20/1997 - Úrskurður frá 18. ágúst 1997 í málinu nr. A-20/1997
Hinn 18. ágúst 1997 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-20/1997:
Með bréfi, dagsettu 22. júlí sl., kærði [...] synjun bankastjórnar Landsbanka Íslands, dagsetta 14. s.m., um að veita honum upplýsingar um kaupverð bankans á íbúð [...] hæð að [...] í [...] og greiðsluskilmálum kaupverðs, mánaðarlegri leigufjárhæð meðan fasteignin var í eigu bankans og söluverði þegar eignin var seld.
Með bréfi, dagsettu 28. júlí sl., var kæran kynnt bankastjórn Landsbankans og henni gefinn kostur á að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16:00 5. ágúst sl. Að ósk bankastjórnar var frestur þessi framlengdur til kl. 16:00 12. ágúst sl. Þann dag barst umsögn bankastjórnar, dagsett sama dag. Hinn 15. ágúst sl. fór nefndin þess á leit að henni yrðu látin í té gögn málsins sem trúnaðarmál og voru þau afhent sama dag.
Elín Hirst vék sæti í máli þessu. Í hennar stað tók Ólafur E. Friðriksson varamaður sæti við meðferð og úrskurð í kærumáli þessu. Jafnframt tók Steinunn Guðbjartsdóttir varamaður sæti Eiríks Tómassonar í fjarveru hans.
Helstu atvik málsins eru þau að með bréfi, dagsettu 10. júlí sl., fór kærandi þess á leit við Landsbanka Íslands að vera látnar í té eftirgreindarupplýsingar ásamt viðeigandi gögnum: "1. Landsbanki Íslands keypti þann [dags.] íbúð á [...] hæð að [...] í [...] og er afsal útgefið þann dag. Hvert var kaupverð fasteignarinnar og hvernig var það greitt? 2. Íbúðin að [...] var frá kaupdegi leigð [...], sem bjó í henni til loka [...]mánaðar 19[...]. Hver var hin mánaðarlega leiguupphæð? 3. Landsbankinn seldi umrædda íbúð að [...] í [...]mánuði 19[...]. Hvert var söluverð eignarinnar?"
Bankastjórn Landsbankans synjaði erindi kæranda með bréfi, dagsettu 14. s.m., þar sem tekið var fram að bankanum væri óheimilt lögum samkvæmt að láta í té upplýsingar og gögn af því tagi sem um væri að ræða nema hlutaðeigandi viðskiptaaðili óskaði þess sérstaklega.
Í umsögn bankastjórnar Landsbankans til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dagsettri 12. ágúst sl., er þessi afstaða bankans til kæruefnisins ítrekuð. Er þar vísað til 43. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, sbr. 3. mgr. 2. gr. og 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sem skýra beri þannig að þær upplýsingar og gögn sem kærandi óskar eftir að fá afhent teljist einka- og fjárhagsmálefni viðskiptaaðila Landsbankans sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Jafnframt telur bankinn að samkeppnisstaða hans gagnvart öðrum fjármálastofnunum, sem ekki lúta ákvæðum upplýsingalaga, gæti skaðast ef aðgangur yrði veittur að umbeðnum upplýsingum. Í því sambandi er vísað til 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga.
Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Samkvæmt 3. gr. upplýsingalaga er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr. laganna.
Í 5. gr. upplýsingalaga segir m.a:. "Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila." Í athugasemdum, er fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga, er m.a. tekið fram, til skýringar á því hvaða fjárhagsmálefni einstaklinga séu þess eðlis að sanngjarnt sé og eðlilegt að þau fari leynt, að óheimilt sé að veita upplýsingar um tekjur og fjárhagsstöðu einstaklinga nema það byggist á sérstakri lagaheimild. Þá segir þar ennfremur að oft komi sérstakar reglur um þagnarskyldu í veg fyrir að aðgang megi veita að upplýsingum.
Í 43. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, er að finna svofellt ákvæði: "Bankaráðsmenn, stjórnarmenn sparisjóðs, bankastjórar og sparisjóðsstjórar, endurskoðendur og aðrir starfsmenn viðskiptabanka eða sparisjóðs eru bundnir þagnarskyldu um allt það er varðar hagi viðskiptamanna hlutaðeigandi stofnunar og um önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé til að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi." Ákvæði þetta telst, eðli máls samkvæmt, sérstakt þagnarskylduákvæði í skilningi 3. mgr. 2. gr. upplýsingalaga og getur staðið í vegi fyrir almennum aðgangi að upplýsingum um hagi viðskiptamanna banka og sparisjóða og önnur atriði sem fyrirsvarsmenn og trúnaðarmenn þeirra fá vitneskju um í starfi sínu.
Úrskurðarnefnd lítur svo á að þær upplýsingar, sem fram koma í umræddum skjölum um kaup- og söluverð fasteignarinnar [...], og húsaleigusamningi sem gerður var um fasteignina séu þess eðlis að sanngjarnt sé og eðlilegt að þær fari leynt, sbr. 5. gr. upplýsingalaga að því marki sem aðgangur að þeim er ekki tryggður almenningi sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 284/1996, um þinglýsingar, sbr. þinglýsingarlög nr. 39/1978. Ákvæði 43. gr. laga nr. 113/1996 styður þá niðurstöðu. Ber því þegar af þeirri ástæðu að fallast á sjónarmið Landsbanka Íslands um að synja kæranda aðgangs að umbeðnum gögnum.
Úrskurðarorð:
Synjun Landsbanka Íslands um að veita kæranda upplýsingar um kaupverð bankans á íbúð á [...] hæð að [...] í [...], greiðsluskilmála kaupverðs, mánaðarlegri leigufjárhæð meðan fasteignin var í eigu bankans og söluverði þegar eignin var seld, er staðfest.
Valtýr Sigurðsson, formaður
Ólafur E. Friðriksson
Steinunn Guðbjartsdóttir