Hoppa yfir valmynd

24/1997 - Úrskurður frá 19. september 1997 í málinu nr. A-24/1997

Hinn 19. september 1997 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-24/1997:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 8. september sl., kærði [...], synjun Landsvirkjunar, dagsetta 2. s.m., um að veita honum afrit af fundargerðum stjórnar Landsvirkjunar þar sem fjallað hefur verið um virkjun eða stíflugerð í Laxá, uppgræðslu við Kráká og samninga við aðila á Laxársvæðinu, svo og fundargerðum samninganefndar Landsvirkjunar við samninganefnd heimaaðila um sömu mál.

Eins og mál þetta er vaxið taldi úrskurðarnefnd ekki ástæðu til að leita umsagnar Landsvirkjunar um kæruna, sbr. 2. mgr. 16. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Málsatvik

Atvik máls þessa eru í stuttu máli þau að kærandi er jarðeigandi að Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu og félagi í Veiðifélagi Laxár og Krákár. Með bréfi til Landsvirkjunar, dagsettu 28. júlí sl., fór hann sem slíkur fram á að fá afrit eða ljósrit af framangreindum gögnum með vísan til 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Erindi sitt ítrekaði hann með öðru bréfi, dagsettu 26. ágúst sl.

Landsvirkjun synjaði beiðni kæranda með bréfi, dagsettu 2. september sl., með vísan til 1. gr. stjórnsýslulaga og 1. gr. upplýsingalaga.

Með bréfi, dagsettu 10. september sl., kynnti úrskurðarnefnd kæranda úrskurð sinn frá 19. mars sl. í málinu nr. A-8/1997, þar sem kæru á hendur sama fyrirtæki var vísað frá nefndinni með vísan til 1. gr. upplýsingalaga, sbr. 1. gr. laga nr. 42/1983 um Landsvirkjun. Með skírskotun til þeirrar niðurstöðu beindi nefndin því til kæranda að hann staðfesti fyrir 17. september sl. ef hann kysi að halda máli þessu áfram.

Með bréfi, dagsettu 15. september sl., staðfesti kærandi að hann kysi að halda málinu áfram og færði fyrir því ýmis rök. Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga verður ekki gerð grein fyrir röksemdum hans í úrskurði þessum en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Lög þessi taka til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga." Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi því er varð að upplýsingalögum, er ákvæði þetta m.a. skýrt svo að lögin gildi almennt "ekki um einkaaðila, en undir hugtakið "einkaaðilar" falla m.a. félög einkaréttarlegs eðlis, eins og hlutafélög og sameignarfélög, þótt þau séu í opinberri eigu." Frá meginreglu 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga er þó gerð sú undantekning í 2. mgr. sömu greinar að gildissvið laganna nái einnig til einkaaðila "að því leyti sem þeim hefur verið falið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna".

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 42/1983 er Landsvirkjun sameignarfyrirtæki ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar. Samkvæmt 2. gr. sömu laga er það meginhlutverk fyrirtækisins að byggja og reka raforkuver og selja almenningsrafveitum og iðjufyrirtækjum raforku. Samkvæmt framansögðu taka upplýsingalög hvorki til Landsvirkjunar sem einkaaðila né heldur til þeirrar starfsemi, sem fyrirtækið hefur með höndum og lýst er hér að framan, en beiðni kæranda lýtur að þeirri starfsemi. Ber þegar af þeirri ástæðu að vísa framkominni kæru á hendur fyrirtækinu frá úrskurðarnefnd.

Úrskurðarorð:

Kæru [...] á hendur Landsvirkjun er vísað frá úrskurðarnefnd.

Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta