Hoppa yfir valmynd

66/1998 Úrskurður frá 30. nóvember 1998 í málinu nr. A-66/1998

Hinn 30. nóvember 1998 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-66/1998:

Kæruefni

1.
Með bréfi, dagsettu 7. september sl., kærði [...], meðferð Vestmannaeyjabæjar á þremur beiðnum hans, dagsettum 17. ágúst 1998, um aðgang að upplýsingum, svo sem nánar verður gerð grein fyrir í kaflanum um málsatvik hér á eftir.

Með bréfi, dagsettu 25. september sl., var kæran kynnt Vestamannaeyjabæ og því beint til bæjarins að taka ákvörðun um afgreiðslu beiðnanna eins fljótt og við yrði komið og eigi síðar en 2. október sl. Var þess óskað að ákvarðanirnar yrðu birtar kæranda og nefndinni eigi síðar en á hádegi þann dag. Í því tilviki að synjað yrði um aðgang að þeim gögnum, er kæran laut að, var þess jafnframt óskað að nefndinni yrðu látin afrit þeirra í té sem trúnaðarmál. Auk þess var bænum gefinn kostur á að gera athugasemdir við fram komna kæru og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðunum sínum innan sama frests.

Í símbréfi bæjarritara Vestmannaeyja, dagsettu 2. október sl., var úrskurðarnefnd tilkynnt að bæjartæknifræðingur hefði svarað fyrirspurnum kæranda eftir miðjan september. Af hálfu nefndarinnar var með símtali við bæjarritara 7. október sl. leitað eftir upplýsingum um hvernig beiðnir kæranda hefðu verið afgreiddar efnislega. Var þeirri fyrirspurn fylgt eftir með bréfi, dagsettu 9. október sl., þar sem skorað var á bæinn að veita nefndinni umbeðnar upplýsingar eigi síðar en 14. október sl. Með símbréfi bæjarritara, dagsettu 15. október sl., voru nefndinni látin í té svarbréf bæjarins við tveimur af þremur fyrirspurnum kæranda, dagsett 14. og 18. september sl. Í símtali við bæjarritara 30. nóvember sl. var jafnframt upplýst, að því er þriðju fyrirspurn kæranda varðar, að umbeðið skjal lægi ekki fyrir hjá bænum.

2.
Með bréfi félagsmálaráðuneytisins til úrskurðarnefndar, dagsettu 29. september sl., var nefndinni framsent erindi sama kæranda til félagsmálaráðherra, dagsett 11. september sl., með vísun til 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 og 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í erindi þessu til félagsmálaráðherra kvartaði kærandi yfir úrlausn Vestmannaeyjabæjar á fimm beiðnum hans um aðgang að upplýsingum, dagsettum 20. ágúst sl., 2. september sl., 7. september sl. og 8. september sl. Á beiðnir þessar, sem gerð verður grein fyrir í kaflanum um málsatvik, hafði verið ritað af hálfu bæjarins að þeim hefði verið hafnað. Í ljósi þess ákvað úrskurðarnefnd að fara með erindi þetta sem kæru til nefndarinnar, sbr. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga.

Erindi kæranda var kynnt Vestmannaeyjabæ með bréfi, dagsettu 9. október sl., og bænum gefinn kostur á að gera athugasemdir við það og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðunum sínum til 16. október sl. Í þeim tilvikum, þar sem synjað væri um aðgang að fyrirliggjandi gögnum, var þess jafnframt óskað að nefndinni yrðu látin afrit þeirra í té sem trúnaðarmál. Umsögn bæjarritara, dagsett 15. október sl., barst úrskurðarnefnd innan tilskilins frests. Henni fylgdi ljósrit af bréfi bæjarstjóra til The Free Willy-Keiko Foundation, dagsett 10. ágúst sl.

3.
Sami kærandi kærði síðan meðferð Vestmannaeyjabæjar á þremur beiðnum hans um aðgang að upplýsingum, dagsettum 28. ágúst sl. og 15. september sl., með bréfi, dagsettu 13. október sl. Gerð verður grein fyrir efni beiðnanna í kaflanum um málsatvik hér á eftir.

Með símbréfi bæjarritara, dagsettu 6. nóvember sl., var úrskurðarnefnd sent ljósrit af svari Vestmannaeyjabæjar við beiðni kæranda frá 28. ágúst sl. Með símbréfi, dagsettu 11. s.m., voru jafnframt send ljósrit af svörum bæjarskrifstofanna við beiðnum kæranda frá 15. september sl.

4.
Úrskurðarnefnd hefur ákveðið að fjalla um ofangreindar kærur í einu kærumáli enda er kærandi og hið kærða stjórnvald þau sömu í öllum tilvikum.

Í fjarveru Valtýs Sigurðssonar tók Sif Konráðsdóttir varamaður sæti hans við meðferð og úrskurð í máli þessu.


Málsatvik

1.
Með beiðnum til Vestmannaeyjabæjar, dagsettum 17. ágúst sl., fór kærandi fram á að fá aðgang að eftirgreindum upplýsingum: Í fyrsta lagi nöfnum og heimilisföngum umsækjenda um starf garðyrkjustjóra hjá Vestmannaeyjabæ, í öðru lagi tilboðum samkvæmt útboði í málun utanhúss og viðgerðir á Eyjahrauni 1-6 og 7-12 og Kleifarhrauni 1-3, og loks í þriðja lagi niðurstöðum könnunar á hvaða varningur væri framleiddur á svonefndum vernduðum vinnustöðum samkvæmt samþykkt bæjarstjórnar frá 4. desember 1997.

Með bréfi bæjartæknifræðings Vestmannaeyjabæjar, dagsettu 18. september sl., var kæranda tilkynnt um nafn og heimilisfang umsækjanda um starf garðyrkjustjóra bæjarins. Þá var kæranda tilkynnt með bréfi byggingarfulltrúa, dagsettu 14. september sl., að engin tilboð hefðu borist í málun utanhúss á íbúðum aldraðra að Eyjahrauni og Kleifarhrauni. Ennfremur hefur bæjarritari upplýst munnlega að niðurstöður könnunar samkvæmt samþykkt bæjarstjórnar frá 4. desember 1997 liggi ekki fyrir.

2.
Með beiðni til Vestmannaeyjabæjar, dagsettri 20. ágúst sl., fór kærandi fram á að fá upplýsingar um hver væri tilsjónarmaður bæjarveitna með samningi um rekstur sorpeyðingarstöðvar bæjarins. Samkvæmt áritun á beiðnina liggja ekki fyrir gögn um málið hjá bænum. Í umsögn til úrskurðarnefndar, dagsettri 15. október sl., er þetta áréttað og jafnframt bent á að fyrirspurnin sé óljóst afmörkuð.

Í beiðni til Vestmannaeyjabæjar, dagsettri 2. september sl., hefur kærandi óskað eftir reikningum frá innanhússarkitekt vegna listaskóla bæjarins. Af hans hálfu var því hafnað að veita aðgang að bókhaldsgögnum bæjarins með áritun á beiðnina. Í umsögn bæjarritara til úrskurðarnefndar, dagsettri 15. október sl., er synjunin áréttuð og jafnframt bent á að ekki sé tiltekið í fyrirspurninni "hvaða reikninga frá hverjum er verið að biðja um".
Samkvæmt beiðni til Vestmannaeyjabæjar, dagsettri 7. september sl., óskaði kærandi eftir samþykkt bæjarstjórnar um að bæjarritari mætti ekki afhenda bókhaldsgögn. Á beiðnina hefur verið ritað að ekki liggi fyrir gögn um málið hjá bænum. Í umsögn bæjarritara til úrskurðarnefndar, dagsettri 15. október sl., er tekið fram að bæjarstjórn hefði ekki fjallað um þetta atriði.

Í beiðni til Vestmannaeyjabæjar, dagsettri 7. september sl., hefur kærandi óskað eftir upplýsingum um hvort "kví sú í Klettsvík, sem hýsa mun hvalinn Keikó gefi bæjarsjóði aðstöðugjöld". Samkvæmt áritun á beiðnina liggja ekki fyrir gögn um þetta mál hjá bænum. Í umsögn bæjarritara til úrskurðarnefndar, dagsettri 15. október sl., kemur fram að honum hafi ekki verið kunnugt um að í vörslum bæjarins sé skjal er veiti m.a. svar við þessari fyrirspurn, þ.e. bréf bæjarstjóra til The Free Willy-Keiko Foundation, dagsett 10. ágúst sl. Bréf þetta hafi hins vegar legið fyrir á fundi bæjarráðs 12. október sl.

Loks óskaði kærandi eftir aðgangi að bókhaldi bæjarsjóðs að því er varðar viðhald á húsnæði bæjarins með beiðni til Vestmannaeyjabæjar, dagsettri 8. september sl. Á beiðnina hefur verið ritað að ekki sé hægt að verða við erindinu. Í umsögn bæjarritara til úrskurðarnefndar, dagsettri 15. október sl., segir að beiðni kæranda sé óljós og jafnframt er dregið í efa að lög heimili aðgang að bókhaldi bæjarins.

3.
Með beiðnum til Vestmannaeyjabæjar, dagsettum 28. ágúst sl. og 15. september sl., fór kærandi fram á að fá aðgang að upplýsingum um nöfn og heimilisföng umsækjenda um í fyrsta lagi hlutastarf á skóladagheimilinu við Brekastíg, í öðru lagi starf í sundlaug bæjarins við baðvörslu karla og loks í þriðja lagi starf í íþróttahúsi bæjarins við eftirlit með búningsklefum, hreingerningar o.fl.

Samkvæmt áritunum á framangreindar beiðnir hafa kæranda verið látin í té nöfn og heimilisföng umsækjenda um framangreind störf. Samkvæmt símbréfi bæjarritara Vestmannaeyjabæjar til úrskurðarnefndar, dagsettu 11. nóvember sl., voru kæranda látnar þær upplýsingar í té um miðjan októbermánuð.

4.
Bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum hefur upplýst að kærandi hafi sent bænum yfir tvö hundruð beiðnir um aðgang að margvíslegum gögnum og upplýsingum það sem af er þessu ári. Þar eð starfsmenn bæjarins séu fáir hafi ekki tekist að svara öllum þessum beiðnum innan þess frests sem tiltekinn er í upplýsingalögum.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunum annars vegar og hinum kærðu ákvörðunum hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

1.
Í upphafi 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga segir svo: "Heimilt er að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögum þessum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn." Fram kemur í kaflanum um málsatvik hér að framan að Vestmannaeyjabær hefur veitt kæranda þær upplýsingar, sem hann hefur óskað eftir með beiðnum sínum, dagsettum 17. ágúst sl., 28. ágúst sl. og 15. september sl. Af þeim sökum verður kærum hans á hendur bænum, dagsettum 7. september sl. og 13. október sl., vísað frá nefndinni, sbr. þætti 1 og 3 að framan.

2.
Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr." Skýra verður þetta ákvæði svo að stjórnvöldum sé ekki skylt, á grundvelli upplýsingalaga, að taka sérstaklega saman upplýsingar, sem óskað er eftir, heldur beri þeim einungis að veita aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál.

Af hálfu Vestmannaeyjabæjar hefur því verið lýst yfir að ekki liggi fyrir gögn um það hjá bænum hver sé tilsjónarmaður bæjarveitna með samningi um rekstur sorpeyðingarstöðvar bæjarins. Engin samþykkt hafi heldur verið gerð um það í bæjarstjórn að bæjarritari megi ekki afhenda bókhaldsgögn. Ber því að staðfesta þær ákvarðanir bæjarins að synja beiðnum kæranda þessa efnis, dagsettum 20. ágúst sl. og 7. september sl.

3.
Sá, sem fer fram á aðgang að gögnum, verður að miða beiðni sína við tiltekin gögn, með því að tilgreina þau gögn eða það mál, sem hann óskar að kynna sér, sbr. 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga. Í beiðni kæranda, dagsettri 2. september sl., óskar hann eftir aðgangi að reikningum frá innanhússarkitekt vegna listaskóla Vestmannaeyjabæjar án þess að tilgreina nánar hver sá arkitekt sé. Í ljósi þess, sem fram kemur í umsögn bæjarritara til úrskurðarnefndar, dagsettri 15. október sl., verður að telja beiðnina svo óljóst orðaða að hún fullnægi ekki þeim kröfum sem að framan eru greindar. Af þeirri ástæðu var bænum því heimilt að synja henni.

4.
Í 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga er tekið fram að lögin gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt lögum nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Það er álit úrskurðarnefndar að síðastnefnd lög taki til aðgangs að þeim gögnum, sem kærandi hefur óskað eftir í beiðni sinni til Vestmannaeyjabæjar, dagsettri 8. september sl., þ.e. bókhaldsgögnum að því er varðar viðhald á húsnæði bæjarins. Þar af leiðandi gilda upplýsingalög ekki um aðgang að umræddum gögnum og verður synjun um aðgang að þeim ekki kærð til úrskurðarnefndar, sbr. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Ber því að vísa þessu kæruatriði frá nefndinni.

5.
Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga segir að stjórnvöldum sé skylt, ef þess er óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr. laganna. Í 5. gr. þeirra segir orðrétt: "Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila." Ákvæði þetta felur í sér undantekningu frá fyrrgreindri meginreglu upplýsingalaga og ber því að skýra það þröngt.

Að baki meginreglu upplýsingalaga í 1. mgr. 3. gr. þeirra býr það sjónarmið að almenningur skuli eiga þess kost að fylgjast með því, sem stjórnvöld hafast að, þ. á m. hvernig þau nýti eignir sínar og tekjustofna. Þótt beiðni kæranda til Vestmannaeyjabæjar, dagsett 7. september sl., þar sem hann óskar eftir upplýsingum um hvort "kví sú í Klettsvík, sem hýsa mun hvalinn Keikó gefi bæjarsjóði aðstöðugjöld", sé vissulega óljóst orðuð lítur úrskurðarnefnd svo á að verið sé að leita eftir upplýsingum um hvort bæjaryfirvöld hyggist innheimta einhver gjöld af umræddri kví. Af hálfu bæjarins er upplýst að upplýsingar um það efni komi fram í bréfi bæjarstjóra til The Free Willy-Keiko Foundation, dagsettu 10. ágúst sl., nánar tiltekið í 10. tölulið þess á bls. 2.

Með skírskotun til þess, sem að framan segir, er Vestmannaeyjabæ skylt að veita kæranda aðgang að þessum hluta bréfsins enda verður ekki séð að neitt af þeim undantekningarákvæðum, sem er að finna í 4.-6. gr. upplýsingalaga, standi í vegi fyrir því.

6.
Í 1. mgr. 11. gr. upplýsingalaga er mælt svo fyrir að stjórnvald skuli taka ákvörðun um hvort það verður við beiðni um aðgang að gögnum svo fljótt sem verða má. Ennfremur segir þar: "Hafi beiðni ekki verið afgreidd innan sjö daga frá móttöku hennar skal skýra aðila frá ástæðum tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta."
Af atvikum þessa máls er ljóst að Vestmannaeyjabær fór ekki eftir fyrirmælum þessum við afgreiðslu á beiðnum kæranda. Með skírskotun til þess, hve margar beiðnir hann hefur sent bænum að undanförnu og hve starfsmenn bæjarins eru fáir, er ekki gerð athugasemd við það þótt dregist hafi að svara beiðnunum umfram þau mörk sem kveðið er á um í lögum.

Úrskurðarorð:
Kærum [...] á hendur Vestmannaeyjabæ vegna synjunar á beiðnum hans, dagsettum 17. ágúst sl., 28. ágúst sl., 8. september sl. og 15. september sl., er vísað frá úrskurðarnefnd.

Vestmannaeyjabæ ber að veita kæranda aðgang að hluta af bréfi bæjarstjóra til The Free Willy-Keiko Foundation, dagsettu 10. ágúst sl., eins og fram kemur hér að framan. Að öðru leyti eru staðfestar þær ákvarðanir bæjarins að synja honum um umbeðin gögn samkvæmt beiðnum hans, dagsettum 20. ágúst sl., 2. september sl. og 7. september sl.

Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Sif Konráðsdóttir

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta