Hoppa yfir valmynd

16/1997 - Úrskurður frá 4. júlí 1997 í málinu nr. A-16/1997

Hinn 4. júlí 1997 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-16/1997:

Kæruefni
Með bréfi, dagsettu 23. júní sl., kærði [...], f.h. [...], synjun dóms- og kirkjumálaráðuneytis, dagsetta 23. maí sl., um að veita upplýsingar um ástæður fyrir náðun [A] af refsingu samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, [...].

Með bréfi, dagsettu 25. júní sl., var kæran send dóms- og kirkjumálaráðuneyti og því gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun til kl. 16.00 hinn 30. júní sl.

Jafnframt var þess óskað að ráðuneytið léti úrskurðarnefndinni í té sem trúnaðarmál þau gögn, sem kæran lýtur að, innan sama frests. Þann sama dag fór dóms- og kirkjumálaráðuneytið þess á leit að frestur þessi yrði framlengdur til föstudagsins 4. júlí sl. Var fresturinn framlengdur til 1. júlí sl., en þann dag barst umsögn ráðuneytisins, dagsett 30. júní sl., ásamt eftirtöldum skjölum:
    1. Bréfi [B], umboðsmanns dómþola, til dóms- og kirkjumálaráðuneytis, dagsettu 27. desember 1996.
    2. Bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytis til fangelsismálastofnunar, dagsettu 30. desember 1996.
    3. Bréfi fangelsismálastofnunar til dóms- og kirkjumálaráðuneytis, dagsettu 6. janúar 1997, ásamt eftirtöldum fylgigögnum:

      a. Samantekt um dómþola, dagsett 2. janúar 1997.
      b. Sakavottorð dómþola, dagsett 3. janúar 1997.
      c. Endurrit úr dómabók Héraðsdóms Reykjavíkur, dagsett [...].

    4. Bréfi [B] til dóms- og kirkjumálaráðuneytis, dagsettu 9. janúar 1997, ásamt geðrannsókn [C] geðlæknis á dómþola, dagsett 11. október 1996.
    5. Læknisvottorði [D] sérfræðings í geðlækningum varðandi dómþola, dagsettu 10. febrúar 1997.
    6. Tillögu náðunarnefndar til dóms- og kirkjumálaráðherra varðandi náðunarbeiðni dómþola, dagsettri 6. mars 1997.
    7. Bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytis til [B], dagsettu 10. mars 1997.
    8. Bréfi [E] og [F] til dóms- og kirkjumálaráðuneytis, dagsettu 30. mars 1997.
    9. Bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytis til fangelsismálastofnunar, dagsettu 3. apríl 1997.
    10. Bréfi fangelsismálastofnunar til dóms- og kirkjumálaráðuneytis, dagsettu 4. apríl 1997, ásamt eftirtöldum fylgigögnum:

      a. Tilkynningu um afplánun, dagsettri 20. mars 1997.
      b. Tilkynningu um skiptingu afplánunar, dagsettri 24. mars 1997.
      c. Bréfi [G] fangelsislæknis til fangelsismálastofnunar, dagsettu 24. mars 1997.
      d. Skýrslu [H] varðstjóra Hegningarhússins, dagsettri 24. mars 1997.
      e. Bréfi [I] læknis til fangelsismálastofnunar, dagsettu 19. mars 1997.

    11. Bréfi [I] til fangelsismálastofnunar, dagsettu 24. mars 1997.
    12. Tillögu náðunarnefndar til dóms- og kirkjumálaráðuneytis varðandi náðunarbeiðni dómþola, dagsettri 8. apríl 1997.
    13. Bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytis til ríkisráðsritara, dagsettu 9. apríl 1997, ásamt tillögu til forseta Íslands um náðun.
    14. Bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytis til fangelsismálastofnunar, dagsettu 7. maí 1997, ásamt náðunarskjali og bréfi ríkisráðsritara, dagsettu 29. apríl 1997.

Málsatvik
Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að umboðsmaður kæranda fékk upplýst hjá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu að [A] hefði verið veitt náðun af refsingu samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum [...], fyrir brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í framhaldi af því ritaði umboðsmaður kæranda dóms- og kirkjumálaráðuneytinu bréf, dagsett 15. maí sl., og fór þess á leit að fá rökstuðning og/eða upplýsingar um ástæður fyrir náðuninni með vísan til 10. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 og hagsmuna kæranda sem brotaþola í dómsmáli því þar sem hinn náðaði var sakfelldur. Jafnframt óskaði hann eftir að meðferð á beiðni hans yrði ekki fram haldið ef ráðuneytið teldi henni ekki verða lokið án þess að kynna hinum náðaða beiðnina.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hafnaði beiðni kæranda með bréfi, dagsettu 23. maí 1997, með vísan til þess að gögn málsins varði einkamálefni sem undanþegin séu aðgangi almennings skv. 5. gr. upplýsingalaga. Jafnframt tók ráðuneytið fram að í samræmi við beiðni kæranda hefði það ekki leitað eftir samþykki þess, er upplýsingarnar varða, til að veita aðgang að þeim.

Í umsögn dóms- og kirkjumálaráðuneytis til úrskurðarnefndar, dagsettri 30. júní sl., er áréttað að gögn málsins hafi "nánast öll að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar á borð við þær sem ... falla undir 4. gr. laga um skráningu og meðferð persónuupplýsinga" nr. 121/1989 sem óyggjandi megi telja að falli þá jafnframt undir 5. gr. upplýsingalaga.

Aðilar máls þess hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

1.
Þótt kærandi hafi verið brotaþoli í því dómsmáli, þar sem [A] var sakfelldur, telst hún ekki vera aðili að náðunarmáli því sem þetta mál er sprottið af. Þar af leiðandi gilda upplýsingalög, en ekki stjórnsýslulög, um aðgang hennar að gögnum í náðunarmálinu.

Í athugasemdum með frumvarpi til upplýsingalaga kemur m.a. fram að sá, sem óskar aðgangs að málsgögnum, þurfi ekki að vera tengdur máli eða aðilum þess. Hann þurfi heldur ekki að tilgreina til hvers hann ætli að nota upplýsingarnar. Af þessum ummælum verður dregin sú ályktun að markmið með beiðni um aðgang að upplýsingum eigi ekki að skipta máli við skýringu á lögunum, hvorki til rýmkunar né þrengingar á upplýsingarétti almennings.
2.
Í 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr." Í 1. tölul. 4. gr. laganna er tekið fram að réttur almennings til aðgangs að gögnum taki ekki til "fundargerða ríkisráðs og ríkisstjórnar, minnisgreina á ráðherrafundum og skjala sem tekin hafa verið saman fyrir slíka fundi". Í 5. gr. segir ennfremur: "Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á." Í athugasemdum, er fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga, er m.a. tekið fram, til skýringar á þessu ákvæði, að þær persónuupplýsingar, sem taldar eru upp í 4. gr. laga nr. 121/1989, séu allar undanþegnar aðgangi almennings. Í b-lið þeirrar greinar eru tilgreindar "upplýsingar um það hvort maður hafi verið grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað" og í c-lið "upplýsingar um kynlíf manna og heilsuhagi, lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun".

Úrskurðarnefnd lítur svo á að framangreindar undantekningar frá meginreglu 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga beri að skýra þröngt. Það er þannig álit nefndarinnar að 1. tölul. 4. gr. laganna taki einungis til skjala, sem tekin hafa verið saman fyrir fundi ríkisráðs, svo og til fundargerða ráðsins, en ekki til annarra skjala en fundargerða þótt þau hafi að geyma frásögn af fundum þess.

Með vísun til þess, sem að framan segir, eru upplýsingar um sakaferil [A] og heilsuhagi hans upplýsingar um einkamálefni sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Þar eð samþykki hans liggur ekki fyrir var dóms- og kirkjumálaráðuneytinu því rétt að neita kæranda um aðgang að þessum upplýsingum, að svo miklu leyti sem þær er að finna í þeim gögnum sem beiðni hennar tók til. Að áliti úrskurðarnefndar fellur umfjöllun um náðunarbeiðni [A] og afgreiðsla á henni að öðru leyti ekki undir undantekningarregluna í 5. gr. upplýsingalaga.

Samkvæmt framansögðu og með vísun til 7. gr. upplýsingalaga, þar sem segir að eigi ákvæði 4.-6. gr. laganna aðeins við um hluta skjals skuli veita almenningi aðgang að öðru efni skjalsins, telur nefndin að dóms- og kirkjumálaráðuneytinu sé skylt að veita kæranda aðgang að eftirgreindum skjölum eða hluta þeirra:

Skjali, auðkenndu nr. 2: Bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til fangelsismálastofnunar, dagsettu 30. desember 1996.

Skjali, auðkenndu nr. 6: Tillögu náðunarnefndar til dóms- og kirkjumálaráðherra, dagsettri 6. mars 1997 (að hluta).

Skjali, auðkenndu nr. 9: Bréfi ráðuneytisins til fangelsismálastofnunar, dagsettu 3. apríl 1997 (að hluta).

Skjali, auðkenndu nr. 12: Tillögu náðunarnefndar til dóms- og kirkjumálaráðherra, dagsettri 8. apríl 1997 (að hluta).

Skjali, auðkenndu nr. 14: Bréfi ráðuneytisins til fangelsismálastofnunar, dagsettu 7. maí 1997, ásamt bréfi ríkisráðsritara, dagsettu 29. apríl 1997.

Ljósrit af skjölum nr. 6, 9 og 12 fylgja því eintaki af úrskurði þessum, sem sent verður ráðuneytinu, þar sem nefndin hefur merkt við þá hluta sem hún telur rétt að undanþiggja aðgangi almennings skv. 5. gr. upplýsingalaga.

Önnur gögn í máli þessu, sem eru í vörslu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, eru þess eðlis, að dómi nefndarinnar, að skylt er eða heimilt samkvæmt framansögðu að undanþiggja þau upplýsingarétti almennings.

Úrskurðarorð:
Hin kærða ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins er staðfest, að öðru leyti en því að ráðuneytinu ber að veita kæranda aðgang að eftirgreindum skjölum eða hluta þeirra:

Skjali, auðkenndu nr. 2: Bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til fangelsismálastofnunar, dagsettu 30. desember 1996.

Skjali, auðkenndu nr. 6: Tillögu náðunarnefndar til dóms- og kirkjumálaráðherra, dagsettri 6. mars 1997 (að hluta).

Skjali, auðkenndu nr. 9: Bréfi ráðuneytisins til fangelsismálastofnunar, dagsettu 3. apríl 1997 (að hluta).

Skjali, auðkenndu nr. 12: Tillögu náðunarnefndar til dóms- og kirkjumálaráðherra, dagsettri 8. apríl 1997 (að hluta).

Skjali, auðkenndu nr. 14: Bréfi ráðuneytisins til fangelsismálastofnunar, dagsettu 7. maí 1997, ásamt bréfi ríkisráðsritara, dagsettu 29. apríl 1997.

Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta