Hoppa yfir valmynd

56/1998 Úrskurður frá 18. september 1998 í málinu nr. A-56/1998

Hinn 18. september 1998 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-56/1998:

Kæruefni
Með bréfi, dagsettu 4. ágúst sl., kærði [...], til heimilis að [...], synjun Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar, dagsetta 6. júlí sl., um að veita henni aðgang að öllum gögnum er varða afskipti barnaverndarnefndar Reykjavíkur af hennar högum og fjölskyldu hennar.

Með bréfi, dagsettu 6. ágúst sl., var kæran kynnt Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar og stofnuninni gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun til kl. 16.00 hinn 14. ágúst sl. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd yrðu látin í té sem trúnaðarmál afrit þeirra gagna, er fundist hefðu í málinu, innan sama frests.

Með bréfi til úrskurðarnefndar, dagsettu 13. ágúst sl., fór Félagsmálastofnun þess á leit, að frestur til að svara erindi nefndarinnar yrði framlengdur til 28. ágúst sl. til að kanna mætti til hlítar, hvort frekari gögn kynnu að finnast á borgarskjalasafni um málið. Úrskurðarnefnd varð við þessari beiðni með bréfi, dagsettu 14. ágúst sl. Að beiðni Félagsmálastofnunar var frestur til að svara erindi nefndarinnar enn framlengdur til 4. september sl. og barst umsögn hennar innan þess frests ásamt gögnum.

Í fjarveru Eiríks Tómassonar tók Steinunn Guðbjartsdóttir varamaður sæti hans við meðferð og úrskurð í kærumáli þessu.

Málsatvik
Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess þau, að kærandi fór með bréfi til Félagsmálastofnunar, dagsettu 19. ágúst 1997, fram á að vera veittur aðgangur að öllum gögnum sem varða afskipti barnaverndarnefndar Reykjavíkur af högum sínum, þ.e. hennar sjálfrar og fjölskyldu hennar. Með bréfi, dagsettu 5. september 1997, staðfesti Félagsmálastofnun móttöku erindis hennar og boðaði að það yrði afgreitt á næstu vikum. Þegar engin svör höfðu borist rúmlega níu mánuðum síðar leitaði kærandi til Barnaverndarstofu með bréfi, dagsettu. 10. júní sl., og kvartaði yfir vinnubrögðum Félagsmálastofnunar.

Í bréfi Félagsmálastofnunar, dagsettu 6. júlí sl., var kæranda tilkynnt að í þeim gögnum, sem fyrir lægju hjá stofnuninni, væru ekki að finna persónulegar upplýsingar um hana er vörðuðu afskipti barnaverndarnefndar Reykjavíkur af hennar högum og að frekari leit að gögnunum hefði ekki borið árangur. Í bréfi Félagsmálastofnunar til Barnaverndarstofu, dagsettu sama dag, kom hins vegar fram að fundist hefðu tveir dagálar, annar um föður kæranda og hinn um móður hennar. Gögn í þessum dagálum varði þó eingöngu persónulega hagi foreldra hennar og umsóknir um fjárhagsaðstoð ýmiss konar. Í bréfi Barnaverndarstofu til kæranda, dagsettu 9. júlí sl., var kæranda m.a. greint frá þessu.

Í kæru til nefndarinnar kemur fram að kærandi telur framangreinda dagála "hljóta að veita upplýsingar eða að minnsta kosti veita einhverjar skýringar á þeim íþyngjandi afskiptum barnaverndarnefndar Reykjavíkur af [sér] og fjölskyldu [sinni] sem leiddu til þess að hún var skilin frá fjölskyldu sinni og vistuð á barnaheimilum Reykjavíkurborgar í lengri og skemmri tíma fyrstu 12 ár ævi [sinnar]". Einnig kunni upplýsingarnar "að varpa einhverju ljósi á þá málsmeðferð sem hún og fjölskylda hennar [hafi mátt] þola á sínum tíma og þá hvort fyllsta meðalhófs og jafnræðis hafi verið gætt af hálfu yfirvalda". Af þessum sökum telur kærandi að upplýsingarnar varði hana persónulega og byggir kröfu sína um aðgang að þeim á 9. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Í umsögn Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar til úrskurðarnefndar, dagsettri 4. september sl., kemur fram að gögn málsins séu varðveitt á borgarskjalasafni. Þegar hafin hafi verið undirbúningur að svari við erindi úrskurðarnefndar frá 6. ágúst sl. hafi komið í ljós, að leit á borgarskjalasafni í tilefni af beiðni kæranda frá 19. ágúst 1997 hafi fyrir misskilning eingöngu tekið til dagála foreldra kæranda, en ekki til gagna í barnaverndarmáli þeirra vegna hennar. Við þessa síðari leit á borgarskjalasafni hafi því fundist frekari gögn um málefni fjölskyldu kæranda, en áður hafði verið tekin afstaða til aðgangs að. Þegar farið hafi verið yfir gögnin hafi komið fram að þau hafi jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra og þá aðallega um móður kæranda og bræður hennar. Unnin hafi verið greinargerð og yfirlit yfir þær upplýsingar sem fram koma í gögnunum, og kæranda afhent afrit þeirra gagna sem vörðuðu hana eingöngu. Þau gögn eru:
  • Útskrift úr fundargerðarbókum Barnarverndarnefndar Reykjavíkur árin 1958 til 1966.
  • Útskrift úr dagál Barnaverndarnefndar Reykjavíkur árin 1955 til 1971.
  • Ljósrit af forsíðu möppu merktri kæranda.
  • Ljósrit af 4 spjaldskrárspjöldum úr spjaldskrá Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, 1) [A móður kæranda] 2) [B föður kæranda] 3) [kæranda] 4) [D].
  • Ljósrit af skoðun og mati á íbúð frá borgarlækni, dagsettu 17. jan. 1962.
  • Ljósrit af bréfi Barnaverndarnefndar Reykjavíkur til [E] og [F], dagsettu 6. febrúar 1968.
  • Ljósrit af bréfi Barnaverndarnefndar Reykjavíkur til [E] og [F], dagsettu 13. maí 1968.
  • Ljósrit af bréfi Barnaverndarnefndar Reykavíkur til [E] og [F], dagsettu 14. nóvember 1968.

Kæranda var hins vegar synjað um aðgang að tveimur dagálum er einkum vörðuðu upplýsingar um fjárhagsaðstoð við foreldra hennar og þeim gögnum barnaverndarmáls foreldra kæranda er höfðu að geyma upplýsingar um systkini kæranda.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

1.
Ágreiningur máls þessa nú, varðar í fyrsta lagi beiðni kæranda um aðgang að tveimur dagálum, sem hafa að geyma upplýsingar m.a. um einkahagi og fjárhagsstöðu látinna foreldra kæranda allt frá þeim tíma er barnaverndarnefnd hafði afskipti af fjölskyldunni þar á meðal kæranda.

Í 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að skjölum og öðrum gögnum sem varða tiltekið mál ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan." Ákvæði þetta er samkvæmt athugasemdum við frumvarp það, er varð að upplýsingalögum, byggt á áður óskráðri meginreglu um rétt einstaklinga til aðgangs að gögnum sem eru í vörslu stjórnvalda og varða þá sérstaklega, enda standi reglur um þagnarskyldu því ekki í vegi.

Með hliðsjón af meginmarkmiði upplýsingalaga þykir, eins og hér stendur á, bera að skýra 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga það rúmt að hún nái til aðgangs kæranda að upplýsingum um látna foreldra hennar.
Í 2. og 3. mgr. þeirrar greinar er að finna undantekningar frá þessari meginreglu, þ. á m. segir svo í 3. mgr.: "Heimilt er að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingunum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnunum."

Síðastgreint ákvæði er m.a. skýrt svo í athugasemdum er fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga: "Aðgangur að gögnum verður því aðeins takmarkaður ef talin er hætta á því að einkahagsmunir skaðist ef aðila yrði veittur aðgangur að upplýsingunum. Stjórnvald getur því ekki synjað aðila um aðgang að gögnum á grundvelli hugleiðinga um að aðgangur að tiltekinni tegund upplýsinga sé almennt til þess fallinn að valda einhverju tjóni, heldur verður að leggja mat á aðstæður í hverju máli fyrir sig."

Með skírskotun til 9. gr. upplýsingalaga, eins og hún er skýrð hér að framan, verður að meta, með hliðsjón af málsatvikum og öllum aðstæðum, hvort kærandi eigi rétt á því sem aðili máls að fá aðgang að umræddum gögnum. Úrskurðarnefnd hefur farið yfir gögnin en um er að ræða umsóknir og bréfaskipti er að mestu snúast um ýmiss konar fjárhagsmálefni foreldra kæranda. Í ljósi þess að langur tími er nú liðinn frá því að þessi atvik áttu sér stað og foreldrar kæranda eru látnir verður ekki séð að aðrir veigamiklir hagsmunir mæli því í móti að kæranda verði veittur aðgangur að gögnunum. Ber því að veita kæranda aðgang að umræddum gögnum. Ekki þykir sérstök ástæða til að telja upp gögn þessi. Um er að ræða sjö skjöl úr dagál móður kæranda og gögn úr dagál varðandi föður kæranda alls sex skýrslur Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar ásamt fylgiskjölum, ljósrit tveggja skattframtala auk tuttugu og tveggja skjala af ýmsu tagi.

2.
Í annan stað lýtur ágreiningur aðila nú að synjun Félagsmálastofnunar um að veita aðgang að þeim gögnum barnaverndarmáls foreldra kæranda er snúa að systkinum kæranda. Úrskurðarnefnd hefur hér að framan fallist á rétt kæranda til aðgangs að gögnum um látna foreldra hennar á grundvelli 1. mgr. 9. gr. Nefndin telur hins vegar að kærandi hafi ekki sömu réttarstöðu gagnvart upplýsingum um systkini sín og hún hefur gagnvart upplýsingum um foreldra sína. Gagnvart upplýsingum um systkini sín þykir kærandi þannig hafa sömu réttarstöðu og almenningur, skv. 3. gr. upplýsingalaga með þeim takmörkunum sem hún sætir í 4.-6. gr. s.l. Í 5. gr. upplýsingalaga segir að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einkamálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á.

Með skírskotun til síðastgreinds ákvæðis og án samþykkis hlutaðeigandi einstaklinga ber að staðfesta synjun Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar um að veita aðgang að þeim gögnum málsins.

Úrskurðarorð:
Félagsmálastofnun ber að veita kæranda, [...], aðgang að öllum skjölum úr dagálum foreldra kæranda.

Staðfest er synjun Félagsmálastofnunar um að veita kæranda aðgang að öðrum gögnum barnaverndarmáls foreldra hennar en varða hana sjálfa.

Valtýr Sigurðsson, formaður
Elín Hirst
Steinunn Guðbjartsdóttir

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta