Hoppa yfir valmynd

64/1998 Úrskurður frá 30. nóvember 1998 í málinu nr. A-64/1998

Hinn 30. nóvember 1998 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-64/1998:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 29. október sl., kærði [...], synjun ríkistollstjóra, dagsetta sama dag, um að veita honum aðgang að gögnum um innflutning og tollmeðferð háhyrningsins Keikós.
Með bréfi, dagsettu 2. nóvember sl., var kæran kynnt ríkistollstjóra og honum veittur frestur til að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 10. nóvember sl. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd yrðu látin í té sem trúnaðarmál afrit þeirra gagna, er kæran laut að, innan sama frests. Umsögn ríkistollstjóra, dagsett 9. nóvember sl., barst 10. nóvember sl. ásamt ljósritum af bréfi yfirdýralæknis til tollgæslunnar í Vestmannaeyjum, dagsettu 31. ágúst sl., og bréfi fjármálaráðuneytisins til Lögmannsstofu [A] hrl. ehf., dagsettu 8. september sl.

Í umsögn ríkistollstjóra kom fram að úrskurðarnefnd hefðu ekki verið látin í té afrit af eiginlegum tollskjölum málsins. Með bréfi nefndarinnar, dagsettu 11. nóvember sl., var frestur ríkistollstjóra til að afhenda öll gögn málsins framlengdur af þessu tilefni til hádegis hinn 16. nóvember sl. Bréfi ríkistollstjóra til nefndarinnar, dagsettu þann dag, fylgdi ljósrit af aðflutningsskýrslu þeirri, sem lögð hafði verið fram við tollafgreiðslu háhyrningsins, svo og af umsögn umboðsmanns innflytjanda hans, dagsettri 15. nóvember sl.

Síðar hefur úrskurðarnefnd borist ljósrit af beiðni ríkistollstjóra til fjármálaráðuneytisins, dagsettri 23. nóvember sl., um álit þess á því hvort veita beri aðgang að fyrrgreindu bréfi yfirdýralæknis og bréfi ráðuneytisins til lögmannsstofunnar. Ennfremur hefur borist ljósrit af svarbréfi ráðuneytisins til ríkistollstjóra, dagsettu 24. nóvember sl., þar sem fram kemur að það telji að beiðni um aðgang að bréfi þess til lögmannsstofunnar beri að framsenda því á grundvelli 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 3. mgr. 10. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Hinn 25. nóvember sl. bárust ljósrit af bréfum ríkistollstjóra til ráðuneytisins annars vegar og embættis yfirdýralæknis hins vegar, dagsettum sama dag, þar sem beiðni kæranda um aðgang að umræddum tveimur skjölum var framsend þessum stofnunum.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að með bréfi til ríkistollstjóra, dagsettu 23. október sl., fór kærandi fram á að fá aðgang að skjölum og gögnum í vörslum ríkistollstjóra um innflutning og tollmeðferð háhyrningsins Keikós. Með bréfi ríkistollstjóra, dagsettu 29. október sl., var beiðni þessari synjað með vísun til 5. gr. upplýsingalaga með þeim rökum að gögn málsins varði mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni lögaðila sem óheimilt sé að veita aðgang að án samþykkis hlutaðeigandi. Í svarbréfinu kemur jafnframt fram að 5. gr. upplýsingalaga sé í þessu tilliti skýrð með hliðsjón af 141. gr. tollalaga nr. 55/1987 sem veitir upplýsingum um verslunarhagi einstakra manna og fyrirtækja víðtæka vernd.

Í umsögn ríkistollstjóra til úrskurðarnefndar, dagsettri 9. nóvember sl., er áréttað að niðurstaða hans byggist á 5. gr. upplýsingalaga og 141. gr. tollalaga. Samkvæmt þessum ákvæðum sé almennt óheimilt að veita aðgang að tollskjölum, sem varða tollmeðferð tiltekinnar sendingar, nema fyrir liggi samþykki hlutaðeigandi innflytjanda. Í fyrrgreindu bréfi fjármálaráðuneytisins til [A] hrl., sem fylgdi umsögninni, kemur m.a. fram að ráðuneytið hafi ákveðið, í kjölfar erindis frá lögmannsstofunni, f.h. The Free Willy Foundation, að heimila innflutning á háhyrningnum Keikó án greiðslu aðflutningsgjalda, þ.m.t. virðisaukaskatts, gegn því að innflytjandi leggi fram skuldaviðurkenningu. Í bréfinu segir síðan orðrétt: "Heimildin er bundin því skilyrði að innflytjandi takist á hendur ábyrgð á greiðslu á aðflutningsgjöldum og virðisaukaskatti á meðan málið er til skoðunar í ráðuneytinu." Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu var sú afgreiðsla byggð á stjórnsýsluvenju.

Bréfi ríkistollstjóra til nefndarinnar, dagsettu 16. nóvember sl., fylgdi sem fyrr segir umsögn umboðsmanns Frelsum Willy Keiko stofnunarinnar, dagsett 15. nóvember sl., um beiðni kæranda. Í umsögn þessari er því mótmælt að veittur verði aðgangur að gögnum vegna innflutnings háhyrningsins á þeim grundvelli að gögnin varði í öllum tilvikum fjárhagsleg atriði, tengd rekstri stofnunarinnar. Málið lúti m.ö.o. að álagningu skatta á stofnunina og vísi til fjárhagslegra stærða, tengdum rekstri hennar.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

Í 3. mgr. 10. gr. upplýsingalaga er að finna svofellt ákvæði: "Þegar farið er fram á aðgang að gögnum um mál þar sem taka á eða tekin hefur verið ákvörðun um rétt eða skyldu manna skal beiðni beint til þess stjórnvalds sem tekið hefur eða taka mun ákvörðun í málinu. Annars skal beiðni beint til þess stjórnvalds sem hefur gögnin í sínum vörslum." Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga, er þetta ákvæði m.a. skýrt svo: "Þó að skjal megi "finna í vörslum fleiri en eins stjórnvalds er einungis það stjórnvald, sem taka mun eða tekið hefur ákvörðun í málinu, bært til þess að taka ákvörðun um aðgang að gögnum þess."

Í máli þessu liggur fyrir að samkvæmt beiðni innflytjanda ákvað fjármálaráðuneytið með bréfi sínu, dagsettu 8. september sl., að heimila innflutning á háhyrningnum Keikó án þess að greidd væru aðflutningsgjöld gegn því að innflytjandinn legði fram skuldaviðurkenningu og tækist á hendur ábyrgð á aðflutningsgjöldum á meðan málið væri til skoðunar í ráðuneytinu. Með vísun til þessara ummæla, svo og til þess að skv. 30. gr. tollalaga er fjármálaráðherra æðsti yfirmaður tollamála hér á landi, verður að líta svo á að stjórnsýslumál það, sem beiðni kæranda lýtur að, sé nú til meðferðar í ráðuneytinu. Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. upplýsingalaga átti kærandi því að beina beiðni um aðgang að gögnum í málinu til ráðuneytisins, en ekki til ríkistollstjóra. Bar þeim síðastnefnda að framsenda beiðnina, sem er skrifleg, til ráðuneytisins svo fljótt sem unnt var skv. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga. Um einn mánuður leið frá því að beiðnin barst ríkistollstjóra og þar til hún var framsend ráðuneytinu. Verður að átelja þann drátt sem á því varð.

Aðflutningsskýrslan, sem upphaflega virðist hafa verið afhent tollstjóranum í Vestmannaeyjum í samræmi við fyrirmæli í 9. mgr. 14. gr. tollalaga og nú er í vörslum ríkistollstjóra, telst ótvírætt vera meðal málsskjala í stjórnsýslumáli því sem til meðferðar er í fjármálaráðuneytinu samkvæmt framansögðu. Sömu sögu er að segja um umsögn yfirdýralæknis til tollgæslunnar í Vestmannaeyjum. Ekkert tilefni er til þess að skilja þessi tvö skjöl frá öðrum gögnum málsins og ber ráðuneytinu þar af leiðandi að taka afstöðu til þess, í samræmi við 1. mgr. 11. gr., sbr. 3. mgr. 10. gr. upplýsingalaga, hvort það verði við beiðni kæranda um aðgang að þessum skjölum eins og öðrum málsgögnum.

Með skírskotun til þess, sem að framan segir, hefur beiðni kæranda ekki verið synjað af þar til bæru stjórnvaldi. Skv. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga ber því að vísa kæru hans frá úrskurðarnefnd.

Úrskurðarorð:

Kæru [...] á hendur ríkistollstjóra er vísað frá úrskurðarnefnd.

Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta