Hoppa yfir valmynd

59/1998 Úrskurður frá 1. október 1998 í málinu nr. A-59/1998

Hinn 1. október 1998 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-59/1998:

Kæruefni
Með bréfi, dagsettu 21. ágúst sl., kærði [...], blaðamaður á [...], synjun utanríkisráðuneytisins, dagsetta 10. júní sl., um að veita honum aðgang að gögnum um eignir sem eigendur Íslenskra aðalverktaka sf. hefðu tekið út úr félaginu og skipt með sér við slit þess.

Með bréfi, dagsettu 26. ágúst sl., var kæran kynnt utanríkisráðuneytinu og því gefinn kostur á að lýsa viðhorfi sínu til hennar fyrir 3. september sl. Að beiðni ráðuneytisins var frestur þessi framlengdur til 10. september sl., en umsögn þess, dagsett 20. september sl., barst þó ekki fyrr en 21. september sl. Henni fylgu jafnframt umsagnir [A] hf., dagsett 3. september sl., og [B] hf., dagsett 10. september sl. Þá var þess óskað að úrskurðarnefnd yrðu látin í té sem trúnaðarmál afrit af þeim gögnum, er kæran laut að, og bárust þau hinn 24. september sl.

Í fjarveru Valtýs Sigurðssonar og Elínar Hirst tóku varamennirnir Ólafur E. Friðriksson og Sif Konráðsdóttir sæti þeirra við meðferð og úrskurð í máli þessu.

Málsatvik
Sameignarfélaginu [D] sf. var slitið 31. maí 1997. Samkvæmt gögnum málsins fór utanríkisráðuneytið með 52% eignarhlut ríkisins í félaginu, en aðrir eigendur voru [B] hf. að 32% og [A] hf. að 16%. Sama dag var stofnað hlutafélag með sama nafni. Stofnendur þess voru hinir sömu og átt höfðu sameignarfélagið.

Með bréfi til utanríkisráðuneytisins, dagsettu 11. maí sl., óskaði kærandi m.a. eftir afriti af samningi eða samningum um skiptingu eigna [D] sf. við slit sameignarfélagsins. Jafnframt fór hann fram á að fá sundurliðaðar upplýsingar um hvaða eignir sérhver eigandi hefði fengið í sinn hlut, þ. á m. hvert hefði verið bókfært verð eignanna þegar skiptin fóru fram.

Utanríkisráðuneytið svaraði erindi kæranda með bréfi, dagsettu 10. júní sl. Í svari þess kemur fram að eigendur [D] sf. hafi við slit félagsins tekið úr félaginu fé og eignir er numu kr. 1.165.245.811 samkvæmt bókfærðu verði í ársreikningi 31. desember 1996 og skipt með sér í réttum hlutföllum miðað við eignarhluti sína. Þá fjármuni og eignir sem eftir hafi verið hafi sömu aðilar lagt fram sem hlutafé og varasjóð [D] hf., en samkvæmt stofnefnahagsreikningi hlutafélagsins hafi eigið fé þess numið kr. 2.869.941.756 við stofnun þess. Með hliðsjón af félagssamningi sameignarfélagsins og í ljósi þess að um hafi verið að ræða þrjá aðila, sem átt hafi mismunandi hagsmuna að gæta, synjaði ráðuneytið hins vegar með vísun til 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 um að veita frekari upplýsingar um gögn eða samninga um fjárhags- og viðskiptaleg málefni eigenda að sameignarfélaginu.
Í svarbréfi utanríkisráðuneytisins til kæranda var honum ekki leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar um upplýsingamál eða kærufrest. Í kæru til nefndarinnar kemur fram að kæranda sé kunnugt um að 30 daga kærufrestur til nefndarinnar sé liðinn. Kærandi telji hins vegar eðlilegt að nefndin taki kæru hans til greina þar eð ráðuneytið hafi ekki sinnt fyrrgreindri leiðbeiningarskyldu sinni skv. 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í umsögn utanríkisráðuneytisins til úrskurðarnefndar, dagsettri 20. september sl., er þess krafist að kærunni verði vísað frá þar sem kærufrestur skv. 1. mgr. 16. gr. upplýsingalaga hafi verið liðinn þegar kærandi lagði hana fram. Þar eð kærandi sé blaðamaður verði að krefjast þess að honum sé kunnugt um kærufrest samkvæmt upplýsingalögum.

Í umsögn utanríkisráðuneytisins, dagsettri 20. september sl., er áréttað að ráðuneytið telji að gögn þau, er kæran lúti að, varði mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni [D] sf. og séu þar með undanþegin aðgangi almennings á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga. Í umsögn ráðuneytisins kemur einnig fram að það hafi leitað eftir afstöðu annarra eigenda sameignarfélagsins til kæruefnisins. Í umsögn [B] hf., dagsettri 10. september sl., kemur fram að stjórn félagsins hafi fjallað um málið og sjái ekki ástæðu til að veita frekari upplýsingar en ráðuneytið hafi gert í svarbréfi þess til kæranda. Í umsögn [A] hf., dagsettri 3. september sl., er tekið undir sjónarmið ráðuneytisins um mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni og á það bent að í gögnum málsins komi fram þær fjárhæðir sem sameigendur lögðu til grundvallar í samningum sín á milli. Í tilviki [A] hf. kunni slíkar upplýsingar t.d. að skaða samningsstöðu félagsins við endursölu þessara sömu eigna á almennum markaði ef þær væru á almanna vitorði. Með sama hætti kunni almenn vitneskja um þær fjárhæðir, sem sameigendur urðu sammála um að leggja til grundvallar sem hluta af heildaruppgjöri sín á milli, að hafa áhrif á viðskiptahagsmuni annarra eignaraðila að eignunum.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða
1.
Eins og gerð er grein fyrir í kaflanum um kæruefni hér að framan var mál þetta kært með bréfi kæranda, dagsettu 21. ágúst sl. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. upplýsingalaga byrjar kærufrestur að líða þegar þeim, sem farið hefur fram á aðgang að gögnum, er tilkynnt synjun stjórnvalds. Bréf utanríkisráðuneytisins til kæranda er dagsett 10. júní sl. Samkvæmt því var liðinn sá 30 daga kærufrestur, sem tiltekinn er í 1. mgr. 16. gr. upplýsingalaga, þegar mál þetta var borið skriflega undir úrskurðarnefnd.

Í 1. tölul. 28. gr. stjórnsýslulaga segir að vísa skuli kæru frá, sem borist hefur að liðnum kærufresti, nema afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr. Ekki verður séð að ráðuneytið hafi veitt kæranda leiðbeiningar um kærufrest skv. 1. mgr. 16. gr. upplýsingalaga sem henni var þó skylt að gera skv. 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Af þessum sökum telur úrskurðarnefnd ekki rétt að vísa kærunni frá þótt hún hafi borist of seint enda var ekki liðinn sá almenni kærufrestur sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga.

2.
Hinn 31. maí 1997, sama dag og sameignarfélaginu [D] sf. var slitið og nýtt samnefnt hlutafélag stofnað, var gert sérstakt samkomulag milli eigenda sameignarfélagsins, þ. e. utanríkisráðherra f.h. íslenska ríkisins, [A] hf. og [B] hf., um úttektir eigendanna úr félaginu yfir höfuðstól. Í samkomulagi þessu koma fram þær upplýsingar, sem kærandi hefur samkvæmt framansögðu óskað eftir, en ráðuneytið synjað að láta honum í té.

Tveir af eigendum [D] sf. voru hlutafélög og teljast þau, ásamt sameignarfélaginu sjálfu, einkaaðilar í skilningi 5. gr. upplýsingalaga. Í þeirri lagagrein segir orðrétt: "Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila." Í athugasemdum með frumvarpi til upplýsingalaga er niðurlag þessa ákvæðis skýrt svo að með því sé m.a. átt við "viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni" fyrirtækja og annarra lögaðila.

Með skírskotun til þess, sem að framan greinir, er það álit úrskurðarnefndar að það kynni að skaða mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni þeirra tveggja hlutafélaga, sem stóðu að umræddu samkomulagi, ef almenningur fengi aðgang að upplýsingum um það hvaða eignir þau fengu í sinn hlut við slit á sameignarfélaginu, hvert hafi verið umsamið verðmæti þeirra og hvert bókfært verð þeirra í reikningum félagsins. Í því sambandi skal sérstaklega bent á að það, sem fram kemur í fyrrgreindri umsögn [A] hf. til utanríkisráðuneytisins, að það kynni að skaða samningsstöðu félagsins við endursölu á eignunum á almennum markaði ef umbeðnar upplýsingar væru á almanna vitorði. Þótt ráðuneytið hafi ekki á því byggt, hvorki í svarbréfi sínu til kæranda né í umsögn sinni til úrskurðarnefndar, er það álit hennar að sömu sjónarmið eigi við um upplýsingar um þær eignir sem íslenska ríkið fékk í sinn hlut samkvæmt samkomulaginu, sbr. 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga.

Samkvæmt þessu ber að staðfesta þá ákvörðun ráðuneytisins að synja kæranda um aðgang að þessum upplýsingum.

Úrskurðarorð:
Staðfest er sú ákvörðun utanríkisráðuneytisins að synja kæranda, [...], um aðgang að samkomulagi eigenda um úttekt á eignum úr sameignarfélaginu [D] sf. og skiptingu þeirra sín á milli.

Eiríkur Tómasson, formaður
Ólafur E. Friðriksson
Sif Konráðsdóttir

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta