37/1997 - Úrskurður frá 29. desember 1997 í málinu nr. A-37/1997
Hinn 29. desember 1997 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-37/1997:
Með bréfi, dagsettu 12. desember sl., kærði [...], f.h. [...], synjun Landsvirkjunar, dagsetta 17. nóvember sl., um að láta honum í té gögn sem varða virkjun eða stíflugerð í Laxá, uppgræðslu við Kráká og samninga við aðila á Laxársvæðinu.
Með bréfi, dagsettu 17. desember sl., var kæran kynnt Landsvirkjun og fyrirtækinu gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun til kl. 12.00 á hádegi hinn 23. desember sl. Umsögn Landsvirkjunar, dagsett 23. desember sl., barst innan tilskilins frests.
Atvik máls þessa eru í stuttu máli þau að með bréfi til Landsvirkjunar, dagsettu 29. október sl., óskaði kærandi eftir að fá afhent ljósrit af fundargerðum um virkjun eða stíflugerð í Laxá, uppgræðslu við Kráká og samninga við aðila á Laxársvæðinu. Að auki fundargerð samninganefndar fyrirtækisins og samninganefndar heimamanna á svæðinu um sömu mál. Krafa kæranda er byggð á lögum nr. 21/1993 um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál.
Með bréfi, dagsettu 17. nóvember sl., synjaði Landsvirkjun um að láta umbeðin gögn í té, m.a. með vísun til úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 19. september 1997 í málinu nr. A-24/1997. Með bréfi, dagsettu 12. desember sl., var synjun Landsvirkjunar kærð til úrskurðarnefndar með vísun til 4. gr. laga nr. 21/1993, sbr. 2. tölul. 25. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.
Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Fyrr á þessu ári fór kærandi fram á það, á grundvelli upplýsingalaga nr. 50/1996, að fá aðgang að sömu gögnum og hann óskar nú eftir að sér verði látin í té. Þegar Landsvirkjun synjaði þessari fyrri beiðni hans kærði hann þá synjun til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Með úrskurði, sem kveðinn var upp 19. september sl. í málinu nr. A-24/1997, var kærunni vísað frá nefndinni þar eð Landsvirkjun væri sameignarfyrirtæki ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar og félli því ekki undir upplýsingalög, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Ákvæði 2. mgr. sömu greinar tæki heldur ekki til þeirrar starfsemi er beiðni kæranda lyti að.
Í því máli, sem nú er til úrlausnar, fer kærandi fram á að fá aðgang að fyrrgreindum gögnum á grundvelli laga nr. 21/1993, um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál. Hefur hann sem fyrr segir kært synjun Landsvirkjunar til úrskurðarnefndar með vísun til 4. gr. þeirra laga, sbr. 2. tölul. 25. gr. upplýsingalaga.
Ákvæði 4. gr. laga nr. 21/1993 er svohljóðandi, eins og því var breytt með 2. tölul. 25. gr. upplýsingalaga: "Um aðgang að fyrirliggjandi gögnum um umhverfismál fer eftir upplýsingalögum." Í athugasemdum, er fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga, segir m.a. svo um þessa breytingu að hún sé gerð "til þess að tryggja að upplýsingalög gildi að meginstefnu til um allar upplýsingar sem finna má í gögnum stjórnvalda, með þeim undantekningum sem mælt er fyrir um í 3.-6. gr.".
Í stjórnarskránni er gengið út frá þeirri meginreglu að ráðherrar fari með yfirstjórn stjórnsýslunnar nema hún sé að lögum fengin öðrum stjórnvöldum. Samkvæmt því verða stjórnvaldsákvarðanir almennt kærðar til þess ráðherra, sem fer með stjórn viðeigandi málaflokks, nema lög mæli á annan veg.
Í 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga segir að heimilt sé "að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögum þessum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn". Í hinu tilvitnaða ákvæði er valdsvið nefndarinnar einskorðað við synjun stjórnvalds samkvæmt upplýsingalögum, en með vísun til framangreindrar meginreglu ber að skýra það þröngt. Þótt í 2. og 3. tölul. laganna, sem breyttu 4. og 7. gr. laga nr. 21/1993, kunni að felast ráðagerð um að synjun á aðgangi að upplýsingum samkvæmt síðastnefndum lögum verði kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál er það hvergi tekið fram berum orðum, hvorki í lögunum sjálfum né í lögskýringargögnum. Kæruheimild til nefndarinnar verður heldur ekki byggð á lögjöfnun þar eð umrædd lög um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál fjalla um tiltölulega sérhæft svið og verður því ekki jafnað til upplýsingalaga sem hafa að geyma almenn ákvæði um rétt almennings til aðgangs að gögnum í vörslum stjórnvalda.
Með skírskotun til þessa er það álit úrskurðarnefndar að synjun Landsvirkjunar um að veita kæranda aðgang að hinum umbeðnu gögnum verði ekki kærð til nefndarinnar á grundvelli 4. gr. laga nr. 21/1993. Af þeirri ástæðu verður kæru hans á hendur fyrirtækinu vísað frá nefndinni.
Kæru [...] á hendur Landsvirkjun er vísað frá úrskurðarnefnd.
Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson