Hoppa yfir valmynd

28/1997 - Úrskurður frá 10. nóvember 1997 í málinu nr. A-28/1997

Hinn 10. nóvember 1997 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-28/1997:

Kæruefni
Með bréfi, dagsettu 14. október sl., kærði [A] synjun félagsmálaráðuneytisins, dagsetta 18. september sl., um að veita honum aðgang að skýrslu [B] félagsráðgjafa og [C] sálfræðings um Verndaðan vinnustað í Vestmannaeyjum, svo sem nánar greinir í kafla um málsatvik hér á eftir.

Með bréfi, dagsettu 20. október sl., var kæran kynnt félagsmálaráðuneytinu og því gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun til kl. 16.00 hinn 28. október sl. Jafnframt var því beint til ráðuneytisins að gefa þeim, er hagsmuna eiga að gæta af úrlausn málsins, kost á að koma að sjónarmiðum sínum í málinu, ef þau lægju ekki þegar fyrir í gögnum málsins. Ennfremur var þess óskað að nefndinni yrðu látin í té sem trúnaðarmál afrit framangreindra gagna. Hinn 27. október sl. var frestur þessi framlengdur til kl. 16.00 hinn 4. nóvember sl. að beiðni félagsmálaráðuneytisins. Þann dag barst umsögn ráðuneytisins, dagsett sama dag, en henni fylgdi m.a skýrsla [B] og [C] sem ber yfirskriftina "Samskipti helstu deiluaðila málsins".

Í fjarveru Valtýs Sigurðssonar tók Sif Konráðsdóttir sæti hans við meðferð og úrskurð í kærumáli þessu.

Málsatvik
Samkvæmt gögnum málsins eru helstu atvik þess þau, að með bréfi til félagsmálaráðherra, dagsettu 27. ágúst sl., leitaði kærandi eftir að fá aðgang að skýrslum [B] félagsráðgjafa og [C] sálfræðings um Verndaðan vinnustað í Vestmannaeyjum, dagsettum 15. júlí og 6. október 1987, í heild sinni ásamt fylgiskjölum. Í erindi sínu til ráðuneytisins tilgreindi kærandi sem ástæðu fyrir beiðninni að hann hygðist kanna hvort hann gæti krafist bóta vegna brottvikningar úr starfi framkvæmdastjóra hins verndaða vinnustaðar.

Með bréfi til kæranda, dagsettu 18. september sl., gat félagsmálaráðuneytið þess að kæranda hefðu áður verið afhent umbeðin gögn með þeirri undantekningu að upplýsingar, sem snertu aðra menn, voru afmáðar úr skjali með yfirskriftinni "Um samskipti helstu deiluaðila málsins" sem lagt var fram í Héraðsdómi Reykjavíkur 3. júní 1993. Máli sínu til stuðnings vísaði ráðuneytið ennfremur til dóms Hæstaréttar frá 29. júní 1995 í málinu nr. 349/1994 þar sem kæranda hefði verið synjað um aðgang að umræddum upplýsingum. Loks taldi ráðuneytið að 3. mgr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 stæði í vegi fyrir því að kærandi fengi aðgang að upplýsingunum. Að þessu virtu lét ráðuneytið kæranda í té umbeðin gögn að undanskildum þeim hlutum sem afmáðir höfðu verið úr fyrrgreindu skjali.

Með bréfi, dagsettu 14. október sl., var þessi synjun félagsmálaráðuneytisins kærð til úrskurðarnefndar. Jafnframt hefur kærandi gert úrskurðarnefnd nánari grein fyrir sjónarmiðum sínum í erindi til nefndarinnar, dagsettu 15. október sl.

Í umsögn félagsmálaráðuneytisins til nefndarinnar, dagsettri 4. nóvember sl., kemur fram að skýrsla sú, er mál þetta snýst um, hafi verið unnin fyrir stjórn Verndaðs vinnustaðar í Vestmannaeyjum vegna samstarfsörðugleika kæranda og annarra aðila á vinnustaðnum. Þar kemur jafnframt fram að ráðuneytið hafi leitað eftir afstöðu skýrsluhöfunda til kærunnar og annars viðmælenda þeirra við gerð hennar, en hinn sé látinn. Ekki hafi náðst í annan skýrsluhöfunda, en hinn telji rétt að kærandi fái aðgang að skýrslunni í heild sinni. Með umsögn ráðuneytisins fylgdi bréf annars viðmælenda skýrsluhöfunda, dagsett 3. nóvember sl., þar sem fram kemur að það hafi verið forsenda hans og þeirra vistmanna á vinnustaðnum, er veittu skýrsluhöfundum viðtal við gerð skýrslunnar, að um trúnaðarupplýsingar væri að ræða. Leggst hann eindregið gegn því að kæranda verði veittur aðgangur að þeim hlutum skýrslunnar sem honum hafði áður verið synjað um.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

1.
Mál það, sem hér er til úrlausnar, varðar beiðni kæranda um aðgang að skjali sem hefur að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Þar eð skjalið tengist ekki stjórnsýslumáli, þar sem taka á stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, gildir III. kafli upplýsingalaga um aðgang kæranda að skjalinu.

Í 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að skjölum og öðrum gögnum sem varða tiltekið mál ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan." Í 2. og 3. mgr. þeirrar greinar er að finna undantekningar frá þessari meginreglu, þ. á m. segir svo í 3. mgr.: "Heimilt er að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingunum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnunum."

Síðastgreint ákvæði er m.a. skýrt svo í athugasemdum er fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga: "Aðgangur að gögnum verður því aðeins takmarkaður ef talin er hætta á því að einkahagsmunir skaðist ef aðila yrði veittur aðgangur að upplýsingunum. Stjórnvald getur því ekki synjað aðila um aðgang að gögnum á grundvelli hugleiðinga um að aðgangur að tiltekinni tegund upplýsinga sé almennt til þess fallinn að valda einhverju tjóni, heldur verður að leggja mat á aðstæður í hverju máli fyrir sig."

2.
Ágreiningur í þessu máli snýst um það hvort kærandi eigi rétt á að fá aðgang að skjali, sem ber yfirskriftina "Um samskipti helstu deiluaðila málsins", í heild sinni, en hann hefur þegar fengið aðgang að tilteknum hlutum skjalsins. Í þeim hlutum, sem kærandi hefur ekki fengið aðgang að, er að finna frásögn skýrsluhöfunda af viðtölum, sem þeir áttu við kæranda og tvo aðra starfsmenn Verndaðs vinnustaðar í Vestmannaeyjum, og jafnframt samandregna niðurstöðu skýrsluhöfunda af þeim viðtölum. Þótt viðmælendunum væri heitið því, að við þá yrði rætt í trúnaði, getur það atriði, eitt út af fyrir sig, ekki staðið í vegi fyrir því að aðili máls fái vitneskju um viðtölin, óski hann eftir því, svo sem fram kemur í tilvitnuðum athugasemdum með frumvarpi til upplýsingalaga. Við mat á því, hvort aðgangur skuli veittur að tilteknum upplýsingum, getur það hins vegar haft áhrif ef þær hafa verið gefnar í trúnaði. Við úrlausn þessa máls ber ennfremur að athuga að 42. gr. þágildandi laga um málefni fatlaðra, nr. 41/1983, sbr. nú 54. gr. laga nr. 59/1992, er almennt ákvæði um þagnarskyldu í skilningi 3. mgr. 2. gr. upplýsingalaga og takmarkar því ekki sem slíkt rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum.

Með skírskotun til 9. gr. upplýsingalaga, eins og hún er skýrð hér að framan, verður að meta, með hliðsjón af málsatvikum og öllum aðstæðum, hvort kærandi eigi rétt á því sem aðili máls að fá aðgang að umræddu skjali. Þar eð kærandi hefur þegar fengið vitneskju um tiltekna hluta af því mun úrskurðarnefnd einungis taka afstöðu til þess hvort hann eigi rétt til að fá aðgang að þeim hlutum skjalsins sem afmáðir voru þegar hann fékk aðgang að því á sínum tíma.

Eins og mál þetta er vaxið lítur úrskurðarnefnd svo á að samkvæmt meginreglunni í 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga beri að veita kæranda upplýsingar um það við hvaða starfsmenn hins verndaða vinnustaðar var rætt í umrætt skipti, aðra en hann sjálfan. Ennfremur eigi kærandi rétt á að fá aðgang að frásögnum af viðtölum, þar sem sameiginlega var rætt við hann og aðra viðmælendur, svo og af einkasamtölum við þá síðarnefndu. Þó telur nefndin rétt, með vísun til 3. mgr. 9. gr. upplýsingalaga, sbr. og 7. gr. laganna, að undanþiggja aðgangi kæranda viðkvæmar upplýsingar um viðmælendurna sjálfa og viðhorf þeirra til kæranda sem gefnar voru skýrsluhöfundum í trúnaði.

Ljósrit af umræddu skjali fylgir því eintaki af úrskurði þessum sem sent verður félagsmálaráðuneytinu, þar sem nefndin hefur merkt við þá hluta, sem hún telur að kærandi eigi ekki rétt til að fá aðgang að skv. 3. mgr. 9. gr. upplýsingalaga.

Úrskurðarorð:
Félagsmálaráðuneytinu ber að veita kæranda, [A], aðgang að hluta af skýrslu [B] og [C] sem ber yfirskriftina "Um samskipti helstu deiluaðila málsins".

Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Sif Konráðsdóttir

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta