12/1997 - Úrskurður frá 12. maí 1997 í málinu nr. A-12/1997
Hinn 12. maí 1997 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-12/1997:
Með bréfi, dagsettu 21. apríl sl., kærði [...] hdl., f.h. [...] og [...], synjun landbúnaðarráðuneytis, dagsetta 3. apríl 1997, um að veita þeim "aðgang að upplýsingum varðandi kaup ríkisins á fasteignum á ríkisjörðum á árunum 1986 til 1990". Í erindi kærenda til landbúnaðarráðuneytis, dagsettu 18. mars 1997, er tilgreint að málin varði kaup fasteigna á ríkisjörðunum "[A, B, C, D, E, F og G]".
Með bréfi, dagsettu 21. apríl sl., var kæran send landbúnaðarráðuneyti og ráðuneytinu gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun fyrir kl. 12 á hádegi hinn 25. apríl sl. Jafnframt var þess óskað að ráðuneytið léti úrskurðarnefndinni í té sem trúnaðarmál þau gögn sem kæran lýtur að innan sama frests.
Þann dag barst nefndinni umsögn ráðuneytisins, dagsett sama dag, ásamt ljósritum af eftirgreindum skjölum:
1. Afsal að bogaskemmu, fjárhúsi og hlöðu á [A], dagsett 29. ágúst 1986.
2. Úttekt á jörðinni [B], dagsett 15. júní 1987.
3. Endurrit afsals að íbúðarhúsi, fjárhúsi með áburðarkjallara, flatgryfju og vélageymslu á [C], dagsett 18. mars 1988.
4. Afsal að þurrheyshlöðu á [D], dagsett 8. nóvember 1988.
5. Samkomulag um sölu flatgryfju á [E], dagsett 12. apríl 1989.
6. Afsal að minkahúsi, aðstöðuhúsi, búr- og hreiðurkössum, fóðursílói í [F], dagsett 4. apríl 1990.
7. Afsal að íbúðarhúsi, loðdýrahúsi, fjósi, haughúsi, þurrheyshlöðum, fjárhúsi og 14,7 ha. ræktun í [G], dagsett 20. júní 1990.
Atvik máls þessa eru í stuttu máli þau að með bréfi, dagsettu 18. mars sl., kröfðust kærendur þess af landbúnaðarráðuneyti að vera veittar "upplýsingar um kaup ríkisins á fasteignum á ríkisjörðunum [A, B, C, D, E, F og G]". Í erindi þeirra kom jafnframt fram að "samkvæmt upplýsingum úr Alþingistíðindum, 3. umr. um fjárlög fyrir árið 1992, [dálki] 3754, fóru kaup þessi fram á árunum 1986 til 1990, án ábúðarloka ábúenda". Ennfremur óskuðu þeir eftir að aðgangur yrði veittur í formi ljósrita af gögnum í hinum tilteknu málum.
Landbúnaðarráðuneytið svaraði beiðni kærenda með bréfi, dagsettu 3. apríl sl., þar sem henni er hafnað. Í svari ráðuneytisins er tekið fram "að það [líti] svo á að óheimilt sé að veita umbeðnar upplýsingar og [sé] í því sambandi vísað til 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996".
Í umsögn landbúnaðarráðuneytis til úrskurðarnefndar, dagsettri 25. apríl sl., segir að henni fylgi gögn tilgreindra eignakaupa, "þ.e. afsöl, samkomulag og í einu tilvika úttektargerð frá úttektarmönnum viðkomandi sveitarfélags, sem litið [sé] á sem ígildi samnings í þessu sambandi". Þá er vísað til þess að "gögn þessi haf[i] að geyma upplýsingar um þær eignir sem keyptar voru á viðkomandi jörðum, í sumum tilvikum lýsing[u] á eignunum og mat á söluverði þeirra. Þá haf[i] gögn þessi að geyma upplýsingar um skuldir þeirra ábúenda sem hlut eiga að máli. Ljóst [sé] að tilefni þeirra eignakaupa sem hér um ræðir voru fjárhagserfiðleikar ábúenda á umræddum ríkisjörðum. Oft var um að ræða vanskil á veðlánum og nauðungarsölumeðferð jarða, sem ráðuneytið taldi rétt að stöðva. Þá [megi] benda á að ekki var í öllum tilvika um að ræða kaup á öllum húsum og öðrum framkvæmdum ábúenda á jörðum þessum, sem hefði orðið ef til ábúðarloka hefði komið." Jafnframt tekur ráðuneytið fram "að því beri að gæta trúnaðar við þá aðila sem annað tveggja selja eignir og framkvæmdir til jarðeigna ríkisins, hvort sem um [sé] að ræða ábúðarlok á jörðum, sbr. 1. mgr. 16. gr. ábúðarlaga nr. 64/1976, eða aðrar aðstæður [séu] fyrir hendi. Sama gildir um sölu jarða og jarðahluta til einstaklinga og sveitarfélaga samkvæmt lagaheimildum jarðalaga nr. 65/1976 eða öðrum heimildum." Loks gerir ráðuneytið grein fyrir að það hafi "fylgt þeirri vinnureglu að gefa ekki upp kaupverð í slíkum samningum".
Þá hefur ráðuneytið upplýst, í símbréfi til úrskurðarnefndar, dagsettu 5. maí sl., að það hafi sent afsöl þau, sem auðkennd eru nr. 6 og 7 hér að framan, til hlutaðeigandi sýslumanna með beiðni um þinglýsingu.
Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.
1.
Í athugasemdum með frumvarpi til upplýsingalaga kemur m.a. fram að sá, sem óskar aðgangs að málsgögnum, þurfi ekki að vera tengdur máli eða aðilum þess. Hann þurfi heldur ekki að tilgreina til hvers hann ætli að nota upplýsingarnar. Af þessum ummælum verður dregin sú ályktun að markmið með beiðni um aðgang að upplýsingum eigi ekki að skipta máli við skýringu á lögunum, hvorki til rýmkunar né til þrengingar á upplýsingarétti almennings.
Í 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr." Í 5. gr. laganna segir síðan: "Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila." Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga, er m.a. tekið fram, til skýringar á því hvaða fjárhagsmálefni einstaklinga séu þess eðlis að sanngjarnt sé og eðlilegt að þau fari leynt, að óheimilt sé að veita upplýsingar um tekjur og fjárhagsstöðu einstaklinga nema það byggist á sérstakri lagaheimild.
Með hliðsjón af síðastgreindu orðalagi lítur úrskurðarnefnd svo á að komi ríki eða sveitarfélög fram eins og hverjir aðrir einkaaðilar við kaup og sölu fasteigna og lausafjár séu upplýsingar um kaup- og söluverð, svo og upplýsingar um greiðsluskilmála, þess eðlis að sanngjarnt sé og eðlilegt að þær fari leynt skv. 5. gr. upplýsingalaga. Í því máli, sem hér er til úrlausnar, kom landbúnaðarráðuneytið í öllum tilvikum fram sem landsdrottinn í skilningi ábúðarlaga, sbr. nú lög nr. 64/1976, eins og hver annar einstaklingur eða einkaaðili. Samkvæmt því ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun landbúnaðarráðuneytisins, sbr. þó kafla 3 hér á eftir.
Í 9. gr. reglugerðar nr. 284/1996 um þinglýsingar segir: "Almenningur skal hafa aðgang að þinglýsingabókum og skjalahylkjum þeim eða möppum, sem geyma eintök þinglýstra skjala í þeim tilgangi að kynna sér efni þeirra, eftir nánari ákvörðun viðkomandi þinglýsingarstjóra." Eins og fram hefur komið hefur afsölum þeim, sem auðkennd eru nr. 6 og 7 hér að framan, verið þinglýst. Með því móti hafa upplýsingar, sem þau skjöl hafa að geyma, verið gerðar opinberar á grundvelli fyrrgreinds reglugerðarákvæðis, sbr. þinglýsingarlög nr. 39/1978.
Þótt úrskurðarnefnd telji samkvæmt framansögðu að upplýsingar þessar séu almennt þess eðlis að sanngjarnt sé og eðlilegt að þær fari leynt, hefur réttarstaðan breyst að mati nefndarinnar við það að skjölunum hefur verið þinglýst þar eð hver sem er getur nú kynnt sér þær upplýsingar sem þar koma fram. Í ljósi þess telur nefndin að landbúnaðarráðuneytinu sé skylt að veita kærendum aðgang að hinum umræddu skjölum.
Hin kærða ákvörðun landbúnaðarráðuneytisins þess efnis, að synja kærendum um aðgang að skjölum varðandi kaup ríkisins á fasteignum á tilteknum sjö ríkisjörðum á árunum 1986 til 1990, er staðfest, að öðru leyti en því að veita ber þeim aðgang að:
Skjali, auðkenndu nr. 6, þ.e. afsali að minkahúsi, aðstöðuhúsi, búr- og hreiðurkössum, fóðursílói í [F], dagsettu 4. apríl 1990.
Skjali, auðkenndu nr. 7, afsali að íbúðarhúsi, loðdýrahúsi, fjósi, haughúsi, þurrheyshlöðum, fjárhúsi og 14,7 ha. ræktun í [G], dagsettu 20. júní 1990.
Eiríkur Tómasson, formaður
Valtýr Sigurðsson
Ég undirrituð er ósammála meirihluta úrskurðarnefndar um þá túlkun á 5. gr. upplýsingalaga sem fram kemur í 2. lið í niðurstöðu úrskurðarins. Tel ég að upplýsingar þær, sem hin umbeðnu skjöl hafa að geyma, séu ekki þess eðlis að sanngjarnt sé og eðlilegt að þær fari leynt. Niðurstaða mín er því sú að landbúnaðarráðuneytinu eigi að vera skylt að veita kærendum aðgang að þeim öllum.
Elín Hirst