Hoppa yfir valmynd

62/1998 Úrskurður frá 12. nóvember 1998 í málinu nr. A-62/1998

Hinn 12. nóvember 1998 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-62/1998:


Kæruefni
Með bréfi, dagsettu 27. október sl., kærði [...] synjun utanríkisráðuneytisins, dagsetta 26. október sl., um að veita honum aðgang að bréfaskriftum ráðuneytisins til bandarískra yfirvalda vegna nýlegs útboðs á sjóflutningum fyrir varnarliðið á Keflavíkurflugvelli.

Með bréfi, dagsettu 28. október sl., var kæran kynnt utanríkisráðuneytinu og því veittur frestur til að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 5. nóvember sl. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd yrðu látin í té sem trúnaðarmál afrit af þeim gögnum, er kæran laut að, innan sama frests. Umsögn ráðuneytisins barst innan tilskilins frests og daginn eftir, 6. nóvember sl., bárust eftirtalin gögn:

1. Orðsending ráðuneytisins til utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna, dagsett 8. júlí 1998.
2. Erindi ráðuneytisins til utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna, dagsett 28. september 1998.


Málsatvik
Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess þau að í erindi til utanríkisráðuneytisins, dagsettu 23. október sl., fór kærandi fram á að fá afrit af bréfaskriftum frá ráðuneytinu/varnarmáladeild til Joint Traffic Management Office í Bandaríkjunum, er varða tiltölulega nýafstaðið útboð á svokölluðum varnarliðsflutningum, einkum þó og sér í lagi bréf frá ráðuneytinu varðandi fyrirtæki það sem samið var við um flutningana, [A] ehf.

Með bréfi utanríkisráðuneytisins, dagsettu 26. október sl., var beiðni kæranda synjað. Í svari ráðuneytisins kemur fram að það hafi engin bréfaskipti átt við Joint Traffic Management Office vegna útboða á sjóflutningum þar eð öll samskipti þess við bandarísk stjórnvöld vegna samnings um slíka flutninga fyrir varnarliðið séu við bandaríska utanríkisráðuneytið. Hins vegar tiltekur ráðuneytið að í tengslum við framangreint útboð hafi komið upp skoðanamunur milli stjórnvalda á Íslandi og í Bandaríkjunum við túlkun samningsins. Unnið sé að því að komast að niðurstöðu um þennan skoðanamun, en á þessu stigi leggi báðir aðilar áherslu á að gagnkvæmt trúnaðartraust ríki milli þeirra, enda sé það grundvöllur þess að þjóðirnar geti átt góð samskipti sín á milli. Verulegar líkur verði að telja á því að það gæti spillt fyrir viðræðum íslenskra og bandarískra stjórnvalda á þessum vettvangi ef ráðuneytið léti umbeðin gögn af hendi. Á þessum grundvelli og með vísun til 2. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. einnig 1. tölul. sömu greinar, var beiðni kæranda synjað.

Í umsögn utanríkisráðuneytisins til úrskurðarnefndar, dagsettri 4. nóvember sl., er áréttað að viðræður við bandarísk stjórnvöld um túlkun samnings frá 24. september 1986 um sjóflutninga fyrir varnarliðið standi enn yfir. Af þeim sökum sé enn hætta á að tjón hljótist af því að veita aðgang að þeim upplýsingum er kærandi leitar eftir. Með vísun til þess sé synjun ráðuneytisins byggð á 2. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Jafnframt er bent á að sjóflutningar fyrir varnarliðið séu þáttur í framkvæmd varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna, sbr. lög nr. 110/1951, og sé af þeim sökum ástæða til að takmarka aðgang að upplýsingum og skjölum, er hann varða, með vísun til 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða
Samkvæmt því, sem fram kemur hjá kæranda í kæru hans til úrskurðarnefndar verður að líta svo á, með vísun til 1. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga, að hann óski eftir aðgangi að þeim tveimur skjölum sem utanríkisráðuneytið hefur látið nefndinni í té og tilgreind eru í kaflanum um kæruefni hér að framan.

Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr." Samkvæmt. 1. tölul. 6. gr. laganna er heimilt "að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um "öryggi ríkisins eða varnarmál". Með sama skilorði er skv. 2. tölul. sömu greinar heimilt að takmarka aðgang að gögnum með upplýsingum um "samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir".

Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga, segir m.a. um 1. tölul. 6. gr. að með því ákvæði sé "eingöngu vísað til hinna veigamestu hagsmuna sem tengjast því hlutverki ríkisvaldsins að tryggja öryggi ríkisins inn á við og út á við". Þá segir ennfremur í athugasemdunum: "Það er skilyrði fyrir því að takmarka megi aðgang að gögnum, með vísan til þessa ákvæðis, að sýnt sé fram á hættu gagnvart íslenskum hagsmunum." Þótt sjóflutningar fyrir varnarliðið séu óneitanlega þáttur í framkvæmd varnarsamningsins milli Íslands og Bandaríkjanna, sbr. lög nr. 110/1951, er það álit úrskurðarnefndar, eftir að hafa kynnt sér efni þeirra skjala sem kærandi hefur óskað eftir aðgangi að, að ekki hafi verið sýnt fram á það af hálfu utanríkisráðuneytisins að íslenskum varnarhagsmunum yrði stefnt í voða þótt almenningur fengi aðgang að þeim. Af þeim sökum telur nefndin að synjun ráðuneytisins verði ekki byggð á 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga.

Af athugasemdum með frumvarpi til upplýsingalaga verður ráðið að eitt af markmiðum ákvæðisins í 2. tölul. 6. gr. upplýsingalaga hafi, eins og þar segir, "verið að tryggja góð samskipti og gagnkvæmt traust í skiptum við önnur ríki". Í athugasemdunum kemur einnig fram að með tilliti til skilyrðisins um mikilvæga almannahagsmuni í upphafsákvæði 6. gr. verði "beiðni um upplýsingar um samskipti við erlend ríki "ekki synjað, nema hætta sé á tjóni af þessum sökum. Í ljósi þess að hér er oft um mjög veigamikla hagsmuni að ræða kann varfærni þó að vera eðlileg við skýringu á ákvæðinu".

Í svari utanríkisráðuneytisins til kæranda við beiðni hans, sem vitnað er til í kaflanum um málsatvik hér að framan, kemur m.a. fram að í tengslum við útboð á sjóflutningum fyrir varnarliðið hafi komið upp ágreiningur milli stjórnvalda á Íslandi og í Bandaríkjunum við túlkun á samningi milli ríkjanna tveggja um þá flutninga. Á meðan unnið sé að því að leysa þennan ágreining leggi báðir aðilar áherslu á að gagnkvæmt trúnaðartraust ríki milli þeirra enda sé það grundvöllur þess að ríkin tvö geti átt góð samskipti sín á milli. Verulegar líkur verði að telja á því að það gæti spillt fyrir viðræðum íslenskra og bandarískra stjórnvalda um ágreiningsmál þetta ef ráðuneytið léti hin umbeðnu gögn af hendi.

Með skírskotun til þessa er það álit úrskurðarnefndar, að teknu tilliti til fyrrgreindra ummæla í athugasemdum með frumvarpi til upplýsingalaga, að utanríkisráðuneytinu hafi, á grundvelli 2. tölul. 6. gr. laganna, verið heimilt, að svo stöddu, að synja kæranda um aðgang að umræddum skjölum. Ber því að staðfesta synjun ráðuneytisins.

Úrskurðarorð:
Staðfest er sú ákvörðun utanríkisráðuneytisins að synja kæranda, [...], um aðgang að tveimur skjölum vegna nýlegs útboðs á sjóflutningum fyrir varnarliðið.

Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta