Hoppa yfir valmynd

25/1997 - Úrskurður frá 1. október 1997 í málinu nr. A-25/1997

Hinn 1. október 1997 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-25/1997:

Kæruefni
Með bréfi, dagsettu 12. september sl., kærði [...], f.h. [...]samtökunum, synjun Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar um að veita samtökunum upplýsingar um nöfn og heimilisföng þeirra sem njóta húsaleigubóta hjá stofnuninni.

Með bréfi, dagsettu 18. september sl., var kæran kynnt Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar og stofnuninni gefinn kostur á að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 12.00 hinn 26. september sl. Jafnframt var þess óskað að upplýst yrði á hvaða formi umbeðnar upplýsingar væru varðveittar, þ. á m. hvort þær hefðu verið teknar saman í eitt skjal eða þeim safnað á annan hátt. Ef svo væri, var þess ennfremur óskað að nefndinni yrði látið í té sem trúnaðarmál afrit af því skjali eða gagni innan sama frests. Umsögn Félagsmálastofnunar, dagsett 24. september sl., barst nefndinni innan tilskilins frests. Henni fylgdu ekki nein gögn.

Málsatvik
Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að á stjórnarfundi í [...]samtökunum 4. september sl. var samþykkt að leita eftir því við húsaleigubótadeild Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar að fá uppgefin nöfn og heimilisföng þeirra sem njóta húsaleigubóta. Var upplýsinganna síðan leitað símleiðis og erindinu hafnað á sama hátt.

Í umsögn Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar, dagsettri 24. september sl., er upplýst að mál bótaþega húsaleigubóta séu skráð kerfisbundinni skráningu hjá stofnuninni. Hljóti sú skráning að falla undir lög nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Jafnframt kemur þar fram að við ákvörðun bótaréttar sé m.a. höfð hliðsjón af tekjum og eignum umsækjenda, sbr. 6. gr. laga nr. 100/1994, um húsaleigubætur, sbr. og 1. gr. reglugerðar nr. 556/1994. Upplýsingar um, hverjir njóti réttar til húsaleigubóta, veiti því einnig upplýsingar um tekjur og eignir bótaþega. Af þeim sökum telji stofnunin að umbeðnar upplýsingar varði einka- og fjárhagsmálefni sem ekki sé sanngjarnt og eðlilegt að almenningur eigi aðgang að, sbr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Krefst stofnunin þess aðallega að málinu verði vísað frá úrskurðarnefnd með vísan til 14. gr. upplýsingalaga, sbr. 2. mgr. 2. gr. þeirra, en til vara að ákvörðun hennar um synjun um aðgang að upplýsingunum verði staðfest á grundvelli 5. gr. laganna.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.


Niðurstaða
Í 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga er tekið fram að lögin gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt lögum um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Í 1. gr. þeirra laga segir orðrétt: "Lög þessi taka til hvers konar kerfisbundinnar skráningar og annarrar meðferðar á persónuupplýsingum. Lögin eiga við hvort heldur sem skráning er vélræn eða handunnin."

Samkvæmt framansögðu er það álit úrskurðarnefndar að lög um skráningu og meðferð persónuupplýsinga taki til aðgangs að þeim upplýsingum, sem kærandi hefur óskað eftir, en ekki upplýsingalög. Þar af leiðandi verður synjun um aðgang að þeim ekki kærð til nefndarinnar, sbr. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Ber því að vísa málinu frá nefndinni.


Úrskurðarorð:
Kæru [...], f.h. [...]samtakanna, á hendur Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar er vísað frá.

Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta