sama dag. Í svarinu segir ennfremur að bréf það frá [B], sem kærandi fari fram á að fá afhent, varði beiðni kæranda um aðgang að heitu vatni úr landi jarðarinnar [C]. Sé fyrirtækið eigandi að 9/14 hlutum hennar á móti [B] og fjórum bræðrum hans. Í hinu umbeðna bréfi komi ekkert annað fram en höfnun meðeigenda fyrirtækisins á þessari beiðni kæranda. Í lok svarbréfsins segir síðan orðrétt: "Það er ekki hlutverk Rafmagnsveitnanna að hafa milligöngu milli yðar og meðeigenda Rafmagnsveitnanna að [C]. Ef þér viljið kynna yður sérstaklega afstöðu þeirra til beiðni yðar er réttast að þér snúið yður beint til þeirra og munið þér þá vafalaust fá afrit af umræddu bréfi afhent."
Í fyrrgreindri umsögn Rafmagnsveitna ríkisins er m.a. tekið fram að umbeðið bréf frá [B] var ekki lagt fram á stjórnarfundi fyrirtækisins, heldur var efni þess eingöngu kynnt á fundinum. Jafnframt er staðfest að fyrirtækið hafi neitað að afhenda kæranda bréfið.
Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn þessa máls.
Enginn vafi leikur á því að upplýsingalög nr. 50/1996 taka til Rafmagnsveitna ríkisins, sbr. 1. gr. laganna.
Mál það, sem hér er til úrlausnar, varðar beiðni kæranda um aðgang að skjali sem hefur að geyma upplýsingar sem snerta hann sjálfan. Skjalið er hins vegar ekki tengt stjórnsýslumáli þar sem taka á stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Af þeim sökum gildir III. kafli upplýsingalaga um aðgang kæranda að skjalinu. Skiptir í því sambandi ekki máli þótt það hafi verið sent Rafmagnsveitum ríkisins sem meðeiganda að jörð þeirri er að framan greinir.
Í 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að skjölum og öðrum gögnum sem varða tiltekið mál ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan." Í 2. og 3. mgr. þeirrar greinar er að finna undantekningar frá þessari meginreglu, þ.á m. segir svo í 3. mgr.: "Heimilt er að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýs- ingunum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnunum."
Álit úrskurðarnefndar er það að í hinu umbeðnu skjali sé ekki að finna neinar þær upplýsingar um einkamálefni annarra, sem mæli með því að upplýsingunum sé haldið leyndum. Sérstaklega skal tekið fram að í athugasemdum með frumvarpi til upplýsingalaga segir berum orðum að yfirlýsing þess, sem á andstæðra hagsmuna að gæta, um að hann vilji ekki að upplýsingar, sem leitað er eftir skv. 9. gr. laganna, séu gefnar sé ein og sér ekki nægileg ástæða til að synja beiðni um upplýsingar.
Með vísun til þess, sem hér hefur verið rakið, ber Rafmagnsveitum ríkisins að veita kæranda aðgang að hinu umbeðna skjali.
Úrskurðarorð:
Rafmagnsveitum ríkisins er skylt að veita kæranda aðgang að bréfi [B] sem hann ritaði fyrirtækinu á árinu 1996 og móttekið var af því 4. mars 1996.
Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson