72/1999 Úrskurður frá 23. mars 1999 í málinu nr. A-72/1999
Hinn 23. mars 1999 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-72/1999:
Með bréfi, dagsettu 15. febrúar sl., kærði [A], til heimilis að [...], meðferð Þróunarfélags Vestmannaeyja á fjórum umsóknum hans um aðgang að upplýsingum.
Með bréfi, dagsettu 19. febrúar sl., var kæran kynnt Þróunarfélagi Vestmannaeyja og beint til félagsins að taka ákvörðun um afgreiðslu umsókna kæranda eins fljótt og við yrði komið og eigi síðar en 2. mars sl. Jafnframt var þess óskað að ákvörðun félagsins yrði birt kæranda og nefndinni eigi síðar en á hádegi þann dag. Ef félagið kysi að synja kæranda um aðgang að þeim upplýsingum, er umsóknir hans lutu að, var þess ennfremur óskað að nefndinni yrðu látin í té sem trúnaðarmál ljósrit eða afrit af þeim skjölum eða gögnum, sem málin varða, ef til væru. Í því tilviki var félaginu auk þess gefinn kostur á að koma að athugasemdum við kæruna og frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni innan sama frests. Með bréfi til úrskurðarnefndar, dagsettu 2. mars sl., gerði framkvæmdastjóri þróunarfélagsins grein fyrir afgreiðslu beiðna kæranda. Bréfið bar með sér að afrit af því hefði verið sent kæranda.
Með bréfi, dags. 8. mars sl., ítrekaði kærandi fyrra erindi sitt til nefndarinnar og kærði jafnframt meðferð á umsókn um aðgang að ársreikningi og samstæðureikningi Þróunarfélags Vestmannaeyja fyrir árið 1998.
Með bréfi úrskurðarnefndar til Þróunarfélags Vestmannaeyja, dagsettu 10. mars sl., var þess óskað að félagið léti nefndinni í té upplýsingar um á hvaða grundvelli félagið starfaði, þ. á m. hvernig til þess hefði verið stofnað, hverjir væru aðilar eða gætu verið aðilar að því, hvernig stjórn þess væri háttað og hvernig hún kæmi að störfum sínum, hvort félagið starfaði eftir einhverjum samþykktum og þá hverjum. Með símbréfi framkvæmdastjóra þróunarfélagsins, dags. 13. mars sl., barst úrskurðarnefnd afrit af félags- og samstarfssamningi um sameignarfélagið Þróunarfélag Vestmannaeyja.
Með bréfi, dagsettu 15. mars sl., barst úrskurðarnefnd einnig frá kæranda sami samningur.
Í fjarveru Eiríks Tómassonar tók Steinunn Guðbjartsdóttir varamaður sæti í nefndinni við afgreiðslu málsins.
Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess þau að bæjarskrifstofur Vestmannaeyjabæjar afgreiddu eftirtaldar umsóknir kæranda um aðgang að upplýsingum með því að vísa kæranda til Þróunarfélags Vestmannaeyja:
2. Nöfn og heimilisföng umsækjenda samkvæmt um starf á skrifstofu Þróunarfélags Vestmannaeyja, dagsett 20. janúar 1999.
3. Starfslýsingu [B] framkvæmdastjóra Þróunarfélags Vestmannaeyja, dagsett 25. nóvember 1999.
4. Hvernig Þróunarfélag Vestmannaeyja, [C] ehf. og [D] sjóðurinn skipta með sér símakostnaði [B] framkvæmdastjóra, dagsett 25. nóvember 1999.
Í bréfi framkvæmdastjóra Þróunarfélags Vestmannaeyja til úrskurðarnefndar, dagsettu 2. mars 1999, kom fram að kæranda hefði þegar verið látin í té starfslýsing framkvæmdastjóra Þróunarfélagsins og svarað erindi um um skiptingu símakostnaðar framkvæmdastjórans, umsóknir auðkenndar nr. 3 og 4 hér að framan. Um ráðstöfun fjárveitingar bæjarsjóðs Vestmannaeyja samkvæmt framangreindri umsókn auðkenndri nr. 1 var vísað til ársreiknings [C] ehf., er senn yrði sendur bæjarstjórn Vestmannaeyja. Loks var synjað um upplýsingar um nöfn umsækjenda um starf hjá þróunarfélaginu, sbr. umsókn auðkennd nr. 2 hér að framan, þar eð umsækjendum hefði verið heitið trúnaði um umsóknir þeirra.
Í félags- og samstarfssamningi um Þróunarfélag Vestmannaeyja, dagsettum 9. maí 1996, kemur í 1. gr. fram að félagið sé sameignarfélag. Í 2. gr. kemur fram hverjir eru aðilar að félaginu og að þeir ábyrgist skuldir þess einn fyrir alla og allir fyrir einn - in solidum. Samkvæmt 3. gr. er tilgangur félagsins að stuðla að og efla jákvæða þróun atvinnustarfsemi í Vestmannaeyjum með því m.a. að afla upplýsinga og miðla til einstaklinga og atvinnufyrirtækja, veita rekstrartæknilega ráðgjöf, stuðla að nýjungum og standa fyrir námskeiðum. Ekki er ástæða til að gera nánar grein fyrir efni samningsins.
Kærandi hefur fært frekari rök fyrir kæru sinni. Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Í 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Lög þessi taka til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga." Í athugasemdum, er fylgdu frumvarpi því, er varð að upplýsingalögum, er ákvæði þetta m.a. skýrt svo að lögin gildi almennt "ekki um einkaaðila, en undir hugtakið "einkaaðilar" falla m.a. félög einkaréttarlegs eðlis, eins og hlutafélög eða sameignarfélög, þótt þau séu í opinberri eigu". Frá meginreglu 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga er þó gerð sú undantekning í 2. mgr. sömu greinar að gildissvið laganna nái einnig til einkaaðila "að því leyti sem þeim hefur verið falið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna".
Samkvæmt félags- og samstarfssamningi um Þróunarfélag Vestmannaeyja er félagið sameignarfélag bæjarsjóðs Vestamannaeyja, hafnarsjóðs Vestmannaeyja, bæjarveitna Vestmannaeyja og Rannsóknarseturs Háskóla Íslands í Vestmannaeyjum og bera þeir óskipta, ótakmarkaða og beina ábyrgð á skuldum félagsins. Samkvæmt samningnum er tilgangur félagsins "að stuðla að og efla jákvæða þróun atvinnustarfsemi í Vestmannaeyjum".
Samkvæmt framansögðu er það álit nefndarinnar að upplýsingalög taki hvorki til Þróunarfélags Vestmannaeyja sem einkaaðila né heldur til þeirrar starfsemi, sem félagið hefur með höndum og lýst er hér að framan. Ber þegar af þeirri ástæðu að vísa fram kominni kæru á hendur félaginu frá úrskurðarnefnd.
Úrskurðarorð:
Kæru [A] á hendur Þróunarfélagi Vestmannaeyja sf. er vísað frá úrskurðarnefnd.
Valtýr Sigurðsson, formaður
Elín Hirst
Steinunn Guðbjartsdóttir