47/1998 Úrskurður frá 24. apríl 1998 í málinu nr. A-47/1998
Hinn 24. apríl 1998 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-47/1998:
Kæruefni
Með bréfi, dagsettu 30. mars sl., kærði [...] hdl., f.h. [A], til heimilis að [...], staðfestingu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dagsetta 3. mars sl., á synjun sýslumannsins í Reykjavík, dagsettri 9. desember 1997, um að veita honum, fyrir hönd kæranda, aðgang að gögnum um fjárhag ófjárráða sonar hennar, [B].Með samhljóða bréfum, dagsettum 7. apríl sl., var kæran kynnt sýslumanninum í Reykjavík og dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og þeim veittur frestur til kl. 16.00 hinn 16. apríl sl. til að lýsa viðhorfi sínu til kærunnar. Sérstaklega var þess óskað að stofnanirnar gerðu grein fyrir lagagrundvelli úrlausnar sinnar, þ. á m. hvort afstaða hefði verið tekin til upplýsingaréttar kæranda á grundvelli upplýsingalaga nr. 50/1996.
Svar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dagsett 14. apríl sl., og svar sýslumannsins í Reykjavík, dagsett 16. apríl sl., bárust innan tilskilins frests.
Málsatvik
Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að [B], sonur kæranda, var með dómi Sakadóms Reykjavíkur 2. janúar 1976 sviptur lögræði á grundvelli andlegs vanþroska. Var honum í framhaldi af því skipaður sérstakur lögráðamaður. Þegar hann lét af störfum árið 1982 var [C] skipaður lögráðamaður [B] og fór hann með lögráð hans fram í desember 1997. [D], eiginmaður kæranda og faðir [B], er látinn.Í skjali auðkenndu "Yfirlýsing/umboð", dagsettu 22. janúar 1997, lýsti kærandi yfir þeim vilja sínum að lögráðamaður [B] yrði leystur frá störfum og umboðsmaður hennar skipaður í hans stað. Jafnframt fór hún þess á leit að umboðsmaður hennar fengi, fyrir hennar hönd, aðgang að öllum gögnum um fjármál sonar hennar til að geta endurskoðað fjárhald lögráðamanns hans.
Sýslumaðurinn í Reykjavík tók afstöðu til framangreindra óska 4. desember 1997. Var [C] leystur frá störfum sem lögráðamaður [B] og [E] hrl. skipuð lögráðamaður í hans stað. Hins vegar hafnaði sýslumaður að veita umboðsmanni kæranda aðgang að gögnum varðandi fjármál [B] á þeim grundvelli að nýr lögráðamaður myndi taka þau til skoðunar. Ákvarðanir sýslumanns voru tilkynntar umboðsmanni kæranda með bréfi, dagsettu 9. desember 1997.
Umboðsmaður kæranda skaut þessum ákvörðunum sýslumanns til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins með kæru, dagsettri 16. desember 1997, og ítrekaði fyrri kröfur umbjóðanda síns. Með úrskurði, dagsettum 3. mars sl., staðfesti dóms- og kirkjumálaráðuneytið hinar kærðu ákvarðanir. Sú niðurstaða að staðfesta ákvörðunina um að synja kæranda eða umboðsmanni hennar, fyrir hennar hönd, aðgangi að hinum umbeðnu gögnum er studd eftirfarandi rökum í úrskurðinum: "Lögræðislög veita foreldrum eða öðrum ættingjum þeirra sem sviptir hafa verið lögræði, engar heimildir til að fela einstökum umboðsmönnum sínum að rannsaka fjárhald lögráðamanns. Slíkt er lagt í vald yfirlögráðanda."
Í kæru til nefndarinnar, dagsettri 30. mars sl., segir að kæran byggist á því að kærandi sé sem nánasti ættingi [B] það nákomin að óheimilt sé að neita henni um aðgang að gögnum er varða hagsmuni hans og fjárhald fyrri lögráðamanns hans. Því beri að lögjafna stöðu hennar við stöðu eiginlegs aðila í skilningi III. kafla upplýsingalaga sem óskar eftir upplýsingum um eigin málefni.
Í umsögn sýslumannsins í Reykjavík til úrskurðarnefndar, dagsettri 16. apríl sl., kemur fram að hvorki eldri lögræðislög nr. 68/1984, sem giltu þegar hin kærða ákvörðun var tekin, né núgildandi lögræðislög nr. 71/1997 víki að því hverjir teljist aðilar máls við þessar aðstæður. Mat um það fari því fram á grundvelli stjórnsýslulaga. Í umsögninni er því hafnað að kærandi hafi slíka stöðu gagnvart málefnum [B]. Þá er tekið þar fram að ekki hafi verið tekin afstaða til upplýsingaréttar kæranda á grundvelli upplýsingalaga.
Í umsögn dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til úrskurðarnefndar, dagsettri 14. apríl sl., segir að engin efni séu til þess að ætla umboðsmönnum aldraðra foreldra nokkurn rétt til afskipta af fjármálum manna þótt þeir hafi verið sviptir fjárræði sínu með dómsúrskurði, á grundvelli lögræðislaga. Jafnframt er því lýst yfir af hálfu ráðuneytisins að ekki hefði verið tekin afstaða til upplýsingaréttar kæranda á grundvelli upplýsingalaga.
Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Niðurstaða
Eins og lýst er hér að framan fer umboðsmaður kæranda fram á, fyrir hennar hönd, að fá aðgang að gögnum í vörslum sýslumannsins í Reykjavík og dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um fjárhag ólögráða sonar hennar, [B], og fjárhald fyrrum lögráðamanns hans, [C]. Samhliða því sem óskað var eftir þessum gögnum var þess farið á leit við sýslumann sem yfirlögráðanda, fyrir hönd kæranda, að [C] yrði leystur frá störfum sem lögráðamaður [B]. Sýslumaður tók þessa síðari málaleitan til greina og skipaði [B] annan lögráðamann í stað [C]. Úrskurðarnefnd telur að þessi afskipti yfirlögráðanda af málefnum hins ólögráða manns teljist ótvírætt til eiginlegrar stjórnsýslu og falli þar með undir stjórnsýslulög, eftir því sem við getur átt, sbr. 2. mgr. 1. gr. þeirra laga.Kærandi er sem móðir [B] erfingi hans að lögum skv. 2. mgr. 3. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Samkvæmt því og í ljósi þess, að sýslumaður tók til greina tilmæli hennar um að skipaður lögráðamaður hans yrði leystur frá störfum, verður að líta svo á að hún hafi lögvarinna hagsmuna að gæta í því stjórnsýslumáli, umfram aðra, sbr. til hliðsjónar a- og c-liði 2. mgr. 7. gr., sbr. og 1. mgr. 15. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Telst hún því aðili máls í skilningi stjórnsýslulaga eins og það hugtak er skýrt í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til þeirra laga.
Í lögræðislögum er ekki mælt sérstaklega fyrir um aðgang að gögnum í máli eins og því sem hér um ræðir. Þar af leiðandi eiga 15.-17. gr. stjórnsýslulaga við um aðgang kæranda að hinum umbeðnu gögnum.
Í 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga segir að lögin gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum. Þar af leiðandi verður synjun um aðgang að hinum umbeðnu gögnum ekki kærð til úrskurðarnefndar, sbr. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, og ber því þegar af þeirri ástæðu að vísa kærunni frá nefndinni.
Úrskurðarorð:
Kæru [...] hdl., f.h. [A], á hendur dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og sýslumanninum í Reykjavík er vísað frá úrskurðarnefnd.Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson